Endurreisum verkamannabústaðakerfið

Ástandið á húsnæðismarkaðnum í Reykjavík hefur sýnt svart á hvítu að markaðslögmálin ráða ekki við að leysa húsnæðisvandann. Allt of mikið er byggt af stórum, dýrum íbúðum sem tekjulágt fólk ræður ekki við að kaupa og henta ekki barnafjölskyldum.

Svipaða sögu er að segja af leigumarkaðinum. Framkoma stórra fyrirferðarmikilla leigufélaga er svívirðileg. Leigjendur standa frammi fyrir tuga prósenta hækkun á leigu eða að lenda ella á götunni. Þetta er ekki náttúrulögmál heldur afleiðing þess að húsnæðismarkaðurinn þjónar ekki fólki, heldur fjármagni: Það er meiri arður af byggingu dýrra, stórra eigna og fjárfestar sem leggja fé í fasteignafélög krefjast hámarksávöxtunar. Græðgi er rót vandans.

Borgin á að vera gerandi í húsnæðismálum og vinna náið með verkalýðshreyfingunni og öllum sem vilja byggja upp húsnæðiskerfi í anda gömlu verkamannabústaðanna. Það þarf að skapa sem fjölbreyttastan húsnæðismarkað þar sem fleiri form búsetu bjóðast.

Verkalýðshreyfingin og stjórnvöld hafa áður tekið höndum saman um lausn húsnæðisvanda Reykvíkinga með verkamannabústöðum. Það gerðist á millistríðs­árunum þegar húsnæðisskortur í Reykjavík var einn sá versti í allri Evrópu. Á sjöunda áratugnum var Breiðholtið svo byggt og braggahverfunum útrýmt.

Í dag er þörf á sams konar átaki.

Samhent átak með verkalýðshreyfingunni og öðrum sem reka óhagnaðardrifin leigufélög er nauðsynlegt til að leysa húsnæðisvandann til skamms tíma. Slík samvinna er þó enn mikilvægari til langs tíma.

Langtímalausn húsnæðisvandans krefst þess að barnafjölskyldur og tekjulágt fólk sé ekki ofurselt kuldalegum markaðslögmálum; að hér sé starfandi kerfi sem býður fólki upp á fleiri valkosti.

Á næsta kjörtímabili ætla Vinstri græn að taka höndum saman með öllum þeim sem vilja byggja hér húsnæðiskerfi sem þjónar fólki, ekki fjármagni. Því það er best fyrir samfélagið.

Samstíga í átt að betri öldrunarþjónustu

 

 

Í lok apríl fór fram vinnustofa á vegum velferðarráðuneytisins um bætta þjónustu við aldraða. Vinnustofan fór fram í Höfða og var haldin í samvinnu velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er ekki á hverjum degi sem ríki, borg og heilbrigðisstofnanir taka höndum saman til að ræða fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu, í þeim tilgangi að bæta þjónustu á öllum þjónustustigum – og því um að ræða viðburð sem var sérstaklega ánægulegt að boða til.

 

Til þátttöku og samráðs á vinnustofunni voru boðaðir fulltrúar Landsambands eldri borgara, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Alzheimersamtakanna. Vinnustofuna leiddi fulltrúi Landspítala og byggt var á aðferðafræði straumlínustjórnunar (e. lean-hugmyndafræði) í vinnunni.

 

Unnið var sérstaklega með áherslu á mikilvægi samfellu í þjónustu við aldraða frá einu þjónustustigi til annars, miðað við ólíkar þarfir og heilsufarsaðstæður, en einnig hvernig tryggja mætti öldruðum viðeigandi stuðning í samræmi við óskir þeirra, þarfir og lögbundin réttindi. Í lok vinnustofunnar kynntu þátttakendur tillögur að fjórum hugmyndum sem mögulegt er að hrinda í framkvæmd strax á þessu ári.

