Öruggari og öflugri strandveiðar í sumar

Þverpóli­tísk sam­staða hefur náðst á Alþingi um breyt­ingar á fyr­ir­komu­lagi strand­veiða þar sem öryggi sjó­manna var haft að leið­ar­ljósi. Í sumar verða strand­veiðar efldar með auknum afla­heim­ildum og bátar á hverju svæði fá 12 fasta daga til veiða í hverjum mán­uði.

Sveigj­an­legra kerfi, aukið öryggi og betri afli

Með breyt­ing­unum er sveigj­an­leiki kerf­is­ins auk­inn og sjó­menn geta valið þá daga í hverri viku sem bestir eru til róðra. Þannig eykst mögu­leik­inn á að ná góðu hrá­efni og sem mestum afla í hverri veiði­ferð. Áfram verður svæða­skipt­ing og sjó­menn skrá sig inn á þau svæði sem þeir hafa heim­il­is­festu á og róa þar út tíma­bilið og sami hámarks­afli er í hverjum róðri og áður var. Sú breyt­ing er þó gerð að ufsi er utan hámarks­afla og eru því veiði­heim­ildir vegna strand­veiða í sumar verð­mæt­ari sem því nem­ur. Einnig er ákvæði um heim­il­is­festu sem lág­markar flutn­ing báta á milli svæða en styður við að þeir bátar sem hafa verið að koma til margra brot­hættra sjáv­ar­byggða á sumrin geti áfram stundað veiðar það­an.

Afla­heim­ildir til strand­veiða verðar auknar um 25% frá því sem var lagt upp með í fyrra­sumar og einn sam­eig­in­legur pottur er fyrir öll svæð­in. Allir útreikn­ingar sýna að þessi aukn­ing á að duga til að mæta 12 dögum á bát á hverju svæði allt strand­veiði­tíma­bil­ið. Ráð­herra hefur bæði heim­ild til að stöðva veiðar en hefur líka reglu­gerð­ar­heim­ild til að bæta ónýttum heim­ildum innan 5,3 % kerf­is­ins í pott­inn ef til þess kæmi í lok tíma­bils.

Breyt­ingin sem hér er lögð til hefur það mark­mið að auka öryggi sjó­manna, tryggja jafn­ræði á milli svæða með auknum afla­heim­ildum og efla strand­veiði­kerfið í heild til fram­tíð­ar.

Strand­veiðar eru mik­il­vægar

Afli frá strand­veiði­bátum hefur verið afar mik­il­vægur fyrir fisk­mark­aði og verið hryggjar­stykkið í vinnslu margra fisk­vinnslu­fyr­ir­tækja yfir sum­ar­tím­ann enda yfir­leitt gæða­hrá­efni.

Mögu­leik­inn á að velja veiði­daga getur leitt til betra hrá­efnis sem dreif­ist til vinnslu jafnar yfir mán­uð­inn og ýtir undir eðli­lega verð­myndun á afla og styrkir þannig sjáv­ar­byggðir og mögu­lega nýliðun í grein­inni. Það hefur verið áhyggju­efni hve margir hafa hætt að stunda strand­veiðar und­an­farin ár og milli áranna 2016 og 2017 fækk­aði um 70 báta.

Strand­veiðum var komið á árið 2009 undir for­ystu Vinstri grænna og hafa svo sann­ar­lega sannað til­veru­rétt sinn á þessum tíma þótt sumir hefðu allt á hornum sér gegn þeim í upp­hafi. Strand­veiðar hafa falið í sér mögu­leika á því að geta stundað veiðar í atvinnu­skyni án þess að greiða kvóta­höfum gjald fyrir veiði­heim­ild­ir. Strand­veið­arnar hafa þannig verið skref í átt til rétt­lát­ara fisk­veiði­stjórn­ar­kerfis þó meira þurfi til að lag­færa hið mein­gall­aða kvóta­kerfi með óheftu fram­sali sem farið hefur illa með margar sjáv­ar­byggð­ir.

