Hraðari breytingar – takk

Margþætt orkuskipti

Við verðum að ræða oftar og dýpra um loftslagsmálin, alls staðar í samfélaginu og á Alþingi, á því liggur enginn vafi. Orkuskipti í geira einkabílsins eru hafin og þau eru fjölþætt. Metan, íblöndun alkóhóls og lífdísill og fleira, þetta sést allt hér, en rafvæðingin er líka í verulegri uppsveiflu og í árslok 2016 voru rafbílar liðlegar eitt þúsund. Það munar mikið um niðurfellingu gjalda í kaupverði bíla. Áfram verður að hafa þann háttinn á, líka þarf að sýna fram á að vistspor og losunarmagn bílanna frá smíði til förgunar sé léttara en vistspor og losunarmagn sambærilegra hefðbundinna bíla. Ella er til lítils unnið og erfitt að sannfæra kaupendurna.

Innlent eldsneyti skiptir líka máli. Því er gert of lágt undir höfði í áætlun um orkuskipti sem hefur verið lögð fram á Alþingi. Ég stefni að sérstökum umræðum um þessi orkuskipti og innlent eldsneyti við iðnaðarráðherra, eins fljóttog auðið er. Í þessum efnum skiptir t.d. miklu máli að unnt er að framleiða mikið verulegt magn metanóls á sem getur nýst ýmist sem hófleg íblöndum í jarðefnaeldsneyti eða frá 50% til 100% á (bruna)bílvélar sem eru lítið breyttar frá þeim venjulegu.

 

Hvað með rafbíla?

Uppsetning hleðslustöðva með ókeypis rafmagn hefur gengið of hægt og of litlu opinberu fé hefur verið varið til þeirra. Nú eru til ráðstöfunar aðeins 67 milljón kr. af opinberu fé á ári í þrjú ár. Brátt fara svo orkusölur að hyggja að beinni sölu raforkunnar á hleðslustöðvum og ríkisvaldið að hyggja að tekjumissinum þegar notkun á olíu og bensíni minnkar. Verður kílómetragjald lagt á rafbíla? Er rétt að stöðva sölu nýrra bíla með hefðbundnum orkugjöfum innan tiltekinna ára eins og heyrst hefur?

 

Hik er ekki í boði

Ég vakti athygli á öllu þessu í umræðum á Alþingi vegna þess að okkur er lofuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og klukkan tikkar óvenju hratt í mannheimum frammi fyrir loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra. Að nógu er að hyggja í samgönguþætti þeirrar áætlunar, bæði tekju- og gjaldamegin. Þá er vert að muna að hagnaður í beinhörðum peningum er ekki alltaf eini rétti mælikvarði árangurs.

Og meðan ég man: Kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040 á að vera skýrt markmið samanber stefnumið okkar Vinstri grænna.

 

Ari Trausti er 6. þingmaður Suðurkjördæmis fyrir VG

Gætum við sameinast gegn fátækt?

Við eigum tölur um fátækt. Meðal annars nýlegar tölur frá Unicef á Íslandi að 9,1% barna á Íslandi líði skort, einkum þegar kemur að húsnæði. Þetta eru um 6000 börn og þar af líða um 1600 börn verulegan skort. Stór hluti þessara barna býr við óöruggt húsnæði, heldur ekki upp á afmælið sitt, stundar ekki tómstundastarf og þannig mætti lengi telja. Fátæktin stelur draumum og vonum þessara barna eins og 12 ára drengur á höfuðborgarsvæðinu orðaði það.

En við eigum fátækt fólk í öllum aldurshópum – þar nægir að horfa á tölur um lægstu laun, örorkubætur og ellilífeyri og bera þær saman við framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins. Þar sést berlega að af þessum lægstu greiðslum er vandlifað.

Umræðan um fátækt er nú komin aftur á flug, þökk sé nýjum útvarpsþáttum Mikaels Torfasonar. En fátækt er birtingarmynd kerfis sem ýtir undir misskiptingu. Kerfis þar sem tölurnar sýna svart á hvítu að sköttum hefur verið létt af hinum tekjuhæstu en skattbyrði hinna tekjulægri hefur þyngst á síðustu árum. Kerfis þar sem félagslegt húsnæði hefur verið sett á markað með þeim afleiðingum að venjulegt fólk, hvað þá fátækt fólk, á í vandræðum með að koma sér þaki yfir höfuðið sem samt eru skilgreind mannréttindi. Kerfis þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga hefur aukist á undanförnum árum og áratugum og er nú hærri hér en til að mynda í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Kerfis þar sem fullorðnu fólki yfir 25 ára aldri er nú gert erfiðara fyrir að sækja sér menntun.