 

Hugmyndirnar fjórar áttu það sammerkt að ríma allar vel við meginþema vinnustofunnar um aukna samfellu í þjónustu. Sú fyrsta er hugmynd þess efnis að opnuð yrði sérstök síma- og ráðgjafarþjónusta í ætt við neyðarsímann 112 að danskri fyrirmynd, þar sem sérþjálfað starfsfólk greinir í gegnum síma hvar erindið á best heima og hvar sé næsti lausi tími í viðeigandi meðferðarúrræði í samræmi við bráðleika og áhættur. Önnur hugmyndin varðar eflingu heilsuverndar aldraða og forvarnir, þar sem áhersla yrði meðal annars lögð á hreyfingu við hæfi, sálfélagslegt heilbrigði og næringarfræði. Þriðja hugmyndin var þess efnis að á heilsugæslum tæki til starfa þjónusturáðgjafi aldraðra. Slíkir ráðgjafar yrðu málsvarar hins aldraða, gætu leiðbeint og liðsinnt öldruðum varðandi þjónustu og úrræði, stutt við aðstandendur og verið kjölfestan í meðferð þeirra. Fjórða og síðasta hugmyndin er hugmynd um samræmda sjúkraskrá sjúklinga, þar sem sjúkraskrá einstaklings yrði gerð aðgengileg á einum stað. Hún væri eign sjúklingsins sjálfs, uppfærð reglulega og væri aðgengileg honum og meðferðaraðilum hans í rauntíma.

 

Næstu skref í vinnunni eru að hrinda þessum góðu hugmyndum í framkvæmd, og það munum við í velferðarráðuneytinu gera í góðu samstarfi við þá aðila sem komu að skipulagningu vinnustofunnar; Landspítala, Reykjavíkurborg og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og ég hlakka til að fylgjast með þeirri vinnu.

Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

 

Hreinsum strendur landsins

5. maí, er strandhreinsunardagurinn og þá eru allir þeir sem vettlingi geta valdið beðnir um að ganga fjörur í sínu nágrenni og tína ruslið úr þeim. Það helsta sem mun koma upp úr krafsinu er ómælt magn af plasti af öllum stærðum og gerðum. Plastrusl er það helsta sem finna má í fjörum landsins og það er ekki bara það sýnilega, líka agnarsmátt. Svo smátt að það getur smogið inn í fæðukeðjuna og orðið hluti af sjávardýrum sem við leggjum okkur svo til munns.

En hvaðan kemur allt þetta plast? Það er á okkur sjálfum, fólkinu sem byggir Ísland og þessa jörð og stafar einfaldlega af neyslu okkar, sem vex veldisvexti með hverju árinu sem líður. Seldar eru til að mynda milljón plastflöskur á mínútu í dag og það mun bara aukast. Þorri þeirra myndar hluta af þeim bílfarm af plasti sem endar í sjónum á hverri mínútu um þessar mundir og fer fram sem horfir verður meira plast í höfunum en fiskar um 2050. Þar sem hafstraumar mynda hringiður í úthöfunum dregst saman efni sem endað hefur í sjónum. Frægasta dæmið er ruslahringiðan mikla í Norður Kyrrahafi, sem ku vera á stærð við Texas ríki í Bandaríkjunum, eða um sjö sinnum flatarmál Íslands. Fleiri smærri eru til, en vandinn vex.

Utan þess að plastið er til lýta fyrir haf og strandir, stafar dýralífi bein hætta af plastinu. Dýrin festa sig eða flækja í plastgirni, dósaplasthringjum eða innbyrða plastpoka í miklu magni. Hræ fugla og sjávarspendýra sem finnast innihalda jafnan eitthvað af plasti, líka umhverfis Ísland. Það sem verra er þó við plastið er að efnaniðurbrot þess tekur árhundruð. Það leiðir til þess að plastið óbreytt molnar niður og brotnar í æ smærri eindir. Margar sandfjörur heimsins hafa nú mælanlegt hlutfall plasts, plastkorn sem við teljum vera sand. Á endanum verður plastið örplast, sem svo kemst í fæðukeðju sjávardýra, en efst í henni stöndum við mannfólkið. Við erum sumsé farin að borða plastið sem rekur á fjörur okkar.

En hvað er til ráða? Eitt er auðvitað að koma öllu plasti í endurvinnslu, en það er þó bara plástur og leysir ekki vandann. Þá eru mögulegar tæknilausnir, t.d. heyrðist af vísindafólki sem fann bakteríur sem gátu nærst á plastinu. Vandinn hér er þó að það getur haft ófyrirséðar afleiðingar ef örverum yrði t.d. sáldrað yfir ruslahringiðuna miklu í Kyrrahafi. Nú á tímum loftslagsbreytinga og óvissu í umhverfismálum er að renna upp fyrir mörgum að tæknilausnir okkar mannfólksins eru ekki endilega allar til góðs. Eina raunverulega ráðið er að draga úr plastnotkun með öllum ráðum. Upplýsingar og reglusetning vinna best saman þar. Mörg ríki, t.d. í Afríku og Ameríku, hafa bannað plastpoka. Það er til eftirbreytni, eða hreinlega setja 500 kr. gjald fyrir pokann, sem færi þó varla nærri raunverulegum umhverfiskostnaði af pokanum. Það er góðra gjalda vert að plokka sorp úr fjörum eða nærumhverfi sínu, en þegar upp er staðið verðum við að draga úr notkun og neyslu, hægja á og horfa til fjölnota umbúða svo sem úr gleri og leir, sem raunverulega eru bara sandur þegar það molnar niður.

Edward H. Huijbens

Höfundur er varaformaður VG og skipar þriðja sæti á lista VG Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Istanbúl samingurinn fullgiltur

 

Fyr­ir sjö árum var Ísland meðal fyrstu 13 ríkja Evr­ópu til að und­ir­rita samn­ing Evr­ópuráðsins um for­varn­ir og bar­áttu gegn of­beldi gagn­vart kon­um og heim­il­isof­beldi, eða Ist­an­búl-samn­ing­inn. Ein und­ir­rit­un kann að láta lítið yfir sér en á þeim tíma var lyk­il­atriði að fá hóp ríkja að borðinu til að samn­ing­ur­inn hlyti þann slag­kraft sem þurfti til að þoka mál­um áfram. Þá var hægt að setja þrýst­ing á stjórn­völd annarra ríkja til að fylgja í kjöl­farið. Nú hafa næst­um öll ríki Evr­ópu und­ir­ritað samn­ing­inn og þannig skuld­bundið sig til að gera allt sem í þeirra valdi stend­ur til að út­rýma of­beldi gegn kon­um og heim­il­isof­beldi. Í gær full­gilti Ísland samn­ing­inn form­lega og er þá tryggt að ís­lensk lög­gjöf stand­ist öll ákvæði samn­ings­ins, sem er mikið fagnaðarefni.

Ist­an­búl-samn­ing­ur­inn er fyrsti bind­andi alþjóðasamn­ing­ur­inn sem tek­ur heild­stætt á bar­átt­unni gegn of­beldi gegn kon­um. Ákvæði samn­ings­ins og lag­aramm­inn hér á landi ná að sjálf­sögðu til of­beld­is gegn fólki af öllu kynj­um en samn­ing­ur­inn viður­kenn­ir eigi að síður að of­beldi gegn kon­um er kerf­is­bund­inn vandi sem verður ekki upp­rætt­ur nema tekið sé á hon­um sem slík­um. Samn­ing­ur­inn hef­ur fyr­ir vikið hlotið lof bar­áttu­sam­taka kvenna víða um heim.

Með samn­ingn­um eru meðal ann­ars lagðar þær skyld­ur á herðar aðild­ar­ríkj­anna að styrkja þjón­ustu við þolend­ur of­beld­is (þar á meðal and­legs of­beld­is), að tryggja að lög­regla geti fjar­lægt gerend­ur í heim­il­isof­beld­is­mál­um af heim­il­um, að skil­greina nauðgun með skýr­um hætti í hegn­ing­ar­lög­um og að lög­festa ákvæði gegn kyn­ferðis­legri áreitni, nauðung­ar­hjóna­bönd­um, lim­lest­ingu á kyn­fær­um kvenna og þvinguðum fóst­ur­eyðing­um. Á Íslandi var meðal ann­ars inn­leitt sér­stakt ákvæði um heim­il­isof­beldi í hegn­ing­ar­lög og skerpt á lög­gjöf gegn nauðung­ar­hjóna­bönd­um. Einnig var gerð breyt­ing á lög­sögu­ákvæðum þannig að sak­sækja megi ís­lenska rík­is­borg­ara á Íslandi þótt brot þeirra séu fram­in utan Íslands og í lönd­um þar sem verknaður­inn er ekki refsi­verður. Þetta gæti til dæm­is átt við um nauðung­ar­hjóna­bönd og lim­lest­ingu á kyn­fær­um kvenna sem færi fram í lönd­um þar sem slíkt er ekki refsi­vert sam­kvæmt lög­um.

