,

Sérstakt átak í upplýsingamiðlun Garðabæjar

Aðgengi bæjarbúa að upplýsingum um rekstur og ákvarðanir í hverju sveitarfélagi eru forsenda þess að sátt ríki um stjórnun bæjarins. Krafan um gegnsæi er krafa um að almenningur geti nálgast þessar upplýsingar með einföldum hætti til að mynda sér skoðun á skilvirkni bæjarkerfisins.

Hjá mörgum stærstu sveitarfélögum landsins hefur hin síðari ár náðst markverður árangur í að gera slíkar upplýsingar aðgengilegar og skýrist það m.a. af tilkomu netsins.

Hjá Garðabæ má nálgast fundargerðir nefnda og eru helstu fjárhagsupplýsingar bæjarins aðgengilegar á vefnum. Þannig er hægt að ná í ársreikning bæjarins aftur í tímann og glöggva sig á helstu rekstrartölum bæjarins.

Þó að mikið hafi áunnist hin síðari ár í að gera fjárhagsupplýsingar opinberra aðila aðgengilegar almenningi er verulegt rúm til að gera enn betur. Garðbær gæti raunar tekið forystu í þessum efnum og leggur FÓLKIÐ- í bænum til að það verði sérstakt tilraunasveitarfélag á Íslandi í að gera fjárhagsupplýsingar aðgengilegri bæjarbúum.

Ekki nægir að setja helstu bókhaldsupplýsingar ársreikninga á netið heldur þarf að vinna úr upplýsingunum þannig að þær séu skiljanlegar þeim sem vilja leita þeirra. Styðja má við fjármálalæsi með skipulagðri framsetningu gagna.

Þetta má gera með tvennum hætti. Hægt er að gera grunngögnin aðgengileg hverjum þeim sem vilja til að útbúa eigin gögn og auðvelda þannig frekari framsetningu á þeim. Þannig hafa ýmis fyrirtæki sérhæft sig í að nýta sér grunngögn til að setja slíka upplýsingar fram þannig að þær verði skiljanlegar. Gott dæmi um eitt slíkt er íslenska sprotafyrirtækið Datamarket.

Einnig getur sveitarfélagið látið vinna úr þessum gögnum helstu lykilstærðir til upplýsinga fyrir bæjarbúa. Gera má einfaldar myndir sem sýna hversu hátt hlutfall útsvars fer í stóra málaflokka eins og skólamál, rekstur stjórnsýslu eða æskulýðs- og íþróttamál. Þá má bæta við myndum um þróun skulda, tekna og gjalda. Ótal fleiri atriði er hægt að týna til en fyrirmynda má líka leita víða hvort sem það er hjá fyrirtækjum eða opinberum aðilum erlendis.

Hugmyndinni er ekki varpað hér fram til að gera lítið úr þeim upplýsingum, sem þegar er að finna hjá bænum, heldur fremur til að styðja við áframhaldandi þróun þessarar vinnu.

Með einföldum hætti og litlum tilkostnaði er hægt að stórbæta aðgengi almennings að þessum upplýsingum og ætti að vera auðvelt að sameinast um slík markmið.

Huginn Freyr Þorsteinsson
Höfundur, situr í 4 sæti M-Lista í Garðabæ.

Greinin birtist fyrst á Vísi.is

,

Við getum breytt kerfinu

Í vor munu sjö flokkar bjóða fram til bæjarstjórnar hér á Akureyri og ljóst er að allir frambjóðendur vilja vinna bænum okkar gagn þó skiptar skoðanir séu um hvernig það sé best gert. Um leið eru pólitískar línur að óskýrast þar sem hluti flokkanna leggur ekki upp með skýrar pólitískar hugsjónir heldur frekar að um sé að ræða hóp ólíkra einstaklinga sem hver fyrir sig taki afstöðu í málum og málefnum samkvæmt sinni persónulegu pólitísku skoðun þó reyndar hafi ekki borið á slíku í hreinum meirihluta L-listans síðastliðið kjörtímabil. Svo það er greinilega ekki nóg. Þess vegna er mikilvægt að efla samræðu- og samvinnustjórnmál og velta upp nýjum möguleikum til þess.

