Ræða Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi

Kæru félagar!

Ég mun ekki lengja mál mitt í dag enda dagskráin þétt. Mig langar þó að deila með ykkur nokkrum hugsunum um orð og mikilvægi þeirra.

Þegar ég var kjörin varaformaður þessarar hreyfingar árið 2003 sagði ég aðspurð að mig langaði mest til að breyta orðræðunni og vafalaust kímdu einhverjir yfir þessari stelpu sem talaði um orð á meðan karlar í krapinu ætluðu að reisa hér verksmiðjur. Ég er enn á því að það sé fátt mikilvægara en að einmitt þetta. Meðal þeirra áskorana sem við, Vinstri-græn, þurftum að takast á við þá var að teljast vera „fúl á móti“-flokkurinn, nánast á móti öllu sem þá var ofarlega á baugi: nánast þráhyggjukenndri markaðsvæðingu allra hluta og algjöru skeytingarleysi um umhverfismál. Önnur áskorun var að við værum „ekki stjórntæk“ eins og það var kallað því að við féllumst ekki á allar forsendur nútímalegs markaðssamfélags og því myndum líklega setja allt á hausinn um leið og við kæmum nærri stjórn samfélagsins.

Báðir þessir frasar (fúl á móti og ekki stjórntæk) þóttu mér ósanngjarnir. Við höfðum gert ýmislegt til að sporna gegn á móti-stimplinum, meðal annas hannað heila auglýsingaherferð sem hét MEÐ alls konar góðum málum; MEÐ náttúruvernd, friði og velferð. Og það er mín trú að þessi barátta við orðin hafi hægt og bítandi skilað sér með þeim árangri að í kosningum 2007 uppskárum við rúm 14% úr kjörkössunum sem fyrir litlum átta árum þótti mjög mikið fylgi fyrir róttækan vinstriflokk.

Hvað varðar það að vera stjórntæk þá skipti nú kannski mestu að við fengum að spreyta okkur á því vandasama verkefni að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi og reyna á flokkinn undir erfiðum kringumstæðum sem var bæði lærdómsríkt en líka skilaði það miklum árangri. Og það var nú raunar vegna þess að aðrir flokkar höfðu sett allt á hausinn fyrst.

En baráttan hættir aldrei þó að viðfangsefnin breytist. Nú þegar við Vinstri-græn erum orðin stjórntæk erum við líka orðin hluti af kerfinu í hugum margra og margir þeirra sem vilja kjósa gegn kerfinu líta ekki lengur á okkur sem valkost.

Annar frasi sem ég veit að mörgum þykir erfiður er að þrátt fyrir óteljandi mál, frumvörp, tillögur og fyrirspurnir á þingi, þrátt fyrir öflugan málflutning og andstöðu við mál sem við teljum ganga gegn jöfnuði, sjálfbærni, kvenfrelsi, friði og öðrum af okkar grunngildum, þá klifa álitsgjafar á því að stjórnarandstaðan sé ekki nægjanlega öflug eða ekki nægilega sýnileg. Því er til að svara að í fyrsta lagi þá erum við í stjórnmálum til að berjast fyrir okkar hugsjón en ekki aðeins til að vera í andstöðu. Í öðru lagi ákváðum við, þingmenn Vinstri-grænna, að við hefðum engan áhuga á að líkjast þeirri ómálefnalegu stjórnarandstöðu sem fulltrúar núverandi stjórnarflokka héldu uppi á síðasta kjörtímabili og litar raunar enn þeirra málflutning svo mjög að stundum held ég að forsætisráðherra sé enn í stjórnarandstöðu við Steingrím og Jóhönnu og gleymi stundum að hann er kominn í aðra vinnu. Og við lítum á það sem okkar hlutskipti, ásamt hinum flokkunum í minnihlutanum, að breyta umræðunni aftur til batnaðar og tileinka okkur ekki fúkyrðaflauminn. Enda ætlum við okkur ekki hlutskipti stjórnarandstöðu til langframa! Það er gott að vera sýnilegur en okkur þarf samt ekki að langa til að vera sýnileg á svipuðum forsendum og þáverandi stjórnarandstaða var á seinasta kjörtímabili.

Enn eru það átök um orð og hugtök.

Mig langar sérstaklega að nefna nokkur orð sem er mikilvægt að við Vinstri-græn tökum upp á okkar arma og hafa of lengi verið í gíslingu hægri-aflanna. Góðir félagar, við þurfum að fóstra þessi orð og setja þau í okkar verkfærakistu.

Svo ég nefni nokkur þessara orða: frelsi – stöðugleiki – öryggi.

Frelsi einstaklingsins hefur lengi verið frasi í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem líka talaði um stétt með stétt og ætlaði að vinna fyrir háa jafnt sem lága. Flokknum tókst svo vel að eigna sér þetta orð í pólitískri umræðu á Íslandi að margar aðrar stjórnmálahreyfingar veigruðu sér við að tala um frelsi, rétt eins og það væri einkamál Sjálfstæðisflokksins. En það er ekki svo.

Frelsi Sjálfstæðisflokksins hefur þróast út í að vera aðeins frelsi hinna fáu efnamiklu til að maka krókinn, iðulega með sérstakri ríkisaðstoð á kostnað frelsis fjöldans.

Hvað verður þá um frelsið til að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu við hæfi eða frelsi fólks er að búa í samfélagi þar sem dagvinnulaun duga fyrir mannsæmandi lífi? Þegar skorið er niður þannig að þjónusta hins opinbera við almenning rýrnar, aðgangur 25 ára og eldri er takmarkaður að framhaldsskólamenntun, gjöld fyrir læknisþjónustu eru hækkuð, fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun eru skornar niður þannig að framtíðartækifærum á landinu okkar fækkar, þá er verið að skerða frelsi fólks. Frelsi fólks til að lifa góðu lífi..

Og kjörin eru það sem brennur á okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði um þessar mundir. Á vef Hagstofunnar má finna upplýsingar um hlutfall þeirra sem teljast undir lágtekjumörkum. Nýjustu tölur, sem eru frá 2013, sýna að lágtekjumörk fyrir einstakling eru kr. 170.600 og fyrir fjölskyldu tveggja fullorðinna með tvö börn kr. 358.400. Samkvæmt félagsvísum Velferðarvaktarinnar voru 9,3% landsmanna undir lágtekjumörkum árið 2013. Einhleypir einstaklingar eru stærsti hópurinn undir lágtekjumörkum á síðustu 10 árum en árið 2013 voru þeir 32,1% hópsins. Næst stærsti hópurinn sem er undir lágtekjumörkum á sama tímabili eru einstæðir foreldrar, sem eru 27,1% hópsins. Félagsvísar mæla einnig ójöfnuð í samfélaginu samkvæmt hinum svokallaða Gini stuðli. Samkvæmt honum er ójöfnuður minni nú en fyrir efnahagshrunið. Ójöfnuður mældist mestur árið 2008 (skömmu fyrir hrun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í stjórn í 17 ár) og var þá 29,61 en hefur verið í kringum 24–26 frá þeim tíma. Hann mældist 24,0 árið 2013.

Þegar við hugsum um frelsi þá eigum við að hugsa um frelsi launamannsins til að geta átt nóg í matinn og til að leita hamingjunnar og njóta lífsins. Það má minna á að rétturinn til að leita hamingjunnar er nefndur í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna – ég sæi í anda þá sem mestu hafa ráðið um örlög íslensku stjórnarskrárinnar ef þetta rataði þar inn!

En ævinlega þegar lágtekjuhópar krefjast bættra kjara birtist annað orð: Stöðugleiki. Honum er ógnað í hvert sinn sem skúringafólk vill kjarabætur. En um hvað snýst þessi stöðugleiki?
Er það sá stöðugleiki að þeir sem eigi mest haldi áfram að eiga meir og meir? Því þannig er staðan á Íslandi að ríkustu 10% eiga 70% alls auðs. Verra er það víða annars staðar en ekki er þetta samt viðunandi. En kannski snýst skattastefna núverandi stjórnvalda einmitt um að halda þessu ástandi stöðugu því ekki leiða þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í til aukins jafnaðar. Lækkun veiðigjalda, afnám auðlegðarskatts, hækkun matarskatts og nú síðast talar fjármálaráðherra um að hverfa frá hinu þrepaskipta skattkerfi í áföngum. Allar stuðla þessar breytingar að aukinni misskiptingu. Þetta er ekki stöðugleiki sem nýtist hinum kúguðu og undirokuðu. Engin þessara nýlegu breytinga bætir kjör lægst launuðu hópanna. Engin þeirra stuðlar að minni fátækt í samfélaginu. Og engin þeirra eykur öryggi okkar.
Sem er enn eitt orðið sem hægrimenn hafa gert að sínu og láta eins og snúist um að lögreglan eigi nógu margar byssur til að geta brugðist við því ef það verður „attack“ eins og einn þingmaður kallar það. Sú hugmynd að öryggi verði varðveitt best með sem flestum sprengjum setti sannarlega svip sinn á 20. öldina og ekki síður þá 21. Og ekki jók hún nú öryggið í heiminum eins og allir muna sem lifðu Kúbudeiluna og enn má sjá á ástandinu í Mið-Austurlöndum. Hér er á ferð orð sem hefur verið afskræmt og snúið í andstæðu sína. Og er ekki kominn tími til að orðinu verði aftur ljáð skynsamleg merking? Þegar rýnt er í hugmyndina um öryggi þá hlýtur niðurstaðan að verða sú að það snúist miklu frekar um það að við byggjum upp gott samfélag, friðsamt jafnaðarsamfélag, þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi, með aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, og öðrum mikilvægum þáttum fyrir lífshamingju okkar, eða þak yfir höfuðið sem er það sem unga kynslóðin núna sér ekki fram á – öryggi hefur ekkert með skotvopn eða forvirkar rannsóknarheimildir að gera, og við höfnum slíkri hugmyndafræði.

