Þingflokkur Vinstri grænna andmælir aukinni misskiptingu

Nú þegar fyrsti þingvetur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er á enda sjást vel pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar. Stefnan virðist beinlínis hafa verið tekin á að auka misskiptingu í samfélaginu; hygla stóreignafólki en hækka gjöld á sjúklinga og námsmenn; og horfa lítt til tekjulægri hópa.

Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld upp á 6,4 milljarða króna á ársgrundvelli og undir lok þessa þings var sérstaka veiðigjaldið lækkað enn frekar þannig á árunum að 2013, 2014 og 2015 er búið að lækka veiðigjöldin alls um 18,8 milljarða.

Að sama skapi hefur ríkisstjórnin ákveðið að framlengja ekki auðlegðarskatt en með því var almenningi afsalað tekjum upp á tíu milljarða frá og með árinu 2015.

Í útfærslu á skuldalækkunum ríkisstjórnarinnar birtist sama forgangsröðun. Þar eiga þeir sem hafa hæstar tekjur eða eiga mestar eignir kost á hámarksniðurfellingu skulda. Vaxtabætur handa tekjulægri hópum hafa á sama tíma verið stórlækkaðar. Frá hruni hefur leigjendum fjölgað verulega en fram kemur í skýrslu Hagstofunnar að þetta eigi sérstaklega við um fólk með lágar tekjur. Ekkert er að finna í nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar um þennan hóp.

Sú endurráðstöfun fjármuna sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir á fyrsta starfsári sínu mun stórauka ójöfnuð í samfélaginu með neikvæðum félagslegum og hagrænum afleiðingum.

Samstaða stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi hefur varðað miklu á þessu þingi og haft áhrif, til dæmis þegar samkomulagi var náð á Alþingi um að náttúruverndarlög yrðu ekki afturkölluð en gildistöku nýrra náttúruverndarlaga frestað og unnið að úrbótum. Þá var áformuðum breytingum á rammaáætlun hrundið í bili en í báðum þessum málum hefur líka komið til öflugur stuðningur almennings. Málefnaleg framganga núverandi stjórnarandstöðu hefur skilað árangri og breyttum svip á þingstörfum frá því að núverandi stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu og stunduðu áður óþekkt málþóf í þeim mæli að stórskaðaði störf Alþingis og rúði það trausti

Þingflokkur VG leggur áherslu á félagslegt réttlæti, jöfnuð og græna framtíð hér eftir sem hingað til og vill stuðla að samstöðu allra þeirra sem deila þeim hugsjónum. Þar hefur verulegur árangur náðst og hann þarf að verja og sækja svo fram í þágu komandi kynslóða.

Nánari upplýsingar veitir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG

Höfnun markaðsvæðingu skólakerfisins

Fyrir skömmu hélt Margrét Pála, stofnandi og fræðslustjóri Hjallastefnunnar, erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins. Þar kallaði hún eftir aðstoð atvinnulífsins við „bjarga‟ börnunum okkar frá eyðileggingarmætti skólakerfisins með því að „ráðast sem víðast‟ að því og byggja upp nýtt kerfi í samvinnu við hana. Það má því öllum ljóst vera að hér boðar Margrét Pála að eina lausnin við úreltu og einsleitu skólakerfi sé einkavæðing þess.

Fjölmargir hafa tekið undir þetta sjónarmið og talað fyrir nauðsyn þess að innleiða svokallað fjölbreytt rekstrarfyrirkomulag til að svara auknum kröfum um nýjar áherslur í skólastarfi og meiri hagkvæmni í rekstri. Því hafa æ fleiri sveitarfélög kosið að fara þá leið að útvista hluta af skólastarfi sínu til einkaaðila. Markaðsvæðing skólakerfisins hér á landi er því hafin af fullri alvöru.