Stefnu­mörkun til fram­tíðar

Þessi til­raun með breytt fyr­ir­komu­lag og auknar afla­heim­ildir i sumar verður grunnur að vinnu við skipu­lag á fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lagi strand­veið­anna. Skýrsla verður tekin saman um útkom­una eftir sum­arið þar sem lagt verður m.a. mat á áhrif fastra daga á hvert svæði fyrir sig, hvort líta þurfi til mis­mun­andi fisk­gengdar eftir land­svæðum hvað varðar byrjun og lok tíma­bila og hvað magn þurfi til að tryggja 12 fasta daga.

Eftir sem áður ráða veð­ur, afla­brögð og fiskni sjó­manns­ins hvernig hverjum og einum gengur þessa 48 daga sem bjóð­ast til strand­veiða á kom­andi sumri. Það verður aldrei hægt að tryggja öllum fullan skammt í 48 daga frekar en í núver­andi kerfi en sveigj­an­leik­inn verður til staðar til að mæta t.d. bil­un­um, veik­indum og vondum veðrum og meira jafn­ræði verður á milli minni og stærri báta í kerf­inu.

Við tökum svo stöð­una í haust með öllum hags­muna­að­ilum og vinnum með útkom­una í þágu strand­veiði­sjó­manna og sjáv­ar­byggð­anna.

Ég, ásamt Ásmundi Frið­riks­syni og þáver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra, Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur, reyndum að vinna sam­bæri­legt mál í fyrra sem náð­ist ekki sam­staða um. Ég, ásamt félögum mínum í Vinstri græn­um, lögðum fram sam­bæri­legt mál í fyrra á Alþingi sem ekki náði fram að ganga og er það því mikið ánægju­efni að svo breið póli­tísk sam­staða náð­ist um málið núna að frum­kvæði atvinnu­vega­nefndar að tek­ist hefur að ljúka því far­sæl­lega. Vil ég þakka öllum sem að mál­inu hafa komið með jákvæða og lausn­ar­mið­aða nálg­un. Þessi til­raun sýnir að hægt er að þróa strand­veiðar áfram í ljósi reynsl­unnar með því að draga úr slysa­hættu við ólympískar veiðar og koma á meiri fyr­ir­sjá­an­leika í veiðum með föstum dög­um.

Ég vona að vel tak­ist til í sumar og að þetta verði gæfu­spor sem hér er stigið og óska þess að allir strand­veiði­sjó­menn afli vel í sumar og komi heilir til hafn­ar.

Gleði­legt strand­veiði­sum­ar!

Lilja Rafney Magnúsdóttir,

Höf­undur er for­maður atvinnu­vega­nefndar Alþing­is og greinin birtist fyrst á Skessuhorni. 

Lundalíf

Nýlega bárust þær dapurlegu fréttir að alþjóðasamtök fuglaverndarfélaga hefðu sett lundann á válista fuglategunda sem væru í bráðri útrýmingahættu. Þetta eru grafalvarlegar fréttir fyrir okkur Íslendinga, því nærri 60% af lundastofninum verpir á Íslandi. Okkur ber því skylda til að varðveita þennan fallega fugl og varpstöðvar hans.

Einstakt varpland innan borgarmarka
Á síðustu árum hefur lundinn orðið óopinber einkennisfugl Íslands, fulltrúi náttúrufegurðarinnar sem dregur milljónir ferðamanna til landsins. Tugþúsundir ferðamanna fara í lundaskoðunarferðir á sundunum við Reykjavík.

Í borgarlandinu er nefnilega að finna stórar lundabyggðir. Talið er að í Akurey verpi um 19.000 lundapör og í Engey verpi um 8.500 pör. Samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum gerir það eyjarnar að mikilvægum varpstöðvum lundans. Í upphafi yfirstandandi kjörtímabils samþykkti Umhverfisráð að Akurey skyldi friðuð.