Kæru félagar,
ég get að lokum ekki látið hjá líða að nefna hér rammaáætlun. Þar koma fleiri orð við sögu en kannski er rétt að nefna bara tvö: Hjól atvinnulífsins. Því er gjarnan haldið fram af sjálfskipuðum vinum atvinnulífsins að nú þurfi að virkja og virkja og virkja til að knýja hjól atvinnulífsins. Ekki veit ég hvernig nákvæmlega þessir virkjanavinir geta skýrt þá staðreynd að atvinnuleysi minnkaði jafnt og þétt í tíð síðustu ríkisstjórnar án þess að sú sæi ástæðu til að ganga fram hjá lögbundnu og faglegu ferli rammaáætlunar eða velja eftir eigin geðþótta virkjanakosti sem eftir er að fjalla um og skella þeim í nýtingarflokk án þess að hafa fyrir þvi nein rök önnur en hin margfrægu hjól atvinnulífsins. Þetta eru réttnefndar stórkalla-lausnir sem einkenndu atvinnustefnuna fyrir hrun og skildu samfélagið eftir í sárum, í raun og veru eins langt frá einstaklingsframtaki (svo að ég nefni enn eitt orðið sem engin ástæða er að leyfa öðrum að eigna sér) og hugsast getur á sama tíma og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki fá ekki áheyrn stjórnvalda og flýja land.
Umhverfismálin verða ekki rædd án þess að við ræðum atvinnumálin; við stóðum fyrir fjárfestingu í rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, fjárfestingu sem snýst um að leyfa einstaklingsframtakinu að njóta sín, og þær greinar sköpuðu um leið verðmæti. Fjölbreytni í atvinnulífi þar sem ekki er gengið um of á auðlindir landsins er okkar markmið, ekki þráhyggjukennd trú á stóriðju og virkjanir sem þolir engar mótbárur og enga skoðun þannig að til að þjóna þessari köllun þurfa menn að ganga framhjá öllum faglegum ferlum. Eru þetta ekki hinar einu raunverulegu öfgar í íslenskum stjórnmálum? Og ekki aðeins er slíka trúboða að finna í hópi stjórnmálamanna sem vilja komast sveigja og beygja lög um rammaáætlun því eins og kunnugt er hefur Orkustofnun nú skotið upp kolli með hina sakleysislegu Kjalölduveitu – sem reynist svo vera Norðlingaölduveita með nýju nafni! Mikið hefur þeim fundist þeir vera snjallir þegar þeir fundu upp á þessum glænýja merkimiða.

En kæru félagar…
Orð geta verið kúgunartæki eða öflugt vopn í baráttu fyrir friði, frelsi og jöfnuði. Við þurfum að hafa sjálfstraust andspænis orðunum sem spunameistarar vilja gjarnan nota til að berja á andstæðingum sínum. Frelsi, öryggi og stöðugleiki eiga að vera á okkar stefnuskrá en á okkar forsendum, frelsi almennings, öryggi almennings og stöðugleiki í þágu almennings en ekki aðeins hinna auðugu eða forréttindahópanna.

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu – fyrir hvern?

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur verið sérstakt áhugamál hægrimanna um langt skeið, að minnsta kosti frá tímum Margrétar Thatcher og annarra forgöngumanna nýfrjálshyggjunnar. Það kom því ekki sérstaklega á óvart að sjá að í yfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og Læknafélags Íslands vegna nýfenginna kjarasamninga hafði verið laumað inn setningu um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem nú þegar er einkarekið að nokkru leyti. Einkavæðingin kallast reyndar „fjölbreytt rekstrarform“ í þessari yfirlýsingu en það er sama hugtak og iðulega er notað þegar kynna á einkavæðinguna til leiks undir rós. En til hvers og fyrir hvern er verið að leggja til aukna einkavæðingu í heilbriðgiskerfinu? Hver ætli hagnist á því?

Dýrara fyrir skattgreiðendur
Undanfarnir áratugir hafa veitt okkur mikla reynslu af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem ýmislegt fróðlegt hefur komið í ljós. Við vitum til dæmis að Bandaríkin eru með langdýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, en þar er kerfið í heild sinni einkavætt eins og kunnugt er. Kostaðurinn skýrist að miklu leyti af því að óhemju miklum fjármunum er varið í yfirbyggingu á sjúkrahúsum og sjúkratryggingarfélögum, auk þess sem tvíverknaður er mikill og hagkvæmni lítil. Svipaða sögu er að segja af einkavæðingu sem ráðist hefur verið í í öðrum löndum: einkavædd heilbrigðisþjónusta er almennt séð dýrari, þótt einstaka sjúkrahús sem sinni fyrst og fremst heilbrigðustu sjúklingunum geti að sjálfsögðu verið ódýrari en sum opinber sjúkrahús. Það er því ljóst að enginn ávinningur er af einkavæðingu fyrir íslenska skattgreiðendur – þvert á móti bendir flest til þess að einkavætt heilbrigðiskerfi sé dýrara en opinbert.

Verri þjónusta fyrir sjúklinga
Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu þjónar heldur ekki markmiðum um bætta þjónustu fyrir sjúklinga – notendur þjónustunnar. Í þeim löndum þar sem opinber heilbrigðisþjónusta hefur verið einkavædd er gengur aðferðafræðin iðulega út á að einkavæða „hagkvæmustu“ einingarnar og skilja hið opinbera eftir með erfiðustu og viðkvæmustu þjónustuna. Í einkavæddu þjónustunni er svo allt gert til þess að draga úr kostnaði og fara framhjá þeim reglum og viðmiðum sem hið opinbera setur um hvaða þjónustu beri að veita og með hvaða hætti. Á það hefur margoft verið bent að engin leið er til að skilgreina nákvæmlega í samningum hins opinbera við einkafyrirtæki hvernig þjónustu veri að veita og því koma reglulega upp hneykslismál þar sem hinar einkavæddu stofnanir hafa með einum eða öðrum hætti komist upp með að veita miklu verri þjónustu en sú sem veitt var af hinu opinbera áður.