Fátækt er blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi. Stjórnvöld ættu að hafa skýra sýn og aðgerðaáætlun um útrýmingu hennar og vera reiðubúin að sækja þá fjármuni sem þarf til að styrkja velferðarkerfið og bótakerfið – við vitum öll að þeir eru til. Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu á vettvangi þingsins við félagsmálaráðherra og hvað hann hyggst gera í þessum efnum. Um þetta ættu allir stjórnmálaflokkar að geta sameinast.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Leysir bann við Airbnb húsnæðisvandann?

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er frekar einfalt fyrirbæri. Hann er einkadrifinn að mestu leyti og lögmál markaðarins ráð för. Hagsveiflan er svo sveiflukennd að ýmist er magn bygginga á hverjum tíma í ökla eða eyra. Þetta er ekkert nýtt og á engum að koma á óvart. Vandinn í húsnæðismálum núna á rætur sínar að rekja til þeirra sem hafa stjórnað hér sveitarfélögum og setið í ríkisstjórnum síðustu fimm áriðn í það minnsta. Það var lítið byggt eftir hrun frjálshyggjunnar og var því strax fyrirséð að það yrði skortur á húsnæði árin á eftir. Og fyrir hvert ár eftir hrun var fyrirséð að vandinn væri að vaxa. Það var því á ábyrgð þeirra sem höfðu ákvörðunarvaldið hvernig staða yrði núna í dag.

Umræðan um húsnæðismálin er að verða mjög hávær og eru þeir sem bera mesta ábyrgð farnir að átta sig á því að ábyrgðin beinist að þeim og snúa vörn í sókn. Sem dæmi þá vill bæjarstjórinn í Kópavogi banna skammtímaleigu húsnæðis á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er ráð í sjálfu sér en það vakti athygli mína að hann ætlar öðrum að banna eða láta aðra taka ákvörðun um þessi mál. Í Kópavogi þar sem ég þekki best til sátu menn með hendur í skauti allt of lengi. Höfðu engan áhuga á því að koma neinum málum í gang eða taka þátt í neinum verkefnum. Sömu menn og vilja setja á bönn vegna eigin vanrækslu í þessum málaflokki. Markaðurinn átti að sjá um þetta. Ef menn hefðu bara haft örlitla framtíðarýn og örlítinn kjark og farið af stað fyrir 5 árum eða svo væri staðan önnur. En menn völdu að gera ekki neitt.

Ferðamannastraumurinn er ný breyta í húsnæðismálunum og var ekki fyrirséð. Það togast óneitanlega á innstreymið af tekjum vegna ferðamannanna og svo að leggjast gegn því að þeir fái gistingu. Hversu lengi þetta mun vara sér sennilega enginn fyrir en að öllum líkindum gengur þetta yfir eins og flest gullæði sem yfir okkur gengur. Síldin kom og Síldin fór, gömul saga og ný.

Það kann að hljóma einkennilega en þeir sem telja að markaðurinn leysi öll heimsins vandamál eru núna mættir og vilja hafa afskipti af honum. Ekki bara afskipti heldur vilja þeir líka ráðskast með eignir fólks. Þetta eru alveg ný stefna hjá þeim sem telja að markaðslögmálin leysi allan vanda. Og þó þá þarf þetta ekki endilega að vera þversögn í þeirra hugmyndafræði. Það er nefnilega þannig að einu sinni máttu allir veiða fisk í sjónum. Menn ákváðu að koma böndum á þau mál. Við vitum hvernig þeim málum er háttað í dag. Það gæti vel þjónað sama tilgangi að banna fólki að ráðstafa eignum sínum að vild, ferðamannaauðlindin er takmörkuð þó svo að hún sé stór og mikil í augnablikinu. Það er þá ekki ráð nema í tíma sé tekið að tekjurnar rati í réttar hendur í framtíðinni.

