Stjórnarandstaðan í stjórnarflokkunum

Það er ekki launungamál að ríkisstjórnin styðst við tæpan meirihluta, eða einn mann. Það hefur þegar vakið upp spurningar varðandi stjórnarmál eins og jafnlaunavottun, sem einhverjir stjórnarþingmenn segjast ekki styðja. Í dag vorum við svo minnt á það að um hina miklu endurskoðun landbúnaðarkerfisins, sem var eitt af stóru áherslumálum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, ríkir fráleitt sátt innan stjórnarliðsins.

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, sagði í umræðum um matvælagöryggi á þingi fyrr í dag:

Ég vil líka, virðulegi forseti, taka fram og nefna að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er talað um jafna stöðu bænda um allt land. Það er ákaflega mikilvægt að við römmum það sérstaklega inn og það tengist meðal annars þessari frægu undanþágu sem mjólkuriðnaðurinn hefur frá samkeppnislögum. Auðvitað má koma henni betur fyrir og ræða hana sérstaklega, en hún er gríðarlega mikilvæg til þess að allir bændur um allt land hafi jafna stöðu.

Þetta er nokkuð athyglisvert, þó ekki eigi þessi afstaða fyrrum formanns Bændasamtaka Íslands að koma á óvart. Hvernig þetta rímar við stjórnarsáttmálann er hins vegar önnur saga, því þar segir:

Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

Vissulega er afnámi undanþágunnar ekki lofað, aðeins endurskoðun, en enginn þarf að velkjast í vafa um vilja Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, í þessum efnum og hvað endurskoðun þýðir hjá Viðreisn. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er einmitt að finna mál frá ráðherranum þar um:

Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998 (undanþágur frá samkeppnislögum og tollkvótar).
Endurskoðuð ákvæði 13. og 71. gr. búvörulaga sem fela í sér undanþágur frá ákvæðum samkeppnis­laga. Endurskoðaðar leiðir vegna úthlutunar tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur. Einnig verður kveðið á um tæknilegar lagfæringar vegna framkvæmda við búvörusamninga. (Mars).

Þá hefur Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, einnig tjáð sig um nauðsyn þess að afnema undanþáguna.

Ekki þarf heldur að velkjast í vafa um vilja Bjartrar framtíðar, sem hefur talað mjög gegn undanþágunni og m.a. sagt:

Slík undanþága vinnur gegn hagsmunum neytenda og þeirra sem vilja hasla sér völl í greininni.

Það verður því athyglisvert að sjá hvernig ríkisstjórninni mun takast að ná fram þessu máli sínu, sem er eitt af stóru málum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, nú þegar ljóst er að formaður fjárlaganefndar styður ekki málið. Í eins manns meirihluta eru allir stjórnarþingmenn jú með neitunarvald, eins og margoft hefur verið bent á.

Loftslagsmál – já takk

 

 

Göfug markmið

Þegar meta á nýtt og viðamikið samkomulag 193 þjóða og spegla það yfir á Ísland, er úr vöndu að ráða. Ramminn er góður og gildur enda þótt vafi geti leikið á hvort meðalhitinn hækkar um 1,5, eða 3,0 gráður fyrir aldarlok. Svo mikil er óvissan um neikvæð keðjuáhrif helstu umhverfisþátta sem stýra veðurlagi á ólíkum svæðum heims, t.d. dæmis hverju lítil hafíshella á norðurslóðum veldur, ef meðalhitastig hækkar enn um 1,0-1,5 stig. Við höfum aðeins nokkra áratugi að spila úr ef dæma má af hraða breytinganna í náttúrunni sem við óttumst mest, minnug þess að voldugir, náttúrulegir atburðir geta kollvarpað umhverfisstýringu manna.maspila s m skattfæéferðugt.gasa þegar fam m eins og einu með fyrisjan Á heimsvísu stendur mest upp á tug ríkja, þau stóru og hagvaxtargrimmustu, nokkur önnur ríki sem byggja nær alla afkomu sína á jarðolíu, og helstu stórfyrirtæki í sama geira eða öðrum, t.d. matvælaframleiðslu. Þau lúta í raun ekki þjóðstjórnum. Munu menn í raun og veru ganga á eigin hagnaðarvonir og eyða gífurlegum fjármunum í uppbyggingarsjóð COP21 (100 milljarða dollara á ári) og enn fremur í nýsköpun í orkugeiranum? Munu þróunaraðstoð og orkulausnir handa þróunarríkjunum ýta undir minni heildarlosun kolefnisgasa? Leggja ríkisstjórnir nægilegt fé í fjárfestingar sem gefa meira af sér í umhverfistilliti en peningarentu? Hvað gerir nýr forseti Bandaríkjanna?

