Lægri kosningaaldur 2018

Á Alþingi liggur fyrir frum­varp frá þing­mönnum sex flokka um að ald­urs­mörk kosn­inga­réttar í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum verði við 16 ára aldur í stað 18 ára eins og nú er. Ef frum­varpið verður að lögum fyrir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar árið 2018 munu nærri því 9.000 manns  í við­bót fá tæki­færi til að hafa með atkvæði sínu áhrif á mik­il­vægar ákvarð­anir sem varða líf þeirra og umhverf­i.

Í síð­ustu kosn­ingum hefur þátt­taka ungs fólks verið dræm­ari en eldri kyn­slóða. Þetta er sér­stakt áhyggju­efni, ekki síst vegna þeirra áskor­ana sem bíða þessa unga fólks, til dæmis á sviði umhverf­is­mála svo nær­tækt dæmi sé nefnt. Til að tryggja að sjálf­bærni verði leið­ar­ljós í öllum ákvörð­unum þurfa  stofn­anir sam­fé­lags­ins að efla sam­ráð sitt við ungt fólk og það er mik­il­vægt að ungt fólk hafi áhrif á allar ákvarð­anir sam­fé­lags­ins.

Dræm þátt­taka ungs fólks var sér­stak­lega áber­andi í síð­ustu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum 2014 þar sem kosn­inga­þátt­taka fólks undir þrí­tugu var 47,5% en með­al­kjör­sókn 66,5%. Þátt­taka var betri bæði í for­seta­kosn­ingum og alþing­is­kosn­ingum 2016 enda mikið starf unnið í aðdrag­anda síð­ustu þing­kosn­inga til að glæða áhuga ungs fólks. Lands­sam­band æsku­lýðs­fé­laga og Sam­band íslenskra fram­halds­skóla­nema stóðu til dæmis fyrir vit­und­ar­vakn­ingu með því að halda fundi ungs fólks um allt land með fram­bjóð­endum og skipu­leggja skugga­kosn­ingar í fram­halds­skól­um.

Allvíða hafa verið stigin skref í þá átt að lækka kosn­inga­aldur en mis­jafnt er eftir ríkjum hversu langt hefur verið geng­ið.  Aust­ur­ríki var fyrsta landið til að stíga það skref að lækka kosn­inga­aldur í 16 ár í öllum kosn­ingum árið 2007 og kjör­geng­is­aldur í 18 ár nema í for­seta­kosn­ingum þar sem hann er 35 ár. Annað dæmi um lækkun kosn­inga­ald­urs var við þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði Skotlands árið 2014. Almennt þótti hún takast prýði­lega með til­liti til lýð­ræð­is­legra sjón­ar­miða og á grund­velli þess­arar jákvæðu reynslu sam­þykkti skoska þingið með stór­auknum meiri­hluta árið 2015 að lækka kosn­inga­aldur í þing- og sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum úr 18 árum í 16 ár. Mörg önnur Evr­ópu­ríki hafa stigið skref í þessa átt en þing Evr­ópu­ráðs­ins sam­þykkti árið 2011 ályktun um aukið lýð­ræði þar sem því er beint til aðild­ar­ríkja að gera ráð­staf­anir til að efla þátt­töku ung­menna á vett­vangi sam­fé­lags­ins, m.a. með því að kanna hvort rétt sé að lækka kosn­inga­aldur almennt í 16 ár.

Lýð­ræði þarf stöðugt að þroska og efla og það er mik­il­vægt að fest­ast ekki í gömlum aðferðum eða reiða sig á ein­hverja eina aðferð til að efla lýð­ræði. Kosn­inga­aldur er eitt en það eru mörg önnur atriði sem skipta máli. Þess vegna var ákveðið að leggja sér­staka áherslu á lýð­ræð­is­menntun í aðal­námskrá frá árinu 2011 en þar eru lýðræði og mann­rétt­indi meðal sex grunn­þátta aðal­námskrár. Þar er gert ráð fyrir að nem­endur kynn­ist lýð­ræð­is­legum vinnu­brögðum og lífi og starfi í lýð­ræð­is­sam­fé­lagi. Mörg dæmi eru um frá­bær verk­efni á þessu sviði á öllum skóla­stig­um, í leik­skól­um, grunn­skólum og fram­halds­skól­um. Það er hins vegar ekki óeðli­legt að þess­ari auknu áherslu á lýð­ræð­is­menntun ungs fólks fylgi líka tæki til auk­innar ábyrgðar og áhrifa með því að lækka kosn­inga­ald­ur­inn. Í frum­varp­inu er lagt til var­færið skref, að ald­ur­inn verði lækk­aður í 16 ár í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum og að mörgu leyti fer vel á því að miða kosn­inga­ald­ur­inn við skil skóla­stiga.

Um leið stuðlum við von­andi að auk­inni þátt­töku ungs fólks í stjórn­málum og lýð­ræð­is­legri ákvarð­ana­töku sem er lyk­il­at­riði í sam­fé­lagi sem þarf á því að halda að við tökum öll þátt og tökum öll ábyrgð.

Keisarinn er ekki í neinum fötum

Sjaldan hafa menn orðið vitni að jafn afgerandi afhjúpun á blekkingaleik stjórnvalda eins og á ársfundi Landspítalans í gær. Þegar fundinum lauk stóð aðeins eitt eftir: Myndin af keisaranum sem er ekki í neinum fötum!

Í kjölfar kraftmikillar undirskriftasöfnunar um meira fé í heilbrigðisþjónustuna s.l. haust lofuðu núverandi stjórnarflokkar, allir sem einn, að þeir myndu sannarlega efla innviði heilbrigðiskerfisins fengju þeir til þess atkvæði. Og í stjórnarsáttmála þeirra segir að heilbrigðismálin verði sett í forgang. Það þykist ríkisstjórnin nú hafa gert og vel það með ríkisfjármálaáætlun til 2022 – þar sem litlum 45 milljörðum til viðbótar verði varið inn í málaflokkinn og hafi aldrei verið meira! Á fundinum var flett ofan af þessum blekkingum á beinskeyttan hátt og mátti greina vonbrigði og jafnvel reiði í garð stjórnvalda í salnum.

45 milljarðar verða -5,2

María Heimisdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans rakti fullyrðinguna um 45 milljarða króna aukningu til heilbrigðisþjónustunnar upp í frumeindir – og eftir stendur að það eru 5,2ja milljarðar króna í mínus!

Hvernig má það vera? Jú, 35,6 milljarðar fara í fjárfestingar vegna byggingar nýs Landspítala. Þá eru eftir 9,4. Af þeim fara 2 milljarðar til ráðstöfunar hjá Sjúkratryggingastofnun Íslands vegna aðgerða erlendis. Þá eru eftir 7,4 milljarðar fyrir alla innlenda þjónustu í fimm ár. Vegna fólksfjölgunar eykst þjónustuþörfin um 1% á ári sem krefst 4,4 milljarða. Þá eru eftir 3 milljarðar. Eyrnamerkt verkefni eins og rekstur nýja jáeindaskannans og áframhaldandi átak í biðlistamálum kostar 8,2 milljarða! Öll eru þau verkefni mikilvæg og ef þau verða framkvæmd vantar 5,2 milljarða inní áætlunina. Hvar á að taka það fé?

