#ekkimittsvifryk

 

Undanfarið hefur svifryksmengun mælst alltof há mikil og yfir leyfilegum mörkum þannig að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ítrekað sent frá sér tilkynningar og varað við því að fólk með öndunarfærasjúkdóma og börn séu mikið á ferðinni eða stundi útivist á svæðum þar sem svifryk mælist sem mest. Ástandið er með öllu óásættanlegt og hefur mengunin skiljanlega vakið reiði borgarbúa enda er ólíðandi að mengun frá bílum skerði lífsgæði okkar og hefti okkur á ýmsa lundu. Þetta getum við öll verið sammála um.

Víða hafa margir viljað skella skuldinni á borgaryfirvöld sem þó hafa gripið til margþættra aðgerða til að hindra að þessir mengunardagar verði fleiri í framtíðinni og reynt að vekja fólk til umhugsunar um sótspor sitt. Sumir hafa jafnvel hnýtt í borgina fyrir að láta strætó ganga því hann þyrlar upp svo miklu svifryki og að umferðarsultan í Ártúnsbrekkunni og á fleiri stöðum valdi meiri mengun af því að bílarnir silist áfram og séu því lengur í gangi með tilheyrandi mengun. Sumir framámenn flokka hafa lagt það til að leggja þurfi fleiri vegi sem slíta í sundur borgarlandið og byggja mislæg gatnamót til að liðka fyrir umferðinni en hafa efasemdir um vistvænar lausnir eins og lagningu fleiri hjólastíga, sumarlokana gatna, fækkun bílastæða í miðborginni eða borgarlínu.

En stöldrum aðeins við. Í Aðalskipulagi er mörkuð stefna til framtíðar um m.a. ferðamáta og borgarskipulag sem helst þétt í hendur. Þar er höfuðáherslan lögð á vistvæna ferðamáta og frelsi til að komast leiðar sinna án þess að þurfa að reiða sig á kostnaðarsama og mengandi einkabíla. Þar kemur einnig fram að þétting byggðar er mikilvæg til að minnka mengun og gera okkur kleift að anda léttar ásamt fyrirhugaðri borgarlínu. Við eigum ekki að gefa afslátt af þessari stefnu.  Við þurfum að standa með Aðalskipulaginu til að ná markmiðum okkar um heilnæmt umhverfi og ómengað andrúmsloft.

En við viljum líka gera gott betur og einnig fylgja mannréttindastefnu borgarinnar til hins ítrasta. Í tíunda kafla hennar stendur að hver borgarbúi hafi rétt á því að búa í heilnæmu umhverfi sem fólki og lífríki stendur ekki ógn af. Við eigum að vera laus við mengað vatn, andrúmsloft og jarðveg sem spillir heilsu okkar og umhverfi.  Í þessu ljósi og að öllu framangreindu þá finnst mér kominn tími á að borgaryfirvöld fái skýrar valdheimildir, þó fyrr hefði verið, til þess að þrengja enn að þeim mengunarvöldum sem svo sannarlega eiga sök á því að við getum ekki andað léttar í borginni og menga fyrir okkur hversdaginn. Það er gott að horfa til framtíðar en í dag þá þurfum við líka að geta brugðist við með því að takamarka mengandi umferð ökutækja, bæði til skamms- og lengri tíma, heilsu okkar og frelsi til heilla. Við eigum að bjóða borgarbúum upp á vistvæna valkosti og fararmáta í auknum mæli og á dögum þar sem viðbúið er að svifryksmengun geti farið yfir leyfileg mörk ættum við t.d. að bjóða borgarbúum að taka strætó endurgjaldslaust. Ég vona að við getum öll verið sammála um þetta.

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar.

Greinin birtist fyrst á visir.is

 

 

Deyja úr leiðindum – eða …..

Fólk getur dáið úr leiðindum. Læknar skrá annað í sjúkraskrár því einkenni og afleiðingar leiðinda eru ekki augljós. Leiðindi geta leitt til sjúkdóma sem geta jafnvel dregið fólk til dauða. Á hinn bóginn valda sjúkdómar leiðindum. Langvarandi veikindi geta valdið manni djúpum leiðindum – og þunglyndi. Þetta getur orðið vítahringur.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO skilgreindi fyrir hálfri öld þrenns konar heilbrigði: Líkamlegt, andlegt og félagslegt. Heilbrigði er meira en að vera laus við sjúkdóma. Heilbrigðum manni á að líða eftir atvikum vel og vera þokkalega ánægður og glaður. Til að svo sé þarf hann að vera heilbrigður líkamlega, andlega og félagslega.

