Stjórnmál framtíðarinnar

Við áramót gefst gott færi til að líta yfir hið stóra svið stjórnmálanna og rifja upp hvernig allt hið hversdagslega streð skiptir máli í hinu stóra samhengi; litlar ákvarðanir í litlu landi geta skipt miklu fyrir marga einstaklinga og hópa, og jafnvel haft áhrif langt út fyrir landsteinana. Stjórnmálamenn bera ríkar skyldur, gagnvart umheiminum, Íslendingum öllum og framtíðinni.

Skyldur gagnvart umheiminum

Fyrst ber að nefna þá sem búa við fátækt í öðrum löndum. Það vill gleymast að þrátt fyrir erfið ár hér á Íslandi eftir bankahrunið þá erum við enn rík þjóð í alþjóðlegum samanburði. Þannig skipum við ellefta sæti á lista OECD yfir lífsgæði þjóða og erum þar einu sæti fyrir ofan Bretland. Í fyrra ákvað Bretland að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um lágmarksframlag þróaðra ríkja til þróunarsamvinnu og setja 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum í þróunarsamvinnu. Meðal annarra þjóða sem hafa uppfyllt þetta markmið eru Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg, Danmörk og Holland (sem datt nýlega niður í 0,67%). Þessi hlutfallstala hefur verið talin lágmarksframlag, Sameinuðu þjóðirnar mæla með því að hlutfallið sé að minnsta kosti 1% og hafa Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg náð því markmiði.
En hvar með Ísland þar sem lífsgæðin eru að meðaltali betri en hjá Bretum? Framlög Íslands liggja nú í 0,22% og verða óbreytt á næsta ári samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi, langt undir 0,7% markinu og enn fjær 1% sem Sameinuðu þjóðirnar mælast til þess að þjóðir eins og Ísland verji til þróunarsamvinnu. Þetta er líka talsvert minna en áætlað var í þingsályktun um aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2013 með öllum greiddum atkvæðum nema einu.
Samkvæmt þessari áætlun áttu framlög Íslands að nema 0,35% af þjóðartekjum árið 2015. Það vantar því um tvo og hálfan milljarða króna upp á að ríkisstjórnin fylgi samþykktri áætlun Alþingis í þróunarsamvinnumálum og rúmlega 9 milljarða upp á að hún nái settu markmiði. Markmiðið hefur verið skilgreint svo að Ísland uppfylli „pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna“. Við erum fjarri því að uppfylla þær skyldur en vaxandi ójöfnuður milli heimshluta hefur verið og verður áfram stærsta ógnin við frið og öryggi í heiminum. Ísland má ekki skorast undan því að vera hér þjóð meðal þjóða og sýna gott fordæmi.

Skyldur gagnvart okkur sjálfum

Það má til sanns vegar færa að einn besti mælikvarði á gæði samfélags sé hvernig þar er hlúð að þeim sem standa höllum fæti. Stjórnspekingurinn John Rawls færði fyrir því rök að réttlætt samfélag væri skipulagt með það að markmiði að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Því miður vantar töluvert upp á að ná því markmiði í íslensku samfélagi, enda ljóst að stórir hópar fólks hafa markvisst orðið útundan undanfarin misseri.
Fátækt brennur á mörgum í samfélaginu – meðal annars sumum öryrkjum og öldruðum – og margir hafa haft samband við þingmenn og lýst óviðunandi stöðu sinni. Húsnæðismarkaðurinn er ansi erfiður á ekki stærra landi, stórir hópar eiga enga möguleika á að kaupa húsnæði og ekki er nægt framboð af boðlegu húsnæði á sanngjörnu verði á leigumarkaði. Örorkubætur og almannatryggingar duga ekki til að tryggja viðunandi framfærslu og ofan á þetta bætist sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að hækka álögur á mat sem bitnar ekki síst á tekjulágum hópum.
Nefna má fátækt meðal barna og foreldra þeirra. Samkvæmt skýrslu Barnaheilla frá apríl á þessu ári búa 16% íslenskra barna við hættu á fátækt eða félagslegri einangrun og hefur aukist frá hruni. Eins og bent er á í skýrslunni er menntun ein helsta leið barna út úr fátækt og einangrun og því mikilvægt að efla menntakerfið til að sporna gegn þessum vanda og tryggja gjaldfrelsi þess á sem flestum skólastigum. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að samkvæmt nýlegri skýrslu Hagstofunnar frá síðastliðnum júní er skortur á efnislegum gæðum, en það er ný mæling á lífskjaravanda, langtum mestur meðal einstæðra foreldra.
Stundum tala stjórnmálamenn eins og það sé náttúrulögmál að hluti þjóðarinnar búi við fátækt. Ég hafna því með öllu. Ísland er ríkt land, með miklar náttúruauðlindir í sjó og á landi, og hér býr vel menntað fólk sem skapar mikil verðmæti. Sé gæðum þjóðarinnar skipt jafnar er ekkert því til fyrirstöðu að útrýma því sem næst efnislegri fátækt. Til þess að svo verði þarf hins vegar að nýta markvisst þau tæki sem til staðar eru til að jafna kjör og aðstæður fólks. Það er brýnt að tryggja aðgang allra að menntun og velferðarþjónustu um leið og nýta má skattkerfið til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.
Það er líka rétt að nefna í þessu samhengi að það er engin tilviljun að þau ríki þar sem jöfnuður hefur verið mestur í sögulegu samhengi (og þar má nefna Norðurlönd) hefur líka vegnað best þegar kemur að almennri velsæld borgaranna og hagsæld samfélaga. Samkvæmt nýrri skýrslu OECD dregur ójöfnuður beinlínis úr hagvexti, m.a. vegna þess að hann takmarkar aðgengi að menntun og þar með verðmætasköpun í samfélaginu. Einnig er bent á að samkvæmt greiningu OECD hafa tekjujöfnunaraðgerðir ekki slæm áhrif á hagvöxt, heldur geta þær þvert á móti ýtt undir hagvöxt þegar vel er að verki staðið.