Meiri ójöfnuður hjá starfsfólki
Því er stundum haldið fram að laun séu hærri í einkavæddum heilbrigðiskerfum en opinberum. Í þessari fullyrðingu er ákveðið sannleikskorn að því leyti að laun stjórnenda og allskonar millistjórnenda – sem iðulega fjölgar við einkavæðingu – eru miklum mun hærri í einkavæddum heilbrigðisstofnunum en opinberum. Hinir fjölmörgu stjórnendur í einkavæddum heilbrigðiskerfum keyra iðulega um á rándýrum sportbílum og lúxusjeppum, sem fjármagnaðir eru með skattfé eða gjöldum á sjúklinga. Almennt starfsfólk – hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ræstitæknar, og svo framvegis – þurfa hins vegar jafnan að sætta sig við talsvert lægri laun og – sem oft gleymist – skerðingar á réttindum og starfsöryggi.

… en eigendur græða
Af ofansögðu er ljóst að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er hvorki til hagsbóta fyrir skattgreiðendur, sjúklinga né almennt starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Hverjir eru það þá sem eru að þrýsta á um aukna einkavæðingu? Einn er sá hópur sem augljóslega telur sig geta hagnast á einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, en það eru væntanlegir eigendur. Eðli málsins samkvæmt gera eigendur sér vonir um að geta tekið hagnað út úr þeim heilbrigðisstofnunum sem þeir myndu eignast við einkavæðingu, og raunar eru víða til svimandi tölur um hagnað einkavæddra heilbrigðisstofnana og ótrúlegar arðgreiðslur til eigenda. Mörg dæmi hafa litið dagsins ljós, t.d. frá Svíþjóð, þar sem opinbert fé sem varið hefur verið til einkavæddra heilbrigðisstofnana hefur að stórum hluta farið í arðgreiðslur til eigenda. Stóru spurningarnar sem við Íslendingar þurfum að svara eru því þessar: Er rétt að heilbrigðiskerfið sé leið til að græða — sé leið til að hagnast? Er verjandi að gera sjúkdóma og veikindi að féþúfu?

Nýja leið í stað náttúrupassa

Það stefnir í mikil átök um hinn alræmda náttúrupassa og umræðan hefur verið afvegaleidd frá upphafi. Stjórnarmeirihlutinn hefur kosið að flytja þann boðskap af furðulegri nauðhyggju að passinn sé eina leiðin til að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu á náttúruverndarsvæðum og vinsælum ferðamannastöðum.

Það er dapurlegt að málið hafi farið í þennan átakafarveg, enda eru flestir á einu máli um mikilvægi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur skipt sköpum fyrir þjóðarbúið á undanförnum árum, meðal annars vegna þess að gjaldeyristekjur hafa aukist jafnt og þétt með sívaxandi fjölgun ferðamanna. Því miður hefur uppbygging innviða ekki náð að fylgja eftir þessari fjögun og þörfin því brýn til að finna leið til að fjármagna aukna uppbyggingu.

Vandi er sannarlega á ferð en á hinn bóginn er náttúrupassinn ekki eina lausnin og raunar ótvírætt versta lausnin. Fara mætti blandaða leið þar sem bæði ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki legðu sitt af mörkum, til dæmis með því að þróa áfram gistináttagjaldið sem er innheimt hvarvetna í Evrópu en hefur verið mjög lágt hér á landi. Þá mætti rukka fyrir ýmsa sértæka þjónustu, til að mynda bílastæði, enda ekki óeðlilegt að ferðamenn greiði fyrir slíkt. Einnig mætti athuga að leggja á einhvers konar komugjald á farseðla, til að mynda yfir hásumartímann. Þessar fjölbreyttu leiðir gætu skilað jafn miklum fjármunum og náttúrupassinn án þess að fótum troða grundvallarrétt almennings til frjálsrar farar um landið.

Hér er nefnilega rætt um grundvallaratriði. Vel væri hægt að ná sátt um leiðir til fjáröflunar án þess að takmarka ferðafrelsi með þeim hætti sem náttúrupassinn gerir. Almannarétturinn, rétturinn til frjálsrar farar um landið, hefur verið hluti af íslenskri löggjöf allt frá Jónsbók. Þær reglur eru ekki séríslenskar. Þær hafa endurspeglast í rétti vestrænna ríkja allt frá því að almannaréttur var skilgreindur í Rómaveldi hinu forna. Með nefskatti á borð við náttúrupassann, þó að upphæðin sé í fyrstu ekki há, er verið að skerða ferðafrelsi.

Ráðherra ferðamála segir að þeir eigi að borga sem njóta. Ég er því ósammála. Þó að auðlindagjöld séu mikilvæg og eðlileg vekur það upp ýmsar siðferðilegar spurningar að rukka eigi fyrir aðgang að náttúrunni sjálfri. Er réttmætt að færa lögmál markaðarins með þessum hætti upp á náttúrugæði sem ekki fela í sér neinn efnislegan ágóða fyrir ferðamanninn? Því þeir sem ferðast hagnast ekki efnislega á því. Þeir njóta þessara sameiginlegu gæða okkar allra, ekki aðeins Íslendinga heldur okkar allra, án þess að þau séu þeim gróðalind. Þessi grundvallaratriði eru algjörlega vanreifuð í frumvarpinu og því sætir engri furðu að margir séu gáttaðir á þessari hugsun.

Svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn sé ekki einhuga um málið, auk þess sem mikil andstaða er við málið hjá stjórnarandstöðunni og öllum almenningi. Ráðherra væri nær að skipta nú hressilega um stefnu og ná samkomulagi um blandaða leið með þingmönnum allra flokka og gefa náttúrupassanum reisupassann.