Líkamlegt heilbrigði þekkjum við – og eins sjúkdóma sem upp koma þegar það bregst. Leiðindi geta átt þátt í því. Andlega heilbrigð erum við laus við geðsjúkdóma (sem menn þora nú æ oftar að tala um) – og laus við leiðindi (sem of sjaldan er talað um sem heilbrigðismál)!

Hugtakið félagslegt heilbrigðið eða félagsheilsa er okkur minnst tamt á tungu og margir vita ekki hvað er. Það varðar samfélagið sem manneskjan tilheyrir, félagstengslin. Fólk þarf að finna öryggi og ánægju, og hafa í sig og á.

Góð félagsleg tengsl lengja og bæta lífið. Það á við í fjölskyldum, í alls kyns félögum og á vinnustað.  Jákvæðu fólki vegnar almennt betur og lifir lengur, enda á það auðveldara með samskipti. Öryggisnet bæði þjóðfélagsins og nærsamfélagsins skipta miklu máli.

Félagslegar aðstæður hafa ekki aðeins áhrif á félagsheilsu heldur einnig geðheilsu og líkamlega heilsu. Fíkn og ávanabinding er í grunninn lærð hegðun sem hægt er að forðast og venja sig af þótt það kosti átök. Allt sem stuðlar að einangrun fólks er heilsuspillandi og ekki síður það sem ógnar öryggi þess. Bitnar ekki síst á þeim sem eldri eru. Marga skorti frumkvæði til að hafa sig út úr einangruninni af sjálfsdáðum og þarfnast þar hjálpar.

Lýðheilsa er heilsa almennings og varðar miklu fleira en heilbrigðismál, svo sem jöfnuð, menntun, atvinnu, hreint loft og vatn, frárennsli, matvælaeftirlit og mæðravernd. Einnig jafnræði þegnanna og að þeir búi við frið, jafnt innan heimilis sem utan.

Ísland er almennt öuggara land en flest önnur, morð fátíð og við erum að mestu laus við hernað. Hér var samhjálp og samhyggð allt frá landnámsöld sem frjálshyggja nútímans holar innan. Það er fátt eins heilsuspillandi og að svelta og lifa í stöðugum ótta um afkomu og líf sitt og barna sinna.

Miklu skiptir að við blöndum geði við fólk – ekki bara við okkar nánustu – og byggjum upp félög og þjóðfélag sem stuðlar að því að allir njóti sín, finni sig í einhverju, taki þátt og láti sig aðra varða. Þannig drögum við úr leiðindum (jafnvel þótt við séum ekkert rosa skemmtileg). Þannig bætum við og lengjum líf okkar og annarra og við verðum öll hamingjusamari.

(Auðlesin grein um stefnu WHO: http://vefir.nams.is/kompas/pdf_klippt/5.kafli/9.pdf )

 

Þorvaldur Örn Árnason,

formaður Frístunda- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Voga.

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum. 

Að beita valdi – að gera málamiðlun

Þeim sem halda um stjórnartauma ferst misjafnlega vel úr hendi að beita valdi. Sagt hefur verið að besta aðferðin við beitingu valds sé að beita því ekki. Nú háttar svo til að við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði erum á afar áhugaverðum slóðum í þroskaferli hreyfingarinnar, sem er við það að slíta unglingsskónum. Sem leiðandi afl í ríkisstjórn landsins getum við látið hlutina gerast. Við þurfum ekki að rýna málið lengi til að sannfærast um að án þess verður töluvert minna ágengt í okkar baráttumálum – það er fakta. Segja má að við séum komin í paradís málamiðlana eða vítiseld málamiðlana eftir því hvernig á það er litið. Hvað sem því líður þá er greinarhöfundur sannfærður um að forsætisráðherrann okkar og formaður, Katrín Jakobsdóttir, beitir skynsemi og yfirvegun við að leysa úr viðfangsefninu hverju sinni og er lausnamiðuð í sínum verkum og störfum. Nokkuð hefur skort á slíka eiginleika í forsætisráðuneytinu í gegnum tíðina, og því ber að mati greinarhöfundar að leggja rækt við fyrrgreinda stöðu af alúð og virðingu. Með skynsemi og yfirvegun að vopni verður okkur margt gott úr verki. Mikil óvissa ríkir iðulega um óhóflega beitingu valds og vanhugsaðar ráðstafanir ráðamanna. Dæmi þess fylla heilu sögubækurnar. Við félagarnir sem höfum það náðugt ef svo má segja, í það minnsta í samanburði við okkar ágætu ráðherra sem standa í eldlínunni á löngum vöktum, eigum að mynda það bakland sem vænta má af okkur við þær frábæru en krefjandi aðstæður sem við erum aðnjótandi í dag. Framundan eru spennandi tímar, göngum saman og styðjum vel við bakið á okkar forystufólki – þau eru fyrir okkur og við fyrir þau.

