Samþjöppun í mjólkurframleiðslu

Mikil þróun og framfarir hafa verið í kúabúskap og mjólkurframleiðslu undanfarin ár. Búin hafa stækkað og tækniframfarir orðið miklar og mörg bú hafa tekið róbóta í sína þjónustu og er það ánægjulegt og mikilvægt að greinin geti þróast og vaxið svo hún geti orðið sem best samkeppnisfær við aukinn innflutning og aukið vöruúrval og þjónað neytendum sem best. Sá hluti búvörusamningsins sem snýr að mjólkurframleiðslunni rennur út í lok næsta árs og undirbúningur að gerð nýs samnings er hafinn. Í því ljósi vakna ýmsar spurningar um hvernig stuðningi við greinina verði háttað í nýjum búvörusamningi þar sem miklar breytingar hafa verið í greininni undanfarin ár.

Dæmi eru um mikla samþjöppun í mjólkurframleiðslu og í raun eru orðin til verksmiðjubú, t.d. í Flatey á Mýrum þar sem einkahlutafélagið Selbakki í eigu útgerðarfélagsins Skinneyjar–Þinganess á Höfn er að reisa stærsta fjós landsins með rými fyrir 300 kýr. Ætlunin er að tvöfalda mjólkurframleiðsluna úr 1 millj. lítra í 2 millj. lítra á ári. Ég spyr: Er eðlilegt að stórir útgerðarrisar og fjárfestar komi með mikið fjármagn inn í mjólkurframleiðsluna og fái síðan beingreiðslur til jafns við aðra? Er réttlætanlegt að ríkisstuðningur renni til eins stærsta útgerðarfélags landsins? Varla getur það fallið undir eitt af markmiðum búvörusamningsins.

Í sjávarútvegi mega fyrirtæki ekki vera nema með 12% af heildarúthlutuðum afla. Er ekki eðlilegt að sömu sjónarmið gildi um mjólkurframleiðslu og að girðingar verði settar til að koma í veg fyrir mikla samþjöppun í greininni? Stuðningur ríkisins við mjólkurframleiðslu í ljósi aukinnar samþjöppunar í greininni og aðkomu stórra fjárfesta á móti hefðbundnum fjölskyldubúsrekstri hlýtur að kalla á endurskoðun á beingreiðslum og að þær gangi til jafns til verksmiðjubúa og annarra framleiðenda. Í dag eru svokallaðar gripagreiðslur misháar í búvörusamningi og sýna fram á að það er hægt að skerða og mismuna í ríkisstyrk. Mikilvægt er að greinin hafi færi á að vaxa og dafna og geti nýtt sér sem best tækninýjungar og að bændur geti bætt vinnuaðstöðu sína og aðbúnað gripanna. Margir bændur hafa lagt í gífurlegar fjárfestingar undanfarin ár og í byggingu nútímafjósa þar sem fjárfest hefur verið í dýrum búnaði sem getur lagst á allt að 120 millj. kr. í verðmæti. Til þess að standa undir slíkri fjárfestingu verður framleiðslan að vera, er mér sagt, um 800 þús. lítrar miðaði við til dæmis tvo róbóta.

Það sem er mikið áhyggjuefni í dag eru kynslóðaskiptin í greininni og hve erfitt reynist fyrir unga bændur að fóta sig í greininni þar sem gífurlega dýrt er að fjárfesta í greiðslumarki og byggja sig upp og bankarnir bjóða okurvexti og halda mönnum í raun í skuldafjötrum um ókomin ár. Það sýnir enn og aftur að þörf er á því að ríkisbanki eins og Landsbankinn sé gerður að samfélagsbanka sem sinni samfélagslegu og félagslegu hlutverki um land allt. Ég tel að það þurfi að horfa til þess með hvaða hætti stuðningur við greinina nýtist best til kynslóðaskipta í greininni og til að búskapur haldist áfram á góðum bújörðum.
Það er líka mikilvægt að horfa sé til þess að halda landinu í byggð og hvað geti gerst ef svo mikil og óheft samþjöppun verður í mjólkuriðnaði að búum fækkar kannski úr ca. 700 í 200. Það yrði gífurleg búsetubreyting hér um allt land og það hefði gífurlega miklar samfélagslegar afleiðingar.

Við höfum horft upp á hvernig kvótakerfið í sjávarútvegi hefur farið með byggðirnar. Ætlum við að horfa upp á að það sama gerist í sveitum landsins án þess að bregðast við meðan tími er til? Ég tel að mikil ábyrgð hvíli á herðum hæstv. landbúnaðarráðherra og Alþingi í þessum efnum og það verði að skoða þetta í því ljósi hver heildaráhrifin verða í framtíðinni á mjólkurbúskap og fjölskyldubúrekstrar í landinu. Byggðastofnun ætti í samstarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri að gera úttekt og greiningu á áhrifum og afleiðingum samþjöppunnar í mjólkurframleiðslu í landinu hvað varðar byggðaþróun og möguleika til kynslóðaskipta í greininni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvestur kjördæmi.

