Fyrir almannahag

Þegar þingi lauk skriðu ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar út í birtuna með stórar yfirlýsingar um fyrirætlanir sínar. Heilbrigðisráðherra mætti í fréttir korteri eftir að stjórnarmeirihlutinn samþykkti að dreifa 80 milljörðum af opinberu fé í skuldaleiðréttingar og tilkynnti að selja yrði ríkiseignir til að byggja nýjan Landspítala. Hann minntist ekki einu orði á að á sínum tíma hefði Síminn verið seldur úr almannaeign, meðal annars til að byggja nýjan spítala. Almenningur í landinu man hins vegar vel eftir því og spyr: Hversu oft á að selja nýjar og nýjar almannaeignir til að byggja sama spítalann?

Næstur á svið var fjármálaráðherra sem viðraði áhuga sinn á því að selja hlut í Landsvirkjun; fyrirtæki sem í senn er gríðarmikilvægt fyrir þjóðarhag og mun líklega skila þjóðarbúinu talsverðum arði á næstu árum en heldur þar að auki utan um nýtingu sameiginlegra orkuauðlinda þjóðarinnar sem er mjög mikilvægt að lúti lýðræðislegri stjórn enda um hápólitískar ákvarðanir að ræða. Sem betur fer er að minnsta kosti einn ráðherra ósammála fjármálaráðherranum enda virðist hugmyndin fyrst og fremst sprottin úr pólitísku málsháttasafni Sjálfstæðisflokksins.

Þó að ráðherrarnir tali eins og þeim hafi dottið eitthvað firnasnjallt og óvænt í hug er einkavæðing á almannaeigum ekki ný af nálinni og almenningur fékk að kynnast afleiðingunum af síðasta einkavæðingarflippi í hruninu. Einkavæðingin hefur þó ekki verið bundin við ríkið því ýmis sveitarfélög hafa gengið mjög langt í að einkavæða almannaeigur, oftast undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, og mörgum er enn í fersku minni REI-ævintýrið sem snerist um einkavæðingu á hluta Orkuveitu Reykjavíkur og fulltrúar allra annarra flokka en Vinstri-grænna virtust reiðubúnir að samþykkja.

Ég treysti á það að íslenskur almenningur mótmæli kröftuglega frekari einkavæðingu almannaeigna á viðkvæmum tímum þar sem máli skiptir að verja sameignina og komast saman í gegnum eftirhreytur efnahagshrunsins. Einkavæðing dregur úr áhrifum almennings á grunnþjónustu, getur veikt stöðu ríkisins og eykur ójöfnuð. Því skiptir máli að hafa öfluga fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum sem standa vörð um það sem við eigum sameiginlega. Því skiptir miklu að fulltrúar Vinstri-grænna fái sem víðast brautargengi í kosningunum á laugardaginn kemur.

Já, þetta er hægt!

Margir hafa velt fyrir sér hvort tillögur okkar Vinstri grænna séu raunhæfar og hvort það sé til peningur fyrir þessu öllu. Við höfum ætíð svarað því játandi og bent á mikilvægi þess að stórauka framlög til menntamála í borginni um leið. Við viljum bæði gera grunnþjónustu við börn gjaldfrjálsa og við viljum líka bæta kjör umönnunarstétta og forgangsraða fjármunum til skólamála í meira mæli en hefur verið gert.

Þetta er hægt og við viljum, og ætlum, að gera það. Við viljum leita allra leiða til að gera samfélagið betra í dag en það var í gær og betra til framtíðar og fyrir komandi kynslóðir. Með róttækum aðgerðum í þágu barna getur borgin gert sitt til að útrýma fátækt, auka velferð og jöfnuð og koma í veg fyrir misskiptingu. Það er samfélag sem við getum öll samþykkt og því ætti að vera auðvelt að samþykkja stefnu okkar Vinstri grænna í borginni.

Fimm ára plan
Smelltu á mynd til að stækka

Líf Magneudóttir skipar 2.sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

Skilyrðum ekki fjárhagsaðstoð

“Okkur finnst ekki eðlilegt að námsmaður geti rölt inn á hverfismiðstöð og fengið fjárhagsaðstoð yfir sumarið í stað þess að fá sér vinnu.” sagði Dagur B. Eggertsson í Fréttablaðinu í dag til að rökstyðja þá stefnu Samfylkingarinnar að rétt sé að skilyrða fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

Svo það sé á hreinu, þá finnst okkur Vinstri grænum það sjálfsagt og eðlilegt. Námsmenn sem af einhverjum ástæðum fá ekki vinnu yfir sumartímann eiga þann eina möguleika að sækja um fjárhagsaðstoð hjá borginni. Og það er sjálfsagt og eðlilegt að veita hana þegar svo ber undir.

Fjárhagsaðstoð er síðasta úrræði borgarbúa, þegar allar aðrar bjargir eru bannaðar. Það er lögbundin skylda sveitarfélaga að veita hana, enda ríkir almenn sátt í samfélaginu um að axla ábyrgð hvert á öðru ef nauðsyn krefur.

Skilyrðing á fjárhagsaðstoð er forsendubrestur á þessum samfélagssáttmála. Þá værum við bara að axla ábyrgð á sumum – á þeim sem eru nógu hraustir eða vel haldnir til að gera það sem þeim er sagt. Velferðarsamfélag skilyrðir ekki fjárhagsaðstoð. Þess vegna sætir furðu að lesa svona ummæli frá oddvita Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands.

Reykjavíkurborg á að sjálfsögðu að stuðla að aukinni virkni borgarbúa, hvetja til þátttöku á vinnumarkaði, bjóða upp á fjölbreytt virkniverkefni og gera allt sem hægt er til að stuðla ða sem mestri þátttöku í þeim. Það er sjálfsagt og eðlilegt, jafn sjálfsagt og eðlilelgt að það er að námsmaður sem ekki fær vinnu geti fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu sínu.

Sóley Tómasdóttir skipar 1.sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

(Vaxandi) hatur í garð múslima

Áður fyrr fann skortur á umburðarlyndi og fordómar sér farveg í gyðingahatri. Nú á dögum birtast fordómar einna helst í andúð á íslam.

Þegar byggingarland mosku var smánað í nóvember síðast liðnum virtist lögreglunni ekki liggja á að rannsaka málið þrátt fyrir að tjáning kynþáttahaturs og annarra fordóma sé bönnuð og refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Í tengslum við smánunina kom upp á yfirborðið djúpstæð andúð meðal margra Íslendinga í garð múslíma. Þessi andúð birtist skírt í hatursfullri umræðu í ummælakerfium netmiðla, en einnig á síðum dagblaða. Nýjasta dæmið um þessa andúð er málflutningur oddvita Framsóknaflokksins í Reykjavík sem tekur sér stöðu með níði gegn múslímum þegar hún tekur undir kröfur um að múslímum sé meinað að byggja mosku.

Það er brýnt að uppræta þekkingaleysi um íslam og múslíma. Það er jú þekkingarleysið sem er rót fordómana og skapar hatursfulla umræðu og viðhorf. Þá er mikilvægt að sporna gegn hræðslu fólks gagnvart íslam sem byggir að mestu á úreltum staðalímyndunum og sleggjudómum. Veit oddviti Framsóknaflokksins til dæmis ekki að hluti múslíma á Íslandi eru bornir og barnsfæddir Íslendingar sem hafa valið að skipta um trú? Ekki að það skipti þó máli þegar öllu er á botnin hvolft!

Fordómar í garð múslíma og íslam er raunverulegt vandamál sem við verðum að taka á. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) hefur gert athugasemdir við viðhorfi hérlendis til íslam og hefur ítrekað gagnrýnt harðlega hversu lengi múslimar hafa þurft að bíða eftir byggingalóð undir mosku.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar, uppruna eða félagslegrar stöðu. Það er gríðarlega mikilvægt að allir geri sér grein fyrir þeim hættum sem samfélaginu stafar af auknum fordómum og umburðarleysi.
Vinstri Græn vilja styðja enn betur við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og grasrótarsamtök sem berjast gegn kynþáttahatri og umburðarleysi og halda áfram að berjast fyrir bættu samfélagi sem byggist á jöfnuði allra. Þá styðja Vinstri græn byggingu mosku í Sogamýri og rétt alls fólks til að stunda sín trúarbrögð. Líka íslam.

Eyrún Eyþórsdóttir skipar 5. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík
Greinin birtist fyrst á Vísir.is

Forgangsröðum rétt

Hlutverk sveitarfélaga er að veita samfélagslega þjónustu. Mikið af henni er lögbundin en þar til viðbótar eru þau að leggja margt til að eigin frumkvæði. Hvort heldur er, þá skiptir öllu hvernig forgangsraðað er. Fyrir okkur sem aðhyllumst félagshyggju og jöfnuð, þýðir það að taka saman ábyrgð á þeim viðfangsefnum og að gæta jöfnuðar við val á verkefnum og hvernig þeim er deilt út.

Oft er sagt að einstakt fólk og sumar fjölskyldur hafi alveg efni á einu og öðru af því sem samfélagið leggur þeim eða börnum þeirra til og þess vegna eigi að tekjutengja gjöld fyrir slíka þjónustu. Ég segi hins vegar: Ef fólk hefur efni á að borga þjónustuna, þá hefur það efni á að borga skatta. Með því að hver og einn borgi fyrir sína þjónustu, þá er hætta á að sumir fái meiri eða betri þjónustu en aðrir. Sem er alveg sök sér, ef ekki er um að ræða grunnþjónustu sem jafnt aðgengi á að vera að. Með tekjutengingu þjónustugjalda verður líka sífellt verið að flokka fólk eftir tekjum sínum og það þarf að rekja fjármál sín fyrir hinum og þessum allsstaðar. Sinnum samfélagsþjónustu sameiginlega, leggjum á sanngjarna og hæfilega skatta til þess og notum þá til að veita öllum sömu grunnþjónustu.

Fyrst er að forgangsraða í þágu barna, það gera foreldrar og það á sveitarfélagið að gera líka. Það getum við gert á margan hátt. Við eigum að bjóða börnum að vera í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og félagsstarfi á öllum aldri. Það er löngu orðið almennt viðhorf að grunnskólinn eigi að vera fyrir öll börn óháð efnahag foreldra. Hvers vegna ættu hin skólastigin ekki að vera það líka? Hvers vegna ættum við ekki að jafna aðstöðu barna til félagslegs þroska líka í gegnum aðgang að íþróttum, listgreinum, félagsstarfi og margvíslegum öðrum tómstundum? Mér finnst við eigum að gera það sem samfélag. Þess vegna vil ég lækka leikskólagjöld jafnt og þétt niður í að vera gjaldfrjáls fyrir börn. Þess vegna vil ég að máltíðir og öll kennslugögn séu hluti af rekstri skólans, rétt eins og laun kennara og ræstingafólks. Þess vegna vil ég hækka tómstundastyrki til barna. Þess vegna vil ég hafa auknar og gjaldfrjálsar samgöngur innan þessa stóra sveitarfélags okkar.

Ég nefni börn að þessu sinni, af því þau eru mér efst í huga og af því að ég hef sömu grunn hugmynd um það hvernig við stöndum að annarri brýnni samfélagsþjónustu.

 

Andrés Rúnar Ingason, skipar 1. sæti á V-lista Vinstri grænna í Árborg.
Vinstri Græn Árborg

Finnst Samfylkingunni óábyrgt að bæta kjör barnafjölskyldna?

Stór skref hafa verið stigin á síðustu áratugum í þágu barnafjölskyldna og kannski stærsta skrefið þegar leikskólinn var samkvæmt lögum gerður að fyrsta skólastiginu og þegar Reykjavíkurlistinn tryggði að leikskólinn yrði raunverulegur kostur fyrir öll börn.

Enn er staðan þó þannig að foreldrar greiða 10% af kostnaðinum við skólagöngu hvers leikskólabarns en borgin 90%. Það er mat VG að það sé tímabært að hverfa frá þessari gjaldtöku og sömuleiðis gjaldtöku fyrir skólamáltíðir og frístund. Hér er um þjónustu að ræða sem við ættum að líta á sem grunnþjónustu án tillits til efnahags, – þjónustu sem greiða á fyrir úr sameiginlegum sjóðum.

Á Harmageddon í morgun tókust þau á Sóley Tómasdóttir og Skúli Helgason frambjóðandi Samfylkingarinnar. Þar kom fram að honum finnst ekki tímabært að gera leikskólann gjaldfrjálsan, skólamáltíðir og frístundaheimili. Þó kom fram að honum finnst það eigi að vera langtímastefna en hvað? Hvenær á að hefjast handa? Einhverntíma hefði það þótt undarlegt að jafnaðarmannaflokkur stæði á móti róttækum framförum í þágu barna.

Í viðtalinu ræddi Skúli að hér væri um að ræða gríðarlegar fjárhæðir og gekk meira að segja svo langt að segja að ekki væri ábyrgt að lofa þessu. VG í Reykjavík hefur hins vegar sýnt fram á með útreikningum og með ábyrgum hætti að þetta er raunhæf áætlun sem hefur gríðarlega áhrif á stöðu barnafjölskyldna, er mikilvægt skref í baráttunni gegn fátækt en síðast en ekki síst er með þessu verið að viðurkenna skólastigið til fulls sem hluta grunnþjónustunnar.

Sóley benti á hversu ódýrt það væri að segja stuttu fyrir kosningar að hér væri um að ræða langtímastefnu Samfylkingarinnar. Ég tek eindregið undir orð Sóleyjar í lok viðtalsins þegar hún segir: „Hvenær verður þetta raunhæft? Það gerist þegar pólitíski viljinn verður til staðar. Ekki fyrr.“

Þingflokkur Vinstri grænna andmælir aukinni misskiptingu

Nú þegar fyrsti þingvetur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er á enda sjást vel pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar. Stefnan virðist beinlínis hafa verið tekin á að auka misskiptingu í samfélaginu; hygla stóreignafólki en hækka gjöld á sjúklinga og námsmenn; og horfa lítt til tekjulægri hópa.

Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld upp á 6,4 milljarða króna á ársgrundvelli og undir lok þessa þings var sérstaka veiðigjaldið lækkað enn frekar þannig á árunum að 2013, 2014 og 2015 er búið að lækka veiðigjöldin alls um 18,8 milljarða.

Að sama skapi hefur ríkisstjórnin ákveðið að framlengja ekki auðlegðarskatt en með því var almenningi afsalað tekjum upp á tíu milljarða frá og með árinu 2015.

Í útfærslu á skuldalækkunum ríkisstjórnarinnar birtist sama forgangsröðun. Þar eiga þeir sem hafa hæstar tekjur eða eiga mestar eignir kost á hámarksniðurfellingu skulda. Vaxtabætur handa tekjulægri hópum hafa á sama tíma verið stórlækkaðar. Frá hruni hefur leigjendum fjölgað verulega en fram kemur í skýrslu Hagstofunnar að þetta eigi sérstaklega við um fólk með lágar tekjur. Ekkert er að finna í nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar um þennan hóp.

Sú endurráðstöfun fjármuna sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir á fyrsta starfsári sínu mun stórauka ójöfnuð í samfélaginu með neikvæðum félagslegum og hagrænum afleiðingum.

Samstaða stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi hefur varðað miklu á þessu þingi og haft áhrif, til dæmis þegar samkomulagi var náð á Alþingi um að náttúruverndarlög yrðu ekki afturkölluð en gildistöku nýrra náttúruverndarlaga frestað og unnið að úrbótum. Þá var áformuðum breytingum á rammaáætlun hrundið í bili en í báðum þessum málum hefur líka komið til öflugur stuðningur almennings. Málefnaleg framganga núverandi stjórnarandstöðu hefur skilað árangri og breyttum svip á þingstörfum frá því að núverandi stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu og stunduðu áður óþekkt málþóf í þeim mæli að stórskaðaði störf Alþingis og rúði það trausti

Þingflokkur VG leggur áherslu á félagslegt réttlæti, jöfnuð og græna framtíð hér eftir sem hingað til og vill stuðla að samstöðu allra þeirra sem deila þeim hugsjónum. Þar hefur verulegur árangur náðst og hann þarf að verja og sækja svo fram í þágu komandi kynslóða.

Nánari upplýsingar veitir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG

Höfnun markaðsvæðingu skólakerfisins

Fyrir skömmu hélt Margrét Pála, stofnandi og fræðslustjóri Hjallastefnunnar, erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins. Þar kallaði hún eftir aðstoð atvinnulífsins við „bjarga‟ börnunum okkar frá eyðileggingarmætti skólakerfisins með því að „ráðast sem víðast‟ að því og byggja upp nýtt kerfi í samvinnu við hana. Það má því öllum ljóst vera að hér boðar Margrét Pála að eina lausnin við úreltu og einsleitu skólakerfi sé einkavæðing þess.

Fjölmargir hafa tekið undir þetta sjónarmið og talað fyrir nauðsyn þess að innleiða svokallað fjölbreytt rekstrarfyrirkomulag til að svara auknum kröfum um nýjar áherslur í skólastarfi og meiri hagkvæmni í rekstri. Því hafa æ fleiri sveitarfélög kosið að fara þá leið að útvista hluta af skólastarfi sínu til einkaaðila. Markaðsvæðing skólakerfisins hér á landi er því hafin af fullri alvöru.

Sams konar þróun hefur átt sér stað í fleiri löndum og er því tilvalið að líta til þeirrar reynslu sem þar er komin. Berglind Rós Magnúsdóttir hefur rannsakað áhrif markaðsvæðingar á breskt og bandarískt skólakerfi. Hún hefur bent á að óheft markaðsvæðing í skólakerfum skapi til lengri tíma meiri menningar- og stéttarmun milli skóla. Þar sem markaðslögmál ráða för í skól­um verður meiri eft­ir­spurn eft­ir nemendum sem þykja góðir fyrir ímynd skólans. Þannig er meiri eftirspurn eftir börn­um foreldra sem hafa komið sér vel fyr­ir í sam­fé­lag­inu og minni eft­ir­spurn eft­ir þeim sem standa þar höllum fæti.

Um 20 ár eru síðan Svíar veittu aukið svigrúm til einkareksturs innan skólakerfisins. Reynsla þeirra sýnir sömuleiðis að stéttarmunur milli skóla hefur aukist við breytt rekstrarfyrirkomulag og niðurstöður úr alþjóðlegum samanburðarmælingum hafa sýnt að hið aukna frjálsræði innan kerfisins hefur síður en svo verið til þess fallið að bæta námsárangur nemenda.

Við í Vinstri grænum lítum svo á að uppbyggilegt og metnaðarfullt starf í almenningsskólum sé hornsteinn félagslegs réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Tryggja þarf að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins. Það er okkar trú að slíkt verði einungis kleift með öflugu opinberu skólakerfi. Fagfólk skóla hefur í dag svigrúm til að þróa eigin stíl, stefnu og menningu. Svigrúm er því nú þegar til staðar fyrir fjölbreytileika á borð við Hjallastefnuna sem spratt einmitt fram innan opinbera kerfisins og í raun eru engin rök fyrir því að þeirri stefnu sé ekki hægt að framfylgja innan þess.

Skólakerfið á að vera sameign okkar allra. Það á ekki að vera í einkaeign heldur að vera rekið fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum. Þess vegna hafnar Vinstri hreyfingin grænt framboð allri markaðsvæðingu skólakerfisins.

Hildur Friðriksdóttir skipar þriðja sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Pistillinn birtist fyrst á Vísir.is

Allir til í einkavæðingu?

Hugmynd Bjarna Benediktssonar um sölu á hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna hefur vakið athygli. Hugmyndin er í fullu samræmi við stefnu Sjálfstæðismanna sem vilja koma sem allra flestum samfélagslegum verkefnum í hendur einkaaðila.

Fyrsta skref í átt að einkavæðingu

Allt tal um að lífeyrissjóðirnir séu jú í eigu almennings og Landsvirkjun verði þannig áfram í eigu almennings er augljós fyrirsláttur. Lífeyrissjóðirnir hafa fyrst og fremst það markmið að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga og þeim ber að selja hlutinn áfram ef hentugur kaupandi finnst. Auk þess skortir mjög á lýðræðislegt aðhald almennings gagnvart lífeyrissjóðunum. Að selja hlut til lífeyrissjóðanna er hreint og klár fyrsta skref í átt að einkavæðingu og það er beinlínis óforskammað að halda öðru fram. En Sjálfstæðisflokkurinn er eins og hann er og honum verður víst seint breytt.

Besti flokkur og Samfylking sammála Bjarna

Verra er að hann er ekki einn og raunar hafa aðrir flokkar gengið enn lengra en Sjálfstæðisflokkurinn. Á kjörtímabilinu hóf meirihluti Besta flokks og Samfylkingar beinlínis viðræður við lífeyrissjóðina um aðkomu þeirra að stofnun sérstaks félags sem sæi um uppbyggingu Hverahlíðarvirkjunar í stað Orkuveitu Reykjavíkur.

Meirihlutinn kallaði það auðvitað ekki einkavæðingu frekar en Bjarni, og ekki heldur sölu, heldur verkefnisfjármögnun. En auðvitað var þar allt á sömu bókina lagt, lífeyrissjóðirnir hefðu eignast hlut í því sem annars hefði tilheyrt Orkuveitu Reykjavíkur með sömu áhættu og afleiðingum og þær hugmyndir sem Bjarni kynnir nú.

Ein á móti

Tillagan um viðræður við lífeyrissjóðina var samþykkt með 14 atkvæðum gegn einu í borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru allir sammála um að selja lífeyrissjóðunum hluta af Orkuveitu Reykjavíkur. Og það var hvorki í fyrsta né eina skiptið sem Vinstri græn hafa staðið vaktina gegn einkavæðingu almannaþjónustunnar. Í tíð núverandi meirihluta hefur Gagnaveita Reykjavíkur verið sett í söluferli og hlutur Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja seldur til einkaaðila. Atkvæði voru greidd á sama hátt í öllum þessum málum.

Almannaeign og lýðræðislegt aðhald

Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur eru fyrirtæki sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki enda leggja þau grunn að lífsskilyrðum á landinu. Slík fyrirtæki eiga að vera alfarið og undantekningarlaust í eigu almennings og lúta skýru lýðræðislegu aðhaldi. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til standa með almannaþjónustunni, ein flokka.

Sóley Tómasdóttir skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

Greinin birtist fyrst á Vísir.is