Að falla í bókfærslu 101

Eitt af því fyrsta sem menn læra í bókfærslu og reikningshaldi er að gera greinarmun á útgjöldum í rekstur og fjárfestingar, enda þarf áfram að gefa börnunum grjónagrautinn þótt menn séu að byggja hús! En þetta er ekki gert í ríkisfjármálaáætluninni – þar er öllu blandað saman: 45 milljarða aukning í heilbrigðisþjónustu er það kallað þar enda þótt 90,5% fari í húsbyggingar og aðeins 9,5% í rekstur. Einhvern tíma hefði maður nú fallið á prófi í framhaldsskóla fyrir minna!

Við þetta má bæta að 90% fjárins kemur ekki inn í kerfið skv. áætluninni fyrr en síðustu tvö árin fyrir næstu kosningar.

 

Flett ofanaf blekkingu í beinni

Á blaðsíðu 81 í ríkisfjármálaáætluninni er að finna rökstuðning og forsendur fyrir framlögum til heilbrigðismála. Þar er birt samanburðartafla sem á að sýna heildarframlög til heilbrigðismála á Norðurlöndunum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. María Heimisdóttir fjármálastjóri Landspítalans sagði að það hefði vakið athygli manna hversu lágar tölurnar væru, t.d. aðeins 6,9% í Svíþjóð, og hversu vel Ísland kæmi út í samanburðinum, 7,4% og rétt neðan við heildarmeðalatalið sem er sagt 7,8%.

 

Við nánari athugun kom í ljós að forsendur fjármála- og efnahagsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins eru ekki þær sömu og í fyrri fjárlögum. Þær eru allt aðrar en þær sem hingað til hafa verið notaðar og eru notaðar í öllum löndunum, til að bera saman útgjöld til heilbrigðismála. Tölurnar í fjármálaáætluninni sýna útgjöld skv. ríkisreikningi en ekki viðmiðum OECD um heilbrigðisþjónustu sem birtast reglulega í ritinu Health at a Glance, og hingað til hafa verið notuð á Íslandi. Ef Health at a Glance er sett í leitarstreng á vef velferðarráðuneytisins kemur upp heil síða með samanburði allt frá árinu 2005 a.m.k.

Hvern er verið að blekkja með þessari nýstárlegu framsetningu? Augljóslega er verið að gefa í skyn að heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé ekki undirfjármögnuð – jafnvel betur fjármögnuð en í Svíþjóð! Tilgangurinn er svo augljós að aftur kemur keisarinn góði upp í hugann. En það er gengið lengra: Á sömu blaðsíðu, nr. 81 í ríkisfjármálaáætluninni þar sem fjallað er um töfluna góðu segir:

„… Á sviði heilbrigðismála er hlutfallið aðeins lægra hér en á hinum Norðurlöndum. … Sé opinber þjónusta lakari hér á landi en á öðrum Norðurlöndum og árangur lakari er skýringanna ekki að leita í lægri fjárframlögum.“

Er nema von að stjórnendum Landspítalans hafi brugðið?

Að afneita staðreyndum

Á spítalanum eru teknar saman allar mögulegar og ómögulegar tölur um starfsemina – þannig er nákvæmlega vitað hversu margir komu í gær á þessa deildina eða hina, hvað aðgerðir voru margar í fyrradag og hvað hver þeirra kostaði. Áætlanir spítalans eru þess vegna mjög nákvæmar, byggðar á staðreyndum og reynslu. – Hvernig má það vera, spurði Páll Matthíasson forstjóri, að velviljaðir stjórnmálamenn neita að horfast í augu við blákaldar staðreyndir? Eru tölurnar of margar, of nákvæmar?

S.l. laugardag var gengið um heim allan til að mótmæla afneitun stjórnmálamanna á staðreyndum og niðurstöðum vísindalegra rannsókna. Í fréttatíma sjónvarps tók vísindamaður tvö dæmi: Afneitun á því að loftslagsbreytingar séu af manna völdum þrátt fyrir að allar rannsóknir sýni annað, og afneitun á afleiðingum þess að selja brennivín í búðum – sem hefur ítrekað verið sýnt framá víða um heim. Hvort tveggja með vísindalegum rannsóknum.

Sjálfur sagðist forstjórinn vera jafn fyrirsjáanlegur og Lúðrasveitin Svanur sem birtist á sumardaginn fyrsta – árlega fer hann fyrir fjárlaganefnd og ráðuneyti og reynir að skýra tölurnar og stöðuna. En þótt þannig hafi ítrekað verið sýnt framá að spítalinn er undirfjármagnaður hafna ráðamenn tölulegum staðreyndum og útreikningum – ef þeir sýna annað en þeim þóknast. Er þetta boðlegt?

Álfheiður Ingadóttir er formaður félags VG í Reykjavík og fyrrverandi heilbrigðisráðherra.

Ekki benda á mig

Álfheiður Ingadóttir skrifar:

Hefur verið tekin ákvörðun um að taka upp tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi? Og ef svo er, hver tók þá ákvörðun? Og hvenær var hún tekin? Hvor hefur rétt fyrir sér landlæknir eða heilbrigðisráðherra um starfsleyfi Klínikunnar? Er einkasjúkrahúsið þar ólöglegt eða löglegt? Hver ber ábyrgðina þegar ráðherrann, yfirmaður málaflokksins segir: Ekki benda á mig?

ÁlfheiðurÞað er von að spurt sé. Í Klínikinni í Ármúla er nú komin fimm daga legudeild á einkasjúkrahúsi –  án þess að hafa tilskilið starfsleyfi að mati landlæknis.Óttar Proppé heilbrigðisráðherra gerir engar athugsemdir við starfsemina en hefur því miður lagt sig fram um að afvegaleiða umræðuna bæði innan þings og utan og forðast nú fjölmiðla eins og heitan eldinn.

Ég man ekki til þess að landlæknir hafi áður fundið sig knúinn til að senda frá sér yfirlýsingu vegna aðgerða eða aðgerðaleysis yfirmanns síns, yfirlýsingu sem er harkalegur áfellisdómur yfir heilbrigðisráðuneytinu og ráðherranum.

Í yfirlýsingunni fer landlæknir yfir umræðu um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem hann segir ruglingslega  – og bendir á að það sé hlutverk embættisins að staðfesta hvort faglegar lágmarkskröfur séu uppfylltar en það sé ráðherrans að veita starfsleyfi til sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu ef og þegar slík staðfesting liggur fyrir. Reyndar er erfitt að lesa lögin og komast að annarri niðurstöðu. Ráðherrann segir hins vegar að það sé landlæknis að veita starfsleyfið og gefur í skyn að það hafi hann þegar gert í janúar s.l með staðfestingu á því að faglegar kröfur séu uppfylltar í Ármúlanum. Sjálfur ætli ráðherrann ekki að semja um aðkomu ríkisins að þessu einkasjúkrahúsi og því sé hann stikkfrí.

Samkvæmt þessu, eins og landlæknir bendir á, getur hver sá sem hefur vottorð embættisins um að faglegar lágmarkskröfur séu uppfylltar (sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um landlækni) byrjað að reka sjúkrastofnun fyrir eigin reikning án frekari aðkomu ríkisvaldsins eða með samningi við Sjúkratryggingastofnun. Svo vitnað sé í orð landlæknis:

„Meðan svo er, er vandséð hvernig heilbrigðisyfirvöld geta haft stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur til heilbrigðismála og hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi.“

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins

Ef afstaða ráðherrans stenst lög þá er nú þegar komið upp á Íslandi tvöfalt heilbrigðiskerfi; eitt fyrir þá sem geta borgað beint úr eigin vasa og annað fyrir þá sem njóta þjónustu sem borguð er eða niðurgreidd af ríkissjóði.

