Fátt er berdreymi verra

Gekk að heiman í bæinn, en eitthvað virðist undarlegt þegar ég nálgast Lækjargötu og hvað er eiginlega um að vera á Lækjartorgi? Kominn stærðar skriðdreki – eða einhver dreki og stendur ekki dómsmálaráðherra Sigríður þar uppá, gríðarlega vel gölluð og sveiflar vopnum, ekkert rosa stórum, sýnist mér, en mjög mörgum – minnir á hringleikahús – enda snýst höfuð drekans hring eftir hring eftir hring.

Fyrir framan drekann standa nokkrir lögreglubílar, sá fremsti  sýnu glæsilegastur og uppá honum stendur sjálfur ríkislögreglustjóri Haraldur, vel borðum búinn og glampar á fíneríið. Í samræmi við upplýsingasíðu lögreglunnar þar sem lesa má: „Ríkislögreglustjórinn er eigandi allra ökutækja lögreglunnar.“

Til hliðar, fyrir framan Stjórnarráðið, stendur forsætisráðherra Bjarni með rosalega tertu fyrir framan sig. Girtur byssubelti sveiflar hann hnífum og æpir: „Stríðsterta dauðans, stríðsterta dauðans – best fyrir börnin“.

Nær mér við Austurstrætið sé ég fjármálaráðherra Benedikt og viðreisnarvini. Þau eru líka með byssubelti og leiðast í einskonar hringdansi – sönglandi: „Göngum við í kringum hryðjuverkaógn, hryðjuverkaógn, göngum við í kringum hryðjuverkaógn snemma á laugardagsmorgni; svona gerum við er við grípum vopna til, grípum vopna til, svona gerum við er við grípum vopna til snemma á laugardagsmorgni“ og um leið rífa þau öll byssur úr beltum og skjóta villt og galið upp í loftið. Þá sé ég að innan hringsins er ekkert – ekki einu sinni einiberjarunni!

Við vopnaskakið kemur órói á mannfjöldann sem hefur safnast saman. Einn tekur sig útúr hópnum, hleypur að bíl lögreglustjóra Haraldar og vippar sér léttilega uppá bílþakið, þaðan beint á drekahöfuðið og kastar sér um háls dómsmálaráðherra Sigríðar. Skyldi hann hafa verið í Vesturporti, hugsa ég, um leið og ráðherrann hristir manninn af sér. Hann snýr sér við, tvístígandi Sé ég þá að þar er kominn heilbrigðisráðherra Óttarr.

Það er að líða yfir mig – og ég dett – en vakna um leið í svitakófi, í rúminu mínu.

Hverslags martröð var þetta eiginlega, upp og út eina leiðin og ég gekk að heiman, í bæinn, hristi hausinn, veit að eitthvert litahlaup eða ganga á að vera þennan morguninn og mér mætir vissulega litadýrð en einnig byssubúnir löggumenn.

Í framhaldinu kváðu dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri nauðsynlegt að láta vopnin verða sýnileg við allar samkundur. Ákvörðunin var greinilega ekki komin 1. maí, þá hefðu auglýsingar hljómað: „Launafólk, mætum öll í vopnum varða kröfugöngu, krafan er: aukum sýnileika lögguvopna – ASÍ og dómsmálaráðherra.“

Mánudaginn 12. júní fundaði svonefnt Þjóðaröryggisráð Íslands, fundarstaður nýuppgert hernaðarbyrgi bandaríska Natóhersins á Íslandi.

Í dag, þriðjudaginn 13. júní, lýsti ríkislögreglustjóri Haraldur því yfir að sérsveitarmenn yrðu á vopnavappi á 17. júní sem og á tónlistarhátíðinni Secret Solistice Festival.

Ég minnist orða ömmu minnar: Fátt er berdreymi verra.

Dómsmálaráðherra Sigríði, ríkislögreglustjóra Haraldi og öðrum ráðamönnum ríkisstjórnar, sem virðist óttast þegna landsins öðrum fremur, bendi ég á að flytja í nýuppgerða vopnabyrgið á Vellinum – vera þar og láta okkur hin í friði.

Pistillinn birtist fyrst í Stundinni. 

Birna Þórðardóttir, ferðaskipuleggjandi

Aðhald eða einkafjármagn

Samþykkt ríkisfjármálaáætlunar næstu fimm ára hvarf aðeins í umræðunni um fúsk stjórnarflokkanna við skipan dómara í Landsrétt. Nú hefur stjórnarmeirihlutinn samþykkt þá sýn sem hann hefur á samfélagið næstu fimm árin. Og sú sýn á lítið skylt við loforðin sem hljómuðu svo vel fyrir kosningar, ekki síst þegar kemur að heilbrigðismálum.

Það virðist raunar hafa farið fram hjá mörgum að bæði Vinstri græn og Samfylking gerðu tillögur um úrbætur á fjármálaáætluninni. Raunar stóð stjórnarandstaðan samhent að tillögu um að áætluninni yrði vísað aftur til ráðherra sem mundi vinna hana betur.

