Hvað segja eigendur Símans um skammarverðlaunin?

Um áramótin veitti Viðskiptablað Fréttablaðsins verðlaun fyrir viðskiptaafrek liðins árs og að sama skapi voru tilnefnd verstu viðskipti ársins.

Ríkisstjórnin fékk hin jákvæðu verðlaun fyrir samkomulag við kröfuhafa þrotabúa bankanna en Arion banki og Síminn ehf., skammarútnefningu fyrir sölu á hlutabréfum í Símanum þar sem bæði bankinn og Síminn féllu á siðgæðisprófi.
Hin fyrri verðlaun læt ég að sinni liggja á milli hluta að öðru leyti en því að áhöld þykja mér vera um það hvort ekki hefði verið nær að sæma hrægammana verðlaunum fyrir hagstæðustu viðskipti ársins fremur en ríkisstjórnina.

Það er hins vegar skammarútnefningin sem ég staðnæmist við. Í stað þess að Arion banki léti hlutabréf sín á opinn markað var byrjað á því, að hætti 2007, að heimila nákomnum og vildarvinum að komast yfir bréf á lægra verði en sýnt var að öðrum myndi bjóðast á markaði. Sú varð og raunin. Á opnum markaði var gengið orðið hærra og þar með virði bréfanna. Hinir nákomnu þurfa ekki lengi að sitja á feng sínum því fljótlega geta þeir selt á markaði og hagnast vel.

Dæmafá óskammfeilni

Af Símans hálfu vakti athygli að stjórnendur þar á bæ voru í hópi kaupenda. Þar ber ekki síst að horfa til stjórnenda Mílu, sem á að vera fyrirtæki aðskilið Símanum þótt hann sé undir sömu regnhlíf. Með sölunni var Síminn hins vegar nú kominn að hluta til í persónulega eign stjórnenda Mílu! Þessu var að vísu snúið til baka enda dæmafá óskammfeilni. Eftir stendur að í fjárfestingahópi í kringum forstjóra Símans högnuðust menn persónulega á braskinu.

Fjármálaráðherra lýsti því opinberlega að hann teldi þessa sölu hafa verið „klúður“ og einn dómnefndarmaður Viðskiptablaðsins spurði „hvort hægt væri að klúðra málum meira“. Og bætti við, að „helstu leikendur virðast ætla að sleppa vel frá þessum ótrúlega gjörningi en líklega verður einhver skúringakonan rekin enda verður alltaf einhver að axla ábyrgð.“

Spurning er hvort hugtakið klúður sé ekki heldur kurteist hugtak yfir þetta ferli sem fyrst og fremst skrifast náttúrlega á Arion banka sem stjórnaði sölunni.

En fram hjá ábyrgð stjórnenda Símans verður ekki litið og þar með eigenda hans. Lífeyrissjóðirnir eru langstærstu eigendur Símans og fara þar með vald sem lögbundinn sparnaðar launafólks hefur fært þeim í hendur.

Ekki hef ég orðið var við að stjórn Símans hafi verið krafin sagna um þetta mál. Enda ekki skúringakona.

Hitt þykir mér sýnt að lífeyrissjóðirnir þurfa að taka upp gagnrýna umræðu um hvernig farið er með það vald sem eitt hundrað milljarða fjárfestingargeta á ári veitir.

Almennt tel ég að lífeyrissjóðirnir hafi farið vel með vald sitt. En er svo í öllum tilvikum? Þetta mál þyrfti að verða tilefni til gagnrýninnar umræðu um það hvort svo er. Þeir sem vilja lífeyrissjóðunum vel hljóta að verða hvatamenn að slíkri umræðu.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður Vinstri grænna

Blússandi ójöfnuður eða blússandi góðæri?

Í upphafi árs lítum við yfir farinn veg og stígum á stokk og heitum á okkur sjálf að ná árangri í þeim verkefnum sem við erum að kljást við hverju sinni. Á Alþingi eru það fjárlögin sem endurspegla stefnu hverrar ríkisstjórnar og stjórnarandstaðan glímir við að ná fram breytingum á í takt við stefnu sinna flokka. Stjórnarandstaðan lagðist öll á eitt við að ná fram leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja en það fór sem fór ríkisstjórnin sýndi enn og aftur sitt rétta andlit og sannaði það að hún þjónar fyrst og fremst efnafólki í landinu og vildi ekki koma til móts við kröfur aldraðra og öryrkja og hafi hún skömm fyrir !

Heilu málaflokkarnir fjársveltir

Það er nú ekki eins og þarna séu á ferðinni fjárlög sem hægt er að hrópa húrra fyrir. Við vitum að núverandi ríkisstjórn býr við allt aðrar aðstæður en fyrrverandi ríkisstjórn sem tók við afleiðingum efnahagshrunsins og lagði grunninn að þeim efnahagsbata sem nú er að skila sér. Nú hefði verið möguleiki á að vera með mikla innspýtingu í marga málaflokka sem þurftu því miður að taka á sig skerðingar á síðasta kjörtímabili. Það er löngu kominn tími á innviðauppbyggingu í samfélaginu og að tekið sé virkilega vel á í eflingu velferðarkerfisins. En því er ekki fyrir að fara. Heilu málaflokkarnir eru fjársveltir, s.s. heilbrigðis og samgöngumál, byggða- og sóknaráætlanir,stuðningur við brothættar byggðir minnkar, aðför er gerð að menntun á landsbyggðinni með takmörkun á aðgengi að námi 25 ára og eldri í framhaldsskóla og dregið er úr jöfnun námskostnaðar . Auknir fjármunir voru þó settir á lokametrunum í uppbyggingu háhraðatenginga á landsbyggðinni utan markaðssvæða og er það vel en betur má ef duga skal ef þessu verkefni á að ljúka innan fárra ára sem verður að gerast. Aðförin af Rúv heldur áfram og þó tekist hafi að fá skilyrta leiðréttingu á elleftu stundu þá dylst engum að það er verið að mylja undan stofnuninni sem á erfitt með að sinna  menningar og lýðræðislegu hlutverki sínu.

