Samgöngur í uppnámi

Samgöngur á Vestfjörðum eru víða enn óásættanlegar eins og vondur og óuppbyggður vegur við Árneshrepp á Ströndum sýnir og vegir í Barðastrandasýslu og á milli sunnan og norðanverðra Vestfjarða bera glöggt vitni um. Þarna er ekki eingöngu um að ræða byggðamál heldur líka öryggismál fyrir þennan landshluta sem hefur verið í mikilli varnarbaráttu lengi en sókn í atvinnumálum hefur vakið upp vonir um betri tíð og gott vegakerfi er grundvöllur þess að það gangi eftir.

Fjárlög næsta árs eru mikil vonbrigði hvað varðar framlög til samgöngumála. Gert var ráð fyrir 23 milljörðum í samgöngumál í samgönguáætlun en það verða einungis um 20 milljarðar lagðir í þennan málaflokk. 850 mlkr sem áttu að vera nýtt fé í nýframkvæmdir munu fara í viðhald vega vegna þess hve þörfin er mikil þar og ekki var gert ráð fyrir auknu fé í þann þátt. Áfram verður dregið úr styrkjum við innanlandsflugið og erfitt getur reynst að halda úti sama þjónustustigi á ríkisstyrktum leiðum eins og á Bíldudal og á Gjögri. Það vantar um 700 mlkr til þess að fjármagna vetrarþjónustu.

Það kom fram í máli innanríkisráðherra í umræðum um fjárlög á dögunum að þau verkefni sem ekki eru orðin samningsbundin séu í óvissu og þar eru vegaframkvæmdir eins og áframhaldandi uppbygging á þjóðvegi 60 um Gufudalssveit og Dýrafjarðargöngin í óvissu þar sem fjármögnun er ekki tryggð. Seinkað verður útboði á Dýrafjarðargöngum til ársins 2017 en fyrri ríkisstjórn hafði flýtt þeim framkvæmdum og átti þeim að ljúka 2018 sem og uppbyggingu heilsársvegar um Barðastrandasýslu til Vesturbyggðar. Nú sýnist mér að ekki bara staðsetning veglínu næsta áfanga á þjóðvegi 60 í Barðastrandasýslu sé í uppnámi heldur líka öll fjármögnun verksins.

Framkvæmdum á Vestfjarðarvegi 60 á milli Þverár í Kjálkafirði og Eiðis í Vattarfirði fer að ljúka en þetta var umfangsmesta framkvæmd Vegagerðarinnar á síðasta kjörtímabili fyrir utan jarðgöng á milli 3 til 4 milljarðar. Sú samfella sem gert var ráð fyrir í samgönguáætlun að yrði í framkvæmdum á þessu svæði er nú í uppnámi þar sem enn er ekki komin niðurstaða í hvaða leið skuli valin eftir að leiðinni yfir Hjallháls og Ódrjúgsháls var hafnað og samráðsnefnd með heimamönnum valdi að farin skyldi láglendisleið sem uppfyllti nútímakröfur og tryggði öryggi vegfarenda.

Vegagerðin lét hanna nýja veglínu um Teigsskóg sem Skipulagsstofnun hefur nú hafnað með þeim rökum að ekki sé um nýja veglínu að ræða og hefur Vegagerðin ákveðið að kæra þann úrskurð til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur ályktað um að það sé algjörlega óásættanlegt að tefja málið með því að kæra það og beinir því til stjórnvalda að ljúka án frekari tafa undirbúningi og ákvarðanartöku,svo hægt sé að hefja lagningu nýs láglendisvegar um Gufudalssveit. Vegagerðin hefur undanfarið reynt til þrautar að koma vegi um Teigsskóg í gegnum skipulagsferli en Skipulagsstofnun hafnaði á sínum tíma veglínu í gegnum skóginn vegna umhverfisáhrifa.

Ég virði þau sjónarmið sem komið hafa fram um náttúruverndargildi Teigsskógs en ég tel nýja útfærslu sem þýðir 1% rask á gróðurlendi vera ásættanlega niðurstöðu í ljósi brýnna hagsmuna svæðisins. Það er mat Vegagerðarinnar að vegur út norðanverðan Þorskafjörð í gegnum Teigsskóg og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar sé öruggasti vegurinn til að tengja saman Reykhólasveit og Gufudalssveit. Næsti kostur, svokölluð i. leið, væri 3. milljörðum dýrari. Möguleikar eins og þverun Þorskafjarðar milli Staðar á Reykjanesi og Melaness hafa einnig verið skoðaðir og einnig göng undir Hálsana og fleiri vegastæði en þetta eru allt dýrari kostir.