Oft er bent á að svokallaður einkarekstur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi er útbreiddur en þá vill gleymast að hann er margs konar: Með eða án samninga um greiðslur frá ríkinu og með eða án arðgreiðslna til eigenda.

Þegar einkarekin heilbrigðisstofnun er með samning við ríkið, má ekki, skv. lögum, taka hærra gjald af sjúklingnum fyrir þjónustuna en á opinberri stofnun. Þessar samningsbundnu stofnanir eru tvenns konar og eðlisólíkar: Annars vegar þær sem eru reknar í gróðaskyni og svo hinar sem eru reknar sem sjálfseignarstofnanir þar sem arðurinn fer til þess að bæta þjónustuna. Á þessu tvennu er mikill munur aðallega sá að greiðsla ríkisins rennur í vasa fjárfesta sem gera út á velferðarkerfið sem er orðið alþekkt viðskiptamódel á Norðurlöndunum og rannsóknir sýna reyndar að er dýrara fyrir ríkið en að reka þjónustuna sjálft.

Dæmi um það síðarnefnda er Reykjalundur, Hjartavernd, Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og Hrafnista. Dæmi um hið fyrrnefnda, þar sem arður er tekinn út úr rekstrinum og rennur til fjárfesta eða eigenda er Sóltún, einkareknar læknamiðstöðvar og heilsugæslustöðvar (Lágmúli, Salastöðin). Ríkið borgar sitt og sjúklingurinn finnur ekki muninn í buddunni hjá sér.

Loks er það svo prívatið – einkavædda þjónustan þar sem ríkið tekur engan þátt í kostnaðinum en sjúklingar greiða reikninginn einir. Flestir þekkja af eigin reynslu skýrasta dæmið um þessa þjónustu – tannlækningar fullorðinna (tannlækningar barna og ungmenna fengust nýlega niðurgreiddar), þar sem sjúklingurinn verður bara að borga það sem upp er sett skv. gjaldskrá (lítið um valfrelsi þar). Sama er að gerast í einkasjúkrahúsi Klínikunnar við Ármúla. Þar kostar bæklunaraðgerð t.d. litlar 1,2 milljónir króna.

 Hættan við tvöfalt kerfi

Umræðan um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni hefur sannarlega verið ruglingsleg eins og landlæknir bendir á. Og ótrúlega lítið hefur verið rætt um þær hættur sem felast í upptöku tvöfalds heilbrigðiskerfis.

Það er auðvelt að slá fram frasanum um að þeir sem eiga nóg af peningum eigi að hafa val um það að borga sjálfir fyrir sínar aðgerðir frekar en að bíða eins og hinir sem ekki eru eins vel fjáðir. Það er líka auðvelt að fullyrða að með því móti styttist bara biðin fyrir okkur hin og jafnvel halda því fram að þeir sem eiga nóga peninga eigi bara sjálfir að borga. Þessi röksemdafærsla stríðir hins vegar gegn einni megin forsendunni sem velferðarkerfið okkar er byggt á: Að allir eigi að hafa jafna möguleika á því að fá bestu mögulega heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags.

Þegar búið er að staðfesta tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustu er komið að næsta skrefi sem er krafan um að teknar verði upp frjálsar sjúklingatryggingar, til að menn séu viðbúnir því að borga það sem upp er sett í prívatinu. Þannig hefur þróunin verið á Norðurlöndunum og þessar kröfur hafa þegar heyrst hér, m.a. frá Krabbameinsfélagi Íslands fyrir nokkrum árum. En hvað gerist svo þegar menn eru farnir að borga fyrir aðgerðirnar sínar úr eigin vasa eða gegnum tryggingarnar? Þá vaknar spurningin: Af hverju ætti ég að vera að borga skatta svo aðrir, sem ekki kaupa sér tryggingar, geti notið heilbrigðisþjónustu? Og þá er samábyrgðin horfin og við komin í ameríska módelið, einkavædda heilbrigðisþjónustu, sem er sú dýrasta í heimi, heilbrigðisþjónustu, sem ekki er greidd úr sameiginlegum sjóðum (Obamacare er á útleið aftur) heldur verður hver og einn – í gegnum vinnuveitanda eða tryggingafélag að borga fyrir sig sjálfur. Missi hann vinnuna, hafi verið veikur sem barn eða sleppi því að borga iðgjald er voðinn vís.

Viljum við þess konar samfélag? Nei reyndar ekki. Rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar vilja að heilbrigðisþjónustan sé fyrir alla og kostuð úr sameiginlegum sjóðum. Og það sem meira er: 86.761 kjósandi krafðist þess að heilbrigðiskerfið verði endurreist og að ríkið leggi meira af mörkum til að bæta þjónustuna við alla, ekki bara suma. Og það stóð ekki á loforðum formanns Bjartrar framtíðar þá, þess sama Óttars Proppé og nú er ábyrgur fyrir þessari skelfilegu þróun.

 Átök um valdmörk 

Sjúkrahúsrekstur Klínikunnar er ólöglegur að mati landlæknis þar sem tilskilið starfsleyfi ráðherra liggur ekki fyrir. En hvað gerist svo? Getur landlæknir stöðvað starfsemina? Eða hefur ráðherra síðasta orðið? Líka þegar hann þegir?

Þetta mál er skólabókardæmi um löngu fyrirséð átök um valdmörk milli embættis landlæknis og framkvæmdarvaldsins, þ.e. heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratryggingastofnunar. Sérlög um landlækni voru fyrst sett 2007 (41/2007) og var markmiðið að skerpa á eftirlits- og stjórnsýsluhlutverki embættisins. Landlæknir ber ábyrgð á hinni faglegu hlið heilbrigðisþjónustunnar en valdsvið og sjálfstæði embættisins er þó takmarkað á ýmsan hátt í lögunum og lýtur embættið yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Þannig má skjóta öllum ákvörðunum embættisins til ráðherra sem getur breytt niðurstöðunni.

Erfitt er að sjá hvernig embættið getur gegnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti, þar sem ráðherra hefur ævinlega síðasta orðið. Leggist landlæknir gegn því að viðkomandi rekstraraðili fái rekstrarleyfi hefur ráðherra vald til að úrskurða á annan veg og leyfa viðkomandi rekstur þvert á faglegt mat landlæknis.

Styrkja þarf landlæknisembættið

Að mínu mati á embætti landlæknis að vera algerlega sjálfstætt og heyra beint undir Alþingi á sama hátt og ríkisendurskoðandi og umboðsmaður alþingis og reyndar flutti ég tillögu um það  2008 á þinginu. Þannig er unnt að styrkja stöðu embættisins sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar, efla faglegt sjálfstæði gagnvart ráðuneyti og heilbrigðisstofnunum og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra t.d. í kvörtunarmálum. Sem óháð og sjálfstæð stofnun getur embættið verið raunverulegur fulltrúi og talsmaður almennings gagnvart framkvæmdarvaldinu – og haft allt aðra stöðu gagnvart heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum, sem er ómögulegt meðan það lýtur yfirstjórn framkvæmdavaldsins og boðvaldi ráðherrans.

Metnaðarfullt fæðingarorlofskerfi: hvenær og hvernig?

Hér var brautin rudd

Þótt velferðarkerfið íslenska hafi á mörgum sviðum aldrei náð sambærilegum þroska og á hinum Norðurlöndunum, einkum Skandinavísku löndunum, og við oftast fremur elt þróunina en rutt brautina, eru þó undantekningar þar á. Þar kemur fæðingarorlofið upp í hugann. Það var framsækin jafnréttishugsun í því á sínum tíma þegar báðum foreldrum var tryggður sjálfstæður og óframseljanlegur réttur til töku fæðingarorlofs. Á mannamáli þýddi þetta að réttindi og skyldur beggja foreldra til að annast um og njóta samvista við barnið voru lagðar til grundvallar og kölluðust á við rétt barnsins til hins sama.

Með þessu móti voru feður kallaðir til þátttöku og dregnir inn í ábyrgð á umönnun ungbarna með kraftmiklum hætti og áhrifin létu ekki á sér standa. Auðvitað skiptu viðhorf hér einnig máli og vaxandi þungi umræðu um jafnréttismál, en til samans leiddi þetta til þess að feður hófu töku fæðingarorlofs í stórauknum mæli. Þegar best lét tóku yfir 90% feðra fæðingarorlof og flestir nýttu sér til fulls a.m.k. sinn sjálfstæða þriggja mánaða rétt. Margir tóku einnig hluta af sameiginlegum eða yfirfæranlegum rétti beggja foreldra.

Hröð þróun fæðingarorlofs hér á árunum um og eftir aldamótin vakti athygli á alþjóðavísu og Ísland varð fyrirmynd. Um jákvæð áhrif þess að jafna aðstöðumun kynjanna á vinnumarkaði þarf ekki að deila, réttur barnsins til samneytis við báða foreldra raungerðist í ríkum mæli og réttindi og skyldur beggja foreldra voru undirstrikuð eins og áður sagði.

En, það sem á vantaði og vantar því miður enn, er að fæðingarorlof hér var aldrei lengt umfram níu mánuði. Þar stóðum við og stöndum enn okkar helstu samanburðarlöndum að baki, þar sem orlofsrétturinn er eitt ár eða meira.

Svo kom Hrunið

En svo kom eitt stykki efnahagshrun og grípa varð til víðtækra og um margt sársaukafullra ráðstafana. Það þurfti jú að slökkva elda, bjarga úr rústunum og endurheimta efnahagslegt sjálfstæði landsins en samtímis halda gangvirki samfélagsins á hreyfingu eins og mögulegt var. Óhjákvæmilegt var að draga úr útgjöldum, einnig ýmsum velferðartengdum, þó almennt væri þeim geira hlíft umfram allt annað. Hér undir fellur fæðingarorlofið. Grunngerð þess var varin, þ.e. orlofið var áfram níu mánuðir sem skiptust í þrjá mánuði móður, þrjá mánuði föðurs og þriggja mánaða sameiginlegan/millifæranlegan rétt. Hámarksgreiðsla eða „þak“, sem áður hafði verið innleitt var hins vegar lækkað verulega til að draga úr kostnaði.

Og þá færumst við nær núinu og því sem við blasir í dag. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem hlaut þetta öfundsverða hlutskipti að taka til í rústum hrunsins og koma Íslandi aftur á lappirnar, ber vissulega fulla ábyrgð á því að hámarksgreiðslurnar voru lækkaðar. En, í því tilviki eins og fleirum, var um hreina og tímabundna neyðarráðstöfun að ræða. Þau fyrirheit voru gefin að um leið og úr rættist og betur áraði yrði skerðingum skilað til baka og gott betur en það. Þá yrði haldið áfram að bæta kerfið, les lengja rétt til fæðingarorlofs, uns það stæðist fyllilega samanburð við það sem best gerðist á norræna/evrópska vísu. Tímasett áætlun þar um var lögfest undir lok kjörtímabilsins 2009-2013, enda Ísland þá þegar að komast út úr mestu erfiðleikunum, ríkisfjármálin komin í jöfnuð, hagvöxtur á þriðja ári og horfur orðnar ágætar.

Nýir herrar skera

En rétt fyrir mitt ár 2013 komu nýir menn, ungir og galvaskir, til forustu í ríkisstjórn. Sem sagt þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson og eitt þeirra fyrsta verk var að slá af fyrirhugaða og lögfesta endureisn og styrkingu fæðingarorlofskerfisins. Og því miður létu þeir ekki þar við sitja því í framhaldinu var tekjustofn fæðingarorlofssjóðs því sem næst helmingaður. Hlutdeild sjóðsins af tryggingagjaldsstofninum, sem hafði verið 1,2%, var færð niður í núverandi 0,65%. Mismuninn hirti ríkissjóður því tryggingagjald í heild var tæpast merkjanlega lækkað þrátt fyrir fallandi atvinnuleysi. Þessi atlaga að fæðingarorlofskerfinu var ekki síður alvarleg en sú að fella lög um lengingu þess úr gildi. Hefði fæðingarorlofssjóður fengið að halda sinni hlutdeild af tryggingargjaldi að mestu eða öllu leyti væri hann fullfær um að mæta útgjöldum í dag bæði vegna hækkunar hámarksgreiðslna, þaksins, og lengingar í eitt ár. Að sama skapi er staðan þannig nú vegna lækkunarinnar að sjóðurinn gengur á eigið fé eftir að þakinu var lyft í 500 þúsund krónur korteri fyrir síðustu kosningar.

Að sjálfsögðu var mikilvægt að lyfta þakinu og þó fyrr hefði verið. Lækkandi hlutfall feðra sem tekur fæðingarorlof og sú staðreynd að hækkandi hlutfall þeirra sem það þó gera fullnýta ekki sinn rétt eru sterk skilaboð í þá átt að greiðsluþakið hafi verið of lágt. En þar með er ekki sagt að einblína eigi á þann þátt einan og ýta öllum áformum um lengingu fæðingarorlofs til hliðar. Annað þarf ekki og á ekki að vera á kostnað hins.

Aftur nýtt fólk við stýrið en áfram beygt til hægri

Og nú er enn komin ný áhöfn í Stjórnarráðið. Stefnan er að vísu meira og minna sú sama og síðast nema heldur hægri sinnaðri. Ekki vantaði fögur orð í aðdraganda kosninga sl. haust um vilja til að efla innviði og auka velferð. Engu að síður reynist metnaðurinn ekki meiri en svo þegar kemur að því að bæta fæðingarorlofskerfið, samanber fjármálaáætlun til fimm ára, að ekki stendur meira til en að lyfta þakinu úr 500 þúsund í 600 þúsund krónur í skrefum einhvern tímann á áætlunartímabilinu. Ekki orð um lengingu fæðingarorlofs þar að finna. Ekki orð um að taka skref til þess að brúa bilið, gjána, milli fæðingarorlofs og leikskóla. Spurningin æpir á alla viðkomandi. Hvenær ef ekki nú og á næstu misserum þegar svona vel árar á að taka hin metnaðarfullu skref?

