48 stundir Hönnu Birnu.

Nú um þessar mundir er Hanna Birna  Kristjánsdóttir mætt í fjölmiðla til að ræða frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem hún leggur fram í skugga kæru á ráðuneyti sem hún ber ábyrgð á.

Þegar ég fyrst heyrði af væntanlegu frumvarpi innanríkisráðherra um breytingar á útlendingalögum sem í sér fólu m.a. að biðtími hælisleitenda eftir svari yrði ekki meiri en 48 stundir, varð ég nokkuð bjartsýnn. Nú loks glitti í einhverjar umbætur á meðferð hælisumsókna sem allir eru sammála um að taki allt of langan tíma. Að vísu hafði ég einnig efasemdir um þennan hámarkstíma enda er sagan hælisleitendum síður en svo hliðholl og ummæli og aðgerðir embættismanna Útlendingastofnunar síðustu ár gefa heldur ekki ástæðu til að ætla annað en að langflestum hælisleitendum verði snúið rakleiðis til baka eftir tvær nætur á Fitjum.

Á þeim tíma virtist lítið upp á ráðherrann að klaga fyrir utan að aðhyllast hugmyndafræði ójöfnuðar sem leikið hefur Ísland grátt á síðustu árum. Það skaut því skelk í bringu, þegar að til stóð að mótmæla brottvísun hælisleitanda sem kært hafði úrskurð Útlendingastofnunnar, að viðkvæmum persónuupplýsingum var lekið í valda fjölmiðla, að því er virðist, til að minnka samúð með hælisleitandanum.

Enginn vill bera ábyrgð á lekanum og virðist sem Hanna Birna og aðstoðarmenn hennar hafi vonast til að málið myndi fljótt falla í gleymskunar dá líkt og mörg hneykslismál í gegnum tíðina. Þegar tveir blaðamenn DV neituðu að láta ráðherra komast upp með slíkt var brugðist við með því að rægja blaðamenn og stilla sér upp sem fórnarlambi í málinu. Í tvo mánuði hefur ráðherra grafið dýpra og dýpra og meðal annars brugðist reið við eðlilegum spurningum stjórnarandstöðunnar á Alþingi og gefið hefur verið í skyn að nú eigi að bregða fæti fyrir umrætt frumvarp.

Slíkt er rökleysa enda er ljóst að allir þeir sem gagnrýnt hafa Hönnu Birnu og viðbrögð hennar í lekamálinu, vilja sjá umbætur á málefnum hælisleitenda. Þó að deila megi um hvort hámarkstíminn eigi að vera 48 stundir eða sex mánuðir (líkt og frumvarp Ögmundar Jónassnar gerði ráð fyrir) hljóta báðir kostir að vera skárri en núverandi ástand þar sem hælisleitendum er haldið mörgum mánuðum saman í algerri óvissu um framtíð sína. Það er því engum til hagsbóta að nota lekamálið til að koma pólitísku höggi á Hönnu Birnu. Segi hún af sér kemur bara annar sjálfstæðismaður í staðinn og ber upp frumvarpið. Það er hins vegar miður að geta ekki treyst flutningsmanni frumvarpsins.

Hugmyndir sem ekki standast

Formaður ráðgjafaráðs Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Árnason, birti grein undir yfirskriftinni „Samfélagsleg skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga“ í nýjasta tölublaði Hjálmars, blaðs hagfræðinema við Háskóla Íslands. Hann leggur þar út af þeirri reglu að rétt verð sé lykilatriði innan hagfræðinnar og því eigi að gjalda varhug við opinberum niðurgreiðslum á kostnaði og segir að það skjóti því skökku við „þegar stórkostlegar niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustunni, sem er mjög veigamikill þáttur í framleiðslu og neyslu samfélagsins, eru ekki aðeins látnar með öllu afskiptalausar í þessari baráttu fyrir hagkvæmni heldur gerðar að samfélagslegri dyggð.“ Niðurstaða Ragnars er að „opinberar heilbrigðistryggingar rýra hag meðalmannsins í samfélaginu og þar með samfélagsins í heild“.

Niðurstaða Ragnars að hagur meðalmannsins sé mælikvarði á hag samfélagsins stenst ekki og endurspeglar fyrst og fremst ákveðna pólitíska sýn um að ekki séu til séu almannagæði sem allir eigi tilkall til. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun en ekki hagfræðilegt reikningsdæmi hvort hér sé samfélag þar sem allir, ekki aðeins meðalmenn og hinir efnaðri, geta sótt sér heilbrigðisþjónustu og menntun. Almannagæði eru ekki aðeins náttúruauðlindir heldur líka gæði á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem samfélagið hefur skapað á þeim grundvelli að allir fái tækifæri til að lifa með reisn.

Ef við samþykkjum að það sé hagur samfélagsins að allir fái slík tækifæri þá skiptir líka máli að kerfið sem við höfum byggt upp hér er félagslegt heilbrigðiskerfi. Kostnaður félagslegra heilbrigðiskerfa er minni en skyldutryggingakerfa eins og t.d. í Frakklandi og Þýskalandi en langdýrust fyrir samfélagið eru einkarekstrarkerfi á borð við hið tvöfalda kerfi Bandaríkjanna. Við þetta bætist að félagsleg heilbrigðiskerfi eru skilvirkust og árangursríkust þegar við metum lýðheilsuárangur á móti kostnaði (og er þá átt við ævilengd, ótímabær dauðsföll, ungbarnadauða o.fl.).

Það er verulegt áhyggjuefni að helsti ráðgjafi fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins boði slíka stefnu dulbúna sem hagfræði og dragi af henni ályktanir sem ekki standast. Ráðherra hefur sjálfur ekki tekið undir þessa speki en í máli hans á Alþingi í gær kom fram að hann væri sérstakur áhugamaður um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þannig að það er ljóst að ríkisstjórnin stefnir í átt til aukinnar einkavæðingar á grunnþjónustu samfélagsins.

Umhverfisráðherra segir að náttúrupassi geti þrengt að almannarétti

Katrín Jakobsdóttir þingkona Vinstri grænna stóð fyrir sérstökum umræðum um hvaða áhrif hugmyndir um náttúrupassa gætu haft á almannarétt á Alþingi í dag. Til svara var Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra og sagði hann að náttúrupassi í því formi sem Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra hefur kynnt þrengi að rétti almennings og að mörgum spurningum væri ósvarað í því máli.

Almannaréttur bundinn í lög

Katrín rifjaði upp að almannaréttur sem lýtur að frjálsri för um landið ætti sér djúpar rætur í lögum og menningu vestrænna ríkja og sagðist efast um að hugmyndir iðnaðarráðherra um náttúrupassa samrýmist honum. „Og við sjáum það þegar skyggnst er undir yfirborðið að þessi leið sem er í skoðun hjá stjórnvöldum núna hún er ekki byggð á neinu fordæmi neins staðar frá,“ sagði Katrín. Hún sagðist telja að allir væru sammála um að tryggja þurfi fjármuni til uppbyggingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum, það væri hins vergar spurning um hvernig fara ætti að því. Að lokum spurði hún Sigurð Inga meðal annars um hvernig hann teldi hugmyndir um náttúrupassa samrýmast lögum og reglum um almannarétt og hvort hann teldi náttúrupassan einu leiðini til að tryggja fjármagn til uppbyggingar.

Umhverfisráðherra efast um náttúrpassa iðnaðarráðherra

„Náttúrupassaleiðin í því formi sem hún hefur verið kynnt getur þrengt að réttindum almennings. Það er gjaldtaka á ákveðnum stöðum gegn því að þeir sömu staðir fái aðgang að fjármunum til uppbyggingar í þágu ferðaþjónustu að viðlögðum sektum ef viðkomandi greiðir ekki aðgangseyrir,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við: „Náttúrupassinn útilokar því ekki í þessu formi að landeigendur geti tekið upp sína eigin gjaldtökuleið eins og dæmin hafa sannað og ekki viljum við að gjaldtökuleiðin verði til þess að skapa gjá og togstreitu á milli ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og almennings í landinu.“

Sigurður Ingi sagði rétt almennings til frjálsrar fara um landið vera lögbundinn rétt borgaranna og eitt af einkennum íslensks samfélags og tengsla Íslendinga við landið. „Þann rétt hygg ég að flestir Íslendingar vilji standa að baki og verja,“ sagði hann og bætti við: „Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt að undanförnu og ferðamönnum fjölgað með tilheyrandi ágangi á landið og vaxtarverkjum. Því er brýnt að til sé stefnumótun og útfærsla á framkvæmdum og forgangsröðun fjármuna til einstakra verkefna. Enn er mörgum spurningum ósvarað þar að lútandi.“

Samhljómur á meðal þingmanna

Aðrir þingmenn sem tóku til máls, þar á meðal Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tóku undir með þeim Katrínu og Sigurði Inga að mikilvægt væri að verja almannaréttinn, eðlilegt væri því að skoða aðrar leiðir en þá sem iðnaðarráðherra hefur teflt fram til að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaðaða og friðlýstra svæða. Þá var samhljómur um að mikilvægt væri að vanda vel til verka og að góð sátt næðist um málið.

Horfið frá séreignarstefnu

Katrín Jakobsdóttir þingkona Vinstri grænna lýsti yfir þungum áhyggjum af stöðu húsnæðismála hjá ungu fólki á Alþingi í síðustu viku og spurði Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um sýn hennar í húsnæðismálum á Alþingi í dag. Eygló lýsti þeirri afstöðu að hverfa ætti frá hinni svokölluðu séreignarstefnu.

Erfið staða ungs fólks á húsnæðismarkaði

Katrín sagðist hafa miklar áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði og að dæmi bentu til þess að hún gæti orðið svipuð og í sumum löndum Evrópu þar sem ungt fjölskyldufólk neyðist til að flytja inn á foreldra sína.

„Eins og staðan er, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýjar rannsóknir sýna að flestir vilja búa, þar er ungt fólk í sömu stöðu, því miður, þar sem leiguverð er nánast óviðráðanlegt og húsnæðisverð, sérstaklega í sumum hverfum borgarinnar, hefur farið hækkandi,“ sagði Katrín og kallaði eftir sýn Eyglóar í málinu sem brýnt væri að leysa úr ef Ísland ætti áfram að verða eftirsóknarverður staður fyrir ungt fólk að búa á. „Ég held að ekki verði komist í gegn um þessi mál án þess að til komi mjög markvissar aðgerðir bæði ríkis og sveitarfélaga,“ bætti hún síðan við.

Tafir á vinnu við mótun húsnæðisstefnu

Eygló sagði að nú stæði yfir vinna við mótun húsnæðisstefnu í samræmi við ályktun Alþingis þar um og að tafir hefðu orðið á henni.

„Ég tel að húsnæðisstefnan eigi að endurspegla þann fjölbreytileika sem er í íslensku samfélagi. Að það sé raunar ekki einhver ein lausn sem henti öllum. Að það sé ekki bara þannig að það sé bara hægt að tryggja að allir kaupi eða allir leigi. Þú þarft að vera með þessa valkosti og þú þarft að tryggja það að fólk búi við öryggi,“ sagði Eygló um sína sýn.

Katrín sagði svar Eyglóar vera mikilvægt. „Þar með segir hæstvirtur ráðherra að hverfa eigi frá þeirri séreignarstefnu, sem kannski var aldrei mótuð eða ákveðin en hefur eigi að síður verið raunin í íslensku samfélagi undanfarna áratugi, og það er mjög mikilvæg sýn,“ sagði hún og spurði: „Telur ráðherra að þar muni félagslegur íbúðalánasjóður í eigu hins opinbera og sveitarfélög hafa hlutverki að gegna eða horfir hæstvirtur ráðherra fremur til markaðslausna til að ná þessu markmiði um fjölbreytt húsnæði og öruggt?“ Eygló svaraði því til að mikilvægt væri að bjóða upp á fjölbreyttar lausnir.