Fréttir af því að lundinn sé á válista ættu því að hringja viðvörunarbjöllum: Friðlýsing Akureyjar þolir enga bið!

Fjölgum friðlýstum svæðum í borginni
Verndun Akureyjar er mikilvægt skref til þess að fjölga friðlýstum svæðum í borgarlandinu. Á alþjóðlegan mælikvarða eigum við í Reykjavík mjög mikið af friðlýstum svæðum á hvern íbúa. Við verðum að standa vörð um þessa nálægð við náttúruna, enda er hún ein mikilvægasta sérstaða Reykjavíkur.

Í því sambandi höfum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði lagt áherslu á að á næsta kjörtímabili verð ráðist í metnaðarfullar aðgerðir til þess að stækka friðlýst svæði innan borgarinnar, auka við núverandi svæði, bæta aðgengi og umgengni og koma upp nýjum upplýsingaskiltum til að fræða aðkomufólk og innfædda um náttúruna og sögu borgarlandsins.

Borgarfriðland frá heiðum út á sundin
Reykjavík á að stefna að því að tengja net slíkra verndaðra svæða saman í eitt stórt borgarfriðland sem myndi teygja sig ofan af heiðum og út á sundin.

Slíkt friðland er mikilvægt til þess að varðveita þá ómetanlegu náttúru sem er steinsnar frá íbúum höfuðborgarinnar. Það tryggir að þeir hafi aðgang að útivistarmöguleikum í framtíðinni en væri einnig mikilvæg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu í Reykjavíkur.

Umfram allt er það þó skylda okkar við lífríki jarðar og komandi kynslóðir að varðveita og vernda líffræðilega fjölbreytni og náttúruna. Íbúar Reykjavíkur eru umkringdir einstökum náttúruperlum og er Akurey ein þeirra. Þar líta dagsins ljós þúsundir lundaunga á ári hverju. Sýnum í verki að okkur þykir vænt um náttúruna og dýralífið sem hana prýðir og friðum Akurey.

Líf Magneudóttir er oddviti VG í borginni og forseti borgarstjórnar.

Greinin birtist fyrst á visir.is

Vegna opins bréfs um mál Hauks Hilmarssonar

 

Mál Hauks Hilmarssonar hefur verið í algjörum forgangi hjá utanríkisráðuneytinu frá því það kom upp. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur leitað allra leiða til að komast að afdrifum Hauks og lögð hefur verið áhersla á að vinna náið með fjölskyldu Hauks.

Um leið og fregnir bárust af því að Tyrkir kynnu að hafa Hauk í haldi var haft samband við Tyrki.

Í fyrsta lagi var það gert í gegnum sendiherra Tyrklands í Osló sem er æðsti fulltrúi tyrkneskra stjórnvalda gagnvart Íslandi.

Í öðru lagi hafa íslensk og tyrknesk stjórnvöld, þ.m.t. hermálayfirvöld, verið í stöðugu sambandi eftir ýmsum leiðum frá þeim degi.

Í þriðja lagi hefur mál Hauks hefur verið tekið upp við utanríkisráðherra, varnarmálaráðherra og fjölskyldumálaráðherra Tyrklands. Þær upplýsingar hafa fengist á því að Tyrkir hafi Hauk ekki í haldi og að hans verði leitað meðal látinna og særðra á svæðinu.

Í fjórða lagi hefur verið leitað eftir upplýsingum í gegnum óformlegri samskipti, s.s. við mannúðarsamtök sem hafa aðgang að svæðinu.

Í fimmta lagi hafa lögregluyfirvöld, sem fara með rannsókn mannshvarfa, rannsakað málið, m.a. í gegnum norrænt og evrópskt samstarf lögregluyfirvalda.

Í sjötta lagi hefur verið haft samband við sjö vinaþjóðir til að afla upplýsinga um hvernig staðið sé að svipuðum borgaraþjónustumálum. Þessi ríki hafa öll áréttað að staðan sé einstaklega flókin, og erfitt sé að afla upplýsinga og enn erfiðara að veita aðstoð. Aðrar upplýsingar liggja því miður ekki fyrir að svo stöddu.