Sams konar þróun hefur átt sér stað í fleiri löndum og er því tilvalið að líta til þeirrar reynslu sem þar er komin. Berglind Rós Magnúsdóttir hefur rannsakað áhrif markaðsvæðingar á breskt og bandarískt skólakerfi. Hún hefur bent á að óheft markaðsvæðing í skólakerfum skapi til lengri tíma meiri menningar- og stéttarmun milli skóla. Þar sem markaðslögmál ráða för í skól­um verður meiri eft­ir­spurn eft­ir nemendum sem þykja góðir fyrir ímynd skólans. Þannig er meiri eftirspurn eftir börn­um foreldra sem hafa komið sér vel fyr­ir í sam­fé­lag­inu og minni eft­ir­spurn eft­ir þeim sem standa þar höllum fæti.

Um 20 ár eru síðan Svíar veittu aukið svigrúm til einkareksturs innan skólakerfisins. Reynsla þeirra sýnir sömuleiðis að stéttarmunur milli skóla hefur aukist við breytt rekstrarfyrirkomulag og niðurstöður úr alþjóðlegum samanburðarmælingum hafa sýnt að hið aukna frjálsræði innan kerfisins hefur síður en svo verið til þess fallið að bæta námsárangur nemenda.

Við í Vinstri grænum lítum svo á að uppbyggilegt og metnaðarfullt starf í almenningsskólum sé hornsteinn félagslegs réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Tryggja þarf að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins. Það er okkar trú að slíkt verði einungis kleift með öflugu opinberu skólakerfi. Fagfólk skóla hefur í dag svigrúm til að þróa eigin stíl, stefnu og menningu. Svigrúm er því nú þegar til staðar fyrir fjölbreytileika á borð við Hjallastefnuna sem spratt einmitt fram innan opinbera kerfisins og í raun eru engin rök fyrir því að þeirri stefnu sé ekki hægt að framfylgja innan þess.

Skólakerfið á að vera sameign okkar allra. Það á ekki að vera í einkaeign heldur að vera rekið fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum. Þess vegna hafnar Vinstri hreyfingin grænt framboð allri markaðsvæðingu skólakerfisins.

Hildur Friðriksdóttir skipar þriðja sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Pistillinn birtist fyrst á Vísir.is

Allir til í einkavæðingu?

Hugmynd Bjarna Benediktssonar um sölu á hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna hefur vakið athygli. Hugmyndin er í fullu samræmi við stefnu Sjálfstæðismanna sem vilja koma sem allra flestum samfélagslegum verkefnum í hendur einkaaðila.

Fyrsta skref í átt að einkavæðingu

Allt tal um að lífeyrissjóðirnir séu jú í eigu almennings og Landsvirkjun verði þannig áfram í eigu almennings er augljós fyrirsláttur. Lífeyrissjóðirnir hafa fyrst og fremst það markmið að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga og þeim ber að selja hlutinn áfram ef hentugur kaupandi finnst. Auk þess skortir mjög á lýðræðislegt aðhald almennings gagnvart lífeyrissjóðunum. Að selja hlut til lífeyrissjóðanna er hreint og klár fyrsta skref í átt að einkavæðingu og það er beinlínis óforskammað að halda öðru fram. En Sjálfstæðisflokkurinn er eins og hann er og honum verður víst seint breytt.

Besti flokkur og Samfylking sammála Bjarna

Verra er að hann er ekki einn og raunar hafa aðrir flokkar gengið enn lengra en Sjálfstæðisflokkurinn. Á kjörtímabilinu hóf meirihluti Besta flokks og Samfylkingar beinlínis viðræður við lífeyrissjóðina um aðkomu þeirra að stofnun sérstaks félags sem sæi um uppbyggingu Hverahlíðarvirkjunar í stað Orkuveitu Reykjavíkur.

Meirihlutinn kallaði það auðvitað ekki einkavæðingu frekar en Bjarni, og ekki heldur sölu, heldur verkefnisfjármögnun. En auðvitað var þar allt á sömu bókina lagt, lífeyrissjóðirnir hefðu eignast hlut í því sem annars hefði tilheyrt Orkuveitu Reykjavíkur með sömu áhættu og afleiðingum og þær hugmyndir sem Bjarni kynnir nú.

