1. maí ræða Lilju

Góðir félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks.

Nú sem aldrei fyrr skiptir máli að standa saman í baráttunni fyrr bættum kjörum launafólks þegar alvarleg verkfallsátök eru í landinu og óvissa ríkir um hvenær samningar munu takast.
Félagar í Starfsgreinasambandinu og þar á meðal launafólk í Verkalýðsfélagi Vestfjarða hóf verkfallsaðgerðir í gær og framundan eru regluleg sólarhringsverkföll í maí þar til allsherjarverkfall skellur á 26. maí nk. ef ekki næst að semja fyrir þann tíma. Vonandi tekst að semja sem fyrst þó menn séu ekki alltof bjartsýnir í dag á stöðu mála þegar SA sýna engan lit á að mæta sanngjörnum kröfum SGS og leggja ekkert nýtt fram umfram 3.5 % launahækkun sem er 7.490 kr. hækkun á mánuði fyrir skatta.

Verkföllin munu hafa áhrif á fjölda vinnustaða út um allt land en það vinna um 4 þúsund manns í fiskvinnslu í landinu og fjöldi annara starfstétta innan SGS munu líka leggja niður vinnu.
Innan SGS eru 10 þúsund félagar sem að stærstum hluta eru láglaunastéttir sem gera þá hógværu kröfu að á næstu þremur árum hækki grunnlaun þeirra á mánuði úr 214 þúsund krónum í 300 þúsund kr á mánuði.
Í vikunni birtist könnun hjá Gallup þar sem kemur fram að tæp 92 % landsmanna styður þessa kröfu félaga innan SGS sem eru sterk skilaboð til viðsemjenda um að ekki verður lengur við unað að þeim lægst launuðu í þjóðfélaginu sé gert að lifa á launum sem duga enganveginn til framfærslu og eru í raun okkur sem þjóð til skammar.
Það var athyglisvert að ekki var marktækur munur á stuðningi við 300 þúsund kr lágmarkslaunin á milli mismunandi tekjuhópa eða eftir landssvæðum. Meiri stuðningur var þó á meðal kvenna við kröfuna og nefndu konur að launin þyrftu að vera hærri en 300 þúsund kr. á mánuði.

Það kemur kannski ekki á óvart því konur halda oftar en ekki um heimilisbudduna og sjá oftar um innkaup til heimilisins og heimilisbókhaldið. Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur frá Súgandafirði skrifaði góða grein á dögunum þar sem hún rekur hve raunverulegur framfærslukostnaður er í landinu með þeim neysluviðmiðum sem notuð eru í Velferðarráðuneytinu.
Þar kemur skýrt fram að það lifir enginn af 214 þúsund kr á mánuði með mannsæmandi hætti og þó að launin myndu hækka í 300 þúsund kr á þrem árum þá yrðu útborguð laun að frádregnum sköttum og launatengdugjöldum um 230 þúsund kr á mánuði. Það eru nú öll ósköpin sem farið er fram á !

Ég tel að ríkið eigi að lækka skatta í neðsta skattþrepinu og koma þannig til móts við þennan hóp en í stað þess hefur ríkisstjórnin aflétt auðlegðarskattinum af þeim tekjuhæstu upp á tugi milljarða króna og fjármálaráðherra lýsti því yfir á fundi með stóriðjunni að það væri forgangsmál að afnema raforkuskatt uppá 1.6 milljarða af álfyrirtækjunum en hvað með kjör launafólks ?

Það eru kaldar kveðjur sem launafólk fær úr ýmsum áttum þessa dagana.
Fjármálaráðherra lét einnig hafa það eftir sér fyrir nokkrum dögum að mögulega væri að búið að jafna kjörin of mikið í landinu. Ætli launafólk sé sammála þeirri skoðun ráðherra að hugsanlega séu 214 þúsund kr á mánuði of há laun ! Það er bara til skammar að láta svona útúr sér.

Landsbankinn sendi frá sér greiningu nýlega þar sem hann fær það út að á síðustu 17 árum hafi lægstu laun hækkað úr 70 þúsund kr á mánuði í 214 þúsund kr sem þýði kaupmáttaraukningu uppá 70 % á þessu tímabili. Þetta er eintóm blekking það sem fólk fær fyrir mánaðarlaunin í dag í samanburði við það sem það fékk fyrir 17 árum er rétta mælingin og það getur engan veginn staðist að launafólk fái 70 % meira á mánuði fyrir laun sýn í dag en það gerði fyrir 17 árum. Launataxtar hafa verið úr takti við allan veruleika allt of lengi þeir verða að endurspegla raunverulegan kostnað við það að geta lifað sómasamlegu lífi.

Seðlabankinn hamrar á því að laun megi ekki hækka umfram 3.5 % því þá sé voðinn vís og verðbólgan fari af stað. Láglaunafólki hefur alltaf verið stillt upp við vegg þegar kaupkröfur þeirra eru annarsvegar og það látið axla ábyrgð á stöðuleikanum í þjóðfélaginu meðan aðrir þjóðfélagshópar geta skammtað sér laun óáreittir.
Atvinnurekendur verða líka sjálfir að bera ábyrgð á því að launahækkanir fari ekki beint út í verðlagið og sjá til þess að laun þeirra og annara stjórnanda séu í einhverjum takti við laun almennra starfsmanna.
Bankabónusar voru vel þekktir hér fyrir Hrun og þar rökuðu menn til sýn fjármunum á kostnað almennings í landinu þar til allt fór á hausinn.

Nú ætla stjórnvöld aftur að opna á að leyfa þessa háu bónusa í fjármálakerfinu sem gerir ekkert annað en að misbjóða almennu launafólki í landinu og að ýta undir græðgisvæðingu þeirra sem geta skammtað sér laun á kostnað annara. Við þurfum ekki á öðru Hruni að halda það fyrra ætti að hafa kennt okkur að græðgi og misskipting endar bara á einn veg þ.e.a.s. með ósköpum.
Góðir félagar það fer enginn í verkfall að gamni sýnu það er grafalvarleg ákvörðun fyrir þá sem standa í verkfallsátökum og fyrir alla þá sem verkföllin bitna á. Verkfallsvopnið er neyðarvopn sem fara verður varlega með – en þeir tímar koma eins og núna að ekkert dugar annað en að sýna fram á að verkafólk ætlar ekki að vera einhver afgangsstærð sem hirðir brauðmolana sem verða eftir þegar búið er að skipta þjóðarkökunni upp með óréttlátum hætti.

Það er ekki skrýtið að fólki ofbjóði þegar stærstu fyrirtækin í landinu eins og Grandi hf greiða allt að 3 sinnum meira út í arðgreiðslur til eiganda sinna heldur en í veiðigjöld til þjóðarinnar og hækkar svo laun stjórnarmanna um 33 % á mánuði úr 150 þúsund kr í 200 þúsund kr , en býður svo starfsfólki sýnu bara upp á íspinna í stað þess að mæta réttmætum launakröfum þeirra. Hárbeittur ádeilusöngur fiskvinnslukonu á Akranesi á þessa framkomu fyrirtækisins hefur örugglega átt mikinn þátt í því að Verkalýðsfélaginu á Akranesi og Eflingu í Reykjavík tókst að ná fram samningum um að starfsfólk Granda hf fengi skerf af miklum hagnaði fyrirtækisins og er það vel.

Það hefst ekkert baráttulaust og launafólk verður að standa saman hvort sem það er innan Verk Vest, Félags opinberra starfsmanna , BHM eða annara samtaka launafólks því það vill oft verða að það er verið að etja launafólki saman og beita blekkingum til þess að rjúfa samstöðuna.
„Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum“ stendur svo sannarlega enn fyrir sýnu og á þessum erfiðu óvissu tímum er óskandi að samstaða launafólks skili árangri og bættum hag til þeirra sem verst eru settir.
SA verða að koma út úr skápnum og mæta kröfunni um 300 þús kr lágmarkslaun og horfast í augu við þann veruleika að það lifir engin af 214 þúsund kr á mánuðu.

Stjórnvöld verða líka að snúa af þeirri braut að auka misskiptingu í landinu með því að lækka skatta á hátekjufólki en leggja þess í stað matarskatt á almenning í landinu sem nemur allt að 11 milljörðum kr á ári sem bitnar mest á því fólki sem hefur lægri tekjur og eyðir stórum hluta tekna sinna í matarinnkaup.
Og sú fyrirætlan stjórnvalda að færa ákveðnum útgerðum í landinu makrílkvótann á silfurfati til eignar fyrir tugi milljarða króna er hneyksli og má alls ekki gerast enda er þjóðinni algjörlega misboðið og launafólki í raun sýndur hnefinn.
Efnahagur þjóðarinnar er sem betur fer að batna eftir erfið ár í kjölfar Hrunsins og nú ríður á að jöfnuður aukist í þjóðfélaginu og að þjóðarkökunni verði skipt með réttlátari hætti en verið hefur í gegnum árin.
Góðir félagar stöndum saman að því að gera samfélagið réttlátara.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.
1. Maí ræða á Suðureyri 2015.

Réttlátara samfélag!

Í dag, á baráttudegi verkalýðsins, gengu landsmenn fylktu liði til að berjast fyrir bættum kjörum og réttindum. Þessi dagur virtist um tíma hafa misst gildi sitt og vera túlkaður sem almennur frídagur, en hefur öðlast á ný þá merkingu sem honum var ætluð; að vera dagur þar sem launafólk sýnir samstöðu í baráttu fyrir réttlátara samfélagi.

Eftir hrun og kreppu þurfti íslenskur almenningur að taka á sig miklar byrðar. Sjö mögur ár tóku við þar sem allir voru reiðubúnir að leggja sitt af mörkum. Nú þegar spáð er góðum horfum og hagvexti er eðlilegt að væntingar almennings í landinu vakni, ekki síst þegar fólk sér stjórnendur og auðmenn þiggja launahækkanir og skattaívilnanir. Stjórnvöld hafa sýnt skýra forgangsröð í þágu auðmanna: fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld um milljarða króna og beint í kjölfarið greiddu eigendur útgerðarfyrirtækja út ríkulegan arð. Næsta verk var að afnema auðlegðarskattinn sem lagðist á þá sem mestar eignir áttu. Með slíkum skattstofni væri hægt að reisa meginbyggingu nýs Landspítala á fimm árum sem væri mikilvægt skref til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn alla til framtíðar. Einnig hefði komið til greina að lækka skatta á þá tekjuminnstu.

Ríkisstjórnin valdi hins vegar að endurnýja ekki auðlegðarskattinn og lækka skatta í milliþrepi en hækkaði í staðinn skatt á matvæli; aðgerð sem kemur verst niður á lægst launuðu hópunum sem eyða hlutfallslega meiru í matvæli en efnameiri hópar. Hún valdi líka að auka hlut almennings í kostnaði við heilbrigðisþjónustu með því að hækka komugjöld á heilsugæslu og reyndi að leggja á spítalaskatt, þ.e. innlagnargjald á sjúkrahús, en var á endanum hrakin til baka með það ráðabrugg. Og sama ríkisstjórn valdi að loka dyrum framhaldsskólanna fyrir efnaminni nemendum eldri en 25 ára sem vilja sækja í bóklegt nám. Sama ríkisstjórn valdi að stytta atvinnuleysistryggingatímabilið og sama ríkisstjórn fyrirhugar nú að setja lög sem skilyrða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Allt eru þetta pólitískar ákvarðanir sem hafa áhrif á kjör almennings í landinu. Það er ekki hægt að setja upp sakleysissvip eins og ríkisstjórnin hefur gert og gefa í skyn að kjarasamningar séu ekki á borði stjórnvalda. Stjórnvöld eru auðvitað ekki beinn aðili að samningum á hinum almenna markaði en með aðgerðum sínum hafa þau svo sannarlega áhrif á lífskjör almennings og þar með kröfur almennra launamanna. Ef fólkið í landinu þarf að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu og menntun, borga meira fyrir matarkörfuna vegna skattahækkana stjórnvalda, og þar að auki að horfa upp á skattabreytingar sem fyrst og fremst gagnast hinum efnameiri, þá er auðvitað ekki von á öðru en að fólkið í landinu geri skýrar kröfur um breytingar. Þannig hafa aðgerðir þessarar ríkisstjórnar í raun skapað þær kaupkröfur sem almenningur setur nú fram. Þegar ríkið er beinn aðili máls, eins og í kjaradeilu háskólamanna, er auðvitað ekki hægt að láta eins og þetta komi stjórnvöldum ekki við – en þar geta stjórnvöld líka beitt sér með óbeinum hætti til dæmis með breytingum á Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Fjármálaráðherra spyr sig hvort jöfnuður sé orðinn of mikill. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar hafa flestar miðast að því að auka ójöfnuð. En fyrir hinn venjulega launamann er vandinn fremur sá að allt of margir Íslendingar ná ekki endum saman á sama tíma og stjórnvöld hafa verið önnum kafin við að bæta hag hinna efnameiri. Aukinn jöfnuður er áhyggjuefni á stjórnarheimilinu en samt einkenni þeirra samfélaga sem best vegnar enda mikilvægur þáttur í að byggja réttlátt samfélag fyrir alla.

Til hamingju með daginn, göngum saman fyrir réttlátara samfélagi.

Makrílgjafakvóti fyrir milljarða

Ríkisstjórnin hefur ákveðið með frumvarpi að lögum að lögfesta kvótasetningu á makríl en hann er ný tegund í íslenskri lögsögu og einnig verður heimil frjáls viðskipti með hann innan greinarinnar.
Þessi gjörningur þýðir gjafakvóta fyrir tugi milljarða til aðila í greininni í boði stjórnvalda á sama tíma og launafólki er skammtað úr hnefa launahækkunum í nafni stöðugleika !

Undanfarin ár hefur makrílveiðum verið stjórnað frá ári til árs með reglugerðarheimildum sjávarútvegsráðherra hverju sinni en enn hefur ekki náðst að semja um veiðarnar milli þeirra strandríkja sem í hlut eiga.
Makríllin kom inn í lögsögu okkar uppúr 2007 en fór ekki að veiðast að ráði fyrr en árið 2009 og hefur síðan þá skilað þjóðarbúinu og sérstaklega uppsjávargeiranum gífurlegum tekjum.

Árið 2010 var uppsjávargeirinn sem hóf veiðar settar skorður í 112 þúsund tonnum og í framhaldinu var makrílnum úthlutað með reglugerð til fjögra flokka þ.e. uppsjávargeirans,frystiskipa,ísfisktogara og krókaaflamarksbáta.
Frá árinu 2012 voru veiðunum settar þær skorður að aflinn færi til manneldis og gekk það eftir og skilaði margfalt meira verðmæti í kjölfarið.

Stórskipaflotinn hefur ekki þurft að kosta til miklum fjármunum vegna makrílveiðanna heldur hafa þeir getað nýtt þann búnað sem fyrir er í veiðum og vinnslu og hefur þessi makrílveiði því verið algjör bónus og í raun hvalreki fyrir þá.
Í dag eru um 114 minni bátar á makríl þar sem eigendur hafa þurft að fara út í kostnaðarmiklar breytingar á sýnum bátum allt frá 6 til 10 mlkr sem er hátt hlutfall af verðmæti bátanna. Makrílveiðar minni skipa og báta hafa skipt miklu fyrir vinnslu í landi og oft verið forsenda þess að halda fiskvinnslu í landi gangandi yfir sumarið. Ráðherra hefur skýlt sér á bak við álit umboðsmanns Alþingis um að óheimilt sé að stjórna veiðunum áfram með reglugerðarheimildum og að uppsjávarfyrirtæki hafi kært úthlutun makríls þ.e. að allur makríllinn fari ekki á uppsjávargeirann. Þetta er skálkaskjól því að sjálfsögðu er hægt með lögum að stjórna makrílveiðum með öðrum hætti eins og t.d. með því að leigja hann á ársgrundvelli eða að bjóða hann út innan skilgreindra marka. Ríkisstjórnarflokkarnir eru fyrst og fremst að fylgja eftir sinni stefnu með kvótasetningu og framsali sem kallar um leið á brask og skuldsetningu innan greinarinnar mikillar samþjöppunar á kostnað minni útgerða sem ekki munu rísa undir enn frekari skuldsetningu.

Þetta verður rothögg fyrir báta strandveiðihluta makrílveiðanna sem fá það litla úthlutun að þeir verða annaðhvort að leigja af öðrum makrílkvóta eða selja sýna makrílhlutdeild. Þarna er verið að búa til bólu hagkerfi og tilbúin verðmæti sem felast í því að greinin fari að versla með makrílinn sín á milli með tilheyrandi viðbótar skuldsetningu. Fjármálastofnanir munu að sjálfsögðu fitna á aukinni skuldsetningu í greininni og með veðsetningu á makríl og vextirnir hækka í kjölfarið. Það er í raun verið að loka á nýliðun í makrílveiðum og á þá þróun sem verið hefur í manneldisvinnslu makríls í landi í fiskvinnslum víða í sjávarbyggðum.

Það er ömurlegt að stjórnvöld nýti ekki þetta gullna tækifæri sem nú gefst með því að úthluta þessari nýju tegund „ Makrílnu „með öðrum hætti en gert er í núverandi kvótakerfi sem er mjög umdeilt og óréttlátt og engin sátt er um í þjóðfélaginu og hefur valdið mikilli samþjöppun með tilheyrandi byggðaröskun.

Ég tel skynsamlegt að við lögfestum með sérlögum að leigja makrílinn út á ársgrundvelli til þeirra fjögurra útgerðarflokka sem hafa stundað veiðar undanfarin ár og endurskoðum innbyrðishlutfall þar á milli. Leigan verði hlutfall af aflaverðmæti uppúr sjó og nýtist samfélaginu öllu.

Það veit engin hve makríllin verður lengi í íslenskri lögsögu þó við viljum að hann sé kominn til að vera. Hversvegna að búa til úr þessari sameiginlegu auðlind peningamaskínu fyrir þá sem fá gefins makrílkvóta og skuldsetja greinina samhliða þegar engin þörf er á. Það afgjald sem ráðherra leggur til þ.e. 10 kr pr kg. er brotabrot af varanlegri sölu á þorskkvóta í dag þó tekið sé tillit til þess að þorskurinn sé verðmætari tegund.

Þessi gjafakvóta gjörningur er hneyksli og gerir ekkert annað en að hella olíu á eld í áframhaldandi deilum meðal landsmanna um ráðstöfun sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Norðvestur kjördæmis.

Ungt fólk til áhrifa

Ein sterkasta krafa samtímans er krafan um aukið lýðræði. Á sama tíma minnkar kosningaþátttaka sem vekur efasemdir um hvort nægilega vel er komið til móts við þá kröfu. Hlutverk okkar í stjórnmálum er að takast á við þetta vandamál og vernda og efla lýðræðið.

Lýðræði snýst ekki aðeins um form og ferla þó að vissulega sé  slíkt mikilvægt í lýðræðissamfélögum. En lýðræðið snýst um meira; lýðræði er ekki aðeins stjórnarform heldur hugsjón. Lýðræði er lífsmáti; það snýst um að, taka þátt, hafa áhrif í stóru og smáu og finna að maður hafi áhrif; að á mann sé hlustað. Á síðasta kjörtímabili var lýðræðismenntun sett inn í námskrá en reynslan hefur kennt okkur að menntakerfið hefur víðtæk áhrif á hugmyndir okkur um lýðræði.Aðgengi að upplýsingum er annar grundvallarþáttur í eflingu lýðræðis en upplýsingalögum var breytt til batnaðar á síðasta kjörtímabili. Gott dæmi um lýðræðislegri vinnubrögð við stefnumótun hjá hinu opinbera er sóknaráætlun landshluta sem var unnin í samráði við íbúa og hagsmunaaðila í hverjum landshluta.

Það er mikilvægt að beita ólíkum aðferðum til að efla lýðræði. Eitt af því sem vert er að skoða er kosningaaldur en  við Árni Páll Árnason ásamt þingmönnum úr Vg og Samfylkingu höfum lagt fram tillögu um að kosningaaldur verði lækkaður í 16 ár.

Árið 2011 samþykkti þing Evrópuráðsins ályktun um aukið lýðræði með lækkun kosningaaldurs í 16 ár. Austurríki hefur þegar lækkað kosningaaldur. Þá hafa nokkur Evrópuríki ráðist í að lækka kosningaaldur í 16 ár í héraðs- og sveitarstjórnarkosningum og í Noregi hefur slíku aldurstakmarki verið komið á í tilraunaskyni í tuttugu sveitarfélögum.

Ungt fólk í samtímanum hefur aðgang að miklum upplýsingum og þegar maður ræðir við ungt fólk í framhaldsskólum landsins er ljóst að það hefur skoðanir á ólíkustu málefnum. Hins vegar virðist dvínandi kosningaþátttaka benda til þess að hefðbundin stjórnmál höfði ekki nægilega vel til ungs fólks og þess vegna er mikilvægt að veita því aukin tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið og láta rödd sína heyrast.

Katrín Jakobsdóttir

Illugi hvað ertu eiginlega að hugsa?

Við Vinstri græn höfum mikið rætt á þingi um starfshætti menntamálaráðherra í hinum ýmsu málum. Ég ætla hér í þessum greinarstúf að byrja á umfjöllun um framhaldsskólana en þar hefur stefnumörkun m.a. stytting náms til stúdentsprófs helst farið fram í gegnum fjárlög. Það er ekki nóg að gefa út Hvítbók, ferðast um landið og kynna eigin hugmyndir og halda að þá sé málið útrætt slík stefnumörkun á að sjálfsögðu líka að fara í skólunum og í þinginu.

Framhaldsskólar landsins hafa unnið hörðum höndum að því að skila inn tillögum að 3 ára námsskrám og eitt af því sem vekur mikla undrun hjá mörgum er að íþróttakennsla leggst nánast niður svo lítil á hún að verða. Nú hefur það verið svo að framhaldsskólar hafa keppst við að vera virkir þátttakendur í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem menntamálaráðuneytið stendur að ásamt velferðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra framhaldsskólanemenda. Því hafa fylgt margar góðar breytingar bæði í mötuneytum skólanna og einnig hefur líkams- og heilsurækt nemenda aukist til muna. Rannsóknir sýna að líkamleg virkni eykur einbeitingu og styrkir nemendur í námi. Þetta eru árin sem styðja þarf með öllum ráðum við ungmenni þannig að þau verði meðvituð og ábyrg fyrir eigin heilsu og velferð. Því er það óskiljanlegt að menntamálaráðherra skuli stefna ótrauður að því að skerða líkams- og heilsuræktarkennslu úr 8 einingum í 2.

Hver eru faglegu sjónarmiðin þar að baki? Illugi Gunnarsson þarf að svara því að á sama tíma og hann leggur til slíka skerðingu þá leggja alþjóða heilbrigðisstofnanir áherslu á daglega hreyfingu ungmenna.
Aukin kyrrseta ungs fólks eykur líkurnar á lífsstílstengdum sjúkdómum og þegar við hlustum á heilbrigðisráðherra leggja til notkun hreyfiseðla sem meðferðarúrræði þá velti ég því fyrir mér hvort þeir flokksfélagar tali ekki saman um svo mikilvægt mál.

Á bak við tjöldin

En það er fleira sem Illugi menntamálaráðherra stefnir einbeittur að og það eru sameiningar framhaldsskóla. Sem landsbyggðakona þá hef ég af því miklar áhyggjur enda skipta framhaldsskólar miklu máli í hinum dreifðu byggðum að svo mörgu leiti. Þeir skapa störf og auka tækifæri til nýsköpunar og samvinnu við atvinnulífið á stöðunum. Samvinna í málefnum framhaldsskóla virðist ekki hugnast ráðherranum og má þar t.d. nefna Fjarmenntaskólann en þar tóku 12 landsbyggðaskólar sig saman og bjuggu til samstarfsvettvang sem gerir þeim m.a. kleyft að halda úti fleiri áföngum en ella. Þessu fylgir hagræði og sparnaður sem ráðherrann ætti að kynna sér betur. Ég hef miklar áhyggjur af því að skólarnir verði „sveltir“ til hlýðni og ekki verði hlustað á raddir heimamanna og þeirra sem fara fyrir skólunum heldur sameini Illugi eins og hann vill sem óhjákvæmilega yrði til þess að sérstaða þeirra hverfur. Ráðherrann þarf að svara því hreint út hvort og þá hvaða skóla hann hyggst sameina á landsbyggðinni og færa fyrir því fagleg og ásættanleg rök.

Efnt til ófriðar um rammaáætlun

Um fá mál á Alþingi virðist vera djúpstæðari ágreiningur en þau sem snúast um náttúruvernd annars vegar og nýtingu náttúruauðlinda hinsd vegar. Margir töldu að átökin um Kárahnjúkavirkjun hefðu orðið til þess að menn hefðu lært að ekki gengi að valta yfir fólk og firnindi í krafti meirihluta; mikilvægt væri að leiða þessi mál í einhvers konar sáttaferli.Það virtist hafa náðst þegar lög um rammaáætlun voru samþykkt á sínum tíma með atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum árið 2011. Í kjölfarið var ný rammaáætlun samþykkt á þingi.

Hún var hins vegar ekki samþykkt af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gagnrýni þeirra snerist einkum um að þrjár virkjanir í neðri Þjórsá hefðu verið færðar úr nýtingu í bið – og létu þessir þingmenn það sem vind um eyru þjóta að það var gert að loknu lögbundnu umsagnarferli þar sem á þriðja hundrað athugasemda barst vegna þessara virkjana. Þeir sem samþykktu rammaáætlun voru hins vegar hreint ekkert allir að samþykkja einhverja draumaáætlun. En þeir litu svo á að nauðsynlegt væri að breyta umræðunni, leiða djúpstæðan ágreining í sáttaferil og vildu standa við það.

En hvar er þetta mál statt núna? Umhverfisráðherra lagði fram tillögu um að Hvammsvirkjun í Þjórsá yrði færð úr bið í nýtingu. Var það gert að tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Málinu var vísað til atvinnuveganefndar Alþingis en ekki umhverfisnefndar sem vakti strax grunsemdir um að ætlunin væri að rjúfa tengsl verndar og nýtingar sem er hryggjarstykkið í hugmyndafræði rammaáætlunar. Og sá illi grunur reyndist réttur. Meirihluti nefndarinnar hyggst leggja til að fjögur önnur svæði verði færð úr bið í nýtingu (sem vel að merkja er talsvert afdrifaríkari ákvörðun en að færa úr nýtingu í bið) en það eru tvær virkjanir í neðri Þjórsá (Urriðafoss og Holtavirkjun), Hagavatnsvirkjun og Skrokkalda. Af þessum hefur verkefnisstjórn aldrei lokið umfjöllun um Hagavatnsvirkjun og ekki lokið að fjalla að nýju um Skrokköldu, Urriðafoss og Holtavirkjun.

Umfjöllun og vinnubrögð í kringum nýtingarflokk rammaáætlunar er því í uppnámi og stjórnarmeirihlutinn virðist ekki álíta sig bundinn af því ferli sem skilgreint er í lögum um rammaáætlun. Þarna er enn og aftur verið að efna til ófriðar, stríðsöxin grafin upp að óþörfu í blindu ofstæki og trú á gamlar stórkallalausnir í atvinnumálum.

Og hvað er að gerast hinum megin, í verndarflokki rammaáætlunar. Því miður virðist svarið vera: Ekki neitt. Lögum samkvæmt á umhverfisráðherra að friðlýsa þau svæði sem sett eru í verndarflokk rammaáætlunar. Ég lagði fram fyrirspurn til ráðherrans árið 2013 og að nýju árið 2014. Skrifleg svör bárust; hið fyrra 30. október 2013, hið síðara 16. desember 2014. Svörin voru keimlík þó að reynt hafi verið að breyta orðalagi á stöku stað. Í stuttu máli hafði ekkert þokast í friðlýsingum svæða í verndarflokki þó að það sé lögbundin skylda umhverfisráðherra að framkvæma þær. Þegar ég spurði svo ráðherrann hverju sætti var kvartað undan fjárskorti en beinlínis var ákveðið í tíð þessarar ríkisstjórnar að skera niður fé til friðlýsinga. Og svo sagði ráðherrann að kannski væru þetta fullmargar friðlýsingar.

Ef þessi eru viðhorf stjórnarmeirihlutans til laga og samþykkta Alþingis er ekki nema von að almenningur í landinu krefjist róttækra kerfisbreytinga. Það virðist einlægt markmið ríkisstjórnarinnar að kveikja ófriðarbál í kringum verndun og nýtingu náttúruauðlinda líklega vegna þess að ríkisstjórnin hefur enn ekki áttað sig á því að atvinnulíf á Íslandi er breytt; hér er uppgangur í ferðaþjónustu og nýsköpun og það er enginn að biðja um gömlu stórkallalausnirnar. En viðhorf almennings virðast jafn léttvæg fyrir þessum stjórnarmeirihluta og lög og samþykktir Alþingis.

Katrín Jakobsdóttir
Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Í hverju fólst ráðgjöf Illuga?

Á dögunum var Illugi Gunnarsson á ferð í Kína ásamt fulltrúum fyrirtækisins Orka Energy en svo vill til að hann var einmitt á launum við ráðgjöf hjá því fyrirtæki meðan hann var utan þings á síðasta kjörtímabili. Fyrirtækið vinnur að orkutengdum verkefnum í Asíu og átti fund með ráðherranum meðan á dvöl hans í Kína stóð. Ráðherrann þarf nú að svara því í hverju ráðgjöf hans fólst við fyrirtækið. Hvaða ráð seldi hann Orku Energy? Hvað kostuðu þau ráð og hefur fyrirtækið farið að þeim? Voru þau ráð til umræðu á fundinum með ráðherranum/ráðgjafanum á fundinum í Kína? Hver átti frumkvæði að því að Orka Energy kæmi með í ferðina? Þessum spurningum þarf að svara. Illugi Gunnarsson er í vinnu hjá almenningi sem á rétt á svörum án undanbragða.

Hátíðarfundur kvenna í borgarstjórn

Það er sannarlega hátíðlegt að taka þátt í þessum kvennafundi hér í ráðhúsinu og gaman að hér komi saman skeleggir fulltrúar allra flokka til að fagna sigrum formæðra okkar.

Það er undarlegt til þess að hugsa að fyrir 100 árum hafi karlar setið einir að ákvarðanatöku fyrir hönd lands og þjóðar og að það hafi í raun verið ákvörðun karla að veita konum kosningarétt.

Á þessum 100 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar. Sem betur fer. Konur búa við allt annan veruleika, þær taka virkan þátt í stjórnmálum og atvinnulífi, þær hafa yfirráð yfir eigin líkama, mennta sig og gera það sem þeim sýnist. Breytingarnar hafa verið jákvæðar fyrir allt samfélagið, ekki síst karla sem hafa öðlast tækifæri og rétt til að taka þátt í umönnun barna sinna, sýna tilfinningar og gera það sem þeim sýnist.

Upp að vissu marki. Við búum ekki í fullkomnum heimi, ekki einu sinni fullkomnu landi, þó hér ríki mesta jafnrétti í heimi samkvæmt alþjóðlegum mælingum.

Allir þessir sigrar eru sterkum konum og samstöðu þeirra að þakka. Kvennaframboð hið fyrra, Kvenréttindafélagið, Kvenfélög, Rauðsokkur, Kvennaframoð hið síðara, Kvennalistinn, Femínistafélagið, kvennahreyfingar stjórnmálaflokka og femínistafélög grunn-, framhalds- og háskóla hafa sprottið upp, bylt og breytt. Hvert með sínum hætti.

Þessar hreyfingar hafa verið viðbragð við misrétti og meinsemdum í samfélaginu, þær haf beitt ólíkum aðferðum og tekist á við ólík verkefni en eiga það allar sameiginlegt að hafa fært okkur samtímakonunum þau réttindi sem við búum við í dag.

Femínismi er dáldið eins og náttúruafl og byltingar femínismans dáldið eins og eldgos. Kvennahreyfingin getur legið í dvala um tíma, stundum stutt og stundum lengi, en hún sprettur reglulega upp og hefur þá umtalsverð áhrif.

Í dag fögnum við og þökkum fyrir kosningaréttinn. Baráttan fyrir honum var löng og ströng. Svolítið eins og Kröflueldar. Áratuga gos með hléum sem á endanum leiddi til þess að konur öðluðust sömu lýðræðislegu réttindi og karlar.

Við gleðjumst auðvitað og fögnum öllum þeim réttindum sem hafa áunnist en gleymum ekki því sem enn er ógert. Það er okkar að halda áfram að útrýma kynbundnu ofbeldi, kynbundnum launamun og stuðla að raunverulega jöfnum tækifærum karla og kvenna. Við heiðrum formæður okkar og baráttukonur fyrri alda best með áframhaldandi baráttu, áframhaldandi samstöðu og áframhaldandi krafti.

Og þar er aldeilis af nógu að taka eins og atburðir undanfarinna daga gefa berlega til kynna.

Í raun má segja að við séum í miðri byltingu. Enn einni byltingunni. Eldgosi sem er nýhafið eftir umtalsverða ólgu sem hefur kraumað í samfélaginu í allnokkurn tíma.

Við höfum allar – eða öll, orðið vör við hefndarklám, hrelliklám eða rafrænt kynferðisofbeldi. Sú ógn hefur steðjað að íslenskum konum í síauknum mæli, klámvæðingin hefur sótt fram af áður óþekktu afli með tilkomu tækniframara og snjalltækja þannig að mörgum hafa fallist hendur.

Í anda þess náttúruafls sem kvennabaráttan er gat ólgan auðvitað ekki endað með öðrum hætti en einum. Byltingu. Brjóstabyltingin er hafin hún er ný en krafturinn er ótvíræður.

Hvernig brjóstabyltingin endar með að verða, hvort hér er um stutt sprengigos að ræða eða langvarandi ástand er ekki alveg komið í ljós en hvort heldur sem verður mun það hafa sín áhrif. Það er ég viss um.

Í dag er ég þakklát. Ég er þakklát formæðrum mínum og afkomendum á sama tíma. Ég er þakklát fyrir byltingar í fortíð og framtíð og sérstaklega þá sem nú er í gangi. Ég er þakklát öllum þeim konum sem hafa þorað, getað, viljað og bylt.