Gunnar Árnason

Áfram veginn

Þegar Stígamót voru stofnuð á þessum degi fyrir 28 árum, þótti mörgum að þar væru á ferðinni öfgafull samtök. Konum, sem lýstu reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi, var ekki trúað. Og börn, sem sögðu frá, áttu sjaldnast von á að vera tekin alvarlega. Viðhorf samfélagsins var iðulega að þolendurnir væru að segja ósatt eða hefðu misskilið eigin upplifun frekar en að gróft heimilisofbeldi væri nánast daglegt brauð á litla Íslandi.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er við hæfi að líta um öxl og þakka öllu því baráttufólki sem hefur hjálpað okkur að þokast áfram. En við þurfum líka að staldra við og greina „öfgafólk“ samtímans. Hvaða raddir eru það sem við viljum frekar þagga niður í en hlusta á, af því að þær fara með óþægilegan sannleik?

#metoo bylgjan hefur afhjúpað áreitni og ofbeldi sem hefur viðgengist alltof lengi og í öllum kimum íslensks samfélags. Haft var eftir Cynthiu Enloe, sem flutti fyrirlestur við Háskóla Íslands á dögunum, að fyrirsjáanlegt bakslag eftir #metoo umræðuna væri ákall um að gera þyrfti greinarmun á frásögnum kvenna. Áreitni væri ekki það sama og nauðgun og lélegur karlrembubrandari ekki það sama og áreitni og svo framvegis. Enloe varaði við þessu og sagði að nú væri ekki tími til að greina á milli heldur til að tengja saman. Því #metoo sögurnar eru ekki aðskildar sögur um einstaklinga sem fara yfir mörk annarra. Þetta er samhangandi frásögn um menningu sem þarf að uppræta fyrir fullt og allt. Og til þess þarf að skilja samhengið.

Á dögunum skipaði ég stýrihóp, undir forystu Höllu Gunnarsdóttur ráðgjafa míns í málaflokknum, sem er ætlað að hrinda í framkvæmd löngu tímabærum úrbótum er varða kynferðislegt ofbeldi. Hópnum er meðal annars gert að vinna að heildarendurskoðun á forvörnum og fræðslu, móta stefnu gegn stafrænu kynferðisofbeldi, útfæra hugmyndir um styrkari stöðu brotaþola og gera tillögur um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #metoo. Sérstaklega skal hópurinn líta til þeirrar margþættu mismununar, sem konur af erlendum uppruna, konur sem ekki búa við efnahagslegt öryggi, fatlaðar konur og hinsegin konur verða fyrir.

Þessi nefndarskipan kann að láta lítið yfir sér en verkefnið er ærið. Því á vanda af þessari stærðargráðu er engin ein töfralausn og ekki dugir einföld lagabreyting eða aðgerðaáætlun. Hér þarf að taka bæði stór og smá skref. Það er von mín að þegar þessu kjörtímabili lýkur hafi okkur miðað áfram. Til að mynda verði fullgildingu Istanbúl-samningsins að fullu lokið, árangur af auknu fjárframlagi til málaflokksins – og pólitískri áherslu á hann – verði augljós og að lögum hafi verið breytt til að styrkja stöðu þolenda kynferðisofbeldis. Þá hafi okkur tekist að nýta #metoo til að breyta um stefnu; til að skilja betur hvað það er í menningu okkar og samfélagi sem ýtir undir og viðheldur kynferðislegri og kynbundinni áreitni.

Stjórnvöld geta aldrei breytt menningu ein og sér, en þau geta troðið slóðina og stutt við bakið á því baráttufólki sem hefur opnað augu okkar fyrir því sem við vildum ekki sjá. Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna!

 

Katrín Jakobsdóttir. 
Höfundur er forsætis­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Skattfrelsi ökuþóra

Í  um­ræðu um akst­urs­greiðslur til þing­manna hefur þeim rökum verið beitt að að ekki sé við neinn að sakast því greiðslur þessar séu í sam­ræmi við regl­ur. Á það m.a. við um meint skatt­frelsi þess­ara greiðslna því í lögum um um þing­far­ar­kaup alþing­is­manna og þing­far­ar­kostnað seg­ir: Greiðsla þing­far­ar­kostn­aðar skv. 6. og 7. gr. er fram­tals­skyld, … en ekki skatt­skyld. Þær laga­greinar sem vísað er til fjalla um þann kostnað sem verið hefur tanna á milli í umræð­unni, hús­næð­is- og dval­ar­kostnað og ferða­kostn­að. Þessi regla er frá­vik frá skatta­lög­um.