Ein á móti

Tillagan um viðræður við lífeyrissjóðina var samþykkt með 14 atkvæðum gegn einu í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru allir sammála um að selja lífeyrissjóðunum hluta af Orkuveitu Reykjavíkur. Og það var hvorki í fyrsta né eina skiptið sem Vinstri græn hafa staðið vaktina gegn einkavæðingu almannaþjónustunnar. Í tíð núverandi meirihluta hefur Gagnaveita Reykjavíkur verið sett í söluferli og hlutur Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja seldur til einkaaðila. Atkvæði voru greidd á sama hátt í öllum þessum málum.

Almannaeign og lýðræðislegt aðhald

Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur eru fyrirtæki sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki enda leggja þau grunn að lífsskilyrðum á landinu. Slík fyrirtæki eiga að vera alfarið og undantekningarlaust í eigu almennings og lúta skýru lýðræðislegu aðhaldi. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til standa með almannaþjónustunni, ein flokka.

Sóley Tómasdóttir skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

Greinin birtist fyrst á Vísir.is

Tillaga Vinstri grænna um styttri vinnuviku samþykkt

Í dag samþykkti borgarstjórn tillögu Vinstri grænna um að setja á laggirnar starfshóp sem hafi það að markmiði að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Markmiðið með verkefninu verður að kanna áhrifin á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustuna, bæði með tilliti til gæða og hagkvæmni.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að valinn verði staður innan borgarkerfisins á sviði velferðar eða fræðslu þar sem starfsfólk vinnur undir miklu álagi.

Borgarritara er falið að skipa starfshópinn, en í honum verður fólk með sérfræðiþekkingu á sviði vinnuverndar, lýðheilsu og mannauðsmála, auk kjörinna fulltrúa. Þegar starfsstaður hefur verið ákveðinn, verður svo haft samráð við fulltrúa viðkomandi stéttarfélaga um útfærslu. Starfshópnum er ætlað að skila tillögu um starfsstað og útfærslu fyrir 1. október nk.

Umræður um styttingu vinnuvikunnar hafa átt sér stað um langt skeið. Til marks um það vitnaði Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í þingsályktunartillögu fyrrum flokkssystra sinna í Kvennalistanum frá árinu 1993 um málið, en fyrstu tillögur í þessum efnum voru lagðar fram á Alþingi árið 1987. Að undanförnu hafa fulltrúar atvinnurekenda og stéttarfélaga sýnt málinu aukinn áhuga, og því kjörið tækifæri til að grípa til aðgerða. Rannsóknir sýna að með styttri vinnudegi geta náðst fram umtalsverð jákvæð áhrif á lífsgæði, hagsæld, fleiri atvinnutækifæri og jöfnuð.

Samþykkt tillögunnar er sannkallað fagnaðarefni, enda í fyrsta skipti á Íslandi sem farið verður í beinar aðgerðir til að stytta vinnutíma án þess að skerða launakjör.

Sérstakt átak í upplýsingamiðlun Garðabæjar

Aðgengi bæjarbúa að upplýsingum um rekstur og ákvarðanir í hverju sveitarfélagi eru forsenda þess að sátt ríki um stjórnun bæjarins. Krafan um gegnsæi er krafa um að almenningur geti nálgast þessar upplýsingar með einföldum hætti til að mynda sér skoðun á skilvirkni bæjarkerfisins.

Hjá mörgum stærstu sveitarfélögum landsins hefur hin síðari ár náðst markverður árangur í að gera slíkar upplýsingar aðgengilegar og skýrist það m.a. af tilkomu netsins.

Hjá Garðabæ má nálgast fundargerðir nefnda og eru helstu fjárhagsupplýsingar bæjarins aðgengilegar á vefnum. Þannig er hægt að ná í ársreikning bæjarins aftur í tímann og glöggva sig á helstu rekstrartölum bæjarins.

Þó að mikið hafi áunnist hin síðari ár í að gera fjárhagsupplýsingar opinberra aðila aðgengilegar almenningi er verulegt rúm til að gera enn betur. Garðbær gæti raunar tekið forystu í þessum efnum og leggur FÓLKIÐ- í bænum til að það verði sérstakt tilraunasveitarfélag á Íslandi í að gera fjárhagsupplýsingar aðgengilegri bæjarbúum.