Vandræðagangur og óleyst verkefni

Það vantar  enn mikið upp á að búið sé að jafna orkukostnað í landinu. Mikill vandræðagangur er með að fjármagna það verkefni að fullu þó að vissulega hafi verið settir fjármunir í jöfnun húshitunar og í dreifingu á raforku þá er enn langt í land að íbúar landsins sitji þar við sama borð en það vantar enn að minnsta kosti 200–300 millj. kr. á ári til þess að hægt sé að tala um jöfnuð.  Í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða  eru settir alltof litlir fjármunir miðað við þá miklu fjölgun ferðamanna sem orðið hefur undanfarin ár og verður áfram og kallar á mikla innviðauppbyggingu til að verja landið ágangi . Húsnæðismálin eru enn óleyst og ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um hvernig mæta eigi þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við, sérstaklega hjá ungu fólki og þeim efnaminni. Það vill oft gleymast að margir staðir á landsbyggðinni glíma líka við húsnæðisskort. Víða er það vandamál að fólk sem vill setjast að úti á landi fær ekkert húsnæði og enginn treystir sér til þess að byggja því að eignin er verðfelld um leið og fasteignamat liggur fyrir. Í þeim málaflokki liggja ekki fyrir neinar heildarlausnir. Nú er rúmlega hálfnað þriðja ár þessarar ríkisstjórnar og það eru allt of litlir fjármunir sýnilegir í þessi brýnu verkefni.

Árás á kjör barnafólks og þeirra efnaminni

Vaxtabæturnar eru skornar niður um 1,5 milljarða og barnabætur fylgja ekki verðlagi. Fæðingarorlofssjóður er sveltur. En ríkisstjórnin heldur áfram að gefa á garðann hjá þeim efnameiri og lækka á þá skatta. Þá spyr maður sig : Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og skuldbindingum inn í framtíðina ef okkar kynslóð ætlar ekki að leggja sitt af mörkum miðað við efni og aðstæður ?  Það er verið að vinna gegn þrepaskiptu skattkerfi og leggja það niður í áföngum, fleiri skattþrep eru miklu sanngjarnari gagnvart þeim tekjuminni. Eflaust hefði mátt endurskoða eitthvað prósentutöluna í því þrepaskipta skattkerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili og einnig bilið á milli þrepa. En fækkun þrepa þýðir bara eitt; það eru lægri skattar á þá efnameiri.

Ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu ríka fólksins

Ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við völdum afsalað sér tekjum allt að 45 milljörðum í formi skatta, auðlegðarskatts, orkuskatts, veiðigjalda, vörugjalda og tolla sem taka eiga gildi nú um næstu áramót í tveimur áföngum. En við skulum heldur ekki gleyma því að þessi ríkisstjórn hækkaði matarskattinn svo um munaði, úr 7% í 11% og lagði þar með þungar álögur á almenning. Ýmiss konar beinn kostnaður hjá almenningi er aukinn, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er gamalkunnur leikur hægri manna að tala fyrir lágum sköttum en íþyngja svo almenningi með beinum þjónustugjöldum sem koma verst niður á þeim tekjuminni. Tryggingagjaldið er lækkað sáralítið, en lækkun þess hefði ýtt undir fjölgun starfa og ætti að lækka í takt við minna atvinnuleysi. Hægri menn tala fjálglega um að fólkið eigi að ráðstafa tekjum sínum sjálft og að skattar séu af hinu vonda. En ég tel að fólkið í landinu geri kröfu til jöfnuðar, til öflugs heilbrigðiskerfis og menntakerfis, góðra samgangna og góðra fjarskipta. Til þess þarf fjármuni. Einnig þarf fjármuni til að forgangsraða í þágu elli- og örorkulífeyrisþega svo að þeim séu tryggð mannsæmandi lífskjör. Ef það á að ganga eftir verða allir að leggja sitt af mörkum í sameiginlega sjóði og krefjast þess af ríkinu að það skili skattfénu í þau verkefni sem brenna á þjóðinni, sem eru orðin æði mörg og bíða úrlausnar.

Fjármunir sem hefðu nýst í brýn verkefni

Við hefðum getað gert ýmislegt við þá 45 milljarða sem ríkisstjórnin hefur afsalað sér í tekjum frá því að hún tók við árið 2013.  Þar má nefna uppbyggingu Landspítalans og önnur þjóðþrifamál, eins og bætt kjör elli- og örorkulífeyrisþega og innviðauppbyggingu samfélagsins. En þessi ríkisstjórn hefur valið að vinna fyrst og fremst með þeim efnameiri en skilja eftir þá sem minna mega sín. Þeir sitja eftir og það er bara staðreynd. Ójöfnuður í landinu er að aukast hratt og margar vísbendingar eru til þess að við séum að kynda upp í sömu atburðarrás og olli Hruninu fyrir 8 árum og að sömu flokkarnir beri þar megin ábyrgð á með aukinni misskiptingu og vondri efnahagsstjórn. Alltof stórir hópar eru að festast í fátæktargildru, veruleiki sem við sem rík þjóð eigum ekki að láta viðgangast. Allt tal um að nú sé skollið á blússandi góðæri  sker í eyrun þar sem það nær bara til þeirra útvöldu en þorri landsmanna stendur í þeim sporum að berjast við það að ná endum saman um hver mánaðarmót. Það hefur alla tíð verið ákveðin list stjórnvalda að blekkja með tölum og svara því til að af meðaltali hafi menn það bara fjári gott. Við skulum ætíð muna það að á bak við lágar tekjur og tölur og línurit og alls konar mælikvarða í excel-skjölum er fólk sem hefur sömu þarfir og þeir sem hafa miklar tekjur.