Áherslur Vinstri grænna

Að mati okkar Vinstri grænna er meira en tímabært að lögfesta metnaðarfulla áætlun um þau skref sem stíga þarf til að ljúka uppbyggingu fæðingarorlofskerfis í fremstu röð á Íslandi. Engan minni metnað eigum við að hafa í þessum efnum. Eða hvenær á að gera það ef ekki nú? Við erum á sjöunda ári samfellds hagvaxtar, verðmætasköpun, landsframleiðsla, er meiri en nokkru sinni fyrr en fæðingartíðni er á hraðri niðurleið og við því þarf að bregðast.

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang helst Íslandi ekki nógu vel á ungu fólki og flutningsjöfnuðurinn hvað það snertir er neikvæður ár eftir ár. Með öðrum orðum, okkur tekst ekki nógu vel að skapa barnvænt og fjölskylduvænt samfélag og þar á hin óbrúaða gjá milli fæðingaorlofs og inntöku á leikskóla örugglega sinn þátt. Þessa gjá viljum við Vinstri græn brúa og höfum reyndar fengið samþykkt á Alþingi að unnið skuli að því. Lenging fæðingarorlofsins er að sjálfsögðu liður í þessu öllu saman.

Og auðvitað þarf meira til en lengingu eina saman í eitt ár að minnsta kosti. Fæðingarstyrk til þeirra sem ekki njóta réttar í fæðingarorlofskerfinu þarf að hækka verulega og tryggja að allir sem eignast börn njóti réttar annað hvort til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks. Þá er að mati undirritaðs mikilvægara að tryggja nú að lágmarksgreiðsla fæðingarorlofs, gólfið, fylgi lægstu launum og fari í 300 þúsund krónur á næsta ári en að hækka þakið enn frekar. Fimm hundruð þúsund króna þak þýðir jú óskertar greiðslur þar til laun eru komin á sjöunda hundrað þúsund, sbr. 80% regluna. Samhliða lengingu er einnig mikilvægt að auka sveigjanleika til töku þannig að hægt sé að geyma og taka út með hléum einhvern hluta fæðingarorlofs allt til þess að barn kemst á grunnskólaaldur. Foreldrar geti þannig geymt einhvern hluta fæðingarorlofs og nýtt viku eða vikur t.d. þegar barn er í aðlögun á leikskóla og/eða að hefja grunnskólagöngu.

Þá þarf einnig að fara yfir hvort rýmka eigi í vel afmörkuðum tilvikum heimildir til yfirfærslu alls fæðingarorlofs til einstæðra foreldra þegar hinu foreldrinu er ekki til að dreifa í þeim skilningi að aðstæður leyfi skipta töku. Hér þarf þó að stíga mjög varlega til jarðar þannig að bit hins sjálfstæða réttar beggja foreldra í jafnréttiskilningi haldi sér.

Frumvarp Vinstri grænna tilbúið til afgreiðslu – notum færið

Nú vill svo vel til að í velferðarnefnd bíður fullbúið, og nánast fullrannsakað til afgreiðslu, frumvarp okkar Vinstri grænna um lengingu fæðingarlofs í eitt ár. Lögð er til samsvarandi hækkun á hlutdeild fæðingarorlofssjóðs í tryggingargjaldi, án þess að hækka tryggingargjald í heild, til að mæta útgjöldunum. Nú er eðlilegt og lýðræðislegt að reyni á hvar meirihlutavilji Alþingis liggur. Umsagnir um málið eru yfirgnæfandi jákvæðar og er ekki vilji allt sem þarf?

 

Steingrímur J. Sigfússon

 Höf. er þingmaður Vinstri grænna og situr í velferðarnefnd Alþingis.

Dapurleg fjarvera Íslands

Dagana 27. til 31.mars síðastliðinn komu 132 ríki saman í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna til þess að hefja viðræður um gerð alþjóðasamnings sem banna myndi tilvist kjarnorkuvopna. Ísland tók ekki þátt í viðræðunum frekar en flestöll önnur Natóríki.

Undirbúningur þessara viðræðna hefur staðið yfir í nokkur ár en því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki sýnt þeim áhuga. Það vakti til að mynda athygli á árinu 2015 þegar Ísland greiddi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna atkvæði gegn tillögu um slíkt bann en eftir umræðu í fjölmiðlum, í utanríkismálanefnd og á Alþingi var þeirri afstöðu breytt í hjásetu við seinni atkvæðagreiðslu. Ísland greiddi svo að lokum atkvæði gegn því að boðað væri til viðræðnanna í mars.

Þótt minna sé talað um kjarnorkuvopn nú en þegar kalda stríðið stóð sem hæst er fátt sem ógnar mannkyni meira. Ríkin sem búa yfir kjarnorkusprengjum eru níu talsins og áætlað að sprengjurnar séu tæplega 15 þúsund í allt. Þær eru vissulega færri en þegar verst lét á tímum kalda stríðsins en tækniþróun hefur gert það að verkum að þær eru öflugri og hreyfanlegri en áður. Verði kjarnorkuvopnum beitt mun það alltaf leiða til hörmunga fyrir milljónir manna.

Því meiri orku og fjármunum sem varið er í þróun kjarnorkuvopna, því erfiðara verður að uppræta þau og koma í veg fyrir að þeim verði að lokum beitt á nýjan leik. Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld kjósi að fylgja kjarnorkubandalaginu Nató í þessum efnum í stað þess að skipa sér í sveit með meira en 130 þjóðum til að vinna að þessu brýna máli.

Hverjir styðja samdrátt til þróunarmála?

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar til næstu 5 ára, kemur fram að Ísland ætlar að draga mun meira úr framlögum til þróunarmála en síðasta ríkisstjórn ákvað. Einnig stendur til að fækka samstarfslöndum í Afríku. Verði áætlunin samþykkt mun Ísland greiða helmingi minna til þróunarmála en ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar ætlaði sér að ná við mun verri efnahagsaðstæður en nú.
Með þessari skammarlegu ákvörðun nú í boði utanríkisráðherrans Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er verið að hunsa þingsályktun sem samþykkt var vorið 2013 af öllum viðstöddum þingmönnum, nema Vigdísi Hauksdóttur. Sú ályktun kvað á um að framlög Íslands til þróunarmála myndu hækka úr þáverandi 0,26% af vergum þjóðartekjum upp í 0,42% árið 2016. Á síðasta kjörtímabili var dregið úr þessari áætlun við mótmæli og hneykslan víða í samfélaginu, meðal annars á Alþingi og frá Þróunarsamvinnunefnd.

En nú á að lauma enn meiri lækkun gegnum þingið.

Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að fylgja markmiði Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Með því að halda prósentutölunni á sama stað og árið 2011, erum við ekki bara að gera lítið úr orðspori okkar á alþjóðavísu – en Norðurlöndin hafa öll greitt 0,7% til þróunarmála um árabil – heldur erum við að víkjast undan siðferðislegum skyldum sem efnaðs samfélags til að aðstoða þau allra fátækustu í þessum heimi. Fjármunir sem hafa runnið í að byggja skóla, tryggja menntun sárafátækra barna og stuðla að því að bæta mæðravernd og efla konur til sjálfstæðara lífs þar sem möguleikar þeirra eru af skornum skammti, verða lækkaðir verulega.