Ekki nægir að setja helstu bókhaldsupplýsingar ársreikninga á netið heldur þarf að vinna úr upplýsingunum þannig að þær séu skiljanlegar þeim sem vilja leita þeirra. Styðja má við fjármálalæsi með skipulagðri framsetningu gagna.

Þetta má gera með tvennum hætti. Hægt er að gera grunngögnin aðgengileg hverjum þeim sem vilja til að útbúa eigin gögn og auðvelda þannig frekari framsetningu á þeim. Þannig hafa ýmis fyrirtæki sérhæft sig í að nýta sér grunngögn til að setja slíka upplýsingar fram þannig að þær verði skiljanlegar. Gott dæmi um eitt slíkt er íslenska sprotafyrirtækið Datamarket.

Einnig getur sveitarfélagið látið vinna úr þessum gögnum helstu lykilstærðir til upplýsinga fyrir bæjarbúa. Gera má einfaldar myndir sem sýna hversu hátt hlutfall útsvars fer í stóra málaflokka eins og skólamál, rekstur stjórnsýslu eða æskulýðs- og íþróttamál. Þá má bæta við myndum um þróun skulda, tekna og gjalda. Ótal fleiri atriði er hægt að týna til en fyrirmynda má líka leita víða hvort sem það er hjá fyrirtækjum eða opinberum aðilum erlendis.

Hugmyndinni er ekki varpað hér fram til að gera lítið úr þeim upplýsingum, sem þegar er að finna hjá bænum, heldur fremur til að styðja við áframhaldandi þróun þessarar vinnu.

Með einföldum hætti og litlum tilkostnaði er hægt að stórbæta aðgengi almennings að þessum upplýsingum og ætti að vera auðvelt að sameinast um slík markmið.

Huginn Freyr Þorsteinsson
Höfundur, situr í 4 sæti M-Lista í Garðabæ.

Greinin birtist fyrst á Vísi.is

Við getum breytt kerfinu

Í vor munu sjö flokkar bjóða fram til bæjarstjórnar hér á Akureyri og ljóst er að allir frambjóðendur vilja vinna bænum okkar gagn þó skiptar skoðanir séu um hvernig það sé best gert. Um leið eru pólitískar línur að óskýrast þar sem hluti flokkanna leggur ekki upp með skýrar pólitískar hugsjónir heldur frekar að um sé að ræða hóp ólíkra einstaklinga sem hver fyrir sig taki afstöðu í málum og málefnum samkvæmt sinni persónulegu pólitísku skoðun þó reyndar hafi ekki borið á slíku í hreinum meirihluta L-listans síðastliðið kjörtímabil. Svo það er greinilega ekki nóg. Þess vegna er mikilvægt að efla samræðu- og samvinnustjórnmál og velta upp nýjum möguleikum til þess.

Við í VG viljum afleggja hefðbundna skiptinu í meirihluta og minnihluta en þess í stað vinni allir bæjarfulltrúar saman. Þannig höldum við eðlilegra valdajafnvægi í samræmi við niðurstöður kosninga.

Staðreyndin er þó sú að stór hluti vinnunar fyrir bæjarbúa fer fram í nefndum. Þar hefur meirihlutahópurinn hingað til eignað sér valdamesta embætti í hverri nefnd; formennskuna. Þetta fyrirkomulag er í hróplegu ósamræmi við niðurstöður kosninga og þar með vilja kjósenda. Sem dæmi má nefna að í kosningum 2010 hlaut L-listinn 45% atkvæða en skipar 100% nefndarformanna. Við leggjum til að nefndarformönnum og nefndarmönnum verði skipt niður á flokkana í samræmi við útkomu úr kosningum sem.

Auk þessa er mikilvægt að auka aðkomu íbúa að umræðu og ákvörðunum. Fyrsta skrefið að þessu bætta lýðræði er að auka upplýsingagjöf um það sem fram fer í stjórnsýslunni. Það þýðir ekki að ætlast sé til að allir bæjarbúar kynni sér öll mál sem tekin eru til umræðu heldur að þeir bæjarbúar sem áhuga hafa eigi greiðlega aðgengi að þeim gögnum sem liggja til grundvallar ákvarðanatöku. Með þessu eiga íbúarnir auðveldara með að beita virku aðhaldi. Við leggjum til að öll gögn sem bæjarfulltrúar fá í hendur við umræðu um málefni í nefndum og ráðum séu gerð opinber með fundargerðum innan marka persónuverndar og viðeigandi laga.

