Frumkvæði og árangur í norrænni samvinnu

 

Ísland er sérstætt og gott land til eldfjallarannsókna og eldfjallafræðslu. Þess vegna eru jarðvísindi meðal þeirra vísindagreina sem hæst ber innan lands og utan. Norræna eldfjallasetrið (NE) hefur starfað hér á landi í rúm 40 ár, getið sér gott orð í margvíslegum og gagnlegum rannsóknum, eflt norræna samvinnu og sjálfsmynd, og menntað rúmlega 150 unga vísindamenn. NE kristallar mikilvæga sérþekkingu í eldfjallafræðum til gagns fyrir okkur og aðrar þjóðir.

Fyrir skömmu ákvað Norræna ráðherranefndin að leggja stofnunina, sem þegar nýtur 70-80 Mkr árlegs stuðnings íslenska ríkisins, niður á árabilinu 2020-2023, og um leið NIAS (Asíurannsóknastofnun), NORDITA (kjarneðlisfræðisstofnun), Nifs (hafréttarstofnun) sem starfa á hinum Norðurlöndunum.

Föstu norrænu fjármagni (23 M Dkr/ár) til stofnananna fjögurra, sem allar fá háa einkun Eftirlitsstofnunar Norðurlandaráðs, átti að beina til samkeppnissjóðsins NordForsk. Árlegt framlag til hans nemur um 100 M Dkr. Fá rök sáust samt fyrir því að beina öllu rannsóknafé í einn samkeppnissjóð.

Fljótlega tók að bera á mótmælum gegn þessari ákvörðun. Hér var nýbúið að auka framlag á fjárlögum 2018 til NE, auk hærra framlags frá HÍ, til að viðhalda rekstri a.m.k í eitt ár. Ég beitti mér þá fyrir því, í samvinnu við þingmenn í Íslandsdeild  Norðurlandaráðs, að hún ynni að því að fá hnekkt ákvörðun ráðherranefndarinnar sem þá þegar hafði verð lögð fyrir ráðið til skoðunar og atkvæðagreiðslu. Fékk góðan íslenskan ráðgjafa, þaulkunnugan norrænu samstarfi, í lið með okkur. Fulltrúar íslensku flokkanna í þremur flokkahópum á þemaþingi ráðsins á Akureyri nú nýverið unnu af kappi að því að fullmóta tillögu um frestun á niðurlagningu stofnanna og endurskoðun helstu málshliða. Þar voru þingmenn VG, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir afar virk í vinstri-græna hópnum. Ágæt samstaða varð til innan og á milli hópanna. Svo fór að ekki var mælt fyrir tillögu ráðherranefndarinnar og hún einfaldlega dregin til baka.

Þar með hafa stofnanirnar komist í skjól um hríð. Endurskoðun og greiningar taka nú við. Þá verður að sjá til þess að farsælar rannsóknastofnanir og stór, norrænn rannsóknasjóður geti starfað hlið við hlið, líkt og í aðildarlöndunum.

Ari Trausti Guðmundsson. 

Þingmaður VG í Suðurkjördæmi. 

 

 

Útivistarsvæði og útsýni eða ný úthverfi

Eitt af því besta við Grafarvoginn er nálægðin við náttúruna. Það er nálægðin við náttúruna sem er ein af helstu ástæðum þess að margir hafa flutt í Grafarvoginn. Fjallasýnin, fjaran og útsýnið.

Útsýnið í Grafarvoginum er einstakt. Í sunnanverðum Grafarvoginum er hægt að sjá gróðursælt hverfi með fallegt útsýni yfir voginn og útsýnið út á sundin úr hverfunum í norðanverðum Grafarvoginum er sennilega eitt það fegursta í Reykjavík: Ósnortna strandlengjan við Blikastaðakró og í Eiðsvíkinni er ein sú lengsta í Reykjavík. Þar má sjá seli flatmaga á skerjum og æðarfugla synda um. Í miðju þessa útsýnis er Geldinganesið, stærsta vannýtta útivistarperla höfuðborgarsvæðisins. Útsýnið og útivistarmöguleikarnir eru meðal þess sem hefur dregið fólk í Borga, Víkur og Staðahverfin.

Því miður er framtíð þessa útsýnis og allrar þessarar náttúrufegurðar í hættu.

Framtíð Geldinganess
Um skeið var grjótnám í Geldinganesi, og lengi vel stóð til að koma þar upp stórskipahöfn ásamt iðnaðar- og athafnasvæði. Sem betur fer varð ekkert úr þeim fyrirætlunum, og á núverandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að nesið sé opið svæði. Ekki er gert ráð fyrir að nesið verði skipulagt næstu á næstu 12 árum.

Fyrir þessar kosningar hefur Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar viðrað hugmyndir um risvaxna íbúðarbyggð í nesinu sem myndi gerbreyta Geldinganesi og umbylta öllu útsýni út á sundin. Ljósmengunin af íbúðarbyggð í nesinu mun hafa áhrif á útsýnið og allt lífið á nesinu. Með háum byggingum myndi ásýnd nessins breytast og værum við að missa af góðum stað sem við gætum nýtt sem útivistarparadís. Fasteignaverð íbúðana í kring mun lækka, þar sem að þær voru byggðar og seldar með því mikla útsýni sem þær hafa í dag og hafa stórframkvæmdir á svæðinu mikil áhrif þar á.

Meðan á framkvæmdum stæði myndi vera stöðug umferð stórvirka vinnuvéla og vörubíla út í nesið. Sú umferð færi um Strandveginn með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa. Fjölmennri íbúðarbyggð í nesinu mun svo fylgja stóraukin umferð íbúa í gegnum Grafarvoginn. Grafarvogsbúar eru almennt þeirrar skoðunar að umferðin í hverfinu sé nógu mikil fyrir.

Nýtum fegurð Geldinganessins betur
Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir opnu svæði í Geldinganesi. Stefnt er að því að halda strandlengjunni ósnortinni til að vernda sjávar- og fuglalíf á svæðinu. Á Geldinganesi er t.d. eini varpstaður stormmávs á höfuðborgarsvæðinu.

Geldinganesið er yndislegt útivistarsvæði með merkilega sögu. Þarna má finna sjótóftir á austanverðu nesinu og skipsflak á sunnanverðu nesinu. Margt er því hægt að byggja á ef svæðið yrði opnað sem útivistar og leiksvæði. Geldinganesið gæti orðið uppspretta ævintýra og spennandi rannsóknarleiðangra ungra jafnt sem aldna.

Verndum einstaka náttúru hverfisins
Við eigum að vernda það sem gerir Grafarvoginn að yndislegu hverfi og Reykjavík að fallegri borg: Nálægðina við náttúruna og útsýnið út á sundin. Með því að byggja ný risavaxin úthverfi og þenja borgina út í Geldinganesið fórnum við náttúrufegurðinni sem er ein helsta auðlind borgarinnar.

Opnum Geldinganesið sem útivistarsvæði og gefum öllum tækifæri á að njóta svæðsins í allri sinni dýrð!

Ragnar Karl Jóhannsson.
Höfundur er Grafarvogsbúi, varamaður í hverfisráði Grafarvogs og skipar 13 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar

Innantóm kosningaloforð

Um helgina kynnti Sjálfstæðisflokkurinn í borginni kosningaloforðin sín í aðdraganda komandi borgarstjórnakosninganna. Á stuttum lista yfir það sem sennilega eiga að vera kjarnaatriði stefnunnar var ýmislegt sem flestir flokkar hafa á stefnuskrá sinni eins og að draga úr mengun, koma börnum fyrr að í leikskóla og gera Reykjavík að grænustu borg Evrópu.

Kosningaloforð eru oft misraunhæf. Stundum er loforðin þess efnis að það mætti telja það heppni að ná þeim á einu kjörtímabili. Önnur loforð rætast nánast af sjálfu sér. Sum loforða sjálfstæðismanna eru á meðal þess sem þegar er unnið að og ætti að raungerast án þeirra atbeina, t.d. loforðið um byggingu tvö þúsund íbúða á ári.

Það er hins vegar alltaf vandræðalegt þegar frambjóðendur hafa ekki unnið heimavinnuna sína og lofa einhverju sem þeir geta ekki staðið við. Og á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er einmitt eitt slíkt loforð: Niðurfelling fasteignagjalda á fólk sem er 70 ára og eldra.

Nú er því þannig háttað sveitarfélögum ber að fara eftir lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Veita þau lög aðeins takmarkaðar heimildir til niðurfellingar fasteignagjalda. Er það ekki bara skýrt af lögunum heldur hefur ráðuneytið auk þess úrskurðað um að það er ólöglegt að fella niður fasteignagjöld óháð tekjum fólks eða eftir aldri. Með öðrum orðum er beinlínis ólöglegt að miða við tiltekinn aldur fólks í niðurfellingu fasteignagjalda.

Þess fyrir utan standa rök ekki til þess sérstaklega að lækka skatta á hópa sem eru eignamiklir og geta vel staðið undir skattgreiðslunum. Í Reykjavík höfum við farið leið jöfnuðar og nýtt okkur svigrúmið í lögum og lækkað fasteignaskatta á tekjulágt eldra fólk og öryrkja. En Sjálfstæðismönnum er líklega sama um jöfnuð og réttlæti. Hefði það frekar átt að rata í kosningastefnuskrána þeirra að þeir lofa misskiptingu og ójöfnuði í borginni enda væri það sannleikanum samkvæmt í ljósi þessara kosningaloforða.

Líf Magneudóttir, oddviti VG í Reykjavík og forseti borgarstjórnar.

Greinin birtist fyrst á visir.is. 

Stærsta pólitíska verkefnið.

Leik­skólar Reykja­víkur eru einn mik­il­væg­asti burða­rás vel­ferð­ar­þjón­ustu borg­ar­inn­ar. Leik­skól­arnir eru fyrsta mennta­stigið en þar læra börn líka að leika sér við önnur börn og ótal marg ann­að. Í leik­skólum eru lagðar fyrstu og einna mik­il­væg­ustu stoð­irnar undir þroska­feril þeirra. Þeir eru ekki síður mik­il­vægur hluti félags­legra inn­viða íslensks sam­fé­lags eins og heil­brigð­is­kerfið okkar og háskól­arn­ir.

Það hefur lík­lega ekki farið fram hjá neinum að leik­skólar borg­ar­innar standa frammi fyrir alvar­legum vanda. Þeir hafa, eins og svo margar aðrar stofn­anir sam­fé­lags­ins, þurft að þola mik­inn nið­ur­skurð eftir hrun.

Í tíð núver­andi meiri­hluta sem við í Vinstri grænum mynd­uðum með Sam­fylk­ingu, Bjartri fram­tíð og Pírötum árið 2014 höfum við á seinni hluta kjör­tíma­bils­ins horfið af braut nið­ur­skurð­ar. Við höfum aukið fram­lög til leik­skóla­starfs um 2 millj­arða króna og sam­hliða því lækkað leik­skóla­gjöld um sem sam­svarar nærri 85.000,- krónum á ári á fjöl­skyldu með eitt barn í átta tíma vist­un. Það munar um minna í heim­il­is­bók­haldi barna­fjöl­skyldna.

Þótt við Vinstri græn séum stolt af lægri álögum á barna­fjöl­skyldur og því að byrjað sé að vinda ofan af nið­ur­skurði í starf­semi leik­skól­anna þá er deg­inum ljós­ara að frek­ari aðgerða er þörf í leik­skól­unum til að mæta þeim brýna vanda sem þeir standa frammi fyr­ir. Ástandið í manna­ráðn­ingum er slæmt, svo það sé sagt hreint út, og hlut­fall fag­lærðs starfs­fólks, leik­skóla­kenn­ara, lækk­ar. Hinu dag­lega starfi er á flestum stöðum haldið uppi af vinnu­sömu og harð­dug­legu fólki sem er ein­beitt í því að láta allt ganga upp eins og best verður á kos­ið. Bæði fag­lærðu og ófag­lærðu. Treg­lega gengur hins vegar að fá nýtt fólk til starfa sem vill gera leik­skól­ann að starfs­vett­vangi sínum til fram­tíð­ar.

Bregð­ast verður við bráða­vanda leik­skól­anna

Nýlega var birt aðgerða­á­ætlun í leik­skóla­málum í Reykja­vík sem var unnin í þverpóli­tísku starfi með fag­fólk inn­an­borðs. Í henni eru umfangs­miklar aðgerðir til að rétta kúr­s­inn – og þó fyrr hefði ver­ið.

Ég ætla ekki að tíunda þær allar enda mýmargar og yfir­grips­miklar en þó langar mig að dvelja við eina aðgerð, sem ekki er fjallað nægi­lega mikið um í áætl­un­inni, og ræða það sem skiptir höf­uð­máli fyrir fram­gang allra starfa í menntaum­hverfi ungra barna. Það eru laun­in.

Leið­rétta verður laun leik­skóla­starfs­fólks

Það liggur í augum uppi að laun leik­skóla­kenn­ara, deild­ar­stjóra í leik­skólum og leik­skóla­stjóra þurfa að vera hærri ef auka á nýliðun í stétt­inni. Um þetta er ekki deilt og í síð­ustu kjara­samn­ingum fengu leik­skóla­kenn­arar all­nokkrar kjara­bætur þó enn megi gera bet­ur.

Á hinn bóg­inn starfa líka margir svo­kall­aðir ófag­lærðir starfs­menn í leik­skólum (og grunn­skól­um) og flestallir á Efl­ing­ar­töxt­um. Þessi hópur myndar um tvo þriðju hluta alls starfs­fólks á leik­skólum borg­ar­innnar og því morg­un­ljóst að hér er verið að tala um stóran og gíf­ur­lega mik­il­vægan þátt í starfi þess­ara grunn­stofn­ana sam­fé­lags­ins. Það hversu lítið þeirra hlutur og þeirra raddir hafa heyrst í umræð­unni um stöðu leik­skól­anna er baga­legt.

Rétt­læt­iskrafa stórra kvenna­stétta

Það eru konur sem halda uppi menntun barna í leik- og grunn­skól­um. Það eru líka stórar kvenna­stéttir sem sjá um umönnun eldra fólks eða starfa við að hlúa að fólki í heil­brigð­is­kerf­inu eins og t.d. hjúkr­un­ar­fræð­ingar og ljós­mæð­ur. Við­gangur hvers sam­fé­lags byggir á þessu tvennu – menntun og vel­ferð.

Þessar stóru kvenna­stéttir bera uppi félags­lega inn­viði sam­fé­lags­ins. Það mætti segja að þær séu félags­legir inn­viðir sam­fé­lags­ins. Það eru því hags­munir sam­fé­lags­ins alls að gætt sé að hags­munum þess­ara stóru kvenna­stétta. Það eru líka hags­munir sam­fé­lags­ins að reka hvorki né sam­þykkja lág­launa­stefnu.

Raun­veru­leiki leik­skóla­starfs­manna

Á skóla- og frí­stunda­sviði borg­ar­innar eru konur innan Efl­ingar í tæp­lega 729 stöðu­gild­um. Störf þeirra eru marg­vís­leg. Þær starfa t.d. í skóla­mötu­neytum og við ganga­vörslu í grunn­skól­um, en fjöl­menn­asti hóp­ur­inn eru leið­bein­endur eða leik­skóla­liðar í leik­skól­um.

Í mars voru meðal dag­vinnu­laun þess­ara kvenna 320.861,- krónur og með­al­heild­ar­laun 364.445,- krón­ur. Mán­að­ar­laun ófag­lærðs starfs­manns  á grunn­þrepi, eins og hann er skil­greindur í samn­ing­um, eru 291.596,- krónur án neyslu­hlés en það eru tíu tímar sem Reykja­vík­ur­borg borgar auka­lega fyrir að mat­ast með börn­un­um. Til sam­an­burðar er leik­skóla­liði með 316.048,- krónur en það er starfs­maður sem hefur sótt sér nám í leik­skóla­liða­brú eða nám af leik­skóla­liða­braut.

Það sér það hver maður að þessi laun eru langt því frá að vera boð­leg. Hvað þá að þau end­ur­spegli þá gríð­ar­legu ábyrgð sem starfs­menn leik­skól­anna bera og það mikla lík­am­lega og and­lega álag sem fylgir starf­inu.

Sveit­ar­fé­lögin eru lág­launa­vinnu­staðir

Almennt séð greiða sveit­ar­fé­lögin í land­inu lægstu laun­in. Bæði ríkið og hinn almenni vinnu­mark­aður greiðir hærri laun. Þegar við skoðum launa­þróun síð­ustu ára sjáum við svo að starfs­menn á leik­skólum hafa varla haldið í við almenna launa­þró­un.

Lág­launa­stefna á hvergi að við­gang­ast og þá síst hjá Reykja­vík­ur­borg. Hana eigum við ekki að umbera og eigum að taka for­ystu um að útrýma henni. Þetta á sér­stak­lega við um kjör fjöl­mennra kvenna­stétta.

Efl­ing og end­ur­reisn leik­skól­anna er stærsta pólítíska verk­efni næsta kjör­tíma­bils

Í end­ur­reisn leik­skóla­stigs­ins skulum við byggja það upp sem fyrsta mennta­stig­ið. Til þess að það sé mögu­legt verður bæði að halda í allt það harð­dug­lega fólk sem nú starfar á leik­skól­unum og laða að nýja starfs­menn. Þetta verður ekki gert nema við leið­réttum starfs- og launa­kjör ófag­lærðs starfs­fólks og leik­skóla­kenn­ara. Það er ekki bara rétt­læt­is­mál heldur er það hags­muna­mál sam­fé­lags­ins alls sem ber ábyrgð á þroska, vel­ferð og upp­vexti barna. Þetta kemst ekki til fram­kvæmda nema í borg­ar­stjórn velj­ist fólk sem ætlar að ráð­ast í þær leið­rétt­ingar sem þarf til að búa til rétt­láta borg –mann­vænt sam­fé­lag. Það ætlum við Vinstri græn svo sann­ar­lega að gera.

Líf Magneudóttir, er oddviti VG í Reykjavík

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.

Að fara eða fara ekki í leikhús

 

Það jafn­ast fátt við til­finn­ing­una að koma inn í leik­hús og heyra skvaldrið í áhorf­end­um. Svo myrkvar skyndi­lega í saln­um, áhorf­end­urnir í salnum taka and­köf, símunum er troðið ofan í vasa eða töskur og töfr­arnir brjót­ast fram á svið­ið.

Við förum í leik­hús til að láta hreyfa við ein­hverju í okk­ur. Stundum er upp­lifunin hressandi og skemmti­leg og við hlæjum okkur mátt­laus, stundum sitjum við eftir með sorg í hjarta yfir hvað ver­öldin getur verið grimm og stundum býr kvöldið í leik­hús­inu til ótelj­andi spurn­ingar sem við veltum fyrir okkur lengi á eft­ir. Svo er það allra besta – að upp­lifa leik­hús með litlu barni. Þá fyrst skiljum við töfrana.

Að fara í leik­hús er senni­lega ekki kvíða­vald­andi til­hugsun hjá flest­um. En það eru stórir hópar fólks á Íslandi sem geta ekki notið töfr­anna. Og þá er ég ekki að tala um fólk sem býr við fjár­hags­lega bága stöðu, það er efni í annan pistil. Hvað ef barnið þitt er á ein­hverfu­rófi og þú ótt­ast að það geti ekki setið rólegt alla sýn­ing­una? Hvað ef þú þjá­ist af tourette og ótt­ast við­brögð leik­húss­ins og ann­arra gesta við kækj­unum þín­um? Hvað ef skyndi­legur byssu­hvellur eða strobe ljós geta gert það að verkum að þú færð floga­kast? Hvað ef þú ert heyrn­ar­laus? Eða með skerta sjón? Hvað þá?

Flest hugsum við ekki út í það að leik­hús getur verið þving­andi upp­lifun og erfið fyrir marga. Og þessa hug­renn­inga má auð­veld­lega færa yfir á ann­ars konar menn­ing­ar­upp­lif­anir en leik­hús.

Ég hélt að einu aðgangs­skerð­ing­arnar gætu verið lélegt hjóla­stóla­að­gengi og dýr aðgöngu­miði.  En á leik­list­ar­skóla­ár­unum mínum í Englandi starf­aði ég sem sæta­vísa og komst að öðru. Þar bauð leik­húsið sem ég vann hjá upp á að sýn­ingar þess væru reglu­lega textaðar og tákn­mál­stúlk­aðar fyrir heyrn­ar­lausa, að sjón­skertum var boðið að koma fyrr í leik­húsið og fá að fara upp á svið og snerta leik­muni, bún­inga, sviðs­mynd­ina og allt sem gat hjálpað þeim við að njóta sýn­ing­ar­innar og var einnig boðið upp á heyrn­ar­tól þar sem auk tal­aðs texta af svið­inu voru lesnar lýs­ingar á ýmsu sem fram fór á svið­inu.

Reglu­lega voru haldnar svo­kall­aðar ,,af­slapp­aðar sýn­ing­ar“ (e. relaxed per­for­mance) þar sem ekki var algert myrkur í saln­um, öll hljóð­mynd var lækkuð og það var bara hjart­an­lega vel­komið að standa upp, hlaupa svo­lítið eftir göng­un­um, láta frá sér hljóð og klappa nákvæm­lega þegar hverjum og einum áhorf­anda hent­aði.

Þetta er ein af þeim ástæðum sem eru fyrir því að ég er nú í fram­boði og langar til að kom­ast í borg­ar­stjórn. Reykja­vík er stór­kost­leg menn­ing­ar­borg og hún á að vera fyrir alla. Ég vil taka þátt í því starfi að aðstoða menn­ing­ar­stofn­anir borg­ar­innar við að bjóða upp á aðgengi­legar upp­lif­anir fyrir fólk á öllum aldri. Þegar ein­hver getur ekki af ein­hverri ástæðu notið töfr­anna sem menn­ingin okkar hefur upp á að bjóða er nefni­lega vanda­málið ekki mann­eskj­unnar að leysa, heldur okkar sem að menn­ing­unni stönd­um.

Höf­undur er leik­kona og fram­bjóð­andi í fjórða sæti Vinstri­hreyf­ing­ar­innar – græns fram­boðs í Reykja­vík.

Styttum vinnuvikuna

Þeir sem vinna færri en 40 stundir á viku eru afkastameiri hverja unna klukkustund en þeir sem vinna lengri vinnudag. Lífsgæðin versna því ekki við þetta heldur aukast. Rannsóknir sýna að landsframleiðsla er ekki meiri í þeim löndum þar sem vinnuvikan er lengri. Streita minnkar, veikindadögum fækkar og fólk er ánægðara í vinnunni.

Auk þessara kosta myndast meira svigrúm til að sinna fjölskyldu, börnum og maka, ættingjum, vinum og samferðafólki okkar. Við fáum þannig meiri tíma með þeim sem okkur þykir vænt um og getum frekar sinnt frístundum eða tekið þátt í samfélagslegum verkefnum. Styttri vinnuvika styrkir því lýðræðið, bætir samskipti og eflir innviði samfélagsins.

Við stuðlum að meiri samfélagslegum jöfnuði með styttri vinnuviku. Forsendan fyrir framgangi í starfi felst ekki aðallega í löngum vinnudegi. Með styttri vinnuviku dregur úr kostnaði við umönnun barna, hraðinn í atvinnulífinu minnkar og færir okkur frá hugmyndinni um að vinnan sé tilgangur lífsins. Vistspor okkar minnkar, meiri tími gefst til að lifa sjálfbærara lífi og draga úr óþarfa neyslu og notkun einkabílsins.

Að auki felst í þessu fyrirkomulagi auðveldari aðlögun að því að minnka við sig vinnu þegar líður á ævina og undirbúa eftirlaunaárin. Viðbrigðin við að hætta að vinna, sem oft stuðlar að veikindum, kvíða og þunglyndi, yrðu einfaldlega ekki eins mikil. Almenningsviðhorfið í þessum efnum getur breyst ansi hratt með róttækum aðgerðum. Við förum fljótt úr vanþóknun yfir í velþóknun. Ég lít svo á að þessi litlu en mikilvægu skref sem stigin hafa verið með tilraunaverkefnið í Reykjavíkurborg séu upphafið að samtali á landsvísu – samtali milli stjórnvalda, verkalýðshreyfinga, atvinnurekenda og almennings. Það yrði heillavænlegt skref, sem við Vinstri græn lögðum til á sínum tíma að yrði stigið, í átt að betra og manneskjulegra samfélagi. Til hamingju, Reykjavík, með það.

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. 

Enn ein heimsskýrslan

Smám saman hafa greinar og skýrslur vísindamanna og alþjóðasamtaka um stöðu umhverfismála heims haft tilætluð áhrif. Þvert ofan í afneitun og samsæriskenningar sýna víðtækar rannsóknir fram á margþættan vanda og lausnir á honum. Of mikið álag á lofthjúpinn, vegna losunar efna, álag á skóglendi og annað í jurtaríkinu, á lifandi verur, sjóinn, efnaauðlindir og orkugjafa er tekið að valda æ meiri kostnaði miðað við afrakstur, æ meiri skorti íbúa á risastórum landsvæðum og æ meiri mengun. Hún veldur jafnt heilsutjóni sem hækkandi lofthita með afleiðingum á borð við hækkun sjávarborðs og súrnun hafsins.

Tilraunum til að kenna náttúrunni einni um ástandið fækkar en jafnt stórveldi sem flest stórfyrirtæki streitast við að horfa fremur á hagnað sinn en kostnaðinn sem við blasir. Í heildina vinna þó grænu gildin á. Sem betur fer.

Ný skýrsla eftir þriggja ára vinnu yfir 100 sérfræðinga 45 landa var lögð fram á fundi IPBES í Kólumbíu; samtaka 129 þjóða um líffræðilega fjölbreytni og virk vistkerfi. Heimilda var aflað hjá yfir 3.000 vísindamönnum, opinberum stofnunum og staðbundnum aðilum. Um 7.300 aðilar unnu umsagnir og 200 ritrýnendur lögðu sitt fram. Meginniðurstaðan: Landskemmdir vegna mannlegrar virkni grafa alvarlega undan lífsbjörg og heilsu 40% mannkyns (3,2 milljarða manna), ýta undir útdauða lífvera og undir frekari hlýnun loftslagsins. Þetta veldur hægt vaxandi búferlaflutningum. Eftir 30 ár verða milljónir manna á flótta frá eyddum eða skemmdum vistkerfum. Nú þegar kosta skemmdirnar heimsbyggðina yfir 10% þeirra verðmæta sem framleidd eru í veröldinni. Um 87% alls votlendis hafa glatast, eyðimerkur stækka og visthæft skóglendi minnkar um tugþúsundir ferkílómetra á ári. Innan við fjórðungur vistkerfa á þurrlendi jarðar hefur sloppið við verulegar skerðingar og þau falla í 10% árið 2050 ef fram heldur sem horfir.

Skýrslan bendir á helstu leiðir til að endurheimta vænleg búsetuskilyrði og minnir á að við höfum öll verk að vinna. Skilningi eiga að fylgja gjörðir.

Ari Trausti Guðmundsson. 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Sókn fyrir samfélagið

 

Ný fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin kynnti á miðvikudag snýst um sókn fyrir íslenskt samfélag. Hún fylgir þannig eftir þeim sáttmála um samfélagslega uppbyggingu sem ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er grundvallað á, rétt eins og fjárlög ársins 2018 gerðu.

Fjármálaáætlunin byggir á sterkri stöðu ríkissjóðs og efnahagsmála almennt sem er afrakstur þeirrar miklu og góðu vinnu sem staðið hefur yfir allt frá hruni. Fyrir síðustu kosningar og við myndun ríkisstjórnarinnar lögðum við áherslu á að hvorki væri hægt að bíða lengur með að tryggja almenningi hlutdeild í þeirri hagsæld sem hér hefur ríkt né að bíða lengur með uppbyggingu samfélagslegra innviða. Í áætluninni sést hvernig við hyggjumst nýta svigrúmið sem hefur skapast vegna velgengni og vinnu undanfarinna ára til að auka velsæld fólksins í landinu.

Við erum komin yfir mesta þensluskeiðið og hagvöxtur hefur gefið eftir hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Í þessari þróun er fólgið tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að koma með kröftuga innspýtingu í samfélagslega mikilvæg verkefni, hvort heldur á sviði heilbrigðis-, menntamála eða samgangna, og veita hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu. Að ráðast í slík verkefni og uppbyggingu er ekki eingöngu réttlætismál heldur er hún líka mikilvæg efnahagslega til að stuðla að áframhaldandi hagsæld í landinu.

Með því að auka útgjöld til samfélagsþjónustu og innviðauppbyggingar sköpum við viðspyrnu í hagkerfinu, en á sama tíma er mikilvægt að skapa aðstæður fyrir frekari vöxt. Við þurfum að tryggja þekkingarhagkerfinu slíkar aðstæður. Þess vegna ætlum við að afnema þakið á endurgreiðslu kostnaðar fyrirtækja við rannsóknir og þróun eins og kallað hefur verið eftir. Þá höldum við líka áfram að auka framlög til menntamála, ekki síst háskólastigsins.

Útgjöld til heilbrigðismála munu aukast um 40 milljarða króna á næstu fimm árum miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Þetta þýðir að við getum lækkað greiðsluþátttöku sjúklinga þannig að hlutdeild þeirra hérlendis verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum. Forgangsraðað verður í þágu geðheilbrigðismála og heilsugæslunnar um land allt.

Fyrirhugaðar eru breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem vinna á í samráði við forsvarsmenn heildarsamtaka örorkulífeyrisþega. Framlög til velferðarmála jukust um 11,7 milljarða í síðustu fjárlögum en ætlunin er að auka framlög til þessa málaflokks um aðra 28 milljarða á tímabilinu, sem er langt umfram lýðfræðilega þróun. Sú aukning mun ekki síst nýtast til að bæta kjör örorkulífeyrisþega.

Við ætlum að vinna að því með verkalýðshreyfingunni að draga úr skattbyrði lágtekjuhópa. Sá efnahagslegi stöðugleiki sem við sækjumst eftir og viljum stuðla að með skynsamlegri efnahagsstjórn og innspýtingu ríkisfjármuna í hagkerfið stendur nefnilega ekki einn og sér – hann fer hönd í hönd við félagslegan stöðugleika sem hávært ákall er um í samfélaginu. Það er forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að stuðla að félagslegum stöðugleika í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og þegar horft er til þess hvernig við forgangsröðum fjármunum.

Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að ríkið nýti fjármagn úr fjármálakerfinu í innviðaframkvæmdir. Miklum hluta þessara fjármuna verður varið í uppbyggingu í vegakerfinu á næstu árum en þar eru brýn verkefni framundan um land allt. Í áætluninni er sérstaklega kveðið á um að á árinu verði farið í viðræður við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þátttöku ríkisins í borgarlínuverkefninu.

Samgönguframkvæmdir eru þó ekki einu fjárfestingarnar sem eru framundan. Framkvæmdir við nýjan Landspítala halda áfram á árinu með uppbyggingu meðferðarkjarna. Margboðað Hús íslenskunnar mun rísa á kjörtímabilinu, fjárfest verður í nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og ráðist verður í framkvæmdir til að hlúa að og vernda ýmsar náttúruperlur í umsjá ríkisins. Þá eykur ríkisstjórnin framlög til umhverfismála um 35% sem endurspeglar þann einbeitta vilja hennar að ná raunverulegum árangri í umhverfis- og náttúruvernd.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar snýst um þau mikilvægu verkefni sem þarf að ráðast í til að bæta lífskjör og auka velsæld í landinu. Ný fjármálaáætlun tryggir að ráðist verður í þessi verkefni og mun þannig skila sterkara samfélagi og betri lífskjörum fyrir almenning á Íslandi.

Katrín Jakobsdóttir, 

Grein forsætisráðherra birtist fyrst í Morgunblaðinu.

 

Allt sem þú vildir vita um fjármálaáætlunina (eða sumt)…

Fátt dregur betur fram það versta í íslenskri póli­tík en fram­lagn­ing stórra og viða­mik­illa áætl­ana eins og fjár­mála­á­ætl­unar fyrir næstu fimm ár. Vegna þess hve flókin og viða­mikil áætl­unin er, þá getum við stjórn­mála­menn valið sjón­ar­horn eftir hent­ug­leika, farið fram með hálf­sann­leik, tekið úr sam­hengi, jafn­vel farið rangt með; allt til að þjónka okkar mál­stað sem best.

Við stjórn­ar­liðar boðum þannig stór­sóknir á alla kanta á meðan stjórn­ar­and­stað­an… tja, hún segir ýmis­legt. Sam­fylk­ingin segir stefnu Sjálf­stæð­is­flokks­ins hold­ger­ast í áætl­un­inni, sem er skemmti­leg and­staða orða eins for­ystu­manna Við­reisnar sem hefur sagt rík­is­stjórn­ina vera sós­íal­íska vegna stefnu henn­ar. Við­reisn segir hana draum­sýn þar sem hún byggi á óraun­hæfum hag­spám, þó fjár­mála­á­ætlun þess flokks hafi reyndar treyst á áfram­hald­andi hag­vaxt­ar­skeið og meira að segja gert ráð fyrir þaki á rík­is­út­gjöld sem hefði þýtt sam­drátt þeirra ef hag­spár gengju ekki eft­ir. Píratar segja þetta vera nákvæm­lega sömu fjár­mála­á­ætlun og lögð var fram í fyrra, sem rímar frekar illa við gagn­rýni Við­reisnar sem stóð einmitt að þeirri áætl­un. Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins gagn­rýna svo ýmsa þætti úr áætl­un­inni þar sem þeim finnst ekki nóg að gert. Eðli­lega, það er aldrei nóg að gert á öllum svið­um.

Frekar en að bæta í túlk­un­ar­kór­inn, þar sem ég mæri og dásama okkar áætl­un, langar mig að reyna að svara nokkrum spurn­ingum sem ég hef rek­ist á und­an­farna daga. Les­endur verða þó að muna að ég er stjórn­ar­liði og besta leiðin til að mynda sér skoðun er að lesa fjár­mála­á­ætl­un­ina sjálfa, frekar en að treysta okkur stjórn­mála­mönn­um.

Fyrst þó þetta:

Fyrir tvennar síð­ustu kosn­ingar töl­uðu Vinstri græn fyrir því að til þess að svara kalli almenn­ings um sam­fé­lags­lega upp­bygg­ingu þyrfti að auka árleg rík­is­út­gjöld um allt að 50 millj­arða á kjör­tíma­bil­inu. Að tryggja betri heil­brigð­is­þjón­ustu, betra vel­ferð­ar­kerfi, mennta­kerfi, vaxta­gjöld og líf­eyr­is­skuld­bind­ing­ar, og upp­bygg­ingu inn­viða. Fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dóttur að við­bættum fjár­lögum 2018 gerir ráð fyrir að árleg útgjöld muni aukast að raun­virði, og fyrir utan mögu­legar launa- og verð­lags­breyt­ing­ar, um 132 millj­arða til árs­ins 2023 miðað við fjár­lög 2017. Þar af verða árleg útgjöld heil­brigð­is­mála aukin um nærri 60 millj­arða króna, en þau hækk­uðu um tæpa 17 millj­arða í fjár­lögum í des­em­ber og aukn­ingin í fjár­mála­á­ætlun er 40 millj­arðar til við­bót­ar. Um þessi auknu útgjöld er ekki hægt að deila, en fólk getur vissu­lega talið að ekki sé þörf á þeim.

Til að gæta allrar sann­girni, þá er rétt að taka það fram að mik­ill hluti aukn­ing­ar­innar er vegna nýfram­kvæmda.

Miðað við 2017 munu árleg útgjöld vegna vel­ferð­ar­mála aukast um 40 millj­arða, en þau hækk­uðu um 12 millj­arða í fjár­lögum 2018 og munu hækka um 28 til við­bótar sam­kvæmt fjár­mála­á­ætl­un.

Þá í spurt og svar­að. Tekið skal fram að þetta eru aðeins örfáar af þeim spurn­ingum sem fólk hefur spurt, en það gefst tími til frek­ari svara síð­ar.

Er engin aukn­ing til mennta­mála?

Jú, það er mjög mikil aukn­ing til mennta­mála. Heild­ar­fjár­heim­ildir til háskóla­stigs­ins uxu úr rúm­lega 42,3 millj­örðum kr. árið 2017 í 44,2 millj­arða  á þessu ári og sam­kvæmt fjár­mála­á­ætlun er fyr­ir­hugað að fjár­veit­ingar til háskóla­stigs­ins muni halda áfram að aukast og hækki upp í 47,2 millj­arða árið 2023, sem þá er vöxtur upp á tæp 12% á tíma­bil­inu. Fyrri rík­is­stjórn hugð­ist auka fjár­fram­lög pr. háskóla­nema með því að fækka nem­end­um. Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur eykur sjálf fram­lög­in.

Hvað fram­halds­skól­ana varðar þá hækk­aði fram­lag til þeirra um næstum 2 millj­arða í fjár­lögum yfir­stand­andi árs. Þrátt fyrir að nem­endum fari fækk­andi í fram­halds­skólum á næstu árum, ann­ars vegar vegna stytt­ingu náms úr 4 í 3 ár og hins vegar vegna lýð­fræði­legrar fækk­unar í þeim árgöngum sem eru að koma upp úr grunn­skóla, munu fram­lög til fram­halds­skóla hækka lít­il­lega að raun­virði til við­bótar á tíma­bil­inu. Það þýðir auð­vitað að fram­lög á hvern nem­enda munu hækka veru­lega.

Verður ekk­ert gert fyrir öryrkja?

Jú, það er tölu­verð hækkun í örorku­bæt­ur. Fram­lögin munu aukast um 4 millj­arða króna strax frá næsta ári. Þar fyrir utan er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna fjölg­unar öryrkja eða svo­kall­aðra lýð­fræði­legra breyt­inga. Eitt brýn­asta verk­efni rík­is­stjórn­ar­innar á þessu ári er sam­ráð við hags­muna­sam­tök örorku­líf­eyr­is­þega um umbætur á bóta­kerfum sem eiga að miða að því að bæta kjör. Nið­ur­staða sam­ráðs­ins um umbætur á bóta­kerfum mun svo leiða af sér breyt­ingar á fjár­hæðum í næstu áætl­unum þegar nið­ur­staðan liggur fyr­ir.

Hvað með barna- og vaxta­bæt­ur?

Um leið er stefnt að heild­ar­end­ur­skoðun tekju­skatts ein­stak­linga í sam­ráði við aðila vinnu­mark­að­ar­ins, sam­hliða end­ur­skoðun bóta­kerfa. Þar er horft til stuðn­ings hins opin­bera við barna­fjöl­skyldur og vegna hús­næð­is­kostn­að­ar, með mark­viss­ari fjár­hags­legum stuðn­ingi við efna­minni heim­ili. Vegna þess­arar end­ur­skoð­unar er síður um það í þessum mála­flokki að hægt sé að lesa hækkun fjár­magns, ein­fald­lega vegna þess að fyr­ir­komu­lagið liggur ekki fyrir fyrr en eftir end­ur­skoð­un, sem sam­kvæmt yfir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar verður lokið í haust, áður en fjár­lög næsta árs verða afgreidd. Þannig munu breyt­ingar í sam­ræmi við nið­ur­stöð­una sjást  í næstu áætl­un­um.

Gagn­ast skatta­breyt­ingar þeim efna­meiri best?

Flöt lækkun á skatt­pró­sentu þýðir hærri krónu­tölu fyrir þau sem hafa hærri tekj­ur. Einmitt þess vegna mun rík­is­stjórnin í sam­starfi við verka­lýðs­hreyf­ing­una fara í vinnu við end­ur­skoðun á tekju­skatts­kerf­inu með áherslu á lækkun skatt­byrði fólks með lág­tekjur og lægri milli­tekj­ur. Þar verðar teknar til skoð­unar mögu­legar breyt­ingar á fyr­ir­komu­lagi per­sónu­af­sláttar og sam­spili við bóta­kerfi (barna­bætur og vaxta­bæt­ur) sem ætlað er að styðja við tekju­lægri hópa. Meðal þess sem skoðað verður er að sett verði á fót heild­stætt kerfi er taki jafnt til stuðn­ings hins opin­bera við barna­fjöl­skyldur og stuðn­ings vegna hús­næð­is­kostn­að­ar, hvort heldur er fyrir íbúð­ar­eig­endur eða leigj­end­ur. Þessi end­ur­skoðun byggir á yfir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar um aðgerðir í þágu félags­legs stöð­ug­leika í til­efni af mati á kjara­samn­ingum á almennum vinnu­mark­aði frá 27. febr­úar sl.

Í fjár­mála­á­ætlun kemur fram að miðað sé við að þær breyt­ingar sem end­ur­skoð­unin leiði af sér geti að umfangi jafn­gilt eins pró­sentu­stigs lækkun neðra tekju­skatts­þreps, eða 14 millj­arða lækkun á skatt­byrði fjöl­skyldna í fyrr­greindum hóp­um.

Hafnar rík­is­stjórnin breyt­ingu á per­sónu­af­slætti?

Nei, sam­an­ber svarið fyrir ofan. Á þessu ári fer einmitt fram vinna með verka­lýðs­hreyf­ing­unni  þar sem til skoð­unar eru mögu­legar breyt­ingar á per­sónu­af­slætti í þágu fólks með lág­tekjur og lægri milli­tekj­ur.

Hvað með hús­næð­is­stuðn­ing?

Heild­ar­stefna um hús­næð­is­stuðn­ing til fram­tíðar liggur ekki enn fyr­ir. Í því ljósi er gert ráð fyrir að allar reikni­reglur vaxta­bóta­kerf­is­ins verði þær sömu á tíma­bil­inu, en við­mið­un­ar­fjár­hæðir breyt­ist þannig að vaxta­bætur hald­ist að raun­gildi. Rík­is­stjórnin hefur hins vegar nýverið lagt fram yfir­lýs­ingu í tengslum við fram­leng­ingu kjara­samn­inga á almennum mark­aði (sem ekki var skil­yrt við fram­leng­ing­una, eins og sumir stjórn­mála­menn hafa rang­lega haldið fram). Þar er kveðið á um að unnið verði með aðilum vinnu­mark­að­ar­ins að end­ur­skoðun núver­andi hús­næð­is- og barna­bóta­kerfa. Mark­miðið með end­ur­skoð­un­inni er að kerfin þjóni mark­miðum sínum og styðji raun­veru­lega við þá sem mest þurfa á því að halda. Þannig verður rætt að sett verði á fót heild­stætt kerfi sem taki jafnt til stuðn­ings hins opin­bera við barna­fjöl­skyldur og stuðn­ings vegna hús­næð­is­kostn­að­ar, hvort heldur fyrir íbúð­ar­eig­endur eða leigj­end­ur. Þetta leiðir að öllum lík­indum til breyt­inga á vaxta­bóta­kerf­inu og hús­næð­is­bóta­kerf­inu með til­heyr­andi breyt­ingum á fjár­hæðum í næstu áætlun

Varð­andi fram­lög til upp­bygg­ingar á leigu­hús­næði voru þau hluti af sam­komu­lagi á milli stjórn­valda og verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar til fjög­urra ára (2016-19) í tengslum við kjara­samn­inga. Það hefur komið fram að fram­hald þessa mun ráð­ast af sam­tali stjórn­valda við verka­lýðs­hreyf­ing­una og því ekki hægt að setja það á áætlun fyrr en sú nið­ur­staða liggur fyr­ir.

Hér hefur verið tæpt á nokkrum spurn­ingum í allt of löngu máli. Á næst­unni gefst færi á að svara fleiri spurn­ingum og hlusta á rök­studda gagn­rýni. Von­andi tekst okkur þó að lyfta umræð­unni upp úr inni­halds­lausum frös­um, það væri okkur öllum til fram­drátt­ar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, Höf­undur er þing­maður Vinstri grænna og greinin birtist fyrst í Kjarnanum.