Við í VG viljum afleggja hefðbundna skiptinu í meirihluta og minnihluta en þess í stað vinni allir bæjarfulltrúar saman. Þannig höldum við eðlilegra valdajafnvægi í samræmi við niðurstöður kosninga.

Staðreyndin er þó sú að stór hluti vinnunar fyrir bæjarbúa fer fram í nefndum. Þar hefur meirihlutahópurinn hingað til eignað sér valdamesta embætti í hverri nefnd; formennskuna. Þetta fyrirkomulag er í hróplegu ósamræmi við niðurstöður kosninga og þar með vilja kjósenda. Sem dæmi má nefna að í kosningum 2010 hlaut L-listinn 45% atkvæða en skipar 100% nefndarformanna. Við leggjum til að nefndarformönnum og nefndarmönnum verði skipt niður á flokkana í samræmi við útkomu úr kosningum sem.

Auk þessa er mikilvægt að auka aðkomu íbúa að umræðu og ákvörðunum. Fyrsta skrefið að þessu bætta lýðræði er að auka upplýsingagjöf um það sem fram fer í stjórnsýslunni. Það þýðir ekki að ætlast sé til að allir bæjarbúar kynni sér öll mál sem tekin eru til umræðu heldur að þeir bæjarbúar sem áhuga hafa eigi greiðlega aðgengi að þeim gögnum sem liggja til grundvallar ákvarðanatöku. Með þessu eiga íbúarnir auðveldara með að beita virku aðhaldi. Við leggjum til að öll gögn sem bæjarfulltrúar fá í hendur við umræðu um málefni í nefndum og ráðum séu gerð opinber með fundargerðum innan marka persónuverndar og viðeigandi laga.

Í vikunni bárust þær fréttir að CCP hefði í ársreikningi sínum birt upplýsingar um alla hluthafa í félaginu. Þetta hefur víst ekki gerst áður hjá stórfyrirtæki á Íslandi. Þetta er mikilvægur liður í auknu upplýsingaaðgengi og til mikillar fyrirmyndar og vonandi að fleiri fylgi eftir. Það er nefninlega þannig að það þarf bara að ríða á vaðið, ekki bara afsaka sig með því að þetta eða hitt tíðkist ekki. Það eru ekki gild rök í umræðunni um aukið aðgengi að gögnum.

Einn liður í betra upplýsingaflæði milli bæjarkerfis og bæjarbúa er að haldið sé úti upplýsingagátt þar sem íbúar hafa tækifæri til að koma að ákvarðanatöku, forgangsröðun og til að afla sér upplýsinga án mikillar fyrirhafnar. Bæjarkerfið þarf að taka frumkvæði í upplýsingagjöf til íbúanna sem það þjónustar. Þetta er pólitísk stefna okkar í VG.

Sóley Björk Stefánsdóttir skipar fyrsta sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Greinin birtist fyrst á Akureyri – vikublað

Engu gleymt og ekkert lært

Undanfarna daga hefur „stóra knattspyrnustjóramálið“ einokað alla umræðu hér heima og erlendis og örlög David Moyes verið á allra vörum. Umræða um slaka frammistöðu Moyes í stóli knattspyrnustjóra Manchester United hefur þó ekki einungis snúist um knattspyrnu og æfingatækni. Undir yfirborðinu leynast gríðarlegir hagsmunir fjármálaafla og peningamanna sem hafa fjárfest í fyrirtækinu Manchester United og fyrir þau öfl snýst málið ekki síður um tap og hagnað af viðskiptum. Þess vegna er biðlundin líklega jafn lítil og raun ber vitni.

Enska knattspyrnan er löngu komin undir markaðslögmálin alræmdu eins og svo margt fleira sem engum hefði komið til hugar fyrir nokkrum áratugum að ætti heima á markaði. Á síðasta ársfundi Samtaka atvinnulífsins var eitt aðalstef fundarins aukin áhersla á einkarekstur í velferðarkerfinu og menntakerfinu og rætt fjálglega um að hleypa einkaaðilum að kökunni – sem sagt sameigninni sem íslenskir skattborgarar hafa byggt upp áratugum saman og eru skólarnir, spítalarnir, heilsugæslan og fleira. Af hverju vilja einkaaðilarnir komast þarna að? Jú væntanlega af því að það er góður bissness.

Einkenni nýfrjálshyggjunnar er að æ fleiri svið mannlífs færast undir markaðslögmál og þau eru heimfærð upp á hluti þar sem þau eiga ekki endilega við. Þannig sýna nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum að einkareknir skólar skila ekki betri árangri en opinberir, sé tekið tillit til lýðfræðilegra þátta. Þar hefur almenna skólakerfið hins vegar verið talað niður áratugum saman með þeim afleiðingum að þegar foreldrar eru spurðir um afstöðu sína eru algengustu svörin þau að skólakerfið sé ómögulegt jafnvel þó að sá opinberi skóli sem þeirra börn ganga í sé hinn ágætasti!

Ástæðan fyrir þessu tali – sem líka er beitt gegn heilbrigðiskerfinu og ýmsum öðrum opinberum geirum – er að plægja jarðveginn fyrir einkaaðila; tala niður það sem er fyrir og auðvelda markaðnum innreið sína þannig að einkaaðilar geti í rólegheitunum tekið yfir samfélagslegar eignir.

Mantra Sjálfstæðisflokksins um að „leysa þurfi krafta einkaframtaksins úr læðingi“ er raunar gamalkunnug en sá flokkur stóð ásamt Framsóknarflokknum fyrir umfangsmikilli einkavæðingu á árunum fyrir hrun og seldi þá ríkiseignir með þeim ömurlega árangri að almenningur í landinu stóð eftir mun blankari en áður. Nokkrir útvaldir náðu hins vegar að hagnast vel á viðskiptunum.

Ýmsir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar eru nú búnir að rifja upp möntruna og boða aukinn einkarekstur, t.d. í heilbrigðiskerfinu. Þá hefur ríkisstjórnin boðað umtalsverða einföldun á regluverki og hefur forsætisráðherra lagt til að öll lagasetning sem tengist atvinnulífi þurfi að fá gæðastimpil hagsmunaaðila á borð við Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins. Hér er um dæmigerða orðræðu nýfrjálshyggjunnar að ræða þar sem fer saman að draga úr eftirliti og regluverki og auka þátt einkaaðila í opinberri þjónustu. Hér virðast menn því engu hafa gleymt og ekkert hafa lært.

Niðurstaðan af slíkri stefnu er nefnilega sáraeinföld. Eftir því sem fleiri svið samfélagsins eru færð undir lögmál markaðarins fer stærri hluti samfélagsins úr sameign yfir í einkaeign. Meiri auður þjappast á færri hendur og ójöfnuður eykst. Brauðmolakenning nýfrjálshyggjunnar – um að molar af auð hinna ríku sáldrist niður eftir samfélaginu til þeirra sem minna hafa – hefur ekki reynst halda vatni. Ójöfnuður í heiminum fer nú vaxandi, meðal annars vegna þeirrar virku pólitísku stefnu sem aftur vex nú fiskur um hrygg á Íslandi þrátt fyrir að hafa beðið skipbrot fyrir örfáum árum. Ójöfnuður er hins vegar, ásamt loftslagsbreytingum, metinn sem mesta samfélagsógn 21. aldar, Gegn honum ættum við öll að vinna. Það gerum við ekki með því að færa öll svið mannlífsins undir markaðsöflin.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í DV 22. apríl sl.

Einkavæðing höfuðsafns í undirbúningi

– Náttúrminjasýning á vegum einkaaðila

Í borgarráði á föstudag voru kynntar hugmyndir um að stofna hlutafélag sem kæmi til með að reka náttúruminjasýningu í Perlunni. Nýtt hlutafélag, Perlan hf, yrði í eigu einkaaðila og rekin með arðsemiskröfu. Þetta yrði í fyrsta skipti sem einkaaðilar kæmu að rekstri höfuðsafns á Íslandi, og jafnframt í fyrsta skipti sem arðsemissjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi við rekstur slíks safns.

Hugmyndin vekur eðlilega upp spurningar um hvort einkaaðilar geti rækt þær skyldur sem ríkisvaldinu ber þegar kemur að fræðslu og  aðgengi almennings á þessu sviði, eða hvort markaðslögmálin muni verða almannahagsmunum yfirsterkari. Hugmyndin ber hugmyndafræði hægrisins skýr merki; um að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið, allt eftir því hvernig verkefnið þróast.

Þá vekur það sérstaka athygli að málið hafi verið kynnt í borgarráði án þess að Alþingi hafi haft það til umfjöllunar, sem hlýtur að bera ábyrgð umfram Reykjavíkurborg. Náttúruminjasafn er jú eitt af þremur höfuðsöfnum og ríkinu ber lagaleg skylda til að gera málinu sómasamleg skil.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna bókaði með eftirfarandi hætti:

„Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar mikilvægi þess að náttúrminjasýning í Perlunni verði að veruleika sem fyrst. Náttúruminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum landsmanna og ríkinu ber lagaleg skylda til að gera því góð skil. Ábyrgðar- og aðgerðarleysi núverandi stjórnvalda hefur nú kveikt hugmyndir um rekstur náttúruminjasýningar með aðkomu einkaaðila sem vekur upp spurningar um það hvernig almannahagsmunir og aðgengi almennings verði tryggð. Í raun sætir furðu að einkaaðilar sjái hag í rekstri slíkrar sýningar sem ríkið telur sig ekki hafa efni á að reka og eðlilegt að spyrja hverjir hagsmunirnir séu. Er eðlilegt að reka höfuðsafn með arðsemiskröfu – og ef svo er, getur þá talist eðlilegt að sá arður renni til einkaaðila en ekki samfélagsins? Borgarráðsfulltrú Vinstri grænna er fullur efasemda um þetta fyrirkomulag sem ber keim af hugmyndafræði hægrisins sem í gegnum tíðina hefur tryggt gróða einkaaðila en ábyrgð almennings þegar illa fer.”

Reisum nýtt og betra

1. maí er meira en frídagur, hann er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks.

Að 1. maí skuli vera lögboðinn frídagur er áminning til okkar um það að þau réttindi sem launafólk hefur náð, hafa hvorki fengist baráttulaust, né verða þau varin eða aukin réttindi sótt án baráttu.

Verkfallsrétturinn er mikilvægasti rétturinn sem launafólk hefur náð fram. Hann er lykillinn að því að fólk geti sótt annan rétt, til launa, lífeyris, mannréttinda og fleiri lífsgæða. Án verkfallsréttar hefði launafólk ekkert baráttutæki sem bítur. Þessi réttindi voru sótt með hörðum átökum bæði hérlendis og erlendis. Sum verkföll stóðu lengi og reyndu bæði á fjárhag og samstöðu verkafólks. Verkfallsvörðum og kröfugöngum var oft mætt með kylfum og grjótkasti og erlendis með skotvopnum. Fólk var svartlistað með útskúfun frá því að vera ráðið til starfa og fékk ekki eðlilegan aðgang að húsnæði, byggingarlóðum eða bankaþjónustu.

Núna höldum við hátíð 1. maí með skrúðgöngu, kaffisamsæti og hátíðarræðum og þannig á það að vera. Við eigum að fagna því sem áunnist hefur, þakka þeim sem náðu því fram með baráttu sinni og árétta með sjálfum okkur að við höldum baráttunni áfram. Ennþá er verkfallsvopnið brýnt vopn. Það sést meðal annars á muninum á því sem framhaldsskólakennarar náðu fram eftir verkfall og hinu sem önnur stéttarfélög náðu fram með bónleiðum.

Fyrir hvern var „þjóðarsáttin“?

Með „þjóðarsáttarsamningunum” árið 1990 tóku Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitandasamband Íslands sig saman um að reyna að kveða niður „verðbólgudrauginn“ sem gengið hafði ljósum logum með áralöngum víxhækkunum launa og verðlags. Við tók meiri efnahagslegur stöðugleiki. Fyrir þennan tíma hafði verkafók náð fram öllum þeim helstu réttindum sem við búum að nú, 40 stunda dagvinnu á viku, lágmarkslaunum, lífeyri, orlofi og fleiru. Við tók að halda í því horfi, en skila fáum nýjum ávinningum. Fyrir atvinnurekendur opnuðust ný sóknarfæri, afkoma þeirra batnaði og fjármagnsmyndun jókst.

Misskipting er að aukast

Það er  umhugsunarvert að allt frá „þjóðarsáttarsamningunum“ hefur misskipting milli ríkra og fátækra á Íslandi aukist, fyrst hægt, en með vaxandi hraða frá aldamótum. Með aukinni alþjóðavæðingu kom aðgengi fjármagnseigenda að erlendum fjármálamörkuðum. Samhliða komust þær kenningar til áhrifa sem boðuðu aðhaldsleysi með athafnamönnum og eftirlitsleysi með fjármagni. Þetta endaði með ósköpum sem okkur eru vel kunn.

Við endurreisn efnahags Íslands er kominn tími til að launafólk sæki fram á ný, sæki bætt lífskjör, hærri laun, styttri vinnutíma, meiri jöfnuð og velferð. Til þess þarf vilja og til þess þarf samstöðu. Til þess höldum við baráttudag.

Andrés Rúnar Ingason,skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg

Greinin birtist fyrst í Sunnlenska

,

Vald yfir velferð

Árið 2007 kom fram í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að stefna bæri að „fjölbreyttari rekstrarformum“ í heilbrigðisþjónustu. Þessi stefna gengur nú aftur, ekki síst í áherslum Bjartrar framtíðar fyrir síðustu þingkosningar. Þessar hugmyndir varða okkur Akureyringa miklu þar sem bæði Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæslan eru máttarstoðir velferðar hér og víðar um Norðurland. Hið fyrra er rekið af ríki og síðara af sveitarfélaginu með framlagi frá ríki. Akureyrarbær hefur þurft að borga með heilsugæslunni, þar sem ónóg framlög hafa fylgt frá ríkinu og þrengt hefur verið að rekstri Sjúkrahússins frá því löngu fyrir hrun. Með auraleysi hins opinbera hefur nú verið skapað „svigrúm“ fyrir „fjölbreyttari rekstrarform“ eins og sumir pólitíkusar kjósa nú að kalla einkavæðingaráform sín. Þá er rétt að skoða hvað felst í þessum fjölbreytileika.

Um er að ræða samninga við einkaaðila um framkvæmd þjónustu undir eftirliti hins opinbera. Vissulega er hægt að setja skýran ramma utan um slíka samninga en þegar öllu er á botninn hvolft er um einkaaðila að ræða, sem óhjákvæmilega munu gera kröfu um að reksturinn skili hagnaði. Það vita allir að helsti hvati fyrirtækjareksturs er vonin um hagnað og það er ákaflega erfitt að hugsa sér að einhver vilji taka að sér rekstur fyrir hið opinbera og í ofanálag undir ströngu eftirliti, án þess að vilja nokkuð fyrir sinn snúð. Þannig að ljóst er að allur einkarekstur mun annað hvort verða okkur dýrari eða við fáum minni þjónustu.

Það er þó aðeins einn angi. Í samningum um rekstur velferðaþjónustu mun eðli þjónustunnar og skyldur rekstraraðila verða skilgreind nákvæmlega. Það er hagur rekstraraðilans að geta skilgreint þjónustuna sem nákvæmast, bæði uppá verðlagningu og til að komast hjá ófyrirséðum kostnaði vegna þjónustu sem þá er hægt að semja sérstaklega um við ríkið. Með þessum hætti dregur verulega úr sveigjaleika þjónustunnar, auk þess sem líklegast er að samið verði um þá hluta hennar sem auðveldast er að skilgreina og óvissir þættir verði eftirlátnir hinu opinbera, þ.e. okkur skattgreiðendum .

Þá er komið að þriðja hluta afleiðinga þess að opna á einkarekstur í velferðarþjónustu. Það er að við semjum frá okkur vald yfir áherslum og forgangsröðun velferðarþjónustunnar. Það leggjum við í hendur lögfræðinga og dómstóla sem munu kíta um efnisatriði og efndir samninga, frekar en að ræða stefnu og sjónarmið sem liggja eiga til grundvallar velferð okkar.
Látum ekki glepjast af fagurgala um fjölbreytni. Þegar við framseljum vald yfir velferð gerist það með samningum sem binda hendur okkar um langa tíð og fellir umræðu um velferð í skotgrafir lagaklækja og málaferla um efndir og inntak samninga. Í þeirri umræðu verða íbúar og kjörnir fulltrúar þeirra ekki þátttakendur og aðeins þeir sem hafa mesta möguleika á lögfræðiþjónustu, fá bestu þjónustuna.

Edward H. Huijbens
Höfundur skipar 2. sæti á lista VG Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Greinin birtist fyrst á netmiðlinum Akureyri, www.akv.is

,

Fjölskylduborgin Reykjavík

Þó kannanir sýni að stór hluti ungs fólks vilji búa í Reykjavík og miðsvæðis er staðreyndin því miður sú að margt ungt fólk sem er að stofna fjölskyldu kýs að búa í nágrannasveitarfélögunum. Ástæðan er einföld: Húsnæðiskostnaður er of hár í Reykjavík, sérstaklega vegna þess hversu dýrt er að stofna og reka fjölskyldu.

Þessu verður að breyta. Reykjavík þarf að verða alvöru fjölskylduborg þar sem fólk getur ráðið hvort það býr í eigin húsnæði eða öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Við þurfum aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum sem henta ungum fjölskyldum og háskólanemum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð gerir sér grein fyrir þessu. Að okkar mati er algert forgangsatriði að íbúðir í þessum stærðarflokkum verði byggðar. En við þurfum að tryggja að verktakar og leigufélög peningamanna og braskara misnoti ekki húsnæðisskortinn til að græða á vanda ungra fjölskyldna, við þurfum að efla húsnæðissamvinnufélög og auðvelda Félagsstofnun stúdenta að leysa húsnæðisvanda háskólanema.

Þurfa fleira en húsnæði
Ef við viljum bæta kjör ungra fjölskyldna þurfum við hins vegar að horfa til fleiri þátta en húsnæðiskostnaðar. Kostnaður foreldra vegna leikskólagjalda, frístundastarfs, skólamáltíða og annarrar grunnþjónustu við börn er t.d. gríðarlega mikill. Gjaldheimta borgarinnar vegna eðlilegrar grunnþjónustu við börn er þungur útgjaldaliður hjá mörgum ungum fjölskyldum. Of þungur, því allt of margar efnalitlar fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að borga fyrir skólamáltíðir og frístundastarf, og fyrir alla hina eru þessi gjöld mjög stór útgjaldaliður.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum því lagt mikla áherslu á að öll grunnþjónusta við börn verði í boði fyrir alla, óháð fjárhag eða stöðu.

Gjaldfrjálsa grunnþjónustu
Að bjóða upp á gjaldfrjálsa leikskóla, skólamat og tómstundastarf er ótrúlega mikilvægt fyrir samfélagið. Hærri tómstundastyrkur dugar ekki til. Við þurfum alvöru aðgerðir til að tryggja jöfnuð.

Slíkar aðgerðir bæta ótvírætt kjör allra fjölskyldna. Þær auka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna og losa efnaminnstu fjölskyldurnar við álagið sem fylgir því að eiga ekki fyrir reikningum vegna skólamatar eða frístundaheimilis.

Kæru Reykvíkingar, fáum ungar fjölskyldur til þess að flytja til Reykjavíkur. Gætum þess að aðstæður séu þannig að allir fái jöfn tækifæri til að blómstra. Setjum því X við V í vor.

Benóný Harðarson skipar 11. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík
Greinin birtist fyrst á Vísi.is

Frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna

Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarps um lögbindingu lágmarkslauna sem lagt var fram á Alþingi á dögunum. Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður VG og Birgitta Jónsdóttir alþingismaður Pírata eru meðflutningsmenn þingmálsins.
Verði frumvarpið að lögum mun upphæð lægstu launa verða bundin í lögum og fylgir þróun neyslu- og framfærslukostnaðar í landinu með tengingu við neysluviðmið velferðarráðuneytisins, en þau byggjast á mælingum á neyslu Íslendinga og ráðstöfun fjár til helstu útgjaldaflokka einstaklinga og heimila. Sá eiginleiki neysluviðmiðs, að sýna raunveruleg útgjöld vegna framfærslu, er vel til þess fallinn að mæla breytingar á framfærslukostnaði í landinu. Tengsl milli neysluviðmiðs og lægstu launa ættu því að tryggja að lágmarkslaunin fylgi verðlagsþróun.
Vinnumálastofnun er ætlað að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt og fær í þeim tilgangi aðgang að launaútreikningum atvinnurekenda.

Margt hefur verkalýðshreyfingin vel gert en umbóta er þó þörf

Enda þótt verkalýðshreyfingin hafi gert margt vel á undanförnum árum verður ekki fram hjá því litið að lægstu laun sem heimilt er að greiða hér á landi eru allt of lág og í raun alls ekki sæmandi í okkar þjóðfélagi sem telst vel efnum búið á heimsvísu. Frumvarp okkar þremenninganna miðar vissulega að því að hækka lægstu launin og tryggja þau en því er alls ekki stefnt gegn hlutverki verkalýðsfélaga sem munu hér eftir sem hingað til gegna meginhlutverki í baráttunni fyrir bættum haga almennings og vera helsti málsvari launafólks í samskiptum þess við atvinnurekendur.

Frumvarpi um lögbindingu lágmarkslauna er ekki ætlað að fara fram með yfirboð, heldur taka mið af raunsæjum grunni og ráðstöfununum er ætlað að falla að því félagslega stuðningskerfi sem hér er í landi svo sem vaxtabótum, húsaleigubótum, barnabótum og þrepaskiptu skattkerfi.

Viðhorf til hækkunar lægstu launa og launajöfnuðar

Ósjaldan heyrast háværar raddir gegn hækkunum lægstu launa frá atvinnulífinu einnig frá ríkinu og nú síðast frá Seðlabanka Íslands þegar launafólk á almenna vinnumarkaðnum gerði kröfu til sérstakrar hækkunar á lægstu laun. Láglaunafólki virðist öllum öðrum fremur ætlað að bera ábyrgð á verðbólgu/þenslu og annari efnahagslegri óáran of því heyrist einatt hljóð úr horni ef krafist er hærri launa þeim til handa.

Samanburður launa innan launþegahreyfingarinnar hefur verið ákveðinn dragbítur á verulega hækkun lægstu launa. Nauðsynlegt er að horfast í augu við það.

Þrátt fyrir það að hlutfall Íslendinga undir lágtekjumörkum sé verulega lægra en innan ESB þá er enn mikið verk að vinna hjá aðilum vinnumarkaðarins við að ná launum upp miðað við raunframfærslu fólks, þar sem allir þættir eru teknir inn í myndina þó án neinna lúxusviðmiða.

Vinnumarkaðurinn glímir enn við mikinn kynbundinn launamun og benda má á bág kjör t.d. erlends verkafólks, umönnunarstétta og almenns verkafólks í landinu. Verkakonur voru t.d. með lægstu laun fullvinnandi launamanna hér á landi árið 2012. Lögbundin lágmarkslaun gætu stuðlað að breytingum á þessu.

Lágmarkslaun gegn félagslegum undirboðum

Þeim fullyrðingum hefur verið haldið á lofti að lögbinding lágmarkslauna veiktu verkalýðshreyfinguna og að þeirra væri ekki þörf þar sem sterk verkalýðshreyfing starfar. Ég tel þessa staðhæfingu vera barns síns tíma og veruleikinn er sá að í 21 ríki af 28 ríkjum ESB eru lögbundin lágmarkslaun og í Þýskalandi sem er fjölmennasta ríki ESB er stefnt að lögbindingu lágmarkslauna 1. janúar 2015. Vinstri menn settu þá kröfu fram og börðust fyrir henni. Helsta ástæða þess að lögbinding lágmarkslauna þykir nauðsynleg eru svonefnd félagsleg undirboð sem fylgja flutningum vinnandi fólks milli ólíkra hagsvæða. Fólk sem býr við lág laun í heimalandi sínu er líklegt til að sætta sig við rýrari kjör en almennt eru í boði á efnaðri svæðum og verður þetta til þess að lækka lægstu launin. Ýmsar vísbendingar eru um að hér á landi sé einmitt sótt hart að lægri enda launaskalans.

Í Kanada og í Bandaríkjunum eru lögbundin lágmarkslaun og enn fremur í fjölda annara ríkja sem teljast hafa þróað efnahagskerfi og hefur útbreiðslan aukist frá síðustu aldamótum og ein skýringin á því er talin vera vaxandi undirboð á vinnumarkaði í kjölfar aukins flæðis vinnuafls á milli ríkja.

Þróun undanfarinna ára og áratuga sýnir að þörfin fyrir lögbindingu lágmarkslauna er vissulega til staðar í nútímasamfélagi. Lögbindingunni er ekki ætlað að veikja kjarabaráttuna heldur þvert á móti að bregðast við aðkallandi vandamáli og verða hvatning til þess að ná fram betri árangri til handa launafólki.

Samfélagið ber ábyrgð á því fólki sem býr við lökust kjörin og því er það líka á ábyrgð löggjafans ekki síður en aðila vinnumarkaðarins að fólki séu tryggð mannsæmandi kjör.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

,

Viðhorfið skiptir máli

„Sífellt fleiri á framfærslu borgarinnar“ – Þannig hljómar fyrirsögn á frétt sem vísir.is birti fyrir helgi. Samkvæmt fréttinni hefur þeim fjölgað sem hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta og að langtímaatvinnuleysi hafi aukist. Eftir hrun ákvað ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að lengja bótarétt atvinnuleysistrygginga úr þremur árum í fjögur. Sú ákvörðun hefur nú verið tekin til baka, því fjölgar þeim sem hafa fullnýtt bótarétt sinn, þó atvinnuástand hafi almennt batnað.

Vissulega er það rétt að langtímaatvinnuleysi hefur aukist sem skilar sér meðal annars í því að fleiri verða að leita á náðir sveitarfélaganna um framfærslu. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er öryggisnet sem grípur þá sem eiga ekki aðra möguleika til að framfleyta sér. Við erum ekki að tala um fólk sem gerir sér það að leik sínum að vera „á framfærslu“ samborgaranna. Við erum að tala um fólk sem á ekki í önnur hús að venda.

Áhyggjuefni
Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að fleiri þurfi að nýta sér fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, ekki síst vegna þess að það er birtingarmynd langtímaatvinnuleysis sem við þurfum að berjast gegn. Við gerum það með samstilltu átaki ríkis og sveitarfélaga og með verkefnum á borð við „Vinnandi vegur“ og „Liðstyrk“, sem hafa komið fjölda atvinnulausra út á vinnumarkaðinn.

Við þurfum að aðstoða langtímaatvinnulausa til virkni og þátttöku í samfélaginu en gerum það með jákvæðum og uppbyggjandi formerkjum. Tölum um að útrýma fátækt í stað þess að fækka þeim sem eru á „framfærslu“ sveitarfélaganna. Við þurfum fleiri úrræði fyrir atvinnuleitendur og fleiri störf. Umfram allt þurfum við að mæta fólki þar sem það er statt.

Skaðleg orðræða
Það er enginn hægðarleikur að lifa af rétt rúmum 156 þúsund krónum á mánuði. Við leysum ekki vandann með því að tala með niðrandi hætti um þá sem neyðast til að nýta sér fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, eða með því að gera fjárhagsaðstoðina að vandamáli. Sú neikvæða orðræða um „afæturnar“ á samfélaginu er skaðleg. Hún brýtur niður sjálfsmynd þeirra sem nú þegar glíma við erfið vandamál og grefur undan grundvallargildum íslensks samfélags: Að allir skuli fá að lifa með reisn og að engum verði hent út á guð og gaddinn.

Elín Oddný Sigurðardóttir

Pistillinn birtist fyrst á Vísi.is