Stundaglas þessarar ríkisstjórnar er að tæmast

Þó tíminn þjóti framhjá alltof hratt þá er það þó bót í máli að lífdagar þessarar ríkisstjórnar  eru brátt á enda. Þetta hefur verið verklaus ríkisstjórn sem betur fer af því leiti að henni hefur þá ekki tekist að skemma meira en orðið er í velferðarkerfinu. Hún ætlaði að skattleggja kröfuhafa bankanna um mörg hundruð milljarða en það breyttist í miklu lægra stöðugleikaframlag á forsendum kröfuhafanna þar sem þeir eru nú lausir allra mála en enginn veit hvenær almenningur og fyrirtækin losna úr gjaldeyrishöftum og hvernig ríkinu gengur að breyta stöðugleikaframlaginu í fjármuni.  Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar  verður að vera að auka jöfnuð og velferð í landinu. Landsbyggðin má ekki verða einhver afgangsstærð þar liggja ótal möguleikar ef skatttekjur fá að skila sér þangað aftur í innviðauppbyggingu. Ég vil sjá nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, nýja stjórnarskrá með auðlindarákvæði,rétt til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu,umhverfisákvæði og fullveldisákvæði. Ég vil sjá jöfn tækifæri til menntunar og aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í sátt við umhverfið og að sjálfbærnisjónarmið séu höfð að leiðarljósi.

Er þetta ekki ágætur forgangslisti sem hægt er að framkvæma innan ramma ábyrgrar efnahagsstjórnar. Við íslendingar eigum að sjálfsögðu að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna í loftslagsmálum og þeim mikla flóttamannavanda sem blasir við þar skiptir okkar afstaða máli.

Ég óska landsmönnum gleðilegs árs og að nýtt ár megi verða okkur öllum gæfuríkt.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Frelsi og farsæld

Frelsishugmyndin er flókin og margþætt. Í íslenskri stjórnmálaumræðu hefur frelsið oft verið skilgreint með þröngum hætti, út frá hagsmunum fárra en ekki endilega út frá hagsmunum fjöldans. Stóru átakamálin í stjórnmálum liðins árs snúast hins vegar ekki síst um frelsi allra. Ekki um verslunar- og viðskiptafrelsi heldur frelsi í víðtækari skilningi þess orðs, frelsi fólks í hnattvæddum heimi. Frelsi fólks snýst meðal annars frelsi almennings á Íslandi til að búa við mannsæmandi kjör. Það  snýst um hvernig við ætlum að skipta þeim gæðum sem við eigum. Það snýst um aldraða og öryrkja, láglaunafólk og allt það fólk sem á erfitt með að ná endum saman hver einustu mánaðamót. Það snýst um langa biðlista á opinberum heilbrigðisstofnunum og vaxandi greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu á sama tíma og einkaaðilar eru teknir að fjárfesta í hvers kyns heilbrigðisþjónustu, væntanlega vegna arðsemi hennar. Það frelsi snýst um lága grunnframfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna og um aðgengi eldra fólks að framhaldsskólum landsins.

Þetta frelsi snýst ekki um frelsi í þröngum skilningi  heldur frelsi fólks til að fá að þroska hæfileika sína og lifa eins farsælu lífi og mögulegt er. Og atburðir liðins árs hafa svo sannarlega minnt okkur á að frelsi og farsæld er misskipt, í heiminum öllum en líka á okkar góða landi.

Þjóðflutningar

Þjóðflutningar hafa sett svip sinn á allt árið. Þar olli straumhvörfum fréttaljósmynd af litlum dreng, Alyan Kurdi. Hann var einn þeirra Sýrlendinga sem flúðu heimaland sitt á árinu og lagði ásamt fjölskyldu sinni í óvissuferð yfir Miðjarðarhafið. Hann komst aldrei á leiðarenda. Myndin var kölluð Skipbrot mennskunnar víða í erlendum miðlum..
Þá strax upphófust raddir um að ekki mætti einungis hugsa um þá sem birtast á fréttamyndum. En fólkið á myndunum er fólk eins og aðrir. Veruleiki þess er lýsandi fyrir veruleika margra. Og þó að það sé óþægilegt að sjá svona beint framan í vanda fólks í fjarlægum löndum þá megum við ekki brynja okkur fyrir slíkum myndum heldur fáum við tækifæri til að sýna samkennd í verki. Annars er hættan sú að við glötum mennskunni.

En þjóðflutningarnir sem nú standa yfir snúast ekki einungis um mennsku eða skort á henni. Þeir snúast um kerfislægt misrétti sem hefur valdið því að frelsi sumra er minna en frelsi annarra. Þeir snúast um þá staðreynd að Vesturlönd bera sína ábyrgð á stöðunni nú í Mið-Austurlöndum og sú ábyrgð leggur okkur enn ríkari skyldur á herðar en ella. Við getum gert betur og eigum að taka á móti miklu fleira fólki í neyð.

Það hefur hins vegar verið ánægjulegt að upplifa samstöðu Íslendinga um að taka á móti fleira fólki og skemmst er að minnast netátaksins Kæra Eygló þar sem alls konar venjulegt fólk bauð fram aðstoð sína við að taka á móti flóttafólki. Þetta minnir okkur á að samstaða skilar árangri inn í stjórnmálin og stjórnmálamenn eiga að hlusta á raddir almennings.

Til lengri tíma er hins vegar mikilvægt að huga að því hvernig við getum stuðlað að auknum jöfnuði milli heimshluta. Gæðunum er misskipt milli heimshluta og þau stríð sem háð hafa verið á undanförnum árum og áratugum í Mið-Austurlöndum hafa fæst snúist um að byggja upp lýðræði (þó að því hafi stundum verið haldið fram) heldur um yfirráð yfir auðlindum. Þannig hafa íbúar þessara landa verið sviptir því frelsi að fá að nýta sínar eigin auðlindir og öðrum, alþjóðlegum stórfyrirtækjum, hefur verið afhent það frelsi.