Sjálfstæðisflokkurinn staðfestir með þessari ákvörðun Guðlaugs Þórs hneykslanlega afstöðu sína til þróunarmála en það er afar sorglegt að slíkur niðurskurður njóti stuðnings þingmanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu

Ábyrgðarkeðjan má ekki rofna

Keðjuábyrgð til höfuðs brotastarfsemi

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem lýtur að því að sett verði lög um keðjuábyrgð, þ.e. ábyrgð verktaka á því að undirverktakar hans standi skil á samningsbundnum launum, greiði opinber gjöld og hagi starfsemi sinni almennt samkvæmt lögum og reglum íslensks vinnumarkaðar.

Ástæða þess að VG lagði fyrrnefnt þingmál fram er að misferli á vinnumarkaði hefur farið vaxandi undanfarið og birtist það meðal annars í brotum gegn skattalöggjöf og félagslegum undirboðum sem beinast sérstaklega að útlendingum og ungu fólki.

Með lögum um keðjuábyrgð verktaka yrði leitast við að koma í veg fyrir undirboð á vinnumarkaði, brotum á ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjöf, félagslegum undirboðum og ýmsum tegundum af skattsvikum og jafnvel mansali en allt eru þetta afleiðingar þess ábyrgðarleysis sem hefur einkennt hluta íslensks vinnumarkaðar undanfarin ár. Svört starfsemi sem þessi felur vitaskuld í sér brot gegn starfsfólkinu sem verður fyrir því að fá ekki laun sín greidd og samfélaginu öllu sem ekki fær sín réttmætu gjöld og hún grefur jafnframt undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem rekin eru á eðlilegum forsendum og virða lög og kjarasamninga. Hert lagaumgjörð sem treystir veiku hlekkina í ábyrgðarkeðjunni er öflugasta vopnið gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki og fyrrnefnt þingmál VG stuðlar að því að því verði beitt.

Jákvæðar umsagnir enda mikið í húfi

Þær umsagnir sem hafa komið um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð taka nær allar undir það sjónarmið að nauðsynlegt sé að innleiða keðjuábyrgð og tryggja þurfi að undirverktakar greiði þau opinberu gjöld sem þeim ber að inn af hendi og virði lög og kjarasamninga.

Í umsögn embættis Skattrannsóknarstjóra kemur fram að 22 verktakafélög séu nú til rannsóknar hjá embættinu vegna gruns um að þau hafi reynt að komast undan lögbundnum skattgreiðslum með því að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka. Samanlögð upphæð þessara mála nemur 2 milljörðum sem sýnir hversu mikið er í húf og hvað samfélagið getur verið að tapa miklum tekjum til sameiginlegra verkefna fyrir utan svikin við launafólk.

Er veikur hlekkur í stjórnkerfinu?

Eina neikvæða umsögnin um mál okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð barst frá Samtökum atvinnulífsins. Þau töldu ekki rétt að lögbinda keðjuábyrgð og álíta að þeim vanda sem hún beinist gegn væri hægt að mæta með öðrum hætti. Fyrrverandi framkvæmdastjóri SA er nú orðinn félagsmálaráðherra. Hann ætti að þekkja vel til þessara mála en velur þó að taka málið lausatökum í nýju frumvarpi sem hann lagði fram á dögunum um keðjuábyrgð, en það nær eingöngu til erlendrar verktakastarfsemi hér á landi en ekki til alls vinnumarkaðarins. Þetta hefir ASÍ gagnrýnt og telur að samkomulag hafi verið um að hægt væri að taka aðra aðila á vinnumarkaði inn án lagabreytinga. Að sjálfsögðu á allur vinnumarkaðurinn að vera undir og víða í Evrópu hefur keðjuábyrgð verið innleidd enda ekki vanþörf á í vinnuumhverfi þar sem félagsleg undirboð eru mikið vandamál.

Skýr krafa um ábyrga starfshætti og óslitna keðju

Nokkrir stórir verkkaupar hér á landi hafa þegar sett ákvæði um keðjuábyrgð í samninga sína við verktaka, meðal annars Landsvirkjun, Ríkiskaup, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær og viðurkennt þannig mikilvægi og nauðsyn ábyrgðarkeðjunnar. Málið hefur og verið tekið upp í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði enda ólíðandi að félagsleg undirboð og skattastuldur eigi sér stað án þess að samfélagið komi vörnum við.

Við eigum öll heimtingu á því að hvert og eitt þeirra fyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi, hvort sem þau eru innlend eða erlend, virði kjarasamninga, greiði laun í samræmi við þá og haldi í heiðri þau réttindi sem launafólk hefur öðlast með kjarabaráttu sinni. Þingmál VG um keðjuábyrgð stuðlar að þessu og yrði bæði launafólki og sómakærum atvinnurekendum hagur í að það hlyti samþykki.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna í NV-kjördæmi.

 

Vanmetin nýsköpun

Sífellt er minnst á hve nýsköpun skiptir framvindu samfélagsins miklu máli. Í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er hennar pólitíska hagfræði, er eitt af málefnasviðunum nefnt rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar. Þar eru sett fram markmið um að Ísland verði leiðandi á sviði rannsókna og þekkingar! Hvar höfum við ekki ætlað að vera leiðandi á þessari öld?

Taldar eru upp aðgerðir á málasviðinu en engar fjárhæðir til hvers hluta. Þeim mun oftar stendur: – Verður forgangsraðað innan ramma. Í yfirliti kemur fram að framlög til málefnasviðsins árið 2018 lækka um 120 millj. kr. en eftir það, næstu fjögur ár, allt til ársins 2022, hækka framlög milli ára aðeins um 120 millj. kr.

Hvernig rímar þessi sérkennilega fjárhags­áætlun við þarfir samfélagsins, hvað þá undarlegt markmið um leiðandi stöðu á heimsvísu? Vissulega hafa framlög til rannsókna og þróunar verið aukin í allmörg ár, enda sér þess víða gleðilegan stað og sprotafyrirtæki, og jafnt vísinda- og tæknimenn sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands staðið sig vel.

Tryggir ekki nýsköpun og þróun
Ég fullyrði engu að síður að 500-600 millj. kr. framlag á fimm árum tryggi ekki næga nýsköpun, rannsóknir og þróun; þaðan af síður að upphæðin hafi mikið með hin háleitu markmið að gera, af því að í raun og veru eru framlög til málaefnanna enn undir viðmiðum nágrannaþjóða. Þarna er verið að marka stefnu er varðar loftslagsmarkmið Íslands, nýsköpun í iðnaði, ferðaþjónustu, landbúnaði og sjávarútvegi o.s.frv.

Svipuð, röng fjármálastefna kemur fram gagnvart háskólastiginu. Þar vantar milljarða til fimm ára, bæði til HÍ og annarra háskóla, háskólasetra og þekkingarsetra. Það eru ekki einungis rannsókna – og þróunarsjóðirnir sem verða vanfjármagnaðir til lengri tíma litið, heldur er líka öll umgjörðin, allt háskólastigið, einfaldlega vanfjármagnað í ríkisfjármálaætluninni.