Skyldur gagnvart framtíðinni

Að lokum vil ég nefna annan hóp sem oft gleymist í opinberri umræðu en ákvarðanir okkar hafa þó gríðarleg áhrif á. Það eru þeir sem koma til með að byggja þessa jörð og þetta land þegar við erum fallin frá – komandi kynslóðir. Vegna loftslagsbreytinga og annarra óafturkræfra náttúruspjalla er hætt við að afkomendur okkar muni taka við heimi þar sem matar- og vatnsskortur er viðvarandi, hamfarastormar daglegt brauð og yfirborð sjávar hefur jafnvel drekkt heilu borgunum og stórum hluta ræktarlands. Jörðin gæti vel orðið næstum óbyggileg ef ekki er spyrnt við í loftslagsmálum.
Samkvæmt þeim vísindamönnum sem best þekkja til höfum við aðeins örfáa áratugi til viðbótar til að snúa þróuninni við. Hækki hitastig jarðar jafn verulega og hætta er á losast koldíoxíð sem nú er bundið í náttúrunni sjálfri út í andrúmsloftið án þess að við fáum rönd við reist. Það er því ótvíræð skylda þeirra kynslóða sem nú eru uppi að sporna gegn loftslagsbreytingum og tryggja afkomendum okkar lífsskilyrði sem jafnast á við það sem við höfum notið.
Hvað er þá hægt að gera? Lausnirnar eru í sjálfu sér ekki flóknar og þar gegnir hið opinbera lykilhlutverki, því forsenda þess að sporna við öfugþróuninni er að það verði hagkvæmara fyrir einstaklinga að notfæra sér umhverfisvænar lausnir í stað þeirra sem menga. Slíkar aðgerðir til að sporna gegn loftslagsbreytingum eru stærsta úrlausnarefni okkar samtíðar og jafnframt réttlætismál gagnvart komandi kynslóðum.

Jöfnuður og sjálfbærni í þágu almennings eru stóru viðfangsefnin á sviði stjórnmálanna. Þar getum við Íslendingar gert betur á komandi árum. Ég óska landsmönnum öllum farsæls komandi árs.

Katrín Jakobsdóttir

Valdið til fólksins

Þinghaldi fyrir jól er nú nýlokið, með samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár og annarra fjárlagatengdra mála. Margt má segja um forgangsröðun fjárlaganna, þar sem skattar eru hækkaðir á mat og menningu, skorið er niður hjá Ríkisútvarpinu og aðgangur að framhaldsskólum takmarkaður þannig að 25 ára og eldri eru útilokaðir frá námi. Þá er aukinn kostnaður lagður á herðar sjúklinga, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í sérhæfðum lyfjum. Á sama tíma er byrðum létt af tekjuhærri hópum, t.d. með afnámi auðlegðarskatts. Meðal annars vegna þessara mála hefur myndast gjá milli þings og þjóðar á undanförnum mánuðum, eins og fram kemur í skoðanakönnunum á fylgi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Rökræða í stað árása

Raunar held ég að sú gjá skýrist einnig af því hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað til þeirra sem eru ósammála þeim síðan þeir tóku við völdum. Fyrir nokkru greip forsætisráðherra til þess bellibragðs að saka stjórnarandstöðuna fyrirfram um að koma til með að segja ósatt í þinginu. Það gefur auga leið að slíkur málflutningur bætir ekki umræðuhefðina á Alþingi. Sömuleiðis er það áhyggjuefni að formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður Framsóknarflokksins skuli leynt og ljóst tengja niðurskurð á framlögum til RÚV við meinta ósanngjarna umfjöllun um flokkinn sinn.
Verst af öllu er þó hvernig ríkisstjórnin hefur talað til þjóðarinnar sjálfrar. Þeir sem gagnrýna ríkisstjórnina eru sagðir taka þátt í „loftárásum“ eða byggja skoðanir sínar á „misskilningi“. Í stað rökræðu um forgangsröðun og grunngildi samfélags okkar er fólki ítrekað stillt upp í lið – „við“ og „hinir“ – þar sem öll gagnrýni er gerð tortryggileg og þeim sem hafa aðra skoðun gerðar upp annarlegar hvatir.

Lýðræði á tímamótum

Framferði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum veldur ekki aðeins eðlilegri gremju meðal þjóðarinnar heldur grefur það undan lýðræðinu. Það er forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku að upplýsingar séu fyrir hendi og almenningur geti tekið þátt í opinberri umræðu án þess að vera átalið af valdafólki. Lýðræði þarf líka á því að halda að til séu óháðir fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til fólksins með aðgengilegum hætti. Í fámennu samfélagi hefur almannaútvarpið þar feykimikilvægu hlutverki að gegna og því sérstakt áhyggjuefni að framlög þess séu skert.
En til framtíðar eigum við líka að huga að annars konar lýðræðisumbótum. Mikilvægt er að efla þjóðþingið gagnvart framkvæmdavaldinu og styrkja þannig fulltrúalýðræðið. Samhliða því er líka brýnt að setja sem fyrst ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu Þannig hefði til dæmis mátt knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lækkun veiðigjalda en 35 þúsund Íslendingar skrifuðu undir áskorun til forseta Íslands um að synja þeim lögum samþykktar. Því miður voru lögin hins vegar samþykkt, og það þó að skoðanakannanir hafi sýnt að 70% þjóðarinnar væru þeim andsnúin.

Þátttökulýðræði

Þó að mikilvægt sé að setja skýr ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur er einnig rétt að huga að því að lýðræði snýst ekki einungis um atkvæðagreiðslur. Okkur hættir til að hugsa um lýðræði sem eitthvað sem gerist í kjörklefanum en í reynd snýst það að sjálfsögðu um að almenningur – „lýðurinn“ – taki þátt í að móta samfélag sitt. Undanfarin ár hafa ýmsar athyglisverðar tilraunir verið gerðar til að auka þátttöku almennings í opinberri stefnumótun og þar með styrkja stoðir lýðræðisins.
Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu. Lýðræðistilraunir af þessu hafa verið settar af stað í ótal löndum, þar á meðal í Danmörku, Bandaríkjunum, Brasilíu og Japan. Reyndar höfum við Íslendingar einnig verið framarlega á þessu sviði, því sú vinna sem fram fór í tíð síðustu ríkisstjórnar við gerð nýrrar stjórnarskrár – með þjóðfundi, stjórnlagaráði og þjóðaratkvæðagreiðslu – hefur vakið athygli erlendis. Við þurfum að halda áfram á þessa leið á næstu árum og styrkja þannig stoðir lýðræðisins. Þannig getum við tekið betri og lýðræðislegar ákvarðanir.
Að lokum óska ég landsmönnum öllum gleðilegra jóla og friðar yfir hátíðirnar, með von um að við sjáum frekari lýðræðisumbætur á komandi ári.