Voðaverkin í París

Hryðjuverkin í París voru skelfileg birtingarmynd þeirra átaka sem hafa staðið undanfarin ár og áratugi og glæpasamtökin Íslamska ríkið eða Daesh hafa nýtt sér til að sölsa undir sig völd og áhrif. Voðaverkin voru ógn við frelsi okkar allra en um leið vöktu viðbrögð fransks almennings athygli. Ungur maður missti konuna sína en tilkynnti heiminum og glæpamönnunum að þeim myndi ekki takast að vekja í honum hatur. Þannig voru viðbrögð fransks almennings að þessir atburðir myndu ekki breyta lífi venjulegs fólks, það myndi ekki gefa sig hatrinu á vald. Það eru mikilvæg skilaboð frá almenningi til stjórnvalda sem eiga að hlusta eftir slíkum skilaboðum – um að fórna ekki frelsinu fyrir ótta og hatur

Ný von í loftslagsmálum

Þjóðflutningarnir kalla á nýja hugsun í alþjóðamálum og sama má segja um hitt stóra viðfangsefnið sem hefur verið áberandi á árinu. Á loftslagsfundinum í París náðist ákveðið samkomulag þjóða heims um hvað þurfi að gera til að halda loftslagsbreytingum í skefjum. Fundurinn vakti von um að alþjóðlegt samstarf geti skilað árangri og hann skilar okkur vonbetri inn í nýtt ár gagnvart þessu risavaxna verkefni.
Björninn er þó ekki unninn. Núna þurfa stjórnvöld í hverju ríki að vinna úr þessu samkomulagi, gera raunhæfar aðgerðaáætlanir um hvernig dregið verði úr losun og hvernig ríki heims muni laga sig að þeim loftslagsbreytingum sem líklega munu verða. Einn vandi er sá að eyríki í Kyrrahafinu hverfi undir vatn sökum hækkandi sjávarborðs – og þar með þurfi þær þjóðir að flytja sig um set án þess að hafa átt mikinn þátt í þessum breytingum. Hegðun annarra og ríkari þjóða hefur orðið til að skerða frelsi þessa fólks.

Til að ná árangri þarf að vinna bæði heima við en líka í alþjóðlegu samstarfi. Þar hvílir mikil ábyrgð á stjórnvöldum, þingmönnum og almenningi til að tryggja að samkomulagið í París beri ávöxt og tryggi þannig frelsi og farsæld fólks um allan heim. Þar hafa raddir almennings haft gríðarleg áhrif á stjórnmálin.

Byltingar í kvenréttindabaráttu

Á árinu 2015 fögnuðum við hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna og var þess minnst með ýmsum viðburðum sem ber að þakka fyrir. Hins vegar bar hæst þær kvenréttindabyltingar sem urðu á netinu á árinu, annars vegar hina svokölluðu brjóstabyltingu sem snerist um að afklámvæða brjóst kvenna og hins vegar var Beauty tips-byltingin þar sem konur stigu fram og rufu múr þöggunar um kynbundið ofbeldi. Báðar þessar byltingar sýna að baráttunni gegn misrétti karla og kvenna, sem heimspekingurinn John Stuart Mill taldi um miðja 19. öld hvað rótgrónast alls ójafnréttis, er hvergi nærri lokið en líka að þarna skilar samstaðan árangri og breytingum í átt til aukins frelsis beggja kynja

Aukinn jöfnuður forsenda raunverulegs frelsis

Árinu lauk með hörðum átökum á þingi þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar sameinuðust um að gera tillögur um kjarabætur fyrir öryrkja og aldraða sambærilegar þeim sem náðst höfðu á vinnumarkaði og að þeir skyldu verða afturvirkar. Þessar tillögur sameinaðrar stjórnarandstöðu endurspegluðu kröfur öryrkja og aldraðra en hópar þeirra stóðu og mótmæltu við þingið hvern dag þegar þingi var að ljúka. Því miður voru tillögur stjórnarandstöðunnar felldar og aldraðar og öryrkjar sitja eftir. Það er ljóst að ýmsir í þessum hópi búa við mjög bág kjör, þurfa jafnvel að lifa á undir tvö hundruð þúsund krónum á mánuði. Það ætti að vera metnaðarmál okkar á nýju ári að tryggja þeim  það frelsi að geta lifað af sínum ráðstöfunartekjum. Það er vonandi að samstaða náist um það og eins um að tryggja grunnþjónustu fyrir samfélagið allt. Það verður ekki gert með því að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og draga úr tækifærum fólks til menntunar eins og raunin hefur orðið á þessu ári.

Lærdómur allra stjórnmálamanna ætti að vera að hlusta og skynja þá samstöðu sem oft skapast  með almenningi í ólíkum löndum. Samstöðu um réttlátar breytingar og viðbrögð við flóknum kringumstæðum. Kerfið má aldrei verða mennskunni yfirsterkara þannig að stjórnmálamenn hugsi störf sín fyrst og fremst í kringum kerfi sem einhvern tíma var smíðað af mennskum höndum. Kerfið á að þjóna fólkinu og þar þurfa stjórnmálamenn að hlusta eftir röddum almennings. Þær segja okkur að fólk vill breytingar, í átt til réttlátara og betra samfélags þar sem öllum er tryggt frelsi og farsæld. Þær segja okkur að aukinn jöfnuður sé forsenda raunverulegs frelsis. Hlustum á þær á nýju ári.

Katrín Jakobsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2015

Róttækni og kjarkur í loftslagsmálum

Þjóðir heims standa nú frammi fyrir einu stærsta verkefni sögunnar á stórum fundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í París þessa dagana. Til þess að stemma stigu við aukinni losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr henni svo um munar þarf stórtækar aðgerðir í öllum geirum samfélagsins í öllum samfélögum. Líka á Íslandi.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna lífi á jörðinni. Gríðarlegar breytingar á veðri, hitastigi og yfirborði sjávar munu hafa mikil áhrif á daglegt líf einstaklinga, samfélaga og heilu þjóðanna. Óveður, stórflóð og uppskerubrestir eru orðin daglegt brauð í fréttum víða um heim. Minna hefur farið fyrir umræðunni um fækkun tegundanna sem stendur í beinum tengslum við loftslagsbreytingar. Maðurinn, sem er partur af vistkerfi jarðar, verður fyrir áhrifum af slíkum breytingum eins og allt annað líf á jörðinni. Náttúran getur nefnilega verið án mannsins en maðurinn ekki án náttúrunnar.

Aðeins ein jörð

Hið opinbera markmið er að hlýnunin verði ekki meira en tvær gráður á selsíus en samt verður um að ræða gríðarlegar breytingar af því tagi sem áður er nefnt. Líkurnar á því að takist að ná þessum markmiðum minnka hins vegar með ári hverju. Ef hlýnunin verður meiri verður vandinn stærri og skaðinn á jörðinni óafturkræfur. Við eigum ekki aðra jörð og framtíð hennar er í húfi.