Bæta þarf lífskjör barnafjölskyldna

Ungt fólk á Íslandi samtímans veit vel af því að það getur valið sér búsetu. Norðurlöndin eru eitt atvinnusvæði og daglega er unnið að því að ryðja hindrunum úr vegi Norðurlandabúa sem vilja búa hvar sem er á svæðinu. Innan EES-svæðisins stendur yfir sama þróun.

Það er því ekki óalgengt að hitta ungt fólk sem hefur íhugað búsetu í útlöndum og tölur um búferlaflutninga nú um stundir virðast renna stoðum undir það að þar sé þróunin orðið neikvæð á nýjan leik, fleiri Íslendingar flytja burt en hingað til lands.

Það er stór ákvörðun að flytja og margt sem hefur áhrif á hana. Í tilfelli unga fólksins eru það til dæmis húsnæðismálin en einnig lífskjörin almennt, grunnþjónustan og aðbúnaður barnafjölskyldna.

Það ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál allra stjórnmálahreyfinga að tryggja að Ísland sé eftirsóknarverður staður til að búa á. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem innlegg í þá umræðu ásamt því að vera metnaðarfullt skólapólitískt mál. Tillagan snýst um að fæðingarorlof verði í áföngum lengt upp í 18 mánuði til jafns við það sem er í boði annars staðar á Norðurlöndum. Þá verði tryggt að leikskólavist standi börnum til boða strax við 12 mánaða aldur svo að margir foreldrar lendi ekki í vanda við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er þó mikilvægt að hafa kerfið sveigjanlegt þannig að foreldrar hafi val um hvenær leikskóladvöl hefjist.

Í þriðja lagi leggjum við til að leikskólar verði lögbundið verkefni sveitarfélaga og unnið verði að því að gera leikskólana gjaldfrjálsa. Leikskólastigið hefur í meira en tvo áratugi talist vera fyrsta skólastigið og í lögum um leik- grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2008 og í nýrri Aðalnámskrá frá árinu 2011 er horft á öll þessi skólastig sem eina heild. Það er öfugsnúið að leikskólanám sé ekki gjaldfrjálst og þetta skref því mikilvægt, bæði sem menntapólitísk ákvörðun sem fullnustaði þá hugmyndafræði að leikskóli, grunnskóli og framhaldsskóli séu órofa heild en um leið mikil kjarabót fyrir foreldra en meðalupphæð leikskólagjalda fyrir eitt barn á mánuði er yfir þrjátíu þúsund krónum.

Núverandi ríkisstjórn hefur í staðinn hug á þensluhvetjandi skattalækkunum á þeim forsendum að þar sé um kjarabætur að ræða. Það væri skynsamlegri ákvörðun, bæði efnahagslega en líka samfélagslega, að styrkja fremur innviði samfélagsins þannig að Ísland standist nágrannaþjóðum sínum snúning þegar fólk velur sér búsetu. Þannig þarf ungt fólk að geta stofnað fjölskyldu án þess að kikna undan þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem það hefur í för með sér. Tillaga Vinstri-grænna um lengra fæðingarorlof, gjaldfrjálsan leikskóla og örugga leikskólavist að loknu fæðingarorlofi er því mikilvægt hagsmunamál fyrir barnafjölskyldur og samfélagið allt.

Katrín Jakobsdóttir

Banki allra landsmanna?

Landsbankinn hefur viljað kalla sig banka allra landsmanna en því er nú ekki fyrir að fara í ljósi framgöngu hans.
Harkalegar aðgerðir bankans á Vestfjörðum bera þess ekki vitni að þar fari þjóðarbanki í eigu ríkisins sem vilji þjónusta alla landsmenn.

Vestfirðir hafa sérstaklega goldið fyrir harkalegar aðgerð bankans gagnvart viðskiptavinum sínum en þar hefur bankinn lokað útibúum einu af öðru og nú síðast skellt í lás á Þingeyri,Suðureyri og í Bolungarvík þar sem 11 störf eru undir.
Við þessar ákvarðanir bankans í skjóli hagræðingar hafa því tapast fjöldi starfa og einnig hefur þessi ákvörðun haft áhrif á þjónustu Íslandspósts þar sem hann hefur verið með starfsemi sína í samrekstri með útibúunum.
Landsbankinn hefur ekki sýnt neinn vilja til þess að endurskoða starfsemina og styrkja hana með t.d. verkefnum í fjarvinnslu frá miðlægri starfsemi bankans.
Heldur er viðskiptavinum ,fyrirtækjum og almenningi boðið að sækja þjónustu áfram um langan veg eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Í Aðgerðarlista Landsbankans frá 2011 er talað um Siðasáttmál og bætta þjónustu og þar er líka talað um „ Samfélagslega ábyrgð“
Og segir : Við ætlum að kynna nýja og heilsteypta stefnu um samfélagslega ábyrgð fyrir 1. maí það ár.
Er þetta samfélagslega ábyrgðin gagnvart landsbyggðinni í verki að öll starfsemi sem skilar ekki hámarksarði sé skorin af í skjóli sömu græðgi og olli bankahruninu 2008.
Hvar eru nú framsóknarmennirnir sem samþykktu á Flokksþingi sínu að við ættum að gera Landsbankann að samfélagsbanka í eigu ríkisins
Ætla þeir stinga hausnum undir væng og láta Sjálfstæðisflokkinn stjórna ferðinni og selja Landsbankann í hlutum eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.