Meg­in­regla skatta­laga er að fái starfs­maður sér­staka greiðslu fyrir að taka á sig kostnað launa­greið­anda t.d. vegna ferða á vegum hans þá megi hann draga frá þeirri greiðslu þann kostnað sem af ferð­inni hlýst. Sé sá kostn­aður lægri en greiðslan telst mis­mun­ur­inn til skatt­skyldra tekna. Til árs­ins 2013 var mat á kostn­aði við akst­ur, kíló­metra­gjald­ið, ein föst tala. Var talið að hún ætti vel við í flestum til­vikum en ljóst væri að kostn­að­ur­inn væri mis­mik­ill eftir ekinni vega­lengd þar sem liðir eins og verð­rýnun bif­reið­ar, trygg­ing­ar, bif­reiða­gjöld o.fl. eru að mestu eða öllu leyti óháðir ekinni vega­lengd á ári. Til að taka á hugs­an­legum ofgreiðslum og mis­notkun var þeim sem fengu greiðslur fyrir mik­inn akstur á eigin bif­reiðum gert að gera grein fyrir kostn­aði við rekstur bif­reiðar á skatt­fram­tali sínu og fengu ein­ungis að draga raun­veru­legan kostnað frá tekj­un­um. Akst­urs­greiðslur umfram kostnað voru skatt­skyldar tekj­ur.

Á árinu 2014 breytti RSK skatt­fram­kvæmd á þann hátt að í stað kíló­metra­gjalds óháð akst­urs­lengd og grein­ar­gerðar um raun­veru­legan kostnað kom kostn­að­ar­mat sem tekur til­lit til ekinnar vega­lengdar á ári. Þannig er kíló­metra­gjaldið nú 110 kr. á fyrstu þús­und kíló­metrana en fer svo lækk­andi í 65 kr. þegar 15 þús­und km er náð. Með þessu telur RSK að náð sé við­un­andi mati á raun­veru­legum kostn­aði og þessar fjár­hæðir heim­il­aðar til frá­dráttar í stað þess að gerð sé sér­stök grein fyrir kostn­aði. Þessi breyt­ing ein­fald­aði skatt­fram­kvæmd fyrir gjald­endur og skatt­yf­ir­völd.

Alþingi ákveður starfs­kjör þing­manna og fór í þessu efni aðra leið en þá að fylgja almennum skatta­lög­um. Í lögum um þing­far­ar­kaup alþing­is­manna og þing­far­ar­kostnað var Alþingi falið að ákveða end­ur­greiðslu­fjár­hæðir og því jafn­framt slegið föstu að greiðsla hús­næð­is- og dval­ar­kostn­aðar og ferða­kostn­aðar sé ekki skatt­skyld. Með þessu var því vikið frá þeirri meg­in­reglu skatta­laga sem að framan getur að það sé útlagður kostn­aður sem er frá­drátt­ar­bær en ekki greiðslan sjálf.

For­sætis­nefnd Alþingis ákveður greiðslur sam­kvæmt lög­unum aðrar en þing­fara­kaupið sjálft og setur nán­ari reglur um þær. Það hefur hún gert og m.a. ákveðið kíló­metra­gjald­ið. Í því efni fór hún þó ekki að for­dæmi RSK frá 2014 en fylgir reglum ferða­kostn­að­ar­nefndar sem er ekki opin­bert stjórn­vald eða óháður mats­að­ili heldur eins konar samn­inga­nefnd ríkis og sam­taka opin­berra starfs­manna. Afleið­ingin er að kíló­metra­gjald sem greitt er þingi­mönnum hefur því verið hærra en kostn­að­ar­mat RSK að frá­töldum fyrstu þús­und kíló­metr­unum sem eknir eru á árinu.

Draga má í efa laga­legt rétt­mæti þess­ara reglna. Í lög­unum segir m.a.: “Greiða skal alþing­is­manni ……mán­að­ar­lega hús­næð­is- og dvalarkostnað til þess að hafa dval­ar­stað í Reykja­vík eða grennd ….” og “Al­þing­is­maður fær mán­að­ar­lega fjár­hæð til greiðslu kostn­aðar við ferða­lög innan kjör­dæmis hans” Sam­kvæmt þessu skal end­ur­greiða kostnað og annað ekki. For­sætis­nefnd ber því að ákveða greiðslur m.a. fyrir akstur í sam­ræmi við efn­is­reglu við­kom­andi laga­grein­ar, þ.e að end­ur­greiða ein­ungis kostn­að. Í 17. grein lag­anna er kveðið á um að þessar greiðslur séu skatt­frjáls­ar. Til þess að upp­fylla ákvæði lag­anna þarf því að vera tryggt að skatt­frjálsa greiðslan skv. 17. grein sé hin sama og kostn­aður sem heim­ilt er að end­ur­greiða skv. 7. grein. Aug­ljóst virð­ist af gerð regln­anna og fram­kvæmd þeirra að svo er ekki.

Til þess að ná því marki hefði verið best að þing­menn fengju útlagðan ferða­kostnað end­ur­greiddan sam­kvæmt fram­vís­uðum reikn­ingi. For­sætis­nefnd Alþingis ákvað að fara aðra leið og að greiða fyrir akstur með kóló­metra­gjaldi. Það er ekki ein­falt í fram­kvæmd þegar litið er til þess sam­ræmis sem verður að vera á milli um end­ur­greiðslu á kostn­aði 7. gr. lag­anna og 17. greinar sem tekur úr sam­bandi úrræði skatta­laga til að greina á milli end­ur­greiðslu­hæfa kostn­aðar vegna launa­greið­anda og tekna starfs­manns­ins. Til að ekki fari illa hefði verið nauð­syn­legt að fyrir lægi nákvæmt mat á raun­veru­legum kostn­aði við akstur einka­bíls. Að öðrum kosti er hætta á því að Alþingi ákveði þing­mönnum laun sem það hefur ekki laga­lega heim­ild til að gera og að auki að þessi laun séu skatt­frjáls. Virð­ist það hafa orðið reyndin að ein­hverju marki.

Ekki hefur komið fram að Alþingi hafi lagt sjálf­stætt mat á raun­veru­legan akst­urs­kostnað áður en regl­urnar voru sett­ar. Í þess stað ákvað það að nota mat ferða­kostn­að­ar­nefndar þrátt fyrir að ljóst var að mat hennar var langt umfram raun­veru­legan kostnað þegar akstur er mik­ill. Ekki var litið til ákvæða skatta­laga og fram­kvæmdar á grund­velli þeirra sem er aug­ljós­lega raun­hæf­ara mat á þeim kostn­aði sem end­ur­greiða ber og eru þær reglur sem allur almenn­ingur býr við. Fyr­ir­liggj­andi dæmi úr umræð­unni eru glöggur vottur um ofmat kostn­aðar skv. þessum regl­um. Ákvörðun Alþingis um fyr­ir­komu­lag á end­ur­greiðslu akst­urs­kostn­aðar fól því í sér að þing­menn, sem mikið aka, fá skatt­frjálsar tekj­ur.

Vegna ofmats á kostn­aði skapar reglan, sem valin var, freistni­vanda og er hvati til mis­notk­un­ar. Því er ekki ein­göngu við van­hugsuð lög og lélega fram­kvæmd að sakast. Regl­urnar er settar í til­gangi sem til­greindur er í lög­un­um, þ.e. að end­ur­greiða til­tek­inn kostn­að. Ætla verður að þing­menn þekki lögin og reglur sem settar eru skv. þeim. Þeim hlýtur því að hafa verið ljóst að þær kröfur um end­ur­greiðslur sem þeir beindu að þing­inu voru í mörgum til­vikum umfram þann kostnað sem þeir höfðu orðið fyr­ir. Með því að leggja fram slíkar kröfur brugð­ust þeir í þeim freistni­vanda sem reglu­verkið hafði skapað og létu fjár­hags­lega eig­in­hags­muni vega meira en efn­is­legt rétt­mæti og almanna­hags­muni.

Hér hefur ein­göngu verið fjallað um þær greiðslur sem ákveðnar voru í sam­ræmi við settar reglur eins og þær eru. Annar þáttur er með­ferð á þeim greiðslum sem sam­rým­ast ekki settum reglum eða eru umfram það sem þær heim­ila. Má þar nefna álita­mál um ferða­til­efni og óljós skil á hvað til­heyri störfum þing­manns, hvað teng­ist flokks­starf hans og hvað sé í per­sónu­lega þágu hans t.d. vegna próf­kjara og rækt­unar á per­sónu­fylgi. Auk þess má nefna með­ferð á greiðslum sem eru umfram það sem regl­urnar heim­ila. Þannig er a.m.k. álita­mál hvort regl­urnar heim­ili end­ur­greiðslu á akstri umfram 15.000 km á ári. Greiðslur sem ekki eru byggðar á heim­ildum í regl­unum falla ekki undir skatt­frels­is­á­kvæði 17. greinar lag­anna. Greiðslur umfram regl­urn­ar, hvort sem er vegna til­efn­is­leysis eða að þær eru umfram önnur skil­yrði svo sem eknar vega­lengdir ber skv. skatta­lögum að fara með sem launa­greiðslur og skatt­leggja sem slík­ar.

