Sókn fyrir samfélagið

 

Ný fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin kynnti á miðvikudag snýst um sókn fyrir íslenskt samfélag. Hún fylgir þannig eftir þeim sáttmála um samfélagslega uppbyggingu sem ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er grundvallað á, rétt eins og fjárlög ársins 2018 gerðu.

Fjármálaáætlunin byggir á sterkri stöðu ríkissjóðs og efnahagsmála almennt sem er afrakstur þeirrar miklu og góðu vinnu sem staðið hefur yfir allt frá hruni. Fyrir síðustu kosningar og við myndun ríkisstjórnarinnar lögðum við áherslu á að hvorki væri hægt að bíða lengur með að tryggja almenningi hlutdeild í þeirri hagsæld sem hér hefur ríkt né að bíða lengur með uppbyggingu samfélagslegra innviða. Í áætluninni sést hvernig við hyggjumst nýta svigrúmið sem hefur skapast vegna velgengni og vinnu undanfarinna ára til að auka velsæld fólksins í landinu.

Við erum komin yfir mesta þensluskeiðið og hagvöxtur hefur gefið eftir hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Í þessari þróun er fólgið tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að koma með kröftuga innspýtingu í samfélagslega mikilvæg verkefni, hvort heldur á sviði heilbrigðis-, menntamála eða samgangna, og veita hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu. Að ráðast í slík verkefni og uppbyggingu er ekki eingöngu réttlætismál heldur er hún líka mikilvæg efnahagslega til að stuðla að áframhaldandi hagsæld í landinu.

Með því að auka útgjöld til samfélagsþjónustu og innviðauppbyggingar sköpum við viðspyrnu í hagkerfinu, en á sama tíma er mikilvægt að skapa aðstæður fyrir frekari vöxt. Við þurfum að tryggja þekkingarhagkerfinu slíkar aðstæður. Þess vegna ætlum við að afnema þakið á endurgreiðslu kostnaðar fyrirtækja við rannsóknir og þróun eins og kallað hefur verið eftir. Þá höldum við líka áfram að auka framlög til menntamála, ekki síst háskólastigsins.

Útgjöld til heilbrigðismála munu aukast um 40 milljarða króna á næstu fimm árum miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Þetta þýðir að við getum lækkað greiðsluþátttöku sjúklinga þannig að hlutdeild þeirra hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Forgangsraðað verður í þágu geðheilbrigðismála og heilsugæslunnar um land allt.

Fyrirhugaðar eru breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem vinna á í samráði við forsvarsmenn heildarsamtaka örorkulífeyrisþega. Framlög til velferðarmála jukust um 11,7 milljarða í síðustu fjárlögum en ætlunin er að auka framlög til þessa málaflokks um aðra 28 milljarða á tímabilinu, sem er langt umfram lýðfræðilega þróun. Sú aukning mun ekki síst nýtast til að bæta kjör örorkulífeyrisþega.

Við ætlum að vinna að því með verkalýðshreyfingunni að draga úr skattbyrði lágtekjuhópa. Sá efnahagslegi stöðugleiki sem við sækjumst eftir og viljum stuðla að með skynsamlegri efnahagsstjórn og innspýtingu ríkisfjármuna í hagkerfið stendur nefnilega ekki einn og sér – hann fer hönd í hönd við félagslegan stöðugleika sem hávært ákall er um í samfélaginu. Það er forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að stuðla að félagslegum stöðugleika í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og þegar horft er til þess hvernig við forgangsröðum fjármunum.

Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að ríkið nýti fjármagn úr fjármálakerfinu í innviðaframkvæmdir. Miklum hluta þessara fjármuna verður varið í uppbyggingu í vegakerfinu á næstu árum en þar eru brýn verkefni framundan um land allt. Í áætluninni er sérstaklega kveðið á um að á árinu verði farið í viðræður við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þátttöku ríkisins í borgarlínuverkefninu.

Samgönguframkvæmdir eru þó ekki einu fjárfestingarnar sem eru framundan. Framkvæmdir við nýjan Landspítala halda áfram á árinu með uppbyggingu meðferðarkjarna. Margboðað Hús íslenskunnar mun rísa á kjörtímabilinu, fjárfest verður í nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og ráðist verður í framkvæmdir til að hlúa að og vernda ýmsar náttúruperlur í umsjá ríkisins. Þá eykur ríkisstjórnin framlög til umhverfismála um 35% sem endurspeglar þann einbeitta vilja hennar að ná raunverulegum árangri í umhverfis- og náttúruvernd.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar snýst um þau mikilvægu verkefni sem þarf að ráðast í til að bæta lífskjör og auka velsæld í landinu. Ný fjármálaáætlun tryggir að ráðist verður í þessi verkefni og mun þannig skila sterkara samfélagi og betri lífskjörum fyrir almenning á Íslandi.

Katrín Jakobsdóttir, 

Grein forsætisráðherra birtist fyrst í Morgunblaðinu.

 

Allt sem þú vildir vita um fjármálaáætlunina (eða sumt)…

Fátt dregur betur fram það versta í íslenskri póli­tík en fram­lagn­ing stórra og viða­mik­illa áætl­ana eins og fjár­mála­á­ætl­unar fyrir næstu fimm ár. Vegna þess hve flókin og viða­mikil áætl­unin er, þá getum við stjórn­mála­menn valið sjón­ar­horn eftir hent­ug­leika, farið fram með hálf­sann­leik, tekið úr sam­hengi, jafn­vel farið rangt með; allt til að þjónka okkar mál­stað sem best.

Við stjórn­ar­liðar boðum þannig stór­sóknir á alla kanta á meðan stjórn­ar­and­stað­an… tja, hún segir ýmis­legt. Sam­fylk­ingin segir stefnu Sjálf­stæð­is­flokks­ins hold­ger­ast í áætl­un­inni, sem er skemmti­leg and­staða orða eins for­ystu­manna Við­reisnar sem hefur sagt rík­is­stjórn­ina vera sós­íal­íska vegna stefnu henn­ar. Við­reisn segir hana draum­sýn þar sem hún byggi á óraun­hæfum hag­spám, þó fjár­mála­á­ætlun þess flokks hafi reyndar treyst á áfram­hald­andi hag­vaxt­ar­skeið og meira að segja gert ráð fyrir þaki á rík­is­út­gjöld sem hefði þýtt sam­drátt þeirra ef hag­spár gengju ekki eft­ir. Píratar segja þetta vera nákvæm­lega sömu fjár­mála­á­ætlun og lögð var fram í fyrra, sem rímar frekar illa við gagn­rýni Við­reisnar sem stóð einmitt að þeirri áætl­un. Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins gagn­rýna svo ýmsa þætti úr áætl­un­inni þar sem þeim finnst ekki nóg að gert. Eðli­lega, það er aldrei nóg að gert á öllum svið­um.