Vestfirðingar kalla nú eftir afstöðu og aðgerða þingmanna sinna til þessara harkalegu og hrokafullu aðgerða Landsbankans gagnvart viðskiptavinum sínum og stefna í að færa viðskipti sín annað ef bankinn stendur við þessa ákvörðun sína.
Landsbankinn hefur verið í viðræðum í við bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar og skoðað hugmynd um þjónustumiðstöð þar sem bankinn biði lágmarksþjónustu við viðskiptavinu. Á þá ekki það sama við um þjónustu á Suðureyri og á Þingeyri og á Flateyri og á þeim stöðum sem bankinn hefur lokað að fara í samstarf við sveitarfélögin um bankaþjónustu.
Vestfirðingar eru búnir að fá sig fullsadda á skerðingu á þjónustu opinberra sem og einkaaðila og við verðum að berjast gegn aðför að búsetuskilyrðum okkar.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna.

Velferðin er ekki til sölu!

Af skrifum Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, borgarfulltrúa og fulltrúa sjálfstæðisflokks í Velferðaráði í Morgunblaðið á dögunum, ásamt viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag má glöggt sjá að stefna sjálfstæðismanna snýst um það að einkavæða velferðarkerfið og bjóða betri þjónustu til þeirra sem hafa efni á að borga.

Langflestir íslendingar (yfir 90%) eru þeirrar skoðunar að greiða skuli fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu úr sameiginlegum sjóðum. Í einhverjum tilfellum má velferðarþjónusta vera á hendi styrktar- og eða góðgerðarfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þeir sem fá opinbert fé til að veita slíka þjónustu eiga eðlilega að gera grein fyrir hverri krónu og tryggja verður að opinbert fé fari ekki í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja.

Það á að vera metnaður okkar allra að tryggja það að ríki og sveitarfélög veiti öllum öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu, óháð efnahag. Framtíðarsýn sem byggist á því að sumir geti borgað aukalega fyrir betri þjónustu er sýn sem ég deili ekki. Það er skrýtið að líta á það sem forgangsverkefni að veita fé í arðgreiðslna til gróðardrifinna fyrirtækja á markaði, í stað þess að forgangsraða sama fé í þjónustuna sjálfa. Það nýtist nefnilega öllum, líka þeim fátæku. Um þessi áform hef ég aðeins eitt að segja. Velferðin er ekki til sölu.

Elín Oddný Sigurðardóttir er fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar

Friðun miðhálendis: Forgangsmál

Vorið 1928 samþykkti Alþingi lög um friðun Þingvalla, sem lýstu Þingvelli við Öxará friðlýstan helgistað allra Íslendinga frá og með upphafi þjóðhátíðarársins 1930. Voru með þessu mörkuð þau mikilvægu tímamót í sambúð lands og þjóðar að verndargildi landsvæðis í almannaeigu hlaut viðurkenningu löggjafans og gerðar voru ráðstafanir í samræmi við það sem miðuðu að því að varðveita þar menningarminjar og náttúrufar.

Eitt forgangsmál Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á þessu þingi er stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Friðun miðhálendisins hefur verið til umræðu allt frá tíunda áratug síðustu aldar þegar Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur og þingmaður lagði fram tillögu um að stofnaðir yrðu fjórir þjóðgarðar á miðhálendinu umhverfis helstu jökla þess: Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul.

Sú tillaga þróaðist yfir í að verða sérstök tillaga um Vatnajökulsþjóðgarð sem var samþykkt og lyktaði með stofnun þess þjóðgarðs. Flestir munu þakklátir fyrir það skref enda er hið ósnortna hálendi auðlind í sjálfu sér sem okkur ber skylda til að vernda fyrir frekari ágangi og varðveita í þágu fjölbreytni náttúrunnar. Auk heldur skilar það miklum efnahagslegum ávinningi sem áfangastaður ferðamanna í leit að einstakri reynslu. Hinn efnahagslegi ávinningur er umtalsverður þó að mestu skipti að ósnortin náttúra hefur gildi óháð mannlegum mælikvörðum.