Katrín Jakobsdóttir

Í átt til ójöfnuðar

Eflaust eru margir hugsi yfir nýlegum fréttum um að ríkasta eina prósentið á jörðinni eigi nú næstum helming alls auðs mannkyns og í nýrri skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam er því spáð að á næsta ári verði eignir þessa eina prósents meiri en samanlagðar eigur allra hinna. Samkvæmt gögnum frá Skattstjóra sem Ríkisútvarpið hefur tekið saman á ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda hátt í fjórðung alls auðs landsmanna. Ríkustu tíu prósentin eiga næstum þrjá fjórðu. Líklega eru eignirnar þó vanmetnar fremur en hitt því að stór hluti þeirra liggur í verðbréfum sem geta verið talsvert meira virði en nafnvirði þeirra segir til um.

Það er jákvætt að um þessi málefni er meira fjallað nú eftir efnahagskreppu en fyrir hana þegar brauðmolahagfræðin var ráðandi í allri umræðu sem boðaði að það væri sérstaklega gott að hinir ríku yrðu ríkari því þá myndu brauðmolar hrjóta af gnægtaborðum þeirra til hinna fátækari þannig að ójöfnuðurinn gagnaðist öllum. Nú keppast alþjóðastofnanir hins vegar við að lýsa brauðmolahagfræðina dauða, þeirra á meðal íhaldssamar stofnanir á borð við OECD. Stofnanir innan Sameinuðu þjóðanna hafa ennfremur bent á að ójöfnuður, hið sívaxandi bil milli ríkra og fátækra, sé ein helsta orsök átaka í heiminum.

Af einhverjum ástæðum virðast fregnir af dauða brauðmolahagfræðinnar ekki hafa skilað sér inn í stjórnarráð Íslands. Þar boða menn sömu hagfræði og hér var iðkuð fyrir hrun. Fjármálaráðherra vill hverfa frá þrepaskipta skattkerfinu sem er raunverulegt tekjujöfnunartæki og lækka skatta. Þetta á að gera í nafni einföldunar en hefur þau óhjákvæmilegu áhrif að lækka skatta þeirra sem hafa háar tekjur og færa skattbyrðina yfir á lág- og millitekjuhópa. Slík aðgerð myndi beinlínis auka ójöfnuð.

Önnur áhrif væru þau að rýra skattstofna samfélagsins sem svo sannarlega þarf á þeim að halda. Skattalækkanir sem þýða að ekki er hægt að byggja upp velferðarkerfið eru ekki kjarabót fyrir almenning heldur kjaraskerðing því þær standa í vegi fyrir því að allir geti sótt sér menntun og heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Í því felst engin kjarabót fyrir venjulegt fólk.

Framundan eru kjarasamningar. Ein mikilvægasta kjarabót almennings í landinu er að tryggja aðgengi allra að velferðarkerfi og menntun. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki sýnt í verki að hún vilji slíkar kjarabætur þar sem hún hefur hækkað hvers kyns sjúklingaskatta, takmarkað aðgang að framhaldsskólamenntun og dregið úr þjónustu við almenning. Á sama tíma boða talsmenn ríkisstjórnarinnar afturhvarf til flatra skatta sem munu koma mest við kaun lág- og millitekjuhópa.

Á meðan alþjóðasamfélagið lýsir þungum áhyggjum af vaxandi ójöfnuði á heimsvísu ætti verkefni hérlendra stjórnvalda að vera að tryggja að hagvöxtur nýtist öllum og auka jöfnuð með markvissri uppbyggingu samfélagsins og réttlátri dreifingu skattbyrði. Markmið komandi kjarasamninga ætti líka að vera að dreifa þeim verðmætum sem sannanlega eru til í hagkerfinu með réttlátum hætti. Því miður virðast íslensk stjórnvöld ekki standa undir þessu verkefni.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna

Þróum lýðræðið, aukum áhrif almennings

Á undanförnum árum og áratugum hafa miklar hræringar átt sér stað – í stjórnmálum, meðal almennings, og innan fræðasamfélagsins – hvað varðar leiðir til að auka lýðræðislega þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum. Þessar hræringar birtust ekki síst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 þegar mikil vakning varð meðal almennings um nauðsyn þess fyrir lýðræðið að almenningur tæki virkari þátt í allri ákvarðanatöku.

Lýðræði grundvallast á þeirri hugmynd að almenningur, „lýðurinn“, ráði. Stjórnkerfi lýðræðisríkis verður fyrst og síðast að taka mið af þörfum og afstöðu almennings og þátttökulýðræði miðar að því að auka þessi áhrif almennings. Þátttaka almennings getur verið af ýmsum toga, s.s. að forgangsraða, skilgreina markmið, leggja fram tillögur eða hlutast til um niðurstöðu.

Þátttökulýðræði er mismikið eftir samfélögum og er sjaldan í andstöðu við hefðbundið fulltrúalýðræði á borð við það þingræði sem við lýði er á Íslandi, þvert á það sem margir halda. Réttara er að líta á það sem viðbót eða framlengingu á fulltrúalýðræðinu. Í hefðbundnu fulltrúalýðræði er þátttaka vissulega takmörkuð að jafnaði við kosningar á fjögurra ára fresti, en í þátttökulýðræði bætist við að almenningur getur haft áhrif með ýmsu móti á opinberar ákvarðanir oftar og með virkari hætti.

Svokölluð þátttökuferli gefa fólki færi á að móta eigin afstöðu og koma henni á framfæri og í framkvæmd. Þau veita kjörnum fulltrúum aðhald og mikilvægar upplýsingar um viðhorf og áhuga kjósenda en rökin fyrir beitingu þátttökuferla eru meðal annars að þær upplýsingar sem fást í gegnum kjörklefann á fjögurra ára fresti gefa oft heldur óskýra mynd af valröðun kjósenda í einstökum málum.

Þá snýst þátttökulýðræði ekki einungis um atkvæðagreiðslur heldur einnig um að gera tilraunir með breytt vinnulag á ýmsum sviðum til að auka aðkomu almennings að stefnumótun. Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu.

Einna frægust þessara tilrauna er þátttökuákvarðanaferlið sem komið var á fót í árlegri fjárhagsáætlanagerð brasilísku borgarinnar Porto Alegre árið 1989. 8% borgarbúa taka þátt í ferlinu árlega og hefur reynslan verið afar jákvæð þótt tekið hafi nokkur ár að þróa ferlið. Meðal þeirra breytinga sem áttu sér stað í kjölfar þessara lýðræðisumbóta er að spilling hvarf, enda um opið og gagnsætt ferli að ræða, fjármunir fluttust til fátækari svæða og grasrótarstarf efldist til muna. Tekið skal fram að í borginni býr um ein og hálf milljón, þ.e.a.s. fjórum til fimm sinnum fleiri en á Íslandi öllu, og hefur ferlið gengið vel þrátt fyrir þann mikla fjölda fólks sem kemur að ákvarðanatökunni.

Annað áhugavert dæmi um þátttökulýðræði í verki átti sér stað árin 2004-2005 í Bresku Kólumbíu í Kanada í kjölfar umræðna um breytingar á kosningakerfi fylkisins. Ákveðið var að skipa slembivalsþing þar sem 158 fulltrúar voru valdir af handahófi úr þjóðskrá, en þó þannig að kynjahlutföll voru jöfn, aldursdreifing endurspeglaði aldursdreifingu þjóðarinnar, og jafnmargir fulltrúar komu úr hverju kjördæmi fylkisins. Einnig voru skipaðir á þingið fulltrúar frumbyggja, sem eru minnihlutahópur í Kanada, auk forseta þingsins sem skipaður var sérstaklega. Eftir að hafa fengið ýtarlega fræðslu og tekið þátt í miklum umræðum sín á milli komst yfirgnæfandi meirihluti fulltrúanna að sameiginlegri niðurstöðu um tillögu að breytingum á kosningakerfinu. Tillagan var svo sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaut 57,69% atkvæða en náði þó ekki fram að ganga vegna þess að gerð hafði verið krafa um aukinn meirihluta, eða 60% atkvæða, til að samþykkja breytingar á kosningakerfinu.

Það er knýjandi nauðsyn að reynsla síðustu ára verði nýtt með skipulegum hætti og þátttaka almennings í opinberri stefnumótun verði aukin. Því hef ég ákveðið að leggja til ásamt fleiri þingmönnum frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Markmiðið með vinnu nefndarinnar verði að auka þátttöku og aðkomu almennings í opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði. Það er von mín að þessi tillaga megi hljóta brautargengi á Alþingi Íslendinga og Íslendingar verði í fararbroddi hvað varðar þróun þátttökulýðræðis og aukin áhrif almennings til framtíðar.

 

Geðþótti eða lögleg vinnubrögð

Eftir tíu daga í embætti segir nýr umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, í Kastljósi að nægar rannsóknir liggi fyrir til að leggja til að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun verði settar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þetta vakti athygli og undrun margra.

Aðdragandinn að rammaáætlun – vinnan og framvindan – nær mörg ár aftur í tímann. Á árinu 2011 voru lög um rammaáætlun samþykkt á Alþingi og kveða lögin á um það hvernig skyldi fara með tillögur og ákvarðanir varðandi vernd og nýtingu náttúrusvæða. Þessi lög um verklag og leikreglur voru samþykkt án andstöðu í þinginu og var víða fagnað sem mikilvægu skrefi í átt að því að ná sameiginlegum grundvelli um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi.

Það er mikilvægt að halda því til haga að það var þingið sjálft sem samþykkti þessa aðferðafræði og ætti því sjálft að gæta að því að hún sé höfð í heiðri.

Verkefnisstjórnin skal samkvæmt lögunum gera tillögu til ráðherra og ráðherra síðan leggja kostina til við þingið. Eftir þessu var farið þegar verkefnisstjórn rammáaætlunar gerði tillögu um að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk og þingsályktunartillaga í framhaldinu lögð fram á Alþingi um þann virkjunarkost. Verkefnisstjórnin taldi ekki forsendur til þess að gera frekari tillögur um færslu virkjanakosta í nýtingarflokk og því liggur aðeins þessi eina tillaga hjá Alþingi, hvorki fleiri né færri.

Í þessu ljósi er það verulegt álitamál hvort það standist yfirleitt lögin að atvinnuveganefndin ein og sér geri tillögu um sjö virkjunarkosti til viðbótar án þess að verkefnisstjórnin hafi lokið sinni umfjöllun um þá eins og Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hugðist gera í haust. Auk þess hafa ítrekað komið fram efasemdir um að það í sjálfu sér standist þingsköp að kalla það breytingartillögu við þingsályktunartillögu að breyta einni tillögu í átta. Þannig fengi breytt tillaga í raun bara eina umræðu sem telst tæpast þinglegt.