Það er sérstök staða að vera í, að fagna aldarafmæli í miðjum tilfinningarússíbana sem fylgir nýhafinni byltingu gegn klámvæðingu og hlutgervingu kvenna.

Sú bylting er okkar allra og hún er í þágu okkar allra. Hún er í þágu samfélagsins alls en ekki síst kvenna af öllum gerðum og á öllum aldri. Þetta er líka byltingin okkar sem ekki höfum berað á okkur brjóstin, líka okkar sem erum nógu gamlar til að búa ekki við stöðuga ógn rafræns ofbeldis.

Þessi bylting er í þágu samfélagsins, enda snýst femínismi alltaf um samfélagið í heild sinni.

Ég er ekki femínisti fyrir mig heldur af því ég vil breyta samfélaginu. Ég er á hærri launum en margir karlar í kringum mig, ég er í góðri stöðu og mér hefur ekki verið nauðgað. Það eru ekki til myndir af brjóstunum á mér á internetinu. Samt eru mín helstu baráttumál þau að útrýma kynbundnum launamun, auka tækifæri kvenna til áhrifa og útrýma kynbundnu ofbeldi – ekki síst því rafræna.

Og þetta segi ég ekki til að upphefja sjálfa mig. Og ég er ekki að halda því fram að ég sé svo æðislega góð. Ég er það ekki neitt. Kynjamisrétti er bara óbærilegt og það hefur auðvitað bein og óbein áhrif á mig eins og okkur öll. Ég vil ekki búa í samfélagi misréttis frekar en aðrir. Samfélag misréttis er vont samfélag.

Þess vegna skiptir femínisminn svo miklu máli. Hugmyndafræði sem lýtur að því að uppræta allar birtingamyndir kynjamisréttis til að við getum öll verið frjáls. Karlar og konur, ung og gömul. En til þess verðum við að standa saman og hjálpast að. Það krefst þess að við setjum okkur í spor hvers annars og reynum að skilja.

Það er ekkert sem feðraveldinu hugnast betur en erjur og innbyrðis deilur kvenna. Það var feðraveldið sem bjó til mýtuna um að konur séu konum verstar og það reynir að viðhalda henni með ráðum og dáð. Af því að feðraveldið veit sem er að samtakamáttur kvenna getur leitt til byltinga, að byltingar geta frelsað konur og að byltingar geta brotið feðraveldið á bak aftur.

Á meðan ungar konur afmá skilgreiningarvald klámvæðingarinnar á eigin líkömum með aðgerðum í opinberu rými og á samfélagsmiðlum taka miðaldra borgarfulltrúar næstu skref innan kerfisins til að stuðla að frekari framgangi kvenna og auknu jafnrétti.

Konur ákveða sjálfar hvar og hvenær þær klæða sig. Þær eru ekki til sýnis, þær eru ekki neysluvara og þær eru ekki söluvara. Ekki á samfélagsmiðlum og ekki á framboðslistum. Konur eru klárar, þær eru sterkar, þær taka sér pláss og hafa áhrif. Hér í borgarstjórn, í framhaldsskólunum, persónulega og pólitískt, heima og heiman. Konur stjórna, konur breyta og konur bylta. Innan kerfis sem utan.

Hér í dag erum við saman komnar til að samþykkja þrjár tillögur sem við höfum unnið saman á þverpólitískum vettvangi. Þessar þrjár tillögur eru í anda þess sem lagt var upp með í hátíðarhöldum borgarinnar, að fagna þeim réttindum sem áunnist hafa en hvetja til framfara á sama tíma.

Afrekasýning kvenna á Íslandi er til þess fallin að fagna öllu því sem áunnist hefur en er á sama tíma bæði hvetjandi og valdeflandi. Ofbeldisvarnarnefnd mun tala beint inn í baráttumál kvennanna sem fyrst tóku þátt í stjórnmálum, hún er til þess fallin að stuðla að öruggu og hraustu samfélagi og taka á þeim heilbrigðisvanda sem ofbeldi er. Málþing um þátttöku og áhrif kvenna í stjórnmálum ætti sömuleiðis að vera bæði til þess fallið að rifja upp og læra en ekki síst til að hvetja okkur til frekari verka.

Ég vil enda á að taka undir með öðrum borgarfulltrúum um gleðina og hátíðleikann hér í dag. Kvennasamstaðan hér skiptir sannarlega máli. Ég er ekki síst þakklát ykkur öllum sem hér sitjið, konum sem hafið unnið innan ykkar flokka eða hreyfinga og með ykkar hætti og ykkar áherslum að því að styðja og styrkja stöðu kvenna.

Ég hlakka til að samþykkja þessar tillögur með ykkur og ekki síður að sjá þær í framkvæmd af því að ég er sannfærð um að það verður samfélaginu til góðs. Áfram stelpur!

Ræðan var flutt á hátíðarfundi kvenna í borgarstjórn, 31. mars 2015.