Frekar en að bæta í túlk­un­ar­kór­inn, þar sem ég mæri og dásama okkar áætl­un, langar mig að reyna að svara nokkrum spurn­ingum sem ég hef rek­ist á und­an­farna daga. Les­endur verða þó að muna að ég er stjórn­ar­liði og besta leiðin til að mynda sér skoðun er að lesa fjár­mála­á­ætl­un­ina sjálfa, frekar en að treysta okkur stjórn­mála­mönn­um.

Fyrst þó þetta:

Fyrir tvennar síð­ustu kosn­ingar töl­uðu Vinstri græn fyrir því að til þess að svara kalli almenn­ings um sam­fé­lags­lega upp­bygg­ingu þyrfti að auka árleg rík­is­út­gjöld um allt að 50 millj­arða á kjör­tíma­bil­inu. Að tryggja betri heil­brigð­is­þjón­ustu, betra vel­ferð­ar­kerfi, mennta­kerfi, vaxta­gjöld og líf­eyr­is­skuld­bind­ing­ar, og upp­bygg­ingu inn­viða. Fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dóttur að við­bættum fjár­lögum 2018 gerir ráð fyrir að árleg útgjöld muni aukast að raun­virði, og fyrir utan mögu­legar launa- og verð­lags­breyt­ing­ar, um 132 millj­arða til árs­ins 2023 miðað við fjár­lög 2017. Þar af verða árleg útgjöld heil­brigð­is­mála aukin um nærri 60 millj­arða króna, en þau hækk­uðu um tæpa 17 millj­arða í fjár­lögum í des­em­ber og aukn­ingin í fjár­mála­á­ætlun er 40 millj­arðar til við­bót­ar. Um þessi auknu útgjöld er ekki hægt að deila, en fólk getur vissu­lega talið að ekki sé þörf á þeim.

Til að gæta allrar sann­girni, þá er rétt að taka það fram að mik­ill hluti aukn­ing­ar­innar er vegna nýfram­kvæmda.

Miðað við 2017 munu árleg útgjöld vegna vel­ferð­ar­mála aukast um 40 millj­arða, en þau hækk­uðu um 12 millj­arða í fjár­lögum 2018 og munu hækka um 28 til við­bótar sam­kvæmt fjár­mála­á­ætl­un.

Þá í spurt og svar­að. Tekið skal fram að þetta eru aðeins örfáar af þeim spurn­ingum sem fólk hefur spurt, en það gefst tími til frek­ari svara síð­ar.

Er engin aukn­ing til mennta­mála?

Jú, það er mjög mikil aukn­ing til mennta­mála. Heild­ar­fjár­heim­ildir til háskóla­stigs­ins uxu úr rúm­lega 42,3 millj­örðum kr. árið 2017 í 44,2 millj­arða  á þessu ári og sam­kvæmt fjár­mála­á­ætlun er fyr­ir­hugað að fjár­veit­ingar til háskóla­stigs­ins muni halda áfram að aukast og hækki upp í 47,2 millj­arða árið 2023, sem þá er vöxtur upp á tæp 12% á tíma­bil­inu. Fyrri rík­is­stjórn hugð­ist auka fjár­fram­lög pr. háskóla­nema með því að fækka nem­end­um. Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur eykur sjálf fram­lög­in.

Hvað fram­halds­skól­ana varðar þá hækk­aði fram­lag til þeirra um næstum 2 millj­arða í fjár­lögum yfir­stand­andi árs. Þrátt fyrir að nem­endum fari fækk­andi í fram­halds­skólum á næstu árum, ann­ars vegar vegna stytt­ingu náms úr 4 í 3 ár og hins vegar vegna lýð­fræði­legrar fækk­unar í þeim árgöngum sem eru að koma upp úr grunn­skóla, munu fram­lög til fram­halds­skóla hækka lít­il­lega að raun­virði til við­bótar á tíma­bil­inu. Það þýðir auð­vitað að fram­lög á hvern nem­enda munu hækka veru­lega.

Verður ekk­ert gert fyrir öryrkja?

Jú, það er tölu­verð hækkun í örorku­bæt­ur. Fram­lögin munu aukast um 4 millj­arða króna strax frá næsta ári. Þar fyrir utan er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna fjölg­unar öryrkja eða svo­kall­aðra lýð­fræði­legra breyt­inga. Eitt brýn­asta verk­efni rík­is­stjórn­ar­innar á þessu ári er sam­ráð við hags­muna­sam­tök örorku­líf­eyr­is­þega um umbætur á bóta­kerfum sem eiga að miða að því að bæta kjör. Nið­ur­staða sam­ráðs­ins um umbætur á bóta­kerfum mun svo leiða af sér breyt­ingar á fjár­hæðum í næstu áætl­unum þegar nið­ur­staðan liggur fyr­ir.

Hvað með barna- og vaxta­bæt­ur?

Um leið er stefnt að heild­ar­end­ur­skoðun tekju­skatts ein­stak­linga í sam­ráði við aðila vinnu­mark­að­ar­ins, sam­hliða end­ur­skoðun bóta­kerfa. Þar er horft til stuðn­ings hins opin­bera við barna­fjöl­skyldur og vegna hús­næð­is­kostn­að­ar, með mark­viss­ari fjár­hags­legum stuðn­ingi við efna­minni heim­ili. Vegna þess­arar end­ur­skoð­unar er síður um það í þessum mála­flokki að hægt sé að lesa hækkun fjár­magns, ein­fald­lega vegna þess að fyr­ir­komu­lagið liggur ekki fyrir fyrr en eftir end­ur­skoð­un, sem sam­kvæmt yfir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar verður lokið í haust, áður en fjár­lög næsta árs verða afgreidd. Þannig munu breyt­ingar í sam­ræmi við nið­ur­stöð­una sjást  í næstu áætl­un­um.

Gagn­ast skatta­breyt­ingar þeim efna­meiri best?