Það er ákveðin lærdómur sem við þurfum að draga af vanda dagsins og hann er sá að ríki og sveitarfélög eiga að byggja þegar sem verst árar í samfélaginu og minnka þær framkvæmdi þegar að hagkerfið er komið á mikla siglingu eins og í dag. Við eigum að vera óhrædd við það að láta samfélagi og sameiginlega sjóði okkar viðhalda byggingarmagni í niðursveiflunni í hagkerfinu. Þannig er mögulegt að koma í veg fyrir mikinn skort sem hefur vondar afleiðingar í öllum okkar mælingum á vöxtum og verðlagi. Húseignir hækka í bólu eins og nú er og bitnar það mest á okkur sjálfum og ekki síst unga fólkinu. Til allra hamingju þá eru margir aðilar að byggja núna en það húsnæði verður ekki tilbúið á morgun og ekki hinn heldur á tveim til þremur næstu árum. Við erum sennilega að nálgast toppinn í hagsveiflunni í þetta skiptið og þegar niðursveiflan hefst þá þurfa sveitarfélögin að grípa boltann og viðhalda byggingarframkvæmdum.

Arnþór Sigurðsson, formaður VG í Kópavogi

Gullpakkinn: ekki fyrir þig

Ríkisstjórnin styður „fjölbreytt rekstrarform“ og „valfrelsi“ í heilbrigðiskerfinu. Þetta kann að hljóma spennandi. Hver getur svo sem verið á móti fjölbreytni og valfrelsi fólks? En hvað þýða þessir frasar í raun og veru? Þeir þýða að stjórnvöld hér á landi ætli að stefna í stórauknum mæli að einkarekstri og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

Um miðjan janúar fékk Klíníkin leyfi Landlæknis til að framkvæma stærri aðgerðir sem krefjast innlagnar í kjölfarið. Klíníkin er fyrsta einkastofan hér á landi sem fær leyfi til að reka legudeild. Fjölmargar rannsóknir sýna hins vegar að opinber rekstur heilbrigðisþjónustu er besta leiðin til að tryggja öllum aðgang að þjónustunni óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Stjórnvöld halda því áfram þeirri vegferð að búa til tvöfalt kerfi þar sem sumir geta borgað sig fram fyrir röðina og fengið að velja „gullpakkann“ meðan aðrir þurfa að bíða með tilheyrandi þjáningum og samfélagslegum kostnaði. Það er skrýtin forgangsröðun að nota skattfé almennings í arðgreiðslur til gróðadrifinna fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Hægt væri að forgangsraða þessu sama fé í heilbrigðiskerfið sjálft öllum til hagsbóta, líka þeim fátæku.

Forsvarsmaður Klíníkurinnar ber því við í sjónvarpsviðtali að langir biðlistar séu vandamál og hefur Klíníkin boðist til að leysa biðlistavandann með því að óska eftir þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands til að greiða niður aðgerðirnar. Þetta er þekkt tækni einkavæðingarinnar: fjársvelta, ganga úr skugga um að hlutirnir virki ekki svo neyðarástand skapist og hlutirnir eru í kjölfarið leystir með því að fela þá einkaaðilum. Ég hvet heilbrigðisráðherra, Óttar Proppé, til að vinna frekar á biðlistum með því að auka fé til opinbera heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða skattfé almennings í samninga við einkaaðila í gróðastarfsemi. Ég vil að lokum hvetja ráðherra til að leggjast gegn arðgreiðslum úr heilbrigðisþjónustunni. Þar er um að ræða stórt réttlætismál sem varðar okkur öll. Við eigum nefnilega öll heilbrigðiskerfið okkar, að minnsta kosti enn sem komið er.

Elín Sigurðardóttir, varaformaður velferðarráðs Reykjavíkur. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Ferðaþjónustan: Eins og hverjar aðrar nytjar  

 

Skipulagning og framkvæmd ferðaþjónustu er flókin auðlindanýting af augljósum ástæðum. Atvinnugreinin grípur inn í fjölmörg svið samfélagsins og styðst við fjölþættar náttúrunytjar. Þar með verðum við að setja henni ýmsar skorður.