Hugleiðing um pólitíska hagfræði

Þings­á­lykt­un­ar­til­laga ­rík­is­stjórnar Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartar fram­tíðar er í merk­is­beri póli­tískrar hag­fræði þar sem auð­velt er að láta sker­ast í odda milli and­stæðra hug­mynda­fræði­kerfa, milli hægri og vinstri og kap­ít­al­isma og sós­í­al­isma, en þau hug­tök heyr­ast sjaldan á Alþingi en eru samt óskap­lega raun­veru­leg. Fjár­mála­stefnan á, skv. 6. gr. laga um opin­ber fjár­mál, að standa á grunni hug­taka eins og sjálf­bærni, var­færni, stöð­ug­leika, festu og gegn­sæi. Þetta eru ekki vís­inda­leg eða strang­fræði­leg hug­tök heldur gild­is­hlaðin eftir því hvaða póli­tísku gler­augu eru á manns nefi. Ég ætla að velta fyrir mér fjórum hug­tak­anna sem að mörgu leyti mynda lyk­il­inn að fjár­mála­stefn­unni.

Fyrst er það sjálf­bærn­i…

Sjálf­bærni í rík­is­fjár­mál­um, hvað merkir það? Ef við speglum þrjár meg­in­stoðir sjálf­bærni yfir á fjár­mála­stefn­una, eru þær ein­fald­lega með þeim hætti að:

1. Nátt­úru­auð­lindir verði nýttar þannig að þær beri nytjarn­ar.

2. Sam­fé­lög dafni og jöfn­uður auk­ist milli þjóð­fé­lags­hópa og milli sam­fé­laga utan og innan höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins.

3. Efna­hags­lífið skili góðu búi til þegn­anna almennt. Til allra íbúa, þannig að sam­fé­lagið þró­ist til almennrar vel­sæld­ar, en ekki fyrst og fremst vel­sældar sumra.

Sitt sýn­ist hverjum í þessum efnum og víst er að skil­grein­ingar á sjálf­bærni eru fleiri en ein. En ég tel þó morg­un­ljóst að íslenskt efna­hags­líf er ekki sjálf­bært. Það er gengið á margra auð­lind­ir, gríð­ar­legt vist­spor er stað­reynd, linnu­litl­ar, hraðar og miklar geng­is­breyt­ingar skekja heim­ili og minni fyr­ir­tæki, heil sam­fé­lög eru í vanda, ósjálf­bær vegna þess að sjálfs­björgin er tekin af þeim. Mis­skipt­ing auðs og eigna vex en minnkar ekki.

Ég geri alls ekki lítið úr and­spyrnu gegn þess­ari þróun og við­leitni til bóta, líka fyrir atbeina flokka sem mér hugn­ast ekki. Sam­fé­lagið er nefni­lega að vakna til vit­undar um aðra starfs­hætti og ann­ars konar hag­kerfi; hag­kerfi með önnur við­mið en stans­lausa ­leitni eftir hámarks­hagn­aði og stöð­ugum hag­vexti á grunni nýrra auð­linda en ekki end­ur­nýt­ing­ar. Lög og lands­stjórn lætur undan æ þyngri kröfum um breytta hag­stjórn og önnur við­mið, ekki bara græn við­mið heldur líka með merkjum jöfn­uð­ar. Félags­legar lausnir verða æ útbreidd­ari í hugum fólks sem selur vinnu­afl sitt sér til fram­færslu. Við viljum sam­hjálp en ekki sér­gæsku, segja menn, og horfa æ oftar til þess flokks sem setur slíkt á odd­inn, sbr. til­hneig­ingu sem sést í skoð­ana­könn­unum um aukið fylgi félags­hyggju­flokka. Minna má þá um leið á að hér á landi nást seint félags­legar lausnir í lands­málum án þess að félags­hyggju­öflin og -flokk­arnir vinni sam­an. Í raun og sann er hug­takið sjálf­bærni í rík­is­fjár­mála­stefn­unni að sjá sem inni­halds­lít­ill orða­lepp­ur, hafður með því að eng­inn vill sleppa hug­tak­inu í nútíma­stjórn­mál­um.

Svo kemur að var­færn­i…

Var­færni í þess­ari stefnu­mót­un, hvað merkir hún? Varla óheftan vöxt, varla stóru bónus­ana, varla stöðuga sam­þjöppun í helstu atvinnu­grein­um, varla nið­ur­skurð í góð­æri sem byggir aðal­lega á þotu­vexti einnar atvinnu­greinar sem er ekki rekin á sjálf­bærum nót­um? Varla snýst var­færnin um varð­stöðu um áfram­hald­andi stór­hagnað banka og stærstu útgerð­anna, sam­an­ber. HB Granda sem hefur skilað 40 millj­arða króna hagn­aði frá 2008 að telja? Og þó. Er var­færni stjórn­ar­innar ekki einmitt til þessa gerð, ef vel er að gáð? Jú, var­færnin í stefnu­skránni merkir í raun að ekki skuli afla fjár til umbóta í sam­fé­lag­inu nema þegar sjálf­virkar tekjur aukast. Var­færnin snýst ekki um hvernig megi auka við fram­lag þeirra sem eru mjög vel aflögu­færir til sam­neysl­unn­ar. Var­færni ætti að merkja, þver­öf­ugt við hægri stefn­una, að þensla í tekjum vel­haf­andi atvinnu­greina og auk­inn ójöfn­uður verði ham­inn með virkum hætti.

Komið að stöð­ug­leika…

Stöð­ug­leiki, hvar er hann í raun í stefnu stjórn­ar­inn­ar? Til dæmis sýn­ist hann merkja þá gömlu þulu sem rétt­lætir víxl­verkun launa­hækk­unar og verð­lags, sem verður að halda aftur eftir þul­unnar hljóð­an. Þá er látið líta svo út að þar fari sjálf­virkt og eðli­legt lög­mál en í raun felur þulan í sér til­raunir til að halda aftur af launa­þróun sem er flestum bæði nauð­syn­leg og hag­felld. Sam­tímis er klifað jafn­gam­alli köku­kenn­ingu sem allir þekkja. Í henni er látið líta svo út að for­ráða­menn atvinnu­veg­anna skuli rétti­lega reikna út það sem kall­ast greiðslu­geta og launa­fólki látið eftir að berj­ast um kök­una. Hún er rétt fram eftir útreikn­ing­ana. Hið rétta er jafn­gam­all sann­leik­ur, nefni­lega sá að launa­fólk verður að sækja út fyrir sneið­ina. Hagn­aður margra fyr­ir­tækja er mik­ill og eigna­myndun enn meiri. Blessuð köku­sneiðin getur orðið jafn stór og almennir launa­menn ná með sínum köku­hníf án til­lits til skömmt­unar fyrir fram. Stöð­ug­leiki rík­is­fjár­mála­á­ætl­unar stjórn­ar­innar merkir í raun: Ekki skatt­leggja auð­magn, ekki skatt­leggja hæstu tekj­ur, ekki skatt­leggja miklar eign­ir. Afleið­ingin er jafn skýr: Ójöfn­uður eykst, fátækt verður æ meira áber­andi en hinir vel stæðu verða enn betur stæð­ir. Ekki er hægt að vísa til með­al­tals­aukn­ingar tekna eða kaup­máttar til að afneita slíkri sviðs­mynd. Með­al­tölin fela skörpu og dap­ur­legu drætt­ina, fela mis­rétt­ið. Stöð­ug­leik­inn ætti að merkja auk­inn jöfn­uð, hæg­ari hag­vöxt, minni sam­keppni, auk­inn sparnað með sam­neyslu og hæg­ari upp­greiðslu lána svo að fólk flest hafi það betra um allt land.