Tillögur okkar í Vinstri grænum gengu út á það að stækka rammana; að auka bæði við tekjur og útgjöld ríkisins. Það kom nefnilega nokkuð á óvart að Viðreisn, sem kenndi sig við kerfisbreytingar, og Björt framtíð, sem kenndi sig við baráttu gegn fúski, skyldu gera það að sínu helsta baráttumáli að standa vörð um skattkerfið sem Bjarni Benediktsson kom á í tíð sinni sem fjármálaráðherra og fjármálaáætlun sem var svo mikið fúsk að fjármálaráð gaf henni falleinkunn.

Sýn ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm árin er aðhald og hlutfallslegur samdráttur í samneyslunni þar sem öll útgjöld verða að rúmast innan hagsveiflunnar. Í staðinn fyrir að standa með þeirri stefnu, hafa ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans hins vegar beitt talnaleikfimi til að fegra stöðuna.

Vinstri græn telja hins vegar rétt að auka við samneysluna. Við viljum fara í þá uppbyggingu innviða sem allir voru sammála um fyrir kosningar og við erum óhrædd við að tala fyrir auknum tekjum ríkisins. Við viljum hins vegar beita skattkerfinu sem jöfnunartæki, þannig að þau sem best hafi það leggi meira til samfélagsins. Því miður varð aðhaldskrafa hægri aflanna ofan á, en þó læðist að manni sá grunur að ríkisstjórnin muni ekki þora annað en að fara í uppbyggingu. Það fé mun hins vegar koma frá einkaaðilum, þar sem fjármálaáætlunin setur útgjöldum ríkisins skýran ramma. Og þá munu stjórnarliðar fara í rökleikfimi við að útskýra að það sé nú ekki einkavæðing.
 
Höfundur er þingmaður VG.

Um nýliðinn þingvetur

rvk_n_1-katrin-jakobsdottir_crop-1rvk_s_1-svandis-svavarsdottir_crop-1

Af nýliðnu þingi
Þingveturinn var um margt óvenjulegur. Ný ríkisstjórn tók við í janúar og þá strax fóru þingmenn Vinstri-grænna í fundaferð um landið til að fara yfir úrslit kosninganna og stjórnmálaástandið. Marga félaga okkar þyrsti í að fá fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum þar sem við fórum yfir það hvernig við hefðum viljað ná fram raunverulegri stefnubreytingu innan mögulegrar ríkisstjórnar til að geta staðið við það sem sagt var fyrir kosningar.

Ný ríkisstjórn fór aðra leið; stjórnarsáttmálin var almennt orðaður og um leið kom fram löng þingmálaskrá með rúmlega hundrað málum; eftir þinghaldið eru heimturnar rýrar og megnið af samþykktum þingmálum eru EES-innleiðingar. Það breytir því þó ekki að pólitísk sýn ríkisstjórnarinnar liggur fyrir eftir veturinn. Málin sem sett voru á oddinn fyrir kosningar; hvort sem um er að ræða uppbyggingu heilbrigðiskerfis, skólakerfis, samgangna og annarra samfélagslegra innviða; hafa verið sett á bið – og þau mál sem Viðreisn og Björt framtíð töluðu fyrir, svo sem breytingar á sjávarútvegskerfinu, landbúnaðarkerfinu og þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB, eru líka á bið. Það mál sem ríkisstjórnin náði í gegn með eins manns meirihluta – þar sem öll stjórnarandstaðan greiddi atkvæði gegn áætluninni – er fjármálaáætlun til fimm ára.

Dregið úr þjónustu við almenning
Fjármálaáætlunin er römmuð inn í strangar fjármálareglur sem eiga rætur að rekja til nýfrjálshyggju þar sem öll áhersla er á lækkandi hlutfall samneyslunnar sem þýðir á mannamáli að draga úr þjónustu við almenning án sýnilegra markmiða eða ávinnings fyrir okkur sem myndum samfélagið hér á Íslandi. Sömuleiðis boðar áætlunin enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins og auka ójöfnuð í landinu.

Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Ef við viljum ráðast gegn þessari misskiptingu þarf endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur og skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum. Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Og að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar. Við Vinstri-græn höfum talað fyrir allt annars konar sýn og lagt fram tillögur, meðal annars að skattkerfisbreytingum, sem því miður hafa allar verið felldar.
Sveltistefna, einkavæðing og misskipting
Heilbrigðismálin hafa verið í kastljósinu þar sem erfitt hefur verið að fá skýrar yfirlýsingar frá heilbrigðisráðherra Bjartrar framtíðar um málefni einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja – sem hefur þó fengið skýra leiðsögn frá fólkinu í landinu, nú síðast í nýrri skoðanakönnun þar sem fram kemur að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill félagslega rekið heilbrigðiskerfi sem sé nægjanlega fjármagnað til að það þjóni markmiðum sínum

Menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins virðist hafa gefist upp fyrir fjármálaráðherra Viðreisnar sem talar fyrir „heilbrigðri“ fækkun nemenda á framhalds- og háskólastigi. Fjármálaáætlunin er mun lakari fyrir framhaldsskóla landsins en fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar sem samþykkt var í ágúst sl. Afleiðingarnar láta ekki á sér standa, strax á að ráðast í óígrundaðar sameiningar og aukinn einkarekstur innan framhaldsskólakerfisins. Forsætisráðherra hefur látið frá sér formennsku í Vísinda- og tækniráði sem kemur ekki á óvart miðað við framtíðarsýn fjármálaáætlunar.