Við hvað er þá átt? Náttúrunytjar kalla á náttúruvernd. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum getur tekið við tilteknum fjölda á dag, mánuði eða ári, ef vel á að vera þannig að umhverfið standist álag og sveitarfélagið sem við á geti sinnt helstu þáttum daglegs lífs. Samfélagsálag vegna hraðar þróunar nýrrar, krefjandi atvinnugreinar kallar líka á viðbrögð sem við getum kallað samfélagsvernd. Lítið þorp, t.d. Vík, fær nærri milljón manns í heimsókn á ári. Þar er að mörgu að hyggja svo íbúar, gestir og aðkomufólk í vinnu njóti sín. Þróun ferðaþjónustunnar í efnahagslegu tilliti kallar á varúð og viðspyrnu svo ein, ótrygg atvinnugrein vaxi ekki öllum öðrum langt yfir höfuð og skaði afrakstur landsins í heild. Gleymum heldur ekki að ofurvöxtur einnar atvinnugreinar hefur veruleg ruðningsáhrif á samfélagið. Það má t.d. marka af húsnæðismálum víða í þéttbýli þótt þar komi líka aðrar orsakir við sögu. Gengisþróunin er annað dæmi.

 

Sjálfbær ferðaþjónusta?

Af þessum sökum og umhyggju fyrir næstu kynslóðum er yfirlýst stefna hins opinbera, jafnt sem annarra, að ferðaþjónustan verði ávallt sjálfbær. Í þessu sambandi merkir stefna bæði markmið og leiðir, ekki bara markmið eins og mikið af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar einkennist af. Við viljum sjálfbæra ferðaþjónustu. Gott og vel. Sjálfbærni er samansett úr þremur þáttum: Náttúrufarslegum, félagslegum og efnahagslegum, samanber það sem fram kemur hér að framan. Sumir stjórnmálamenn og álitsgjafar, jafnvel fólk í ferðaþjónustu, gleymir þessu nokkuð oft og einblínir á sjálfbærar náttúrunytjar í umræðum um ferðaþjónustu. Nú hefur nýr ráðherra og ný ríkisstjórn tekið við málaflokknum að sínu leyti. Þá er mikilvægt að við höfum góð skil á hugtökum í umræðum um sjálfbærnina, úrbætur í ferðaþjónustunni og endurskoðun á lögum um hana – jafnframt því að móta langtímastefnu. Á það síðastnefnda legg ég þunga áherslu.

 

Þolmörk, aðgangsstýring og samþætting

Sjálfbærni kallar á stýringu í auðlindanotkun, í ferðaþjónustu líkt og í landbúnaði eða sjávarútvegi – ekki rétt? Atvinnugreinin ferðaþjónusta lýtur ekki öðrum meginreglum en önnur atvinnustarfsemi þar sem bæði náttúruauðlindir, menning og samfélag er undir. Stýringin snýst um að minnsta kosti þrenns konar viðbrögð:

 

Í fyrsta lagi þarf að ræða og ákvarða þolmörk staða, þolmörk landsvæða og að endingu þolmörk landsins – og horfa til allra þátta sjálfbærni. Frekari annsókna er þörf í greininni en nógu mikið er samt vitað til þess að hefjast handa. Ákvörðun þolmarka er ferli sem opinberir aðilar, sérfræðingar og heimamenn koma að og er til reglulegrar endurskoðunar.  Hingað til hefur nær algjörlega skort á umræðu um þolmörk og hugtakið að mestu fjarri allri stefnumótun. Þjóðgaðurinn Snæfellsjökull hefur þolmörk, Vík í Mýrdal hefur þolmörk, Ásbyrgi hefur þolmörk, Reykjavík sömuleiðis og Súgandafjörður líka. Sums staðar er komið þolmörkum í skilningi sjálfbærni en annars staðar er enn mismikið borð fyrir báru.

 

Í öðru lagi: Aðgangsstýring í þeim tilgangi að dempa álag og dreifa því fæst ekki nema að hluta með bílastæðagjöldum, gistnáttagjöldum, aðgangseyri að stöðum eða þjóðgörðum – ekki heldur með nauðsynlegum komu- eða brottfarargjöldum. Ástæðan er einföld. Gjöldin verða of lág miðað við háan ferðakostnað til landsins og innanlands. Gjaldtaka er aðeins lítill þáttur aðgangsstýringar þegar á heildina er litið. Gjaldtaka hjálpar til við að lagfæra skemmdir, stýra umferð á vegum og inni á landsvæðum með stígagerð ofl. og kosta ýmsar aðrar úrbætur en hún stýrir ekki fjölgun ferðamanna nema að litlu leyti og hægir ekki svo um munar á vexti í greininni. Fimmhundruð og þúsundkallar duga skammt frammi fyrir hundruð þúsunda króna. Aðgangsstýring felst fyrst og fremst í að framfylgja þolmörkum með ákvörðun um ítölu gesta þar sem hennar er þörf og með því að hafa nægan, menntaðan mannafla sem landverði af tvennum toga. Þá er átt við landverði sem sinna eftirliti og fræðslu og landverði sem hafa lögregluvald (“rangers”). Einnig ýmsar aðferðir sem byggja á leiðbeingum og hvatningu.

 

Í þriðja lagi: Stjórnun og samþætting margra þátta þarf að vera skilvirk. Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur. Henni er ekki ætlað að taka yfir ábyrgð og skyldur stjórnkerfisins eða hagsmunasamtaka. Henni er stjórnað af fjórum, uppteknum ráðherrum og hún mun bara starfa til 2020. Hvað tekur þá við? Það hefði átt að hefja vandaðan undirbúning að stofnun ráðuneytis ferðamála á síðasta kjörtímabili og koma því svo á laggir t.d. við stjórnarskipti. Ástandið í ferðaþjónustunni heilt yfir er ámælisvert að mati mjög margra aðila, hvort sem er í greininni eða utan hennar og gagnrýni á átroðning kemur æ oftar fram meðal ferðamanna. Nú fást 75% útflutningsteknanna úr þessari einu atvinnugrein. Dugar það ekki til víðtækra breytinga í stjórnkerfinu á sem skemmtum tíma?

 

Hvar eru heildarþolmörkin?

Ef ég skrifa hér og nú að hæfilegur fjöldi ferðamanna – hæfilegur í þágu langflestra – í þágu samfélagsins, fyrirtækja, stofnana og ferðamannanna sjálfra sé 3 til 4 milljónir á ári væri það hrein ágiskun. Viljum við vinna þannig? Treysta á ágiskanir og á óljósa sjálfstýringu eða gríðarlega samkeppni? Viljum við áfram rekast á hindranir, vandamál og öfugþróun þegar stærsta atvinnugreinin er í húfi af því að við stundum ekki ábyrg vinnubrögð við náttúru- og samfélagsnytjar? Sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við landsmenn byggir varla á 8-10 milljón ferðamönnum á ári. Eða er það ef til vill ósk okkar? Nefnum við í alvöru enn hærri tölu? Samfélag með örfá hundruð þúsund eintaklingum, allmörgum atvinnugreinum og óviðbúnum innviðum undir milljónaskriðu ferðamanna farnast trúlega ekki vel nema með hóflegum vexti og skynsamlegum, sjálfbærum landsnytjum. Þess vegna er löngu kominn tími til að flýtirinn, óhófið og skortur á lágmarksstýringu víki fyrir sjálfbærum nytjum og hóflegri vernd. Í alvöru á borði; ekki aðeins í orði.

 

 

Sækjum fjármunina, þeir eru til

Ríkisfjármálastefnan tekur ekki á vandanum – vantar tugi milljarða

Þessa dagana fjallar Alþingi um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna leggur línurnar um það sem koma skal á næstu fimm árum í ríkisfjármálum, t.d. hversu mikið svigrúm er ætlað til fjárfestinga og viðhalds í heilbrigðismálum, samgöngumálum og menntakerfinu, svo eitthvað sé nefnt.

Það verður því miður að segjast að ríkisfjármálastefnan gengur engan veginn upp miðað við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir í þessum málaflokkum. Samgönguáætlun er sögð vera vanfjármögnuð um 10 milljarða en að mati greiningadeildar Arion banka er uppsöfnuð fjárfestingarþörf í vegakerfinu yfir 20 milljarðar og hefur verið það frá ársbyrjun 2016.

En það er ekki bara uppsöfnuð þörf í vegakerfinu, heldur líka í öðrum innviðum eins og heilbrigðis- og menntamálum, og sú stefna sem ríkisstjórnin hefur lagt fram tekur ekki á þessari vanfjármögnun. Þarna munar tugum milljarða og því er óásættanlegt að samþykkja ríkisfjármálastefnuna óbreytta.