Loks er það festa…

Festa, hvað má lesa úr því hug­taki? Festu í þá veru að tryggja marg­boð­aðar úrbætur vel­ferðar og sam­gangna í land­inu? Nei. Festu þegar kemur að því að hvergi megi leita leiða til að auka við tekjur rík­is­sjóðs til sam­neysl­unn­ar, nema þegar hag­sveiflan er upp á við og tekjur aukast? Einmitt. Festu við að skera enn frekar niður ef verr árar en nú? Já, það er einmitt þess konar festu sem má lesa úr stefnuplagg­inu. Hvar er þá sveigj­an­leiki þeirra hag­sýnu í rík­is­fjár­málum þegar kemur að því að draga úr þenslu­á­hrifum sem snar­aukin lúx­usneysla og vöxtur ferða­þjón­ust­unnar knýja fram? Getum við náð 2,5% hag­vexti sem Seðla­bank­inn mælir með án þess að tempra vöxt spút­tnikk-­greina? Nei, við getum það ekki enda hvatt til frek­ari vaxtar þeirra og boð­uð skatta­lækk­un í þenslu og svoköll­uðu góð­æri. Festa  ­rík­is­stjórn­ar­innar felst greini­lega í því að hlífa hópi  fjár­magns­eig­enda með mestu tekj­urn­ar, hlífa stórnot­end­um auð­linda og til­tölu­lega litlum hópi stór­eigna­fólks við meiri fram­lögum til sam­fé­lags­ins. Í þess stað ætti að ákvarða hæfi­leg gjöld á atvinnu­vegi sem mest mega sín, á stórút­veg­inn, orku­fram­leiðslu, orku­frekan iðnað og ferða­þjón­ustu með ýmsu móti, þar með talið á ferða­menn­ina sjálfa, umfram boðuð bíla­stæða­gjöld.  Margrædd komu­gjöld koma til greina, hlut­falls­leg og hærri gistin­átta­gjöld og ýmsar breyt­ingar á öðrum gjald­stofn­um. Allt væri það aug­ljós­lega til þess fallið að bæta tekju­öflun rík­is­ins.

Ábyrg og alþýð­leg hag­stjórn

Eftir hug­leið­ingar um þessi fjögur lyk­il­hug­tök má greina and­stæð­una: Félags­legar lausnir, vinstri áhersl­ur. Með skatt­heimtu til jöfn­uðar er unnt að auka sjálf­bærni og stöð­ug­leika, kalla fram minni óánægju tug­þús­unda með kjör sín og sam­fé­lags­lega stöðu. Með festu og var­færni má stýra auð­linda­nýt­ingu betur en nú og auka á fest­una og var­færn­ina einmitt með því að finna jafn­vægi tekna og gjalda eftir að nýrra tekna hefur verið aflað með jöfn­uð­ar­sköttum. Það er ábyrg og alþýð­leg hag­stjórn. Fjár­mála­ráð veifar nokkrum rauðum flöggum í sínu áliti. Hvers virði eru þær fána­sýn­ingar rík­is­stjórn­inni? Hún tekur ekki mark á þeim. Áhættu­grein­ing fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins við skoðun fjár­laga sýnir nú þegar fram á hættu á 11 millj­arða yfir­keyrslu einmitt að hluta vegna krafna sam­fé­lags­ins gegn frjáls­hyggju­mark­miðum rík­is­stjórn­ar­innar sem lætur undan síga, t.d. með 1,2 millj­arða kr. við­bót til sam­göngu­á­ætl­unar sem allt í einu er ekki einu sinni pínu­lítið sið­laust, svo að vitnað sé í fleyg orð fjár­mála­ráð­herra um “næstum sið­leysi” fyrrum fjár­laga­nefnd­ar. Þarf svo ekki auknar tekjur til fleiri mála­flokka, í anda kosn­inga­stefnu flokk­anna þriggja? Jú. Hvar á að taka þær, undir lágu þaki hag­sveiflu, eða ef fjár­málin reyn­ast í járnum vegna hag­rænu kjar­anna?

Fall­in… með 4,5

Það er ekki unnt að yfir­gefa rík­is­fjár­mála­stefn­una án þess að máta hana við lofts­lags­mál­in. Hvað sagði hæstv. for­sæt­is­ráð­herra ekki um þau mál? Þau væru mik­il­væg­ustu mál sam­tím­ans, ekki satt? Það er ljóst að Ísland nær ekki mark­miðum sínum án veru­legs við­bót­ar­fjár í allar laus­legu og ósam­stæðu áætl­an­irnar sem stjórn­völd hafa búið til. Marga millj­arða mun vanta í orku­skipti og aðrar fjöl­breyttar leiðir til að minnka losun gróð­ur­húsaga­sa, um leið og bind­ing kolefn­is­gasa er aukin með ólíkum aðgerð­um. Þessar aðgerðir þola enga bið og geta ekki verið háðar upp­sveiflu í hag­kerf­inu árum sam­an. Röng stefna frjáls­hyggj­unnar í tekju­öflun rík­is­ins má ekki stýra fram­tíð kom­andi kyn­slóða. Hvað um mennta­mál­in? Þar er t.d. háskóla­náms­stig­ið  stór­lega van­fjár­magn­að? Hvað með heil­brigð­is­kerf­ið, götótt og und­ir alltof miklu álagi, sem allir segj­ast vilja efla? Hvað með fjár­hags­um­hverfi tækni­þró­unar og nýsköp­unar þar sem við erum stödd vel undir við­mið­un­ar­löndum þegar kemur að hlut­falli fjár­veit­inga af vergri lands­fram­leiðslu? Hvar er þá sjálf­bærnin og var­færn­in? Hver er fram­tíð­ar­sýnin þá önnur en að senni­lega verði aukið í fjár­veit­ingar seinna á kjör­tíma­bil­inu ef vel árar? Allt ber að sama brunni. Hvað sem ein­hverjum ljósum punktum kann að líða í stefnuplagg­inu mót­ast stefnan ekki af hags­munum fjöld­ans heldur sér­hyggju og vörn fyrir sömu veg­ferð og við höfum kynnst í ára­tugi með fáum und­an­tekn­ing­um. Hún fær ­fall­ein­kunn þegar menn horfa til baka.

Fram­sækna rík­is­fjár­mála­stefnu vantar

Mjög mörg okkar viljum miklu fram­sækn­ari rík­is­fjár­mála­stefnu, betur rök­studda og rædda fjár­mála­stefnu, fjár­mála­stefnu sem virðir vilja mjög stórs hluta þjóð­ar­inn­ar. Sá stóri hóp­ur, 90%, ræður aðeins yfir 40% eigna hér á landi á móti hinum 60% eign­anna sem 10% íbú­anna hafa í höndum sín­um. Við viljum fjár­mála­stefnu sem er mótuð að not­hæfum og sann­gjörnum aðhalds­lögum en gefur svig­rúm með vand­aðri auka­tekju­öflun til að full­nægja þörfum mik­ils meiri hluta sam­fé­lags­ins. Þörfum fólks­ins sem kallar á raun­hæft vel­ferð­ar-, mennta- og sam­göngu­kerfi, kallar á allt þetta venju­lega og nútíma­lega sem það sama fólk á skilið og þarfn­ast til að lifa eins og ríkt sam­fé­lag getur best boðið upp á. Þá verður að vera rétt­lát­lega skipt og hámarks­gróða­sókn látin víkja fyrir … hverju? Ég ætla að láta les­anda eftir að botna grein­ina.