Stærsti vandi mannkyns er græðgisvæðingin, kapítalisminn og ágeng nýting náttúruauðlinda. Trúin á að hagvöxtur sé allra meina bót sama hvaðan hann kemur er villuljós sem er ein helsta ástæðan fyrir stöðu mála í þessum stóru og aðkallandi verkefnum. Viðfangsefni aldarinnar er að tryggja jöfnuð, frið og velsæld í heiminum án ágengs vaxtar og yfirgangs á fólk og náttúru. Til þess þarf nýja og betri mælikvarða en hagvöxt eða þjóðarframleiðslu og meiri áherslu á raunveruleg og varanleg lífsgæði í sátt við náttúru og umhverfi.

Alvöru markmið

En hvað getur Ísland gert? Náttúruverndarsamtök Íslands lögðu fram þrjár kröfur á dögunum að því er varðar framlag Íslands til loftslagsumræðunnar. Í fyrsta lagi að Ísland leggi fram sjálfstæð markmið um að draga úr losun um 40% fyrir 2030, í öðru lagi að stefna að kolefnishlutlausu Íslandi 2050 og loks að hverfa frá öllum áformum um olíuvinnslu á Íslandsmiðum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur tekið undir öll þessi markmið og sér þess stað bæði í ályktunum landsfundar nú í haust og í sérstökum þingmálum sem endurspegla stefnuna. Umhverfisráðherrann hefur verið spurður um afstöðu ríkisstjórnar Íslands í þessum málum og er skemmst frá því að segja að hún gat ekki tekið undir nein þessara markmiða.

Ríkisstjórn Íslands hefur lagt fram sóknaráætlun í loftslagsmálum sem er listi yfir 16 verkefni. Áætlunin er ótímasett, án mælanlegra markmiða, samansafn af kunnuglegum verkefnum en engin heildarsýn. Svo virðist sem ekki liggi fyrir hvernig standi til að fylgja áætluninni eftir, meta framgang hennar eða hvernig hún spilar saman við aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem þegar liggur fyrir samkvæmt lögum frá 2010.

Það þarf meira en verkefnalista og góðar óskir í loftslagsmálum. Það þarf að tala skýrt, hafa metnaðarfull markmið og leggja fé og krafta til rannsókna og þróunar í þágu loftslagsvænni tækni og atvinnustarfsemi. Það þarf stórhug í loftslagsmálum, róttækni og kjark. Við svo stórt verkefni dugar ekkert minna.

Svandís Svavarsdóttir

Ekki til sóma

Samfélög má vega og meta út frá ýmsu en einn mikilvægasti þátturinn er hvernig búið er að börnum, öldruðum og öryrkjum. Tveir síðastnefndu hóparnir hafa verið talsvert til umræðu síðustu vikur eftir að fjölmargir hópar í samfélaginu fengu kjarabætur. Þessir hópar sitja hins vegar eftir. Ríkisstjórnin hefur afsakað sig með því að benda á að lífeyrisþegar fái talsverða hækkun í prósentum talið í fjárlagafrumvarpinu. En prósenturnar segja ekkert um raunveruleg kjör lífeyrisþega.

Öryrkjabandalag Ísland hélt á dögunum fund um framfærslu öryrkja. Árið 2014 voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega, sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót, um 187.507 krónur á mánuði en 172.000 krónur hjá þeim sem bjó með öðrum, 18 ára eða eldri.

Þegar litið er til tekna eldri borgara kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ernu Indriðadóttur, varaþingmanns, að 70% eldri borgara eru með tekjur undir þrjú hundruð þúsund krónum ef miðað er við samanlagðar tekjur að meðtöldum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þetta sjá allir að eru ekki háar tölur í ljósi þess hvað kostar að lifa á Íslandi. Þannig eru neysluviðmið fyrir fimm manna fjölskyldu eins og ég sjálf tilheyri á reiknivél velferðarráðuneytisins 613.752 krónur á mánuði án þess að húsnæðiskostnaður sé talinn með en óhætt ætti að vera að bæta a.m.k. 150 þúsundum við þessa tölu. Þrjú hundruð þúsund króna lágmarkslaun tveggja fullorðinna duga ekki fyrir þessi neysluviðmið og hvað má þá segja um lífeyrisþega sem eru langt undir þrjú hundruð þúsundum.

Reiknivél velferðarráðuneytisins veitir að sjálfsögðu ekki fullkomnar upplýsingar og þess vegna er áhugavert að kynna sér nýkynnta álitsgerð Öryrkjabandalagsins. Þar er reynt að meta raunverulega framfærsluþörf og miðast hún við árið 2014. Samkvæmt henni þarf barnlaus einstaklingur, sem býr einn í eigin húsnæði, 348.537 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði (482.846 krónur fyrir skatt) til að geta mætt eðlilegum útgjöldum. Þessar tölur sýna svart á hvítu að öryrkjar eiga ekki möguleika á að lifa af tekjum sínum.

Öryrkjabandalagið lét sömuleiðis gera könnun þar sem fólk var spurt hvort það teldi sig geta lifað af framfærslu upp á 172.000 krónur á mánuði. Ríflega 90% svarenda sögðust ekki geta lifað af svo lágri framfærslu. Einnig töldu um 95% að lífeyrisþegar ættu að fá jafnháa eða hærri krónutöluhækkun en lægstu launþegar.

Á sama tíma og stjórnvöld tala um bjartari horfur í efnahagsmálum sjá þau ekki sóma sinn í að tryggja lífeyrisþegum, öryrkjum og eldri borgurum, mannsæmandi framfærslu. Stjórnvöld hafa gengið fram fyrir skjöldu til að létta álögum af ríka fólkinu í landinu, auðlegðarskattur hefur verið afnuminn, veiðigjöld lækkuð, orkuskattur aflagður en á sama tíma hafa álögur aukist á launafólk; matarskattur var hækkaður, kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur aukist og þannig mætti lengi telja. Allt er þetta dæmi um forgangsröðun í þágu hinna efnameiri á meðan viðkvæmustu hóparnir sitja eftir.