Þess­ar laga­breyt­ing­ar eru mik­il­væg­ur áfangi á langri veg­ferð í bar­átt­unni gegn of­beldi gegn kon­um. En full­gild­ing Ist­an­búl-samn­ings­ins er ekki loka­skrefið, þvert á móti. Nú stend­ur upp á stjórn­völd að tryggja að í hví­vetna verði farið eft­ir samn­ingn­um og að unnið sé í anda hans við stefnu­mót­un og laga­setn­ingu. Ég mun leggja mitt af mörk­um til að svo megi verða. Stýri­hóp­ur á mín­um veg­um, með þátt­töku fimm ráðuneyta, vinn­ur nú að því að hrinda í fram­kvæmd tíma­bær­um úr­bót­um sem varða kyn­ferðis­legt of­beldi og tryggja að Ísland verði í fremstu röð í bar­átt­unni gegn hvers kyns kyn­bundnu of­beldi. Meðal verk­efna stýri­hóps­ins er að gera til­lög­ur um sterk­ari rétt­ar­stöðu brotaþola, móta stefnu um aðgerðir gegn sta­f­rænu kyn­ferðisof­beldi og vinna að heild­ar­end­ur­skoðun for­varna og fræðslu í mennta­kerf­inu og sam­fé­lag­inu al­mennt. Bar­átt­an gegn of­beldi er lang­hlaup, ekki sprett­hlaup, og hér gild­ir að halda áfram svo að dag einn geti börn­in okk­ar vaxið úr grasi án ógn­ar­inn­ar af kyn­bundnu of­beldi.

Höf­und­ur er for­sæt­is­ráðherraog greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu. 

Öruggari og öflugri strandveiðar í sumar

Þverpóli­tísk sam­staða hefur náðst á Alþingi um breyt­ingar á fyr­ir­komu­lagi strand­veiða þar sem öryggi sjó­manna var haft að leið­ar­ljósi. Í sumar verða strand­veiðar efldar með auknum afla­heim­ildum og bátar á hverju svæði fá 12 fasta daga til veiða í hverjum mán­uði.

Sveigj­an­legra kerfi, aukið öryggi og betri afli

Með breyt­ing­unum er sveigj­an­leiki kerf­is­ins auk­inn og sjó­menn geta valið þá daga í hverri viku sem bestir eru til róðra. Þannig eykst mögu­leik­inn á að ná góðu hrá­efni og sem mestum afla í hverri veiði­ferð. Áfram verður svæða­skipt­ing og sjó­menn skrá sig inn á þau svæði sem þeir hafa heim­il­is­festu á og róa þar út tíma­bilið og sami hámarks­afli er í hverjum róðri og áður var. Sú breyt­ing er þó gerð að ufsi er utan hámarks­afla og eru því veiði­heim­ildir vegna strand­veiða í sumar verð­mæt­ari sem því nem­ur. Einnig er ákvæði um heim­il­is­festu sem lág­markar flutn­ing báta á milli svæða en styður við að þeir bátar sem hafa verið að koma til margra brot­hættra sjáv­ar­byggða á sumrin geti áfram stundað veiðar það­an.

Afla­heim­ildir til strand­veiða verðar auknar um 25% frá því sem var lagt upp með í fyrra­sumar og einn sam­eig­in­legur pottur er fyrir öll svæð­in. Allir útreikn­ingar sýna að þessi aukn­ing á að duga til að mæta 12 dögum á bát á hverju svæði allt strand­veiði­tíma­bil­ið. Ráð­herra hefur bæði heim­ild til að stöðva veiðar en hefur líka reglu­gerð­ar­heim­ild til að bæta ónýttum heim­ildum innan 5,3 % kerf­is­ins í pott­inn ef til þess kæmi í lok tíma­bils.