Í vikunni bárust þær fréttir að CCP hefði í ársreikningi sínum birt upplýsingar um alla hluthafa í félaginu. Þetta hefur víst ekki gerst áður hjá stórfyrirtæki á Íslandi. Þetta er mikilvægur liður í auknu upplýsingaaðgengi og til mikillar fyrirmyndar og vonandi að fleiri fylgi eftir. Það er nefninlega þannig að það þarf bara að ríða á vaðið, ekki bara afsaka sig með því að þetta eða hitt tíðkist ekki. Það eru ekki gild rök í umræðunni um aukið aðgengi að gögnum.

Einn liður í betra upplýsingaflæði milli bæjarkerfis og bæjarbúa er að haldið sé úti upplýsingagátt þar sem íbúar hafa tækifæri til að koma að ákvarðanatöku, forgangsröðun og til að afla sér upplýsinga án mikillar fyrirhafnar. Bæjarkerfið þarf að taka frumkvæði í upplýsingagjöf til íbúanna sem það þjónustar. Þetta er pólitísk stefna okkar í VG.

Sóley Björk Stefánsdóttir skipar fyrsta sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Greinin birtist fyrst á Akureyri – vikublað

Engu gleymt og ekkert lært

Undanfarna daga hefur „stóra knattspyrnustjóramálið“ einokað alla umræðu hér heima og erlendis og örlög David Moyes verið á allra vörum. Umræða um slaka frammistöðu Moyes í stóli knattspyrnustjóra Manchester United hefur þó ekki einungis snúist um knattspyrnu og æfingatækni. Undir yfirborðinu leynast gríðarlegir hagsmunir fjármálaafla og peningamanna sem hafa fjárfest í fyrirtækinu Manchester United og fyrir þau öfl snýst málið ekki síður um tap og hagnað af viðskiptum. Þess vegna er biðlundin líklega jafn lítil og raun ber vitni.

Enska knattspyrnan er löngu komin undir markaðslögmálin alræmdu eins og svo margt fleira sem engum hefði komið til hugar fyrir nokkrum áratugum að ætti heima á markaði. Á síðasta ársfundi Samtaka atvinnulífsins var eitt aðalstef fundarins aukin áhersla á einkarekstur í velferðarkerfinu og menntakerfinu og rætt fjálglega um að hleypa einkaaðilum að kökunni – sem sagt sameigninni sem íslenskir skattborgarar hafa byggt upp áratugum saman og eru skólarnir, spítalarnir, heilsugæslan og fleira. Af hverju vilja einkaaðilarnir komast þarna að? Jú væntanlega af því að það er góður bissness.

Einkenni nýfrjálshyggjunnar er að æ fleiri svið mannlífs færast undir markaðslögmál og þau eru heimfærð upp á hluti þar sem þau eiga ekki endilega við. Þannig sýna nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum að einkareknir skólar skila ekki betri árangri en opinberir, sé tekið tillit til lýðfræðilegra þátta. Þar hefur almenna skólakerfið hins vegar verið talað niður áratugum saman með þeim afleiðingum að þegar foreldrar eru spurðir um afstöðu sína eru algengustu svörin þau að skólakerfið sé ómögulegt jafnvel þó að sá opinberi skóli sem þeirra börn ganga í sé hinn ágætasti!

Ástæðan fyrir þessu tali – sem líka er beitt gegn heilbrigðiskerfinu og ýmsum öðrum opinberum geirum – er að plægja jarðveginn fyrir einkaaðila; tala niður það sem er fyrir og auðvelda markaðnum innreið sína þannig að einkaaðilar geti í rólegheitunum tekið yfir samfélagslegar eignir.