Fimmtán hugmyndir

Í hugmyndabanka orkufyrirtækjanna má nú finna að minnsta kosti fimmtán hugmyndir að virkjunum og uppistöðulónum á hálendinu. Þá eru uppi ýmsar hugmyndir um raflínulagnir og uppbyggða vegi á hálendinu. Þessar hugmyndir sýna hve takmörkuð sýn á auðlindir er ráðandi á þeim bæjum. Ef byggja á upp fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar þarf að fjölga stoðum efnahagslífsins og fjárfesta margfalt meira í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Eins má skjóta styrkari stoðum undir stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustuna, meðal annars með náttúruvernd.

Fjölbreytt atvinnustefna skilar stöðugra efnahagslífi án þess að ganga á náttúruna eins og stóriðjustefnan sem því miður er orðin þráhyggja hjá sumum í ríkisstjórnarflokkunum og hjá orkufyrirtækjunum. En nú er kominn tími til að leggja hana á hilluna og taka stefnuna í staðinn á fjölbreytt atvinnulíf þar sem traustur efnahagur auðgast af náttúruvernd.

Mikilvægi miðhálendisins
Tillaga þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um nýjan þjóðgarð á miðhálendinu er í takt við nýja atvinnustefnu þar sem skilningur ríkir á mikilvægi miðhálendisins. Vonandi ber þinginu gæfa til að samþykkja hana með tilliti til langtímahagsmuna Íslendinga. Rétt eins og við sem nú byggjum land erum þakklát þeim sem horfðu fram á veg og samþykktu að stofna þjóðgarð á Þingvöllum árið 1928 tel ég víst að eftir 90 ár verði almenningur þakklátur þeim þingheimi sem samþykkir að stofna þjóðgarð á miðhálendinu.

Katrín Jakobsdóttir

Landsbyggðargleraugun og þjóðarkakan

Fjárlögin liggja nú fyrir, fyrsta umræða hefur farið fram og frumvarpið komið til fjárlaganefndar. Nú þegar afrakstur erfiðra aðgerða sem gerðar voru vegna efnahagshrunsins er að skila ríkissjóði góðum tekjuafgangi mætti ætla að fjárlögin bæru þess vitni og veruleg innspýting væri í málaflokka sem höfðu tekið á sig skerðingar og nú væri komið að því að setja verulega fjármuni í innviðauppbyggingu samfélagsins.

Nei, því er nú ekki fyrir að fara heldur eru málaflokkar eins og samgöngumál svelt, fjarskiptaáætlun og fyrirætlanir um ljósleiðaratengingu til dreifðra byggða vanfjármögnuð, framhaldsskólarnir skornir niður í nemendaígildum, skorið er niður til byggða og sóknaráætlana og stuðningur til brothættra byggða felldur niður.

Þessar áherslur bera þess ekki merki að hagsmunir landsbyggðarinnar séu ofarlega á blaði hjá þessari ríkisstjórn.

En áfram skal haldið og dregið er úr jöfnun námskostnaðar. Enn vantar mikið uppá að jöfnun orkukostnaðar sé komin í höfn og enn er sami vandræðagangurinn með fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og í hann settir alltof litlir fjármunir miðað við þá gífurlegu aukningu ferðamanna sem streyma til landsins.

Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig eigi að mæta þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við og þá sérstaklega gagnvart ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill gleymast að margir staðir á landsbyggðinni glíma við húsnæðisskort og víða er það vandamál að fólk sem vill setjast þar að fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér í að byggja því eignin er verðfelld um leið og fasteignamatið liggur fyrir. Í þessum málaflokki liggja engar heildarlausnir fyrir og alltof litlum fjármunum er varið í væntanlegar úrbætur. Vaxtabætur eru skornar niður um 1.5 milljarð og barnabætur fylgja ekki verðlagi og fæðingarorlofssjóður er sveltur.

Ríkisstjórnin gefur á garðinn áfram til þeirra efnameiri og lækkar á þá skatta eins og enginn sé morgundagurinn. Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og aðstæður? Verið er að leggja af þrepaskipta skattakerfið sem er miklu sanngjarnara gagnvart þeim tekjuminni ,eflaust hefði mátt endurskoða prósentutöluna og bilið á milli þrepa en fækkun þrepa þýðir bara eitt, þ.e. lægri skatta á þá efnameiri.

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við aflétt sköttum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem hún hampar nú svo mjög. En gleymum ekki því að hún hækkaði matarskattinn svo um munaði og aukinn kostnaður er í ýmiss konar beinum kostnaði fyrir almenning í heilbrigðis og menntakerfinu.

Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið en það hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa sínum tekjum sjálft og skattar séu af hinu vonda. En fólkið í landinu gerir kröfur til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og fjarskipta. Einnig að laun elli- og örorkulífeyrisþega fylgi launaþróun svo hægt sé að lifa sómasamlegu lífi og að þeim sé tryggt öruggt ævikvöld. Ef þetta á að ganga eftir þá verða allir að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra sjóða og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar. Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur kosið að afsala sér í tekjum frá þeim best settu og nýtt t.d. í uppbyggingu Landspítalans og annarra þjóðþrifamála sem ég hef nefnt hér að ofan

En veldur hver á heldur og ég gef þessari ríkisstjórn ekki háa einkunn fyrir stjórn landsins en það kemur kannski ekki á óvart af hægri stjórn að vera sem mylur undir þá sem nóg eiga fyrir!

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi

Til hamingju með dag íslenskrar náttúru

Forseti!

Ég vil óska þingheimi og þjóðinni allri til hamingju með Dag íslenskrar náttúru en á slíkum degi er tilefni til að fagna náttúru Íslands og því sem hún gefur okkur á degi hverjum, ár hvert og árið um kring.

Fiskur – orka – jarðhiti – vatn – loft – norðurljós – myrkur – gróður – fuglalíf – selir – hvalir – fossar og fjöll – landslag og einstök víðerni.

Samfélagið er drifið áfram af afurðum náttúrunnar, en arðinum þarf að skipta réttlátar, deila honum út á meðal fólksins, í sameiginlega sjóði þar sem allir njóta góðs af, þar sem enginn hirðir ótæpilegan gróða, þar sem samfélagið í heild, framtíðin og börnin njóta góðs af.

Öll nýting verður að vera með sjálfbærum hætti. Við eigum að skila náttúrinni jafngóðri eða betri til komandi kynslóða. Réttur okkar til nýtingar er takmarkaður við slíka nálgun.

En hver er staðan og skilningurinn á stöðu íslenskrar náttúru nú um stundir, hér á Alþingi og í stjórnarmeirihlutanum?

Náttúruminjasafn íslands sem á að vera höfuðsafn fær 25 milljónir í framlag á fjárlögum og býr við skilnings- og metnaðarleysi stjórnvalda. Þetta þarf að laga.

Rammaáætlun tókst að verja með miklu harðfylgi á síðasta þingi en friðlýsingar á grundvelli hennar fara ekki fram og engin áform sjást í nýju fjárlagafrumvarpi um að gera betur í friðlýsingarmálum. Þetta þarf líka að laga.

Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra til náttúruverndarlaga felur í sér óburðuga vernd sérstakra náttúrufyrirbæra og varúðarreglan er allt of veik í frumvarpinu. Þetta þarf að laga svo bragur verði á.

Náttúra Íslands er einstök á heimsvísu. Hér má finna fjölbreytt náttúrufyrirbæri hlið við hlið, einstakar jarðminjar og fágæti við hvert fótmál, víðáttur, jöklar og sandar. Við verðum að átta okkur á því hversu einstök náttúran er og að hún vernduð er grundvöllur heillar atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar.

Íslensk náttúra og allt sem að henni lýtur þarf að skipa ríkari sess í allri ákvarðanatöku og umræðu. Við þurfum að skilja hana, rannsaka hana, virða hana – hagsmunir hennar eru hagsmunir komandi kynslóða og um þá ber okkur að standa vörð.

Núverandi stjórnvöld þurfa að gera betur, svo miklu betur. Sameinumst um hagsmuni íslenskrar náttúru.

Til hamingju með daginn.

Dagur lýðræðis

Ég hef nú í annað sinn lagt fram þingsályktunartillögu í tilefni þess að í dag er alþjóðlegur dagur lýðræðis. Tillagan var áður lögð fram af fyrrum þingkonu VG, Þuríði Backman.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2007 að 15. september skyldi vera alþjóðlegur lýðræðisdagur til að minnast Lýðræðisyfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) frá september 1997. Fyrsti alþjóðlegi lýðræðisdagurinn var haldinn hátíðlegur 15. september árið 2008.
Skilgreining Sameinuðu þjóðanna vegna þessa dags er, í lauslegri þýðingu:  „Lýðræði er alheimsgildi sem byggir á að fólk hafi frelsi til að tjá vilja sinn um þau pólítísku, efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu kerfi sem það býr við og á fullri þátttöku almennings á öllum sviðum lífsins“.

Alþjóðaþingmannasambandið gaf út yfirlýsingu um alþjóðlegan lýðræðisdag sem leiðsögn fyrir ríkisstjórnir og þing um allan heim til eflingar lýðræði. Lýðræðisyfirlýsingin hefur mikið gildi þegar fjallað er um grundvallarlögmál lýðræðisins, viðmið í starfi lýðræðislegra stjórna og alþjóðlega vídd lýðræðis. Þá er yfirlýsingin viðleitni til að byggja upp og efla lýðræðislega stjórnarhætti hvar sem því verður við komið.