 

Víðtæk áhrif

Samkomulagið hefur mikil og flókin áhrif á nær öllum sviðum samfélaga. Bókhald allra ríkja á að gera andófið gegn hlýnun sýnilegt og verður að vera sannferðugt. Samningurinn mun hafa áhrif á daglegt líf fólks í þá veru að skerða vanabundin umsvif eða hleypa upp verði á ýmsu sem við teljum sjálfsögð gæði. Það leggur ríkar skyldur á stjórnvöld við að upplýsa almenning um ótal hluti, útskýra samhengi aðgerða og ýta undir samstöðu, þvert á stjórnmálin. Við sjálf verðum að leggja okkur fram og mögla í hófi. Um leið verða þeir sem mestu ráða að hlusta á gagnrýni, jafnt sérfræðinga sem fyrirtækja og almennings.

 

Og litlu við

Hvað litla Ísland varðar er af nógu að taka. Okkar framlag við minni losun kolefnisgasa er brotabrot af heildinni og nánast ósýnilegt. En miðað við íbúafjölda er það gríðarstórt; eitt stærsta vistspor heims miðað við höfðatölu. Og framlag til tæknilausna og aukinnar þekkingar, hvort sem er í jarðhitafræðum, jöklafræðum, sjávarútvegi eða landgræðslu, næstum ómetanlegt. Margtuggin eru málefnin sem við verðum að sinna: Uppgræðsla, lífræn ræktun, skógrækt, endurheimt votlendis, allt til að binda kolefni. Líka minni losun í iðnaði, nýting eldfjallagasa í orkuverum, minni losun í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og samgöngum, engin olíu- eða gasvinnsla á íslensku hafsvæði og betri nýting vara og hráefna. Alls staðar vantar nýjar reglur, virkari umhverfisskatta, aðgerðaáætlanir með hvatningu, boðum og bönnum, markmiðum og skýrri fjármögnun. Það eru verkefni sem endurskoðun heildaráætlunar eftir Parísarfundinn kalla eftir og þarf að vinna á sem allra skemmstum tíma, líkt og ný stjórnvöld hafa lofað en geta sennilega ekki fjármagnað með aðhaldsstefnu sinni.

 

Kolefnishlutlaust Ísland

Benda verður á að aukin binding kolefnis er ekki afsökun fyrir aukinni losun, heldur verður binding og minni losun að verka saman ef takast á að minnka kolefnisspor þjóðarinnar um 30-40% á 10-15 árum. Viðnám gegn losun kolefnisgasa frá þjóðinni losar okkur ekki við ábyrgð á brennslu olíu og gass, sem við hefðum tekjur af, færi svo að eitthvað slíkt kæmi upp norðaustur af landinu. Röksemdin um að efnin séu hollari en kol hrekkur skammt því ekki má snerta nema 25-30% af þekktum birgðum olíu, kola og gass í heimi hér. Veröldin þarf ekki á íslenskri olíu að halda og við sjálf ekki heldur enda eigin notkun okkar úr hugsanlegum milljarða tunna birgðum ekki gild röksemd. Olían er til annars staðar og veruleg orkuskipti heima fyrir í nánd. Ísland í góðu kolefnisjafnvægi er ekki tálsýn en kallar á mjög svo breytta stefnu fjármála og hjá ríkinu, breytta stefnu sveitarfélaga og fyrirtækja, sem þegar hafa stigið fram, mörg hver, og líka skýran vilja fólks almennt. Við í VG göngum lengra en inntak samkomulagsins frá París. Við flytjum þingsályktunartillögu um kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040 og um að fullmótuð aðgerðaráætlun verði borin undir Alþingi fyrir 1. maí 2017.

 

Er friður í boði í viðsjálli veröld?

Mér gafst kostur á að sækja friðarráðstefnuna „World Summit 2017“ í Seoul í Suður Kóreu í byrjun febrúar. Yfirskrift ráðstefnunnar var: friður,öryggi og jöfnun lífskjara. Að ráðstefnunni standa alþjóðleg friðarsamtök og alþjóðlegt samband þingmanna fyrir friði. SunHak-friðarverðlaunin eru kennd við upphafsmenn þessara samtaka sem eru hjónin Dr. Sun Myung Moon og Dr.Hak Ja Han Moon, eftirlifandi kona hans.

Margt má segja um mikla upphafningu þessara einstaklinga á þeirra heimaslóðum í Suður Kóreu en eitt er víst að friðarboðskapurinn einn og sér er vel þess virði að hafa verið meðal þátttkenda í þessum fjölmenna fundi ólíkra fulltrúa víðsvegar að úr heiminum sem koma saman til að hlusta á sjónarmið hvers annars.

Markmiðið með ráðstefnunni er mjög gott. Það felur í sér samveru og samtal fulltrúa fulltrúa frá ólíkum þjóðum og menningarheimum sem koma saman til þess að leita leiða til að hindra stríðsátök og fátækt og einnig til að berjast saman fyrir bættum lífskjörum fátækra þjóða, aukinni menntun, jöfnuði og jafnrétt kynjanna.

 

Friðarverðlaun

Friðarverðlaunin í ár fengu 2 einstaklingar sem hafa tileinkað líf sitt lækningum , hjálparstarfi og menntun á stríðshrjáðum svæðum. Dr. Gino Strada skurðlæknir frá Ítalíu sem veitt hefur yfir 4 milljónum einstaklinga læknis- og neyðaraðstoð á stríðsátaka svæðum og Dr. Sakena Yacoobi kennari og baráttukona sem helgað hefur líf sitt réttindum og menntun barna og kvenna í Afganistan. Þegar ég hlustaði á ræður þess tveggja einstaklinga og kynningu á lífsstarfi þeirra veitti það manni trú á að mannkyninu er viðbjargandi og að það góða sigrar það illa að lokum. Fjöldi framsögumanna héldu innihaldsríkar ræður þar sem ræddur var flóttamannavandinn, stríðsátökin og þau sem ná ekki eyrum alþjóðafjölmiðla og fátæktina sem færist á milli kynslóða og bága stöðu kvenna og barna í mörgum löndum.

Mér gafst kostur á að flytja ræðu um frið,stöðu kvenna og jafnrétt á Íslandi á kvöldverðarfundi þingkvenna sem byggja upp tengslanet um frið og stöðu kvenna og fjölskyldna í heiminum.

Margar magnaðar ræður voru fluttar þar sem miklar tilfinningar brutust fram um ástandið í viðkomandi landi eins og allar hörmungarnar í Sýrlandi, flóttamannabúðir í Líbíu, stjórnmálaástandið og átökin í Tyrklandi og í Úkraínu svo eitthvað sé nefnt. Eins var það áhrifaríkt þegar þingmaður Norður Kóreu ávarpaði ráðstefnuna og kallaði eftir friði á milli Norður og Suður Kóreu og sagði að hin miklu mótmæli á götum úti gegn spillingu tengdum ríkisstjórn Suður Kóreu hefðu aldrei verið leyfð í sínu landi þar sem ekkert lýðræði ríkti.

 

Ekki er friðvænlegt

Ástandið í heiminum er ekki friðvænlegt með stórhættulegan rugludall sem forseta í Bandaríkjunum, valdamesta ríki heims. Forseta sem er spilltur auðjöfur og vill reisa girðingar á milli þjóða,mismuna á grundvelli trúarbragða og haldinn er kvenfyrirlitnigu.

Nýjasta útspil Donalds J. Trump forseta Bandaríkjanna er komubann til Bandaríkjanna á íbúa sjö landa múslimaríkja sem trúlega reynist stjórnarskrábrot. Þar er kynnt undir hatri á grundvelli kynþáttafordóma og trúarbragðaskoðana og kyndir undir stríðsátökum í heiminum.

Ekki má gleyma að minnast á stríðsátökin í hinum fátækari ríkjum Afríku sem vilja oft gleymast þar sem ekki eru undirliggjandi hagsmunir stóveldanna og auðlindir í fátækum ríkjum sem auðhringir hafa sölsað undir sig.. Við hér heima á Íslandi erum svo lánsöm að vera herlaust land og friðsöm þjóð þó sá ljóður sé á að vera enn þá í hernaðarbandalaginu Nató.

Vinstri græn með Steingrím J Sigfússon sem fyrsta flutningmann hafa lagt fram tillögu um kjarnorkufriðlýsingu Norðurslóða og mikilvægt er að við tökum skýlausa afstöðu þar og séum leiðandi í málefnum Norðurslóða en Ari Trausti Guðmundsson er formaður nefndar um Norðurskautsmál .

Ísland á að vera leiðandi í allri friðarumræðu og gera sig gildandi. Þótt lítið land sé þá getum við lagt okkar af mörkum til þess að stuðla að friðvænlegri heimi.

Það er horft til Íslands sem lýðræðisríkis sem hefur náð góðum árangri í mannréttindum,kvenfrelsi og sem velferðar samfélag þó alltaf megi sannarlega gera betur. Við eigum að láta í okkur heyra hvar sem er og hvenær sem er til þess að leggja okkar af mörkum á vogarskál friðar í heiminum.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

Stefnt að mestu einkavæðingu sögunnar

Fjármálaráðherra birti í gær drög að eigendastefnu ríkisstjórnarflokkanna fyrir fjármálafyrirtæki. Í fljótu bragði finn ég umfjöllun um þessa stefnu í tveimur fjölmiðlum, annars vegar á RÚV og hins vegar á Kjarnanum.

Ég hef enn ekki heyrt eða séð viðbrögð stjórnmálamanna við þessum drögum í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Sem er stórmerkilegt því að í eigendastefnunni er lagt til stórfelldari einkavæðingu en við höfum nokkru sinni áður upplifað á Íslandi og þó víðar væri leitað.

Í stuttu máli leggja ríkisstjórnarflokkarnir til að ríkið selji alla eign sína í fjármálafyrirtækjum að undanskildum 30-40% hlut í Landsbankanum. Salan á bönkunum á að fara fram um leið og færi til þess gefst. Þó skal stefnt að því að selja hlut ríkisins í Arion banka fyrir lok janúar 2018, það er eftir tæplega eitt ár. Engin rök eru færð fram fyrir því frekar en annarri sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Engin áform virðast uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar um að koma bönkunum og bankakerfinu fyrst í skaplegt form áður en selt verður að hluta eða öllu leyti. Hvergi er minnst á að aðskilja viðskipta- og fjárfestingarhluta fjármálakerfisins.

Ekki virðist lagt upp með að aðskilja innlenda og erlenda starfsemi. Engin áform eru uppi um að sameina banka eða fækka þeim áður en þeir verða seldir. Framtíðarskipulag bankakerfisins verður sett í hendur einkaaðila ef stefna ríkisstjórnarflokkanna nær fram að ganga.

Planið er einfaldlega að einkavæða bankakerfið eins og það leggur sig og selja það þeim sem hafa á því efni. Við vitum hverjir það eru.

Ríkisstjórnin sem ætlar að einkavæða allt fjármálakerfið er með minnihluta atkvæða á bak við sig og með eins manns meirihluta á þingi. Hún hefur því ekkert umboð til þeirra verka sem lýst er í eigendastefnunni sem yrði mesta einkavæðing Íslandssögunnar.

Nú reynir á stjórnarandstöðuna.

Framtíðarsýn í ferðamálum

Ferðaþjónusta hefur á skömmum tíma orðið umfangsmesti atvinnuvegur landsins. Nú þegar skilar hún miklum verðmætum til samfélagsins og hún hefur skipt sköpum við endurreisn efnahagslífsins.

Vinstri græn lögðu fram ítarlega stefnu um framtíð ferðaþjónustu fyrir kosningar þar sem rauði þráðurinn var að greinin þyrfti að þróast með sjálfbærum hætti, í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag. Áhersla var lögð á að vernda einstaka náttúru landsins og að uppfylla metnaðarfull loftslagsmarkmið. Hvort tveggja kallar á breytta hugsun en skapar líka sóknarfæri. Mikilvægt er að efla enn frekar menntun og rannsóknir innan ferðaþjónustunnar og að sjálfbærnihugsunin verði samþætt inn í alla stefnumótun. Því miður hefur umræða um málefni ferðaþjónustunnar nánast eingöngu snúist um gjaldtöku seinustu misserin. Umdeilt frumvarp um náttúrupassa steytti á skeri og síðan þá hefur ekki náðst sátt um hvaða leiðir sé best að fara til að greinin leggi meira af mörkum til samfélagsins í samræmi við þá nýtingu sem hún felur í sér á auðlindinni sem felst í ósnortinni náttúru.

Á sama tíma hefur skapast villtavestursástand þar sem landeigendur víða um land eru farnir að rukka fyrir aðgang að náttúruperlum, jafnvel þó að ítrekað hafi komið fram að slík gjaldtaka er lögum samkvæmt háð þröngum skilyrðum þar sem rekstraraðili viðkomandi náttúruverndarsvæðis þarf að hafa gert sérstakan samning við Umhverfisstofnun um rekstur svæðisins. Hins vegar hefur komið fram að ekki hafi verið brugðist sérstaklega við lokunum og gjaldtöku, jafnvel þó að lagaheimildir skorti.

Stefnuleysi hefur ríkt í þessum málum og tækifæri til að skapa sátt um uppbyggingu greinarinnar hafa farið forgörðum – til að mynda var tillaga um komugjöld felld við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Nú segir nýr ráðherra ferðamála að landeigendur eigi að beita gjaldtöku ef þeir telji það stuðla að náttúruvernd sem bendir því miður ekki til þess að ný ríkisstjórn vilji tryggja almannaréttinn og leggja grunn að eðlilegri tekjuöflun sem geti nýst til uppbyggingar úr sameiginlegum sjóðum. Þessi mál þurfa alvöru umræðu á nýju þingi.  Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Gluggað í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar

Ef fara á í sauma á stefnu­lýs­ingu nýrrar rík­is­stjórnar þarf mikið rými. Margt er þar ósagt, eitt­hvað óljóst, annað almennt og túlk­an­legt og enn annað bæri­lega skýrt. Sam­kvæmt orðum for­svars­mann­anna eru vel­ferð­ar­mál í víðum skiln­ingi og inn­viðir lands og sam­fé­lags mál mál­anna. Eftir van­fjár­mögnun úrbóta sl. kjör­tíma­bil, í marg­yf­ir­lýstu góð­æri þar sem fjár­laga­frum­varp 2017 var samt undir núlli tekju­meg­in, er deg­inum ljós­ara að mikla við­bót­ar­fjár­mögnun þarf svo koma megi mörgu í betra horf á næstu 1-2 árum. Til þess þarf tugi millj­arða króna, senni­lega 50-60 millj­arða á ári. Þá er ekki gert ráð fyrir t.d. nýjum Land­spít­ala. Aft­ar­lega í stefnu­lýs­ing­unni er skrifað að nú skuli „veru­legar útgjalda­aukn­ingar rúm­ast inn­an­ hag­sveifl­unn­ar. Það merkir að veru­legan tekju­auka í úrbætur má ekki sækja til­ ein­stak­linga og fyr­ir­tækja sem eru meira en aflögu­fær – og það ­stað­fest ­með orðum fjár­mála­ráð­herra um „engar skatta­hækk­an­ir“. Hér er sem sagt verið að binda úrbætur við óvissa hag­sveiflu í stað þess að láta hags­muni almenn­ings ráða og sækja fé þangað sem það er til í miklu magni; t.d. hjá því eina pró­senti fjár­magnstekju­eig­enda sem tekur við 44% allra fjár­magnstekna en þær voru alls 95 millj­arðar sl. ár. Eða með komu­gjöldum eða kolefn­is­skatti á stórðju eða hærri veiði­gjöldum eða…?

Í yfir­lýs­ing­unni er opnað fyrir einka­væð­ingu í mennta­kerf­inu og sam­göngum með loðnu orða­lagi. Í heil­brigð­is­málum er hins vegar ekki minnst á „sam­fjár­mögn­un“ eða „fjöl­breytt­ara rekstr­ar­for­m“. Það eru loðnu hug­tökin sem fela þessi áform um einka­væð­ingu í hinum mála­flokk­un­um. Aðeins er tæpt á mik­il­vægum og jákvæðum mark­mið­um, m.a. „góðri þjón­ustu óháð efna­hag“. Því er nefni­lega þannig varið að einka­væð­ing í heil­brigð­is­þjón­ustu er nokkuð á veg komin og skv. lögum um rík­is­fjár­mál er unnt að halda henni áfram án þess að slíkt komi inn til með­ferðar Alþing­is.

Í plagg­inu eru jákvæð orð í garð inn­flytj­enda, flótta­manna og fólks utan EES sem leitar hingað til vinnu en ekk­ert um þró­un­ar­að­stoð, aðeins neyð­ar­að­stoð. Við erum ein nís­kasta þjóð heims í þessum efnum með 0,24% af vergri þjóð­ar­fram­leiðslu (2015) í stað við­mið­unar nágranna­þjóða og mark­miða SÞ sem er 0,7%. Er ekki þarna einn lyk­ill­inn að betri mögu­leikum fólks í fjar­lægum löndum til að efla eigin hag? Eigum við ekki að gera bet­ur?

Um nýsamþykkt fjárlög

Um nýsamþykkt fjárlög

Það var um margt sérstakt að vinna að gerð fjárlaga fyrir árið sem nú er nýhafið bæði vegna þröngs tíma ramma og vegna þess að fulltrúar sjö flokka á alþingi þurftu að fara  saman í gegnum frumvarpið og leita málamiðlana um fá en mikilvæg mál, þar sem ekki var starfandi ríkisstjórn með þingmeirihluta. Af þessum sökum var margt sem ekki fékk nægjanlega umfjöllun. En megin­niðurstaðan er að samkomulag tókst um mikilvægar viðbætur til heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála. Við Vinstri græn fengum því framgengt að framlög voru aukin til skattaeftirlits og skattrannsókna. Þingmenn tókust með þessu á við ábyrgð sína gagnvart samfélaginu og stjórnskipulega skyldu. Málamiðlun var nauðsynleg við ríkjandi aðstæður og þótt samkomulag tækist er það alveg ljóst að Vinstri græn hefðu kosið að leggja aðrar áherslur í samræmi við stefnu flokksins í fjármálum ríkisins og samfélagsmálum, en tök voru á að þessu sinni.
Það þarf að gera betur

Það er sannarlega sérstakt að fyrsta fjárlagafrumvarpið með nýju og gerbreyttu sniði komi til umfjöllunar Alþingis við þær aðstæður sem uppi voru nú. Telja má fullvíst að margir aðilar innan og utan ríkisgeirans hafi ekki áttað sig fyllilega á hinum gagngeru breytingum sem lögin um opinber fjármál hafa valdið á framsetningu fjárlaga og hlutverki þeirra, sem nú er mun takmarkaðra en áður þar sem stefnumörkun í ríkisfjármálum fer nú að mestu fram við gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Ný framsetning fjárlagafrumvarpsins veldur því að ekki er hlaupið að því að gera samanburð við fyrri fjárlagafrumvörp.

Fjárlaganefnd gerir sjaldan miklar breytingar í heildarsamhengi fjárlagafrumvarpsins. Þær breytingar sem nú voru gerðar leysa sannarlega ekki allan vanda en eru mikilvægar viðbætur og skref til að rétta af slaka stöðu nokkurra stofnana. Um leið er alveg ljóst að ýmsar opinberar stofnanir eru vanfjármagnaðar og verða reknar með halla á nýju ári verði ekkert að gert. Ég ætla að ræða hér þrennt sem fjárlaganefnd gerði breytingu á.

Löggæsla og sýslumenn

Þrátt fyrir að auknum fjármunum sé veitt í málaflokkinn í fjárlögum ársins 2017 er óralangt í að staðan geti talist ásættanleg. Á undanförnum árum hefur álag á löggæsluna aukist jafnt og þétt. Þetta skýrist einkum af stöðnun í fjölda stöðugilda og fjölgun verkefna. Lögreglumenn voru 652 talsins í febrúar 2011 en 659 á sama tíma árið 2016. Leiðrétta þarf öfugþróun síðustu ára og tryggja að framlög til lögreglunnar verði slík að embættin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og boðið starfsfólki sínu upp á góð starfsskilyrði.

Gera þarf miklar úrbætur á rekstrarumhverfi hinna nýju sýslumannsembætta sem hafa verið vanfjármögnuð allt frá stofnun þeirra árið 2015. Þrátt fyrir sameiginlega niðurstöðu fjárlaganefndar um niðurfellingu uppsafnaðs rekstrarhalla að hluta stendur eftir að fjárþörf embættanna er enn ekki rétt metin og munu þau því búa við viðvarandi hallarekstur ef fjárheimildum til þeirra verður ekki breytt.

Sam­göng­uáætl­un
Það er í raun óþolandi að nýsamþykkt samgönguáætlun sé ekki að fullu fjármögnuð enda samþykkt mótatkvæðalaust í október. Álagið á vegakerfið er okkur öllum kunnugt og óhætt að segja að það veki furðu að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki hafið uppbyggingu vegakerfisins þegar í upphafi síðasta kjörtímabils, þegar fjárhagslegt svigrúm hafði myndast til þess.
Það er þó mitt mat að sam­komulagið sem náðist um að takast á við allra brýnustu verkefnin í samgöngumálum var til mikilla bóta þó einungis hafi tekist að bæta við 1/3 af því sem samþykkt var í haust. Af helstu framkvæmdum má nefna  Dettifossveg, Dýra­fjarðargöng, Berufjarðarbotn, Vestmannaeyjaferju ásamt auknum fjármunum í viðhald sem er afar brýnt en betur má ef duga skal.

Það eru mörg gríðarstór verkefni framundan þegar kemur að sameiginlegri velferð og innviðauppbyggingu landsins það kostar peninga og þá getum við sótt á rétta staði ef næsta ríkisstjórn hefur til þess vilja og kjark.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

þingmaður Vinstri grænna

Traust er ekki sjálfgefið

Þegar ég mætti, á fyrstu dögum minnar þing­mennsku, í hús Alþingis urðu margir til þess að óska mér til ham­ingju með þing­sæt­ið, þeirra á meðal Bjarni Bene­dikts­son. Við höfum ávallt heilsast, sjá­andi hvor ann­an, en aldrei ræðst við svo heit­ið ­get­ur. Ég hef eflaust gagn­rýnt hann nokkrum sinnum í marg­vís­legum stjórn­mála­skrifum und­an­far­inna ára. Meðal ann­ars, minnir mig, fyrir að upp­lýsa ekki fyrir fram um þau aflands­fé­laga­tengsl sem hann hefur ekki þurft að gjalda fyr­ir. Ég tek fram að ég get ekki greint hvernig það hefði verið með sem rétt­lát­ustum hætti, í stóru eða smáu, og veit vel að kjós­endur Sjálf­stæð­is­flokks­ins höfðu ekk­ert sér­stakt að athuga við þau né skýr­ingar Bjarna á þeim og sínum hreina skildi í þeim efn­um. Gott og vel, þannig eru stjórn­mál hér á eynn­i.

Þegar á þing er komið verður að slíðra ýmis bit­laus eða beitt sverð og huga að öllum útgáfum stjórn­ar­mynd­unar sam­kvæmt þing­bundna lýð­ræð­inu sem við höfum kosið okkur og hefðir hafa jafn­vel orðið til um. Þar þarf tölu­vert traust að mynd­ast (fyrir utan mál­efna­sam­stöðu og mála­miðl­an­ir). Ég hugs­aði sem svo að ef til vill þyrftum við Bjarni að standa nær hvor öðrum en áður og jafn­vel víla og díla, með sam­herjum hans, um mál­efni, hvert svo sem það myndi leiða. Þannig eru stjórn­mál hér á eynni. Traust til hans hug­leiddi ég aldrei djúpt vegna þess að snert­ing Vinstri grænna og Sjálf­stæð­is­flokks­ins fór ekki fram úr sam­tölum for­manna. Allt­ént gaf ég hon­um sjens vel yfir með­al­lag, á meðan ekki reyndi frekar á traust­ið. Það finnst mér eðli­legt og á jákvæðum nót­um.

Umbeðin og umdeild skýrsla, eins konar lík­inda- eða stærð­argráðu­út­reikn­ingur á alvar­leika aflands­græðginnar og skattsvika, var pöntuð til þess að auðga umræð­una um þessi mál­efni. Það segir Bjarni Bene­dikts­son sjálfur í við­tal við RÚV. Hún var og er ekki lokuð skýrsla. Hún átti ekki að ganga fyrst til þing­nefndar sem fjall­aði um hana áður en almenn­ingur fengi að sjá hana; einmitt póli­tísku og efna­hags­legu umræð­unnar vegna. Auð­vitað átti hún að lenda sam­tímis í höndum alls Alþingis sem okkar allra utan þess. Þar eru engin manna­nöfn, engar við­kvæmar upp­lýs­ing­ar, eng­ar sund­ur­lið­anir með heitum aflands­fé­laga; hvergi leynd­ar­mál að því ég best veit. Þess vegna er engin leið til að afsaka þá gjörð ráð­herr­ans að kynna sér ekki efnið fyrr en 5. okt. eða leggja skýrsl­una ekki fram þegar eftir 13. sept­em­ber (og einka­kynn­ingu fyrir hann sem næst þeim deg­i). Fyr­ir­sláttur um vöntun á yfir­lestri og umræðum í efna­hags- og við­skipta­nefnd gengur heldur ekki upp. Margir fundir voru um mán­að­ar­skeið í síð­ustu nefnd og ný nefnd hefur starfað vikum sam­an. Hins vegar má leggja fram afsök­un­ar­beiðni fyrir að hafa sagt ósatt um ein­hvern við­burð á tíma­lín­unni og fá hana tekna til greina svo langt sem orða­lag hennar um óná­kvæmni leyf­ir. Hitt er jafn ljóst að ósann­sögli og dráttur á að opin­bera skýrsl­una benda til ásetn­ings um að leyna plagg­inu fram yfir kosn­ing­ar, jafn­vel fram yfir myndun rík­is­stjórn­ar. Hefði þessi fjöl­mið­ill hér ekki aug­lýst eftir því og svo aðrir fjöl­miðlar og ein­stak­ling­ar, væri hún kannski enn óséð utan ráðu­neyt­is, með hvítt­uðu kápuna.

Mér þykir það leitt en ég verð að lýsa von­brigðum mínum með að Bjarni Bene­dikts­son hafi brugð­ist trausti mínu meðan ég stund­aði fram­boðsvinn­una í októ­ber. Þá hefði ég viljað hafa lesið skýrsl­una. Hann hefur brugð­ist trausti mínu eftir að ég tók sæti á þing­inu og ræddi til dæmis fjár­lög, skatt­heimtu og efna­hags­legar for­sendur til umbóta í heil­brigð­is-, mennta-, vel­ferð­ar- og sam­göngu­mál­um. Fjöldi svik­inna millj­arða skiptir þar máli. Loks hefur hann brugð­ist trausti mínu á að aukið gegn­sæi hefði nú betra gengi en áður á öllum sviðum þings­ins og í sam­fé­lag­inu, líkt og við flest sækj­umst eft­ir, og minnst er á í stefnu­yf­ir­lýs­ingu nýrrar rík­is­stjórn­ar.

Umboðs­maður Alþingis kannar á næst­unni, fyrir til­stuðlan Svan­dísar Svav­ars­dóttur (VG), hvernig með­ferð skýrsl­unnar rímar við siða­reglur ráð­herra. Hver sem nið­ur­staða hans verð­ur, er rétt að vona að lær­dómur af veg­ferð plaggs­ins kenni okkur betri vinnu­brögð.

Áramótakveðja

Kæru félagar!

Árið 2016 var viðburðaríkt í stjórnmálunum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks riðaði til falls eftir afhjúpanir Panama-skjalanna, forsætisráðherra sagði af sér og boðað var til kosninga í haust. Þingflokkur Vinstri-grænna var í fararbroddi þeirra sem bentu á hið kerfislæga misrétti sem birtist í því hvernig fámennur hópur hinna efnameiri hefur spilað eftir öðrum leikreglum en aðrir og nýtt sér aflandsfélög í skattaskjólum til að koma auð sínum fyrir.

Eftir öfluga kosningabaráttu fögnuðum við góðum sigri með tæplega 16% fylgi. Fyrst og fremst var það vegna áherslu okkar á sterka innviði og að í farsælu samfélagi verði öflugur efnahagur að fara saman við öflugt velferðarkerfi og menntakerfi. Áherslan var á góða heilbrigðisþjónustu, öflugt menntakerfi, greiðar samgöngur og mannsæmandi kjör fyrir þá hópa sem standa veikast: öryrkja og aldraða. Við lögðum líka fram hugmyndir um ábyrga tekjuöflun til að styrkja þessa innviði.

Þessi mál voru til umræðu hvar sem við komum fyrir og eftir kosningar enda endurspegla þau grundvallaratriði sem pólitíkin snýst um: Viljum við að barn einstæðs foreldris úti á landi fái sömu tækifæri og barn auðugra hjóna á höfuðborgarsvæðinu? Svar okkar í Vinstri-grænum er afdráttarlaust já. Við lítum á það sem forgangsverkefni að tryggja jöfn tækifæri í samfélaginu og til þess þarf öflugt velferðar- og menntakerfi sem er fjármagnað að fullu. Í velferðinni eru nefnilega stærstu verðmæti venjulegs fólks.

Við bentum í kosningabaráttunni á að það er mikilvægt að efla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Varlega áætlað nema skattaundanskot um 80 milljörðum á ári. Það er algjörlega óviðunandi að ekki sé tekið á þessu með skilvirkari hætti enda munar um minna inn í samfélagsleg verkefni.

Við lögðum líka áherslu á umhverfismálin. Ísland á að setja sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og stefna að kolefnishlutleysi fyrr en síðar. Með virkri þátttöku ólíkra aðila er hægt að ná miklum árangri, hvort sem er í iðnaði, samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi eða hinu daglega lífi. Á sama tíma þarf að stíga skref í náttúruvernd, ljúka við friðlýsingu þeirra svæða sem falla undir verndarflokk rammaáætlunar og stofna þjóðgarð á miðhálendinu eins og æ fleiri átta sig á að felur í sér ótrúleg verðmæti fyrir land og þjóð og komandi kynslóðir.

Við ræddum flóttamenn og þá eðlilegu sýn að Ísland leggi meira af mörkum til að takast á við skelfilegar afleiðingar Sýrlandsstríðsins og annarra stríðsátaka í heiminum. Þar getum við gert betur, tekið á móti fleirum, beitt okkur á alþjóðavettvangi og lagt meira til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

Að loknum kosningum hefur staðan á sviði stjórnmálanna verið flókin. Vinstri-græn hafa tvisvar tekið þátt í umræðum um myndun fimm flokka ríkisstjórnar en ekki sá til lands í þeim viðræðum. Þar lögðum við mesta áherslu á uppbyggingu heilbrigðis- og menntakerfis og ábyrga tekjuöflun til að standa undir þeim verkefnum. Sama áhersla var efst á bógi í óformlegum viðræðum okkar við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvort til er að verða ný ríkisstjórn þriggja flokka en það er okkar mat að íslenskt samfélag þurfi síst á hægristjórn að halda á þessum tímum þar sem mikilvægasta verkefnið er einmitt að treysta hina samfélagslegu innviði.

Við þökkum öllum félögum í hreyfingunni samstarfið á árinu. Fyrir kosningar unnu félagar í hreyfingunni kraftaverk þegar kom að því að ganga frá listum og heyja kosningabaráttu sem var um margt ólík fyrri baráttum og var t.d. talsvert ódýrari en í síðustu skipti. Allir lögðust á árar og við getum verið stolt af okkar verkum. Hvað sem nýtt ár ber í skauti sér verður það okkar hlutverk eftir sem áður að berjast fyrir okkar málefnum og okkar sýn. Það gerum við áfram öll saman.

Gleðilegt ár.

Katrín Jakobsdóttir.