Hluti ríkisstjórnarinnar kynnir neyðaraðgerðir í húsnæðismálum en samþykkir um leið fjármálaáætlun þar sem húsnæðisstuðningur hins opinbera minnkar ár frá ári. Og enn bólar ekki á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þó að haldinn hafi verið blaðamannafundur um að slík áætlun verði lögð fram. Boðuð er sala á öllum eignarhlutum ríkisins í bönkunum án þess að nein framtíðarsýn hafi verið mörkuð um fjármálakerfið og fjármálaráðherrann hefur verið á harðahlaupum undan spurningum um sölu Kaupþings á hlut í Arion-banka til vogunarsjóða sem upphaflega var fagnað af ríkisstjórninni þó að hún virðist smám saman átta sig á því að vogunarsjóðir með eignarhald á aflandssvæðum séu ekki góðir framtíðareigendur fyrir fjármálafyrirtæki.

Að lokum eru ein stærstu vonbrigði fjármálaáætlunarinnar sú framtíðarsýn sem birtist um kjör öryrkja og aldraðra. Það er algjörlega óviðunandi að á þeim tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu. Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu öryrkjar fá 288 þúsund króna mánaðarlaun árið 2022 sem allir hljóta að sjá að eru ekki mannsæmandi kjör í neinum skilningi þess orðs.

Þegar þessi fjármálaáætlun var samþykkt staðfesti ríkisstjórnin pólitíska stöðu sína langt til hægri. Ríkisstjórnin er sett saman af flokkum sem eiga rætur í ysta hægri íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn og svo Bjartri framtíð sem hefur glatað sínu erindi með því að undirgangast áherslur Sjálfstæðisflokksins í stóru og smáu. Baráttumál Viðreisnar fyrir kosningar, kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði og aðildarumsókn að ESB eru allt mál sem eru sett til hliðar og virðist svo sem ríkisstjórnin snúist í raun um það eitt að standa saman um aukna misskiptingu, einkavæðingu innviða samfélagsins og sveltistefnu.

Nýr Landsréttur í ósátt og uppnámi
Lokaafrek ríkisstjórnarinnar var svo að leggja fram tillögu um skipan fimmtán nýrra dómara við nýtt millidómstig, Landsrétt. Dómsmálaráðherra vék þar verulega frá tillögu dómnefndar og færði fjóra aðila sem metnir voru í hópi fimmtán hæfustu umsækjenda niður og færði upp fjóra aðra, upphaflega með þeim rökum að hún vildi meta dómarareynslu þyngra en dómnefnd hefði gert en í þeim rökstuðningi sem síðar var lagður fram vísaði ráðherrann einnig til kynjasjónarmiða og hefur í fjölmiðlum bent á formenn stjórnmálaflokkanna sem ábyrgðaraðila fyrir þeim sjónarmiðum. Þar er rétt að halda til haga að við Vinstri-græn höfum haldið til haga þessum sjónarmiðum og að sérstakt tillit verði tekið til jafnréttislaga við skipan dómara í Landsrétt. Þau lög byggjast hins vegar á þeirri forsendu að valið standi á milli tveggja umsækjenda sem metnir eru jafn hæfir og við, ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, bentum á að ráðherrann hefði ekki fært fullnægjandi rök fyrir því máli sínu. Því ber að halda til haga að ráðherrann einn ber ábyrgð á sinni tillögu og getur ekki vísað á aðra í því. Minnihlutinn óskaði eftir því að málinu yrði frestað og ráðherra og Alþingi fengju aukinn tíma til að fara yfir þetta mikilvæga mál. Við því var ekki orðið og neytti meirihlutinn því aflsmuna sinna til að samþykkja fimmtán nýja dómara við Landsrétt í bullandi ágreiningi þar sem augljóslega hafði ekki gefist tími til að fara yfir málið með fullnægjandi hætti. Það er grafalvarlegt í lýðræðissamfélagi að svo naumur meirihluti skuli fara fram með þessum hætti þegar um er að ræða eina grein hins opinbera valds, dómsvaldið, og skipan þess. Í tíð fyrri ráðherra málaflokksins var mikil áhersla á að leiða fram lagaumgjörð og inntak nýs dómstigs í sátt. Nýr ráðherra hefur nú þverbrotið það ferli, gengið fram á skjön við þann anda sem ríkti á fyrri stigum málsins. Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endann á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.

Stjórnarandstaða um allt land í allt sumar
Nýr þingflokkur VG hefur verið vinnusamur og þróttmikill og staðið vel saman í málflutningi og tillögugerð. Þingflokkurinn hefur lagt sig fram um að skapa samstöðu í stjórnarandstöðunni þar sem það hefur átt við og veitt stjórnarflokkunum öflugt aðhald í þinginu. Ljóst er að stjórnarandstaða gegn svo veikri stjórn sem hér er og svo hægrisinnaðri þarf að koma víðar að. Hún þarf sannarlega að vera öflug í þinginu en ekki síður fyrir utan þingið, í fjölmiðlum og manna á meðal. Þessi ríkisstjórn hefur ekkert umboð til að ganga í skrokk á innviðum samfélagsins og valda á þeim varanlegum skaða. Hún þarf að finna fyrir stjórnarandstöðu um samfélagið allt. Leggjum okkar af mörkum.

 

Gleðilegt sumar.

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir. 

 

Vandræðaleg áætlun með hægri ofurhalla

Til­gangur rík­is­fjár­mála­á­ætl­unar er meðal ann­ars gegn­sæi, festa í fjár­málum og skil­virkni. Í 360 síðna plaggi sem lá fyrir Alþingi til umræðu eru slík mark­mið sett fram undir regn­hlíf sjálf­bærni og fram­sýni, svo að vitnað sé í tvö kjör­orð rík­is­stjórn­ar­inn­ar. En því er í raun ekki að heilsa. Það mætti frekar nefna orðin ójöfnuð og mis­rétti ef miðað er við hag þorra fólks og vel­ferð í ljósi þess­arar áætl­un­ar. Í henni eru mörg mark­mið en til þess að raun­gera flest þeirra þurfa rík­is­tekjur að ná vel fram úr tekjum í núver­andi fjár­lög­um. Tekju- og gjald­ara­mmi rík­is­fjár­mála­á­ætl­unar verður líka að vera skýr. Það er hann ekki, þegar kemur að fyrsta nið­ur­broti til mál­efna. Grunn­ur­inn að áætl­un­inni verður að vera traustur og í almanna­hag, en hann er í raun sprungum settur og í hag lít­ils minni hluta þjóð­ar­inn­ar. Giska má á 10-20% þjóð­ar­inn­ar, allt eftir efna­hags­við­miði.

Svelti­stefna

Rík­is­út­gjöld til fimm ára, þ.e. rammann, sjáum við í gild­andi fjár­lögum 2017 og þeim við­bótum eða skerð­ingu, ár frá ári, sem hann set­ur. Upp­hæðir koma fram í einni línu, þ.e. fimm upp­hæðum sem skipt er á árin 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022. Með því að draga upp­hæð eins árs frá upp­hæð næsta árs, t.d. upp­hæð fram­lags 2017 frá upp­hæð fram­lags 2018, og þannig koll af kolli, fæst breyt­ingin milli ára. Þannig hækkar eða lækkar fram­lag rík­is­ins til máls­viðs miðað við næsta á undan og svo grunn­upp­hæð­ina 2017. Ég hef kallað þetta töfra­lín­una í sér­hverjum af 34 mál­efna­flokk­um. Þessa línu eina verðum við nefni­lega að nota til að meta rík­is­fjár­mála­á­ætlun til fimm ára með hlið­sjón af núver­andi útgjöld­um. Við fyrstu sýn blasa við fimm mögur ár í lyk­il­flokkum og sú sýn styrk­ist við yfir­ferð þeirra allra. Af hverju er rík­is­fjár­mála­á­ætl­unin mög­ur? Jú, þarna er óað­gengi­legt 41,5% útgjalda­þak miðað við verga lands­fram­leiðslu. Þarna eiga fram­farir í helstu mál­efna­flokkum að mið­ast við jákvæða eða nei­kvæða hag­sveiflu eins og hún sé eitt­hvert nátt­úru­lög­mál sem stýra skal sam­neysl­unni. Auð­vitað er henni í raun stjórnað póli­tískt. Tals­menn nýfrjáls­hyggju reyna þannig að mála stefnu sína í felu­litum um leið og þeir ganga á hólm við vel­ferð­ar­kerfið í breiðum skiln­ingi, við sam­göngur og flesta aðra þætti sam­neysl­unn­ar, jafn­vel fram­halds­skóla lands­ins og háskóla. Van­fjár­mögn­unin er þar með orðin afsökun fyrir einka­væð­ingu í gervi Klíník­ur­innar, sam­ein­ingar Tækni­skóla og Ármúla­skóla og til­von­andi einka­rekstrar sam­göngu­mann­virkja með veggjöldum. Allt eru þetta skýr, sér­tæk og vil­höll póli­tísk mark­mið; póli­tísk hag­fræði. Hún er áfram­hald­andi ávísun á auk­inn ójöfn­uð, meiri fátækt og and­stæður þess: Aukið ríki­dæmi í sam­fé­lagi, þar sem nægir aurar eru fyrir í efstu lögum sam­fé­lags­ins.

Er til önnur leið?