Það eru til fjármunir – sækjum þá

Það er gott að leggja áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtakostnað en um leið er ekki hægt að vanrækja innviðina. Það þarf að auka tekjur ríkissjóðs til að mæta þeim þörfum og það verður ekki bara gert með stöku vegtollum út frá höfuðborginni. Það þarf að styrkja tekjuöflunarkerfi ríkisins með réttlátum hætti þar sem leggja þarf áherslu á að hlífa lág- og millitekjuhópum. Það er hægt að gera með því að hækka auðlindagjöld og kolefnisgjald, setja á komugjöld og auðlegðarskatt og efla skatteftirlit enn frekar. En ríkisstjórnin heykist á því að styrkja tekjustofna ríkissjóðs sem eru í járnum þegar tillit er tekið til hagsveiflunnar líkt og fjármálaráðuneytið hefur varað við.

Vanræksla uppbyggingar innviða nú er ávísun á umtalsvert meiri kostnað til framtíðar sem getur ekki talist skynsamlegt.

Það eru til fjármunir – sækjum þá.

Fólki er nóg boðið!

 

Það logar allt í samfélaginu yfir sveltistefnu stjórnvalda í samgöngumálum.

Reiði almennings er eðlileg þar sem gífurleg uppsöfnuð þörf er í viðhaldi vega og nýframkvæmdum og á það sama við um hafnir landsins og flugvelli. Álag á vegi landsins heldur áfram að aukast með gríðarlegri aukinni umferð og til landsins streyma ferðamenn sem aldrei fyrr . Áætlað er að á þessu ári komi 2,3 milljónir ferðamanna til landsins sem mun þýða enn frekara álag á vegakerfi landsins sem víða stenst ekki lágmarks öryggiskröfur og uppsöfnuð viðhaldsþörf orðin mikil. Og fólki er sannarlega nóg boðið yfir ástandinu.

 

Fjárveitingar og geðþóttaákvarðanir.

Fyrir síðustu kosningar töluðu allir flokkar um að nú þyrfti virkilega að spýta í lófana og setja meiri fjármuni í fjársveltar samgöngur og innviði almennt. Samgönguáætlun til fjögurra ára var loks afgreidd eftir mikið þóf. Þar var horfst í augu við vandann og forgangsraðað í þágu þeirra landsvæða þar sem þörfin var brýnust.

Að kosningum loknum afgreiddi þingið fjárlög sem endurspegluðu ekki samgönguáætlun en niðurstaðan byggðist á því að ný ríkisstjórn myndi taka upp fjárlögin og fullfjármagna samþykkta samgönguáætlun. Það varð nú aldeilis ekki raunin heldur tók samgönguráðherra með ábyrgð ríkisstjórnarinnar sér það geðþóttavald að gjörbreyta þeirri forgangsröðun sem Alþingi hafði samþykkt með samgönguáætlun sinni sem hefur að sjálfsögðu lögformlegt gildi. Það vantar 10 milljarða til að fjármagna samgönguáætlun og menn geta ekki boðið almenningi upp á þann málflutning að engir fjármunir séu til framkvæmda þegar upplögð tækifæri til að afla nægra fjármuna til framkvæmda blasa við.

 

Það þarf meiri stefnufestu, vilja og einurð til uppbyggingar en niðurskurðar.

Ferðaþjónustan, sem er orðin stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, þarf að leggja meira til sameiginglegra verkefna á borð við samgöngur, enda er uppbygging á þessu sviði beinlínis í þágu þessarar starfsgreinar. En stjórnvöld skortir vilja og einurð til að afla meiri tekna eins og hægt væri að gera t.d. með komugjöldum á flugfarseðla, álagi á veiðigjöld stórútgerðarinnar eða með auðlegðarskatti. Markaðir tekjustofnar til vegamála hafa ekki verið færðir upp til samtímaverðlags en ríkið hefur þess í stað aukið hlut sinn í hinu almenna bensíngjaldi sem rennur beint í ríkissjóð og er ekki skylt að verja til vegamála enda hefur því verið varið til ýmissa verkefna sem ekkert hafa með samgöngumál að gera.

Rúmlega 20 milljarða vantar til að mæta uppsafnaðri fjárfestingaþörf í vegakerfinu. Vestfirðir finna mest fyrir niðurskurðarhnífnum á Vestfjarðarvegi og á Dynjandisheiði er skorið niður um 1,6 milljarð. Næstmest er skorið niður á sunnanverðum Austfjörðum, í Berufjarðarbotni og vegna brúar yfir Hornarfjarðarfljót. Fjölda annara framkvæmda mætti nefna eins og Skógarstrandarveg, Vatnsnesveg,Strandirnar, vegi í uppsveitum Borgarfjarðar, Kjalarnesveg, Skagastrandarveg og Dettifossveg. Áfram mætti telja í langan lista því viðhald vega hefur verið vanrækt lengi og hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu til samgöngumála dregst stöðugt saman; hefur farið úr 1,5 % niður í 1% sem er sögulegt lágmark.

Sveitastjórnir og íbúar hafa mótmælt harðlega niðurskurði til samgangna og undirskriftarsöfnun er í gangi þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að standa við vegabætur á Vestfjarðarvegi 60 um Gufudalssveit þar sem byggð á sunnanverðum Vestfjörðum á allt sitt undir því að þar byggist upp heilsársvegur. Sá dráttur sem hefur verið á samgöngubótum á því svæði er ekki boðlegur.

Það þýðir ekkert að flagga því framan í almenning að skoða eigi fjármögnun með auknum álögum á almenning í formi vegatolla eða selja ríkiseignir sem er einskiptisaðgerð og er eins og að pissa í skóinn sinn.

 

Nú er lag, notum það.

Hvenær í ósköpunum höfum við efni á að taka til hendinni í fjársveltum samgöngum ef ekki nú þegar allar efnahagslegar aðstæður eru hagstæðar þannig að nú ætti að vera lag. Það verður enn dýrara að takast á við vandann ef honum er áfram ýtt á undan sér og varla gerist mikið ef efnahagsástandið versnar.

Stjórnvöld verða að taka upp fjárlögin og koma til móts við háværar kröfur almennings um stóraukið fé til vegamála og gera þarf átak í samgöngubótum almennt bæði til hafnarframkvæmda og viðhalds flugvalla ef ekki á illa að fara því við erum komin yfir öll þolmörk og þolinmæði landsmanna á þrotum.

 

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður NV kjördæmis.

 

Röng skilaboð

Við höfum átt orðastað, ég og forsætisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um skil hans á skýrslum um aflandsfélög og skuldaleiðréttinguna. Í máli hans kemur fram að hann telur réttlætanlegt að hafa haldið þeim frá almenningi og Alþingi fram yfir ríkisstjórnarmyndun en viðurkennir þó mistök vegna skila þeirra fyrri.

Hvað skýrsluskil varðar þá er kýrskýrt að ráðherra er almennt ekki dómari um hvenær skýrsla skal lögð fram, plagg sem beðið er um af þinginu og unnin af sérfræðingum, eins þótt verkbeiðandinn sé ráðherra. Skýrsla á samkvæmt eðlilegum lýðræðisvinnubrögðum alla jafna að birtast þingi og þjóð þegar hún er tilbúin að mati sérfræðinganna en ekki þegar ráðherra telur hana birtingarhæfa. Innihaldið er ekki ákvarðandi í fyrsta sæti, ekki lengdin, ekki hversu sammála eða ósammála ráðherra er innihaldinu. Þetta er verkferli sem við eigum ekki að þurfa að deila um. Ég lít svo á að ráðherra hafi orðið á alvarleg mistök enda um meðvitaða ákvörðun að ræða, ekki gleymsku. Skilaboð til almennings og Alþingis í ljósi lýðræðis eru röng.