Alþjóðaþingmannasambandið hvetur þjóðþing heims til að halda daginn hátíðlegan. Lagðar eru til mismunandi leiðir til að halda upp á daginn með táknrænum hætti og hafa þjóðþing frjálsar hendur varðandi útfærslu hans.

Hægt væri til dæmis að skipuleggja sérstaka umræðu í þinginu þar sem fulltrúum allra þingflokka væri boðið að taka þátt í umræðum um lýðræði og þróun þess eða að skipuleggja þverpólitíska vinnuhópa innan þingsins sem ályktar um efnið. Þá mætti nota daginn til að vekja athygli á starfi skólaþings Alþingis þar sem nemendur efstu bekkja grunnskóla taka þátt í hlutverkaleik og fylgja í stórum dráttum reglum um starfshætti Alþingis. Þar eiga nemendur að komast að lýðræðislegri niðurstöðu með því að hlusta á og meta rök og álit annarra, tjá eigin skoðun og taka afstöðu. Svo hvet ég þá sem þessa grein lesa til að koma fram með hugmyndir um hvað hægt væri að gera þennan dag.

Hlutverk okkar alþingismanna er að efla fólk á öllum aldri, búa til rödd og farveg með virkri þátttöku fólks til að taka þátt í og móta það samfélag sem það lifir og hrærist í. Lýðræði er ekki bara uppá punt á fjögurra ára fresti þegar kosið er til Alþingis eða sveitarstjórna heldur þarf að ástunda það – alltaf.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ræða Katrínar

Kæru landsmenn.

Stjórnmálamenn eru stundum sakaðir um skammtímahugsun: að hagsmunir augnabliksins ráði meiru um gjörðir þeirra en hagsmunir almennings til lengri tíma. Þetta er kunnuglegt stef í opinberri umræðu sem og sú krafa almennings að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi.

Mörgum finnst að hrunið hafi ekki kennt okkur neitt en ég held að það hafi kennt okkur margt. Meðal annars það að stjórnmálamenn geta ekki lengur hunsað eðlilega kröfu íslensks almennings um að við höfum langtímasjónarmið að leiðarljósi í öllum okkar störfum.

Sú hefur því miður ekki orðið raunin á þessu kjörtímabili. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt ofurkapp á að snúa öllu við sem sú síðasta gjörði án neinnar hugsunar um langtímasjónarmið. Ef síðasta ríkisstjórn gerði eitthvað þá hlýtur það að vera vont. Svo rammt kveður að þessu að ekki mátti greina annað á hæstvirtum forsætisráðherra í ræðu hans hér áðan en að íslenskt tímatal hefði í raun hafist þegar ríkisstjórn hans tók við. Hér var aðeins ginnungagap vorið 2013, en síðan þá hefur allt gengið mjög vel, ef marka má hæstvirtan ráðherra.

Ég held að það séu margir orðnir leiðir á því þegar stjórnmálamenn tala eins og þeir séu upphaf og endir alls og kannski er það skýringin á bágu gengi sitjandi ríkisstjórnar sem og flestra flokka í stjórnarandstöðunni. Við hljótum flest að geta viðurkennt að frá hruni hafa flestir lagst á árarnar við að byggja hér upp efnahag og samfélag og líklega hefði það aldrei tekist nema vegna þessa samstillta átaks. Það er slík samstaða sem skilar árangri en ekki þau kollsteypustjórnmál sem hæstvirtur forsætisráðherra virðist aðhyllast.

Kæru landsmenn.

Ég heimsótti fámennasta sveitarfélag landsins, Árneshrepp, á dögunum. Meðal annars heimsótti ég Finnbogastaðaskóla þar sem nemendur sögðu frá hugðarefnum sínum. Einn nemandi á unglingsaldri dró fram gamla útgáfu af Íslendingasögunum inni á þröngu bókasafni og sagði mér að hann langaði ekkert annað en að rannsaka Íslandssögu og bókmenntir síðar meir.

Öll eigum við okkur drauma og væntingar. Sonur minn sagði mér um daginn að hann vildi helst af öllu verða ráðuneytisstarfsmaður þegar hann yrði stór. Sjálf ætlaði ég mér að verða poppstjarna en til vara skurðlæknir. Þó að hvorugur draumurinn hafi ræst þá var það ekki vegna þess að ég fengi ekki tækifæri.

Nú á dögum horfum við daglega á börn og fullorðna sem aldrei munu fá tækifæri til að láta drauma sína rætast. Það er enginn munur á börnunum í Reykjavík, Árneshreppi eða Sýrlandi að því leyti að þau langar að lifa og gleðjast og þroskast. En tækifærin eru ekki þau sömu. Nægur er aðstöðumunurinn milli Reykjavikur og Árneshrepps þar sem íbúar eru oft innilokaðir heilu mánuðina vegna lokaðra vega og illrar veðráttu. Og mikill er munurinn á tækifærum í Reykjavík þar sem sum börn hafa efni á að stunda tónlistarnám eða íþróttir og aðrar tómstundir og vita hvar þau munu búa næstu mánuði en önnur búa við þær aðstæður að fjölskyldan nær ekki endum saman um mánaðamót þó að engu sé eytt nema í brýnustu nauðsynjar.