Hvernig fitum við rík­is­fjár­mála­á­ætlun á þann hátt sem væri til alvöru­úr­bóta fyrir flesta, með ein­hvers konar félags­legum aðferð­um? Við hefjum fjár­öflun meðal auð­manna, stór­eigna­fólks, og stórra fyr­ir­tækja sem nýta t.d. auð­lindir í almanna­eigu. Setja má á græn gjöld og nýta heim­ildir til gjalda fyrir þjón­ustu og aðgang að nátt­úr­unni, m.a. í ferða­þjón­ust­unni, til dæmis með komu­gjöld­um. Við nýtum sem sagt skatta og gjalda­kerfið til hins ýtrasta, ekki þó á þann hátt sem margir hægri menn reyna að kenna okkur hinum um, ekki með því að skatt­leggja heim­ili almennt, eða fyr­ir­tæki almennt, eins og látið er í veðri vaka, nema t.d. með grænum gjöldum sem eru lágar upp­hæð­ir. Vinstri græn telja aftur á móti að unnt sé að ná 53–75 millj­örðum á ári á ólíka vegu, þó aðal­lega í vasa vel­meg­andi þegna og vel­meg­andi fyr­ir­tækja. Upp­hæðin fer stig­hækk­andi milli ára. Til dæmis má ná inn nokkrum millj­örð­u­m króna með því að hækka fjar­magnstekju­skatt úr 20% í 30% á fáein efstu pró­sent þeirra sem slíkt greiða og eiga yfir helm­ing alls fjár­magns af þessu tagi. Það á einmitt að gera í stað þess að lækka skatta um 13 millj­arða, eins og gert er um þessar mund­ir, og skapa sára fjár­þörf um allt land. Auknar rík­is­tekjur eru ekki sjálf­krafa ávísun á þenslu ef fjár­munir eru settir í valin vel­ferð­ar-, mennta- og sam­göngu­verk­efni um land allt, m.a. á svoköll­uðum köldum svæð­um. Og lækkun rík­is­út­gjalda nú, nið­ur­greiðsla til skulda á þessum tíma, á ekki að kosta alvar­legan vanda tug­þús­unda manna. Það má hægja á skulda­skil­um. Lítil breyt­ing þar skilar miklu til sam­neysl­unnar sem verður að bæta og auka. Nöldur um að skatta­hækk­anir nemi einni milljón króna á manns­barn á að fela stað­reyndir um á hverja þeir leggj­ast. Þorri almenn­ings bæri létt­ar, nýjar byrð­ar, ef nokkr­ar.

Olía á eld ójöfnuðar

Það er áhugavert að gægjast inn um glugga Alþingis nú við lok þingsins og rýna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hún er meginafrakstur þessa þingvetrar, hvernig sem á það er litið. Hún virðist í einfaldri mynd ganga út á þrennt: samdrátt í ríkisrekstri, lágmarksfé í uppbyggingu innviða og því að létta skattbyrði af þeim efnaðari.

Þessari stefnu er svo ætlað að keyra áfram nútímalegt og blómlegt samfélag, byggt á nýsköpun og grænum atvinnuháttum (í anda atvinnustefnu Vinstri grænna frá því fyrir um áratug).

En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Nýsköpun kemur ekki upp úr engu. Sprotar fæðast ekki í fjársveltu menntakerfi. Ferðaþjónusta þrífst illa á holóttum malarvegum, einfasa rafmagni og ótraustu netsambandi. Þessir breyttu atvinnuhættir og sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir útheimtir einfaldlega verulega öflugri innviði og sterkari samrekstur.

Það er bleikur fíll í þessu líka. Það er engin alvöru peningastefna til að jarðtengja fjármálaáætlunina. Engin sátt um það hvernig skuli ná stjórn á ofrisi krónunnar. Það er svo komið að við Íslendingar erum orðin vön því að hugsa og reka okkur sjálf eins og Vogunarsjóðir. Þeir þrífast líka á áhættu og óvissu.

Kjarni vandans birtist svo þegar þessir stóru gallar fjármálaáætlunarinnar leggjast allir saman á eitt; það myndast olía á eld ójöfnuðar. Óstöðugleiki og veik samneysla eykur ójöfnuð. Og það er ójöfnuðurinn sem er mesta áhyggjuefni stjórnmálanna um allan heim. Með breikkandi bilinu fjölgar reiðum á öðrum endanum og firrtum á hinum endanum.

Verst af öllu er svo að á endanum geta jaðrarnir náð saman, þannig að réttlát reiði þeirra sem of lítið hafa umbreytist í byr í segl þeirra firrtu. Og þá geta myndast kjöraðstæður til að rækta pólitísk skrímsli í skápum, sem hafa alltof víða verið að láta á sér kræla í alþjóðlegum stjórnmálum. Það vill held ég ekkert okkar fara þangað.

En við verðum þá að taka beygjuna þegar kemur að næstu gatnamótum.


 Óli Halldórsson
Höfundur er varaþingmaður VG.

Menningarslys við strendur landsins ef ekkert verður að gert!

Lilja Rafney Magnúsdóttir skrifar:

Fyrir skemmstu bárust svör frá þremur ráðherrum við spurningum mínum varðandi sjóvarnir almennt og skráningu og vernd menningaminja á ströndum landsins sem bornar voru fram af gefnu tilefni. Vitað er að víða hefur hafið gengið á ströndina og afmáð menningarminjar sem þar voru. Þá er ljóst að þær breytingar sem eiga sér nú stað á loftslagi, veðurfari og sjávarstöðu geta orðið til þess að auka þörf fyrir sjóvarnir og annan viðbúnað til að bregðast við hættu af sjávarflóðum.