Það er ekki síður álitamál hvort löglegt sé að ráðherra geri tillögur umfram þær sem umfjöllun verkefnisstjórnarinnar segir til um eins og hún boðaði í Kastljósi. Þetta er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að eftirfarandi kemur fram í greinargerð verkefnisstjórnar um tillögu þá sem atvinnuveganefnd hefur á sínu borði:

„Í niðurstöðum sínum leggur verkefnisstjórn til að Hvammsvirkjun verði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk en gerir að öðru leyti ekki tillögu um breytingu á þeirri röðun virkjunarkosta sem fram koma í núgildandi verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013.

Í niðurstöðum verkefnisstjórnar kemur jafnframt fram að hún telji að til þess að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þurfi að liggja fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskstofna, eftirlits- og viðbragðsáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð og skilgreining á því hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsá, einkum í Þjórsárkvísl neðan við Búða og í Murneyrarkvísl.“

Afstaða verkefnisstjórnarinnar er því afar skýr: Hún telur einmitt að frekari rannsókna sé þörf áður en hægt sé að taka ákvörðun um þessa tvo virkjanakosti. Í ljósi þess að það er einmitt hlutverk verkefnisstjórnarinnar að taka afstöðu til þessara atriða, má spyrja til hvers Sigrún Magnúsdóttir telur verkefnisstjórnina vera?

Eru þetta byrjendamistök hjá ráðherra? Hefur hún ekki kynnt sér lög um rammaáætlun eða telur hún að eigin geðþótti dugi til?

Þorpin okkar

Það eiga margir rætur sínar að rekja til sjávarþorpanna vítt og breitt um landið, þorp sem kúra undir fjallshlíðum eða eru við víkur og voga. Þau hafa orðið til og byggst upp vegna hagstæðrar legu sinnar við sjó og góðs aðgengis að gjöfulum fiskimiðum og í framhaldinu hefur byggst upp góð hafnaraðstaða til að sinna sjávarútvegnum ásamt vöru og þjónustuviðskiptum.

Þessi sjávarþorp eiga sér mikla sögu og þar hefur lífið ekki bara verið saltfiskur, þar hefur menning og nýsköpun blómstrað og margir andansmenn vaxið úr grasi , lifað og starfað
m.a.rithöfundar,tónlistarmenn,leikarar,frumkvöðlar, vísindamenn,læknar , skólafólk og stjórnmálamenn hafa talið sér það til tekna að hafa vaxið úr grasi og þroskast í sjávarþorpi.

Hin seinni ár hefur byggð í mörgum sjávarþorpum farið hnignandi og greinir mönnum á hverju er um að kenna , er það eingöngu hinn mikli sogkraftur til þéttbýlisins sem ræður för eða eru það fleiri þættir og mannana verk sem vegur þar þyngst. Ég er ekki í nokkrum vafa um það sem þorpari sjálf að þetta hvortveggja hefur mikið að segja og margir samspilandi þættir eru orsakavaldar. Stærsti orsakavaldurinn er hið niðurnjörfaða kvótakerfi sem lýtur eingöngu lögmálum markaðarins að því leyti að hinir stóru og sterku gleypa hina minni í greininni með tímanum og samfélagsleg sjónarmið ,frumbyggjarétturinn og starfsöryggi íbúa þorpanna er haft að engu og kastað út í hafsauga.

Einn góðan veðurdag er staðan sú að sjávarþorpin sem iðuðu af mannlífi og nægri atvinnu standa frammi fyrir því að þau megi ekki stunda sjósókn lengur, fiskvinnsla leggst af og þjónustuaðilar hverfa og önnur opinber starfsemi fjarar út smátt og smátt. Búið er að mergsjúga allt fjármagn í burtu svo að þeir sem eftir sitja hafa ekkert fjármagn né lánstraust til þess að skapa sér atvinnu eða gera eitthvað annað. Þannig birtist hinn kaldi veruleiki einu þorpi í dag og öðru á morgun og enginn veit hver verður næstur.

Er þetta sú byggðaþróun sem við viljum sem þjóð að sjávarþorpin okkar hringin í kringum landið standi frammi fyrir að þau dagi uppi með sýna menningu, fjölbreytt mannlíf og menningararf og sögu. Ég segi Nei ! Það getur ekki verið að við séum svo skammsýn að við ætlum að kasta fyrir róða öllum þeim mannauði og verðmætum sem skapast hafa í hverju sjávarþorpi það væri glapræði. En tíminn er naumur og byggðastefna liðinna ára hefur verið ómarkviss og handahófskennd og birtst í skammtímalækningum og plástrum hér og þar í stað þess að þora eða vilja taka á meininu sjálfu sem er að tryggja undirstöður þorpanna með aðgengi að fiskimiðunum og binda aflaheimildir varanlega við byggðirnar. Ég vil umbylta kvótakerfinu öllu en byggðafesta aflaheimilda við þessi þorp er aðgerð sem á strax að taka út fyrir sviga og fólk úr öllum flokkum á að sammælast um að framkvæma. Vilji er allt sem þarf ! Önnur brýn byggðamál eins og samgöngur,jöfnun búsetuskilyrða , góð heilbrigðis og menntunarskilyrði óháð búsetu verður áfram að berjast fyrir en undirstaðan verður að vera til staðar svo hægt verði að auka fjölbreytni í atvinnulífinu með góðri háhraðatengingu og ótal tækifærum í ferðaþjónustu og annari nýsköpun s.s. þjónustu við sjávarútveginn.

Sá mikli vandi sem íbúar Þingeyrar og Flateyrar standa nú frammi fyrir í atvinnumálum og glímt er við að leysa er ekkert einsdæmi og ekki fólkinu þar að kenna heldur ranglátu fiskveiðistjórnarkerfi sem stjórnmálamenn bera ábyrgð á og verða að gangast við og viðurkenna og grípa til varanlegra aðgerða ekki í formi ölmusu eða styrkja heldur að færa aftur réttinn til byggðanna til að sækja sjó og bjarga sé á eigin forsendum. Frumbyggjarétt þessara byggða á að virða og atvinnuréttindi íbúanna. Núverandi kynslóð skuldar líka forfeðrum sýnum sem byggðu upp þessi þorp með dugnaði og framsýni að skila aftur því sem frá sjávarbyggðunum hefur verið tekið með ákvörðun Alþingis það er „Lífsbjörginni“ !

Lilja Rafney Magnúsdótir alþingismaður Vinstri grænna Norðvesturkjördæmi.

Heilbrigð skynsemi ráði

Það er fagnaðarefni að samningar hafi náðst í læknadeilunni. Hvert sem ég kom á meðan deilan stóð yfir varð ég vör við þungar áhyggjur, ekki síst vegna þess að fólki fannst velferðarkerfinu og þar með undirstöðum samfélagsins ógnað. Nú blasir við að í kjölfarið munu ýmsir hópar gera harðari kröfur um kjarabætur í takt við kjarabætur lækna sem er flókið úrlausnarefni þegar vilji er til að viðhalda hinum efnahagslega stöðugleika. Það breytir því ekki að stöðugleiki snýst um fleira en kaup og kjör og áherslan á stöðugleika má ekki verða til þess að viðhalda eða jafnvel auka misskiptingu í samfélaginu. Þá má ekki gleyma því að stjórnendur fyrirtækja fengu ríflegar hækkanir í fyrra en venjulegir launamenn sættu sig við litlar hækkanir í nafni stöðugleika. Þessu þarf að snúa við í komandi kjarasamningum.

Yfirlýsing stjórnvalda og lækna í kjölfar samninga vekur hins vegar upp ýmsar spurningar. Vissulega er gott og þarft að auka framlög til heilbrigðisþjónustu og ekki vanþörf á, þótt ekki væri nema af lýðfræðilegum ástæðum. Um það ætti að geta náðst samstaða. Hins vegar vekur það undrun að stjórnvöld lýsi því yfir að opna þurfi fyrir „fjölbreytt rekstrarform“ í heilbrigðiskerfinu. Nú er það svo að ýmsir þættir íslenska heilbrigðiskerfisins eru ekki reknir af hinu opinbera og enginn skortur á fjölbreytni þar. Ekki er því hægt að túlka þessa yfirlýsingu öðruvísi en sem sérstakan vilja stjórnvalda til frekari einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu án þess að það sé rökstutt sérstaklega.

Rannsóknir hafa sýnt að félagslega rekin heilbrigðiskerfi tryggja besta aðgengið að þjónustunni, besta lýðheilsu og eru fjárhagslega hagkvæmust. Einu rökin fyrir því að auka vægi einkarekstrar er pólitísk hugmyndafræði eins og einn af stofnendum og eigendum Sinnum ehf. kynnti eftirminnilega á dögunum. Tók hún þá Albaníu sem dæmi um land þar sem konur gætu valið ólíka fæðingarþjónustu en láðist að nefna að þar er ungbarnadauði margfalt meiri en hér óháð öllu vali.

Það er ógnvænlegt ef pólitískt einkarekstrarofstæki á að vera sterkara en heilbrigð skynsemi og raunverulegur árangur í heilbrigðismálum. Góð heilbrigðisþjónusta er samfélagsleg verðmæti sem við eigum að eiga saman. Hún á ekki að vera gróðavegur einkaaðila á kostnað annarra í samfélaginu. Í þessu kerfi þarf að standa vörð um jöfnuð og réttlæti. Við eigum ekki að fylgja fordæmi Albaníu.

Opnir fundir um atvinnumál á Flateyri og á Þingeyri

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Vinstri grænna heldur opinn fund í Grunnskólanum á Flateyri í dag kl. 18 til að ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í atvinnumálum á staðnum.  Sambærilegur fundur verður á Þingeyri á morgun kl. 15 í Stefánsbúð húsi Björgunarsveitarinnar.

Eins og fram hefur komið hafði Lilja Rafney áður óskað eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins og fulltrúum frá Ísafjarðarbæ, Byggðastofnun og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga til að ræða alvarlegt  atvinnuástand á Flateyri og á Þingeyri. Ekki liggur enn fyrir hvenær af þeim fundi getur orðið.

Eins og kunnugt er var öllu starfsfólki  sagt upp hjá fiskvinnslu Vísis hf um síðastliðin áramót  og starfseminni verður hætt í lok mars. 21 starfsmanni var sagt upp hjá Artic Odda á Flateyri um áramótin og bolfiskvinnslu þar verður hætt. Engin niðurstaða er enn komin hjá Byggðastofnun um úthlutun byggðakvóta til Flateyrar og Þingeyrar og byggðakvótinn hefur aftur verið auglýstur laus til umsóknar.

Um næstu mánaðamót þarf starfsfólk Vísis á Þingeyri að svara hvort það þiggur vinnu hjá Vísi hf  í Grindavík og er því  mikil pressa á fólki að flytjast burtu frá þessum stöðum í ljósi alvarlegs atvinnuástands. Lilja Rafney hefur sagst vilja kanna möguleika á að binda aflaheimildir varanlega við sjávarbyggðir, til að tryggja stöðugleika og atvinnuöryggi íbúa.