Og hvað getum við þá sagt um aðstæður barnanna sem nú hafa flúið heimaland sitt Sýrland. Sem leggja af stað yfir Miðjarðarhafið á litlum kænum, oft í höndum óprúttinna smyglara, og komist þau á leiðarenda bíða þeirra oftroðnar flóttamannabúðir og fullkomin óvissa. Sum komast aldrei þangað.

Sumra bíður að drukkna á leiðinni og reka upp í fjöru eins og Alyan Kurdi. Hann var þriggja ára. Kannski dreymdi hann einungis um að geta haldið áfram að vakna á morgnana í faðmi fjölskyldu sinnar og fá að lifa lífi sem mörg okkar ganga að vísu.

Einhverjir afgreiða þetta mál þannig að ekki megi einungis hugsa um þá sem birtast á fréttamyndum. En fólkið á myndunum er fólk af holdi og blóði. Veruleiki þess er lýsandi fyrir veruleika margra. Við eigum ekki að brynja okkur fyrir slíkum myndum heldur að sýna samkennd í verki. Við megum ekki líta undan.

Ef við viljum að meðbræður okkar fái að láta drauma sína rætast verðum við að hugsa stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, beita okkur fyrir friðsamlegum lausnum hvar sem því verður við komið og reyna að tryggja þannig að sem fæstir þurfi að leggja á flótta. Munum að enginn leggur á flótta að gamni sínu. Gleymum því ekki að Vesturlönd bera sína ábyrgð á stöðunni nú í Mið-Austurlöndum og sú ábyrgð leggur okkur ríkar skyldur á herðar. Við getum gert betur og eigum að taka á móti miklu fleira fólki í neyð.

Virðulegi forseti.

Staðreyndin er sú að ekki hafa allir sömu tækifæri til að láta drauma sína rætast. Við búum við ójöfnuð hér á þessari jörð. Ójöfnuð innan okkar litla samfélags milli stétta og landshluta. Enn meiri ójöfnuð milli heimshluta. Því að á sama tíma og þetta gerist sjáum við að það eru peningar og tækifæri til.

Tímamótaverki franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem hefur verið mjög til umræðu seinustu misserin lýkur á orðunum að allir borgarar ættu að kynna sér peninga, hvaða mælikvarðar séu nýttir á peninga og hvaða staðreyndir tengist peningum og sögu þeirra. Sagan sýni að þeir sem eigi mikla peninga bregðist aldrei í því að verja hagsmuni sína. Að neita að eiga við tölurnar þjóni hins vegar sjaldnast hagsmunum hinna tekjuminni. Og tölurnar þarf að setja í samhengi en samkvæmt Piketty á ríkasta 0,1% prósentið um það bil 20% af öllu auðmagni í heiminum og auðugasta eina prósentið á um 50% af öllum auði heimsins.

Ef það á að hafa einhverja merkingu að allir eigi rétt á jöfnum tækifærum þá ber okkur að grípa til aðgerða til að tryggja þau tækifæri. Það þarf að endurskoða það hvernig við skiptum kökunni. Til þess þarf róttækar aðgerðir og breytta hugsun. Við þurfum að átta okkur á því að fjármálakerfið er mannanna verk og lýtur ekki náttúrulögmálum. Þetta kerfi á að þjóna fólkinu en ekki sjálfu sér. Þess vegna þarf breytta hugsun, til dæmis hjá ráðandi öflum innan Evrópusambandsins. Þau hafa lagt ofuráherslu á að Grikkir borgi skuldir sínar á meðan meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðurkennt að sumar skuldir er ekki hægt að greiða án þess að fórnarkostnaðurinn verði of mikill fyrir fólkið, fyrir almenning.

Virðulegi forseti.

Tilfinning margra vinstrimanna er sú að hægriöflunum hafi leyfst að stjórna umræðunni um efnahagsmál, einkum seinustu þrjá, fjóra áratugina. Til þess er engin ástæða. Leiðarljós okkar á að vera að kerfið þjóni fólkinu en ekki öfugt. Ég tel að Íslendingar vilji breytingar á þessu sviði og sú krafa endurspeglast ekki síst í kröfunni um lýðræðisumbætur. Eins og kunnugt er var unnin mikil vinna á síðasta kjörtímabili til að Íslendingar gætu fengið nýja stjórnarskrá. En því miður lauk þeirri vinnu ekki eins og mörg okkar vonuðumst eftir. Ég vona að á þessu þingi náist samstaða um ákvæði um að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar, samþykkt verði nýtt umhverfis- og náttúruverndarákvæði, og einnig að tiltekinn hluti þjóðar og þings geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál og betur verði búið um framsal valdheimilda ríkisins.