Það er gott til þess að vita að til stendur að end­ur­skoða reglur um greiðslu þing­far­ar­kostn­að­ar. Þær eru gall­aðar og skyndi­lausnir duga skammt. En það er ekki nóg að end­ur­skoða regl­urn­ar. Þær eru byggðar á lögum um starfs­kjör þing­manna og þau lög hafa a.m.k. að hluta til skapað þann freistni­vanda sem með­vitað eða ómeð­vitað hefur leitt til oftöku fjár. Þessum lögum þarf að breyta. Lág­marks breyt­ingar á þeim væri að skil­greina með ótví­ræðum hætti heim­ildir til end­ur­greiðslu á kostn­aði þing­manna vegna starfa þeirra, að kveða á um að slíkar end­ur­greiðslur skuli vera sam­kvæmt reikn­ingum fyrir kostn­að­inn og end­ur­skoðun á þeim og síð­ast en ekki síst að fella úr lög­unum ákvæði um sér­staka skatta­lega með­ferð á þessum greiðslum þannig að þing­menn sitji að þessu leyti við sama borð og almenn­ingur í land­inu.

Indriði H. Þorláksson, greinin birtist fyrst í Kjarnanum.

Þjónusta við börn og barnafjölskyldur!

Undanfarin ár hefur þjónusta við barnafjölskyldur breyst svo um munar. Krafan í nútímasamfélagi gerir það að verkum að báðir foreldrar þurfa að vinna langa vinnudaga og því þurfa þeir á aukinni þjónustu að halda varðandi börnin sín. Í þessum aðstæðum er oft erfitt að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið kemst í daggæslu eða inn á leikskóla. Lengi hefur það verið í umræðunni að koma á fót fleiri ungbarnaleikskólum en dagforeldrakerfið hefur verið nær óbreytt í fjölda ára. Við þessar aðstæður er aukin þörf á starfsfólki bæði fyrir leikskóla og sem dagforeldrar en það eru ekki nægilega margir sem sækja í þessi störf. Því er afar mikilvægt að gera störfin og námið aðlaðandi þar sem að mótunarár barnanna eru mjög mikilvæg fyrir framtíðina! Því er áríðandi að vel sé staðið að verki hvað þennan málaflokk varðar. Börn hafa rétt á því að fá ákjósanlegar aðstæður til að vaxa og dafna en sá réttur er einmitt lögfestur í 27. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Það verkefni er ekki auðvelt þegar vöntun er á þjónustu við barnafjölskyldur. Brúa þarf bilið svo að þjónusta við börnin geti hafist um leið og fæðingarorlofi lýkur.

Að sama skapi þarf að koma til móts við börnin í grunnskóla og miða að þörfum hvers og eins. Það þarf að hlúa að þeim einstaklingum sem finna sig ekki innan skólakerfisins og finna farveg þar sem börnin geta upplifað besta umhverfið til að þroskast og dafna. Á þann hátt er hægt að vinna að markvissu forvarnarstarfi til að styðja við jaðarhópa á sem jákvæðastan hátt. Með því að hlúa að börnunum, í góðu samfélagi og virkum forvörnum, búum við til betri borg. Mikilvægt er að miða forvarnir við aðstæður og þroskaskeið sem barnið er á hverju sinni og búa til samfellu þar sem þörfum viðkomandi er mætt þar sem hann er staddur hverju sinni. Forvarnir eru ódýr og öflugur kostur til þess að hjálpa einstaklingnum að vaxa og dafna, í stað þess að slökkva elda þegar málin eru komin í óefni og kosta þarf dýrum úrræðum til að vinna úr uppsöfnuðum vanda.

Það eru allmargir jaðarhópar í samfélaginu okkar og er afar mikilvægt að hlúa að þeim. Hvort sem um er að ræða einstaklinga í geðheilbrigðisvanda, heimilislausa eða jaðarsetta unglinga, þá passa þessir hópar oft og tíðum ekki í réttu boxin til að fá þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Eins og áður hefur komið fram eru forvarnir þar mikilvægur þáttur en einnig þarf að finna úrræði fyrir alla. Ýmis úrræði eru þegar í boði en þau duga ekki til fyrir alla hópa og mikilvægt er að reyna að fækka „gráu svæðunum“. Stór hópur fólks flakkar á milli úrræða en passa hvergi almennilega inn í það sem er í boði. Að þessu þarf að huga að til að allir fái úrræði við hæfi auk þess sem vinna þarf að aukinni samvinnu og samþættingu á þjónustu svo jaðarhópar falli ekki í glufurnar.