Sjávarborðsbreytingar og sjávarborðsmælingar

Það er í verkahring sveitarfélaga að fylgjast með sjávarrofi og leggja fram óskir um varnir gegn sjávarflóðum og aðgerðum til að stöðva rofið. Ýmis vitneskja um sjávarrof og þörf fyrir sjóvarnir liggur fyrir hjá sveitarfélögunum og Vegagerðinni, sem annast gerð sjóvarnaáætlunar, og Vísindanefnd um loftslagsbreytingar, sem vinnur að skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga hér á landi, mun leggja mat á líklegar breytingar á sjávarborðshæð vegna loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra. Ætlunin er að Veðurstofa Íslands og fleiri aðilar nýti þá þekkingu sem fyrir liggur á þessu sviði, og safnast mun, til þess að gera hættumat vegna sjávarflóða og er það vel.

Talsverð þekking á sjávarborðsbeytingum og sjávarrofi liggur fyrir hér á landi og ekki fer á milli mála að nauðsynlegt er að fylgjast vel með þróuninni á þessum vettvangi þar sem byggð í þéttbýli og dreifbýli er í húfi. Það vekur því nokkra undrun að enginn opinber aðili beri ábyrgð á því að gera sjávarborðsmælingar, halda saman þeirri vitneskju sem þær myndu skila og koma henni á framfæri á vettvangi samfélagsins. Nauðsynlegt er að bæta þar úr hið fyrsta.

Menningarminjum skolar burt

Undanfarin ár hafa borist ábendingar úr ýmsum áttum um að menningarminjar á ströndum landsins séu í hættu vegna sjávarrofs og vitað er að sums staðar hefur hafið þegar afmáð slíkar minjar til óbætanlegs tjóns fyrir íslenska menningarsögu. Minjastofnun Íslands hefur þróað aðferðir til að skrá fornleifar við ströndina og gert drög að áætlun um það verkefni, sem er hafið í litlum mæli, en gengur alltof hægt vegna fjárskorts og þar verður að spýta í lófana svo ekki fari illa í ljósi þess að vitað er um fjölda minjastaða sem liggja undir skemmdum eða eru í yfirvofandi hættu vegna ágangs sjávar.

Í svari mennta- og menningamálaráðherra við spurningum mínum um skráningu og vernd menningarminja á ströndum landsins, sem unnið var af Minjastofnun Íslands, kemur fram að skráning allra minja á strandlengju landsins myndi að líkindum kosta um 330 millj. kr. Þetta er í rauninni ekki mikið fé en málefnið er aðkallandi og ættu stjórnvöld að gera það að forgangsmáli að hrinda því í framkvæmd áður en mikilvægur þáttur í menningarsögu þjóðarinnar fer í sjóinn og hverfur um aldur og ævi.

Nauðsyn ber til að gerð verðir verndar- og aðgerðaráætlun fyrir menningarminjar á ströndum landsins. Verstöðvar, sjóbúðir, naust, uppsátur og önnur mannaverk sem voru liður í lífsbaráttu fyrri kynslóða eru mikilvægur hluti menningararfs okkar. Við höfum ekki til að dreifa glæsihöllum eða húsagerðarlist kónga og keisara Evrópu. Saga okkar er varðveitt í lágreistum menningarminjum hvarvetna á strandlengju landsins og okkur ber að sýna henni tilhlýðilegan sóma og tryggja fjármagn til skráningar, rannsókna, vöktunar og sjóvarna þar sem því  verður við komið.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Höfundur er alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi.

Nefnd í stað fjármagns

Stærsta mál hverrar ríkisstjórnar er fjármálaáætlun sem er rammi utan um útgjöld og tekjuöflun samfélagsins til næstu fimm ára. Sú fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar á Alþingi afhjúpar dapra framtíðarsýn þessarar óvinsælu stjórnar.

Stjórnmálaflokkarnir fengu skýrar leiðbeiningar frá almenningi fyrir kosningar þegar ríflega 86.500 manns skrifuðu undir áskorun um verulega aukin framlög til heilbrigðisþjónustu. Því miður er þeirri áskorun ekki mætt. Til dæmis er ekki gert ráð fyrir að mæta uppsafnaðri viðbótarfjárþörf Landspítalans þó að allar upplýsingar liggi fyrir um hana frá stjórnendum spítalans. Í staðinn leggur meirihluti fjárlaganefndar til að spítalanum verði skipuð pólitísk stjórn. Háskólarnir bera skarðan hlut frá borði. Fjármálaráðherra hefur beinlínis lýst þeirri framtíðarsýn að stefnt verði að „heilbrigðri fækkun“ háskólanema. Aukning til háskólanna felur fyrst og fremst í sér nýja húsbyggingu sem hefði verið mun ódýrara að ljúka við fyrir nokkrum árum en aukningin verður engin árið 2018 og aðeins 2,1% árið 2019. Þetta er fjarri samþykktum markmiðum Vísinda- og tækniráðs. Þetta er líka fjarri því sem talað var um fyrir kosningar.

Í ágúst síðastliðnum samþykkti þáverandi meirihluti Alþingis fjármálaáætlun. Tekist var á um margt í þeirri áætlun en þar var þó skýrt sagt að áætluð hagræðing vegna ákvörðunar ráðherra um að stytta nám til stúdentsprófs myndi skila sér til skólanna. Í núverandi áætlun verða þessi framlög orðin ríflega 1,4 milljörðum lægri árið 2021 en í síðustu áætlun. Varla þarf að taka fram að flokkarnir voru þöglir um þennan niðurskurð fyrir kosningar.

Enn vantar fullnægjandi greiningu á áhrifum skattabreytinga á ferðaþjónustu og varhugavert er að lækka efra þrep virðisaukaskatts í þeirri þenslu sem nú er í íslensku samfélagi. Í stuttu máli byggist þetta stærsta plagg ríkisstjórnarinnar á veikum tekjugrunni og snýst um óboðaðan niðurskurð en ekki þá uppbyggingu íslensks velferðarsamfélags sem almenningur kallaði eftir í seinustu kosningum.
Við Vinstri-græn leggjumst gegn þessari áætlun því að hún er ekki aðeins metnaðarlaus heldur beinlínis skaðleg. Við viljum samfélagsuppbyggingu fyrir alla og sanngjarna tekjuöflun. Það er hægt.

Dapurlegur vesaldómur ríkisstjórnarinnar

Ögmundur Jónsson skrifar:

Nýlega festi erlendur auðmaður kaup á einni landmestu jörð á Íslandi, Grímsstöðum á Fjöllum, mestöllum hluta jarðarinnar í einkaeign. Sami aðili fer nú eins og ryksuga um Norð-Austurland, kaupandi hverja jörðina á fætur annarri, að eigin sögn til að verja og vernda jarðirnar fyrir ágangi.

Í Kastljósi Sjónvarpsins fyrir nokkru vildi hann ekki upplýsa hvað yrði um jarðirnar eftir sinn dag en af óljósu svari hans mátti ráða að hann teldi að þá væru þær orðnar sjálfbærar sem atvinnurekstur fyrir laxveiðar. Með öðrum orðum, varla byrði á eigendum, þvert á móti arðvænleg eign.

Auðmenn fjarlægja okkur landinu
Þetta er vissulega þróun sem ekki er ný af nálinni en alltaf færumst við fjær því að „hinn almenni maður“ geti komist í laxveiðar á Íslandi. Eftirspurn auðmanna með fulla vasa fjár eftir því að renna fyrir lax á „ósnortnu“ Íslandi hefur séð fyrir því. Ekki færir það almenning nær landi sínu þegar eignarhaldið er komið út fyrir landsteinana. Og stöðugt berast fréttir af landakaupum erlendra auðmanna víðar á landinu og er fylgifiskurinn iðulega sá að þeir reyni að loka að sér.

Vildu selja ríkinu en fengu aldrei svar
Fram hefur komið að Grímsstaðamenn vildu helst selja ríkinu og á annað hundrað einstaklingar úr öllum stjórnmálaflokkum, öllum aldurshópum, frá öllum landshlutum, úr nánast öllum starfsstéttum, höfðu óskað eftir því að svo yrði gert.

Þeir sem skrifuðu undir áskorun í þessa veru, voru hins vegar aldrei virtir svars og þegar Grímsstaðamönnum barst kauptilboð frá breska auðkýfingnum Radcliffe, sem endanlega keypti, var ríkisstjórnin enn á ný spurð hvort ríkið vildi kaupa. Ekkert svar!
Þetta er ekki bara dónaskapur heldu líka dapurlegur vesaldómur.

Einhliða umfjöllun í Kastljósi
Í umræddum Kastljósþætti var aðdragandi málsins rakinn. Hvergi var minnst á áskorun til ríkisstjórnarinnar eða þingmál sem flutt höfðu verið í þá veru að sporna gegn uppkaupum auðmanna á landi!

Lítillega var sagt frá því að sett hefði verið reglugerð á sínum tíma sem torveldað hefði þessi kaup en sú reglugerð hafi verið afnumin því hún hafi ekki þótt standast lög. Þetta er mikil einföldun!

Vel ígrundaður málatilbúnaður
Í upphafi árs 2013 þegar ég var innanríkisráðherra kynnti ég lagafrumvarp svo og reglugerð með það í huga að sporna gegn landakaupum erlendra auðmanna á Íslandi. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að málið kynni að verða umdeilt, bæði hér innanlands og erlendis. Enda fór svo að eftirlitsstofnun ESA óskaði eftir greinargerð. Leitaði ég þess vegna til færustu sérfræðinga sem völ var á að vera til ráðgjafar um útfærslu á þeim ásetningi mínum að setja landakaupum skorður.

Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins 25. janúar 2013, þar sem kynnt var frumvarp að lagabreytingu sem tæki til landakaupa útlendinga utan sem innan EES annars vegar og hins vegar reglugerðarbreyting gagnvart EES borgurum, segir: „Í tengslum við þessar athuganir hefur innanríkisráðuneytið aflað tveggja álitsgerða, annars vegar frá Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Valgerði Sólnes lögfræðingi. Hins vegar frá Jens Hartig Danielsen, prófessor við lagadeild Háskólans í Árósum, og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, en þar er fjallað sérstaklega um reglur EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga og fjárfestingu í fasteignum.“

Ítarleg kynning
Frumvarpið lagði ég síðan fram til kynningar á Alþingi – en reglugerðina undirritaði ég 17. apríl þegar hún hafði staðið til kynningar í nær þrjá mánuði.

Ég taldi það vera lykilatriði að greinar­gerðir fræðimannanna kæmu fram við kynninguna svo hugsanlegum andmælendum gæfist kostur að taka upp málefnalega umræðu um hana.

Eftirmaður minn í embætti, Hanna Birna Kristjánsdóttir, lét það verða eitt fyrsta verk sitt að afnema þessa reglugerð og hafði um hana þau orð að hún væri á gráu svæði. Það var allan tímann vitað sem áður segir, en engu að síður meiri líkur en minni að hún stæðist fullkomlega stranga lagaskoðun enda vel ígrunduð og að henni staðið á faglegan, opinn og lýðræðislegan hátt. Öðru máli gegndi þegar hún var afnumin án kynningar eða umræðu.

Danir og Norðmenn vilja skorður við landakaupum
Ýmsar þjóðir innan EES hafa viljað leita leiða til að sporna gegn uppkaupum auðmanna á jörðum, bæði innlendra og erlendra. Nefni ég þar Dani og Norðmenn sérstaklega. Sjálfur deili ég þessum sjónarmiðum og hef margoft fært opinberlega rök fyrir þeim. Ég gerði mér grein fyrir því að taka þyrfti á málinu á margþættan hátt en aðeins að hluta til heyrði það undir það ráðuneyti sem ég fór fyrir, innanríkisráðuneytið, og sneri þá einkum að kaupum útlendinga á landi.

Sitja og góna á framvinduna
Auk fyrrnefnds frumvarps og reglugerðar flutti ég því þingmál um ítarlega athugun á þessum málum og lagði til að reynt yrði að sporna gegn því að auðmenn gleyptu landið eins og nú er að gerast með ríkisstjórn og Alþingi á áhorfendapöllunum.

Greinin birtist fyrst á Vísi.

Þau eru of mörg Akranesin

Enn einu sinni eru málefni sjávarútvegsins og byggða í brennidepli. Hvað sem sagt er um gæði fiskveiðistjórnunarkerfisins má setja stórt spurningamerki við sjálfbærni atvinnugreinarinnar. Sjálfbærni tiltekinnar greinar náttúrunytja er skilgreind með þrennum hætti: Áhrifum á náttúruna (á auðlindina sjálfa), á samfélagið í heild og sérhvern hluta þess sem atvinnan varðar og loks út frá efnahagslegum áhrifum nytjanna. Margreynt er að samþjöppun í kvótakerfinu veldur æ víðar og oftar ólíðandi vandræðum í samfélögum sem reiða sig að verulegum hluta á útgerð og fiskvinnslu.

Milli 10 og 20 fyrirtæki ráða nú um og yfir helmingi kvóta og þau taka ákvarðanir oftar en ekki eftir hag sínum einum en sjaldnar eftir þörfum byggða, sem þau starfa í, eða fara eftir því sem við nefnum samfélagslega ábyrgð. Með slík viðmið í huga er ekki hægt að setja merkið sjálfbærni á sjávarútveginn. Til þess eru of mörg byggðalög í sárum og of mikil óeining um kvótaúthlutun, kvótastöðu og samþjöppun kvóta.

Sé litið á efnahagsþátt sjálfbærninnar er nauðsynlegt að horfa bæði á heildina alla (greinina sem slíka), á vegferð hvers fyrirtækis og loks á ástand hverrar byggðar sem reynir og vill stunda útgerð og vinnslu. Góð afkoma heildarinnar, eins og gjarnan er orðað, má ekki yfirskyggja efnahagsþrengingar samfélaga eða minni fyrirtækja, svo dæmi séu nefnd. Fiskveiðistjórnunarkerfi sem tekur fyrst mið af velferð samfélaga í ólíkum byggðum (stórum og smáum) verður að taka fram yfir kerfi sem snýst fyrst og fremst um hagkvæmni stakra og stórra fyrirtækja og samkeppnistöðuna utanlands. Í heimi þar sem matvælaframleiðsla verður sífellt stærri áskorun er Ísland í góðri stöðu. Það leyfir mikinn slaka á kröfum um samþjöppun í greininni. Löngu er kominn tími til gagngerra breytinga í sjávarútvegi, bæði hvað varðar auðlindanýtinguna sjálfa og afrakstur í þágu nærsamfélaga um allt land, þorra íbúa alls landsins.

Greinin birtist fyrst á Vísi.