Enginn velur sér það hlutskipti að verða öryrki. Og þó að við viljum eflaust flest verða gömul þá höfum við um það lítið val. Hlutskipti þessara hópa um þessar mundir er íslensku samfélagi ekki til sóma. Hins vegar vill mikill meirihluti landsmanna  breyta því til batnaðar. Það ætti að verða stjórnvöldum nægjanleg hvatning.
Katrín Jakobsdóttir

Þorum að velja frið

Á síðustu tveimur mánuðum hafa hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, Daesh, lýst ábyrgð á nokkrum stórum hryðjuverkaárásum. Þetta eru sprengjutilræði í Ankara, Beirút, fjöldamorð í Túnis, tortíming rússneskrar farþegaþota og nú síðast fjöldamorð í París. Eru þá ótalin öll ódæðisverk þeirra í Sýrlandi og Írak. Þótt tala fallinna í árásunum sé skelfileg er hún dropi í haf mannfallsins í styrjöldum sem geisað hafa í Miðausturlöndum  og hafa með beinum og óbeinum hætti leitt til þessara hryðjuverkaárása.

Innrásin í Írak 2003 er einhver stærstu mistök í sögu vestrænnar utanríkisstefnu. Upplausnin sem af því leiddi gat af sér þessi illræmdu hryðjuverkasamtök og ýtti undir borgarastríðið í Sýrlandi. Út úr því öngstræti átaka ólíkra vígahópa verður ekki komist nema með pólitískum leiðum. Öll stórveldi á svæðinu verða tafarlaust að hætta að hugsa fyrst og fremst um að ná fram eigin markmiðum og láta af því að vígbúa stríðandi fylkingar.

Hryðjuverkaárásirnar í París mega ekki verða til þess að stríðshrjáð og landflótta fólk verði fyrir aðkasti í Evrópu eða að stjórnvöld noti þau sem átyllu til að skjóta sér undan sammannlegri ábyrgð sinni á að hjálpa fólki í neyð. Samfélög Vestur-Evrópu verða jafnframt að vera meðvituð um þá hættu sem það hefur í för með sér ef einstakir þjóðfélagshópar eru jaðarsettir og eiga minni möguleika en aðrir, t.d. til menntunnar og atvinnu, vegna fordóma og bágrar félagslegrar stöðu.

Raddir þeirra sem nota hryðjuverk og ótta til að réttlæta aðskilnað og sundurgreiningu hópa sem búa saman í samfélagi mega ekki verða ofan á. Með því að taka undir slíkan málflutning er  í raun verið að fallast á sjónarmið ofstækismanna, hvaða nöfnum sem þeir nefnast.  Sigurinn í baráttu gegn hryðjuverkum vinnst ekki með hernaði. Hann vinnst ekki heldur með vígvæðingu lögreglunnar, víðtækum njósnum um borgarana eða hertu landamæraeftirliti. Hann vinnst með því að styrkja menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi og tryggja öllum þjóðfélagshópum  þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.

Steinunn Þóra Árnadóttir

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Aðför að menntun í landinu

Skorið af námstækifærum

Það verður að segjast að hinar hrikalegu tölur um fækkun nemenda í framhaldsskólum landsins á milli áranna 2014 og 2015 koma ekki á óvart. Þessi óheillaþróun stafar af þeirri ákvörðun menntamálaráðherra á síðasta ári að meina fólki yfir 25 ára aldur að gerast bóknámsnemendur í framhaldsskólanum í sinni heimabyggð. Eins og vænta mátti var þessi ákvörðun menntamálaráðherra andmælt harðlega, bæði af okkur í stjórnarandstöðunni á Alþingi og einnig af skólastjórnendum. Ráðherra hélt þó sínu striki og nú blasa afleiðingar ráðstafana hans við.
Frá því að breytingin gekk í gildi hefur nemendum 25 ára og eldri fækkað um 742 í framhaldsskólum sem starfræktir eru af hinu opinbera. Þar af eru 447 bóknámsnemendur en afgangurinn nemendur í verknámi. Breytingin snertir auðvitað bæði einstaklingana sem hafa verið sviptir námsmöguleikum sínum og rekstur framhaldsskólanna. Í erindum sínum til þingmanna hafa skólastjórnendur lýst þungum áhyggjum sínum vegna hinnar umdeildu ákvörðunar menntamálaráðherra um að loka framhaldsskólunum fyrir fólki yfir 25 ára aldur sem kom til framkvæmda samhliða ákvörðun hans um að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár. Í sameiningu hafa þessar ráðstafanir orðið til að valda gagngerum breytingum á rekstrarumhverfi framhaldsskólanna en lítið svigrúm gefið til aðlögunar.

Skólar í uppnámi, fólk í vanda

Meðal þess sem skólastjórnendur hafa áhyggjur af er að fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum þýði minna námsframboð og einsleitari skóla. Einnig telja þeir óljóst um afdrif þróunarstarfs í skólunum og álíta að samstarf milli skóla um dreif- og fjarnám kunni að vera í hættu. Hið síðarnefnda snertir sérstaklega skólastarf á landsbyggðinni þar sem nemendur í dreif- og fjarnámi hafa verið framhaldsskólunum þar mjög hagstæðir og stutt við námsframboð og betri nýtingu fjármuna.
Framhaldsdeildir sem hafa verið að byggjast upp víða um land gjalda líka fyrir hina gerræðislegu ákvörðun menntamálaráðherra um fækkun nemendaígilda og 25 ára reglunnar. Niðurskurðurinn bítur líka þarna og framhaldsdeildirnar standa frammi fyrir því að þurfa að skera starfsemi sína niður. Skólastjórnendur lenda í þeirri ömurlegu stöðu að þurfa að hafna umsóknum um skólavist og afleiðingar þess fyrir einstaklingana sem fyrir því verða og samfélag þeirra eru hörmulegar. Fólk á ekki annarra kosta völ en að gefa áform sín um nám upp á bátinn eða leita út fyrir sínar heimaslóðir. Þetta er þeim mun nöturlegra þegar haft er í huga að skólarnir sem líða fyrir hið nýja skipulag eru ekki síst þeir sem staðsettir eru á svæðum sem eiga í vök að verjast með tilliti til menntunar- og atvinnumöguleika

Stjórnendur margra framhaldsskóla standa í eilífum barningi við að ná endum saman og bjóða upp á nægilegt námsframboð til að skólarnir sem þeir stýra verði samkeppnishæfir og laði til sín nemendur. Fjárheimildir miðast við þá nemendur sem ljúka námi og rekstur verknámsbrauta er tiltölulega kostnaðarsamur þannig að ekki er unnt að halda þeim úti nema með ákveðnum lágmarksfjölda nemenda. Þessi staða þýðir að huga þarf sérstaklega að því að tryggja minni framhaldsskólunum nægilegt fjármagn á hverju ári til að reka grunndeildir verknáms og tvær bóknámsbrautir að lágmarki. Lágmarksfjárveiting til rekstur framhaldsskóla – gólfið svokallað – verður að miðast við þetta.

Skólinn í samfélaginu og samfélagið í skólanum

Flestum er ljóst hve mikilvægt öflugt starf framhaldsskóla er. Þar er einstaklingunum veittur nauðsynlegur undirbúningur til að takast á við atvinnulífið og þær áskoranir sem fylgja því að búa og starfa í flókinni og tæknivæddri nútímaveröld. Skólastarfið er nauðsynlegur og mikilvægur þáttur í þjóðlífinu og gildir þá einu hvort mat er lagt á þá út frá forsendum þéttbýlis eða dreifbýlis. Framhaldsskólarnir eru einfaldlega meðal mikilvægustu stoða samfélagsins og þegar þær stoðir eru veiktar eða fjarlægðar stendur samfélagið einfaldlega veikara eftir. Mikilvægi góðs aðgengis að menntun ætti að vera flestum ljóst og það getur engum dulist að framhaldsskólarnir eiga ríkan þátt í byggðaþróun og framförum þar sem þeir eru starfræktir. Með ákvörðunum sínum um að skerða starfsemi framhaldsskólanna hefur menntamálaráðherra vegið að hlutverki þeirra og tilverugrundvelli. Afleiðingarnar eru margvíslegar en ljóst er þeirra verður mikið vart á landsbyggðinni þar sem þær koma fram í veikari stöðu byggðanna og fráhvarfi efnaminna fólks frá námi. Ráðstafanir menntamálaráherra hafa þannig breytt stöðu skólanna í samfélaginu og einnig samfélaginu innan vébanda þeirra.
Framhaldsskólarnir á landsbyggðinni hafa gefið fjölda nemenda tækifæri til að ljúka framhaldsskólanámi. Sumir hafa notið þar möguleika á að taka til við nám að nýju eftir námshlé eða hafið nám eftir að vera komið af æskuskeiði. Í mörgum tilvikum hefur fólk síðan getað aflað sér framhaldsmenntunar í fjarnámi og án þess að þurfa að flytja brott af sínum heimaslóðum. Með þessu móti verður samhljómur milli skóla og samfélags þar sem einstaklingarnir mennta sig beinlínis til að takast á við sérhæfð störf í heimabyggð, mennta sig svo að segja inn í nærsamfélagið. Þessu er nú öllu stefnt í uppnám.

Mennt er ekki munaður

Það er engan veginn boðlegur kostur að rýra starfsgrundvöll framhaldsskólanna eins og gert hefur verið og takmarka aðgengi að þeim. Fólk ætti ekki að þurfa að sæta því að verða að flytjast búferlum til að eiga kost á námi á framhaldsskólastig og vera jafnvel gert að stunda það í einkaskólum með tilheyrandi kostnaði. Samfélag okkar kallar eftir menntuðu fólki og ekki síst fólki með haldgóða iðn- og tæknimenntun. Þessu kalli verður að svara með öflugum verknámsbrautum á framhaldsskólastigi um allt land.

Það verður að koma í veg fyrir að stjórnvöld með menntamálaráðherra í broddi fylkingar eyðileggi metnaðarfulla uppbyggingu skólastarfs í framhaldsskólum landsins. Honum má ekki haldast uppi að ráðast þannig gegn hagsmunum landsbyggðarinnar. Mennt er nauðsyn, ekki munaður, og þegar gerðar eru ráðstafanir sem veikja eða jafnvel buga skólastarf á landsbyggðinni og skerða tækifæri efnaminna fólks til að afla sér menntunar er vægast sagt farið að syrta í álinn með stjórnarhætti í landinu.
Niðurrifsstefna menntamálaráðherra má ekki verða ofan á. Hún verðskuldar að bíða skipbrot og það sem fyrst. Í stað hennar ætti að koma uppbyggingarstefna sem styrkir framhaldsskólastarf hvarvetna í landinu en ekki síst á landsbyggðinni og eflir símenntunarstöðvarnar sem víða búa nú við þröngan kost.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstri grænna í NV-kjördæmi

Verkin tala, eða hvað?

Nokkra athygli hefur vakið að undanförnu hversu lítið gengur undan ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Af einum 120 stjórnarþingmálum samkvæmt málalista ríkisstjórnarinnar fyrir jól hafa aðeins milli 20 og 30 sést ennþá. Frægt varð þegar ríkisstjórnin tók sér lengsta sumarfrí sem sögur fara af á lýðveldistímanum og felldi með öllu niður fundi í vel á annan mánuð. Formenn stjórnarflokkanna virðast vera á góðri leið með að ganga af stjórnarskrármálinu dauðu með seinagangi og undanbrögðum. Þeir leggja sjálfir til að formenn allra stjórnmálaflokka hittist áður en stjórnarskrárnefnd ljúki störfum, en boða svo ekki slíkan fund og voru reyndar báðir erlendis út þá viku sem þeir fóru að bera nauðsyn slíks fundar fyrir sig.

Nú getur margt verra hent en það að menn komi litlu í verk, einkum ef mönnum eru mislagðar hendur. Eða, eins og einn orðhagur frændi minn fyrir norðan sagði: „Það er vont ef hroðvirkir menn eru duglegir því þá gera þeir svo mikið illa.“ Vandinn er hins vegar sá að verkefnin blasa alls staðar við, bæði þau sem tengjast úrvinnslumálum eftir Hrun, viðfangsefni líðandi stundar og margvíslegur undirbúningur undir framtíðina. Landflóttinn, húsnæðismálin, fæðingarorlofið, styrking velferðarkerfisins og fjárfesting í innviðum samfélagsins í þágu betri framtíðar sem hvetji ungt fólk til framtíðarbúsetu hér. Af nógu er að taka.

