,

Lykilstaðan á vellinum

Í síðustu borgarstjórnarkosningum sópaði Besti flokkurinn til sín fylgi og aðrir flokkar fóru halloka, allir sem einn. Sóley Tómasdóttir, komst ein frambjóðenda VG í borgarstjórn og það var ekki auðvelt hlutskipti. En hún lét ekki deigan síga og hefur svo sannarlega sýnt hvað í henni býr. Sóley tryggði VG þann hlut sem þurfti í nefndum og ráðum borgarinnar og stóð sjálf stífa vakt um ótal réttlætismál og stefnumið, oftar en ekki í góðri samvinnu við meirihlutann en stundum líka, þegar þörf krafði og það átti við, í bullandi ágreiningi. Hún er í lykilhlutverki og leikur í borgarstjórn mikilvægustu stöðuna á vellinum, stendur þá vaktina sem mestu skiptir frá sjónarhorni félagshyggju, jöfnuðar, kvenfrelsis og umhverfisverndar.

Sóley ávann sér virðingu annarra borgarfulltrúa, hefur átt mjög gott samstarf við meirihlutann og veitt honum bæði öruggan stuðning og beitt aðhald. Margt af því sem meirihlutinn gerði best á kjörtímabilinu hefði haft á sér annan svip og leitað í aðra farvegi ef ekki væri fyrir krafta Sóleyjar, áhrif í nefndum og ráðum og sjónarmið VG. Margir eru í hjarta sínu sammála þeim sjónarmiðum og flestum finnst þeir geta gengið að rödd VG vísri í þjóðmálaumræðunni en til þess að hún fái notið sín og hafi tilætluð áhrif þarf að veita stuðning og kjósa þá sem þar ganga undir merkjum. Flóknara er það nú ekki.

Félagshyggja er ekki spurning um smekk fyrir fólki eða stemmningu í aðdraganda kosninga heldur snýst hún um gallharða pólitík og raunverulega baráttu gegn peningaöflum sem aldrei taka sér hvíld. Nú eins og áður er verkefnið að berjast gegn fátækt, létta barnafólki róðurinn með gjaldfrjálsri grunnþjónustu og draga úr húsnæðiseklu, hugsa um aldraða og standa með sjúkum, berjast fyrir jafnrétti, efla skólastarf á alla kanta, leggja rækt við menningu, gæta að náttúrunni og gæðum í skipulagi. Sóley hefur barist af alefli fyrir þessum málum og nýtur virðingar allra sem til þekkja.

Um borgarstjóra að kosningum loknum þarf ekki að velta vöngum, stóra spurningin er hvort tekst að veita honum og miðjusæknu fólki, sem oft vill rása yfir á hægra vænginn, þann stuðning og það aðhald frá vinstri sem það þarf á að halda. Karlar verða í forystu og þurfa viðnám frá forystukonu. Náttúran þarf sárlega sína talsmenn. Og svo þarf að veita kynþáttahatrinu sem kann að spretta upp úr kjörkössunum öflugt viðnám. Til þessara verka þarf öfluga konu á vinstri vængnum, Sóleyju Tómasdóttur og allt það góða fólk sem henni fylgir að málum. Notum atkvæðið vel!

,

Burt með fordóma – Réttlátt samfélag

Sveitarstjórnarkosningarnar á laugardaginn snúast um pólitískar áherslur, stefnumál og framtíðarsýn.
Þessi grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi gleymast oft eða víkja fyrir hversdagslegri þáttum eins og persónulegri lífsreynslu einstakra frambjóðanda, jafnvel þannig að það varði kjósendur meiru hvort frambjóðendur hafi verið naktir í óbyggðum, en hvernig þeir hyggist bregðast við þeim aðkallandi verkefnum sem brenna á íbúum í hverju sveitarfélagi. Þetta er ekki alveg ný þróun, en það er ekki örgrannt um að hún hafi heldur ágerst.

Um liðna helgi var kosið til Evrópuþingsins í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Sérstaka athygli hefur vakið að hægri sinnaðir öfgaflokkar, sem ala á tortryggni og fordómum af ýmsum toga, juku verulega við sig fylgi. Að minnsta kosti í sumum ríkjum. Þessi úrslit vekja eðlilega áhyggjur en líka spurningar um þá vegferð sem stjórnmálin innan Evrópusambandsins og einstakra ríkja er á um þessar mundir. Raunar er það svo að róttæk vinstriöfl bættu stöðu sína í nokkrum ríkjum í þessum sömu kosningum, s.s. í Grikklandi, Spáni og Portúgal, þar sem atvinnuleysi og félagslegur ójöfnuður hefur herjað hvað mest. Þar ómar krafan um meira réttlæti, aukinn jöfnuð og samfélagslega ábyrgð. Kosningaúrslitin í Evrópu eiga að vera skýrt ákall um að hverfa af braut óheftrar markaðshyggju og misskiptingar og inn á leið réttlátrar og sjálfbærrar samfélagsþróunar.

Ekki er laust við að hér á landi hafi að undanförnu borið á pólitískum málflutningi sem er reistur á fordómum, vísvitandi rangfærslum og allt að því hatri. Slík neikvæð kosningabarátta kemur úr ranni þeirra sem hafa ekkert jákvætt fram að færa, enga uppbyggilega framtíðarsýn, heldur vilja ala á ótta og vanvirðingu. Það er sannarlega uggvænlegt og í raun skammarlegt þegar frambjóðendur fjalla um skipulagsmál í Reykjavík með því að gera öðrum upp áform í sovéskum anda; þeir sem það gera vita ekkert hvað þeir eru að tala um, vita ekkert hvað fólst í sovéskri samfélagsgerð, ættu etv. að kynna sér söguna áður en þeir grípa til svo ómerkilegs málflutnings.

En varhugaverðastur er samt hinn ljóti leikur að spila á lægstu hvatir manneskjunnar, hatrið, öfundina og fordómana. Það er illt til þess að vita að íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag verði þeirri óheillaþróun að bráð, sem við sáum koma fram í kosningaúrslitum í Danmörku, Frakklandi, Bretlandi og víðar um síðustu helgi. Sjálfsvirðing stjórnmálanna og stjórnmálamanna bíður hnekki þegar svo er komið. Og það sem meira er: það er ógn við frið og öryggi í sérhverju samfélagi að kynda undir missætti, tortryggni og rætni.

Kosningar í lýðræðissamfélagi snúast um grundvallargildi, um framtíðarsýn. Ekki um fyrsta koss frambjóðenda eða svokallaða „hina hlið“ þeirra, heldur um það hvernig samfélag við viljum byggja. Þeir sem vilja byggja réttlátt samfélag, auka jöfnuð og tryggja komandi kynslóðum eftirsóknarverða framtíð ljáðu róttækum vinstriöflum atkvæði sitt í öðrum Evrópulöndum um síðustu helgi. Hér á landi er tryggingin fyrir réttlátu samfélagi og gegn fordómum fólgin í atkvæði veittu Vinstri grænum. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Í húfi er heill þjóðfélagsins og friðsamleg sambúð í samfélagi fjölmenningar og mannlegrar reisnar. Látum kosningarnar á laugardag snúast um réttlátt og fordómalaust samfélag.

Fyrir öll börn

Í apríl síðastliðnum kom út skýrsla Barnaheilla um fátækt barna í Evrópu. Þar kom meðal annars fram að 16% allra barna á Íslandi búa við fátæktarmörk. Þessi börn fara á mis við margt það sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Þessi börn forðast að mæta í afmæli því þau hafa ekki efni á afmælisgjöfum, þau halda ekki eigin afmæli, stunda ekkert eða takmarkað frístundastarf. Stórir hlutar samfélagsins eru þeim lokaðir.
Samfélag sem vill stæra sig af því að allir hafi jöfn tækifæri þarf að huga að því hvernig börn sem alast upp við lítil efni geta tekið þátt á öllum sviðum samfélagsins. Það er meðal annars þess vegna sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á gjaldfrjálsa grunnþjónustu við börn. Þar teljum við með gjaldfrjálsan leikskóla, gjaldfrjálsar skólamáltíðir og gjaldfrjáls frístundaheimili; því að við teljum að þetta sé besta leiðin til að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri.

Nú kynni einhver að benda á að ódýrari leið sé að gefa hinum tekjulágu afslátt; tekjutengja gjöldin fyrir grunnþjónustuna og koma þannig til móts við efnaminni fjölskyldur. Á því er hins vegar mikill munur að byggja samfélag þar sem efnaminna fólk getur sótt sér sérstaka fátækrastyrki eða bjóða einfaldlega upp á sömu grunnþjónustu fyrir alla óháð tekjum. Síðarnefnda hugmyndafræðin hefur verið undirstaða félagshyggju. Þannig voru grunnskólar byggðir upp á Norðurlöndum; sem almannagæði sem ættu að standa öllum til boða óháð stétt og stöðu. Tilgangurinn? Hver annar en að mennta fólk til hagsbóta fyrir samfélagið en líka til að skapa hverjum og einum tækifæri til að bæta líf sitt, þroskast og komast til manns.

Langt er um liðið síðan grunnskólamenntun varð almannagæði og margt hefur breyst. Til að mynda er leikskólinn nú viðurkenndur sem fyrsta skólastigið á Íslandi og langflest börn njóta þar frábærs starfs. Rannsóknir benda til þess að leikskóladvöl styðji mjög við börn í námi á síðari stigum og ekki síst þess vegna skiptir máli að við gerum leikskólann gjaldfrjálsan, tryggjum þátttöku allra og viðurkennum í raun leikskólastigið sem fyrsta skólastigið. Þar með er ekki sagt að mikilvægt sé að bæta kjör leikskólakennara; það er svo sannarlega brýnt verkefni. Gjaldfrjáls leikskóli útilokar það ekki, ekki frekar en nokkrum dettur í hug að hefja gjaldheimtu fyrir grunnskólamenntun til að bæta kjör grunnskólakennara,

Stór skref hafa verið stigin í almennu frístundastarfi barna; æ fleiri börn taka þátt í skipulögðu frístundastarfi sem verður stöðugt faglegra og metnaðarfyllra með aukinni háskólamenntun á þessu sviði og auknum rannsóknum. Það er mikilvægt að öll börn eigi þar jöfn tækifæri í raun. Síðast en ekki síst vil ég nefna skólamáltíðirnar sem til að mynda finnsk stjórnvöld tóku á sínum tíma ákvörðun um að hafa gjaldfrjálsar og tengja það við örvandi skólaumhverfi sem hefur skilað finnskum skólum miklum árangri.

Skóli er samfélag. Þar er nám barna miðlægt og það skiptir miklu að við búum vel að okkar kennurum með bættum kjörum og góðri menntun. Þar hafa ýmis skref verið stigin á undanförnum árum en betur má ef duga skal. Það er brýnt verkefni að bæta kjör kennara en getur ekki komið í veg fyrir að við stefnum að gjaldfrjálsri grunnþjónustu til að veita öllum börnum jöfn tækifæri og vinna með markvissum hætti gegn þeim vágesti sem fátækt barna er. Íslenskt samfélag á mikinn auð. Við eigum að nýta þann auð til að búa börnunum okkar sem besta og áhyggjuminnsta bernsku. Það skiptir margar fjölskyldur miklu máli að spara sér þau hundruð þúsunda sem á ári hverju renna í gjöld fyrir grunnþjónustu við börn. Grunnþjónustu sem á að vera fyrir öll börn.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í DV

,

Björt framtíð

Það skiptir máli hvernig við tölum um hlutina, hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur og hvaða orð við notum til að lýsa þeirri framtíð. Í dag eru við lýði orð og hugmyndir sem setja framtíð okkar í mjög svo fyrirfram mótaðan búning. Einstaklingshyggjan er efst á blaði og sú hugmynd að einstaklingurinn sé sjálfstæður gerandi, algerlega við stjórn eigin hugmynda og gerða og þær ráðist nánast aðeins af mati á eigin hagsmunum, hagsmunum sem yfirleitt eru peningalegs eðlis. Frelsi hverfist um þessa hugmynd og þetta frelsi hefur skilgreindan leikvöll, markaðinn sem er orðin alltumlykjandi og er að verða grundvöllur allra samskipta okkar. Hvert sem við komum, hvað sem við gerum ráða auglýsingar og almannatenglar upplýsingagjöf, kennarar og læknar eru orðnir þjónustuveitendur og við veljum eins og neytendur í búð.

Markaðurinn er hinsvegar ekki vettvangur frelsis. Það er skilyrt frelsi sem snýst um auðsköpun, framlegð, hagvöxt og störf. Þetta eru ráðandi stef í samfélaginu og ef ekki er hægt að þýða það sem þú segir yfir á eitthvert þeirra er fljótt hætt að hlusta. Hagvöxtur er álitin náttúrulögmál en hvernig sá vöxtur kemur ólíkum hópum til góða er ekki rætt. Hagvexti er nefninlega mjög misskipt. Hvernig krafan um hagvöxt og framlegð er að fara með umhverfi okkar og hvort hagvöxturinn og gróðinn eru að skila einhverri raunverulegri lífsfyllingu eða hamingju falla einnig í skuggann. Hvernig væri að snúa þessu við. Ræða lífsfyllingu, hamingju, heill umhverfis og náttúru og skiptingu þess auðs sem við búum yfir og ræða svo tilhvers hagvöxtur og framlegð ættu að vera?

Atvinna og störf eru annar flötur markaðar og hinnar sjálfgefnu kröfu um hagvöxt og framlegð. En hvað er vinna? Er það kvöð sem við neyðumst til að leysa að jafnaði átta tíma á dag til að geta keypt okkur hamingju? Hvað með alla þá vinnu sem ekki er borguð, sem viðheldur samfélagi okkar, s.s. þegar afi og amma passa eða þegar við tökum til heima. Hvernig væri að snúa hugmyndum okkar um vinnu við? Hætta að horfa á hana sem fjáröflunarleið til að kaupa dót og horfa á vinnu sem uppsprettu lífsfyllingar og hamingju, merkingar og tilgangs. Þá gæti fleira farið að teljast til starfa í okkar samfélagi og það mun hafa raunverulegar afleiðingar fyrir t.d. jafnrétti kynjanna þar sem t.d. umönnum og þrif teljast ekki vinna og eru oft kvennastörf.

Markaðurinn snýst líka um fjárfestingu og kostnað. Fjárfesting er góð, kostnaður slæmur. Þegar einkaaðili byggir skólahús er það fjárfesting til eflingar hagvaxtar en að reka það með skattfé er kostnaður, sem leggur til hallareksturs hins opinbera (þarna er líka áhugaverð kynjavídd en skólastörf oftast kvennastörf). Hvernig væri að snúa þessu við og horfa á rekstur skóla og velferðarþjónustu sem hagvöxt framtíðar, hætta að líta á steypu sem fjárfestingu og horfa frekar til þess sem hún á að hýsa.

Markaðinn, þarf að hugsa útfrá tengslum allra þeirra ólíku einstaklinga sem mynda hann sem heild. Þar hafa ýmsir mikilla hagsmuna að gæta af því að telja okkur trú um að um að markaðurinn sé náttúrulögmál og núverandi skipting auðs mótuð framtakssemi einstaklinga á markaði. Það er gert með orðfæri sem skilgreinir sambönd okkar og hlutverk hverju sinni. Sambönd sem gera okkur meðvirk í viðhaldi kerfisins ef við hugsum ekki vandlega um samhengi orðanna og merkingar þeirra. Að tala um lífsfyllingu, hamingju, gleði og skemmtun án þess að horfa til þess sem mótar skilning okkar á þeim hugmyndum í dag er ekki ávísun á þá björtu framtíð sem margir vilja kenna sig við. Það að andæfa og taka meðvitaða afstöðu gegn þeim hugmyndum og orðum sem skilgreina líf okkar í dag með allri þeirri misskiptingu og sóun sem þeim fylgja er það hinsvegar. Þar duga ekki stubbaknús eða hamingjusöngvar, heldur aðeins raunveruleg þétt og öflug varðstaða um þær hugmyndir sem geta viðhaldið bjartri framtíð allra og fara gegn raunverulegum hagsmunum og völdum í samfélaginu í dag.

Edward Huijbens skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Fyrir almannahag

Þegar þingi lauk skriðu ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar út í birtuna með stórar yfirlýsingar um fyrirætlanir sínar. Heilbrigðisráðherra mætti í fréttir korteri eftir að stjórnarmeirihlutinn samþykkti að dreifa 80 milljörðum af opinberu fé í skuldaleiðréttingar og tilkynnti að selja yrði ríkiseignir til að byggja nýjan Landspítala. Hann minntist ekki einu orði á að á sínum tíma hefði Síminn verið seldur úr almannaeign, meðal annars til að byggja nýjan spítala. Almenningur í landinu man hins vegar vel eftir því og spyr: Hversu oft á að selja nýjar og nýjar almannaeignir til að byggja sama spítalann?

Næstur á svið var fjármálaráðherra sem viðraði áhuga sinn á því að selja hlut í Landsvirkjun; fyrirtæki sem í senn er gríðarmikilvægt fyrir þjóðarhag og mun líklega skila þjóðarbúinu talsverðum arði á næstu árum en heldur þar að auki utan um nýtingu sameiginlegra orkuauðlinda þjóðarinnar sem er mjög mikilvægt að lúti lýðræðislegri stjórn enda um hápólitískar ákvarðanir að ræða. Sem betur fer er að minnsta kosti einn ráðherra ósammála fjármálaráðherranum enda virðist hugmyndin fyrst og fremst sprottin úr pólitísku málsháttasafni Sjálfstæðisflokksins.

Þó að ráðherrarnir tali eins og þeim hafi dottið eitthvað firnasnjallt og óvænt í hug er einkavæðing á almannaeigum ekki ný af nálinni og almenningur fékk að kynnast afleiðingunum af síðasta einkavæðingarflippi í hruninu. Einkavæðingin hefur þó ekki verið bundin við ríkið því ýmis sveitarfélög hafa gengið mjög langt í að einkavæða almannaeigur, oftast undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, og mörgum er enn í fersku minni REI-ævintýrið sem snerist um einkavæðingu á hluta Orkuveitu Reykjavíkur og fulltrúar allra annarra flokka en Vinstri-grænna virtust reiðubúnir að samþykkja.

Ég treysti á það að íslenskur almenningur mótmæli kröftuglega frekari einkavæðingu almannaeigna á viðkvæmum tímum þar sem máli skiptir að verja sameignina og komast saman í gegnum eftirhreytur efnahagshrunsins. Einkavæðing dregur úr áhrifum almennings á grunnþjónustu, getur veikt stöðu ríkisins og eykur ójöfnuð. Því skiptir máli að hafa öfluga fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum sem standa vörð um það sem við eigum sameiginlega. Því skiptir miklu að fulltrúar Vinstri-grænna fái sem víðast brautargengi í kosningunum á laugardaginn kemur.

,

Já, þetta er hægt!

Margir hafa velt fyrir sér hvort tillögur okkar Vinstri grænna séu raunhæfar og hvort það sé til peningur fyrir þessu öllu. Við höfum ætíð svarað því játandi og bent á mikilvægi þess að stórauka framlög til menntamála í borginni um leið. Við viljum bæði gera grunnþjónustu við börn gjaldfrjálsa og við viljum líka bæta kjör umönnunarstétta og forgangsraða fjármunum til skólamála í meira mæli en hefur verið gert.

Þetta er hægt og við viljum, og ætlum, að gera það. Við viljum leita allra leiða til að gera samfélagið betra í dag en það var í gær og betra til framtíðar og fyrir komandi kynslóðir. Með róttækum aðgerðum í þágu barna getur borgin gert sitt til að útrýma fátækt, auka velferð og jöfnuð og koma í veg fyrir misskiptingu. Það er samfélag sem við getum öll samþykkt og því ætti að vera auðvelt að samþykkja stefnu okkar Vinstri grænna í borginni.

Fimm ára plan
Smelltu á mynd til að stækka

Líf Magneudóttir skipar 2.sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

,

Skilyrðum ekki fjárhagsaðstoð

“Okkur finnst ekki eðlilegt að námsmaður geti rölt inn á hverfismiðstöð og fengið fjárhagsaðstoð yfir sumarið í stað þess að fá sér vinnu.” sagði Dagur B. Eggertsson í Fréttablaðinu í dag til að rökstyðja þá stefnu Samfylkingarinnar að rétt sé að skilyrða fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

Svo það sé á hreinu, þá finnst okkur Vinstri grænum það sjálfsagt og eðlilegt. Námsmenn sem af einhverjum ástæðum fá ekki vinnu yfir sumartímann eiga þann eina möguleika að sækja um fjárhagsaðstoð hjá borginni. Og það er sjálfsagt og eðlilegt að veita hana þegar svo ber undir.

Fjárhagsaðstoð er síðasta úrræði borgarbúa, þegar allar aðrar bjargir eru bannaðar. Það er lögbundin skylda sveitarfélaga að veita hana, enda ríkir almenn sátt í samfélaginu um að axla ábyrgð hvert á öðru ef nauðsyn krefur.

Skilyrðing á fjárhagsaðstoð er forsendubrestur á þessum samfélagssáttmála. Þá værum við bara að axla ábyrgð á sumum – á þeim sem eru nógu hraustir eða vel haldnir til að gera það sem þeim er sagt. Velferðarsamfélag skilyrðir ekki fjárhagsaðstoð. Þess vegna sætir furðu að lesa svona ummæli frá oddvita Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands.

Reykjavíkurborg á að sjálfsögðu að stuðla að aukinni virkni borgarbúa, hvetja til þátttöku á vinnumarkaði, bjóða upp á fjölbreytt virkniverkefni og gera allt sem hægt er til að stuðla ða sem mestri þátttöku í þeim. Það er sjálfsagt og eðlilegt, jafn sjálfsagt og eðlilelgt að það er að námsmaður sem ekki fær vinnu geti fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu sínu.

Sóley Tómasdóttir skipar 1.sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

,

(Vaxandi) hatur í garð múslima

Áður fyrr fann skortur á umburðarlyndi og fordómar sér farveg í gyðingahatri. Nú á dögum birtast fordómar einna helst í andúð á íslam.

Þegar byggingarland mosku var smánað í nóvember síðast liðnum virtist lögreglunni ekki liggja á að rannsaka málið þrátt fyrir að tjáning kynþáttahaturs og annarra fordóma sé bönnuð og refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Í tengslum við smánunina kom upp á yfirborðið djúpstæð andúð meðal margra Íslendinga í garð múslíma. Þessi andúð birtist skírt í hatursfullri umræðu í ummælakerfium netmiðla, en einnig á síðum dagblaða. Nýjasta dæmið um þessa andúð er málflutningur oddvita Framsóknaflokksins í Reykjavík sem tekur sér stöðu með níði gegn múslímum þegar hún tekur undir kröfur um að múslímum sé meinað að byggja mosku.

Það er brýnt að uppræta þekkingaleysi um íslam og múslíma. Það er jú þekkingarleysið sem er rót fordómana og skapar hatursfulla umræðu og viðhorf. Þá er mikilvægt að sporna gegn hræðslu fólks gagnvart íslam sem byggir að mestu á úreltum staðalímyndunum og sleggjudómum. Veit oddviti Framsóknaflokksins til dæmis ekki að hluti múslíma á Íslandi eru bornir og barnsfæddir Íslendingar sem hafa valið að skipta um trú? Ekki að það skipti þó máli þegar öllu er á botnin hvolft!

Fordómar í garð múslíma og íslam er raunverulegt vandamál sem við verðum að taka á. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) hefur gert athugasemdir við viðhorfi hérlendis til íslam og hefur ítrekað gagnrýnt harðlega hversu lengi múslimar hafa þurft að bíða eftir byggingalóð undir mosku.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar, uppruna eða félagslegrar stöðu. Það er gríðarlega mikilvægt að allir geri sér grein fyrir þeim hættum sem samfélaginu stafar af auknum fordómum og umburðarleysi.
Vinstri Græn vilja styðja enn betur við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og grasrótarsamtök sem berjast gegn kynþáttahatri og umburðarleysi og halda áfram að berjast fyrir bættu samfélagi sem byggist á jöfnuði allra. Þá styðja Vinstri græn byggingu mosku í Sogamýri og rétt alls fólks til að stunda sín trúarbrögð. Líka íslam.

Eyrún Eyþórsdóttir skipar 5. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík
Greinin birtist fyrst á Vísir.is

,

Forgangsröðum rétt

Hlutverk sveitarfélaga er að veita samfélagslega þjónustu. Mikið af henni er lögbundin en þar til viðbótar eru þau að leggja margt til að eigin frumkvæði. Hvort heldur er, þá skiptir öllu hvernig forgangsraðað er. Fyrir okkur sem aðhyllumst félagshyggju og jöfnuð, þýðir það að taka saman ábyrgð á þeim viðfangsefnum og að gæta jöfnuðar við val á verkefnum og hvernig þeim er deilt út.

Oft er sagt að einstakt fólk og sumar fjölskyldur hafi alveg efni á einu og öðru af því sem samfélagið leggur þeim eða börnum þeirra til og þess vegna eigi að tekjutengja gjöld fyrir slíka þjónustu. Ég segi hins vegar: Ef fólk hefur efni á að borga þjónustuna, þá hefur það efni á að borga skatta. Með því að hver og einn borgi fyrir sína þjónustu, þá er hætta á að sumir fái meiri eða betri þjónustu en aðrir. Sem er alveg sök sér, ef ekki er um að ræða grunnþjónustu sem jafnt aðgengi á að vera að. Með tekjutengingu þjónustugjalda verður líka sífellt verið að flokka fólk eftir tekjum sínum og það þarf að rekja fjármál sín fyrir hinum og þessum allsstaðar. Sinnum samfélagsþjónustu sameiginlega, leggjum á sanngjarna og hæfilega skatta til þess og notum þá til að veita öllum sömu grunnþjónustu.

Fyrst er að forgangsraða í þágu barna, það gera foreldrar og það á sveitarfélagið að gera líka. Það getum við gert á margan hátt. Við eigum að bjóða börnum að vera í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og félagsstarfi á öllum aldri. Það er löngu orðið almennt viðhorf að grunnskólinn eigi að vera fyrir öll börn óháð efnahag foreldra. Hvers vegna ættu hin skólastigin ekki að vera það líka? Hvers vegna ættum við ekki að jafna aðstöðu barna til félagslegs þroska líka í gegnum aðgang að íþróttum, listgreinum, félagsstarfi og margvíslegum öðrum tómstundum? Mér finnst við eigum að gera það sem samfélag. Þess vegna vil ég lækka leikskólagjöld jafnt og þétt niður í að vera gjaldfrjáls fyrir börn. Þess vegna vil ég að máltíðir og öll kennslugögn séu hluti af rekstri skólans, rétt eins og laun kennara og ræstingafólks. Þess vegna vil ég hækka tómstundastyrki til barna. Þess vegna vil ég hafa auknar og gjaldfrjálsar samgöngur innan þessa stóra sveitarfélags okkar.

Ég nefni börn að þessu sinni, af því þau eru mér efst í huga og af því að ég hef sömu grunn hugmynd um það hvernig við stöndum að annarri brýnni samfélagsþjónustu.

 

Andrés Rúnar Ingason, skipar 1. sæti á V-lista Vinstri grænna í Árborg.
Vinstri Græn Árborg