Breyt­ingin sem hér er lögð til hefur það mark­mið að auka öryggi sjó­manna, tryggja jafn­ræði á milli svæða með auknum afla­heim­ildum og efla strand­veiði­kerfið í heild til fram­tíð­ar.

Strand­veiðar eru mik­il­vægar

Afli frá strand­veiði­bátum hefur verið afar mik­il­vægur fyrir fisk­mark­aði og verið hryggjar­stykkið í vinnslu margra fisk­vinnslu­fyr­ir­tækja yfir sum­ar­tím­ann enda yfir­leitt gæða­hrá­efni.

Mögu­leik­inn á að velja veiði­daga getur leitt til betra hrá­efnis sem dreif­ist til vinnslu jafnar yfir mán­uð­inn og ýtir undir eðli­lega verð­myndun á afla og styrkir þannig sjáv­ar­byggðir og mögu­lega nýliðun í grein­inni. Það hefur verið áhyggju­efni hve margir hafa hætt að stunda strand­veiðar und­an­farin ár og milli áranna 2016 og 2017 fækk­aði um 70 báta.

Strand­veiðum var komið á árið 2009 undir for­ystu Vinstri grænna og hafa svo sann­ar­lega sannað til­veru­rétt sinn á þessum tíma þótt sumir hefðu allt á hornum sér gegn þeim í upp­hafi. Strand­veiðar hafa falið í sér mögu­leika á því að geta stundað veiðar í atvinnu­skyni án þess að greiða kvóta­höfum gjald fyrir veiði­heim­ild­ir. Strand­veið­arnar hafa þannig verið skref í átt til rétt­lát­ara fisk­veiði­stjórn­ar­kerfis þó meira þurfi til að lag­færa hið mein­gall­aða kvóta­kerfi með óheftu fram­sali sem farið hefur illa með margar sjáv­ar­byggð­ir.

Stefnu­mörkun til fram­tíðar

Þessi til­raun með breytt fyr­ir­komu­lag og auknar afla­heim­ildir i sumar verður grunnur að vinnu við skipu­lag á fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lagi strand­veið­anna. Skýrsla verður tekin saman um útkom­una eftir sum­arið þar sem lagt verður m.a. mat á áhrif fastra daga á hvert svæði fyrir sig, hvort líta þurfi til mis­mun­andi fisk­gengdar eftir land­svæðum hvað varðar byrjun og lok tíma­bila og hvað magn þurfi til að tryggja 12 fasta daga.

Eftir sem áður ráða veð­ur, afla­brögð og fiskni sjó­manns­ins hvernig hverjum og einum gengur þessa 48 daga sem bjóð­ast til strand­veiða á kom­andi sumri. Það verður aldrei hægt að tryggja öllum fullan skammt í 48 daga frekar en í núver­andi kerfi en sveigj­an­leik­inn verður til staðar til að mæta t.d. bil­un­um, veik­indum og vondum veðrum og meira jafn­ræði verður á milli minni og stærri báta í kerf­inu.

Við tökum svo stöð­una í haust með öllum hags­muna­að­ilum og vinnum með útkom­una í þágu strand­veiði­sjó­manna og sjáv­ar­byggð­anna.

Ég, ásamt Ásmundi Frið­riks­syni og þáver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra, Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur, reyndum að vinna sam­bæri­legt mál í fyrra sem náð­ist ekki sam­staða um. Ég, ásamt félögum mínum í Vinstri græn­um, lögðum fram sam­bæri­legt mál í fyrra á Alþingi sem ekki náði fram að ganga og er það því mikið ánægju­efni að svo breið póli­tísk sam­staða náð­ist um málið núna að frum­kvæði atvinnu­vega­nefndar að tek­ist hefur að ljúka því far­sæl­lega. Vil ég þakka öllum sem að mál­inu hafa komið með jákvæða og lausn­ar­mið­aða nálg­un. Þessi til­raun sýnir að hægt er að þróa strand­veiðar áfram í ljósi reynsl­unnar með því að draga úr slysa­hættu við ólympískar veiðar og koma á meiri fyr­ir­sjá­an­leika í veiðum með föstum dög­um.

Ég vona að vel tak­ist til í sumar og að þetta verði gæfu­spor sem hér er stigið og óska þess að allir strand­veiði­sjó­menn afli vel í sumar og komi heilir til hafn­ar.