Í okkar samfélagi er hraðinn mikill og aukning hefur orðið á því sem um er að vera í lífi barnanna. Þegar skóla lýkur, þá tekur við ýmis konar þjónusta í formi margskonar tómstundastarfs, hvort sem það eru frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, íþróttaæfingar, æskulýðsfélög og/eða tónlistarnám. Þessi starfsemi er afar mikilvæg fyrir andlegan, líkamlegan og félagslegan þroska barnanna. Samþætta þyrfti þá þjónustu sem er í boði innan hverfa, því allir ættu að vinna að sömu markmiðum og kjörið væri að fá alla þá aðila sem vinna með börnum, í aukið samstarf. Til að börn geti stundað sínar tómstundir og fengið sem mest út úr deginum án þess að upplifa streituna og álagið sem því getur fylgt þá þarf að hlúa að þeirri þjónustu sem í boði er. Gott er að huga að því hvernig ólíkar tómstundir geta unnið saman, búa til brú sem hjálpar börnum að fara á milli tómstundastarfa innan hverfis og vinna að því að samvinna sé höfð að leiðarljósi varðandi forvarnarstarf. Hægt er að vinna að því að efla fagþekkingu hvers og eins og miðað að því hver og einn komi með sitt innlegg inn í heildarmynd sem unnið er af sameiningu. Undanfarin ár hefur þessi samvinna aukist á sumum stöðum og þróunin verið í jákvæða átt, höldum samt áfram og gerum ennþá betur!

Ragnar Karl Jóhannsson

Höfundur er uppeldis- og tómstundafræðingur, formaður Hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals og sækist eftir 4.-5. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík.

Leikskólamálin í Reykjavík

Leikskólamálin í Reykjavík eru langt frá því að vera ásættanleg. Laun leikskólakennara og leiðbeinenda eru niðurlægjandi auk þess sem börn komast allt of seint inn á leikskóla. Engin lög eru til um hvenær sveitarfélög eiga að bjóða börnum leikskólapláss og því setja sveitarfélögin sér sjálf viðmið um aldur við inntöku barna. Í Reykjavík er miðað við 18 mánaða aldur þótt oftast séu börn ekki að fá pláss fyrr en um tveggja ára. Verðandi og nýbakaðir foreldrar í Reykjavík mega því búast við að þurfa að bíða í að minnsta kosti eitt ár eftir að fæðingarorlofi lýkur til að komast aftur á vinnumarkað. Það er veruleiki sem blasir við mörg hundruð foreldrum í Reykjavík.

Upphaflegu markmið leikskólanna voru að tryggja börnum sem bestu uppvaxtarskilyrði og tryggja báðum foreldrum jafnan möguleika á vinnumarkaði. Við erum ansi fjarri þeim markmiðum. Mæður brúa oftar umönnunarbilið, konur vinna frekar hlutastörf og eru með lægri laun en karlar.

Dagforeldrakerfið er síðan nánast búið að vera óbreytt frá 1992 og er álíka ólíklegt að komast að hjá dagforeldri og á leikskóla. Dagforeldrakerfið byggir á framboði einkaaðila og sveitarfélögum ber ekki skylda til að niðurgreiða þjónustu þeirra líkt og er með leikskóla. Auk þess held ég að flestir foreldrar myndu frekar velja ungbarnaleikskóla.

Reykjavíkurborg þarf svo sannarlega að grípa til róttækra aðgerða í leikskóla- og dagvistunarmálum. Ég veit ekki hversu lengi við ætlum að horfa upp á kerfi sem þjónar ekki markmiðum sínum og hreinlega eykur á ójöfnuð í okkar samfélagi. Í dag stuðlum við að því að nýbakaðir foreldrar flýja frá Reykjavík enda eru ekki forsendur til að ala upp barn við þessar aðstæður.

Þessu vil ég breyta. Ég vil setja fjármögnun í forgang. Ég vil vera fulltrúi barnafjölskyldna í Reykjavík og ég vil setja alla mína orku í að bæta aðstæður barnafólks. Ég vil að Vinstri græn verði það afl sem kemur Reykjavík upp úr forarpytti í leikskólamálum. Það er eitt stærsta hagsmunamál barnafólks í dag.

Heimildir:
https://www.bsrb.is/static/files/Utgefid_efni/skyrsla-bsrb-um-dagvistunarurraedi-mai-2017.pdf
https://hagstofa.is/media/50332/konur_og_karlar_2017.pdf

Höfundur sækist eftir 3. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík.

, ,

Langtímasýn um fjöregg þjóðarinnar.