Í sjöunda lagi ræddi ég málið við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og bað um aðstoð við að afla upplýsinga um afdrif Hauks. Í kjölfarið áttu íslenskir embættismenn samskipti við þýska embættismenn.

Því miður hefur enn ekkert komið fram sem varpað getur ljósi á hvað orðið hefur um Hauk. Áfram er unnið að málinu af alúð og heilindum innan borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins með þeim úrræðum sem til staðar eru af fullum þunga.

Ekki er unnt að afhenda öll gögn sem til eru um framgang og niðurstöður íslenskra stjórnvalda á hvarfi Hauks. Ástæður þess eru að trúnaður ríkir um milliríkjasamskipti. Einnig er það þannig að sum gögn sem tengjast máli Hauks innihalda upplýsingar um einstaklinga sem geti ógnað öryggi þeirra. Aðstandendur hans hafa hins vegar verið upplýstir um efni og niðurstöðu þeirra samskipta eftir því sem kostur hefur verið.

Íslensk stjórnvöld geta ekki mælt með því að íslenskir ríkisborgarar ferðist til svæðisins, þar sem þeim getur stafað mikil hætta af þeim átökum sem geisa á svæðinu.

Hermálayfirvöld, mannúðarsamtök og borgaraþjónustur samstarfsríkja hafa sagt ástandið á svæðinu mjög óöruggt og hafa raunar ekki haft aðgang að því um nokkurra vikna skeið.

Öll ríkin ráða borgurum sínum frá ferðalögum til Sýrlands almennt enda er geta þeirra til að veita borgaraþjónustu mjög takmörkuð. Ferðaviðvaranir, þar sem varað er við öllum ferðum til Sýrlands vegna ríkjandi ástands, eru því í fullu gildi.

Katrín Jakobsdóttir.

Stórauknar fjárheimildir til umhverfismála

Dagur umhverfisins er í dag haldinn hátíðlegur í tuttugasta sinn. Því er ekki úr vegi að víkja að áskorunum og tækifærum sem fram undan eru í umhverfismálum. Ég hef einsett mér að setja nokkur mál á oddinn í ráðherratíð minni: Loftslagsmál, náttúruvernd, plastmengun, neyslumál og aukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku í umhverfismálum. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verða framlög til umhverfismála aukin um 35% á næstu fimm árum miðað við árið 2017. Hér geri ég loftslagsmál og náttúruvernd að umtalsefni.

Stærsta áskorun samtímans er að halda meðalhlýnun jarðar á þessari öld innan við 2°C og helst innan við 1,5°C. Ríkisstjórn Íslands setur markið hátt og hyggst ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040. Í júní tekur Loftslagsráð til starfa, Loftslagssjóður verður settur á laggirnar á árinu til að styrkja nýsköpun og rannsóknir og unnið er að heildstæðri aðgerðaáætlun til að draga úr útlosun og binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Á næstu fimm árum verður tæpum sjö milljörðum króna varið til loftslagsmála.

Náttúruverndin mun skipa stóran sess á kjörtímabilinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um átak í friðlýsingum og stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Nýverið skipaði ég þverpólitíska nefnd um miðhálendisþjóðgarð. Mörg tækifæri fyrir byggðaþróun eru fólgin í þessari ráðstöfun, enda hafa rannsóknir sýnt að þjóðgarðar skila miklum tekjum í þjóðarbúið og til hinna dreifðu byggða. Samtímis verður að hlúa að ferðamannastöðum sem eru undir stöðugu álagi ferðamanna. Um það vitna nauðsynlegar lokanir svæða nú þegar frost er að fara úr jörðu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er áætlað að auka fjárframlög til náttúruverndar um rúma sjö milljarða króna á næstu fimm árum og fer stór hluti fjármunanna til uppbyggingar innviða til verndar náttúru á ferðamannastöðum, í landvörslu, þ.m.t. heilsárslandvörslu, og til uppbyggingar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands svo eitthvað sé nefnt.

Til hamingju með Dag umhverfisins.

Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Framtíðin er að koma

„Kosningabaráttan á Akureyri líkist meira huggulegu spjalli í saumaklúbb en alvöru kosningabaráttu“.Einhvern veginn svona kynnti Lóa Pind Aldísardóttir umræðuþátt oddvita akureyrsku flokkanna á Stöð2 fyrir fjórum árum. Ég held það sé ekki endilega fjarri sanni enda hefur bæjarstjórnin verið ansi samhent og lítil gagnrýni verið á störf meirihlutans ef undan eru skilin leikskólamálin. Enda var meirihlutinn myndaður á forsendum félagshyggju og jöfnuðar sem er alltaf góður grunnur að stjórnun sveitarfélags. Bæjarfulltrúar hafa unnið af heilindum og heiðarleika og bæjarfélagið okkar er svo heppið að hafa nóg af frambærilegu og góðu fólki sem vill leggja sig fram við að þjóna samfélaginu.

Það er þó eitt sem við í Vinstri grænum teljum hafa vantað mjög upp á. Það er framtíðarsýn. Heimurinn allur er á fleygiferð og miklar samfélagsbreytingar eiga sér stað hvort sem litið er til útlanda eða hingað heim til Akureyrar. Talað er um fjórðu iðnbyltinguna sem byggir á hraðri tækniþróun, notkun gervigreindar, róbótatækni og sjálfvirknivæðingu svo eitthvað sé nefnt að ógleymdum gríðarlegum áskorunum í umhverfismálum.

Hvernig ætlum við að nýta okkur allt það góða sem þessar breytingar hafa í för með sér og hvernig ætlum við að takast á við þær áskoranir sem fylgja?

Ég hef, sem bæjarfulltrúi VG, lagt fram nokkrar tillögur sem sumar hafa hlotið stuðning bæjarstjórnar en aðrar ekki. Ég nefni sem dæmi tillögur um styttingu vinnuvikunnar, samgöngusamninga við starfsfólk, nútímalegri stjórnunarhætti, lækkun leikskólagjalda og eflingu forvarna.

Nú erum við, frambjóðendur VG, að leggja lokahönd á málefnavinnuna okkar. Í henni er ein mjög skýr lína. Við viljum fyrst og fremst leggja áherslu á góða heilsu og almenna vellíðan bæjarbúa. Við viljum einbeita okkur að ungum fjölskyldum og létta undir með þeim með bætingu leikskólakerfisins. Við viljum auka vellíðan nemenda og kennara í skólunum, huga betur að umhverfismálum og minnka sóun, hvetja bæjarbúa til hreyfingar og geðheilsuræktar, minnka stressið og njóta sem best alls þess dásamlega sem umhverfi okkar og samfélag hefur upp á að bjóða.

Á þessu byggjum við okkar málefnaskrá og kosningaloforðið okkar er: Við munum stjórna bænum af skynsemi og framsýni með jöfnuð, vellíðan og sjálfbærni sem okkar leiðarstef.

Sóley Björk Stefánsdóttir

Greinin birtist fyrst á Kaffið.is

Tekst sjúkraliðafélagi Íslands það sem mér hefur ekki tekist?

Í maí á síðasta ári var efnt til opins borgarafundar í Iðnó í Reykjavík um málefni eldra fólks með sérstakri áherslu á heimaþjónustu og mannréttindi.
 Fullt var út úr dyrum á fundinum og í kjölfarið rigndi yfir okkur, sem fram komum þar, fyrirspurnum og hvatningu um að halda málefninu á lofti. Það kom ekki á óvart. Aðhlynning aldraðra snertir ekki aðeins hinn aldraða einstakling heldur aðstandendur einnig.

Allir lofa valkvæðri búsetu …
Ég stend í þeirri trú að allir stjórnmálaflokkar, alla vega þeir sem komnir eru til ára sinna, hafi lofað því að búa öldruðum valkvætt ævikvöld; þeir eigi inngengt á öldrunarstofnun þegar heilsa og geta þverr, standi óskir til þess, en geti dvalist á eigin heimili með aðstoð heimaþjónustu og heimahjúkrunar sé þess óskað. 
Þótt þetta hafi verið stefna stjórnmálaflokkanna í orði hafa efndirnar ekki verið eftir því. Dæmi þar um: Einstaklingur á tíræðisaldri í Reykjavík fullfær um að búa heima með aðstoð fjölskyldu biður um eitt og aðeins eitt, aðstoð við böðun tvisvar til þrisvar í viku. Svarið er skýrt, slíka aðstoð fær viðkomandi að hámarki einu sinni í viku!

… en framkvæmdin í skötulíki
Þegar velferðarsvið borgarinnar var spurt í formlegu erindi hvort það væri mat þeirra sem ábyrgir væru fyrir þessum málum að nægilegur mannafli væri fyrir hendi og nægilegu fjármagni væri varið til málaflokksins, var svar fagfólksins – stjórnmálamennirnir svöruðu ekki – að hvorki nægði fjármagnið né mannaflinn miðað við umfang verkefnisins og fjölgun aldraðra. 
Frá því að þessi fundur var haldinn hefur opinber umræða um málefnið ekki komist á flug þrátt fyrir að það brenni á þúsundum einstaklinga. Umræðan fer vissulega fram en hún er í hálfum hljóðum og hún er vondauf og þreytuleg.Óþægileg umræða?
Í kosningaumræðunni er þessi málaflokkur varla til. Stjórnmálamenn kjósa að halda sig á öðrum miðum enda loforðin á þessu sviði margsvikin og umræðan fyrir vikið óþægileg. 
Á fimmtudag í næstu viku, 26. apríl, freistar Sjúkraliðafélag Íslands þess hins vegar að koma þessari umræðu á flot á ráðstefnu sem félagið efnir til. Þar verður spurt um réttindi aldraðra með áherslu á þjónustu sem þeim stendur til boða. Spurt er um stefnu og framkvæmd.

Skorað á fjölmiðla
Ég heiti á fjölmiðla að fylgja góðu fordæmi Sjúkraliðafélags Íslands og beina spurningum til stjórnmálaflokkanna um hvernig þeir hyggist taka á þessum málum, komist þeir til áhrifa að afloknum komandi kosningum.

Ögmundur Jónasson, fyrrv. ráðherra og þingmaður VG

Greinin birtist fyrst á visir.is

Umhverfismál á tyllidögum?

 

Nú þegar vetur kveður og sumar heilsar, með grænkandi jörð, leitar hugur og hjarta bæjarbúa út í náttúruna. Í útiverunni verður því miður ýmislegt óskemmtilegt á vegi okkar; alls kyns rusl, sem fýkur um, flækist í gróðri, flýtur í lækjum og endar að stórum hluta á hafi úti ef ekkert er að gert. Stór hluti þessa rusls er plast sem veldur ómældum skaða og safnast upp í hafi og lífríki. Það er mikilvægt að við öll reynum að stemma stigu við því.

Í nóvember 2017 lagði ég fram tillögu í bæjarstjórn Kópavogs um að gerð verði áætlun um hvernig hægt væri að minnka sem mest notkun á einnota plasti í bænum, með samstarfi við fyrirtæki og einstaklinga, svo og átak um hreinsun plasts af landi, úr sjó og fjörum. Þetta er mjög mikilvægt mál, sem ég vona að fari fljótt á skrið.

Við getum líka hvert og eitt lagt okkar af mörkum með því að minnka það plast sem við notum og með því að plokka í kring um heimili okkar á meðan við njótum útiveru og gert þannig umhverfi okkar hreinna og fallegra.

Hef staðið vaktina um mun gera áfram

Um árabil hef ég reynt að standa vaktina fyrir umhverfið í Kópavog, reynt að koma í veg fyrir röskun grænna svæða, lagt áherslu á friðun náttúruminja og að íbúum sé auðveldað að tileinka sér umhverfisvænan lífsstíl, svo fátt eitt sé nefnt. Oft hefur verið á brattann að sækja og lítill hljómgrunnur meðal stjórnmálamanna víða í flokkum. Nú ber svo við að flestir flokkar vilja nú setja umhverfismál á oddinn og ber því að fagna. Ég vona bara að ekki fari fyrir umhverfismálunum, eins og menntamálum í gegn um árin: að þau séu bara mikilvæg á tyllidögum en efndir svo ekki samkvæmt því. Vinstri hreyfingin grænt framboð er græn í gegn og er sá flokkur sem alltaf sett umhverfismálin á oddinn. Með því að velja VG til forystu í komandi sveitarstjórnarkosningum tryggjum við efndir.

Megið þið öll njóta sumarsins í heilnæmu umhverfi.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, oddviti Vinstri grænna og bæjarfulltrúi

Kæru Árborgarbúar

Nú í sumar verða tuttugu ár síðan sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Stokkseyrarhrepps, Sandvíkurhrepps og Selfoss.  Ég hef notið þeirra forréttinda, í tólf ár af þeim tíma, að fá að búa við ströndina á Eyrarbakka og hef ekki í hyggju að breyta þeirri búsetu í framtíðinni.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í sveitastjórnarkosningum í sveitarfélaginu Árborg fyrir Vinstrihreyfinguna Grænt framboð (VG) nú í vor en ég er þar í fyrsta sæti.  Það er notaleg tilfinning þegar einhver fer þess á leit við mann að taka slíkri áskorun og  þakka ég fyrir það traust.  Ég tel að menntun mín, og ekki síst reynsla, muni nýtast mér vel á þessum vettvangi.  Mitt sterkasta framlag í komandi kosningabaráttu og starfi í sveitarstjórn, ef allt gengur vel, er reynsla mín og áhugi á stjórnsýslu, sem og umburðarlyndi og heiðarleiki, sem ég reyni að hafa að leiðarljósi í lífinu.

Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, alinn upp í Hlíðunum og átti þar yndislega æsku.  Eftir að ég komst á fullorðinsár hef ég búið í Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri, Álaborg í Danmörku og svo í Árborg.

Ég er menntaður vélaverkfræðingur og vélvirkjameistari ásamt því að vera með réttindi sem heilbrigðisfulltrúi og starfaði sem slíkur  hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.  Núverandi starf mitt, síðan 2012, er fagsviðsstjóri fiskeftirlits hjá Matvælastofnun.  Öll mín starfsævi hefur einkennst af því að sjávarútvegur er mér í blóð borinn, t.a.m. var ég til sjós öll sumur unglingsáranna frá þrettán ára aldri, aðallega með karli föður mínum sem alla tíð var togaraskipstjóri.  Þá hef ég starfað sem framkvæmdastjóri, m.a. tveggja stéttarfélaga, BHM og Stéttarfélags verkfræðinga.  Ég starfaði sem verkefnisstjóri  hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og um fimm ára skeið sem verkefnisstjóri í tímabundnu  verkefni sem hét heilbrigðistæknivettvangur, en það var starfrækt af Samtökum iðnaðarins í samvinnu við tvö ráðuneyti og Landsspítalann. Einnig starfaði ég sem sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu í um tvö ár.

Ég og kona mín erum áhugasöm um gömul hús og það er upphafleg ástæða þess að við hjónin settumst að á Eyrarbakka og fengum aukreitis það dásamlega umhverfi sem ströndin er.

Ég hef kynnst afskaplega góðu fólki í Árborg á minni tólf ára búsetu hér og oft tekið þátt í umræðu um ýmis málefni sveitarfélagsins og get með sanni sagt að margt gott hefur verið gert og ýmislegt má betur fara, en meira um það síðar.

Við hjá Vinstri grænum verðum með kosningaskrifstofu á Austurvegi 21, Selfossi (gamla bankanum), og munum opna hana formlega í byrjun maí. Gestum og gangandi verður boðið þangað til skrafs og ráðagerða og verður það auglýst nánar þegar nær dregur.

 

Ég vonast til að hitta ykkur sem flest fyrir kosningarnar.

Kv. Halldór Pétur Þorsteinsson,

Árborgarbúi og Eyrbekkingur.

 

 

Lýðskrumari leiðréttur

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum, brást ókvæða við þeirri ábendingu minni að eitt helsta kosningaloforð flokksins í vor sé óframkvæmanlegt. Loforð Eyþórs um að fella niður alla fasteignaskatta á eldri borgara stangast á við sveitastjórnarlög eins og ráðuneyti sveitastjórnarmála hefur þegar úrskurðað um.

Það er beinlínis ólöglegt að fella niður fasteignagjöld við ákveðinn aldur. Það er hvorki þrætubók né lagatækni eins og Eyþór virðist halda. Það er bláköld staðreynd.

Tekjulágir eldri borgarar njóta afsláttar

Önnur staðreynd málsins er sú að eldra fólk í Reykjavík nýtur nú þegar afslátta af fasteignasköttum sem taka mið af tekjum þess. Í árslok 2017 samþykkti borgarráð að auka þá afslætti sem tekjulægri eldra fólk og öryrkjar njóta af fasteignagjöldum og fráveitugjöldum.

Í dag er það þannig að einstaklingur með tekjur allt að 3.910.000 krónur og samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 5.450.000 krónur fá fasteignaskatta fellda niður að fullu, 100%. Þeir sem eru með tekjur á bilinu 3.910.000 til 4.480.000 krónur og samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 5.450.000 til 6.060.000 krónur fá 80% afslátt og loks fá einstaklingar með tekjur á bilinu 4.480.000 til 5.210.000 krónur og samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.060.000 til 7.240.000 krónur, 50% afslátt.

Óréttlát aðgerð sem eykur ójöfnuð

Tekjutenging fasteignaskatts og fráveitugjalda er bæði réttlát og skynsöm. Ég er í stjórnmálum til að jafna kjör fólks og búa þannig um hnútana að við höfum öll jöfn tækifæri. Flöt niðurfelling á afmarkaðan aldurshóp er ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum.
Flöt niðurfelling fasteignagjalda á alla eldri borgara mun fyrst og fremst nýtast þeim tekjuhæstu. Ekki má gleyma því að þó margt eldra fólk búi við mjög kröpp kjör og jafnvel í sárri fátækt þá er annað eldra fólk með háar tekjur og miklar eignir. Tekjuhæsta tíund eldri borgara, sem er með yfir milljón í mánaðartekjur, fær þannig samkvæmt kosningaloforði Eyþórs 115.761 króna afslátt á ári.


Beitum gjaldskrám til að bæta kjör

Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að tekjumörk þessara afslátta séu hærri, þannig að þeir nýtist betur þeim sem raunverulega búa við kröpp kjör þrátt fyrir að eiga eigið húsnæði. Það er sjálfsagt réttlætismál að borgin komi til móts við það fólk.

Það er ekki aðeins margt eldra fólk sem býr við kröpp kjör. Fátækt er raunverulegt vandamál og fjölmargar barnafjölskyldur berjast í bökkum við að ná endum saman. Við Vinstri græn viljum endurskoða gjaldskrár með það fyrir augum að lækka álögur tekjulágra hópa og barnafjölskyldna.

Við eigum að hafa kjark til að búa til réttláta borg og jafna kjör fólks svo við getum öll notið lífsins áhyggjulaus, óháð aldri. Það er stefna jöfnuðar og velferðar og það er stefna okkar Vinstri grænna.

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti VG í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is