Mantra Sjálfstæðisflokksins um að „leysa þurfi krafta einkaframtaksins úr læðingi“ er raunar gamalkunnug en sá flokkur stóð ásamt Framsóknarflokknum fyrir umfangsmikilli einkavæðingu á árunum fyrir hrun og seldi þá ríkiseignir með þeim ömurlega árangri að almenningur í landinu stóð eftir mun blankari en áður. Nokkrir útvaldir náðu hins vegar að hagnast vel á viðskiptunum.

Ýmsir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar eru nú búnir að rifja upp möntruna og boða aukinn einkarekstur, t.d. í heilbrigðiskerfinu. Þá hefur ríkisstjórnin boðað umtalsverða einföldun á regluverki og hefur forsætisráðherra lagt til að öll lagasetning sem tengist atvinnulífi þurfi að fá gæðastimpil hagsmunaaðila á borð við Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins. Hér er um dæmigerða orðræðu nýfrjálshyggjunnar að ræða þar sem fer saman að draga úr eftirliti og regluverki og auka þátt einkaaðila í opinberri þjónustu. Hér virðast menn því engu hafa gleymt og ekkert hafa lært.

Niðurstaðan af slíkri stefnu er nefnilega sáraeinföld. Eftir því sem fleiri svið samfélagsins eru færð undir lögmál markaðarins fer stærri hluti samfélagsins úr sameign yfir í einkaeign. Meiri auður þjappast á færri hendur og ójöfnuður eykst. Brauðmolakenning nýfrjálshyggjunnar – um að molar af auð hinna ríku sáldrist niður eftir samfélaginu til þeirra sem minna hafa – hefur ekki reynst halda vatni. Ójöfnuður í heiminum fer nú vaxandi, meðal annars vegna þeirrar virku pólitísku stefnu sem aftur vex nú fiskur um hrygg á Íslandi þrátt fyrir að hafa beðið skipbrot fyrir örfáum árum. Ójöfnuður er hins vegar, ásamt loftslagsbreytingum, metinn sem mesta samfélagsógn 21. aldar, Gegn honum ættum við öll að vinna. Það gerum við ekki með því að færa öll svið mannlífsins undir markaðsöflin.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í DV 22. apríl sl.

Einkavæðing höfuðsafns í undirbúningi

– Náttúrminjasýning á vegum einkaaðila

Í borgarráði á föstudag voru kynntar hugmyndir um að stofna hlutafélag sem kæmi til með að reka náttúruminjasýningu í Perlunni. Nýtt hlutafélag, Perlan hf, yrði í eigu einkaaðila og rekin með arðsemiskröfu. Þetta yrði í fyrsta skipti sem einkaaðilar kæmu að rekstri höfuðsafns á Íslandi, og jafnframt í fyrsta skipti sem arðsemissjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi við rekstur slíks safns.

Hugmyndin vekur eðlilega upp spurningar um hvort einkaaðilar geti rækt þær skyldur sem ríkisvaldinu ber þegar kemur að fræðslu og  aðgengi almennings á þessu sviði, eða hvort markaðslögmálin muni verða almannahagsmunum yfirsterkari. Hugmyndin ber hugmyndafræði hægrisins skýr merki; um að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið, allt eftir því hvernig verkefnið þróast.

Þá vekur það sérstaka athygli að málið hafi verið kynnt í borgarráði án þess að Alþingi hafi haft það til umfjöllunar, sem hlýtur að bera ábyrgð umfram Reykjavíkurborg. Náttúruminjasafn er jú eitt af þremur höfuðsöfnum og ríkinu ber lagaleg skylda til að gera málinu sómasamleg skil.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna bókaði með eftirfarandi hætti:

„Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar mikilvægi þess að náttúrminjasýning í Perlunni verði að veruleika sem fyrst. Náttúruminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum landsmanna og ríkinu ber lagaleg skylda til að gera því góð skil. Ábyrgðar- og aðgerðarleysi núverandi stjórnvalda hefur nú kveikt hugmyndir um rekstur náttúruminjasýningar með aðkomu einkaaðila sem vekur upp spurningar um það hvernig almannahagsmunir og aðgengi almennings verði tryggð. Í raun sætir furðu að einkaaðilar sjái hag í rekstri slíkrar sýningar sem ríkið telur sig ekki hafa efni á að reka og eðlilegt að spyrja hverjir hagsmunirnir séu. Er eðlilegt að reka höfuðsafn með arðsemiskröfu – og ef svo er, getur þá talist eðlilegt að sá arður renni til einkaaðila en ekki samfélagsins? Borgarráðsfulltrú Vinstri grænna er fullur efasemda um þetta fyrirkomulag sem ber keim af hugmyndafræði hægrisins sem í gegnum tíðina hefur tryggt gróða einkaaðila en ábyrgð almennings þegar illa fer.”

Reisum nýtt og betra

1. maí er meira en frídagur, hann er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks.

Að 1. maí skuli vera lögboðinn frídagur er áminning til okkar um það að þau réttindi sem launafólk hefur náð, hafa hvorki fengist baráttulaust, né verða þau varin eða aukin réttindi sótt án baráttu.

Verkfallsrétturinn er mikilvægasti rétturinn sem launafólk hefur náð fram. Hann er lykillinn að því að fólk geti sótt annan rétt, til launa, lífeyris, mannréttinda og fleiri lífsgæða. Án verkfallsréttar hefði launafólk ekkert baráttutæki sem bítur. Þessi réttindi voru sótt með hörðum átökum bæði hérlendis og erlendis. Sum verkföll stóðu lengi og reyndu bæði á fjárhag og samstöðu verkafólks. Verkfallsvörðum og kröfugöngum var oft mætt með kylfum og grjótkasti og erlendis með skotvopnum. Fólk var svartlistað með útskúfun frá því að vera ráðið til starfa og fékk ekki eðlilegan aðgang að húsnæði, byggingarlóðum eða bankaþjónustu.

Núna höldum við hátíð 1. maí með skrúðgöngu, kaffisamsæti og hátíðarræðum og þannig á það að vera. Við eigum að fagna því sem áunnist hefur, þakka þeim sem náðu því fram með baráttu sinni og árétta með sjálfum okkur að við höldum baráttunni áfram. Ennþá er verkfallsvopnið brýnt vopn. Það sést meðal annars á muninum á því sem framhaldsskólakennarar náðu fram eftir verkfall og hinu sem önnur stéttarfélög náðu fram með bónleiðum.

Fyrir hvern var „þjóðarsáttin“?

Með „þjóðarsáttarsamningunum” árið 1990 tóku Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitandasamband Íslands sig saman um að reyna að kveða niður „verðbólgudrauginn“ sem gengið hafði ljósum logum með áralöngum víxhækkunum launa og verðlags. Við tók meiri efnahagslegur stöðugleiki. Fyrir þennan tíma hafði verkafók náð fram öllum þeim helstu réttindum sem við búum að nú, 40 stunda dagvinnu á viku, lágmarkslaunum, lífeyri, orlofi og fleiru. Við tók að halda í því horfi, en skila fáum nýjum ávinningum. Fyrir atvinnurekendur opnuðust ný sóknarfæri, afkoma þeirra batnaði og fjármagnsmyndun jókst.

Misskipting er að aukast

Það er  umhugsunarvert að allt frá „þjóðarsáttarsamningunum“ hefur misskipting milli ríkra og fátækra á Íslandi aukist, fyrst hægt, en með vaxandi hraða frá aldamótum. Með aukinni alþjóðavæðingu kom aðgengi fjármagnseigenda að erlendum fjármálamörkuðum. Samhliða komust þær kenningar til áhrifa sem boðuðu aðhaldsleysi með athafnamönnum og eftirlitsleysi með fjármagni. Þetta endaði með ósköpum sem okkur eru vel kunn.

Við endurreisn efnahags Íslands er kominn tími til að launafólk sæki fram á ný, sæki bætt lífskjör, hærri laun, styttri vinnutíma, meiri jöfnuð og velferð. Til þess þarf vilja og til þess þarf samstöðu. Til þess höldum við baráttudag.

Andrés Rúnar Ingason,skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg

Greinin birtist fyrst í Sunnlenska