Gleði­legt strand­veiði­sum­ar!

Lilja Rafney Magnúsdóttir,

Höf­undur er for­maður atvinnu­vega­nefndar Alþing­is og greinin birtist fyrst á Skessuhorni. 

Lundalíf

Nýlega bárust þær dapurlegu fréttir að alþjóðasamtök fuglaverndarfélaga hefðu sett lundann á válista fuglategunda sem væru í bráðri útrýmingahættu. Þetta eru grafalvarlegar fréttir fyrir okkur Íslendinga, því nærri 60% af lundastofninum verpir á Íslandi. Okkur ber því skylda til að varðveita þennan fallega fugl og varpstöðvar hans.

Einstakt varpland innan borgarmarka
Á síðustu árum hefur lundinn orðið óopinber einkennisfugl Íslands, fulltrúi náttúrufegurðarinnar sem dregur milljónir ferðamanna til landsins. Tugþúsundir ferðamanna fara í lundaskoðunarferðir á sundunum við Reykjavík.

Í borgarlandinu er nefnilega að finna stórar lundabyggðir. Talið er að í Akurey verpi um 19.000 lundapör og í Engey verpi um 8.500 pör. Samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum gerir það eyjarnar að mikilvægum varpstöðvum lundans. Í upphafi yfirstandandi kjörtímabils samþykkti Umhverfisráð að Akurey skyldi friðuð.

Fréttir af því að lundinn sé á válista ættu því að hringja viðvörunarbjöllum: Friðlýsing Akureyjar þolir enga bið!

Fjölgum friðlýstum svæðum í borginni
Verndun Akureyjar er mikilvægt skref til þess að fjölga friðlýstum svæðum í borgarlandinu. Á alþjóðlegan mælikvarða eigum við í Reykjavík mjög mikið af friðlýstum svæðum á hvern íbúa. Við verðum að standa vörð um þessa nálægð við náttúruna, enda er hún ein mikilvægasta sérstaða Reykjavíkur.

Í því sambandi höfum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði lagt áherslu á að á næsta kjörtímabili verð ráðist í metnaðarfullar aðgerðir til þess að stækka friðlýst svæði innan borgarinnar, auka við núverandi svæði, bæta aðgengi og umgengni og koma upp nýjum upplýsingaskiltum til að fræða aðkomufólk og innfædda um náttúruna og sögu borgarlandsins.

Borgarfriðland frá heiðum út á sundin
Reykjavík á að stefna að því að tengja net slíkra verndaðra svæða saman í eitt stórt borgarfriðland sem myndi teygja sig ofan af heiðum og út á sundin.

Slíkt friðland er mikilvægt til þess að varðveita þá ómetanlegu náttúru sem er steinsnar frá íbúum höfuðborgarinnar. Það tryggir að þeir hafi aðgang að útivistarmöguleikum í framtíðinni en væri einnig mikilvæg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu í Reykjavíkur.

Umfram allt er það þó skylda okkar við lífríki jarðar og komandi kynslóðir að varðveita og vernda líffræðilega fjölbreytni og náttúruna. Íbúar Reykjavíkur eru umkringdir einstökum náttúruperlum og er Akurey ein þeirra. Þar líta dagsins ljós þúsundir lundaunga á ári hverju. Sýnum í verki að okkur þykir vænt um náttúruna og dýralífið sem hana prýðir og friðum Akurey.

Líf Magneudóttir er oddviti VG í borginni og forseti borgarstjórnar.

Greinin birtist fyrst á visir.is

Vegna opins bréfs um mál Hauks Hilmarssonar

 

Mál Hauks Hilmarssonar hefur verið í algjörum forgangi hjá utanríkisráðuneytinu frá því það kom upp. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur leitað allra leiða til að komast að afdrifum Hauks og lögð hefur verið áhersla á að vinna náið með fjölskyldu Hauks.

Um leið og fregnir bárust af því að Tyrkir kynnu að hafa Hauk í haldi var haft samband við Tyrki.

Í fyrsta lagi var það gert í gegnum sendiherra Tyrklands í Osló sem er æðsti fulltrúi tyrkneskra stjórnvalda gagnvart Íslandi.

Í öðru lagi hafa íslensk og tyrknesk stjórnvöld, þ.m.t. hermálayfirvöld, verið í stöðugu sambandi eftir ýmsum leiðum frá þeim degi.

Í þriðja lagi hefur mál Hauks hefur verið tekið upp við utanríkisráðherra, varnarmálaráðherra og fjölskyldumálaráðherra Tyrklands. Þær upplýsingar hafa fengist á því að Tyrkir hafi Hauk ekki í haldi og að hans verði leitað meðal látinna og særðra á svæðinu.

Í fjórða lagi hefur verið leitað eftir upplýsingum í gegnum óformlegri samskipti, s.s. við mannúðarsamtök sem hafa aðgang að svæðinu.

Í fimmta lagi hafa lögregluyfirvöld, sem fara með rannsókn mannshvarfa, rannsakað málið, m.a. í gegnum norrænt og evrópskt samstarf lögregluyfirvalda.

Í sjötta lagi hefur verið haft samband við sjö vinaþjóðir til að afla upplýsinga um hvernig staðið sé að svipuðum borgaraþjónustumálum. Þessi ríki hafa öll áréttað að staðan sé einstaklega flókin, og erfitt sé að afla upplýsinga og enn erfiðara að veita aðstoð. Aðrar upplýsingar liggja því miður ekki fyrir að svo stöddu.

Í sjöunda lagi ræddi ég málið við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og bað um aðstoð við að afla upplýsinga um afdrif Hauks. Í kjölfarið áttu íslenskir embættismenn samskipti við þýska embættismenn.

Því miður hefur enn ekkert komið fram sem varpað getur ljósi á hvað orðið hefur um Hauk. Áfram er unnið að málinu af alúð og heilindum innan borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins með þeim úrræðum sem til staðar eru af fullum þunga.

Ekki er unnt að afhenda öll gögn sem til eru um framgang og niðurstöður íslenskra stjórnvalda á hvarfi Hauks. Ástæður þess eru að trúnaður ríkir um milliríkjasamskipti. Einnig er það þannig að sum gögn sem tengjast máli Hauks innihalda upplýsingar um einstaklinga sem geti ógnað öryggi þeirra. Aðstandendur hans hafa hins vegar verið upplýstir um efni og niðurstöðu þeirra samskipta eftir því sem kostur hefur verið.

Íslensk stjórnvöld geta ekki mælt með því að íslenskir ríkisborgarar ferðist til svæðisins, þar sem þeim getur stafað mikil hætta af þeim átökum sem geisa á svæðinu.

Hermálayfirvöld, mannúðarsamtök og borgaraþjónustur samstarfsríkja hafa sagt ástandið á svæðinu mjög óöruggt og hafa raunar ekki haft aðgang að því um nokkurra vikna skeið.

Öll ríkin ráða borgurum sínum frá ferðalögum til Sýrlands almennt enda er geta þeirra til að veita borgaraþjónustu mjög takmörkuð. Ferðaviðvaranir, þar sem varað er við öllum ferðum til Sýrlands vegna ríkjandi ástands, eru því í fullu gildi.

Katrín Jakobsdóttir.

Stórauknar fjárheimildir til umhverfismála

Dagur umhverfisins er í dag haldinn hátíðlegur í tuttugasta sinn. Því er ekki úr vegi að víkja að áskorunum og tækifærum sem fram undan eru í umhverfismálum. Ég hef einsett mér að setja nokkur mál á oddinn í ráðherratíð minni: Loftslagsmál, náttúruvernd, plastmengun, neyslumál og aukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku í umhverfismálum. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verða framlög til umhverfismála aukin um 35% á næstu fimm árum miðað við árið 2017. Hér geri ég loftslagsmál og náttúruvernd að umtalsefni.

Stærsta áskorun samtímans er að halda meðalhlýnun jarðar á þessari öld innan við 2°C og helst innan við 1,5°C. Ríkisstjórn Íslands setur markið hátt og hyggst ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040. Í júní tekur Loftslagsráð til starfa, Loftslagssjóður verður settur á laggirnar á árinu til að styrkja nýsköpun og rannsóknir og unnið er að heildstæðri aðgerðaáætlun til að draga úr útlosun og binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Á næstu fimm árum verður tæpum sjö milljörðum króna varið til loftslagsmála.