Ráðherra hefur sagt í andsvörum að þingheimur þyrfti að vera sammála um eðli og inntak siðareglna. Að sjálfsögðu. Ég var einmitt að reyna að fá hans afstöðu fram vegna algengs misskilnings margra um eðli og inntak siðareglna. Engu máli skiptir við mat á siðareglubrotum hvort viðkomandi hafi orðið á óvarkárni, gleymska eða hann haft uppi ásetning. Flest má kalla mistök. Það hugtak frelsar engan undan því að hafa framið ósiðrænan verknað. Brot viðkomandi er brot vegna þess að það er yfirleitt ekki hægt að sanna hvað lá að baki rangri ákvörðun sem reglur segja vera brot. Afsökun breytir engu nema ef til vill viðurlögum. Þetta er kjarni míns máls og varðar miklu ef siðareglur eiga að vera til gagns. Við getum deilt um hvað á við um skýrsluskilin, brot eða ekki brot, en morgunljóst að mat á siðareglubrotum er fyrst og fremst mat á gjörningnum sjálfum ekki á misgáningi, gleymsku, ásetningi eða persónulegu mati viðkomandi á eigin gerðum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Sérhagsmunaliðið

Í kosningabaráttunni síðastliðið haust og oft endranær í stjórnmálumræðunni krýna margir sig iðulega með slagorðum sem eiga að undirstrika gæði eða yfirburði hlutaðeigandi sem fulltrúa almennings. Einna vinsælast er að segja að viðkomandi sé; „fulltrúi almannahagsmuna og gegn sérhagsmunum“. Síðan hljómar auðvitað vel að vera „umbótasinnaður“, vilja „kerfisbreytingar“ vera „faglegur“, afburða „frjálslyndur“ og þar fram eftir götunum. Ef þú vilt vera alveg klár á hlutunum og hafa umbúðirnar eins söluvænar og nokkur kostur er þá er vænlegt að slá þessu öllu saman og segjast vera; „umbótasinnaður, frjálslyndur, faglegur, lýðræðislegur, kerfisbreytinga-miðjuflokkur eða miðjumaður“.

En hvað stendur stjórnmálamaður eða flokkur raunverulega fyrir og hvenær og hvernig birtist það? Jú, það birtist í verkunum. Verkin sýna merkin eins og sagt er. Það birtist í afstöðu til mála, t.d. þegar þingmenn greiða atkvæði og þegar þingmenn flytja mál. Tökum sem dæmi þingmannahópinn sem enn á ný flytur þingmálið um brennivín í búðir og þá sem hyggjast styðja það. Gæti vera þingmanna í þeim hópi, eða eftir atvikum afstaða flokka, að því marki sem þeir skipa sér í fylkingar með eða á móti, verið betri mælikvarði en fallegar nafngiftir sem menn velja sér sjálfum. Lítum aðeins nánar á það.

1. Byggir frumvarpið um brennivín í búðir á faglegi nálgun? Nei, varla verður það sagt þegar allir helstu fagaðilar sem gerst til þekkja, uppeldis-, fræðslu-, forvarna- og heilbrigðisfagfólk með landlækni í broddi fylkingar leggjast alfarið gegn málinu.

2. Byggir málið á sterkum lýðræðislegum grunni? Er ástæða til að ætla að meirihluti kjósenda, uppspretta valdsins, vilji þessa breytingu? Svarið er nei. Allar nýlegustu mælingar hafa sýnt að meirihluti landsmanna er á móti málinu. Fólk vill þetta almennt ekki.

3. Er þetta augljóst, jákvætt kerfisbreytinga-umbótamál og í hverju felast þá umbæturnar? Engar umbætur eru sjáanlegar. Er ekki staðreyndin sú að fyrirkomulagið í dag er skilvirkt og tryggir jafnræði í þeim skilningi að varan stendur landsmönnum til boða á sama verði hvar sem er á landinu? Almenningur er ánægður með þjónustuna samanber ítrekaðar mælingar samkvæmt svonefndri ánægjuvog.

4. Er eitthvað sérstaklega frjálslynt við það að hundsa lýðheilsurök? Svari því hver fyrir sig.

5. Er þetta mál í þágu almannahagsmuna og gegn sérhagsmunum? Nei, svo vill til að það er akkúrat öfugt. Almenningur biður ekki um þessar breytingar og þvert á móti er almenn hneykslun í samfélaginu á því að þetta skuli vera í þvílíkum forgangi sem raun ber vitni hjá þeim sem að málinu standa. Það eru eigendur stórverslunarinnar í landinu sem vilja þessar breytingar. Það eru þeirra hagsmunir sem drífa þetta mál áfram og það er þeirra sérhagsmunum sem hér er verið að þjóna. Aðstandendur málsins eru því sérhagsmunalið.  Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.