Ég tel að ef slík ákvæði yrðu samþykkt hefði unnist mikilvægur áfangasigur. Þar með er breytingum ekki lokið á stjórnarskrá því að okkur ber að vinna samkvæmt vilja þjóðarinnar eins og hann hefur þegar birst í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við getum unnið að honum í áföngum ef það er það sem þarf fremur en að leggja allt málið að veði fyrir árangur sem reynist ekki varanlegur. Ef ekki næst hins vegar samstaða um neinar breytingar þá ættu línurnar að liggja skýrar fyrir næstu kosningar milli þeirra sem vilja fylgja þjóðarinnar í þessum málum og hinna sem leggja allt kapp á að hagga ekki valdajafnvæginu í landinu. Stjórnarskrármálið hefur frá upphafi snúist um völdin og hver haldi um þau völd.

Það vakti athygli mína að forsætisráðherra hæstvirtur minntist ekki á eitt stærsta viðfangsefni samtímans sem eru loftslagsmál þó að hann léti að því liggja að alræmdar hugmyndir um fleiri virkjanir sem sigldu í strand hér í vor snerust eingöngu um orkuskipti í samgöngum en ekki ný kísilver. Hæstvirtur ráðherra veit betur og ætti fremur að efna til samstöðu um að við Íslendingar nýtum orku okkar til að Ísland geti orðið í fararbroddi í loftslagsmálum og orðið kolefnishlutlaust land fyrir árið 2050. Það ættu að vera skilaboð Íslendinga á loftslagsfundinum í París í desember sem kann að ráða úrslitum um framtíð okkar allra og barnanna okkar.

Kæru landsmenn.

Draumar barna um allan heim kalla á að við hugsum til lengri tíma en næstu missera þegar við tökum ákvarðanir. Draumar barna um allan heim kalla á að Íslendingar flani ekki áfram í blindni þegar teknar eru ákvarðanir sem geta tekið toll af náttúru landsins með óafturkræfum hætti til allrar framtíðar. Draumar barna um allan heim kalla á að fólkið í landinu fái meira vald yfir eigin örlögum, að við styrkjum beint lýðræði en líka fulltrúalýðræðið þannig að samfélagi okkar sé stjórnað með gagnsæjum og lýðræðislegum hætti og raddir allra heyrist. Draumar barna um allan heim kalla á að við þorum að grípa til róttækra aðgerða til að endurskoða skiptingu kökunnar. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem eiga mest fyrir hafi mest tækifæri til að safna sér enn meiri auði. Það eru engin náttúrulögmál á bak við það fyrirkomulag þó að talsmenn óbreytts ástands tali stundum þannig. Þetta erumannanna verk sem mennirnir geta breytt.

Það er undirstaða lýðræðis og góðs samfélags að við fjárfestum í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Leyfum skólum að þróast þannig að fjölbreytnin verði sem mest og sem flestir geti nýtt hæfileika sína til að þroskast og vaxa og verða öflugir borgarar í öflugu samfélagi.

Fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun mun skila aukinni hagsæld fyrir almenning allan. Það er undirstaða góðs samfélags að við fjárfestum í innviðum, samgöngum og fjarskiptum, þannig að óháð búsetu geti sem flestir nýtt hugmyndir og þor til að láta drauma sína verða að veruleika, hvort sem það er að byggja upp framúrskarandi sushi-stað á Seyðisfirði eða ferðaþjónustu í Djúpavík.

Fjárfestum í heilbrigðisþjónustu þannig að fólk um land allt geti notið öryggis og velferðar – geti lifað góðu lífi. Umfram allt er okkar auður í fólki og þess vegna á að tryggja öllum grunnframfærslu, þar með talið öryrkjum og eldri borgurum sem hafa setið eftir þó að þeir eigi allan rétt á sömu tækifærum og aðrir. Þar skiptir líka miklu að tryggja gjaldfrjálsa grunnþjónustu á sem flestum sviðum.

Góðir Íslendingar.

Með auknum jöfnuði, nýrri hugsun í atvinnu- og umhverfismálum, auknu lýðræði og þeirri skýru sýn að arðurinn okkar, arðurinn af auðlindunum okkar, arðurinn af eigum okkar, eigi heima hjá fólkinu, getur framtíðin orðið frábær. Þá skiptir máli að stjórnmálamenn horfi til lengri tíma en miði ekki allt við sjálfa sig og sinn skamma líftíma. Það er langtímahugsun sem skilar árangri, hvort sem er í knattspyrnu, listum eða stjórnmálum. Tími kollsteypustjórnmála þar sem skammtímahagsmunir hinna fáu ráða á kostnað langtímahagsmuna hinna mörgu er liðinn. Því fyrr sem við hér í þessum sal áttum okkur á því, því betra.