Náttúruverndin mun skipa stóran sess á kjörtímabilinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um átak í friðlýsingum og stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Nýverið skipaði ég þverpólitíska nefnd um miðhálendisþjóðgarð. Mörg tækifæri fyrir byggðaþróun eru fólgin í þessari ráðstöfun, enda hafa rannsóknir sýnt að þjóðgarðar skila miklum tekjum í þjóðarbúið og til hinna dreifðu byggða. Samtímis verður að hlúa að ferðamannastöðum sem eru undir stöðugu álagi ferðamanna. Um það vitna nauðsynlegar lokanir svæða nú þegar frost er að fara úr jörðu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er áætlað að auka fjárframlög til náttúruverndar um rúma sjö milljarða króna á næstu fimm árum og fer stór hluti fjármunanna til uppbyggingar innviða til verndar náttúru á ferðamannastöðum, í landvörslu, þ.m.t. heilsárslandvörslu, og til uppbyggingar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands svo eitthvað sé nefnt.

Til hamingju með Dag umhverfisins.

Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Framtíðin er að koma

„Kosningabaráttan á Akureyri líkist meira huggulegu spjalli í saumaklúbb en alvöru kosningabaráttu“.Einhvern veginn svona kynnti Lóa Pind Aldísardóttir umræðuþátt oddvita akureyrsku flokkanna á Stöð2 fyrir fjórum árum. Ég held það sé ekki endilega fjarri sanni enda hefur bæjarstjórnin verið ansi samhent og lítil gagnrýni verið á störf meirihlutans ef undan eru skilin leikskólamálin. Enda var meirihlutinn myndaður á forsendum félagshyggju og jöfnuðar sem er alltaf góður grunnur að stjórnun sveitarfélags. Bæjarfulltrúar hafa unnið af heilindum og heiðarleika og bæjarfélagið okkar er svo heppið að hafa nóg af frambærilegu og góðu fólki sem vill leggja sig fram við að þjóna samfélaginu.

Það er þó eitt sem við í Vinstri grænum teljum hafa vantað mjög upp á. Það er framtíðarsýn. Heimurinn allur er á fleygiferð og miklar samfélagsbreytingar eiga sér stað hvort sem litið er til útlanda eða hingað heim til Akureyrar. Talað er um fjórðu iðnbyltinguna sem byggir á hraðri tækniþróun, notkun gervigreindar, róbótatækni og sjálfvirknivæðingu svo eitthvað sé nefnt að ógleymdum gríðarlegum áskorunum í umhverfismálum.

Hvernig ætlum við að nýta okkur allt það góða sem þessar breytingar hafa í för með sér og hvernig ætlum við að takast á við þær áskoranir sem fylgja?

Ég hef, sem bæjarfulltrúi VG, lagt fram nokkrar tillögur sem sumar hafa hlotið stuðning bæjarstjórnar en aðrar ekki. Ég nefni sem dæmi tillögur um styttingu vinnuvikunnar, samgöngusamninga við starfsfólk, nútímalegri stjórnunarhætti, lækkun leikskólagjalda og eflingu forvarna.

Nú erum við, frambjóðendur VG, að leggja lokahönd á málefnavinnuna okkar. Í henni er ein mjög skýr lína. Við viljum fyrst og fremst leggja áherslu á góða heilsu og almenna vellíðan bæjarbúa. Við viljum einbeita okkur að ungum fjölskyldum og létta undir með þeim með bætingu leikskólakerfisins. Við viljum auka vellíðan nemenda og kennara í skólunum, huga betur að umhverfismálum og minnka sóun, hvetja bæjarbúa til hreyfingar og geðheilsuræktar, minnka stressið og njóta sem best alls þess dásamlega sem umhverfi okkar og samfélag hefur upp á að bjóða.

Á þessu byggjum við okkar málefnaskrá og kosningaloforðið okkar er: Við munum stjórna bænum af skynsemi og framsýni með jöfnuð, vellíðan og sjálfbærni sem okkar leiðarstef.

Sóley Björk Stefánsdóttir

Greinin birtist fyrst á Kaffið.is