Það hefur komið fram í máli ráðherra að verið sé að skoða 3 möguleika þ.e. endurupptöku málsins og þessa kæruleið og síðan sérlög um veginn. Ég tel það óásættanlegt fyrir þetta svæði að fara með málið í þann farveg sem beinir því í kæruferli og lagþrætur sem gæti farið allt upp í Hæstarétt og gæti þýtt að ekkert gerðist í vegaframkvæmdum á þessu svæði næstu 5 til 6 árin. En allir þessir þrír valkostir ráðherra geta þýtt það hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þrautaganga sunnanverðra Vestfjarða í baráttunni fyrir bættum vegasamgöngum er orðin allt of löng og ábyrgð ríkisvaldsins síðustu 2 áratugi er mikil í þeim efnum.

Nú verða allir að leggjast á eitt um það að koma veglínustæði á þessu svæði á hreint og tryggja framkvæmdafé til verksins. Þetta svæði má ekki búa við það að ekki verði fundin önnur leið strax ef Teigskógarleiðin er ófær vegna þess að það tæki mörg ár að fá niðurstöðu um hana. Menn verða því að sjálfsögðu að velja næsta kost þó hann sé dýrari því það verður að vera samfella í framkvæmdum annars missum við fjármagn burt af svæðinu í annað. Þetta svæði er að byggjast upp og tíminn er peningar og það verður að setja verðmiða á hvað það kostar samfélagið að framkvæmdir dragist von úr viti það gæti reynst samfélaginu dýrt og 3. milljarðar eru ekki stór tala í því samhengi.

Ábyrgð Alþingis er því mikil og auka þarf við fjármagn í samgöngumál í fjárlagafrumvarpi næsta árs og lágmark er að standa við samgönguáætlun í þeim efnum. Vestfirðir eru skilgreindir sem ein af brothættustu byggðum landsins og öruggar samgöngur og fjarskipti er grundvöllur þess að byggðin geti nýtt þau tækifæri og þá vaxtarmöguleika sem heimamenn vinna með.
Því samkeppnishæfni svæðisins ræðst af góðum samgöngum.

Þarft þú lyf, bækur eða mat?

Ef svarið er já er mikilvægt að þú skoðir nýjasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Fjárlög eru mikilvægasta mál hverrar ríkisstjórnar enda birtist þar forgangsröðun í því hvernig fjármunum er varið og hvernig tekjur eru innheimtar til að standa undir þeim útgjöldum. Meðal þess sem er boðað í nýju fjárlagafrumvarpi er aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í svokölluðum S-merktum lyfjum, en það eru oftast mjög dýr og sérhæfð lyf.. Með því að fara að rukka sjúklinga fyrir þessi lyf ætlar ríkissjóður að ná sér í 305 milljónir. Þessi nýi tekjustofn kemur meðal annars í staðinn fyrir auðlegðarskattinn sem lagðist á þá sem eiga meira en 75 milljónir í hreina eign (150 milljónir í tilfelli hjóna). Vissulega hefði þurft að endurskoða fyrirkomulag þess skattstofns og taka tillit til þeirra sem þrátt fyrir miklar eignir hafa litlar tekjur – en staðreyndin er sú að meirihluti þeirra sem greiddi auðlegðarskattinn var vel aflögufær.

Veiðigjöldin eru líka lækkuð enn meira í frumvarpinu. Eftir myndarlega lækkun á fjárlögum ársins í ár er áætlað að halda áfram og lækka þau enn meira enda er það forgangsverkefni ríkisstjórnarnnar að tryggja meiri arð stórútgerðarmanna. Jafnvel þó að það þurfi þá að rukka sjúklinga aðeins meir til að styrkja tekjustofnana á móti. Þessi sama ríkisstjórn reyndi í fyrra að leggja gjöld á þá sem þurfa að leggjast inn á spítala. Því var raunar afstýrt af stjórnarandstöðunni og vonandi tekst okkur að afstýra þessari nýju gjaldtöku líka.

Hærri matarskattur leggst harðast á þá fátækustu

Í fjárlagafrumvarpinu er lögð til hækkun á matarskatti eins og kunnugt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fljótur að rjúka upp til handa og fóta gegn hækkun á þessum skatti sem aldrei komst þó á frumvarpsstig árið 2011 en hefur nú skipt um skoðun – það er ástæða til að heita hverjum þeim sérstökum verðlaunum sem getur þýtt skýringar hans á þessum skoðanaskiptum á skiljanlega íslensku. En annar stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur raunar sagst gera almennan fyrirvara við frumvarpið í heild sinni vegna hækkunar matarskatts sem vekur spurningar um hvort fjárlagafrumvarpið sé í raun lagt fram af ríkisstjórninni allri eða aðeins hluta hennar.

Mótvægisaðgerðum hefur verið heitið fyrir þá sem verða fyrir kjaraskerðingu með hærri matarskatti. Slíkar mótvægisaðgerðir þurfa að sjálfsögðu að vera mun öflugri og víðtækari en það sem ríkisstjórnin hefur boðað í hærri barnabótum, enda verða fleiri fyrir verulegri kjaraskerðingu en þeir sem eiga börn. Hér skiptir líka máli að matvæli eru nauðsynjavara sem ekkert okkar getur verið án og það er því grundvallaratriði að allir hafi aðgang að hollum og ódýrum mat..

Vegur bókaskattur að tungumálinu?

Þá hyggst ríkisstjórnin hækka virðisaukaskatt á bækur og tónlist. Þar sem virðisaukaskattur á bækur hefur verið hækkaður dregst bóksala iðulega saman. Skýrasta dæmið er frá Lettlandi þar sem virðisaukaskattur á bækur fór úr 5% í 21% árið 2009, en í kjölfarið fækkaði nýútgefnum bókum um 50% milli ára. Þar sem virðisaukaskattur hefur verið lækkaður hafa afleiðingarnar verið öfugar: Í Svíþjóð var skatturinn lækkaður úr 25% í 6% árið 2001 og í beinu framhaldi jókst bóksala um 20%.

Í Evrópu hefur skattur á bækur almennt verið á niðurleið og einungis fjórar þjóðir eru þar með virðisaukaskatt yfir 12% — allar aðrar þjóðir eru með lægri skatt. Víða annars staðar í heiminum er ýmist enginn virðisaukaskattur eða mjög lág álagning; þar má nefna Kanada, Suður-Kóreu og fleiri Asíuríki. Það er umhugsunarefni að ríkisstjórn sem leggur áherslu á þjóðmenningu og eflingu læsis ætli sér að veikja undirstöður þjóðtungunnar með hærra bókaverði. Það er engu líkara en ríkisstjórnin viti ekki að tungumál sem aðeins rúmir 300 þúsund tala þarf sérstakan stuðning. Aðferðir hennar nú taka ekkert tillit til þess veruleika.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í DV mánudaginn 15. september 2014

Styrkjum fjölmiðlaumhverfið

Enn og aftur er tekist á um eignarhald og ítök í íslenskum fjölmiðlum. Lög eru sniðgengin þegar fjölmiðlanefnd er ekki einu sinni upplýst um breytingar á eignarhaldi, en gagnsætt eignarhald er forsenda þess að almenningur geti metið trúverðugleika fjölmiðla. Fjárfestar tilkynna að þeir vilji láta reka þennan eða hinn og virðist sama um ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla. Þetta er alls ekki nýtt, en nú er það grímulaust.

Aðgerðir stjórnvalda veikja fjölmiðlaumhverfið

Staða almannaútvarpsins vekur líka áhyggjur. Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að setja að nýju pólitíska stjórn yfir Ríkisútvarpið og hverfa þannig til fortíðar. Næsta verk var að skerða rekstrargrunn Ríkisútvarpsins, með því að taka hluta nefskattsins (útvarpsgjaldsins) sem almenningur í landinu leggur til Ríkisútvarpsins og taka þá fjármuni til annarra nota, þó að það sé þvert á allt sem sagt er um gagnsæi. Og þótt slík skerðing á tekjustofnum almannafjölmiðla sé óheimil í löndunum sem við berum okkur saman við, (nema sama gildi um allar aðrar grunnstoðir þjóðfélagsins) þar sem skerðing gengur gegn grundvallarrétti almennings,

Það kæmi ekki á óvart ef kjörorð ríkisstjórnarinnar væri Aftur til fortíðar; á öllum sviðum vilja ráðandi öfl hverfa aftur til fyrirhrunsáranna. Skorið er niður hjá fjölmiðlanefnd sem ætlað er að hafa eftirlit með fjölmiðlamarkaði og ýmsir þingmenn stjórnarflokkanna hafa beinlínis sagst vilja þessa mikilvægu nefnd feiga. Þegar tryggt hafði verið með lögum að Ríkisútvarpið fengi útvarpsgaldið heilt og óskipt var þeim lögum breytt. Aðgerðir stjórnvalda hafa því markvisst veikt innlent fjölmiðlaumhverfi.

Fjölmiðlar mikilvægir lýðræðinu

Í lýðræðissamfélagi gegna fjölmiðlar því mikilvæga hlutverki að veita aðhald, hvort sem er hinu þríeina rikisvaldi eða stórfyrirtækjum. Einmitt þess vegna hafa fjölmiðlar átt undir högg að sækja í hinum vestræna heimi þar sem ekki síst stórfyrirtæki hafa herjað á fjölmiðla og einstaka blaðamenn, krafist lögbanns, farið í mál og reynt að þagga niður óþægilega umfjöllun.

Því miður er útlitið ekki nógu bjart. Í Evrópu hefur blaða- og fréttamönnum farið ört fækkandi (en almannatenglum fer fjölgandi). Margir fjölmiðlar heyja baráttu upp á líf og dauða og fjórða valdið stendur því veikt. Það er lýðræðinu skeinuhætt því lýðræðið þrífst illa án öflugrar upplýsingagjafar og rannsóknablaðamennsku. Þar munar engu um fréttir af golfmótum stjórnmálaflokka, umfjöllun um hvað frægur sagði við frægan á barnum eða annað efni sem iðulega birtist undir fyrirsögninni „Mest lesið“. Það er ekki nóg að framleiða eitthvert efni til að rækja hið lýðræðislega hlutverk, það þarf að sinna þessu aðhaldi með ríkjandi valdhöfum í viðskiptalífinu og stjórnmálunum.

Horfið aftur til fortíðar

Hvað er til ráða? Öflugt almannaútvarp getur verið lykilþáttur í heilbrigðu fjölmiðlaumhverfi — almannaútvarp með traustan og gagnsæjan rekstrargrunn til lengri tíma og faglega stjórn. Einnig þarf eðlilegt lagaumhverfi þar sem upplýst er um eigarhald fjölmiðla (eins og nú er gert ráð fyrir í lögum) og stjórnvöld sem tryggja að því hlutverki sé sinnt. Og best væri að stefna að því að almannaútvarp þyrfti ekki að treysta á auglýsingatekjur sem sömuleiðis gæfi öðrum miðlum meira rými á þeim markaði. Einkareknir fjölmiðlar eiga ekki að líta á almannaútvarpið sem ógn við tilveru sína heldur sem forsendu öflugs og heilbrigðs fjölmiðlaumhverfis.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis voru ýmsar ábendingar settar fram um fjölmiðlaumhverfið og þar hafa stjórnvöld hlutverki að gegna. Meðal annars til að bregðast við skýrslunni réðst síðasta ríkisstjórn í ýmsar umbætur til að tryggja eðlilegt fjölmiðlaumhverfi og treysta þannig grunnstoðir lýðræðisins. Sú ríkisstjórn sem nú situr sneri því miður af þeirri braut en hún getur enn snúið af villu síns vegar. Það þarf að tryggja eðlilegt fjölmiðlaumhverfi; Ríkisútvarpið verður að fá nefskattinn óskertan, strax á fjárlögum þessa hausts, og endurskoða þarf stjórnarfyrirkomulagið að nýju. Eignarhald einkarekinna fjölmiðla verður að vera öllum ljóst og fjölmiðlanefnd þarf að hafa burði til að sinna hlutverki sínu.

Katrín Jakobsdóttir

Fyrirhrunspólitíkin sýnir sig

Haustið 2008 hrundi fjármálakerfi Íslands með kunnum afleiðingum: Fjöldi fólks missti vinnunna, lán flestra hækkuðu upp úr öllu valdi og ríkissjóður varð stórskuldugur með þeim afleiðingum að skera þurfti verulega niður í rekstri hins opinbera. Eins og rakið er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis átti hrunið sér margar orsakir í stefnu og starfsháttum ríkisstjórnanna sem voru við völd á árunum á undan, meðal annars í því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna og eftirlitsstofnanir voru of veikburða til að sinna hlutverki sínu. Þá var rekin flöt skattastefna sem beinlínis stuðlaði að ójöfnuði en allir mælikvarðar sýna að ójöfnuður jókst hratt á síðustu árunum fyrir hrun. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar sem tók við eftir hrun tók meðvitaða ákvörðun um að breyta um stefnu og hefja uppbyggingu á nýjum grunni. Nú þegar rúmt ár er liðið frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum bendir hins vegar allt til þess að gamla fyrirhrunspólitíkin ráði nú aftur för í stjórnarráðinu.

Skattastefna fyrirhrunsáranna

Fyrir hrun var markvisst unnið að því að breyta skattkerfinu í samræmi við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem þá réð ríkjum í íslenskum stjórnmálum. Fjármagnstekjuskattar og fyrirtækjaskattar voru lækkaðir þannig að þeir voru með því lægsta sem þekkist en á sama tíma fylgdu skattleysismörk ekki verðlagi með þeim afleiðingum að lág- og millitekjufólk greiddi sífellt stærri hluta tekna sinna í skatt. Einnig var ljóst á þessum tíma að stór hluti fyrirtækja og einstaklinga komst hjá því að greiða eðlilegan skatt – lágur sem hann þó var – með því að færa sig í skattaskjól eða nýta sér aðrar glufur í skattkerfinu. Allt var þetta látið meira og minna óáreitt, þótt ljóst væri að ríkissjóður þyrfti að vinna upp þetta tap með meiri sköttum á þá sem ekki svindluðu á kerfinu.

Ríkisstjórnin sem tók við eftir hrun komst ekki hjá því að gera breytingar á skattkerfinu til að ná inn auknum tekjum eftir að hrunflokkarnir höfðu steypt ríkissjóði í stórfelldar skuldir. En samhliða því að sumir skattar hækkuðu voru aðrir skattar lækkaðir og eðli þeirra breytt með réttlætissjónarmið í huga. Sem dæmi má nefna að tekinn var upp þrepaskiptur tekjuskattur þar sem tekjulægri borga lægra hlutfall af sínum tekjum en hinir tekjuhærri. Auk þess var sett frítekjumark á fjármagnstekjuskattinn þannig að vextir af venjulegum sparnaði urðu skattfrjálsir. Um leið var farið í meiriháttar átak til að vinna gegn skattaundanskoti, með góðum árangri fyrir ríkissjóð og skattborgara alla.

Ríkir borga minna, aðrir meira

Því miður virðist núverandi ríkisstjórn ætla að hverfa aftur til gamallar skattastefnu fyrirhrunsáranna. Ríkisstjórnin hefur þegar tekið ákvörðun um að afnema auðlegðarskattinn en þá gleðjast þeir sem eiga yfir 75 milljónir í hreina eign að frádregnum skuldum. Við þetta bætist að ríkisstjórnin hefur þegar stórlækkað veiðigjöld á sama tíma og fréttir bárust af himinháum arðgreiðslum útgerðarfyrirtækjanna.

Nú hefur fjármálaráðherra einnig gefið út að hann hyggist stórhækka virðisaukaskatt á matvæli, bækur og tónlist. Ljóst er að matarskatturinn leggst þyngst á þá sem eru með lágar tekjur, enda benti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á það í nýlegri skýrslu að ef matarskatturinn yrði hækkaður þyrfti að ráðast í aðrar aðgerðir til að mæta lág- og millitekjufólki. Ekkert hefur verið rætt um slíkar mótvægisaðgerðir, enda virðist skattastefna ríkisstjórnarinnar almennt byggjast á afturhvarfi til gamalla hugmynda um flatan skatt þar sem allir greiða sama hlutfall óháð tekjum og skattkerfið er ekki nýtt til jöfnunar. Slík ójafnaðarstefna er svo markaðssett sem einföldun.

Við þetta bætist svo að ríkisstjórnin hefur farið í umtalsverðar gjaldskrárhækkanir í heilbrigðis- og menntakerfinu. Komugjöld heilsugæslustöðva hækkuðu um allt að 15-20 prósent í lok síðasta árs og skráningargjöld í háskólum um 25%. Líta má á slík gjöld sem ígildi skatta á sjúklinga og námsmenn, nema hvað að skatturinn leggst helst á þá sem minnsta möguleika hafa til að láta eitthvað af hendi rakna til samfélagsins. Ýmis teikn eru á lofti að ríkisstjórnin hafi í hyggju að auka enn álögur af þessu tagi á sjúklinga og námsmenn í stað þess að nýta tækifærið sem gefst með auknu svigrúmi í fjárlögum til að tryggja að grunnþjónusta sé öllum aðgengileg, óháð efnahag.

Katrín Jakobsdóttir
Formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

,

Röng forgangsröðun í fjárlögum

Það er óneitanlega svolítið skondið að fylgjast með orðræðu stjórnarþingmanna um fjárlögin. Það vakti til dæmis athygli að formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, og fleiri Framsóknarmenn vilja nú hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna. Eins og margir muna lagði fyrri ríkisstjórn einmitt til að farið yrði í slíkar breytingar en þá talaði þáverandi stjórnarandstaða um að það myndi flækja skattkerfið. Það er gott að þau sjá stundum ljósið og spennandi verður að sjá hvernig fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins leggur upp fjárlög næsta árs ef allir þingmenn Framsóknar standa við þær yfirlýsingar sem þeir hafa gefið í opinberum miðlum.

Óréttlátar skattbreytingar

Einnig hefur komið fram, m.a. hjá formanni fjárlaganefndar Vigdísi Hauksdóttur, að hún sé alfarið á móti hækkun matarskattsins. Hún tók líka fram að hún væri mótfallin því að gera á móti breytingar á bótakerfinu og taldi það „flækja“ kerfið. Flokkssystir hennar, Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra, hefur hins vegar sagt að til þess að koma til móts við þá sem minna hafa á milli handanna væri hægt að auka við húsnæðisstuðning og hækka barnabæturm, sem „flækir“ kerfið að mati Vigdísar. En er eitthvað því til fyrirstöðu að halda matarskattinum lágum en bæta við húsnæðisstuðning og barnabætur þrátt fyrir það? Til að skilja það þurfum við að horfa aðeins aftur í tímann. Meðal fyrstu verka þessarar ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöldin, framlengja ekki auðlegðarskattinn og hækka gjöld á sjúklingana og þá sem þurfa ýmsa stoðþjónustu. Þessi ríkisstjórn lækkaði líka álögur á brennivín og tóbak sem ég efast um að almenningur hafi fundið sérstaklega fyrir. Gleymum ekki fjölgun ráðherranna og aðstoðarmannanna, en þeim fjölgaði eins og kunnugt er þegar núverandi ríkisstjórn tók við og hugmyndir uppi um enn meiri fjölgun. Þetta kostar allt peninga – peninga sem þarf að finna í fjárlögum þessa árs með einhverjum hætti. Og nú hefur fjármálaráðherra sem sagt afráðið að taka þá peninga út m.a. úr virðisaukaskattskerfinu, með hækkun matarskatts.

Þurfum nýja sókn í heilbrigðismálunum

Eitt stærsta mál fjárlagaumræðunnar verða heilbrigðismálin. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins birti myndir af Landsspítalanum á dögunum þar sem fötur voru út um allt enda mikill vatnsleki sem hefur verið viðvarandi í mörg ár. Ekki hefði þetta átt að koma honum á óvart, enda virðist flokkur hans hafa ákveðið að byggja ekki nýjan spítala. Fram hefur komið hjá heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins að það gæti þurft að hækka gjöldin enn meira á sjúklinga, sem voru þó hækkuð 1. júlí, eða skerða þjónustuna enn frekar við þá þar sem rekstur heilbrigðiskerfisins hafi farið fram úr fjárlögum.

Það er eiginlega merkilegt að ekki sé rætt meira um að spítalinn fái ekki nægt fé til að sinna þeim skyldum sem á hann eru lagðar. Fram hefur komið hjá forstjóra spítalans að hann sé rekinn fyrir umtalsvert minna fjármagn í ár en fyrir sex árum sé miðað við fast verðlag. Formanni fjárlaganefndar er þó tíðrætt um hafa sett aukið fé í Landsspítalann um 4,6 mia. en ætlaði þó í kosningabaráttunni að setja heldur meira. Þegar búið er að taka tillit til m.a. launa- og verðlagsforsendna og ýmissa annarra þátta standa einungis eftir um 1,7 mia. fyrir spítalann að moða úr. Það verður að teljast nokkuð hæpið að það nægi til að hefja þá sókn í heilbrigðismálunum sem augljós þörf er á.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs

Læsi – hvítbók og staða íslenskunnar

Staða íslenskrar tungu hefur verið nokkuð til umfjöllunar undanfarið og því jafnvel verið hreyft að hún kunni að vera í hættu á næstu áratugum ef ekkert verði að gert. Samkvæmt nýlegri skýrslu er staða hennar veik borið saman við önnur mál í Evrópu og er þar ekki síst horft til stafrænnar upplýsingatækni og tölvuumhverfis í daglegu lífi.

Íslenskan á tölvuöld

Af þessum sökum var sett fram, að mínu frumkvæði, og samþykkt þingsályktunartillaga um að gera áætlun sem miðar að því efla tungutækni og styrkja stöðu tungunnar að þessu leyti. Um þetta mál ríkti þverpólitísk samstaða – enda mikið í húfi. Í tillögunni segir: „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem geri áætlun um aðgerðir er miði að því að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Áætlunin feli í sér tímasett yfirlit um aðgerðir og áfanga, kostnaðarmat og fjármögnun. Nefndin leggi áætlun sína fram í síðasta lagi 1. september 2014.“ Að baki þessari þingsályktun býr góður vilji og henni þarf auðvitað að fylgja vel eftir.. Ég vænti þess að svo verði strax við gerð fjárlaga fyrir árið 2015. Fjárfesting í máltækni er gríðarlega mikilvægur þáttur í íslenskri málstefnu.

Læsi og móðurmál

Það er mitt mat að við umræðu um læsi á Íslandi verði ekki hjá því litið að ræða læsi í víðum skilningi og stöðu tungunnar almennt. Sjálf fékkst ég áður við máltöku- og móðurmálsfræði og verð þess greinilega vör að enska sækir ákaft á í daglegum samskiptum barna og ungmenna sem þó eiga íslensku að fyrsta máli. Því verður vissulega að halda til haga að íslenska er notuð á öllum sviðum samfélagsins og tekur til æ fleiri viðfangsefna, að því leyti er staða hennar sterk. Aftur á móti þarf að gæta að því að enska leikur æ stærra hlutverk í málumhverfi og málnotkun barna og unglinga. Þar eru blikur á lofti og margt sem bendir til að málkennd og orðaforði veikist jafnt og þétt.

Ef íslenskt mál á undir högg að sækja í daglegu lífi barna og unglinga er rétt að velta fyrir sér hvaða áhrif það hefur á almennt læsi og lesskilning. Ef til vill er sá læsisvandi sem þykir blasa við í íslensku skólakerfi og var meðal annars lýst í nýlegri Hvítbók um áherslur í skólamálum ekki síst í því fólginn að málskilningur á íslensku kann að vera á hröðu undanhaldi. Raunar sakna ég þess að málskilningur almennt sé ræddur í nýrri hvítbók menntamálaráðherra. Mál og læsi þarf að skoða í samhengi og mál sem þarf að styrkja á mikið undir stuðningi stjórnvalda, skýrri stefnumörkun og fjármagni á öllum sviðum. Þá er ekki nóg að benda á umfang móðurmáls í námskrá eða mælingar á prófum, heldur þarf að vinna að stuðningi við tunguna um allt samfélagið.

Hvað er til ráða?

Til að styrkja stöðu tungunnar þarf að fylgja nefndri þingsályktun eftir með myndarlegum hætti og auka hlut íslensku í tungutækni en ekki síður að efla bókasöfn, þýðingar, innlenda dagskrárgerð, innlenda kvikmyndagerð, leikhús og sköpun og síðast en ekki síst kennslu og rannsóknir í menntun, lestrar- og móðurmálsfræðum. Hvítbók má sín lítils ef þessa samhengis er ekki gætt, flókið og margslungið viðfangsefni verður ekki leyst með þröngri nálgun. Sérstaklega er varhugavert að einblína um of á niðurstöður prófa um læsi og lesskilning í því starfi sem framundan er. Þvert á móti er brýnt að horfa á viðfangsefnið í víðara samhengi og stöðu móðurmálsins í samfélaginu öllu. Hér er hvatt til þess að menntamálaráðherra leiti til allra þeirra sem best til þekkja og horfi ekki framhjá mikilvægi rannsókna og nýsköpunar í þessu efni.

Fjölskylduskatturinn

Nú eru línur teknar að skýrast í vinnunni við fjárlagafrumvarp næsta árs. Fréttir berast af því að ríkisstjórnin, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, leggi sérstaka áherslu á breytingar á virðisaukaskattkerfinu.

Fjármálaráðherra hefur sérstaklega talað fyrir því að tvöfalda virðisaukaskattinn á matvæli, færa hann úr 7% í 14% í tveimur skrefum, en lækka um leið virðisaukaskattinn á aðrar vörur, þar á meðal ýmsar lúxusvörur, um 1%.

Það liggur fyrir að með slíkri hækkun á matvæli væri ríkisstjórnin enn og aftur að þyngja byrðar þeirra sem lægri tekjur hafa. Ekki síst kemur þetta sér illa fyrir ungar og barnmargar fjölskyldur. Sú 1% lækkun á efra þrepinu sem talað hefur verið um er á vörum sem þeir sem lágar tekjur hafa neita sér frekar um. Hins vegar þurfa allir að borða og því ljóst að þessi breyting mun bitna á þeim sem síst skyldi og spyrja má hvort fjármálaráðherrann hafi reiknað út hvaða áhrif það hafi á verðbólguna og skuldastöðu heimilanna?

Ég held að við getum flest verið sammála um að verð á matvöru hefur hækkað töluvert og fæst viljum við greiða hærra verð en við nú þegar gerum. Það liggur í augum uppi að þeir sem lægri tekjur hafa kaupa alla jafna ódýrari mat en þeir sem hærri tekjur hafa. Staðreyndin er sú að um 60% lágtekjufólks eiga erfitt með að láta enda ná saman, en einungis um fjórðungur hátekjufólks. Með hækkun matarskattsins er ljóst að lágtekjufólk mun eiga enn erfiðara með að ná endum saman. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin hækkað gjöld á sjúklinga og skráningargjöld í háskólum, sem enn og aftur kemur verst við marga þá sem eru verst settir fyrir.

En hvers vegna telur ríkisstjórnin sig þurfa að hækka matarskatt og gjöld í mennta- og heilbrigðiskerfinu? Er það ekki vegna þess að sama ríkisstjórn ákvað að afnema auðlegðarskattinn og stórlækka veiðigjöldin? Forgangsröðunin verður ekki mikið skýrari: Kvótakóngar og stóreignafólk fá afhentar milljónir á silfurfati á meðan lágtekjufólk og fjölskyldur eru látnar borga brúsann. Þessari fyrirhrunspólitík verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust þegar málið kemur inn á borð Alþingis og fjárlaganefndar.

Takk!

Hinsegin dögum er nýlokið. Þeir voru haldnir í sextánda sinn, og gengu sem fyrr út á að draga fram fjölbreytileikann, fagna honum og þeim réttindum sem áunnist hafa. Gleðigangan var stórkostleg að vanda og talið er að um 90 þúsund manns hafi safnast saman í miðborginni.

Hinsegin dagar hafa líka annað og alvarlegra hlutverk. Að minna á þau réttindi sem ekki hafa náðst og óréttlætið sem viðgengst bæði hér á Íslandi og úti í heimi, en ekki síður að uppræta fordóma og fáfræði gagnvart fjölbreytileika mannlífsins. Hinsegin dagar þjónuðu þessu markmiði vel í ár, m.a. með mikilvægri fræðslu um þann fjölbreytta hóp sem rúmast undir hinsegin regnhlífinni.

Hin nýstofnuðu samtök Intersex Ísland hafa vakið verðskuldaða athygli. Intersex fólk fellur ekki undir hefðbundna skilgreiningu á kynjunum af líffræðilegum ástæðum. Intersex hefur alltaf verið til, en það er ekki fyrr en nú þegar talsvert er liðið á 21. öldina að farið er að tala um réttindi og stöðu intersex fólks á opinberum vettvangi á Íslandi.
Staða intersex fólks sýnir okkur hversu mikla áherslu við sem samfélag leggjum á að flokka fólk eftir kyni. Kyn barns er það fyrsta sem spurt er um eftir fæðingu þess, nafngift er háð kyni, opinberar skrár gera ráð fyrir tveimur kynjum og svona mætti lengi telja. En það er ekki nóg. Enn eru framkvæmdar skurðaðgerðir á heilbrigðum kynfærum nýfæddra barna til að aðlaga þau stöðluðum hugmyndum um útlit typpis eða píku. Intersex fólk krefst nú viðurkenningar á tilvist sinni og sjálfsákvörðunarréttar yfir eigin líkama. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa.

Hinsegin dagar hafa sett brýn og grafalvarleg mál á dagskrá, enn eina ferðina, í bland við gleði og fagnaðarlæti. Til að hægt sé að fagna fjölbreytileikanum er mikilvægt að þekkja hann og skilja. Hinsegin fólk og hinsegin dagar hafa breytt miklu hvað það varðar. Fyrir það ber að þakka. Takk.

Sóley Tómasdóttir, forseti Borgarstjórnar

Gasa: Hvað er til ráða?

Þegar þetta er skrifað hafa yfir þúsund manns látist á Gasa. Meirihluti þeirra eru óbreyttir palestínskir borgarar, og yfir 200 þeirra eru börn. Eins og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum benti á þegar hún ávarpaði Öryggisráðið í síðustu viku er rótin að átökunum hernám Ísraels á Gasa og Vesturbakkanum. Enginn friður fæst á svæðinu á meðan Ísraelsher heldur Palestínumönnum í gíslingu í eigin landi og brýtur ítrekað á réttindum þeirra.

En hvað er til ráða? Hvað getum við gert til að knýja Ísraelsstjórn til að fara að alþjóðalögum og draga herlið sitt til baka frá Palestínu? Í fyrsta lagi ættum við að skoða vel hvort beita megi viðskiptaþvingunum á Ísrael til að knýja fram frið, sambærilegar þeim sem settar voru á aðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku á sínum tíma. Raunar getum við öll lagt okkar af mörkum í þeim efnum nú þegar með því að sniðganga ísraelskar vörur frá hernumdu svæðum Palestínu. Hér myndi hjálpa til ef slíkar vörur væru merktar sérstaklega, eins og kveðið er á um í þingsályktunartillögu Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, frá síðasta vetri. Sú tillaga verður endurflutt í haust og hlýtur vonandi framgöngu á Alþingi.

Í öðru lagi getum við að sjálfsögðu þrýst á Ísraelsmenn eftir diplómatískum leiðum. Mikið hefur verið rætt um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og er sú hugmynd allrar athygli verð í ljósi alvarleika málsins. Einnig þyrfti að skoða hvort Ísland geti gripið til diplómatískra aðgerða sem eru sambærilegar því þegar Brasilía og Ekvador drógu sendiherra sína til baka frá Ísrael í síðustu viku. Í þriðja lagi er enn ekki útséð um að Sameinuðu þjóðirnar geti komið að lausn deilunnar, en þá skiptir miklu máli að breyta afstöðu Bandaríkjanna. Hingað til hafa Bandaríkin staðið í vegi fyrir öllum raunverulegum aðgerðum til að þrýsta á Ísrael á vettvangi SÞ, meðal annars með því að beita neitunarvaldi sínu í Öryggisráði SÞ ótal sinnum. Í ljósi sögu Íslands og Bandaríkjanna ætti Ísland að leita allra leiða til að þrýsta á Bandaríkin um að endurskoða stuðning sinn við framferði Ísraelshers í Palestínu.

Svandís Svavarsdóttir