Þá er athyglisverður listi þar sem ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar hafa einfaldlega gefist upp, jafnvel um eða fyrir mitt kjörtímabil. Örfá dæmi:

  • Sjávarútvegsráðherra gafst upp við breytingar á kvótakerfinu.
  • Iðnaðarráðherra gafst upp með náttúrupassann (sem betur fer vissulega), en upplausn ríkir í staðinn.
  • Utanríkisráðherra gafst upp með formlega afturköllun ESB-umsóknar.
  • Innanríkisráðherra virðist hafa gefist upp með sam­gönguáætlun (engin áætlun allt kjörtímabilið).
  • Félags- og húsnæðismálaráðherra virðist vera að gefast upp með húsnæðisfrumvörpin og Framsókn með afnám verðtryggingar (loforðið mikla). Fjármálaráðherra kennt um.

Verkin tala, eða hvað?

Öryggismál sjómanna í forgang!

Þessi grein er skrifuð 11. nóvember sl.

Öryggismál sjómanna hafa mikið verið í umræðunni í ljósi hörmulegs sjóslyss sem varð í sumar þegar Jón Hákon BA 60 sökk út af Aðalvík og einn maður fórst en þrír komust lífs af þegar nálægur bátur kom þeim til bjargar á ögurstundu.

Myndir úr neðansjávarmyndavél sýna að sjálfvirkur sleppibúnaður virkaði ekki og björgunarbátar opnuðust ekki þegar á reyndi.

Það sama gerðist nú á dögunum þegar sanddæluskipið Perlan sökk í Reykjavíkurhöfn og sleppigálgi virkaði ekki sem skyldi og björgunarbátar sem eru einn mikilvægasti öryggisþáttur  sem sjómenn reiða sig á opnast ekki.

Rannsóknarstjóri sjóslysanefndar segir af þessu tilefni að það komi til greina að endurskoða verklags og öryggisreglur.Já þó fyrr hefði verið !

Allt frá því að Jón Hákon BA 60 sökk sl.sumar hafa komið fram fjölmargar áskoranir frá sjómannasamtökum,félagasamtökum ,sveitarfélögum og almenningi í landinu um að skipsflakið verði sótt á hafsbotn svo rannsaka megi til fullnustu orsakir þess að öryggiabúnaðu virkaði ekki þegar slysið varð. Allt verður að gera til þess að rannsaka hvað veldur því að endurtekið er sjálfvirkur öryggisbúnaður ekki að virka þegar á reynir.

Ég hef tekið þessi mál upp í þinginu ítrekað og reynt að hreyfa við rannsókn málsins eins og mögulegt er þó vísað hafi verið til þess að Ransóknarnefnd samgönguslysa sé sjálfstætt starfandi þá tel ég það vera skyldu okkar þingmanna að sinna eftirlitshlutverki bæði hvað varðar það að tryggja að eftirlit með öryggisbúnaði sé tryggt og að nægar fjárveitingar séu til rannsókna sjóslysa eins og það að ná skipsflakinu af Jóni Hákoni BA 60 upp af hafsbotni í þágu rannsóknarinnar.

Til þess að fara yfir þessi mál hef ég fengið til fundar við Atvinnuveganefnd á tveim fundum í liðnum október mánuði fjölda gesta sem málið varðar s.s. Ransóknarnefnd samgönguslysa, fulltrúa sjómannasamtaka, SFS, LS,eftirlitsaðila ,fulltrúa framleiðenda öryggisbúnaðar um borð í bátum og skipum ,fulltrúa úr Innanríkisráðuneytinu og forstjóra Samgöngustofu.

Þessir fundir hafa verið mjög upplýsandi og til góðs þar sem þessir aðilar hafa farið yfir verkferla ,hvar ábyrgð hvers og eins liggur og um mikilvægi þess að með ítarlegri rannsókn sjóslysa sé mögulega hægt að forða að slíkt endurtaki sig og draga megi þar með úr líkum á dauðsföllum og slysum til sjós í framtíðinni.

Það fer ekki á milli mála að við íslendingar höfum verið mjög framarlega hvað varðar öryggi sjófaranda og tilkoma  Slysavarnarskóla sjómanna hefur skipt sköpum í þeim efnum ásamt því að hér á landi hefur verið þróaður ýmis björgunarbúnaður sem hefur bjargað fjölda mannslífa bæði á bátum og skipum.

Því vekur það mikinn óhug að ekki sé hægt að leggja traust sitt á þann sjálfvirka öryggisbúnað sem um ræðir og á meðan upplifa sjómenn sig búa við falskt öryggi og aðstandendur þeirra eru áhyggjufullir.

Það er því brýnt að allir þeir sem koma að öryggis og slysavörnum sjómanna taki höndum saman um að komast til botns í því hversvegna sjálfvirkur björgunarbúnaður virkaði ekki.

Það hvílir einnig mikil ábyrgð á höndum Samgöngustofu,Rannsóknarnefndar samgönguslysa og þeirra einkaaðila sem sjá um efirlit með öryggisbúnaði.  Það á ekki að vera tilgangurinn með rannsókninni sérstaklega hverjum sé um að kenna heldur fyrst og fremst hvað fór úrskeiðis og hvernig má koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Rannsóknir á sjóslysum við Ísland eiga að vera í fremstu röð og unnar faglega og þar mega fjármunir ekki vera nein fyrirstaða  því mannslíf eru þar í húfi.

“ Tryggja verður öryggi sjófarenda og hraða rannsókn sjóslyssins á Jóni Hákoni BA 60 og til þess að svo megi verða verður að ná skipsflakinu upp af hafsbotni strax í ljósi rannsóknarhagsmuna „

Tek ég þar enn og aftur undir með kröfum sjómanna og annara þeirra sem láta sig öryggismál sjómanna varða.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna og varaformaður Atvinnuveganefndar.