Katrín Jakobsdóttir

Jólakveðja frá Katrínu Jakobsdóttur

Kæru félagar!

Nú nálgast jólin og ég vil nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar.

Árið hefur verið viðburðaríkt hjá okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þar ber hæst að nefna sveitarstjórnarkosningar þar sem við Vinstri græn héldum okkar hlut víðast hvar og mynduðum meðal annars meirihluta ásamt fleiri flokkum í Reykjavík. Á árinu voru haldnir þrír góðir flokksráðsfundir þar sem félagar komu saman til að ræða og móta stefnu hreyfingarinnar til framtíðar, m.a. í loftslagsmálum. Ákveðið hefur verið nýtt skipulag málefnavinnu fyrir landsfund þannig að málefnahópar verða starfandi frá áramótum fram á haust 2015 en þá verður landsfundur hreyfingarinnar haldinn. Þá fór fram talsverð fjárhagsleg endurskipulagning, eignir seldar og skuldir greiddar að miklu leyti. Allt er þetta mikilvægur undirbúningur fyrir framtíðina.

Segja má að mannréttindamál hafi verið sérstaklega áberandi þetta árið, þó að tilefni þess hafi verið miður skemmtileg. Hið svokallaða lekamál er svartur blettur á íslenskri stjórnsýslu enda ljóst að þar var viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitanda komið til fjölmiðla til að sverta mannorð viðkomandi. Að sama skapi var þyngra en tárum taki að sjá hvernig talað var um einn tiltekinn trúarhóp, múslima, í kosningabaráttunni í Reykjavík síðastliðið vor. Það á enginn að þurfa að sætta sig við meðferð af þessu tagi, sérstaklega ekki af hendi stjórnmálamanna sem eiga að gæta hagsmuna alls almennings.

Eitt af stóru verkefnum stjórnmálanna á næstu árum er að vinna að eflingu lýðræðisins og opinni umræðu í samfélaginu. Því miður hefur ekki blásið byrlega í þeim efnum á þessu ári, því samhliða tíðum eigendaskiptum á einkareknum miðlum hefur ríkisstjórnin kosið að skerða framlög til Ríkisútvarpsins og fjölmiðlanefndar. Þetta eru stór skref aftur á bak sem brýnt er að stíga til baka við fyrsta tækifæri. En við eigum líka að snúa vörn í sókn og undirbúa lýðræðisumbætur á fleiri sviðum og beita til þess ólíkum aðferðum. Umræða um þetta fer meðal annars fram í stjórnarskrárhópi Vinstri – grænna sem ég vil hvetja sem flesta til að taka þátt í.

Eftir erfið ár í kjölfar efnahagshrunsins er nú loksins að myndast svigrúm í ríkisfjármálum til að byggja aftur upp það velferðarsamfélag sem við viljum sjá á Íslandi. Hættan er sú að á næstu árum fái tiltölulega fámennur hópur fólks miklar kjarabætur á meðan stórir hópar í samfélaginu verði alveg útundan. Við sjáum tilhneigingu í þessa átt nú þegar: Öryrkjar, aldraðir, atvinnulausir, lágtekjufólk, leigjendur, sjúklingar, barnafólk, og yngri kynslóðir – allt eru þetta hópar sem ekki hafa fengið viðunandi kjarabætur í ljósi batnandi efnahagsstöðu og engin teikn eru á lofti um að úr því verði bætt. Á sama tíma hefur hópur auðmanna og stórútgerðarmanna hagnast mjög. Ekki aðeins er það sanngirnismál að snúa þessari þróun við sem allra fyrst en auk þess sýna nýjar rannsóknir að ójöfnuður dregur beinlínis úr hagvexti og verðmætasköpun.

Það er grátbroslegt að á sama tíma og núverandi ríkisstjórn lækkar auðlindagjöld í sjávarútvegi skuli hún í raun leggja á auðlindagjald á almenning í landinu með hinum svokallaða „náttúrupassa“. Þessar hugmyndir ganga gegn rétti almennings til að ferðast frjáls um eigið land og gera auk þess náttúruperlur Íslands að söluvöru, þeirra á meðal Þingvelli. Á sama tíma reynir stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að komast framhjá samþykktum lögum um Rammaáætlun og hefur lagt til að sjö virkjanakostum verði bætt við þann eina valkost sem verkefnastjórn um rammaáætlun hefur lagt til að fari yfir í nýtingarflokk, án þess að fyrir því liggi fagleg rök. Þá hafa fyrirhugaðar aðgerðir til að vinna gegn loftslagsbreytingum verið skornar niður eða slegnar af, þó að það bráðliggi á róttækum aðgerðum í þessum efnum.

Ljóst er að það er þörf á sterkri og skýrri rödd Vinstri grænna í íslenskum stjórnmálum. Við þurfum að halda uppi vörnum fyrir mannréttindi, lýðræðisumbætur, náttúruna og félagslegt réttlæti fyrir alla hópa. Við þurfum að verja grunnstoðir á borð við skólana okkar, heilbrigðisþjónustuna, almannatryggingar, fjarskipti og samgöngur um land allt, og allt það sem gerir samfélagið öflugt og sterkt. Núverandi ríkisstjórn og stefna hennar sem miðar beinlínis að því að færa byrðarnar af hinum tekjuhærri yfir á hina tekjulægri, grafa undan almannastofnunum og auka einkarekstur, fara gegn náttúrunni, fara framhjá öllum faglegum ferlum gefur ekki beinlínis tilefni til bjartsýni. En við þurfum samt að bera höfuðið hátt, standa saman og hvetja hvert annað til dáða enda verkefnin ærin.

Það breytir því ekki að senn líður að jólum og hátíðarundirbúningurinn í fullum gangi hjá okkur flestum. Ég vona að jólin verði okkur öllum góð og við getum nýtt þau til nærveru með okkar nánustu. Bestu þakkir fyrir samstarf og samveru á árinu sem er að líða. Næsta ár verður vonandi farsælt fyrir okkur sem hreyfingu, fyrir samfélagið og fyrir okkur öll.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna

Sáttin rofin!

Stundum trúir maður ekki einhverju fyrr en maður tekur á því. Það átti við um mig sem er 1. varaformaður atvinnuveganefndar en nefndin hefur verið með til umfjöllunar þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu landsvæða ,tillögu verkefnastjórnar 3.áfanga rammaáætlunar um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk.

Um þá tillögu ríkir langt í frá sátt en hún hefur þó farið í gegnum þá faglegu ferla sem lög um Rammaáætlun kveða á um og er nú í umsagnarferli og í meðferð atvinnuveganefndar.
Formaður atvinnuveganefndar hefur ekki farið dult með áhuga sinn á því að kippa með í leiðinni 7 virkjanarkostum en 5 þeirra hafa ekki fengið þá málsmeðferð sem lög mæla fyrir um og 2 kostir voru ekki tilbúnir til ákvarðanartöku hjá verkefnastjórn þar sem faghópar höfðu ekki skilað af sér.

Þegar formaður nefndarinnar var farinn að kalla fyrir nefndina aðila til að fjalla um aðra virkjanarkosti en Hvammsvirkun sem var þar til umfjöllunar þá fór vissulega að renna á mann tvær grímur um að honum væri full alvara með að taka með í leiðinni aðra virkjanarkosti sem ég tel að við höfum ekkert umboð til að gera miðað við málsmeðferðarreglur laga um rammaáætlun.

Hvað gengur mönnum til með slíkum vinnubrögðum sem kalla á að allt rammaáætlunarferlið verður í uppnámi og sú mikla samstaða sem náðist á Alþingi á síðasta kjörtímabili með samþykkt löggjafar um rammaáætlun er hent fyrir róða.
Það er eðlilegt að mönnum greini á um vernd og nýtingu landsvæða en mikilvægt er að virða þá verkferla og leikreglur sem við höfum sett okkur sjálf og okkur er treyst til að vinna eftir.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki farið í grafgötur með áhuga sinn á áframhaldandi uppbyggingu stóriðju í landinu sem kallar á auknar virkjanaframkvæmdir og hefur hún ekki látið náttúruverndarsjónarmið trufla sig mikið hingað til.

Það er umhugsunarvert að í dag fer 80 % raforkuframleiðslu í landinu til stóriðju 15 % til annara fyrirtækja og aðeins 5 % til heimila landsins. Og á Suðurlandi þar sem stærstur hluti raforkuframleiðsu í landinu fer fram fer langstærstur hluti hennar til stórnotenda utan Suðurlands. Við eigum næga orku fyrir landsmenn til langrar framtíðar í dag og í þeim virkjanarkostum sem nú þegar eru í nýtingarflokki en það er spurning í hvaða starfsemi við viljum að orkan fari.
Það er því ekki skrýtið að íbúar á Suðurlandi spyrji sig hvort nýta megi náttúruauðlindir landshlutans með annað í huga en áframhaldandi uppbyggingu stóriðju.

Ferðaþjónustan hefur verið á mikilli siglingu uppávið undanfarin ár og ferðaþjónustuaðilar óttast að ef gengið er hart fram í virkjanaráformum á kostnað umhverfissjónarmiða muni það koma í bakið á okkur síðar meir og tek ég undir þær áhyggjur.
Við verðum að fara að venja okkur á að hugsa til lengri tíma í einu en ekki aðeins til eins kjörtímabils í senn og að hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi en ekki stundar græðgi eins og núverandi stjórnarflokkar eru þekktir fyrir.
Hvernig ætlum við að skila landinu til næstu kynslóðar ? Ætlum við að vera búin að ráðstafa stærstum hluta auðlinda okkar varanlega óafturkræft svo komandi kynslóðir hafi ekkert val ?

Hvað með umhverfisvæna orkugjafa til þess að nýta á skipa og bílaflota landsmanna, hvað með þá staðreynd að nær allir ferðamenn sem koma til landsins koma hingað vegna náttúru landsins, hvað með samfélagsleg áhrif vegna umdeildra virkjanaframkvæmda og nýtingu orkunnar, hvað með hugmyndir um sæstreng til Evrópu og hærra orkuverð til landsmanna í kjölfarið ,hvað með hugmyndir um raflínur yfir Sprengisand sem spilla ósnortnu hálendi landsins ! Allt eru þetta spurningar sem við sem samfélag þurfum að komast að niðurstöðu um og fara eftir þeim leikreglum sem við höfum sett okkur og ástunda fagleg vinnubrögð.

Síðasta útspil formanns atvinnuveganefndar er ekki spor í átt til sáttar né faglegra vinnubragða því miður.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG og 1. Varaformaður atvinnuveganefndar.

Á að skerða ferðafrelsi?

Á næstu dögum hyggst iðnaðarráðherra leggja fram margboðað frumvarp um náttúrupassa. Samkvæmt fréttum á hver Íslendingur að kaupa passa á 1500 krónur til að fá að horfa á Dettifoss, Gullfoss og hinar náttúruperlurnar sem hingað til hafa verið álitnar sameign þjóðarinnar.

Samtök helstu ferðaþjónustuaðila hafa lýst því yfir að þau leggist gegn þessum hugmyndum þar sem nýtt gjald á ferðamenn og eftirlit með þeirri gjaldtöku geti haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Bent hefur verið á að áhrifin af því að selja inn á helstu náttúruperlur Íslands grafi undan þeirri ímynd Íslands sem ósnortið land sem mörgum áratugum hefur verið eytt í að byggja upp. Þá hefur verið gagnrýnt að náttúrupassafyrirkomulagið geri ráð fyrir því að lögreglan eða aðrir aðilar stundi eftirlit við náttúruvætti. Niðurstaða samtaka ferðaþjónustuaðila er að heillavænlegra sé að hækka gistináttaskatt.

En þessi rök ferðaþjónustunnar eru ekki einu rökin gegn þessum hugmyndum ráðherrans sem eru mjög á skjön við þær leiðir sem aðrar þjóðir hafa valið til að vernda viðkvæm svæði. Langflestar þjóðir hafa valið að sækja fé í gegnum hið almenna skattkerfi, með farseðlasköttum eða gistináttagjöldum. Náttúrupassinn verður líklega sýnidæmi um séríslenskar „lausnir“, þó ekki endilega til mikils sóma. Mestu máli skiptir þó að þetta sérstaka gjaldtökukerfi, sem mun kosta sitt, mun stangast á við almannarétt sem hefur verið tryggður í íslenskum lögum allt frá Jónsbók og þyrfti að afnema með lagabreytingu ef náttúrupassinn á að verða að veruleika.

Með náttúrupassanum hyggst Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn þóttist vera boðberi frelsis, beinlínis skerða ferðafrelsi íslensks almennings, rukka alla fyrir að fara um landið og byggja upp bákn til að hafa eftirlit með skattheimtunni. Þvert á almannarétt hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkt að skerða ferðafrelsi almennings til að geta rukkað fólk um skatt, í raun lagt auðlindagjald á almenning í landinu. Það er því holur hljómur í öllu frelsistali Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að í þessum efnum mun það koma í hlut okkar hinna að verja einstaklingsfrelsið sem Sjálfstæðisflokkurinn þykist standa vörð um.

Katrín Jakobsdóttir

Í sýnd og reynd

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að vandað sé til verka í fjárlagavinnu hvers árs, enda ákvarða fjárlögin í raun meginstefnu stjórnvalda í öllum helstu málaflokkum. Fjárlögin hljóta að eiga að byggjast á vandaðri stefnumótun og löggjöf Alþingis í ólíkum málaflokkum. Því miður hefur skort talsvert upp á þetta í fjárlagavinnu þessa árs.

Munur á sýnd og reynd

Í ýmsum veigamiklum málum liggur fyrir yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar en henni er því miður ekki fylgt eftir með fjárveitingum á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Sama má segja um gildandi löggjöf þar sem fjárveitingar fylgja ekki lögbundnum skyldum. Ekki er greitt með fimm hundruð nemendaígildum í Háskóla Íslands á næsta ári þó að engin stefna hafi verið mörkuð um annað en að skólinn eigi að taka á móti öllum sem uppfylla inntökuskilyrði. Landspítala-Háskólasjúkrahúsi er gert að henda út verkefnum því að sjúkrahúsið fær ekki nægilegt fé til að sinna öllu því sem honum er ætlað að sinna. Ríkisútvarpið fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín og getur því ekki sinnt því hlutverki sem því er markað á nýlegri löggjöf frá 2013.

Þá má nefna að ríkisstjórnin starfar eftir svokallaðri aðgerðaáætlun um loftslagsmál, sem er mikilvægt tæki til að takast á við eitt mikilvægasta úrlausnarefni okkar samtíðar. Í áætluninni er meðal annars kveðið á um að efla skuli almenningssamgöngur en samt eru þær skornar niður í fjárlagafrumvarpinu. Í þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum nema einu en samkvæmt henni áttu framlög Íslands að nema 0,35% af VÞT árið 2015, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta hlutfalli lækki og verði aðeins 0,22%. Þetta er ekki heldur í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem sagt er að lögð verði áhersla á þróunarsamvinnu í utanríkismálum.

Innviðir grotna niður

Það er líka sérstakt áhyggjuefni hvernig fjárlagafrumvarpið grefur undan áætlun um uppbyggingu innviða samfélagsins sem almenn samstaða hefur verið um. Síðastliðið vor var lögð fram á Alþingi samgönguáætlun til fjögurra ára en hún er skorin niður um rúma þrjá milljarða króna í fjárlagafrumvarpinu. Fram hefur komið í fréttum að af þessum sökum telji vegamálastjóri að engin ný stór verkefni verði boðin út í vegagerð á næsta ári. Enn alvarlegra er að ekkert bólar á fjármunum til að byggja nýjan Landspítala, en þingsályktun þess efnis var samþykkt á Alþingi síðastliðið vor með öllum greiddum atkvæðum. Eins og flestir vita þolir endurnýjun húsnæðis LSH enga bið.

Matarskattsleikrit

Að lokum verður að nefna matarskattsleikritið sem almenningur fær núna að fylgjast með og minnir einmitt á einhvers konar sýndarveruleika. Í fjárlagafrumvarpinu sem dreift var í upphafi vetrar er kveðið á um að virðisaukaskattur á mat og menningu verði hækkaður úr 7% í 11%. Í glærukynningu fjármálaráðuneytisins um sama efni var síðari talan hins vegar sögð vera 12% í stað 11%. Gefin var út yfirlýsing í framhaldinu þar sem glærusýningin var sögð gilda en ekki þær upplýsingar sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Nú í gær bárust hins vegar þær fregnir að virðisaukaskatturinn yrði eftir allt hækkaður í 11% en ekki tólf.

Ef þetta verður raunin hlýtur maður að spyrja hvort hér hafi verið sett á svið leikrit til að ríkisstjórnarflokkarnir geti stært sig af því að hafa komið til móts við kröfur almennings í landinu þegar raunin er að gert var ráð fyrir hækkun í 11% allt frá upphafi. Að þessu spurði ég í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra nú í september og það væri nú dapurlegt ef rétt reyndist. Það er að minnsta kosti ekki til marks um traust vinnubrögð í þessu stærsta máli hverrar ríkisstjórnar, fremur en önnur þau dæmi sem ég hef hér nefnt.

Katrín Jakobsdóttir

Heilbrigðisþjónusta í almannaeigu og almannaþágu

Hvert sem ég fer hitti ég fólk sem hefur áhyggjur af innviðum samfélagsins, ekki einungis mótmælendur á Austurvelli heldur fólk við sín daglegu störf hér og þar í samfélaginu. Fólk hefur meðal annars áhyggjur af því að læknar flýi land, að rekstur Landspítalans sé kominn á ystu brún og að húsnæði hans sé að fyllast af myglu, músum og maurum. Það hefur líka áhyggjur af stöðunni í framhaldsskólum þar sem vísa á nemendum yfir 25 ára aldri á „önnur úrræði“ og það hefur áhyggjur af stöðu iðnnáms í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpinu eru þurrkaðar út þær 150 milljónir sem ætlaðar voru til að styðja fyrirtæki og stofnanir til að taka iðnnema á samning í gegnum Vinnustaðasjóð. Og svo mætti lengi telja.

Góðir innviðir forsenda lífsgæða og frelsis

Gott samfélag þarf að hafa trausta innviði og það eru þeir sem hafa gert það að verkum að það er gott að búa á Íslandi. Innviðirnir eru forsenda lífsgæða og frelsis fólks. Til þess að fólk hafi frelsi til að rækta hæfileika sína, þróast og þroskast eftir þeim leiðum sem það vill sjálft þarf það að geta treyst á heilbrigðisþjónustu, menntakerfi, fjarskipti og samgöngur og alla hina þræðina í samfélagsvefnum.

Og eftir niðurskurð sem virðist eiga að halda áfram þrátt fyrir gerbreytta stöðu ríkissjóðs hefur fólk áhyggjur af innviðunum. Eitt af því sem fólk hefur áhyggjur af er áframhaldandi niðurskurður í samhengi við stefnu stjórnvalda um að auka einkarekstur. Það eru þekkt dæmi um það erlendis að skorið hefur verið niður í opinberri þjónustu til að fela arðbæra hluta hennar einkaaðilum í kjölfarið – undir því yfirskini að „bæta þjónustuna og gera hana hagkvæmari“.

Heildstæð þjónusta í almannaeigu

En það yfirskin stenst iðulega ekki skoðun. Þannig getur einkarekstur í heilbrigðiskerfinu leitt til aukins kostnaðar sjúklinga og almennt hefur einkarekstur í heilbrigðiskerfinu ekki dregið úr heildarkostnaði heldur þvert á móti aukið hann. Nýleg dæmi frá Bretlandi gefa þetta t.d. til kynna. Þá er það iðulega raunin að  kostnaðarsamasta þjónustan er áfram hjá hinu opinbera en einkaaðilarnir taka við hefðbundnari þjónustu og ódýrari með þeim afleiðingum að þjónustan verður ekki heildstæð. Aðaláhyggjuefnið er þó sú mismunun sem þetta kerfi hefur í för með sér þar sem sumir fá lakari þjónustu en aðrir.

Þetta þarf að hafa í huga þegar fjárframlög til grunneininga hins opinbera heilbrigðiskerfis eru skoðuð í sögulegu ljósi. Þar hafa sjúkrahúsin og heilsugæslan átt undir högg að sækja. Það er nauðsynlegt að rétta þá stöðu af og styrkja rekstrargrunn Landspítalans og heilsugæslunnar um land allt. Það er í takt við vilja landsmanna, margítrekaðar skoðanakannanir hafa sýnt það að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill heilbrigðisþjónustu í almannaeigu og almannaþágu. Því verður varla trúað að stjórnvöld ætli að ganga á svig við þann meirihluta.

Katrín Jakobsdóttir

Frelsið orðið að undanþágu

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sent skólameisturum framhaldsskóla bréf um að áhersla verði lögð á að stytta námsbrautir í þrjú ár. Ráðherrann hefur ennfremur látið hafa eftir sér að eitt verði yfir alla að ganga og skólar sem hafa skipulagt nám sitt út frá fjögurra ára námsbrautum fái engar „undanþágur“ enda sé búið að ákveða að framhaldsskólinn verði til þriggja ára.

Þetta gengur þvert á þá stefnu að skólar skuli hafa svigrúm til að móta sér sína sérstöðu en sú stefna var staðfest með lögum árið 2008 í tíð flokkssystur Illuga, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Raunar var lögunum beinlínis fylgt úr hlaði með þeim orðum að hér væri dregið úr miðstýringu, skólarnir myndu sjálfir skipuleggja sínar námsbrautir og skilgreina inntak stúdentsprófs og annarra prófa; enginn einingafjöldi var skilgreindur sem inntak stúdentsprófs og fjölbreytni var fagnað.

Ný aðalnámskrá sem kom út 2011 endurspeglar þetta sjálfstæði skóla. Á svipuðum tíma var sett tiltekið einingalágmark en skólum að öðru leyti falið að útfæra námsbrautir sem þeir hafa síðan gert hver af öðrum.

Nú kveður við nýjan tón. Farin er leið miðstýringar og skyndilega talað um undanþágur – þegar markmið laganna var einmitt fjölbreytni og því aldrei um að ræða að skólar fengju undanþágur heldur að þeir hefðu frelsi til að vera mismunandi. Þannig þyrftu nemendur ekki allir að velja sams konar leiðir.

Frelsið sem hinn nýi Sjálfstæðisflokkur predikar er frelsi fyrir hina fáu. Frelsi hinna fáu til að veiða fiskinn í sjónum, selja áfengi í sínum verslunum eða taka yfir rekstur almannaþjónustu og græða á henni en þegar illa gengur snúa aftur til ríkisins. Það frelsi er ekki frelsi einstaklingsins eða frelsi fagfólks til að byggja upp fjölbreytt skólastarf eins og ætlunin var með lögunum. Þegar til kastanna kemur snýst skólastefna flokksins um miðstýringu og valdboð þar sem engin virðing er borin fyrir gæðum menntunar og góðu skólastarfi um allt land. Kannski ekki að undra að hinn nýi Sjálfstæðisflokkur hafi hrapað í fylgi.

Ræða varaformanns á flokksráðsfundi

Minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, sem mynduð var í ársbyrjun 2009, var varin vantrausti af framsóknarflokknum eins og allir muna. Framsóknarmenn höfðu þá nýlega valið nýjan formann eftir  nokkuð ör formannsskipti árin þar á undan. Nýi formaðurinn, sem þá sat utan þings og var ungur nýliði í stjórnmálum, virtist bæði kraftmikill og áhugasamur og tilbúinn verka. Verkefnin á þessum tíma voru ærin eins og flestir muna og auðvelt að finna kröftum ungra eldhuga farveg ef því var að skipta.

Formanninum unga og framsóknarflokknum stóð þá til boða bein og/eða óbein aðild að minnihlutastjórninni og þar með að leggjast á árarnar í þeim lífróðri sem róinn var fyrir íslenskt samfélag á þessum tíma.

En hann baðst undan því. Hann vildi ekki að framsóknarflokkurinn kæmi að þeim ákvörðunum sem þurfti að taka í kjölfar Hrunsins. Hann baðst svo sjálfur að lokum undan því að vera upplýstur um gang einstakra mála eins og hann gerði þó kröfu um í fyrstu. Hann virtist, ólíkt mörgum öðrum, gera sér þá grein fyrir  hversu erfiðleikarnir voru miklir og hvað lítið það yrði til vinsælda vaxið að takast á við þá. Því bakkaði hann út og leitaði skjóls.

Í stuttu máli baðst hann undan ábyrgð og hrökklaðist undan þegar honum stóð til boða að láta á sjálfan sig og framsóknarflokkinn reyna.

Það má fullyrða að fá dæmi eru ef nokkur um jafn óábyrga afstöðu stjórnmálamanns og í þessu tilfelli. Í þeirri stöðu sem Ísland og íslenskt samfélag var í ársbyrjun 2009 verður það að teljast meiriháttar pólitískur ræfilsskapur að skjóta sér undan ábyrgð með þeim hætti sem formaður framsóknarflokksins gerði í ársbyrjun 2009.

Nú situr framsóknarformaðurinn ungi í forsætisráðuneytinu sem leiðtogi í ríkisstjórn hægriflokkanna tveggja ef hægt er að tala um tvo flokka í þessu sambandi, svo líkir sem þeir eru að innræti.

Helstu verkefni og markmið ríkisstjórnar framsóknarflokksins eru að afmá öll þau spor sem vinstristjórnin setti á íslenskt samfélag kjörtímabilið eftir Hrun.

Það sjáum við í minnkandi vægi umhverfismála, breytingum á skattkerfinu, niðurskurði í velferðarmálum og almennu viðhorfi til samborgaranna, sérstaklega þó opinberra starfsmanna. Þar hafa framsóknarmenn gengið lengra en sjálfstæðismenn hafi látið sig dreyma um, jafnvel í sínum villtustu draumum. Hafi þó báðir flokkar jafna skömm fyrir.

Ríkisstjórn hægriflokkanna undir forystu framsóknarflokksins er mögulega versta ríkisstjórn sem setið hefur á Íslandi. Ríkisstjórnin og þinglið hennar hefur notfært sér erfiða fjárhagsstöðu ríkisins til að keyra harðlínustefnu í efnahagsmálum og velferðar- og menntamálum. Í skjóli erfiðleikanna hafa stjórnvöld skorið niður langt umfram þörf til samneyslunnar á sama tíma og tekjum frá efnameiri einstaklingum, auðmönnum og fyrirtækjum er hafnað. Samanlagt munu skattbreytingar ríkisstjórnarflokkanna leiða til tekjutaps ríkissjóðs upp á um 100 mia.kr. á kjórtímabilinu, hið minnsta.

Á sama tíma á að greiða úr ríkissjóði um tugi milljarða króna inn á verðtryggð útlán fjármálastofnana í gegnum sk. leiðréttingu. Þannig munu fjármálastofnanir fá allt sitt greitt upp í topp, vexti, dráttarvexti, vanskil og söfnunarreikinga úr ríkissjóði á meðan blóðugum niðurskurði er beitt í velferðar -og menntamálum. Fjármálastofnanir fá jafnvel í gegnum þessa stóru millifærslu greidd útlán sem þau höfðu áður fallist á að afskrifa, beint úr ríkissjóði. Enda mala þessir aðilar við fætur húsbænda sinna, saddir og sælir.

Áhrif efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa heldur ekki látið á sér standa. Einkaneysla eykst langt umfram spár og verðmæti útflutnings stendur ekki undir innflutningi. Við vitum öll að það er ekki verst setti hópur samfélagsins sem eykur neyslu sína nú eða gengur á gjaldeyrisforða landsins. Það er annar hópur. Það er markhópur hægristjórnarinnar, hópurinn sem fær stærsta hluta millifærslunnar úr ríkissjóði og mest þó þeir sem tróna á toppi tekju- og eignalistans, þeir sem fá auðlegðarskattinn felldan niður upp á marga milljarða króna.

Á sama tíma á svo að hækka matarreikninginn hjá almenningi ásamt öðru sem fólk þarf til að geta átt eðlilegt líf.

Allar aðgerðir ríkisstjórnar framsóknar og sjálfstæðisflokks miða því fyrst og síðast að því að auka velsæld þeirra sem best standa.

Það eina sem almenningi er ætlað, fjölskyldunum í landinu, eru mótvægisaðgerðir, t.d. með því að lækka gjöld af sjónvörpum, ísskápum og Lexusum.

Reyndar er það merkilegt hvað mikið af aðgerðum ríkisstjórnarinnar kallar á miklar og stundum nær óskiljanlegar mótvægisaðgerðir. Það er eins og allt sem þau geri hafi svo neikvæð áhrif að það þurfi mótefni við því rétt eins og um einhvers konar sjálfsofnæmi sé að ræða.

Auðvitað á þessi ríkisstjórn að fara frá. Hún er rúin öllu trausti. Allar hennar aðgerðir eru dæmdar til að mistakast og fá háðulega og vonda útreið svo til allra umsagnaraðila, almennings og fjölmiðla – utan Morgunblaðsins að sjálfsögðu.

En hefur þá allt verið unnið fyrir gýg? Hefur þeim þá tekist að gera að engu það sem áður hafði áunnist? Auðvitað ekki.

Það góða er að nú hafa verið dregnar skýrari línur á milli vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum. Kjósendum hefur verið boðið upp á val um leiðir.

Það  vekur einnig athygli að allt það versta sem hægriflokkarnir hafa séð í verkum vinstristjórnarinnar er meira og minna verkefni og áherslur okkar Vinstri grænna.

Í því sambandi nægir að benda á umhverfismálin sem í dag snúast nær eingöngu um að afturkalla allt það sem við stóðum fyrir. Skattamálin, sem ég hef áður nefnt, og síðast en ekki síst menntamál sem eru komin í algjört uppnám.

Glórulausar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um styttingu náms á framhaldsskólastigi og takmörkun á aðgengi að námi er mesta aðför sem gerð hefur verið að skólakerfinu á Íslandi. Í einu vetfangi  á að fækka nemendum á framhaldsskólastigi um fjórðung og takmarka aðgang annarra að námi. Þetta mun ekki gerast án pólitískra átaka enda um gríðarlega samfélagslega breytingu að ræða langt inn í framtíðina.

Ég vakti athygli á því í umræðum um frumvarp til laga um opinber fjármál sem unnið var á síðasta kjörtímabili og núverandi fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi að þar er áfram gert ráð fyrir því að innleiða kynjaða hagstjórn við fjárlagagerðina. Það er verkefni sem við lögðum upp með fyrir fimm árum og hefur vaxið með hverju árinu. Það er rétt að hrósa fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins fyrir að halda áfram með þetta verkefni, enda er árangurinn af því farinn að koma í ljós, þó margir hafi orðið til þess að hæðast að þessu í upphafi.

Enda verður nú að segjast eins og er að það er þó þrátt fyrir allt af og til hægt að halda uppi málefnalegri rökræðu við formann sjálfstæðiflokksins á meðan það virðist ekki vera nokkur lífsins vegur við aðra.

Þessi mikla sveifla á milli þess sem við í vinstristjórninni lögðum áherslu á og þess sem hægrimenn keyra nú áfram, á að gefa okkur vígstöðu til að takast á við hægri öflin um leiðir og sömuleiðis færi á að rökræða við kjósendur, almenning í landinu, um hvers konar samfélagsgerð við viljum skapa.

Hulda Þórsisdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum, flutti athyglisvert erindi um vinstri og hægri stjórnmál á flokksráðsfundi okkar sl. sumar. Erindi hennar byggðist á íslenskri kosningarannsókn um afstöðu kjósenda til flokka og flokkanna til þeirra sjálfra, ef svo má segja.

Í stórum dráttum var niðurstaða þessarar rannsóknar sú að átakalínur vinstri og hægri í íslenskum stjórnmálum hverfast um umhverfismál, einkarekstur og efnahagslegan jöfnuð. Það var í því síðastnefnda, þ.e. efnahagslegum jöfnuði sem Vinstri græn skoruðu hæst allra flokka og sjálfstæðisflokkurinn naut minnst trausts. Þetta kom mörgum á óvart en má að mínu mati að stórum hluta rekja til árangurs sem náðist í efnahagsmálum á síðasta kjörtímabili þar sem við gegndum lykilhlutverki. Þrátt fyrir erfiðleika og lífskjaraskerðingu í kjölfar Hrunsins áttuðu flestir sig á því að aðgerðir okkar voru til þess ætlaðar að auka jöfnuð og færa þyngri byrðar á herðar þeirra sem gátu borið þær af hinum sem veikari voru.

Það vakti marga einnig til umhugsunar að samkvæmt þessari sömu rannsókn höfðu Vinstri græn tapað stöðu sinni í umhverfismálum yfir til Bjartrar framtíðar sem þó hefur ekki verið sérstaklega áberandi í þeim málaflokki á stuttum líftíma sínum heldur siglt lygnan sjó.

Ég nefni þetta tvennt hér úr erindi Huldu sem dæmi um að skilin á milli vinstri og hægri eru enn skýr þótt margir vilji halda öðru fram en einnig að trúverðugleiki flokka í einstökum málum getur sveiflast til eftir því hvernig á málum er haldið. Skiljanlega.

Ég er þeirrar skoðunar að við í Vinstri grænum verðum stöðugt að leita nýrra leiða við að hafa áhrif á samfélagið og jafnvel að breyta um áherslur varðandi afstöðu okkar til einstakra mála í þeim tilgangi að hafa áhrif. Þá er ég ekki endilega að tala um pólitíska afstöðu, enda höfum við haft góðan málstað fram að færa, heldur varðandi aðferðafræði við að vinna málum okkar fylgis.

Það er stundum sagt að við vinstrimenn séum prinsippfastari en fólk á hinum væng stjórnmálanna. Því lendum við oft í því að einstök afmörkuð mál, stór sem smá, yfirtaka önnur og skyggja á heildarmyndina. Það má vel vera eitthvað til í því. Við höfum tekist á um nokkur slík mál á síðustu árum og varpað með því skugga á heildarmyndina, stóru myndina um samfélagsgerðina sem við viljum öll á endanum ná fram. Við höfum einnig átt í erfiðleikum með að koma málum okkar á framfæri, tengja þau saman í eina órofa heild –þó færi til þess séu svo sannarlega fyrir hendi eins og fram kom hjá Huldu Þórisdóttur.

Þetta þurfum við að taka til skoðunar.

Á morgun verður haldið málþing um olíuleit og vinnslu í lögsögu Íslands. Vinstri græn tóku ríkan þátt í mótun leikreglna og samningagerðar um olíuleit á sk. Drekasvæði sem aðili að ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Með því náðum við að setja mark okkar á þá undirbúningsvinnu sem annars hefði kannski ekki orðið. Með sama hætti var undir okkar forystu í ríkisstjórn gert samkomulag um byggingu iðjuvers við Húsavík þar sem horfið var frá stefnu fyrri stjórnvalda um byggingu risaálvers með óheyrilegum kostnaði fyrir ríkissjóð í formi ríkisframlaga og lágs orkuverðs.

Í báðum þessum tilfellum er í grunninn um að ræða mál sem hafa mætt talsverðri andstöðu innan flokksins á liðnum árum, annars vegar olíuleit og hins vegar bygging iðjuvera.

Hér verðum við, eins og í öllum öðrum málum, annars vegar að móta afstöfðu okkar og stefnu og hins vegar hvernig við getum haft sem mest áhrif á framgang mála og endanlega niðurstöðu.

Ágætu félagar.

Það eru næg verkefni fyrir okkur á pólitíska sviðinu nú sem endranær eins og ég hef nefnt. Það er því mikilvægt að við þéttum hópinn eins vel og við getum og verðum virk í starfi flokksins um land allt. Það er að öllu leyti skiljanlegt að almenningur sé fráhverfur stjórnmálum eins og fram hefur komið í kosningaþátttöku sem og í félagsstarfi allra flokka. Það má hins vegar ekki leiða til þess að stjórnmálin verði eingöngu vettvangur stjórnmálamanna, þingmanna eða sveitarstjórnarmanna. Það er því mikilvægt að við virkjum okkur sjálf og tökum aðra með okkur í því markmiði að efla flokksstarfið og þátttöku í pólitískri umræðu. Það verður eitt af okkar stærstu verkefnum næstu misserin. Stjórnmál mega ekki bara fyrir þá sem lifa og hrærast í þeim frá degi til dags heldur fyrst og fremst og miklu frekar eiga stjórnmálin að vera vettvangur okkar allra, hvaða störfum sem við gegnum og hvar sem við erum stödd á lífsleiðinni.