Flöt lækkun á skatt­pró­sentu þýðir hærri krónu­tölu fyrir þau sem hafa hærri tekj­ur. Einmitt þess vegna mun rík­is­stjórnin í sam­starfi við verka­lýðs­hreyf­ing­una fara í vinnu við end­ur­skoðun á tekju­skatts­kerf­inu með áherslu á lækkun skatt­byrði fólks með lág­tekjur og lægri milli­tekj­ur. Þar verðar teknar til skoð­unar mögu­legar breyt­ingar á fyr­ir­komu­lagi per­sónu­af­sláttar og sam­spili við bóta­kerfi (barna­bætur og vaxta­bæt­ur) sem ætlað er að styðja við tekju­lægri hópa. Meðal þess sem skoðað verður er að sett verði á fót heild­stætt kerfi er taki jafnt til stuðn­ings hins opin­bera við barna­fjöl­skyldur og stuðn­ings vegna hús­næð­is­kostn­að­ar, hvort heldur er fyrir íbúð­ar­eig­endur eða leigj­end­ur. Þessi end­ur­skoðun byggir á yfir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar um aðgerðir í þágu félags­legs stöð­ug­leika í til­efni af mati á kjara­samn­ingum á almennum vinnu­mark­aði frá 27. febr­úar sl.

Í fjár­mála­á­ætlun kemur fram að miðað sé við að þær breyt­ingar sem end­ur­skoð­unin leiði af sér geti að umfangi jafn­gilt eins pró­sentu­stigs lækkun neðra tekju­skatts­þreps, eða 14 millj­arða lækkun á skatt­byrði fjöl­skyldna í fyrr­greindum hóp­um.

Hafnar rík­is­stjórnin breyt­ingu á per­sónu­af­slætti?

Nei, sam­an­ber svarið fyrir ofan. Á þessu ári fer einmitt fram vinna með verka­lýðs­hreyf­ing­unni  þar sem til skoð­unar eru mögu­legar breyt­ingar á per­sónu­af­slætti í þágu fólks með lág­tekjur og lægri milli­tekj­ur.

Hvað með hús­næð­is­stuðn­ing?

Heild­ar­stefna um hús­næð­is­stuðn­ing til fram­tíðar liggur ekki enn fyr­ir. Í því ljósi er gert ráð fyrir að allar reikni­reglur vaxta­bóta­kerf­is­ins verði þær sömu á tíma­bil­inu, en við­mið­un­ar­fjár­hæðir breyt­ist þannig að vaxta­bætur hald­ist að raun­gildi. Rík­is­stjórnin hefur hins vegar nýverið lagt fram yfir­lýs­ingu í tengslum við fram­leng­ingu kjara­samn­inga á almennum mark­aði (sem ekki var skil­yrt við fram­leng­ing­una, eins og sumir stjórn­mála­menn hafa rang­lega haldið fram). Þar er kveðið á um að unnið verði með aðilum vinnu­mark­að­ar­ins að end­ur­skoðun núver­andi hús­næð­is- og barna­bóta­kerfa. Mark­miðið með end­ur­skoð­un­inni er að kerfin þjóni mark­miðum sínum og styðji raun­veru­lega við þá sem mest þurfa á því að halda. Þannig verður rætt að sett verði á fót heild­stætt kerfi sem taki jafnt til stuðn­ings hins opin­bera við barna­fjöl­skyldur og stuðn­ings vegna hús­næð­is­kostn­að­ar, hvort heldur fyrir íbúð­ar­eig­endur eða leigj­end­ur. Þetta leiðir að öllum lík­indum til breyt­inga á vaxta­bóta­kerf­inu og hús­næð­is­bóta­kerf­inu með til­heyr­andi breyt­ingum á fjár­hæðum í næstu áætlun

Varð­andi fram­lög til upp­bygg­ingar á leigu­hús­næði voru þau hluti af sam­komu­lagi á milli stjórn­valda og verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar til fjög­urra ára (2016-19) í tengslum við kjara­samn­inga. Það hefur komið fram að fram­hald þessa mun ráð­ast af sam­tali stjórn­valda við verka­lýðs­hreyf­ing­una og því ekki hægt að setja það á áætlun fyrr en sú nið­ur­staða liggur fyr­ir.

Hér hefur verið tæpt á nokkrum spurn­ingum í allt of löngu máli. Á næst­unni gefst færi á að svara fleiri spurn­ingum og hlusta á rök­studda gagn­rýni. Von­andi tekst okkur þó að lyfta umræð­unni upp úr inni­halds­lausum frös­um, það væri okkur öllum til fram­drátt­ar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, Höf­undur er þing­maður Vinstri grænna og greinin birtist fyrst í Kjarnanum.

Pastöldin verði önnur

Ein­kenn­is­hlutur nýhaf­innar aldar er plast­flaska. Í höndum skóla­fólks, á vinnu­stöð­um, í metra­löngum hillum versl­ana, á skyndi­bita­stöð­um, í höndum ferð­manna í skoð­un­ar­ferðum og þannig mætti lengi telja. Í Bret­landi nemur fram­leiðslan minnst einum millj­arði flaskna á ári. Hér hjá okkur nær fjöld­inn millj­ónum en ólíkt Bret­landi náum við að senda mun meira af þeim til end­ur­vinnslu en Bret­ar.

I. Óþarft er að fara með frek­ari tölur um þá mörgu millj­arða tonna af plasti sem hafa verið graf­in, lent í tjá og tundri í jarð­vegi og hafnað út í sjó. Leik­föng, fatn­að­ur, hús­gögn, plast­pok­ar… alls konar vörur í það óend­an­lega. Jafn hand­hæg og plast­efnin eru, valda þau miklum vand­ræðum með tím­an­um, þvert ofan í þá trú á fram­farir sem blind­aði mann­fólkið með þeim hætti að einnota og margnota plast­hlutum var hent eins og ekk­ert væri. Mjög víða ger­ist það enn, m.a. í flestum þró­un­ar­lönd­um, þar sem drykkj­ar­vatn er ýmist af skornum skammti eða mest af því ekki talið not­hæft nema tappað á flöskur í verk­smiðj­um. Í gömlum og nýjum iðn­ríkjum er sala á drykkjum í plast­flöskum stór­iðn­að­ur. Mest allar umbúðir utan um mat­vöru í versl­unum og t.d. fatnað eru úr plasti. Á opnum mörk­uðum er plast­pok­inn regla en aðrar umbúðir und­an­tekn­ing.

II. Söfnun til end­ur­vinnslu drykkja­vöruplasts spannar frá fáeinum pró­sent­um, t.d í sumum Evr­óp­ur­ríkj­um, upp í 70-90% á Norð­ur­lönd­um. Þá er ótalin önnur end­ur­vinnsla plasts, t.d. vöru­um­búða og plast­poka. Í fjöl­menn­ustu ríkjum heims, t.d. Kína, þar sem mikil end­ur­vinnsla aðfeng­ins plasts frá öðrum löndum fer fram, er inn­lend söfnun og end­ur­vinnsla plasts enn á lágu stigi. Raunar er öll end­ur­vinnsla efna, sem mun skipta sköpum um fram­tíð manna, því miður á lágu stigi, sé horft á ver­öld­ina. Ekki má heldur gleyma því að meg­in­efni í plast koma úr jarð­ol­íu.

III. Nú hafa margir, einkum séfræð­ingar til að byrja með, vaknað upp við vondan draum. Plast­hlutir og plast­agnir eru orðnar alvar­leg mengun í umhverfi okk­ar.

Plast leys­ist illa eða ekki upp og við­bót­ar­efni í plasti, m.a. lit­ar­efn­in, eru sum hver óholl líf­verum, loks­ins þegar þau smit­ast út í nátt­úr­una. Megin mengun plasts næstu ára­tugi eða aldir stafar þó af beinu nið­ur­broti þess í stóra og smáa hluta, þeirra á meðal örsmáar agn­ir. Smæstu plast­bút­arn­ir, örplast­ið, lenda í vefjum plantna og smærri dýra. Örplast og stærri plast­hlutar geta náð inn í inn­yfli og vefi fugla, fiska, skrið­dýra, spen­dýra og að lokum manna, efst í fæðu­keðj­unni. Vera má að aðskota­hlutir úr plasti leys­ist upp að ein­hverju leyti í melt­ing­ar­færum en mikið af plasti, einkum örögn­un­um, gerir það ekki en getur engu að síður valdið líf­verum skaða.

IV. Tölu­verðar rann­sóknir á við­bót­ar­efnum í plasti hafa farið fram, svo sem lit­ar­efnum og mýk­ing­ar­efn­um. Við hitun eða vegna vökva og ann­arra efna í snert­ingu við plast­um­búðir geta efnin losnað eða hvarfast og haft áhrif á líf­ver­ur. Þetta á t.d. við svokölluð bis­fen­ól-efni sem notuð eru til að mýkja sumar gerðir umbúða. Grunur leikur á þau hafi áhrif á horm­óna­starf­semi manna og önnur auka­efni geta ýtt undir krabba­meins­mynd­un. Tek skýrt fram að leita þarf til rann­sókn­ar­að­ila og setja sig inn í umræður sér­fræð­inga til þess að kynn­ast þessum þætti. Hér er minnst á efna­fæði­lega áhættu vegna plast­notk­unar svo hún ekki gleym­ist í umræð­unni.

V. Hér á landi hefur fallið til og fellur enn gríð­ar­mikið af plasti miðað við íbúa­fjölda. Und­an­farin hafur hefur söfnun og end­ur­vinnsla þess auk­ist ár frá ári, einkum með til­komu skila­gjalds á flöskum og flokk­un­ar­gáma í þétt­býli og dreif­býli. Miklu er samt farg­að, m.a. með urðun heim­ilssorps, og með því að leyfa plast­efnum að hverfa út í umhverf­ið. Nægir að benda á plast á ströndum og víða­vangi í bæjum og sveitum lands­ins. Hver sá sem gengur um hverfi Reykja­víkur hlýtur að taka eftir plast­rusl­inu sem sum­ar­starfs­fólk við hreinsun og plogg­arar hafa nóg með að hirða – svo ég minn­ist á minn heima­bæ. Ég full­yrði að almenn­ingur skuldi sjálfum sér mun meiri hirðu­semi, séð í heild, en raun ber vitni.

VI. Mörg verk­efni snúa að plast­á­þján­inni, sem ég hika ekki við að kalla plast­vá. Sam­tímis árétta ég að skyn­sam­leg notkun plasts og full end­ur­vinnsla er hluti nútíma­sam­fé­lags. Meðal ann­ars þarf breytt neyslu­mynstur til þess að minnka plast­notk­un. Það snýr að því að nota umbúðir og poka úr efnum fengnum með sjálf­bærum nytjum í jurta­rík­inu (pla­stí­gildi úr tréni, papp­ír, pappa ofl). Það snýr að því að versl­anir leggi áherslu á ferskvöru og lausa­sölu mat­vöru eftir vigt (þar sem það á við) og minnki sóun. Það snýr að skila­gjaldi á plast­hlutum og senni­lega þrepa­skiptu banni við almennri notkun plast­poka undir margs konar vörur og í inn­kaup­um. Þegar kemur að fram­leiðslu hluta úr plasti, eld­hús­á­halda, leik­fanga og ótal ann­arra vara verður að höfða jafnt til fram­leið­enda sem kaup­enda um að hafa vist­væna stefnu í heiðri. Margt verður búið til úr plast­efnum eftir sem áður og þá gildir að end­ur­vinnsla bjargi sem mestu.

VII. Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar til næstu tæp­lega fjög­urra ára stend­ur: „Ráð­ist verður í lang­tíma­á­tak gegn einnota plasti með sér­stakri áherslu á fyr­ir­byggj­andi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda.“ Þau skref verður að und­ir­búa vand­lega og vinna og kosta í sam­vinnu við marga aðila. Í sept­em­ber 2016 var gert sam­komu­lag milli Umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­is­ins og Sam­taka versl­unar og þjón­ustu um að draga mark­visst úr notkun plast­burð­ar­poka fram til árs­loka 2019. Sýn­ist sem svo að það hafi ein­hvern árangur borið en betur má ef duga skal. Þings­á­lykt­un­ar­til­laga þess efnis að leita leiða til að banna notk­un­ina liggur fyrir þing­inu og á hún eftir að fá hefð­bundna umfjöll­un. Sam­vinnu þarf líka til á milli ríkja við norð­an­vert Atl­ants­haf til að snú­ast gegn plast­mengun í hafi. Það varðar fljót­andi plast­hluti í sjó, strand­hreinsun og plast á botni grunn­sævis en líka rann­sókn­ir, svo sem á örplasti í sjáv­ar­líf­ver­um. Um það fjallar til að mynda þings­á­lyktun sem Vest­nor­ræna ráðið lagði fyrir þing land­anna þriggja og verður vænt­an­lega sam­þykkt þar. Einnig má minna á ályktun Norð­ur­landa­ráðs um að banna örplast í snyrti­vör­um. Margar alþjóða­á­lykt­anir um plast­mengun eru til­. Allt ber að sama brunni þótt hægt gangi: Plast sem efni í ótal hluti hefur bæði jákvæðar og nei­kvæðar hlið­ar. Nú gildir að upp­ræta sem mest af nei­kvæðum áhrifum plasts á umhverf­ið, við fram­leiðslu þess, notk­un, förgun og end­ur­vinnslu. Það er þverpóli­tískt verk­efni og sam­eig­in­legt okkur öll­um.

Ari Trausti Guðmundsson.

Höf­undur er þing­maður VG og greinin birtist fyrst í Kjarnanum. 

Heppni Olofs Palme

Ekki alls fyrir löngu fjallaði leiðarahöfundur Fréttablaðsins um stríðið í Sýrlandi. Eða öllu heldur um þá sem fjalla um þau stríðsátök og bar leiðarinn yfirskriftina, Upplýsingastríð. Tilefnið var fundur sem undirritaður hafði staðið að í Safnahúsinu í Reykjavík þar sem bresk rannsóknarblaðakona, Vanessa Beeley, flutti erindi.

Gegn heimsvaldastefnu

Vanessa Beeley kom hreint til dyranna, tók afstöðu með Sýrlandsstjórn í stríðinu á þeirri forsendu að um væri að ræða innrás í fullvalda ríki og rifjaði upp að Sýrland hefði verið eitt þeirra ríkja þar sem Bandaríkin og bandalagsríki þeirra hefðu talað opinskátt um að þörf væri á að knýja fram stjórnarskipti, „regime change“. Hún var með öðrum orðum að andæfa heimsvaldastefnu.

Málflutningur Vanessu Beeley gekk út á að færa sönnur á að „uppreisnarmenn“ ættu fátt sammerkt með stjórnarandstæðingum sem í aðdraganda stríðsins hefðu mótmælt Assad-stjórninni; að uppistöðu væru þeir leppherir fjármagnaðir af Vesturveldunum, Sádi-Aröbum og bandalagsríkjum þerra. Gerði hún greinarmun á harðlínuíslamistum og Kúrdum í nyrstu héruðunum.

Inn í umræðuna fléttaðist síðan nýútkomin bók í íslenskri þýðingu eftir ástralskan fræðimann, Tim Anderson, Stríðið gegn Sýrlandi. Í þessari bók leitast höfundur við að sýna hvernig upplognar fréttir liti fréttaflutning frá átökunum í Sýrlandi og það sem ekki er síður alvarlegt, skýrslur Sameinuðu þjóðanna um efnið. Komið er við fleiri kaun, til dæmis sýnt fram á hlutdrægni ýmissa „hjálparstofnana“ svokallaðra, sem fái ógagnrýninn aðgang að fréttastofum heimsins í krafti sakleysislegs heitis en séu í reynd á framfæri hagsmunaaðila í upplýsingastríðinu.

Hver étur upp eftir öðrum

Á allt þetta vildi Vanessa Beeley opna. Ekki var því almennt vel tekið á fréttastofum þessa lands. Í orðsendingu frá fréttamanni Ríkis­útvarpsins var farið háðulegum orðum um hina gestkomandi fréttakonu. Þá var haft eftir ónafngreindum „sérfræðingum“ að háskalegt væri að rugla fólk í ríminu með tali af þessu tagi; almenningur gæti hætt að trúa alþjóðlegum fréttamiðlum ef bátnum væri ruggað um of og vísað var í enn aðra „sérfræðinga“ sem sögðu að ekkert alvörufólk tæki Vanessu Beeley alvarlega, hvað þá Tim Anderson, enginn hefði heyrt hans getið sagði fræðimaður og í þann fræðimann vitnaði einn aðalspekúlantinn að sjálfsögðu samstundis og röksemdalaust!

Svona fór allt í hringi eins og stundum gerist í gluggalausu rými.

Á netmiðlum voru óspart birtar glefsur úr umfjöllun um fyrrgreinda einstaklinga þar sem ummæli þeirra höfðu verið slitin úr samhengi þeim til háðungar, Tim Anderson sagður fylgjandi Norður-Kóreu og sýnd mynd af manni með norður-kóreska fánann á torgi þar í landi þessu til áréttingar. Við nánari athugun kom í ljós að myndin var af einhverjum allt öðrum manni. Engu að síður hafði tekist að grafa það upp að Tim Anderson hefði einhvers staðar sagt að í tímans rás hefði ýmsu verið logið upp á Norður-Kóreu.

Leiðari Fréttablaðsins

En sennilega toppaði leiðarahöfundur Fréttablaðsins þessa umræðu alla þegar hann sagði að fundurinn í Safnahúsinu hefði verið á forsendum fólks sem þjónaði illum öflum: Það væri „aðeins til þess fallið að gera illt verra að „opna umræðuna“ með því að hefja hana á forsendum þeirra sem tala fyrir áframhaldandi mannvonsku og hörmungum. Það var raunin á dögunum þegar áhrifamikill bloggari, Vanessa Beeley, sem telur SÞ ljúga um átökin í Sýrlandi, var fengin til að halda erindi á fundi sem bar yfirskriftina „Er verið að segja okkur satt um stríðið í Sýrlandi?““.

Nú vil ég taka það skýrt fram að ég er ekki í hópi þeirra sem telja fullveldi ríkja vera alheilagt. Og ekki skrifa ég upp á samtryggingarreglu ríkja heims um óumbreytanleika landamæra.

En hvað sem slíkum vangaveltum líður þá er fullveldi ríkja varið á ýmsum forsendum og hvað þau Vanessu Beeley og Tim Anderson áhrærir þá vísa þau í alþjóðalög og þá hættu sem hljóti að vera raunveruleg ógn við þjóðir heims ef herveldi samtímans geta farið óáreitt sínu fram um hverjir fái að ríkja og hverjir ekki. Og vel að merkja, þeir sem fá að lifa gera það ekki vegna siðferðilegra yfirburða heldur vegna þess að þeir gagnast í stórveldapólitíkinni. Það átti til dæmis við um Saddam Hussein Íraksforseta á meðan hann var handgenginn Vesturveldunum.

Varla ást á Ho Chi Minh

Og varla var það vegna ástar á Víet Kong eða Ho Chi Minh, leiðtoga Norður-Víetnams, að Olof Palme, forsætisráðherra Svía, andæfði hernaði Bandaríkjanna í Suðaustur-Asíu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Mótmæli hans voru uppreisn gegn heimsvaldaöflum þess tíma.

Upp úr miðri öldinni sem leið skáru Svíar sig nokkuð úr alþjóðlegri stjórnmálaumræðu enda stóðu þeir utan NATO og enn ekki komnir undir straujárn samræmdrar utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Í tvískiptum heimi austurs og vesturs var Olof Palme, holdgervingur hins óbundna gagnrýnanda, óhræddur að „opna á umræðuna“.

Hann varð fyrir ómældri gagnrýni fyrir vikið. Ekki hefði hún verið minni núna. Alla vega var Fréttablaðið þá ekki til. Að því leyti var Palme heppinn.

Ögmundur Jónasson.
Höfundur er fv. alþingismaður, greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. 

 

Allir eldast – ekki bara við.

 

 

Stofnun öldungaráðs borgarinnar var mikilvægt skref til valdeflingar okkar sem eldri erum. Öldungaráðið á að vera borgarstjórn og stofnunum borgarinnar til ráðgjafar um þau mál er snerta hópinn aldraða.

 

Mig langar að nefna hér nokkra mikilvæga þætti um spennandi verkefni sem unnið hefur verið að á vegum borgarinnar á því kjörtímabili sem er að líða. Ég nefni nokkur þeirra hér.

 

Þátttaka borgarinnar í verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem hlotið hefur nafnið „aldursvænar borgir“ hefur verið fyrirferðarmikið  í Reykjavík með aðkomu fjölmargra fulltrúa frá félögum og stofnunum sem sinna málaflokknum. Úr varð skýrsla með fjölmörgum hugmyndum um úrbætur sem nú er unnið að skipulega. Reykjavík er þarna í hópi um 600 borga um allan heim sem vinna að sama markmiði. Að gera góða borg betri.

 

Þá varð til stefna í heilsueflingu aldraðra, svokölluð Ellertsskýrsla, þar sem 28 tillögur um bætta aðstöðu og hvatningu til hreyfingar kemur fram. Ein tillaga þar var að það yrði ókeypis í sund fyrir 67 ára og eldri.

 

Ný stefna mjög metnaðarfull  í málefnum aldraðra til næstu fimm ára var samþykkt nýlega.

 

Aðgerðir til að hvetja eldri konur til að nýta kosningarétt sinn komu frá mannréttindaráði. En þátttaka kvenna 80 ára og eldri er mun minni en karla á sama aldri skv. könnunum undanfarinna ára.

 

Velferðartæknistefna var samþykkt nýlega, en velferðartækni er sú tækni sem getur auðveldað hreyfihömluðum og gömlum að vera sjálfbjarga lengur.

 

Svo má ég til með að nefna að aldraðir fá verulegan aflsátt í strætó frá 67 ára aldri, en það var mikið baráttumál hjá Félagi eldri borgara, og náði fram að ganga á þessu ári. Og nú fá allir 67 ára og eldri frítt inn á söfn borgarinnar, en var áður 70 ár.

 

  1. apríl stendur öldungaráðið fyrir opnum fundi í ráðhússalnum um aldraða innflytjendur. En það er sá hópur sem hefur það hvað verst efnahagslega í hópi aldraðra. Það er opinn fundur og ég hvet fólk til að fjölmenna á fundinn.

 

Rödd okkar heyrist æ betur og það er mikilvægt og liður í því að undirbúa þjóðina undir það að allir eldast, ekki bara við.

 

Guðrún Ágústsdóttir er

formaður Öldungaráðs Reykjavíkur

 

Kolefnishlutlaust Stjórnarráð

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2040. Ríkisstjórnin samþykkti nýlega að setja Stjórnarráðinu loftslagsstefnu og útbúa aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að gera starfsemi ráðuneyta Stjórnarráðsins kolefnishlutlausa. Verkefnisstjóri mun leiða þessa vinnu og jafnframt veita stofnunum hins opinbera fræðslu og ráðgjöf í þessum efnum. Með ákvörðun sinni sýnir ríkisstjórnin gott fordæmi í loftslagsmálum, en aðgerðin er hluti af heildaraðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt verður síðar á árinu.

Aukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, þar með talið koltvísýrings, veldur hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum. Spáð er mjög neikvæðum áhrifum á lífríki og efnahag þjóða heims ef ekki verður gripið til aðgerða. Markmiðið um kolefnishlutleysi er því skýr skilaboð um að Ísland ætlar að skipa sér í framvarðarsveit í loftslagsmálum.

Til að ná kolefnishlutleysi og leggja þannig drjúgan skerf til umhverfismála þarf annars vegar að draga eins mikið og hægt er úr útlosun gróðurhúsalofttegunda frá öllum geirum samfélagsins með hugviti og tækniframförum, grænni nýsköpun og umhverfisvænni neysluvenjum. Hins vegar, til að koma útlosuninni í núllið (kolefnishlutleysi), þarf að ráðast í aðgerðir sem tengjast ekki beint viðkomandi geira eða starfsemi. Slíkar aðgerðir eru til dæmis landgræðsla og skógrækt því þar er koltvísýringur bundinn í gróðri og jarðvegi með ljóstillífun plantna. Það að moka ofan í skurði og koma þannig í veg fyrir útlosun koltvísýrings er önnur leið. Aðgerðir sem þessar geta jafnframt náð fram öðrum markmiðum í umhverfismálum og náttúruvernd, s.s. endurheimt birkiskóga, votlendis og annarra landgæða. Það er auðvitað sérlega jákvætt.

Stjórnvöld munu aldrei leysa áskoranir í loftslagsmálum ein og sér, en þau þurfa að sýna frumkvæði, kjark og elju. Frumkvæði nokkurra sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka sem hafa tekið upp stefnu um kolefnishlutleysi er til mikillar eftirbreytni. Ég vonast til að þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar komi Stjórnarráðinu fljótt og örugglega í hóp þeirra metnaðarfyllstu og við munum styðja við stofnanir okkar í þessari sömu viðleitni. Saman þarf svo samfélagið að leggjast á árarnar og róa í takt. Ég hlakka til að vinna að því markmiði með sem flestum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. 

,

Hreinn bær, okkar bær

Um daginn birti RÚV frétt sem fjallaði um smábæ í Kanada sem hafði verið stefnt af olíu risanum Gastem. Bæjarstjórn bæjarins hafði áhyggjur af vatnsbóli bæjarbúa og bannaði fyrirtækinu að bora fyrir olíu og gasi í tveggja kílómetra radíus frá vatnsbólinu. Olíu fyrirtækið taldi lög sveitarfélagsins ólögleg og krafðist skaðabóta upp á 1,5 milljóna Kanadadala sem er meira en þrefalt það fjármagn sem sveitarfélagið hefur á milli handanna á ári hverju.  Hæstiréttur í Quebec dæmdi sveitarfélaginu í hag. Sveitarstjóri bæjarins lét hafa eftir sér að réttur sveitarfélagsins til að vernda vatnsból sitt hafi verið viðurkenndur að fullu.

Þessi saga er gott dæmi um þau grundvallar réttindi manna að hafa aðgang að hreinu vatni og andrúmslofti. Þessi réttur íbúa Reykjanesbæjar hefur undanfarin ár verið undir stöðugri árás með framkvæmdum stórmengandi iðnaðar í Helguvík.

Undanfarin ár hef ég barist gegn illa grundaðri stefnu bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að samþykkja lóðir fyrir stórmengandi iðnað innan tveggja kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð.  Flestum er full ljóst hvað áhrif United Silicon hafði á heilsu og líðan bæjarbúa þegar verksmiðjan hóf framleiðslu með einum af fjórum ljósbogaofnum sem starfsleyfið veitir. Ef til vill eru færri sem muna eftir því að fyrir fjórum árum þegar nýkjörin bæjarstjórn tók við völdum var samþykkt nær einróma að veita annari kísilverksmiðju, Thorsil, leyfi til framleiðslu í Helguvíkinni. Þessi ákvörðun var óskynsamleg þar sem engin reynsla var komin á fyrri verksmiðjuna, þ.e. United Silicon.

Á þessum tíma var ég í fjórða sæti á óháðum lista Samfylkingarinnar þar sem helsta slagorð fylkingarinnar var “íbúasamráð skal hafa í öllum stórum umhverfismálum”.
Skemmst er frá því að segja að það loforð var ekki efnt.
Þegar nokkrir ötulir bæjarbúar að mér meðtalinni hófum að safna undirskriftum fyrir íbúakosningar bar lítið á stuðningi bæjaryfivalda. Stjórn bæjarins lét hafa eftir sér að það skipti litlu máli hvað bæjarbúar myndu kjósa, verksmiðjan yrði samþykkt.

Í dag stendur bygging kísilversins United Silicon undir lás og slá eða þar til næstu eigendur taka við verksmiðjunni væntanlega með loforð sem og fyrri eigendur, um mengunarbúnað af bestu fáanlegri gerð. Þrotabú United Silicon skuldar bæjarfélaginu hundruða milljóna og Thorsil hefur enn ekki borgað lóðargjöld. Svo virðist sem bæjarstjórn hafi engan metnað til að nálgast peningana þar sem verksmiðjan hefur fengið ítrekaðan greiðslufrest.

Tími mengandi stóriðju er liðinn og áframhaldandi framkvæmdir í Helguvík eru byggðar á röngum forsendum þar sem heilsa íbúa er virt að vettugi. Til að tryggja farsæla framtíð bæjarbúa verður að stöðva allar framkvæmdir kísilvera í Helguvík.
Ég vona að næsta bæjarstjórn sýni dug,  metnað og hugrekki til að tryggja íbúum bæjarins heilnæmt umhverfi, tökum smábæinn í Kanada okkur til fyrirmyndar.

Dagný Alda Steinsdóttir
Formaður VG á Suðurnesjum

Sýrlandsstríðið og við

 

„ Ég er frá Douma“ sagði dökkhærði, brosmildi strákurinn þegar ég spurði hann hvaðan hann kæmi. Ég stirðnaði upp. Douma er í Austur-Ghouta í Sýrlandi og var lýst sem „helvíti á jörðu“ í febrúar síðastliðnum af  Sameinuðu þjóða þar sem almennum borgurum var hreinlega slátrað af stríðandi fylkingum. Ég og dökkhærði strákurinn erum stödd í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Hann er 13 ára og er búinn að vera í búðunum í 5 ár. Ég gef honum gamlan skrúfblýant og hann ljómar af gleði.

Sýrlandsstríðið hefur staðið yfir í 7 ár og talið er að um hálf milljón manna hafi látist í stríðinu sem er lýst sem mestu hörmungum okkar kynslóðar. Um 6 milljónir Sýrlendinga hafa flúið land sitt samkvæmt  Flóttamannahjálp S.Þ. sem segir ennfremur að 13, 1 milljónir Sýrlendinga búi við neyð í landinu sjálfu. 6,1 milljón manna eru á flótta innan landamæra Sýrlands og 2,9 milljónir manna búa á svæðum Sýrlands sem erfitt er fyrir hjálparsamtök að koma hjálp til. Þessar tölur eru svo risavaxnar að mannlegur hugur getur varla náð utan um þær. Eða áttað sig fyllilega á því að á bak við þær eru manneskjur og líf þeirra. Flest eru börn og konur.

En kemur þetta fjarlæga stríð okkur Íslendingum við í raun og veru ? Heldur betur.

Nýlegar uppljóstranir um að íslensk stjórnvöld hafi ítrekað veitt íslensku flugfélagi leyfi fyrir vopnaflutningum til Sádí-Arabíu, þaðan sem sterkur grunur leikur á að vopn endi í Sýrlandi eða Jemen, færa íslensk stjórnvöld og almenning miklu nær beinum afskiptum af  verstu stríðsátökum heims. Þátttaka Hauks Hilmarssonar í stríðsátökunum í Afrin á landamærum Sýrlands og Tyrklands, og óupplýst hvarf hans þar, færir okkur líka nær beinni þátttöku í skelfilegum og flóknum stríðsátökum í Sýrlandi.

Síðast en ekki síst, þá hefur fólk á flótta undan stríðinu í Sýrlandi leitað til okkar Íslendinga eftir alþjóðlegri vernd. Sumum þeirra hefur verið veitt landvistarleyfi, dvalarleyfi og jafnvel ríkisborgararéttur.

Evrópa hefur brugðist væntingum

Nágrannaríki Sýrlands ( fyrir utan Ísrael ) finna langmest fyrir Sýrlandsstríðinu, fyrir utan Sýrlendinga sjálfa. Þó mætti ætla af bæði viðbrögðum Evrópuríkja og samfélagslegri umræðu þar að Evrópa beri langmestan hita og þunga af afleiðingum stríðsins og móttöku sýrlenska flóttamanna. Því fer svo sannarlega fjarri. Evrópuríki hafa aðeins tekið á móti 10% flóttamanna sem flúið hafa Sýrlandsstríðið. Evrópuríki hafa líka fallið á pólitíska og diplómatíska prófinu í því að koma með virkum hætti að friðarferli í Sýrlandsstríðinu. Þessu verður að snúa við. Evrópa verður að stíga inn í sína yfirburðastöðu í alþjóðasamhengi, nú með vanhæfni Bandaríkjanna og Rússa til að vinna að friði í Sýrlandi þar sem bæði ríkin hafa verið í virkri þátttöku í stríðsátökunum.

Nágrannar axla ábyrgð með herkjum

Tyrkland hýsir nú 63% flóttamanna sem flýja frá Sýrlandi eða 3,2 milljón Sýrlendinga. Í Líbanon er fjöldi flóttamanna frá Sýrlandi 1 milljón, þar af er helmingur börn. Í Írak eru 225 þúsund flóttamanna frá Sýrlandi. Í Jórdaníu eru í dag 658 þúsund Sýrlendinga sem hafa leitað þangað vegna stríðsins. Af þeim eru rúmlega helmingur börn. Að auki er talið að 650.000 óskráðra flóttamanna frá Sýrlandi séu í Jórdaníu.  Þessi lönd hýsa að auki hundruð þúsunda flóttamanna frá öðrum átakasvæðum eins og Jemen, Írak, Súdan, Sómalíu og Palestínu.

Jórdanir hafa sögulega og menningarlega reynslu af því að vera griðastaður fólks sem flýr stríðsátök og er í 5-6 sæti ríkja í heiminum þegar kemur að móttöku flestra flóttamanna. Palestínumenn fengu skjól í Jórdaníu í kjölfar innrása Ísraelsmanna 1948 og 1967. Líbanir flúðu undan borgarastríði yfir til Jórdaníu 1975-1990 og 1991 flúðu Írakar til Jórdaníu í Íraksstríðinu. En þrátt fyrir mikla reynslu Jórdana af móttöku flóttamanna, og mun opnari faðm en flestir evrópskir stjórnmálaleiðtogar gagnvart Sýrlendingum sem leita eftir alþjóðlegri vernd, lýstu ráðherrar og hæstu yfirmenn jórdanska stjórnkerfisins á fundi með flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins sem undirrituð sat í Amman, Jórdaníu í síðustu viku, Sýrlandsstríðinu sem algjörum hamförum: flóðbylgju sem drekkir jórdönsku samfélagi ef ekki er gætt að.

Sýrlandsstríðið hefur ekki bara haft gríðarleg félagsleg áhrif á jórdanskt samfélag, og önnur nágrannalönd, heldur mikil efnahagsleg áhrif. Hagvöxtur hefur minnkað og atvinnuleysi aukist í Jórdaníu frá því að nágrannalandið varð borgarastríði að bráð. Við bætist svokölluð „mannúðarþreyta“ eða „human-aid fatique“ á svæðinu og víðar, sem dregur úr áhuga fólks á að láta stríðið í Sýrlandi sig varða eins og áður. En ef sterkt land með góðan vilja stjórnvalda á borð við Jórdaníu kiknar undan álaginu, hvaða áhrif getur það haft þá á Miðausturlönd og önnur lönd í leiðinni ?

Hvað getum við Íslendingar gert ?

Þar til pólitísk lausn finnst á stríðinu í Sýrlandi – sem er því miður ekki í sjónmáli – þarf að leysa stöðuna í mannúðarmálum.  Og það gerum við öll saman og öllum ríkjum ber að deila þeirri ábyrgð jafnt. Evrópuríki, og þar með Ísland, verða að axla meiri ábyrgð með nágrannaríkjunum Sýrlands.

Ísland sem herlaus þjóð á ávallt að beita sér með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir friðarumleitunum og tala skýrt gegn stríðsátökum. Við eigum að sýna að við virðum vopnaviðskiptasamning S.Þ. og alþjóðleg mannúðarlög og að við förum eftir þeim í hvívetna. Íslandi ber siðferðisleg skylda að auka framlag sitt í þróunar – og mannúðarmál, sérstaklega til stríðssvæða á borð við Sýrland. Ísland á að beita sér alþjóðlega fyrir efnahagslegum jöfnuði á milli fólks sem dregur úr líkum á því að átök brjótist út. Íslendingar þurfa að halda úti feminískri utanríkisstefnu. Leggja áfram áherslu á kynja – og jafnréttismál á alþjóðavettvangi, auka okkar framlag til jafnréttismála í alþjóðlegu samhengi og breikka okkar aðkomu enn frekar í þeim málum.

Við eigum að taka á móti fleiri flóttamönnum en við gerum nú, búa til alvöru stefnu í málefnum flóttamanna og byggja upp reynslu og faglega þekkingu á því sviði. Mennta börn og unglinga í fjölmenningu og menningarlæsi í því skyni að auka umburðarlyndi og skilning gagnvart öðrum trúar- og menningarsvæðum.

En umfram allt, þá eigum við að halda af öllu afli í mannúðina. Það er mannúðin sem gerir okkur að manneskjum, það er hún sem drífur áfram samkenndina sem tengir okkur öll saman svo við getum leyst okkar erfiðustu vandamál á borð við skelfileg stríð, hörmungar og fátækt.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum. 

Góðar fréttir 2030

Hvernig viljum við að heimurinn líti út árið 2030? Það er sú spurning sem Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leitast við að svara en þau voru samþykkt af öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Markmiðin gilda til 2030 og snúast um ólík svið samfélagsins. Þau eiga það þó sammerkt að byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem jafnvægi ríkir milli umhverfis, efnahags og samfélags og ekki er gengið á tækifæri komandi kynslóða.

Einstök markmið snúast til að mynda um að tryggja menntun fyrir okkur öll, stuðla að heilsu og vellíðan, útrýma fátækt og hungri, auka jöfnuð, stuðla að ábyrgri neyslu og sjálfbærri orkunotkun og tryggja jafnrétti kynjanna. Markmiðin eiga að leiða til framfara á heimsvísu með almannahagsmuni að leiðarljósi. Til að vel takist til með slíkt verkefni þurfum við öll að taka þátt. Stjórnvöld leiða þessa vinnu hér á landi en Heimsmarkmiðin eru mikilvægur þáttur í stefnumótun bæði forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Stjórnvöld eru þó einungis ein stoð af mörgum. Mikilvægt er að stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök kynni sér markmiðin og tileinki sér þau í starfsemi sinni.

Mörgum okkar finnst 2030 enn ansi fjarri í tíma og vissulega getur margt gerst þangað til. Þá verða ungmenni dagsins í dag líklega við stjórnvölinn og þess vegna leggjum við sérstaka áherslu á að ungmenni eigi sterka rödd við innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Ég hef trú á að raddir ungs fólks verði stjórnvöldum í senn mikilvægur stuðningur og aðhald í þessu verkefni. Á næstu dögum verður skipað í ungmennaráð Heimsmarkmiðanna sem mun fá fræðslu um markmiðin og vinna síðan að því í framhaldinu að vekja athygli á málinu hér innanlands.

Ég hvet okkur öll til að taka höndum saman, kynna okkur Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Flytjum góðar fréttir árið 2030.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.