Einn mesti auður Íslendinga felst í náttúru landsins. Hún er og hefur verið undirstaða velmegunar, atvinnulífs og afkomu þjóðarinnar um aldir. Þá hefur hún mikið aðdráttarafl fyrir þá sem vilja njóta þeirrar ómetanlegu fegurðar sem landslag, jarðmyndanir, gróður, lífríki og önnur undur íslenskrar náttúru hafa upp á að bjóða. Stöðugur og sívaxandi straumur ferðamanna á náttúrusvæðum landsins er ein skýrasta birtingarmynd þessa.

Öll höfum við notið góðs af þeirri hagsæld sem auknar heimsóknir ferðamanna hingað til lands hafa haft í för með sér. Á sama tíma er brýnt að gæta að því að aukið álag vegna heimsókna ferðamanna valdi því ekki að náttúran beri skaða af. Það þarf að gæta fjöreggsins af kostgæfni.

Nýrri landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, er einmitt ætlað að takast á við þetta verkefni. Drög að áætluninni voru lögð fram til kynningar á nýrri samráðsgátt Stjórnarráðsins á dögunum en um er að ræða stefnumarkandi áætlun til tólf ára sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi síðar í vor. Samhliða áætluninni er einnig í kynningu þriggja ára verkefnaáætlun, þar sem settar eru fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti fjárstuðnings á árunum 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Einnig verður fjármagni veitt í að leiðbeina við gerð innviða svo þeir falli sem best að landslagi og náttúru.

Um tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem tekið er á auknu álagi á náttúru landsins af völdum aukins ferðamannaþunga með heildstæðum og samræmdum hætti og með langtímamarkmið að leiðarljósi. Þannig er áætluninni ætlað að veita yfirsýn yfir brýnustu verkefnin á þessu sviði og tryggja að því fjármagni sem ætlað er til innviðauppbyggingar sé varið með sem skilvirkustum hætti. Ég vil hvetja alla til að kynna sér drögin að lands­áætluninni á samradsgatt.island.is, en þar má einnig skila umsögnum til 26. febrúar næstkomandi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Loftslagsmál eru heilbrigðismál

 

 

Landspítali hefur einsett sér að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum, og hefur í því skyni sett sér metnaðarfull loftslagsmarkmið fram til ársins 2020. Loftslagsmarkmiðin taka til alls spítalans og er ætlað að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga og knýja á um mótvægisaðgerðir sem þjóðir heims, stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur þurfa að grípa til. Landspítalinn stuðlar með setningu loftslagsstefnu að betra umhverfi og heilsu fyrir komandi kynslóðir.

 

Landspítalinn hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar á sviði umhverfismála. Spítalinn hlaut m.a. Samgönguverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2014 og Kuðunginn, umhverfisverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, árið 2014 fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum. Árið 2017 var Landspítali tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, en tilnefningin felur í sér mikla viðurkenningu á störfum spítalans á sviði umhverfismála. Ljóst er að Landspítalinn er til fyrirmyndar í viðbrögðum við loftslagsvandanum og starf spítalans ætti að vera öðrum fyrirtækjum og stofnunum hvatning til þess að setja umhverfismál á dagskrá.

 

Loftslagsbreytingar eru ein af helstu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag. Ísland hefur einsett sér að vera í fararbroddi í viðbrögðum við loftslagsvandanum og til þess að það takist þurfum við öll að leggjast á eitt. Af því tilefni langar mig að hvetja þær stofnanir sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið til þess að móta sér umhverfis- og loftslagsstefnur. Margt smátt gerir eitt stórt! Með setningu loftslagsstefnu er bæði mögulegt að hafa jákvæð áhrif á heilsumál starfsfólks, t.d. með samgöngusamningum, en ekki síst sporna gegn skaðlegum umhverfisáhrifum af völdum rekstrarins s.s. vegna orkunotkunar, innkaupa, matarsóunar og notkunar nauðsynlegra efna.

 

Loftslagsmál eru nefnilega heilbrigðismál. Með setningu árangursmiðaðrar loftslagsstefnu stuðla stofnanir bæði að bættri heilsu starfsfólks og bættri heilsu þjóðarinnar til framtíðar. Þrettánda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna kveður á um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Undir þessi markmið höfum við undirgengist og  því ber okkur í raun skylda til þess að leggja okkar af mörkum. Rétturinn til hreins loftslags og umhverfis er lýðheilsumál sem varðar okkur öll sem samfélag og í raun heiminn allan. Samhent verðum við að takast á við vandann af ábyrgð. Að draga úr loftslagsáhrifum með markvissum hætti með því að ástunda vistvænar samgöngur, skynsama orkunýtingu og skipuleggja innkaup á mat og vörum er ekki bara brýnt heldur nauðsynlegt. Það gerir Landspítalinn öðrum til fyrirmyndar.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.