MIKLU FLEIRI FERÐAMENN?

 

 

 

 

Ferðaþjónustan, sem er stærst atvinnugreina nú orðið, gildasta líflína íslensks hagkerfis undanfarin ár, stendur fyrir miklum tekjum. Tekjur ríkisins munu vera metnar á 60–70 milljarða kr. Hvort það er nákvæmlega rétt veit ég ekki, en í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða átti að setja u.þ.b. 2 milljarða kr. sem er að mínu mati og í hlutfalli við þetta óeðlilega lág upphæð. Gjaldið eða framlagið hefur verið lækkað um 600 millj. kr. en hefði þurft að hækka um a.m.k. 1 milljarð kr. ef vel væri. Þetta fé hefur ekki nýst af mörgum ástæðum sem hafa reyndar komið fram. Það hefur staðið á framlögum sveitarfélaga. Sum þeirra eru ekki það burðug að þau hafi fé til framkvæmda, mótframlög. Skipulagsmál hafa reynst flókin oft og tíðum. Það fé sem var sett frá ríkisins hálfu kom seint fram. Það er alla vega alveg ljóst að það eru mjög margir staðir utan þjóðgarða sem eru bókstaflega í sárum, sumir mjög miklum, og það þarf eins konar bráðaviðgerðir og snarbætt aðgengi á þeim stöðum.

 

Eitt og annað er þó jákvætt í fjárlagafrumvarpi og því sem fylgir, sem fram hefur komið, t.d. þjóðgarðsmiðstöðvar, sem ég hef nefnt áður, og Vatnajökulsþjóðgarður stærstur allra fær þó nokkuð fé til framkvæmda, enda hefur hann þolað umferð betur á flestum stöðum en minni þjóðgarðarnir, þá á ég við bæði þjóðgarðinn Snæfellsjökul og Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þeir eru miklu minni  og orðnir mun skemmdari en stóri þjóðgarðurinn við Vatnajökul. Þessir minni þurfa miklu meira fé en látið er af hendi rakna.

 

Eins þarf verulega aukið fé í landvörslu í þjóðgörðunum og á friðuðum svæðum. Í því sambandi er mjög brýnt að endurskoða sem allra fyrst hlutverk og valdsvið landvarða. Við vitum að þeir hafa leyfi til þess að beina orðum til fólks og biðja um eitt og annað, en þeir hafa ekki valdsvið til að skipa fyrir eða valdsvið sem er í átt við lögreglu. Á því þarf auðvitað að gera bragarbót, ekki síður en að setja meira fé til landvörslu á mjög mörgum stöðum.

 

Menningar- og náttúrunytjar geta ekki gengið upp án verndunar minja og alls umhverfis og til þess greina menn þolmörk, jafnt félagsleg sem náttúruleg og jafnt fyrir staði sem svæði og fyrir landið í heild. Við viljum flest að atvinna sé fjölbreytt en ekki að aðeins þrjár greinar beri upp langmest af henni, hvað þá ein atvinnugrein. Við viljum flest að sjálfbærni sé viðmið í ferðaþjónustu og sú stefna hefur verið mörkuð. Þá skulum við muna að hugtakið nær yfir félagslega og hagræna sjálfbærni ekki síður en að náttúran verði nytjuð á þann hátt að hún standi jafn góð eftir eða betri. Þegar sumir stjórnmálamenn eða framámenn í ferðaþjónustu telja að við getum tekið við miklu fleiri ferðamönnum, eins og það er orðað, vekur það margar spurningar. Eru þá engin þolmörk til? Hvað merkja orðin miklu fleiri? Engum dytti í hug að skipuleggja fiskveiðar með því að muldra eitthvað um miklu fleiri fiska.

 

Meðal fyrstu skrefa til úrbóta auk fjármagns til þjóðgarða og til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru auknar rannsóknir innan ferðaþjónustunnar, skipulagsbreytingar í ferðaþjónustu og stofnanaflórunni og endurskoðun laga um ferðaþjónustu nauðsynlegar. Ég hef talað fyrir nýju ráðuneyti ferðamála og aækvörðun þolmarka og það ætti vissulega að vera til mikilvægrar umræðu á næstunni þegar fjöldi ferðamanna telst í milljónum og viðvarandi skortur á vinnuafli er staðreynd í greininni. Nýja meginatvinnugrein landsins ber að umgangast eins og þær sem áður voru það.

 

Að öðru en skyldu málefni, loftslagsmálum. Þegar stjórnvöld víða um heim sjá fram á æ alvarlegra ástand heima fyrir og í samskiptum þjóða, t.d. í Asíu þar sem gríðarlegur mannfjöldi er háður jökulvatni jafnt sem sjávarstöðu, er tvennt í stöðunni á alþjóðavísu. Við verðum í fyrsta lagi að vinna gegn manngerðum orsökum loftslagsbreytinga, það er orðið óumdeilanlegt. Það merkir hraðan og mikinn samdrátt í losun gróðurhúsagasa og stórfellt átak í landvernd, endurheimt lággróðurs og votlendis og ræktun skóga sem binda grösin á landi. Allt þetta snýr beint að Íslandi.

Í öðru lagi verður að lina og lágmarka áhrif veðurfarsbreytinga á samfélög þjóða. Það merkir mótvægisaðgerðir og ákvarðanir um hvernig samvinna þjóða, ekki bara um rannsóknir og upplýsingar, getur hjálpað þeim sem harðast verða úti og líka það bankar á okkar dyr.

Nógu margar einhlítar skýrslur liggja frammi og nægar rannsóknarniðurstöður eru opinberar til þess að hefjast megi handa fyrir alvöru við bæði þessi verkefni. Hingað til hafa hvorki orðið nægar framfarir við að minnka losun né heldur við að ákvarða viðbrögð við rýrnun jökla, súrnun hafsins eða hækkun sjávarborðsins á heimsvísu. Þetta allt merkir ekki að minnka skuli rannsóknir eða fræðslu um stöðu og horfur, aðeins að rannsóknir eru ekki lengur í fyrsta sæti og eiga ekki að hljóta mesta athygli stjórnvalda, ákvarðenda, fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana. Þar þurfa skjótar aðgerðir að koma í staðinn. Við þurfum að koma málunum á þetta séríslenska reddingarsvið sem við erum fræg fyrir.

Við skulum beina aukinni athygli, nægum peningum og heildrænu skipulagsstarfi að því að ná markmiðum sem íslensk stjórnvöld samþykktu á Parísarráðstefnunni, með skilmerkilegri áætlun, markmiðssettri hvert ár og fullfjármagnaðri. Við göngum ekki á bak orða okkar og skuldbindinga, það gerir ekkert okkar.

 

Bæði ferðaþjónusta og loftslagsmál eru risastór málefni. Svokölluð sóknaráætlun í loftslagsmálum með 16 atriðum er vanfjármögnuð nú um stundir og önnur áætlun sem kallast landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem var samþykkt frá Alþingi 2016, er einnig vanfjármögnuð. Katrín Jakobsdóttir nefndi orkuskiptaáætlun sem er einnig sannkallað huldubarn í því samhengi.

 

Varðandi komugjöldin er það að segja að komið hafa fram viðbárur um að þau muni bremsa ferðamannafjöldann til Íslands en ég held að það geti ekki átt við vegna þess að 1,5 milljarðar manna eru á faraldsfæti um jörðina og við erum að taka hingað inn eins og 1 prómill. Þótt vikukostnaður við ferð á Íslandi, sem er sagður vera um 200 þús. kr., hækki um 1 eða 2 þús. kr., 1 þús. kr. er lagt til í tillögum Vinstri grænna, er ég alveg viss um að það er til nægt fólk sem kippir sér ekki upp við það. Ég tel ekki að komugjöld eða hækkað gistináttagjald, sem ætti að vera hlutfallstala á verði gistingar, að þær gjaldahækkanir séu með þeim hætti að það trufli hingað eitthvert flæði ferðamanna og séu til þess fallnar að koma í staðinn fyrir þolmörk eða annað þess kyns sem er nauðsynlegt að við ákvörðum fyrr en síðar.

 

Hlutar úr ræðu Ara Trausta Guðmundssonar við umræður um fjárlög 2017 – frá 21. desember (lítillega breyttur texti).

 

2016 – Ár fjölmiðlanna

Árið 2016 hefur ein­kennst að stórum hluta af póli­tískri óreiðu. Það hófst með ára­móta­ávarpi Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, þáver­andi for­seta Íslands, sem sagð­ist þá ætla að draga sig í hlé en þó samt ekki, í það minnsta ekki að fullu. Hann kvaðst myndu taka sér stöðu á hlið­ar­lín­unni sem þátt­tak­andi í stjórn­mál­um, háð hans eigin vilja og óbundið af þeim skorðum sem for­seta­emb­ættið setur hon­um, eins og það var orð­að. Það fór þó á end­anum þannig að Ólafur Ragnar gaf aftur kost á sér til emb­ætt­is­ins þar sem hann mat það sem svo að ekki væru þá komnir fram nægi­lega hæfir fram­bjóð­endar til að hann gæti afhent þeim keflið. Hann dró síðan fram­boð sitt til baka og hætti öðru sinni við að bjóða sig fram, ann­ars vegar vegna upp­lýs­inga sem hann varð­aði í Panama­skjöl­unum en ekki síður þegar ljóst var að Davíð Odds­son, rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins, gaf kost á sér til emb­ættis for­seta Íslands. Framboð rit­stjór­ans sem áður hafði sett svo djúp og sár spor í sam­fé­lagið sem ráð­herra og Seðla­banka­stjóri varð síðan ekki til að auka hróður hans eða varpa ljóma á póli­tíska arf­leifð hans. Það má þó segja að í það sinn hafi þjóðin haft betur gegn úrsér­gengnum póli­tískum brellum hins gamla for­ingja sjálf­stæð­is­flokks­ins og hafn­aði honum með afger­andi hætti.

Rík­is­stjórn sjálf­stæð­is­flokks og fram­sókn­ar, sem tók við völdum vorið 2013 og bjó við góðan meiri­hluta á Alþingi, lið­að­ist svo í sundur og féll á vor­dögum 2016. Bana­mein hennar var spill­ing. Þrír af fjórum ráð­herrum evr­ópskra landa sem nefndir voru í Panama­skjöl­unum voru ráð­herrar þess­arar rík­is­stjórn­ar. Ný rík­is­stjórn var reist á rústum þeirrar sem féll eftir að einn þre­menn­ing­anna, sjálfur for­sæt­is­ráð­herra lands­ins, var neyddur af eigin flokks­mönnum til að segja af sér í kjöl­far stærstu mót­mæla sög­unnar framan við Alþing­is­hús­ið. Hinir tveir sitja enn. For­sæt­is­ráð­herr­ann fyrr­ver­andi var svo end­ur­kjör­inn á þing með nokkrum ágætum í kosn­ing­unum í haust.

Nið­ur­staða kosn­ing­anna í lok októ­ber varð svo enn til að auka á óreið­una sem þó var nokkur fyr­ir. Sam­kvæmt nið­ur­stöðum þeirra var úti­lokað að mynda rík­is­stjórn færri en þriggja flokka. Aðeins tveir mögu­leikar á meiri­hluta­stjórn voru í stöð­unni, rík­is­stjórn fimm flokka án sjálf­stæð­is­flokks­ins eða rík­is­stjórn með sjálf­stæð­is­flokki. For­maður Við­reisn­ar, stærð­fræð­ing­ur­inn Bene­dikt Jóhann­es­son, reikn­aði sig því strax í lyk­il­stöðu með því að merkja sér fjóra þing­menn Bjartrar fram­tíð­ar. Þannig varð vægi Við­reisnar í íslenskum stjórn­málum langt umfram fylgi og flokk­ur­inn hefur síðan flakkað á milli stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðna og virð­ist láta sig litlu varða hver við­mæl­and­inn er hverju sinni. Sam­kvæmt úrslitum kosn­ing­anna styrktu hægriöflin heldur stöðu sína, fengu 40 þing­menn kjörna á móti 10 þing­mönnum vinstri­manna. Aðrir eru svo að hálfu beggja vegna eftir því hvernig vind­arnir blása.

AUGLÝSING

Staðan á Alþingi, þegar þessi grein er skrif­uð, er þannig að fjár­mála­ráð­herra fall­innar rík­is­stjórnar hefur lagt fram fjár­laga­frum­varp sitt og tekju­öfl­un­ar­frum­vörp fyrir næsta ár. Málin eru til umfjöll­unar í tveimur þing­nefnd­um; fjár­laga­nefnd og efna­hags- og við­skipta­nefnd. Fyrri nefnd­inni er stýrt af þing­manni sjálf­stæð­is­flokks­ins. Þeirri síð­ari stýrir hægri­mað­ur­inn og stærð­fræð­ing­ur­inn Bene­dikt Jóhann­es­son, for­maður Við­reisn­ar. Í þessu ljósi er ekki að vænta mik­illa breyt­inga á fjár­laga­frum­varp­inu. Að öðru leyti starfar Alþingi ekki.

Framundan eru gríð­ar­lega krefj­andi tímar fyrir íslenska stjórn­mála­menn. Ákvarð­anir þeirra í efna­hags­málum á næstu dögum og vikum geta haft mikil áhrif á kjör lands­manna allra. Það er því mik­il­væg­ara nú en oft­ast áður að land­inu verði stjórnað af ábyrgð og festu í stað laus­ungar og ábyrgð­ar­leys­is. Því verður for­ystu­fólk okkar í stjórn­málum hvar í flokki sem það er að taka hlut­verk sitt alvar­lega og tryggja land­inu sem fyrst starf­hæf stjórn í stað stjórn­leysis og óreiðu. Enn mik­il­væg­ara er það þó að land­inu verði stjórnað af fólki sem ber almanna­hag sér fyrir brjósti í stað sér­hags­muna. Of margir stjórn­mála­menn láta sér þessi mál í léttu rúmi liggja og hafa helgað sig dæg­ur­þras­inu enda er það oft til meiri vin­sælda fall­ið. Það á samt ekki við um alla og á það fólk setjum við allt okkar traust.

Ráð­herrar og þing­menn frá­far­andi rík­is­stjórnar hafa gagn­rýnt fjöl­miðla mjög hart á und­an­förnum árum. Sumir þeirra hafa snið­gengið fjöl­miðla og grafið undan trú­verð­ug­leika þeirra með aðferðum sem ekki hafa tíðkast í vest­rænu lýð­ræð­is­ríki til þessa. Þetta hefur samt, og sem betur fer, ekki orðið til þess að draga mátt­inn úr óháðum fjöl­miðlum sem hafa fjallað um ólík sam­fé­lags­leg mál­efni með gagn­rýnum en um leið mál­efna­legum hætti. Þannig var það vegna margra mán­aða rann­sókn­ar­vinnu fjöl­miðla sem upp komst um aflands­fé­lög þriggja íslenskra ráð­herra og leiddi til falls rík­is­stjórn­ar­innar og kosn­inga. Fjöl­miðlar flettu síðan ítrekað ofan af stór­felldu svindli gegn neyt­endum í land­inu og ber mál­efni MS eða Brú­neggja­svind­lið þar hæst. Fjöl­miðlar hafa einnig kafað dýpra og fjallað með  gagn­rýnni hætti um stjórn­mál en oft áður að mínu mati og þannig upp­lýst okkur almenn­ing um mál­efni sem varðar okkur öll og við eigum að taka afstöðu til. Það væri verð­ugt verk­efni fyrir nýkjörið þing þegar það kemur saman að styrkja laga- og rekstr­ar­um­hverfi frjálsra fjöl­miðla. Það þarf að koma upp sér­stökum sjóði sem fjöl­miðlar geti sótt í til að sinna nauð­syn­legri rann­sókn­ar­vinnu og það verður að skapa þeim umhverfi sem styrkir fjár­hags­legt sjálf­stæði þeirra.

Höf­undur er vara­for­maður Vinstri grænna.

Ákall um ómöguleika

Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að vera kjörinn á þing, bæði hvað varðar þingstörfin sjálf en ekki síst þegar að stjórnarmyndunarviðræðum kemur. Þar hefur á ýmsu gengið. Hvað okkur Vinstri græn varðar sýnist mér, miðað við umræðuna undanfarnar vikur, vera uppi hávært kall um ómöguleika.

Mér sýnist krafan vera þessi:

Við megum ekki láta viðræður brjóta á auknum ríkisútgjöldum, og nauðsynlegri tekjuöflun, en við afgreiðslu fjárlaga eigum við einmitt að láta brjóta á auknum ríkisútgjöldum og nauðsynlegri tekjuöflun.

Við megum ekki ræða við Sjálfstæðisflokkinn (sem við höfum ekki formlega gert), en málefnin hrein og tær eiga að ráða för.

Við eigum að mynda vinstristjórn, þó að vinstrið sé ekki í meirihluta á þingi. Krafan virðist vera sú að flokkar hægra megin við miðju verði allt í einu miðjuflokkar og þannig eigum við að semja við þá.

Við eigum að standa fast á kröfum okkar um félagslegar áherslur og uppbyggingu innviða, velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfis, en samt að mynda ríkisstjórn.

Við berum ábyrgð á ríkisstjórn sem við mögulega myndum, en líka á ríkisstjórn sem einhverjir aðrir flokkar gætu verið að mynda.

Nú er víst árstíð kraftaverkanna og kannski eitt slíkt gerist og það takist að hrista saman hæfilega blöndu olíu og vatns, með hæfilegum skammti af dyn kattarins, rótum bjargsins, anda fisksins og fugls hráka.

En hvað sem gerist efa ég ekki að það verður áfram hlutverk mitt og annarra stjórnmálamanna að svara fyrir ólíkar kröfur sem ekki geta farið saman. Um það snýst víst pólitíkin og okkar er að standa undir því.

Gleðileg jól.

Af stjórnarmyndun II

Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að taka þátt í viðræðum um stjórnarmyndun. Að mörgu leyti hafa þær verið góðar, flokkar hafa skilgreint betur hvað þeir eru tilbúnir að gera og hvað ekki, en að mörgu leyti ekki. Það á ekki síður við eftirmála þeirra. Ég trúi því staðfastlega að fólk eigi að koma hreint fram, það eigi ekki að segja það sem hentugra reynist. Síðustu daga hef ég því miður orðið vitni af því allt of oft að fólk sem vill láta líta á sig sem fulltrúa nýrra tíma, nýrra stjórnmála, á ekki í vandræðum með að hagræða sannleikanum ef það hentar og gefa eitthvað í skyn sem ekki er sannleikanum samkvæmt.

Hér mun ég fara yfir þessar viðræður og eftirmála þeirra. Ég bið lesendur að hafa í huga að þetta er mín upplifun, en ég get þó lofað því að allt sem ég segi hér tel ég vera sannleikanum samkvæmt. Ég byggi þessa yfirferð á fundum, bæði innan þingflokks Vinstri grænna og í málefnahópi sem fór yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, og þeim gögnum sem send voru á milli flokka sem grunnur að mögulegu samkomulagi.

Vel má vera að einhverjum finnist ég segja of mikið og ég verði gagnrýndur fyrir það. Ég tel mig þó hvergi vera að rjúfa trúnað. Þá finnst mér einfaldlega að stjórnmálamenn eigi að segja satt og rétt frá og ef það er eitthvað sem ég held að við eigum að taka út úr stjórnmálaumræðunni eftir hrun, og þá ekki síst aðdraganda síðustu kosninga, þá er það að virða kröfu um gagnsæi og heiðarleika.

Slit fyrri viðræðna

Sagan hefst í raun 18. nóvember þegar ákveðið var að flokkarnir fimm, Vinstri græn, Samfylking, Píratar, Björt framtíð og Viðreisn, ákváðu að fara saman í viðræður, en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var með umboðið. Þeim viðræðum hef ég þegar gert ítarleg skil og því ekki mikið meira um þær að segja, í bili.

Þá kemur að þeim þætti að flokkarnir þurftu að útskýra á hverju viðræðurnar, hinar fyrri, hefðu strandað. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tiltók í fréttum Rúv um kvöldið þrjú mál; sjávarútveg, landbúnað og ríkisfjármál:

Það er líklegast lengst á milli í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum þar sem við höfum verið [með] svona ýmsar kerfisbreytingar á okkar stefnuskrá. Og svo kom nú í ljós þegar að verði væri að skoða ríkisfjármálin að þar stóð ríkið ekki eins vel og við héldum í upphafi. Þannig að það leiddi af sér að til þess að geta [gert] breytingar þá þurftu menn að fara í skattahækkanir sem stóðu svolítið í okkur.

Næstu daga fór af stað mikill spuni í þá veru að strandað hefði á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, Vinstri græn væru á móti kerfisbreytingum og ég veit ekki hvað, argasta íhald í þessum málum og vildi bara varðstöðu.

En er það svo? Strandaði í raun á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í fyrri viðræðunum? Gefum Smára McCarthy orðið, en hann kom í viðtal við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, þingfréttamann Rúv, strax á eftir Benedikt, eftir að viðræðunum hafði verið slitið 22. nóvember.

En síðan þegar til kastanna kom þá voru eiginlega langflestir flokkar búnir [að gefa] töluvert eftir, en til dæmis bara sem dæmi, þá er alveg rangt að það hafi strandað á sjávarútvegsmálum. Það er bara Vinstri græn komu mikið til móts við okkur í því, að landbúnaðarmál, hafi strandað á því, það var ekki einu sinni komið almennilega til umræðu. Þannig að það er rangt að taka einhvern veginn þannig í hæðina. Það sem að er hins vegar er málið, er að þegar kom til þess að Viðreisn þurfti að bakka aðeins, gefa aðeins eftir, einhvern veginn miðla málum þá voru þau algjörlega ótilbúin til þess.

Ég skil vel að einhverjir vantreysti fulltrúum flokka þegar þeir skýra út á hverju strandaði. Það er mannlegt eðli að reyna að koma sem best út úr aðstæðum og því skil ég vel fólk sem tekur því með fyrirvara sem ég og önnur í Vinstri grænum segjum um okkar flokk og sem fólk í Viðreisn, svo dæmi sé tekið, segir um sinn flokk. En hér er þingmaður Pírata að tjá sig um Viðreisn og Vinstri græn og ætti að geta lagt nokkuð hlutlaust mat á málin.

Viðræður enar síðari

Leið nú og beið og Birgitta Jónsdóttir fékk umboðið föstudaginn 2. desember. Það var vel og enn betra að hún skildi vilja endurvekja viðræður flokkanna fimm, en það ríkisstjórnarmynstur var fyrsta val okkar Vinstri grænna eins og við sýndum í verki.

Viðræðurnar hófust á ný og annar blær var á þeim en áður. Það skýrist bæði af því að fljótlega hófust þingfundir sem settu strik í reikninginn, en líka bara af þeirri staðreynd að fólk er mismunandi og viðræður undir stjórn Pírata eru öðruvísi en undir stjórn Vinstri grænna.

Ég játa það fúslega að ég klóraði mér oft í kollinum yfir því hvernig haldið var á málum, löngum tíma eytt í að kynnast, efla andann og brýna hópinn, og sú leið farin að kalla ekki til fólk úr flokkunum til að vinna að málefnum. Þetta eru vinnubrögð sem ég á ekki að venjast, en ég reyni að vera tilbúinn til að læra eitthvað nýtt og vera ekki íhaldskurfur í hugsun og ég lærði ýmislegt nýtt á verkstjórn Pírata.

Það er kannski rétt að minna á það að viðræðurnar voru óformlegar. Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti þó strax í upphafi þeirra umboð til formanns flokksins um að ganga til formlegra viðræðna við hina flokkana fjóra. Þegar til kom reyndust aðrir flokkar þó ekki tilbúnir í formlegar viðræður, þannig að þær voru óformlegar, þar til yfir lauk.

Formenn hittust og ræddu málin, byggðu þar á vinnu fyrri viðræðna, en að sjálfsögðu voru þetta nýjar viðræður, ný nálgun og ný vinnubrögð. Hjá okkur í Vinstri grænum var það þannig að við í þingflokknum fengum reglulega skýrslu um viðræðurnar.

Á föstudaginn var svo kallað til málefnavinnu þar sem nokkrir úr hverjum flokki komu að málum. Fyrst voru tekin fyrir sjávarútvegsmál. Sjálfur sat ég ekki þá fundi, en fékk skýrslur af þeim og sá plöggin sem lögð voru fram og urðu þar til. Hvað þau mál varðar er einfaldast að vísa í fréttKjarnans um málið, en þar er vísað í umrætt plagg.

Stóru tíðindin þar eru að grunnur hafði náðst að sátt um að hefja innköllun aflaheimilda. Það er risastórt skref og hefði þótt miklum pólitískum tíðindum sæta hefði náðst saman um stjórnina. Það hvað síðan átti að gera við heimildirnar var enn óútkljáð. Viðreisn hefur talað fyrir uppboði og nýtingarrétti til allt að 33 ára. Við í Vinstri grænum teljum það allt of langan tíma og það geti jafnvel skapað hefðarétt. Það er með öðrum orðum, að mínu viti, ákveðin spurning hvort svo löng ráðstöfun sé ekki í raun dulin einkavæðing. Við í Vinstri grænum höfum talað fyrir mun skemmri leigutíma og viljum horfa til þess sem frændur okkar Færeyingar hafa gert í þeim efnum.

Á sunnudag var ég kallaður inn á fund málefnahópsins sem þá hafði lokið umæðum um sjávarútveg og sneri sér nú að landbúnaðarmálum. Hann hófst á því að Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, lýsti þeirri skoðun sinni eftir sjávarútvegsumræðuna að staðan væri alls ekki þannig að fjórir flokkar væru sammála gegn VG. Undir þetta tóku aðrir fulltrúar og sú skoðun kom fram frá öðrum að mikilvægt væri að enginn einn flokkur yrði einangraður, það væri ekki sanngjarnt, auk þess sem ákveðinn samhljómur væri um þörf fyrir grundvallarbreytingar.

Við tóku umræður um landbúnaðarmál. Þar var mikill samhljómur og fulltrúar allra flokka lýstu því yfir að þeir vildu breytingar á kerfinu. Allir tiltóku að ekki væri verið að leggja til minni stuðning til bænda, heldur breyta fyrirkomulaginu. Allir voru sammála um að það þyrfti að fara í heildarendurskoðun á landbúnaðaramálum, en ekki var eining um hvort hún ætti að fara fram á þremur árum eða einu. Sjálfur hélt ég því fram að ef ætti að fara í allsherjar endurskoðun á landbúnaðarkerfi Íslands væri ekki rétt að búa sér til óþarfa tímapressu og því gæti verið skynsamlegt að nýta þau þrjú ár sem búnaðarsamningur fráfarandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir.

Aðallega stóðu tvö mál út af í landbúnaði og þegar ég segi stóðu út af, þá á ég við að það átti einfaldlega eftir að ræða þau betur og þeim var vísað til formanna. Þau tvö mál voru undanþága MS frá samkeppnislögum og aukinn innflutningur.

Sjónarmið okkar í Vinstri grænum er að skoða eigi hvaða forsendur búa að baki undanþágunni, hvort þær eigi enn við og hvort þá sé mögulega unnt að ná markmiðunum fram á annan hátt. Undanþágan er ekkert sérstakt mál fyrir okkur, en við viljum skoða markmiðið sem lýtur að því að mjólk sé sótt til bænda á sama verði hvar sem er á landinu og seld á sama verði hvar sem er. Hvað aukinn innflutning varðar lögðum við mikla áherslu á upprunamerkingar, heilbrigðismál og neytendavernd og vorum ekki tilbúin til að fallast á að opnað yrði algjörlega fyrir innflutning landbúnaðarafurða. Við í Vinstri grænum erum andsnúin algjörlega óheftum innflutningi landbúnaðarafurða, ekki síst út frá sjónarmiðum um umhverfismál, dýravelferð og lýðheilsu. Hér var vissulega meiningarmunur, en þetta þurfti að ræðast betur og fór þannig til formanna. Ég vil þó taka það skýrt fram að í viðræðuhópnum komu fram sjónarmið frá öðrum flokkum um fæðu- og matvælaöryggi, þannig að það var ekki þannig að það væri VG á móti rest.

Það kom mér því gríðarlega á óvart að lesa það haft eftir Björt Ólafsdóttur, sem setið hafði í viðræðuhópnum fyrir hönd Bjartrar framtíðar, á mánudeginum að fjórir af fimm flokkum væru samstíga. Enn frekar kom mér á óvart að hún sagði þá flokka fjóra vera „framsýna“ sem væntanlega þýðir að sá fimmti, Vinstri græn, séu afturhaldsflokkur, eða hvað? Þessi lýsing á samhug hinna flokkanna fjögurra er ekki í neinu samræmi við mína upplifun af fundi málefnahópsins.

Ýmislegt er sagt í pólitík og það þýðir ekki að móðgast yfir því, stjórnmálafólk þarf að setja aðra hagsmuni þar ofar. Stjórnarsamstarf byggir hins vegar á trausti og þessi ummæli Bjartar Ólafsdóttur sýndu mér svart á hvítu að hún treysti ekki Vinstri grænum, taldi þá afturhald. Það hvað mér fannst hún fara frjálslega með sannleikann gerði það líka að verkum að traust mitt til hennar rýrnaði. Þegar ég sá þessi ummæli hugsaði ég með mér að það væri greinilegt að hún vildi ekki þessar viðræður og væri byrjuð á pr-vinnunni til að kenna Vinstri grænum um viðræðuslit. Það getur verið kolrangt mat hjá mér, en þá þanka vöktu orð hennar.

Veðrabrigði

En snúum okkur aftur að sunnudeginum. Þingflokkar funduðu á sunnudagskvöld og þar ræddum við í Vinstri grænum næstu skref. Þar skiptu ríkisfjármálin höfuðmáli. Við höfðum lagt fram okkar sýn á það hver fjárþörfin væri ef flokkarnir ættu að standa við loforð sín um uppbyggingu í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi, sem og almenna innviðauppbyggingu. Samanlagt 27,5 milljarða á árinu 2017, ekki síst vegna þess að samgönguáætlun var algjörlega ófjármögnuð og setti okkur frekari skorður. Þá er ótalið hvað átti að gera það sem eftir lifði kjörtímabilsins.

Vinstri græn höfðu lagt fram ýmsar tillögur um tekjuöflun á kjörtímabilinu, hátekjuskatt, auðlegðarskatt, frestun á breytingu skattþrepa, sykurskatt, en ekki matarskatt eins og Birgitta Jónsdóttir hefur fullyrt og alls ekki hækkun á almennun tekjuskatti eins og Benedikt Jóhannesson hefur sagt vera nauðsynlegan til að standa undir útgjöldunum. Raunar er ekki hægt að skilja varaformann Viðreisnar, Jónu Sólveigu Elínardóttur, í grein í Kjarnanum í dag öðruvísi en að það hafi verið hugmynd Viðreisnar að hækka tekjuskattinn um 3%. Það er athyglisvert, enda kemur slík hækkun þeim verst sem lægstu launin hafa, en gott að Jóna Sólveig tiltekur að við í Vinstri grænum höfum verið á móti þessu. Það er lauk-, kór- og hárrétt.

Sjálfur hef ég haft efasemdir um hvort hægt væri að fara í stjórnarsamstarf án þess að fá fram skýran vilja allra flokka til nauðsynlegrar tekjuöflunar. Ég hef ekki séð útfærðar hugmyndir hinna flokkanna fjögurra um hvernig á að afla tekna til nauðsynlegra útgjalda og skýra sýn á þróun útgjalda til næstu ára og sting því að fjölmiðlafólki hvort ekki sé rétt að fara fram á slíkar tillögur?

Fundinum var frestað og haldið áfram á mánudegi. Við í Vinstri grænum töldum að það hlyti að vera prófsteinn á mögulegt samstarf að flokkarnir næðu saman um afgreiðslu fjárlaga 2017, sem og sýn á ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Næðist saman um þau mál, værum við tilbúin í formlegar viðræður. Vera kann að einhverjum þyki þetta ósanngjörn skilyrði, en ég segi fyrir mína parta að fjárlög eru mikilvægasta frumvarp hverrar ríkisstjórnar. Þar dregur hún upp rammann um það samfélag sem hún vill sjá. Séu flokkar ekki samstiga um aðgerðir, beri svo gríðarlega mikið á milli sem raun bar vitni, þá er betur heima setið en af stað farið. Og það hvernig ríkisstjórn sér ríkisfjármálin fyrir sér til framtíðar, hvaða sýn hún hefur á þróun útgjalda til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála, svo dæmi séu nefnd, er lykilatriði.

Þetta var til umræðu hjá okkur þegar formaður flokksins upplýsti að beðið hefði verið um fund hennar, Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, og Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar. Að þeim fundi loknum héldu þau þrjú á fund formanna flokkanna fimm og í kjölfar hans var tilkynnt um að ekki yrði farið í formlegar viðræður.

Við höfum engan áhuga á því að láta einhvern sitja uppi sem sökudólg, þó að ekki hafi náðst saman. Það að flokkar með ólíka pólitík nái ekki saman getur einfaldlega verið eðlilegur hlutur, fólk er ekki tilbúið til að gefa allt eftir. Þar er enginn flokkur betri en annar og skoðanir allra og pólitík jafn rétthá.

Nú bið ég lesendur sem enn trúa því að strandað hafi á sjávarútvegsmálum að velta eftirfarandi fyrir sér. Eftir fyrri viðræðurnar hafði myndast góður grunnur í þeim og, líkt og vitnað er í að ofan, sagði Smári McCarthy alrangt að þær viðræður hefðu slitnað á þeim. Þvert á móti hefðu Vinstri græn komið mjög til móts við aðra flokka þar. Heldur einhver að sá góði grunnur hafi eitthvað breyst á milli viðræðnanna?

Svikabrigslin

Hafandi fylgst með ferlinu, bæði á fundum og í gegnum tilkynningar frá þeim, þá kom tilkynning þingflokks Viðreisnar um viðræðuslitin mér gríðarlega á óvart. Þar sagði að því miður hefði ekki náðst saman um mikilvæg efnisatriði. Allt satt og rétt, en síðan kom þessi setning:

Einkum voru það áherslur VG í ríkisfjármálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem stóðu fjarri áherslum hinna flokkanna.

Eins og ég hef rakið hér að ofan tel ég ekki hafa verið komið að því í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum að þar ætti að steyta á skeri, þó að vissulega hafi þar verið meiningarmunur á milli flokka. Og þessi augljósa tilraun til að útmála Vinstri græn sem eina sökudólginn er með því óheiðarlega sem ég séð lengi. Nú var það gert, sem fulltrúar Viðreisnar höfðu þó sérstaklega tiltekið, að finna einn sökudólg.

Það er gríðarlega miður þegar stjórnmálamenn eru tilbúnir til að hagræða sannleikanum eins og þeim hentar. Það er enn meira miður þegar fulltrúar flokks sem tala fyrir nýjum stjórnmálum stunda slíka pólitík án þess að blikna.

Ég hef orðið var við að undanfarið að sumir í öðrum flokkum, sérstaklega Pírötum og Samfylkingu, eru ósátt við Vinstri græn og telja að við látum eins og við höfum verið þau einu sem vildu auka ríkisútgjöld. Ég er ósammála því að þannig hafi Vinstri græn talað, en maður á alltaf að reyna að læra af gagnrýni. Ég sá þau sömu hins vegar ekki mótmæla þessari yfirlýsingu þingflokks Viðreisnar þar sem það er sagt berum orðum að áherslur VG í ríkisfjármálum hafi verið fjarri áherslum hinna flokkanna.

Og til að bíta höfuðið af skömminni mætti Benedikt svo í morgunútvarpið á Rás 2 daginn eftir og fullyrti að til að fjármagna útgjaldahugmyndir Vinstri grænna hefði þurft að hækka tekjuskatt. Það eru líka ósannindi og þá ekki síst að ýja að því að það hafi verið okkar hugmynd. Hækkun almenns tekjuskatts var nefnd í viðræðunum, það gerðum við í Vinstri grænum ekki og mótmæltum henni harðlega. Sú hugmynd var hins vegar ekki síst nefnd sem svar gegn hugmyndum okkar í Vinstri grænum.

Eftir viðræðuslitin fór svo allt af stað. Það hefur vakið mig til umhugsunar um margt hversu ótrúlega margir eru tilbúnir að trúa því fyrirvaralaust að nú hafi VG klúðrað öllu, þarna hafi VG sýnt sitt rétta andlit, þau eru argasta íhald, þau vilja engar breytingar í sjávarútvegi, landbúnaði, kerfisflokkurinn, varðstöðuflokkur, kyrrstöðuflokkur, afturhald, ekki umbótaflokkur.

Fólk sem ég virði mjög mikils, sumt sem stendur mér afar nærri, virðist tilbúið til að fullyrða margt svo stóryrt um Vinstri græn að það vekur furðu mína. Og það er víst þannig að pólitík á ekki að vera persónuleg og við sem í henni erum eigum að hafa harðan skráp og þola allt og ég veit ekki hvað. Ég hvatti þó son minn til að vera ekkert að fara á Feisbúkk á þriðjudaginn, hann þyrfti ekkert að sjá þær gusur sem yfir okkur gengju. Því að flokkar eru ekki óhlutbundin fyrirbæri, heldur fólkið sem í þeim er. Þingmennirnir. Ég.

Hvað svo?

Ég vona að það takist sem fyrst að mynda góða ríkisstjórn. Ég ætla ekki að taka á mig ábyrgð á því þótt aðrir flokkar gangi í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum – það er þeirra val og hver og einn flokkur ber einn ábyrgð á því hvað hann gerir. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á því að skort hafi upp á vilja til að fara í þá uppbyggingu sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningar. Það mun koma í ljós í fjárlagaafgreiðslunni á næstu dögum hver raunverulegur vilji flokkanna er til að aukinna útgjalda.

Það að segja ekki rétt frá hefur áhrif á traust. Það að segja eitt á lokuðum fundum og annað við fjölmiðla af því að það hentar betur, rýrir traust. Og traust er nauðsynleg undirstaða samstarfs.

Ég er hins vegar þannig gerður að ég lifi lífi mínu eftir hugmyndum um æðruleysi og það að gefa af mér. Ég byggi líf mitt á grunni heiðarleika. Fyrirgefningar. Sjálfur er ég breyskur og hef gert og sagt allan fjandann sem ég ekki hefði átt að gera og dauðsé eftir. Ég biðst þá bara afsökunar og reyni að bæta fyrir. Stundum hefur mér þótt það gríðarlega erfitt og jafnvel heykst á því, en það hefur leitt til mikillar vanlíðunar, aðallega manneskjunnar sem ég gerði rangt til en einnig minnar. Það er því alltaf best að segja satt, bera ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Ég krefst þess hins vegar ekki að aðrir lifi eftir slíkum gildum, þeir verða að taka ábyrgð á því að starfa óheiðarlega.

Hvað er ég að fara með þessu? Jú, ég tek þá ábyrgð alvarlega að mynda starfhæfa stjórn. Ég er reiðubúinn til þess að ræða við fólk um þá stjórn. Ég er ekki tilbúinn í meiri óheilindi, meiri svikabrigsl, meiri ósannindi.

Hættum nú að hugsa fyrst og fremst um okkar eigið flokksrassgat. Hættum að vera út á við með einhverjar yfirlýsingar sem okkur finnst hljóma vel fyrir okkur. Förum að vinna eins og fólk.

Orð eru dýr

 

 

Ýmsir skoðanagjafar fárast yfir því að ekki skuli hafa tekist að mynda ríkisstjórn og hika ekki við að gefa flokkunum einkunnir eða staðhæfa að þessi eða hinn flokkur “hafi brugðist” eða “hafi stimplað sig út”. Greiningin er grunn og sennilega ekki mikið hirt um að lesa allan fjöldann af ósamhljóða frásögnum af gangi viðræðna og viðræðuslitum. Harla oft er ekki lagður trúnaður á orð forystumanna í umræðum, t.d. skrifuð eða sögð orð Katrínar Jakobsdóttur; hvað þá orð okkar hinna í þingflokknum. Þrennt langar mig að reifa.

 

  1. Úrslit kosninga ráða miklu um hvaða mynstur í meirihlutastjórn eru möguleg ef gert er áð fyrir raunverulegum málamiðlunum milli aðila í samsteypustjórn. Þannig eru núverandi styrkleikahlutföll erfið viðureignar og ekki bætir úr skák að einn flokkur hefur spyrt sig við annan – það var ekki fyrirsjánlget er kjósendur gengu í kjörklefa. Í einhverjum tilvikum vilja einn flokkur ekki ræða við annan og það flækir líka verkefnið.

 

  1. “Það tekst ekki að mynda stjórn – flokkarnir verða að mynda stjórn og láta af stífni¨- svona möntrur og aðrar álíka skipta tugum. En augljósa spurningum: Utan um hvað? er ekki hátt skrifuð. Samsteypustjórnir byggja m.a. á tvennu: Málefnastöðu sem aðilar geta sætt sig við – oftast nokkuð fjarri ítrustu kröfum – og svo trausti milli aðila. Á það reynir t.d. þegar óvæntum verkefnum (oft ekki í málefnaskrá) skýtur upp. Flokkar forgangsraða málefnum og taka ekki þátt í ríkisstjórn nema það náist ásættanleg málamiðlun miðað við áherslur í kosningum. Nú ráða mestu margtuggnir málaflokkar sem snúa að samfélagshjálp, heilsu, menntun og velferð, ásamt samgöngum. Þá dugar ekki að jánka umbótum í viðræðum heldur verður líka að stunda ábyrga fjármögnun þeirra ef fjárlagafrumvarp fyrri eða komandi stjórnar dugar ekki til.

 

3. Flokkar sem byggja á markaðri, víðtækri og skýrri hugmyndafræði eru trúir henni og kjósendum sínum að því marki að stjórnarseta, þegar svo ber undir, endurspeglar brýnustu hagsmuna- og lífsskilyrðakröfur umbjóðenda sinna. Um leið reyna þeir að þoka samfélaginu til þeirra gerðar sem þeir telja þjóna gildum er þeir skilgreina sem réttmætt, sanngjörn og affarasæl. Þess vegna bera í raun og veru allir flokkar sem standa undir nafni og taka þátt í vel heppnuðum eða misheppnum stjórnarmyndunarviðræðum ábyrgð á niðurstöðunni. Vissulega getur svo einn eða fleiri flokkar tekið á sig að lýsa yfir að ekki gangi nógu langt saman – það er heiðarlegt. Það er svo á ábyrgð þess sem hefur stjórnarmyndunarumboð að slíta viðræðum, ýmist í þökk allra eða sumra

Vinstri græn vilja breytingar í sjávarútvegsmálum

Gísli Garðarsson skrifar:

Klisjan segir að vika sé langur tími í pólitík. Ef að hún er sönn, hvað má þá segja um nokkur ár? Þó ekki sé lengra síðan en þrjú og hálft ár síðan við komum úr ríkisstjórn þar sem Steingrímur var sjávarútvegsráðherra, hækkaði veiðigjöldin drastískt og fékk útgerðina til að sigla flotanum í land í mótmælaskyni eru meira að segja félagar okkar úr þeirri ríkisstjórn og nánasta samstarfsflokki okkar í stjórnmálum komnir á þá skoðun að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé sérstakur stuðningsmaður núverandi kerfis í sjávarútvegi. Sem er fáránlega steikt pæling. Í alvörunni, hún er það ef maður hugsar það í aðeins meira en bara smástund. Vinstri græn eru sósíalískur flokkur sem leggur ríka áherslu á byggðastefnu. Núverandi kvótakerfi hefur bæði safnað arðinum af auðlindunum á fárra hendur og lagt heilu sjávarplássin í rúst. Hvernig í veröldinni ætti það að geta samræmst hugmyndafræði VG?

Staðreyndin er sú að Vinstri græn vilja – að sjálfsögðu – breytingar í sjávarútvegsmálum. En nú virðist sú staðreynd eitthvað á reiki, ekki síst í ljósi þess að ekki náðist saman við aðra umbótaflokka í nýlegum stjórnarmyndunarviðræðum, m.a. um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Nú spyrja margir: Af hverju ekki? Jú, því nálgun VG á það hvernig (ekki hvort) ráðast eigi í breytingar á kerfinu er í grunninn hugmyndafræðilega ólík. Miðju- og hægriflokkarnir hafa viljað ráðast í þær breytingar með markaðslausnir í fyrirrúmi en VG er, sem vinstriflokkur, ekkert sérstaklega hrifinn af markaðslausnum og telur þær skapa önnur vandamál.

En hver er þá sjávarútvegsstefna VG? Það er ekki nema von að sé spurt. Ég skal reyna að varpa ljósi á það:

Í 2009 var samþykkt á landsfundi „Hafið bláa hafið – áherslur og tillögur Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum“. Það er langt og mikið plagg og má sjá hér fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur: http://vg.is/stefnan/sjavarutvegsstefna/

Í „Hafinu bláa hafinu“ voru tillögur VG í sem stystu máli eftirfarandi:

Ráðist yrði í að innkalla allan kvótann (5% á ári) og setja í stjórnarskrá ákvæði um að fiskistofnar umhverfis landið væri í sameign þjóðarinnar. Aflaheimildir væru leigðar aftur út sem tímabundinn afnotaréttur og að við það væri gætt jafnræðis. Þriðjungur heimilda væri á opinberum leigumarkaði til sex ára í senn, þriðjungur yrði bundinn við sjávarbyggðir og þriðjungur væri tímabundið hjá handhöfum kvóta (óframseljanlegar) og endurskoðaður áður en 20 ára innköllunartímabilinu lyki. Nokkrar varaleiðir voru svo nefndar sem aðrar færar leiðir sem hreyfingin gæti skoðað ef til þess kæmi. Utan þessa eru í „Hafinu bláa hafinu“ ákvæði um stórfelldar umbætur í umhverfis- og loftslagsmálum í atvinnugreininni, umbætur í tengdu lagaumhverfi og atvinnurekstri og fleira sem væri of langt mál að rekja hér.

Grundvallarmunurinn á þessum tillögum VG og annarra flokka er sá að ekki er farið í uppboð (einkavæðingu) á kvótanum eftir að hann hefur verið kallaður inn heldur er hann í eigu ríkisins/samfélagsins (þjóðnýting) og leigður út. Svona frekar beisik hægri-vinstri munur, myndi ég allavega segja. Hvað sem fólki annars kann svo sem annars að finnast um það.

Nú, eins og þeir sem hafa gluggað í „Hafið bláa hafið“ hafa eflaust áttað sig á er þar um dálítið langt og tyrfið plagg að ræða. Það sama gildir reyndar um marga stefnumörkun VG. Var því ráðist í það nýlega að gera kosningastefnur sem leystu ekki beint eldri stefnur af hólmi heldur væru skýrari og öppdeitaðari framsetning á samþykktum hreyfingarinnar. Þar kemur sjávarútvegurinn fyrir í tveimur plöggum; annars vegar „Atvinnulíf“ (hér: http://vg.is/kosningar-2016/atvinnulif/) og „Atvinnugreinar“ (hér: http://vg.is/kosningar-2016/atvinnugreinar/). Í þeirri fyrri kemur fram að sjávarauðlindin eigi að vera í þjóðareigu – ekkert nýtt þar á ferð. En í hinni seinni stendur eftirfarandi (auk – reyndar – nokkurra annarra almennra atriða): „Meginmarkmiðið með sterkri sjávarútvegsstefnu er sjálfbær nýting fiskistofnanna, ábyrg umgengni um lífríki hafsins, samhengi í byggðaþróun og síðast en ekki síst að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar.“

Það sem þessi setning þýðir í raun og veru var að þarna vorum við að opna á málamiðlanir. Við vorum að opna t.a.m. á útboðsleiðina, ef að það væri hægt að sýna fram á það að útboð uppfyllti þessi þrjú skilyrði. Til þess að geta mögulega samið við samstarfsflokka okkar um það.

Ég vona að þessi texti skýri út sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna fyrir einhverjum. Fólk getur haft þær skoðanir á henni sem það vill. En ég held að því verði hvorki neitað að VG hefur alla tíð stefnt að stórfelldri endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu – né heldur hinu, að við höfum opnað á málamiðlanir við þær tillögur sem við sjálf höfum lagt fram. Með það í huga getur fólk ef til vill skilið að okkur Vinstri grænum finnst verulega illa að okkur vegið þegar á okkur eru bornar þær sakir að við séum óbilgjörn eða stöndum með núverandi kerfi.

Orð og efndir

Það eru alltaf vonbrigði þegar verkefni sem maður tekst á hendur verða ekki að veruleika. Þannig er með niðurstöðu óformlegra stjórnarmyndunarviðræðna fimm flokka, sem slitið var í gær. Þingflokkur Vinstri grænna fól Katrínu Jakobsdóttur formanni umboð til að fara í formlegar viðræður í upphafi þeirra, en aðrir flokkar vildu það ekki. Í gær kom svo í ljós að of langt bar á milli flokka til að hægt yrði að ná saman.

Trauðla bar annað orð oftar á góma í kosningabaráttunni en orðið innviðir. Allir flokkar virtust sammála um að þá þyrfti að efla, orðið innviðauppbygging var mikið tekið af stjórnmálamönnum í framboði. Og ætli annar málaflokkur hafi verið meira ræddur en heilbrigðismál?

En hvað gerist svo eftir kosningar? Þá kemur í ljós að til að efla heilbrigðiskerfið, menntakerfið, velferðarkerfið, til að byggja upp innviðina, til að framkvæma kosningaloforðin – til að gera allt þetta þarf fjármuni. Og þeir fjármunir liggja ekki á lausu. Staða ríkissjóðs reyndist ekki eins góð og fráfarandi stjórnarflokkar vildu vera láta (hver hefði trúað því að stjórnarflokkar reyndu að fegra ríkisfjármálin í aðdraganda kosninga?) og um á þriðja tug milljarða vantaði til að standa undir samþykktum þingsins um framkvæmdir og rekstur 2017. Fyrir utan allt annað.

Fjármunir þurfa að koma einhvers staðar frá. Vinstri græn hafa ekki verið hrædd við að stinga upp á leiðum til að fjármagna samneysluna. Við teljum að skattkerfið eigi að vera bæði til tekjuöflunar og tekjujöfnunar. Því miður hafa aðrir flokkar ekki reynst tilbúnir til að fara í þá tekjuöflun sem þó er nauðsynleg til að þeirra eigin loforð verði að veruleika. Þar stendur.

Ég er einfaldur maður og tel að fólk eigi að segja satt. Það á ekki að lofa einhverju fyrir kosningar, en hlaupa frá því eftir kosningar. Það eru gamaldags klækjastjórnmál.   Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Nú er málið í höndum Alþingis

Fyrir kosn­ingar bentum við í Vinstri grænum ítrekað á að það yrði að efla inn­viði sam­fé­lags­ins. Inn­við­irnir hafa verið van­rækt­ir, og það verður að kosta til veru­legum fjár­munum ef við viljum halda við því sam­fé­lagi sem við eig­um, hvað þá að byggja upp eins og allir sjá að nauð­syn kref­ur. Þau sem kusu Vinstri græn veittu okkur umboð fyrst og fremst til þessa. Búið er að skera vel­ferð­ina inn að beini og ef ekki á illa að fara verður að verja veru­legum fjár­munum í nýja sókn.

Við vilj­um:

Fjár­muni í heil­brigð­is­þjón­ust­una í sam­ræmi við und­ir­skriftir 86.000 Íslend­inga, svo nemur tugum millj­arða króna, – ekki dugir að mæta launa­hækk­un­um, það þarf meira til!

AUGLÝSING

Fjár­muni í mennta­mál, ekki síst háskóla­stig­ið.

Fjár­muni í vega­kerf­ið, bæði nýfram­kvæmdir og við­hald. Sú upp­bygg­ing er for­senda fyrir áfram­hald­andi sókn í ferða­þjón­ustu um allt land. Ferða­þjón­ustan á stærstan þátt í efna­hags­bata síð­ustu ára.

Veru­lega aukn­ingu fjár­muna til aldr­aðra og öryrkja þannig að þeirra laun hækki aft­ur­virkt. Það er risa­stórt rétt­læt­is­mál.

Við bentum ítrekað á fyrir kosn­ingar að þessir liðir kost­uðu nokk­urra tuga millj­arða aukn­ingu alls á kjör­tíma­bil­inu og að þá pen­inga gætum við sótt á rétta staði. Og auð­vitað er fleira sem þarf að sinna og fjár­magna, til dæmis við verndun og upp­bygg­ingu ferða­manna­staða, lög­gæslu eða svig­rúm sveit­ar­fé­laga til góðra verka, svo fátt eitt sé nefnt.

Aðrir stjórn­ar­and­stöðu­flokkar á síð­asta kjör­tíma­bili töl­uðu i sömu átt. Allir lögðu áherslu á þessi mál en unnu þó ekki kosn­ing­arn­ar. Kalla varð Við­reisn að borð­inu ef mynda átti starf­hæfa meiri­hluta­stjórn. Ekki mátti kalla Fram­sókn að borð­inu af því að Píratar neit­uðu að tala við flokk­inn þann og reyndar einnig vegna þess að Björt fram­tíð og Við­reisn, öllum að óvörum, höfðu límt sig sam­an.

Þannig var staðan læst. Þá fór Við­reisn að tala um upp­boð á afla­heim­ild­um. Við vorum til­búin til að ræða það, enda höfðum við lýst því marg­sinnis yfir í aðdrag­anda kosn­inga að við værum opin fyrir öllum leiðum sem tryggðu þjóð­inni eðli­lega hlut­deild í arð­inum af fisk­veiði­auð­lind­inni, án þess þó að setja byggðir lands­ins í upp­nám eða afhenda kvóta til langs tíma, hvað þá þrjá­tíu og þriggja ára eins og Við­reisn leggur upp með í sínum hug­mynd­um. Það var líka talað um land­bún­að­ar­mál á ágætum nótum en þeirri umræðu var heldur ekki lok­ið.

Í ljós kom að það var ekki unnt að ná fimm flokka meiri­hluta um að styrkja inn­við­ina. Þar strand­aði á því að sam­staða náð­ist ekki um að láta þá sem mest hafa í sam­fé­lag­inu borga fyrir þá fjár­fest­ingu og við­hald sem þjóðin getur ekki verið án. Það vildum við Vinstri græn gera og þar með standa við kosn­inga­lof­orð­in. Um þetta náð­ist ekki sam­staða og lengst var á milli Við­reisnar og Vinstri grænna.

Hvað er þá til ráða?

Framundan er afgreiðsla á fjár­lög­um. Þá er þingið frjálst – eng­inn meiri­hluti og eng­inn minni­hluti. Þá reynir á Alþingi. Þá kemur í ljós þegar þing­menn ýta á atkvæða­greiðslu­hnapp­ana úr hverju þeir eru gerðir og hvaða hags­muna þeir ætla að gæta. Eru þeir á Alþingi til að gæta sér­hags­muna pen­inga­afl­anna eða til að gæta almanna­hags­muna og standa með sam­fé­lag­inu , eins og Vinstri græn hafa viljað gera og ætla að gera?

Næsta leik á Alþingi.

Þá koma raun­veru­legar fyr­ir­ætl­anir flokk­anna í ljós.

Höf­undur er þing­maður Vinstri grænna.

Framsækin atvinnustefna VG

Samhliða búvörusamningunum, sem fráfarandi ríkisstjórn gerði í haust, var komið inn endurskoðunarákvæði. Það viljum við í Vinstri grænum nýta vel og ná sátt um breytingar í landbúnaði. Þar eiga umhverfismálin að vera í forgrunni. Það er skylda okkar að huga að loftslagsmálum, því vistspori sem landbúnaðurinn myndar, en það á ekki síður við þegar kemur að innflutningi, en 13 prósent af útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum eru tilkomin vegna vöruflutninga.

Það er gríðarlega mikilvægt að huga að dýravelferð og neytendavernd, þegar kemur að landbúnaði. Það gerum við með því að gera strangar kröfur um innlenda framleiðslu og huga vel að því hvernig styrkjum er háttað til hennar. Hvað innflutning varðar þarf uppruni að vera á hreinu og þar með þær aðstæður sem eru við framleiðsluna í landinu sem framleitt er, ekki síðasta viðkomustað á leiðinni til Íslands. Þannig gefst neytendum val. Við getum ekki talað fyrir dýravelferð heima fyrir, en stutt við slæman aðbúnað í öðrum löndum með því að flytja vörur úr slíkri framleiðslu inn. Vinstri græn hafa verið tilbúin til breytinga í sjávarútvegi og hafa þá stefnu að hluti aflaheimilda eigi að leigjast út á opinberum leigumarkaði.

Við höfum viljað horfa til þess sem frændur okkar Færeyingar eru að gera með tilraunum í uppboði á aflaheimildum, en þar, eins og í landbúnaði, teljum við að umhverfismál eigi að skipta miklu. Sjávarútvegur verður að þróast enn frekar í átt til umhverfisvænna veiða og vinnslu.

Auðlindir hafsins eiga að vera sameign þjóðarinnar. Nokkuð rík samstaða hefur verið um það, a.m.k. á hátíðarstundum. En hvað þýðir það í raun? Við í Vinstri grænum teljum að það þýði að nýtingarréttur verður leigður út til skamms tíma, en eignarhaldið verði opinbert. Nýtingarréttur til langs tíma, áratuga jafnvel, getur nefnilega myndað hefðarrétt.

Vinstri græn telja að nú sé lag að koma umhverfissjónarmiðum enn frekar að þegar að atvinnumálum kemur. Það á bæði við hinar hefðbundnari greinar, en einnig nýrri greinar. Það er raunveruleg framsækni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu