Sjálfstæðisflokkurinn og Donald Trump

Donald Trump á sér engan líka. Á sinni skömmu en dramatísku forsetatíð hefur hann dregið niður virðingu fyrir stöðu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Sem forseti hefur hann ráðist í orði og í verki gegn grundvallarmannréttindum samfélagshópa, bæði í Bandaríkjunum og hjá þeim sem vilja koma til landsins. Hann er forseti sem hefur sett Bandaríkin á kaldan klaka þegar kemur að alþjóðlegum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Hann er forseti sem hikar ekki við að nýta sér forsetaembættið til að þjóna persónulegum viðskiptahagsmunum. Donald Trump er enda óvinsælasti forseti Bandaríkjanna sem sögur fara af.

Steininn tók auðvitað úr þegar Trump sýndi sitt rétta andlit í kjölfar hryllingsins í Charlottesville. Þegar hópur Ku Klux Klan og ný-nasista þrammaði, vopnaður og ógnandi um göturnar til að mótmæla því að fjarlægja átti styttu sem hyllir kynþáttahyggju Suðurríkjanna og þrælahald á þeldökku fólki. Heimurinn horfði í forundran þegar ung kona lést í mótmælum við rasistana. Langflestir bjuggust auðvitað við fordæmingum
Heimsbyggðinni blöskraði þegar Trump sagði í kjölfar mótmælanna að í báðum hópum væri afar gott fólk og að róttækir vinstrimenn (alt-left) ættu jafna sök á ofbeldinu sem braust út í Charlottesville. Forseta Bandaríkjanna mistókst þar með herfilega að stíga niður fæti, draga línu um hvað má og hvað má ekki í siðuðu ríki. Honum mistókst að fordæma djúpstætt hatur hvítra kynþáttahatara og mistókst að halda á lofti virðingu fyrir fórnarlömbum bæði seinni heimsstyrjaldarinnar og Þrælastríðsins. Honum mistókst að halda á lofti virðingu fyrir mannréttindum.

Niðurlæging Bandaríkjanna getur vart orðið meiri á alþjóðavettvangi.

Hneykslanleg viðbrögð létu enda ekki á sér standa, hvorki innan Bandaríkjanna né utan. Tveir fyrrverandi Bandaríkjaforsetar úr flokki Trumps stigu fram og gerðu það sem alvöru forseti hefði gert; að fordæma hatur af hvers kyns tagi, sér í lagi kynþáttahatur.

Forsætisráðherra Bretlands fordæmdi hvers kyns kynþáttahatur. Viðbrögð hennar þóttu samt of slök og þrýst var á hana af almenningi, fjölmiðlum og stjórnmálafólki í Bretlandi að tala skýrar gegn siðblindum forsetanum og hún hvött til að taka ekki á móti Trump í opinbera heimsókn til Bretlands. Þýski innanríkisráðherrann fordæmdi harðlega orð Trumps og það gerði einnig leiðtogi þýsku stjórnarandstöðunnar. Evrópusambandið og leiðtogar á alþjóðavettvangi fordæmdu kynþáttahatur og afsakanir Trumps. Og nefnd Sameinuðu þjóðanna um útrýmingu kynþáttamismunar varar nú við málflutningi kynþáttahatara í Bandaríkjunum og hvetur æðstu ráðamenn þjóðarinnar að hafna skýrt og afdráttarlaust málflutningi kynþáttahatara.

Hér heyrist ekki múkk
En hér á Íslandi heyrist ekki múkk frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Íslands. Það er eins og ekki megi gagnrýna Trump. Utanríkisráðherra og forsætisráðherra fara eins og kettir kringum graut þegar kemur að hinum ruglaða Bandaríkjaforseta.

Utanríkisráðherra Íslands talar enn þá um það (Helgarútgáfan 13. ágúst Rás 2) að enn eigi eftir „að koma í ljós hvernig forseti Trump sé, að hann sé „bara“ búinn að vera í embætti í 200 daga og „…við þurfum nú að sjá hvernig ríkisstjórn Trumps eigi eftir að vera“. Trump þurfi nú tíma. Sama dans í kringum Bandaríkjaforsetann hefur Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, dansað. Trump sé að mörgu leyti „óvenjulegur forseti“ eins og Bjarni hefur orðað það pent.

Jafnvel þó að Trump sé allrar gagnrýni verður, þá virðist ráðherrum Sjálfstæðisflokksins það lífsins ómögulegt að gagnrýna orð og gerðir hans. Það var ekki fyrr en allir aðrir forsætisráðherrar Norðurlandanna hörmuðu að Trump ákvað að slíta Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu, að Bjarni Benediktsson lét til leiðast í eitt skiptið að gagnrýna Trump. Með semingi þó.

Donald Trump þarf alls ekki meiri tíma til að réttlætanlegt sé að gagnrýna hann. Hann hefur nú þegar haft nægan tíma til að sýna nákvæmlega hvers konar forseti hann er. Af nógu er að taka. Forseti sem fordæmir minnihlutahópa, sýnir kvenfyrirlitningu og hótar kjarnorkustríði gegn N-Kóreu – en getur alls ekki fordæmt hvíta nasista – er fyllilega þess verður að gagnrýna með skýrum hætti.
Íslenskir ráðherrar, talsmenn þjóðarinnar, eiga að vera óhræddir við að gagnrýna kynþáttahatur og beinan eða óbeinan stuðning við það. Annað er undirlægjuháttur ráðamanna sjálfstæðs ríkis og á ekkert skylt við utanríkisstefnu Íslands.
 
Höfundur er þingmaður VG og situr í utanríkismálanefnd Alþingis. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Sveltistefna og einkarekstur

Heilbrigðisráðherra var á vorþingi þráspurður um það hvert hann hygðist stefna hvað varðar einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Ráðherrann margítrekaði að ekki stæði til að fara í neinar grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu eða að auka stórkostlega við einkarekstur í kerfinu.
Nú lítur hins vegar út fyrir að flokkur heilbrigðisráðherra, Björt framtíð, sem talaði mjög fyrir kerfisbreytingum á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar fyrir kosningar, ætli sér fyrst og fremst kerfisbreytingar í átt til aukins einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu. Aðrar kerfisbreytingar hafa gufað upp.

Þannig bárust í síðustu viku fréttir af því að Sjúkratryggingar Íslands hygðust semja við Klíníkina við Ármúlann um brjóstnám og brjóstauppbyggingu á konum sem greinast með BRCA-genið. Hingað til hafa þessar aðgerðir sem krefjast innlagnar og kalla á sérhæfða þjónustu eingöngu verið gerðar á Landspítalanum en Klíníkin hefur lengi sóst eftir samningi um þessar aðgerðir eins og fjallað hefur verið um á opinberum vettvangi og vísað til langra biðlista á spítalanum. Því var hafnað af síðasta heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. En nú er ákveðið á vakt Bjartrar framtíðar að semja við einkaaðila og opna þar með á enn frekari einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni.

Framundan eru fleiri stórar ákvarðanir. Hvað mun heilbrigðisráðherra gera þegar kemur að ákvörðun um rekstur sjúkrahótels sem nú er verið að reisa á lóð Landspítalans við Hringbraut? Mun hann fela Landspítalanum rekstur hans eins og spítalinn hefur sjálfur óskað eftir? Eða bjóða reksturinn út til að færa enn stærri hluta heilbrigðiskerfisins í hendur einkaaðila sem greiða sér svo arð úr rekstrinum? Sveltistefna gagnvart almannaþjónustu virðist vera helsta lím þessarar ríkisstjórnar.

Í stað þess að fylgja vilja meirihluta landsmanna sem vill sjá meira fé renna til heilbrigðiskerfisins og enn fremur að það sé félagslega rekið á að viðhalda sveltistefnunni sem birtist kýrskýrt í nýsamþykktri fimm ára fjármálaáætlun og standa fyrir enn frekari einkavæðingu á almannaþjónustu. Um það snýst þessi ríkisstjórn, þetta eru einu kerfisbreytingarnar sem hún stendur fyrir.

Það þarf líklega ekki að leita annarra skýringa á því hvers vegna hún er að loknu hálfu ári enn óvinsælli en sjálfur Donald Trump.
 
Höfundur er formaður Vinstri grænna. Greinin birtist fyrst á Vísi.

Stöndum með sauðfjárbændum

Staða og framtíð sauðfjárbúskapar í landinu er í uppnámi vegna boðaðrar 35% lækkunar afurðarverðs til bænda nú til viðbótar við 10 % lækkunar sauðfjárafurða síðastliðið haust. Gífurlegt tekjutap blasir við sauðfjárbændum sem erfitt verður að mæta, sérstaklega fyrir þá sem eru skuldsettir og hafa ekki möguleika á annari vinnu meðfram sauðfjárbúskap. Þeim virðast engar útgönguleiðir færar aðrar en að hrekjast frá búskap.

Sauðfjárrækt er grundvöllur byggðar í ákveðnum landshlutum sem mun bresta ef ekkert er að gert í þeim bráðavanda sem greinin stendur nú frammi fyrir.

Þessi staða snertir ekki einungis bændur heldur líka samfélögin í kringum sveitirnar því fjöldi afleiddra starfa eru í kringum sauðfjárbúskap sem verða líka í uppnámi og ekki verður auðvelt að fylla það skarð sem verður í atvinnutækifærum ef rekstrargrundvöllur sauðfjárbúskapar hrynur. Þá eru brostnar forsendur fyrir búsetu margra og byggðaröskun óhjákvæmleg á þeim svæðum sem hafa treyst á sauðfjárbúskap.

Ég óskaði eftir fundi í atvinnuveganefnd fyrir skemmstu til þess að ræða þessa alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna mikils birgðavanda sem kemur til vegna þess að markaðir hafa lokast erlendis, m.a. vegna viðskiptabanns Rússa og sterks gengis krónunnar. Nýgerður búvörusamningur hefur ekki bein áhrif á þessa stöðu, en vissulega voru á honum margir gallar, t.d. framleiðsluhvatar sem byggðust á óraunhæfum væntingum um mikla sölu á lambakjöti erlendis sem ekki er í hendi.

Fyrir atvinnuveganefnd hafa komið hagsmunaaðilar og landbúnaðarráðherra og ljóst er að við megum engan tíma missa ef stjórnvöld ætla að koma til liðs við sauðfjárbændur í þessum miklu og vonandi tímabundnu erfiðleikum sem greinin stendur frammi fyrir.

Lausnir eru til, beitum þeim sem fyrst

Sauðfjárbændur hafa lagt fram sína tillögu að lausn sem er að mörgu leyti skynsamleg en langt því frá sársaukalaus fyrir bændur og ráðherra hefur viðrað sínar hugmyndir og hyggst leggja þær fram sem fyrst. Það er sem sagt komin hreyfing á málið, en gagnrýna má að ekki hafi verið gripið til aðgerða miklu fyrr þegar vandinn blasti við í vor og ráðherra var þá gerð grein fyrir birgðastöðunni og þeim vanda sem af henni stafaði. Orsakirnar eru fyrst og fremst markaðsbrestur erlendis því sem betur fer hefur sala á lambakjöti aukist um 5 til 6% innanlands í ár.

Nú ríður á að stjórnvöld taki höndum saman við sauðfjárbændur með aðgerðum sem taki á þessum birgðarvanda og feli í sér tímabundna útflutningsskyldu. Sú aðgerð er ríkissjóði útlátaminnst, en mikilvægt er að aðrar aðgerðir sem gripið verður til stilli af framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði til framtíðar og að komið verði upp sveiflujöfnunarsjóði í greininni sem og að tengja gæðastýringu við sjálfbærni greinarinnar sem vinnur gegn gróðureyðingu og kjörlendi til sauðfjárræktar verði eflt enn frekar.

Innlend matvælaframleiðsla er keppikefli

Það er mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir sem bæta stöðu bænda og byggðar í landinu til framtíðar og ná sem mestri samstöðu með aðkomu ríkisins og tryggja að stuðningur hins opinbera nýtist neytendum innanlands sem best.

Það er hagstæðast að framleiða sem mest af matvælum til eigin nota hér innanlands. Það tryggir matvælaöryggi,er umhverfisvænt dregur úr loftslagsmengun sem fylgir innflutningi á matvöru um langan veg. Bændur eru að framleiða góða og heilnæma vöru með lítilli sýklalyfjanotkun og aukaefnum í hreinu umhverfi í nálægð við neytendur og á góðu verði. Greinin skapar fjölda afleiddra starfa og það er hagur allra landsmanna að sveitirnar lifi og að þar byggist upp störf og gott mannlíf til framtíðar.

Núverandi staða er hjalli sem hægt er að yfirstíga og sauðfjárbúskapurinn á mikla möguleika til framtíðar í vöruþróun og markaðssetningu með sína góðu afurðir. Horfum því með bjartsýni fram á við fyrir hönd sauðfjárbænda og okkar sameiginlegu hagsmuna og vinnum að því að sauðfjárrækt verði áfram sterk stoð í byggðafestu landsbyggðanna.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður NV kjördæmis.

Um uppreist æru

Þegar menn ganga erinda fyrir þá sem gerst hafa sekir um hræðilegustu glæpi gagnvart varnarlausum, er þeim ekki endilega annt um brotamanninn. Og það er ekki endilega víst að þeim sem greiða götu brotamannsins sé illa við fórnarlömb hans. Fleira kemur til.
Góður kunningi minn úr grunnskóla átti talsvert safn af vínilplötum. Föður hans sem lagði stund á viðskipti og var athafnamaður með góð sambönd, fannst koma til álita að sonurinn seldi aðgengi að safninu og yrði sér úti um aur. Það varð til þess að kunningi minn byrjaði að halda skipulagða skrá um plötusafnið. Föður hans gekk gott eitt til og það sama má segja um kunningjann, hann er góður maður og hefur látið gott af sér leiða. Umrætt utanumhald kunningja míns varð til þess að aðgengi okkar hinna að plötusafninu varð betra og ýtti undir áhuga á að skoða málið nánar, og gott ef hann seldi ekki eina og eina vínilplötu til vel valinna og færði til bókar samkvæmt skránni góðu.
Umrætt rifjaðist upp fyrir greinarhöfundi þegar það bar til tíðinda fyrir skemmstu að dæmdur maður fékk uppreist æru. Margir vel mæltir og ráðsettir aðilar greiddu götuna varðandi fyrrgreint málefni, og gengu helst til vasklega fram að mati margra, sé tekið mið af umfangi og eðli brotanna, en það kann að vera á misskilningi byggt. Og ekki má gera lítið úr því að eiga afturkvæmt í þjóðfélagið að lokinni afplánun refsingar. Nokkur leynd hvílir yfir umræddu ferli enn sem komið er, sem er vissulega bagalegt. Greinarhöfundur telur víst að gamli kunninginn eigi ekkert sameiginlegt með þeim er í hlut átti, nema hvatann til að halda skrá um tiltekin atriði og auðvelda aðgengi sitt og yfirsýn um efnið.  Sumt er bersýnilega óþarft að halda skrá um. Í sumum tilfellum blasir við að hvatar skipulagðrar starfsemi og sölumennsku búa að baki skráningu upplýsinga og skuggahliðar sölumennskunnar geta tekið á sig óhugnalegar myndir. Plató sagði að gjaldið sem góðir menn greiða fyrir skeytingarleysi sitt sé að vera stjórnað af vondum mönnum, og það má til sanns vegar færa. Sameinumst til góðra verka og tökum höndum saman um að hafna spillingu í okkar þjóðfélagi. Hlúa þarf að þeim sem um sárt eiga að binda og víst er að margur þarf að bæta ráð sitt.
Gunnar Árnason, félagi í VG

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Rólegt sumar í ríkisstjórn

Samkvæmt vef stjórnarráðsins fundaði ríkisstjórn Íslands síðast þann 30. júní sl. þegar þetta er ritað hinn 10. ágúst. Sumarið hefur því sannarlega verið rólegt á þeim bænum, rúmir fjörutíu dagar liðnir frá síðasta fundi.
Sjálfsagt telja einhverjir þetta til marks um hvað allt sé nú í góðu gengi á landinu, engin vandamál eða aðkallandi verkefni sem takast þurfi á við. Bent hefur verið á, í öðru samhengi að vísu, að ríkisstjórnin sé svo að segja mynduð um ekki neitt og geti þar af leiðandi ekki slitnað á neinu. Taka má undir hvort tveggja að nokkru leyti en alls ekki öllu.
Er það raunverulega svo að ekki sé nein þörf á forustu um landsmálin? Eru engin þau viðfangsefni uppi sem kalla að minnsta kosti á að ríkisstjórn hittist og ræði málin?Hvað með að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óski eftir fundi í ríkisstjórn til að ræða grafalvarlega stöðu sem blasir við sauðfjárbændum í haust og þar með byggð á heilum landsvæðum?Hvað með að ráðherra ferðamála óski eftir fundi til að ræða löngu tímabæra stefnumótun í greininni?

Hvað með að ríkisstjórnin hittist til að ræða stefnu sína í peningamálum í stað þess að ráðherrar tali í austur og vestur?

Hvað með að ríkisstjórnin hittist og kynni sér vel siðareglur ráðherra og þingmanna?

Hvað með fund um fiskeldisáformin þar sem við blasir upplausnar- og ófremdarástand?

Svona mætti lengi áfram telja. Nú getur að vísu margt verra hent eitt land en að léleg ríkisstjórn geri lítið. Belgar grínast gjarnan með það að þeim hafi vegnað vel þetta rúma ár sem þeir voru alveg án ríkisstjórnar sökum stjórnmálkreppu eða pattstöðu. En að gamni slepptu þá gengur slíkt ekki upp nema þá í skamman tíma og sá tími er glataður til uppbyggilegra verka. Ríkisstjórn sem ekki fundar sendir með því skilaboð um sjálfa sig sem segja meira en mörg orð.

Steingrímur J. Sigfússon
Höfundur er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

,

Hættiði þessu rugli

Ég er blá­eygur og barna­legur bjáni. Maður sem hefur ekki opnað augun fyrir raun­veru­leik­an­um, heldur lifir í ein­hvers konar sápu­kúlu. Og gott ef ég er ekki á móti Íslend­ingum sem búa við skort, eru fátæk­ir. Allt þetta, og meira til, má lesa út úr þeirri orð­ræðu sem verður sífellt hávær­ari, nefni­lega að þau sem telja að Ísland eigi að leggja meira af mörkum til að aðstoða flótta­fólk og hæl­is­leit­endur séu á móti Íslend­ingum sem lifa við fátækt.

Þetta, kæri les­andi, er bull. Lýð­skrum. Ein af stærstu lygum sam­tím­ans ein­göngu sett fram til að spila á til­finn­ing­ar, bæði jákvæðar og nei­kvæð­ar. Jákvæðar til­finn­ingar um sam­hug gagn­vart löndum okkar sem lifa við skort. Nei­kvæðar til­finn­ingar um ótta við breyt­ing­ar, hið óþekkta.

Ef ein­hver segir þér að það sé ein­hver teng­ing á milli þess sem við sem sam­fé­lag eyðum í aðstoð við flótta­fólk og hæl­is­leit­endur og þess að við eyðum ekki nægu fjár­magni í hús­næði, félags­að­stoð og stuðn­ing við fátæka Íslend­inga, þá er við­kom­andi að ljúga að þér. Hann, eða hún, er á lymsku­legan máta að tengja saman mál sem tengj­ast ekki á nokkurn ein­asta hátt. Ekki frekar en það hvað stjórn­ar­ráð Íslands eyðir í ljós­rit­un­ar­kostnað teng­ist því hvort mal­bikað er í Beru­fjarð­ar­botni eður ei.

Sá, eða sú, sem heldur þessu fram, hefur hins vegar rétt fyrir sér með annan hluta þess­arar fárán­legu jöfnu; nefni­lega það að við sem sam­fé­lag stöndum okkur ömur­lega í því að huga að þeim verst settu. Við eigum ekki að líða það að fólk lifi á lús­ar­launum eða enn lægri bót­um. Við eigum að berj­ast með kjafti og klóm fyrir því að allir hafi aðgang að mann­sæm­andi hús­næði, eigi í sig og á og meira en það; hafi tóm til að sinna sjálfum sér og sín­um, ekki bara skrimta. En þetta hefur nákvæm­lega ekk­ert að gera með flótta­fólk og hæl­is­leit­end­ur, ekki neitt.

Eyðum smá tíma til að fara yfir sög­una. Ætli ein­hvern tím­ann hafi verið það skeið á Íslandi að ein­hverjir bjuggu ekki við sult og seyru, áttu ekki þak yfir höf­uð­ið, þurftu að þræla fyrir lúsa­laun, voru fátækir? Hvernig skýrum við hús­næðiseklu síð­ustu ára­tuga og alda? Hvernig stóð á því að fátækt fólk bjó í bröggum og kart­öflu­geymslum um miðja síð­ustu öld? Í hreysum um miðja þar síð­ustu öld? Voru þrælar vist­ar­bands­ins þar á und­an? Hefur þetta eitt­hvað með flótta­fólk og hæl­is­leit­endur að gera? Nei, nákvæm­lega ekki neitt, ekki frekar en sú ömur­lega stað­reynd að enn lifir fólk við fátækt hefur ekk­ert með flótta­fólk og hæl­is­leit­endur að gera í dag. Ekki neitt.

Þetta hefur hins vegar allt með ósann­gjarna sam­fé­lags­gerð að gera. Með launa­mun. Aðstöðumun. Með það að skatt­kerf­inu sé ekki beitt til jöfn­uð­ar. Með það að sumir græða á tá og fingri, á meðan aðrir lifa við fátækt. Með það að það þyki eðli­legt að launa­munur sé mældur í marg­feldi tuga í verstu til­fell­un­um. Með stjórn­völd sem með aðgerðum sínum ýta undir þau sem best hafa það.

Með síð­ustu rík­is­stjórn, sem breytti skatt­kerf­inu í þágu þeirra sem best stóðu. Með núver­andi rík­is­stjórn, sem við­heldur skatt­kerfi Sjálf­stæð­is­flokks­ins, hönn­uðu fyrir þau ríku.

Með þá stjórn­mála­flokka sem hafa ekki áhuga á að hafa þrepa­skipt skatt­kerfi, svo t.d. ég sem þing­maður borgi hærra hlut­fall af laun­unum mínum í skatt en kenn­ari. Með þá rík­is­stjórn­ar­flokka sem dettur ekki í hug að setja upp þrepa­skiptan fjár­magnstekju­skatt svo þau sem hafa tug­millj­ónir króna í tekjur af fjár­magn­inu sínu borgi hærra hlut­fall í skatt en ung­mennið sem erfði hluta­bréf í Diskó­kúlu­fram­leiðslu Dal­víkur frá afa gamla.

Þetta hefur allt með það að gera að stjórn­mála­flokkar sem eru við völd og hafa verið við völd vilja ekki vinna að auknum jöfn­uði. Finnst í lagi að sjúk­lingar borgi fyrir að vera veik­ir. Að biðlistar séu eftir félags­legu hús­næði. Að hús­næð­is­kostn­aður sé að sliga fólk. Að leigj­endur verði að treysta á vel­vilja leigu­sala. Og þetta hefur allt með þá kjós­endur sem kjósa umrædda flokka að gera.

Fátækt er ekki nátt­úru­lög­mál, þó hún hafi fylgt mann­inum ansi lengi. Hún byggir á þeirri stað­reynd að gæðum sam­fé­laga er mis­skipt, að sumt fólk hefur meira á milli hand­anna en annað fólk. Það er hlut­verk rík­is­valds­ins að sporna gegn fátækt, að vinna að jöfn­uði, að stuðla að vel­ferð. Til þess þarf vilja og kjark.

En það hefur nákvæm­lega ekk­ert að gera með það fólk sem hrekst hingað yfir hálfan heim­inn og leitar hæl­is. Ekki neitt.

Ef þú trúir því, ertu nefni­lega að við­halda því kerfi ójöfn­uðar sem við búum við í dag. Þú ert að ýta undir þá skoðun að afkoma fátæks fólks á Ísland, mögu­leikar þeirra á betra lífi, hafi eitt­hvað með flótta­fólk og hæl­is­leit­endur að gera. Þú ert að draga úr umfangi vand­ans, þú ert að gefa stjórn­völdum afsökun til að gera ekki neitt. Til að stuðla ekki að auknum jöfn­uði. Til að leggja ekki auknar álögur á þau sem best hafa það, á útgerð­ina, á stærri iðn­fyr­ir­tæki, á þau sem eiga nóg af pen­ing­um. Þú ert að gefa afsökun fyrir þessu öllu sam­an. Þú ert að við­halda ástand­inu.

Og þú ert að fara með bull og fleip­ur. Bull sem bygg­ist á hættu­legri afstöðu, því að flótta­fólk og hæl­is­leit­endur eru útlend­ing­ar. Hafðu í það minnsta döngun í þér til að halda fátæku fólki utan við þína for­dóma. Því að þessi skoðun ýtir undir útlend­inga­andúð.

Skömm þeim sem það gera, hvort sem er í stefnu stjórn­mála­flokka eða spjalli fólks sín á milli.

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum  

Raunsæi – endilega

Þegar rætt er um rafvæðingu fólksbílaflotans fyrir 2030 er mikilvægt að að hafa báða fætur á jörðinni. Nóg er af tálsýnum í stjórnmálum. Sannarlega verður að leggja mikla áherslu á þessa breytingu og hún er afar jákvætt framlag í loftslagsmálunum. En þegar greint er nákvæmlega og horft til heildar blasir við að ferlið er flóknara en svo og til eru aðrar jafn mikilvægar aðgerðir eða mikilvægari en rafvæðing fólksbíla, allt eftir samfélagsgeirum. Endurheimt votlendis og uppgræðsla illa farins lands er dæmi um það. Annað dæmi er full rafvæðing hafna.

Framþróun í vistvænum samgöngum fer fram með því að nýta fjölbreyttari orkugjafa en rafmagn. Stærri vinnuvélar og stórir bílar geta og verða að skipta yfir í innlent metan, metanól og lífdísil og vetnisknúnir raffólksbílar og stórir bílar eru ein lausn af nokkrum. Loks verður að koma flota stærri skipa yfir á innlent metan, metanól og lífdísil, jafnvel vetni, en minni skip og bátar ýmist keyra á rafmagni eða innlendu eldsneyti. Íblöndun þotueldsneytis er líka kleif. Engin ein leið getur orðið einhvers konar syndaaflausn fyrir 2030, eða síðar.

Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, harðlega gagnrýndri á Alþingi, er alls ekki nægu fjármagni beint til orkuskipta eða mótvægis­aðgerða gegn loftslagshlýnun. Það er deginum ljósara að 1,6 milljarða króna viðbót til umhverfismála á þremur af fimm árum áætlunarinnar, að frádregnum byggingarkostnaði gestastofa og fleiri bygginga, dugar hvergi nærri til. Í ofanálag á að skera niður framlög til umhverfismála um 300 milljón krónur í tvö ár. Til nýsköpunar reiknast um 120 milljón króna viðbótarframlög á ári að meðaltali í fimm ár og orkuskipti fá um 70 milljón króna framlag í þrjú ár. Það þarf áreiðanlega nýja forystu í því langa og flókna ferli sem orkuskiptin eru, þar sem raunsæi og þekking stjórnmálamanna, fjárframlög samfélagsins, þátttaka almennings og fyrirtækja og þekking sérfræðinga vísar veginn.

Ari Trausti Guðmundsson

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Smá nauðgað, annars fínt

Það er orðið árviss viðburður að fá fréttir af nauðgunum um Verslunarmannahelgi. Sem betur fer virðist ákveðin vitundarvakning hafa orðið í þessum efnum og jafnvel örgustu tréhausar hafa samþykkt víðtækari aðgerðir til að sporna við þeim hryllilega glæp sem nauðgun er. Á stundum hefur manni nefnilega fundist að skipuleggjendur hátíða telji það gefa þeim slæmt orðspor ef það spyrst út að til allra ráðstafana sé gripið til að hamla gegn nauðgunum. Það er auðvitað mikill misskilningur, orðspor hátíða batnar aðeins við það að allra bragða sé beitt til að koma í veg fyrir að sálsjúkir karlpungar nauðgi.

Það er hins vegar umhugsunarefni af hverju það er árviss viðburður að konum sé nauðgað um Verslunarmannahelgi. Stundum finnst manni eins og okkur þyki þetta hvimleiður en óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að smala nokkur þúsund Íslendingum saman á fyllerí. Nauðgun getur aldrei verið eðlileg afleiðing, hún er alltaf brot á öllum þeim siðalögmálum sem hver einstaklingur á að búa yfir.

Ef við erum farin að gera ráð fyrir nauðgunum, þá er eitthvað að. Kannski vantar algjöra umpólun á hugsunarhætti karlmanna (og hér er rúm fyrir forpokaða karlpunga til að nöldra um að konur nauðgi líka og allt það sem gjarnan er notað til að dreifa athyglinni frá stóra vandamálinu; ofbeldi karla gegn konum). Þarf ekki einfaldlega að mennta okkur upp á nýtt? Þarf ekki samstillt átak menntakerfis og allra sem að uppeldi koma til að stimpla það inn í eitt skipti fyrir öll að nauðgun er viðbjóðslegur glæpur gagnvart öðrum einstaklingi, gagnvart mennskunni sjálfri.

Fréttir um Verslunarmannahelgi snúast oftar en ekki um hátíðirnar. Í útvarpinu má heyra að svo og svo margar nauðganir hafi verið tilkynntar, svo margir verið lamdir og þetta mikið af fíkniefnum hafi fundist. Síðan er gjarnan í sömu frétt sagt að allt hafi nú gengið vel að öðru leyti og gjarnan spilaður bútur af brekkusöng og viðtal við fullt, hresst fólk.

Þetta er furðulegt. Það er ekki ósvipað því að segja frá því að maður hafi verið stunginn í partýi og liggi nú á gjörgæslu, en teitið hafi nú að öðru leyti gengið vel, mikið stuð verið á fólki og hér má heyra partýgesti syngja Undir bláhimni. Eða að bílferð hafi nú verið hin skemmtilegasta fram að því að bíllinn keyrði út af og amma dó.

Nauðgun er viðbjóðsleg. Þeir sem nauðga eru viðbjóðslegir. Fréttir af slíkum viðbjóði á ekki að flétta saman við frásagnir af almennri skemmtun.

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. 

Æ Björt, svaraðu mér

Hæstvirtur umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir. Vonandi misvirðir þú þetta opna bréf ekki við mig, eða heldur að ég láti formlegheit þingsalarins lönd og leið og ávarpi þig einungis með fornafni.

Þannig er nefnilega mál með vexti, Björt, að 24. maí var fyrirspurn minni til þín dreift á Alþingi. Ég var í sjálfu sér ekkert að stressa mig á svarleysinu strax, en nú er svo komið að það er liðinn 71 dagur án svars og 51 virkur dagur. Og þar sem ég veit að þú berst gegn fúski, Björt, undra ég mig pínulítið á þessu, samkvæmt lögum um þingsköp ber þér nefnilega að svara mér „eigi síðar en 15 virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð“.

Trauðla mundi ég þó angra þig með þessu ef málefnið væri ekki ansi brýnt. Þetta snýst nefnilega um línulagnir á og við vatnsverndarsvæði. Í þeim málum hefur heilmikið gerst í sumar á meðan þú hundsaðir lög um þingsköp og svaraðir mér ekki. Hér er annars fyrirspurnin:

1. Telur ráðherra, í ljósi þess að í Áhættumati vegna vatnsverndar fyrir Sandskeiðslínu 1 og tengivirki á Sandskeiði, sem verkfræðistofan EFLA gerði fyrir Landsnet og birt var í febrúarbyrjun 2017, er bent á hættu á mengun vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins meðan á framkvæmdum við Sandskeiðslínu 1 og tengivirki stendur, að færa skuli áformaða háspennulínu fjær vatnsbólunum?

2. Hvernig telur ráðherra að haga beri eftirliti með framkvæmdum, skilyrðum um magn og meðferð mengandi efna á vatnsverndarsvæðunum og öðrum mengunarvarnarráðstöfunum ef af lagningu Sandskeiðslínu 1 verður um þær slóðir sem nú er gert ráð fyrir?

3. Telur ráðherra, í ljósi Hæstaréttardóms í máli nr. 575/2016, þar sem fellt var úr gildi framkvæmdaleyfi og umhverfismat vegna Suðurnesjalínu 2, sem einnig tók til Sandskeiðslínu 1, að gera þurfi nýtt umhverfismat vegna Sandskeiðslínu 1?

Það sem hér er kallað Sandskeiðslína 1 heitir nú Lyklafellslína. Spurningar standa hins vegar og það er brýnt að fá svör, því nú er komið að veitingu framkvæmdaleyfis. Björt, gerðu það svaraðu mér.

E.s. Ég hef farið fram á fund í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um þessa línulögn og það væri nú gaman að hafa fengið svar fyrir hann.

Kolbeinn Óttarsson Proppé,
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna