Læsi – hvítbók og staða íslenskunnar

Staða íslenskrar tungu hefur verið nokkuð til umfjöllunar undanfarið og því jafnvel verið hreyft að hún kunni að vera í hættu á næstu áratugum ef ekkert verði að gert. Samkvæmt nýlegri skýrslu er staða hennar veik borið saman við önnur mál í Evrópu og er þar ekki síst horft til stafrænnar upplýsingatækni og tölvuumhverfis í daglegu lífi.

Íslenskan á tölvuöld

Af þessum sökum var sett fram, að mínu frumkvæði, og samþykkt þingsályktunartillaga um að gera áætlun sem miðar að því efla tungutækni og styrkja stöðu tungunnar að þessu leyti. Um þetta mál ríkti þverpólitísk samstaða – enda mikið í húfi. Í tillögunni segir: „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem geri áætlun um aðgerðir er miði að því að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Áætlunin feli í sér tímasett yfirlit um aðgerðir og áfanga, kostnaðarmat og fjármögnun. Nefndin leggi áætlun sína fram í síðasta lagi 1. september 2014.“ Að baki þessari þingsályktun býr góður vilji og henni þarf auðvitað að fylgja vel eftir.. Ég vænti þess að svo verði strax við gerð fjárlaga fyrir árið 2015. Fjárfesting í máltækni er gríðarlega mikilvægur þáttur í íslenskri málstefnu.

Læsi og móðurmál

Það er mitt mat að við umræðu um læsi á Íslandi verði ekki hjá því litið að ræða læsi í víðum skilningi og stöðu tungunnar almennt. Sjálf fékkst ég áður við máltöku- og móðurmálsfræði og verð þess greinilega vör að enska sækir ákaft á í daglegum samskiptum barna og ungmenna sem þó eiga íslensku að fyrsta máli. Því verður vissulega að halda til haga að íslenska er notuð á öllum sviðum samfélagsins og tekur til æ fleiri viðfangsefna, að því leyti er staða hennar sterk. Aftur á móti þarf að gæta að því að enska leikur æ stærra hlutverk í málumhverfi og málnotkun barna og unglinga. Þar eru blikur á lofti og margt sem bendir til að málkennd og orðaforði veikist jafnt og þétt.

Ef íslenskt mál á undir högg að sækja í daglegu lífi barna og unglinga er rétt að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á almennt læsi og lesskilning. Ef til vill er sá læsisvandi sem þykir blasa við í íslensku skólakerfi og var meðal annars lýst í nýlegri Hvítbók um áherslur í skólamálum ekki síst í því fólginn að málskilningur á íslensku kann að vera á hröðu undanhaldi. Raunar sakna ég þess að málskilningur almennt sé ræddur í nýrri hvítbók menntamálaráðherra. Mál og læsi þarf að skoða í samhengi og mál sem þarf að styrkja á mikið undir stuðningi stjórnvalda, skýrri stefnumörkun og fjármagni á öllum sviðum. Þá er ekki nóg að benda á umfang móðurmáls í námskrá eða mælingar á prófum, heldur þarf að vinna að stuðningi við tunguna um allt samfélagið.

Hvað er til ráða?

Til að styrkja stöðu tungunnar þarf að fylgja nefndri þingsályktun eftir með myndarlegum hætti og auka hlut íslensku í tungutækni en ekki síður að efla bókasöfn, þýðingar, innlenda dagskrárgerð, innlenda kvikmyndagerð, leikhús og sköpun og síðast en ekki síst kennslu og rannsóknir í menntun, lestrar- og móðurmálsfræðum. Hvítbók má sín lítils ef þessa samhengis er ekki gætt, flókið og margslungið viðfangsefni verður ekki leyst með þröngri nálgun. Sérstaklega er varhugavert að einblína um of á niðurstöður prófa um læsi og lesskilning í því starfi sem framundan er. Þvert á móti er brýnt að horfa á viðfangsefnið í víðara samhengi og stöðu móðurmálsins í samfélaginu öllu. Hér er hvatt til þess að menntamálaráðherra leiti til allra þeirra sem best til þekkja og horfi ekki framhjá mikilvægi rannsókna og nýsköpunar í þessu efni.

Fjölskylduskatturinn

Nú eru línur teknar að skýrast í vinnunni við fjárlagafrumvarp næsta árs. Fréttir berast af því að ríkisstjórnin, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, leggi sérstaka áherslu á breytingar á virðisaukaskattkerfinu.

Fjármálaráðherra hefur sérstaklega talað fyrir því að tvöfalda virðisaukaskattinn á matvæli, færa hann úr 7% í 14% í tveimur skrefum, en lækka um leið virðisaukaskattinn á aðrar vörur, þar á meðal ýmsar lúxusvörur, um 1%.

Það liggur fyrir að með slíkri hækkun á matvæli væri ríkisstjórnin enn og aftur að þyngja byrðar þeirra sem lægri tekjur hafa. Ekki síst kemur þetta sér illa fyrir ungar og barnmargar fjölskyldur. Sú 1% lækkun á efra þrepinu sem talað hefur verið um er á vörum sem þeir sem lágar tekjur hafa neita sér frekar um. Hins vegar þurfa allir að borða og því ljóst að þessi breyting mun bitna á þeim sem síst skyldi og spyrja má hvort fjármálaráðherrann hafi reiknað út hvaða áhrif það hafi á verðbólguna og skuldastöðu heimilanna?

Ég held að við getum flest verið sammála um að verð á matvöru hefur hækkað töluvert og fæst viljum við greiða hærra verð en við nú þegar gerum. Það liggur í augum uppi að þeir sem lægri tekjur hafa kaupa alla jafna ódýrari mat en þeir sem hærri tekjur hafa. Staðreyndin er sú að um 60% lágtekjufólks eiga erfitt með að láta enda ná saman, en einungis um fjórðungur hátekjufólks. Með hækkun matarskattsins er ljóst að lágtekjufólk mun eiga enn erfiðara með að ná endum saman. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin hækkað gjöld á sjúklinga og skráningargjöld í háskólum, sem enn og aftur kemur verst við marga þá sem eru verst settir fyrir.

En hvers vegna telur ríkisstjórnin sig þurfa að hækka matarskatt og gjöld í mennta- og heilbrigðiskerfinu? Er það ekki vegna þess að sama ríkisstjórn ákvað að afnema auðlegðarskattinn og stórlækka veiðigjöldin? Forgangsröðunin verður ekki mikið skýrari: Kvótakóngar og stóreignafólk fá afhentar milljónir á silfurfati á meðan lágtekjufólk og fjölskyldur eru látnar borga brúsann. Þessari fyrirhrunspólitík verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust þegar málið kemur inn á borð Alþingis og fjárlaganefndar.

Takk!

Hinsegin dögum er nýlokið. Þeir voru haldnir í sextánda sinn, og gengu sem fyrr út á að draga fram fjölbreytileikann, fagna honum og þeim réttindum sem áunnist hafa. Gleðigangan var stórkostleg að vanda og talið er að um 90 þúsund manns hafi safnast saman í miðborginni.

Hinsegin dagar hafa líka annað og alvarlegra hlutverk. Að minna á þau réttindi sem ekki hafa náðst og óréttlætið sem viðgengst bæði hér á Íslandi og úti í heimi, en ekki síður að uppræta fordóma og fáfræði gagnvart fjölbreytileika mannlífsins. Hinsegin dagar þjónuðu þessu markmiði vel í ár, m.a. með mikilvægri fræðslu um þann fjölbreytta hóp sem rúmast undir hinsegin regnhlífinni.

Hin nýstofnuðu samtök Intersex Ísland hafa vakið verðskuldaða athygli. Intersex fólk fellur ekki undir hefðbundna skilgreiningu á kynjunum af líffræðilegum ástæðum. Intersex hefur alltaf verið til, en það er ekki fyrr en nú þegar talsvert er liðið á 21. öldina að farið er að tala um réttindi og stöðu intersex fólks á opinberum vettvangi á Íslandi.
Staða intersex fólks sýnir okkur hversu mikla áherslu við sem samfélag leggjum á að flokka fólk eftir kyni. Kyn barns er það fyrsta sem spurt er um eftir fæðingu þess, nafngift er háð kyni, opinberar skrár gera ráð fyrir tveimur kynjum og svona mætti lengi telja. En það er ekki nóg. Enn eru framkvæmdar skurðaðgerðir á heilbrigðum kynfærum nýfæddra barna til að aðlaga þau stöðluðum hugmyndum um útlit typpis eða píku. Intersex fólk krefst nú viðurkenningar á tilvist sinni og sjálfsákvörðunarréttar yfir eigin líkama. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa.

Hinsegin dagar hafa sett brýn og grafalvarleg mál á dagskrá, enn eina ferðina, í bland við gleði og fagnaðarlæti. Til að hægt sé að fagna fjölbreytileikanum er mikilvægt að þekkja hann og skilja. Hinsegin fólk og hinsegin dagar hafa breytt miklu hvað það varðar. Fyrir það ber að þakka. Takk.

Sóley Tómasdóttir, forseti Borgarstjórnar

Gasa: Hvað er til ráða?

Þegar þetta er skrifað hafa yfir þúsund manns látist á Gasa. Meirihluti þeirra eru óbreyttir palestínskir borgarar, og yfir 200 þeirra eru börn. Eins og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum benti á þegar hún ávarpaði Öryggisráðið í síðustu viku er rótin að átökunum hernám Ísraels á Gasa og Vesturbakkanum. Enginn friður fæst á svæðinu á meðan Ísraelsher heldur Palestínumönnum í gíslingu í eigin landi og brýtur ítrekað á réttindum þeirra.

En hvað er til ráða? Hvað getum við gert til að knýja Ísraelsstjórn til að fara að alþjóðalögum og draga herlið sitt til baka frá Palestínu? Í fyrsta lagi ættum við að skoða vel hvort beita megi viðskiptaþvingunum á Ísrael til að knýja fram frið, sambærilegar þeim sem settar voru á aðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku á sínum tíma. Raunar getum við öll lagt okkar af mörkum í þeim efnum nú þegar með því að sniðganga ísraelskar vörur frá hernumdu svæðum Palestínu. Hér myndi hjálpa til ef slíkar vörur væru merktar sérstaklega, eins og kveðið er á um í þingsályktunartillögu Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, frá síðasta vetri. Sú tillaga verður endurflutt í haust og hlýtur vonandi framgöngu á Alþingi.

Í öðru lagi getum við að sjálfsögðu þrýst á Ísraelsmenn eftir diplómatískum leiðum. Mikið hefur verið rætt um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og er sú hugmynd allrar athygli verð í ljósi alvarleika málsins. Einnig þyrfti að skoða hvort Ísland geti gripið til diplómatískra aðgerða sem eru sambærilegar því þegar Brasilía og Ekvador drógu sendiherra sína til baka frá Ísrael í síðustu viku. Í þriðja lagi er enn ekki útséð um að Sameinuðu þjóðirnar geti komið að lausn deilunnar, en þá skiptir miklu máli að breyta afstöðu Bandaríkjanna. Hingað til hafa Bandaríkin staðið í vegi fyrir öllum raunverulegum aðgerðum til að þrýsta á Ísrael á vettvangi SÞ, meðal annars með því að beita neitunarvaldi sínu í Öryggisráði SÞ ótal sinnum. Í ljósi sögu Íslands og Bandaríkjanna ætti Ísland að leita allra leiða til að þrýsta á Bandaríkin um að endurskoða stuðning sinn við framferði Ísraelshers í Palestínu.

Svandís Svavarsdóttir

Er tímabært að slíta stjórnmálasambandi?

Það er skrýtin tilfinning sem fylgir því að skanna samskiptamiðlana yfir sumartímann og sjá myndir af kátum íslenskum fjölskyldum í sumarfríi og lesa um stærstu umkvörtunarefni þeirra; skort á sól og offramboð á rigningu. Skrýtin vegna þess að á sama tíma má lesa hryllilegar frásögnir frá Gaza-ströndinni þar sem á sjötta hundrað manns hafa fallið í árásum Ísraelshers nú þegar þetta er skrifað. Að minnsta kosti þrír fjórðu hlutar þeirra eru óbreyttir borgarar, þar á meðal börn, gamalmenni og fjölskyldur sem ekkert hafa til saka unnið annað en að búa á þessum stað og komast ekkert annað.

Fréttamenn lýsa hryllingi þar sem börn að leik eru sprengd í loft upp og svo lítur maður út um gluggann og sér íslensk börn að leik úti í garði. Bandaríkjaforseti áréttar rétt Ísraelsmanna til að verja hendur sínar. Hvernig þætti okkur að heyra slík orð frá valdamönnum heimsins ef börnin okkar væru sprengd upp fyrir framan nefið á okkur?
Deila Ísraelsmanna og Palestínumanna er vitaskuld ekki auðleyst. Á svona dögum virðist hún raunar vera með öllu óleysanleg. En alþjóðasamfélagið verður engu að síður að gera sitt til að bregðast við. Þar hefur ekki síst strandað á Bandaríkjastjórn, sem staðið hefur í vegi fyrir því að Ísrael sé beitt alþjóðlegum þrýstingi. Málið verður auðvitað ekki leyst með hernaðaraðgerðum – en pólitískur þrýstingur getur skipt máli.

Alþingi Íslendinga samþykkti þann 29. nóvember 2011 að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skoraði Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. fæli í sér gagnkvæma viðurkenningu á tilveru Ísraelsríkis og Palestínuríkis. Alþingi áréttaði að PLO, Frelsissamtök Palestínu, væru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnti jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þá krafðist Alþingi þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir létu þegar í stað af öllum ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.

Þessi tillaga hlaut stuðning allra þingflokka utan Sjálfstæðisflokksins, sem treysti sér ekki til að greiða henni atkvæði. Það gerðu hins vegar þingmenn Framsóknarflokksins, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson, og ég treysti á það að utanríkisráðherra muni axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa rutt þessa braut með því að tala sterkum rómi á alþjóðavettvangi fyrir hönd þeirra óbreyttu borgara sem Ísraelsher ræðst nú gegn. Borist hafa fregnir af því að dönsk stjórnvöld muni senda sérstaka neyðaraðstoð til Gaza og ég skora á íslensk stjórnvöld að fylgja því fordæmi. Þá er einnig mikilvægt að styðja við friðarhreyfingar í Ísrael sem andmæla nú ofbeldisverkum stjórnvalda og minna á að friðarhreyfingar um allan heim hljóta að standa saman í þessu máli.

Ef ekkert lát verður á ofbeldisverkum Ísraels og ríkið heldur áfram að brjóta alþjóðalög og almenn mannréttindi hlýtur sú spurning einnig að vakna hvort rétt sé að slíta stjórnmálasambandi við ríkið. Það er aðgerð sem getur skipt máli á alþjóðavettvangi. Þegar börn eru stráfelld getur alþjóðasamfélagið ekki setið hjá. Við hljótum að nýta allar friðsamlegar leiðir sem í boði eru til að koma í veg fyrir að slíkt fái að halda óbreytt áfram.

Katrín Jakobsdóttir

Flutningur fólks eða starfa

Eins ógeðfelldir og mér fundust fyrirhugaðir hreppaflutningar sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis á fólki á milli landshluta þá hugnast mér ekki frekar sú aðferðarfræði stjórnvalda að flytja stofnanir eins og Fiskistofu fyrirvaralaust með manni og mús á milli landshluta. Hvortveggja eru þetta ruddaleg vinnubrögð sem ekki eiga að viðgangast og lýsa vanvirðingu gagnvart starfsfólki og fjölskyldum þeirra.

Aðkoma Alþingis var engin að málinu og engar fjárheimildir lágu fyrir vegna kostnaðar af fyrirhuguðum flutningi þetta er óvönduð stjórnsýsla og setur svartan blett á það aðkallandi verkefni að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins í réttlátara hlutfalli en nú er.

Ég tel það vera mjög brýnt verkefni að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni ekki bara á þéttbýlustu stöðunum heldur ekki síður í fámennari byggðum þar sem því verður við komið að vinna verkefni sem staðsetning þeirra skiptir ekki öllu máli heldur gott starfsfólk og öruggar háhraðatengingar. Reynslan af staðsetningu opinberra starfa út um land hefur fyrir löngu sýnt fram á það að standast kröfur sem gerðar eru til faglegra vinnubragða og gott vinnuumhverfi og traust vinnuafl er þar líka til staðar.

Umfang hins opinbera hefur vaxið mjög á undanförnum 20 til 30 árum og fjölgun opinberra starfa hefur fyrst og fremst orðið á höfuðborgarsvæðinu þó tekist hafa að staðsetja nokkrar opinberar stofnanir úti á landi á liðnum árum þá er það eilíf barátta að halda þeim störfum áfram í heimabyggð. Það þekkja allir landsbyggðarþingmenn í gegnum tíðina þá baráttu sem er við hver fjárlög að verja starfsemi á landsbyggðinni þar sem um er að ræða fámenn stöðugildi sem mega ekki við neinum niðurskurði.

Það hefur verið sýnt fram á það í rannsóknum að mikið misræmi er í opinberum útgjöldum og skattheimtu eftir landsvæðum það hefur eflaust ekki verið markmið í sjálfum sér en landsbyggðin hefur beðið skaða af því en höfuðborgarsvæðið hefur notið þess.
Færð hafa verið rök fyrir því að viðskipti landsbyggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu eru hlutfallslega meiri heldur en viðskipti höfuðborgarsvæðisins á landsbyggðinni. Í þessu samhengi er eðlilegt að líta til frekari flutnings opinberra starfa út á land til að jafna það efnahagslega misræmi sem er staðreynd og hið opinbera ber líka ábyrgð á með stjórnvaldsákvörðunum sínum í gegnum tíðina.

Stjórnvöld verða að vinna eftir skýrt markaðri stefnu í flutningi opinberra starfa út á land og að þar samræmi ráðuneyti og opinberar stofnanir vinnu sýna og gangi í takt. Kynna verður með eðlilegum fyrirvara flutning á starfsemi ríkisins á milli landssvæða og gæta vel að mannlega þættinum og réttindum þeirra starfsmanna sem hlut eiga að máli og líta sérstaklega til nýrra verkefna og starfa sem verða til hjá hinu opinbera. Að sjálfsögðu á að tryggja aðkomu Alþingis að þeirri stefnumótunarvinnu og að fjárlögin endurspegli þann vilja.

Allur undirbúningur þarf að vera vandaður og landið kortlagt hvar störfum,verkefnum og starfsemi er best fyrirkomið og þá tel ég að ekki síst eigi að horfa til þeirra svæða sem átt hafa undir högg að sækja undanfarin ár og þurfa virkilega á fjölbreyttni að halda og þar eru góðar háhraðatengingar lykilatriði.
Það má nefna verkefni sem flust hafa til landsbyggðarinnar í gegnum árin og vel hefur tekist til með eins og Byggðastofnun á Sauðárkróki,Skógræktina á Héraði, Landmælingar Íslands á Akranesi,Greiðslustofu Atvinnuleysistryggingarsjóðs á Skagaströnd og Skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga. En ég get líka nefnt dæmi um verkefni hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga sem sett var niður á Flateyri en gekk ekki upp vegna lélegra háhraðatenginga og var færð yfir á Ísafjörð og það er ekki neitt einsdæmi að skortur á öflugum gagnaflutningi á landsbyggðinni hamli atvinnuuppbyggingu.

Því miður hafa opinberar stofnanir eins og Fiskistofa t.d. verið að hringla með störf í útibúum sínum úti á landi í skjóli breytinga sem orðið hefur til þess að faglært fólk hefur hrakist í burtu. Starfstöð Fiskistofu á Ísafirði hefur verið lokuð frá áramótum en veiðieftirliti stofnunarinnar hafði verið hætt og starfstöð fiskeldis komið í staðin en henni var lokað um áramótin og engin starfsemi er það í gangi nú og óvissa um framhaldið. Þetta er dæmi um hve auðvelt er fyrir pólitíkusa og stjórnvöld að skella í lás þegar um litlar starfstöðvar er að ræða og dæmi um óvönduð vinnubrögð.

Það á ekki að kynda undir elda milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins með óvönduðum vinnubrögðum við flutning starfa og starfsemi út á land heldur vanda vel til verka og sýna það líka í fjárlögum að menn vilji efla opinbera starfsemi út um land en síðustu fjárlög báru þess ekki merki þar sem gífurlegur niðurskurður var í mörgum verkefnum á landsbyggðinni eins og Sóknaráætlun landshlutanna er gleggsta dæmið um.

Landsbyggðin þarf á fjölbreyttari atvinnutækifærum að halda og það eru sameiginlegir hagsmunir allra landsmanna að vel takist til með flutning opinberra starfa og uppbyggingu atvinnustarfsemi á landsbyggðinni því hún er jú einn stærsti viðskiptavinur höfuðborgarsvæðisins.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður

Vond vinnubrögð

Ekki hefur starfsfólk Fiskistofu stokkið hæð sína af fögnuði þegar sjávarútvegsráðherra tilkynnti að störf þess myndu flytjast frá Hafnarfirði til Akureyrar í einu vetfangi, enda bárust fréttir af því að starfsfólki hefði verið boðin áfallahjálp í framhaldinu.

Hugmyndin með flutningi Fiskistofu er að færa störf út á landsbyggðina – jákvætt og mikilvægt markmið – en í ljósi frétta af því hvernig staðið er að flutningnum hljóta allir að velta því fyrir sér hvort ríkisstjórnin vinni hér meiri skaða en gagn.

Um langt árabil var litið á það sem eins konar náttúrulögmál að opinberar stofnanir væru á höfuðborgarsvæðinu, helst í Reykjavík. Vissulega eru það úrelt sjónarmið, ekki síst nú á tímum þegar tækniþróun gerir fólki mögulegt að sinna margs konar vinnu hvar sem er í heiminum. Það er líka eðlileg krafa að opinber störf dreifist um landið allt. Flutningur opinberra starfa út á land hefur oft gengið vel, bæði með flutningi stofnana en líka þegar svokölluð „störf án staðsetningar“ eru auglýst, en þá velur starfsfólk sjálft hvar á landinu það kýs að sinna vinnu sinni.

Í ljósi þessarar góðu reynslu má spyrja hvort ekki hefði verið hægt að bera sig öðruvísi að í tilfelli Fiskistofu. Í stað þess að tilkynna starfsfólki að stofnunin yrði flutt á einu bretti hefði mátt starfrækja áfram starfsstöð Fiskistofu í Hafnarfirði þar sem þeir starfsmenn sem svo kjósa gætu unnið áfram samhliða því að starfsstöð Fiskistofu á Akureyri yrði efld stig af stigi með það í huga að höfuðstöðvarnar yrðu þar til framtíðar.

Vinnubrögðin eru svo kapítuli út af fyrir sig en í þessu tilfelli ætti að vinna með starfsfólki en ekki tilkynna ákvarðanir ráðherra einhliða. Alþingi þarf líka að hafa aðkomu að málinu, til að mynda virðist vanta lagastoð fyrir flutningnum og að sjálfsögðu þarf að liggja fyrir kostnaðarmat. Þá þyrfti Alþingi að marka heildstæða stefnu um flutning opinberra starfa þannig að starfsfólk hinna ýmsu stofnana þurfi ekki að lifa í sífelldum ótta um að störf þess verði flutt til fyrirvaralaust. Góð vinnubrögð frá upphafi myndu skila betri árangri.

Vinstri og hægri eru ekki á útleið!

Að afloknum sveitarstjórnarkosningum er áhugavert að líta yfir sviðið og skoða hvernig pólitískt mynstur leggst í sveitarstjórnum vítt og breytt um landið. Í mörgum minni sveitarfélögum voru óhlutbundnar kosningar og í öðrum voru blönduð framboð sem stjórnmálaflokkarnir áttu beina eða óbeina aðild að. Í stærstu sveitarfélögunum voru í flestum tilfellum hrein flokksframboð þar sem stjórnmálaflokkarnir lögðu mikið undir til að skapa sér sterka stöðu í hinu pólitíska landslagi.

Ekki er hægt að segja að einn flokkur hafi verið sigurvegari þessara kosninga en vissulega unnust sigrar staðbundið hjá flokkum og eða framboðum sem skilgreina sig til vinstri eða hægri eða einhverstaðar þar á milli. Það sem mér finnst umhugsunarvert og áhyggjuefni fyrir utan lélega kjörsókn er sá áróður sem víða er undirliggjandi að ekki eigi að skilgreina sig til vinstri eða hægri það séu úrelt hugsun og gamaldags. Tilhneigingin hefur orðið sú að allt of mikið snýst um tímabundnar persónuvinsældir einstakra einstaklinga sem koma og fara og pólitískar flugeldabombur eins og moskur og Reykjarvíkurflugvöll sem ganga út á það að ná til sín sem mestu hraðfylgi !

Það vill oftar en ekki gleymast að leggjast yfir stefnuskrár flokka og framboða og skoða fyrir hvað viðkomandi flokkur/framboð stendur til lengri tíma litið. Er hann til vinstri,hægri eða miðju eða sitt lítið af hvoru.  Pólitíkin á að vera stefnumarkandi vegvísir til framtíðar um hvernig við viljum að þjóðfélagið og nærsamfélagið þróist. Því einstaklingar hversu góðir eða slæmir sem þeir kunna að vera koma og fara og því þarf að vera hægt að treysta grunngildum og stefnumörkun hvers flokks fram á veginn.  Í stað þess að sitja uppi með eitthvað óskilgreint miðjumoð sem stekkur á vinsældarlestina hverju sinni eða kemst áfram á yfirboðum eða spilar inná lægstu hvatir mannskepnunnar í von um atkvæði.

Vinstri græn mega þokkalega vel við una að afloknum sveitarstjórnarkosningum miðað við hið pólitíska landslag og þá pólitísku afvæðingu sem vinsælt er að tala fyrir. Sveitarstjórnarkosningar snúast ólíkt landsmálunum að miklu leyti um staðbundin verkefni í nærsamfélaginu en samt sem áður liggja undir grunngildi vinstri og hægri póla sem tekist er á um ásamt umhverfis og virkjanamálum. Þar er hægt að nefna sem dæmi þá miklu áherslu hægri manna á einkavæðingu sem er alfarið gagnstætt vilja okkar Vinstri grænna sem viljum að almannaþjónustan og orkufyrirtækin verði í höndum opinberra aðila og að sameign okkar á auðlindunum sé tryggð.

Þessi sjónarmið kristölluðust m.a. í umræðunni sem varð fyrir kosningarnar í vor um hvort til greina kæmi að einkavæða Landsvirkjun en fjármálaráðherra hefur talað fyrir þeim sjónarmiðum. Gjörólík skattapólitík er á milli vinstri og hægri þar sem vinstri menn vilja beita skattkerfinu til jöfnunar lífskjara en hægri menn vilja lækka skatta og veikja þannig velferðarkerfið og láta almenning þess í stað borga stærri skerf í þeirri þjónustu sem hið opinbera veitir eins og tillögur þeirra um legugjöld á sjúkrahúsum bera glöggt vitni um.

Ég er þeirra skoðunar að það sé heilbrigðara og farsælla að kjósendur hafi það á hreinu fyrir kosningar fyrir hvaða stefnu flokkar og framboð standa. Í stað þess að keyrt sé á með þann áróður að vinstri og hægri séu liðin tíð og nóg sé að vera hress,hipp og kúl og viðhlægjendur allra að minnsta kosti fram að kosningum. Það eiga að vera hreinar línur um þá stefnu sem stjórnmálamenn standa fyrir svo seinna komi ekki í ljós að kjósandinn hafi keypt köttinn í sekknum.
Í minni sveitarfélögum hefur reynslan oftar en ekki verið sú að vel hefur tekist að vinna að málefnum sveitarfélaga þvert á flokkslínur og það er gott . Stór hluti sveitarstjórnarmála er líka unninn í samstöðu en það eru mál sem sveitastjórnir takast á um sem eru mjög pólitísk s.s eignarhald á orkufyrirtækjum,rekstrarform almannaþjónustu , skattar ,umhverfismál og forgangsröðun samfélagsverkefna . Í þessum málaflokkum skiptir miklu máli hverjum þú treystir best fyrir atkvæði þínu.

Vinstri græn hafa verið ófeimin við að skilgreina sig sem vinstri grænan femínískan umhverfisflokk sem leggur áherslu á félagslegt réttlæti,samfélagslega ábyrgð,öflugt velferðarkerfi,mannréttindi,jöfn búsetuskilyrði,jafnrétti kynjanna og umhverfisvernd. Við höfum komið til dyranna eins og við erum klædd og okkar fulltrúar í sveitarstjórnum munu halda á lofti þessum grunngildum VG og styrkja þannig lýðræðislega aðkomu fjölbreyttra sjónarmiða.
Vinstri græn hafa oftar en ekki verið sterk rödd þeirra sjónarmiða sem annars hefðu ekki eða átt sér fáa málsvara í sveitarstjórnum landsins og í landsmálunum og gegna því mikilvægu lýðræðislegu hlutverki hver og einn hvort sem er í sveitarstjórnum landsins í landsmálunum eða almennt í þjóðfélagsumræðunni.

Meðal annars þess vegna skiptir miklu máli vægi vinstri og hægri ása í stjórnmálum því allt þar á milli verður alltaf erfiðara að henda reiður á það hefur sagan kennt okkur.
Niðurstaða mín er því sú að heilbrigð og gagnrýnin stjórnmálaumræða er lýðræðinu ekki bara holl heldur líka nauðsynleg og vinstri og hægri lifir áfram í nútímasamfélagi þrátt fyrir tilraunir til að aftengja þann pólitíska veruleika og útvatna og sykurhúða alla samfélagslega umræðu.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Samstarf til vinstri

Vinstrihreyfingin – grænt framboð getur að mörgu leyti vel við unað eftir sveitarstjórnarkosningar þar sem hreyfingin stóð vörð um árangur sinn frá 2010 og bauð fram víða um land, bæði undir eigin nafni en einnig með formlegri og óformlegri þátttöku í sameiginlegum framboðum. Hins vegar tel ég ríka ástæðu á næstu misserum til að velta fyrir sér inntaki stefnu okkar. Hana tel ég eiga brýnna erindi en nokkru sinni fyrr á nýrri öld þar sem ójöfnuður og loftslagsbreytingar verða líklega stærstu viðfangsefnin og svörin geta ekki verið önnur en réttlæti og sjálfbærni.

Miklu skiptir líka hvernig fólk sem telur sig til félagshyggjufólks velur að vinna í stjórnmálunum og því er ástæða til að óska Reykvíkingum til hamingju með nýjan borgarstjórnarmeirihluta. Þar sameinast frjálslynt og félagshyggjusinnað fólk með breiða skírskotun og sterkt umboð kjósenda. Hver flokkur hefur að sjálfsögðu sína sérstöðu en um margt erum við sammála. Þar má nefna húsnæðismálin og áform nýs meirihluta um að byggja upp leiguhúsnæði. Þá skiptir miklu máli að nýr meirihluti tekur skýra afstöðu með fjölmenningu og gegn útlendingaandúð sem virðist því miður vera að skjóta rótum hér á landi.

Fyrstu skref í átt að gjaldfrelsi

Það er líka ánægjulegt að sjá að nýr meirihluti í Reykjavík mun stíga fyrstu skrefin í átt að gjaldfrjálsum leikskóla með lækkun leikskólagjalda. Það er mál sem við Vinstri græn settum á dagskrá í kosningabaráttunni – og ágætt dæmi um þá sókn sem við viljum hefja í velferðar- og menntamálum á næstu árum. Nýr meirihluti hefur líka áform um aukið íbúalýðræði sem eru spennandi en vonandi verða líka tekin stór skref til að virkja fólk til þátttöku í þeim lýðræðislegu ferlum sem eru nú þegar til staðar.

Þar sem við Vinstri–græn tökum þátt í meirihlutasamstarfi skiptir miklu að við leggjum inn sjónarmið réttlætis og sjálfbærni og það munum við gera í öllu okkar starfi í sveitarstjórnum, óháð því hverjum við vinnum með í meirihluta og raunar óháð meirihluta og minnihluta. Sérstök ástæða er til að fagna þegar félagshyggjuöfl ná saman um slík málefni því það gefur tilefni til bjartsýni varðandi frekari samvinnu vinstrimanna á öðrum vettvangi.

Katrín Jakobsdóttir