Hví ekki að nota skattkerfið – frekar en að stofna nýtt?

Í margumræddu náttúrupassafrumvarpi er boðuð afar óheppileg leið til að afla fjár til verndunar og viðhalds ferðamannastaða. Nær væri að nýta til þess núverandi skatta og gjöld frekar en stofna nýtt, flókið og dýrt kerfi.

Rökstuðningur:

1. Hér er boðaður nýr skattur sem flókið verður að innheimta og framfylgja. Undarlegt að ríkisstjórn sem segist vilja einfalda skattkerfið skuli velja þessa leið. Þó kemur ekki á óvart að hún vilji frekar flatan skatt á almenna notendur en að skattleggja tekjur fyrirtækja.

2. Ferðamálastofa yrði að eins konar skattstofu með sérstakri skattrannsóknadeild með eftirlitsmenn (eins konar stöðumælaverði) um land allt til að skrifa út sektarmiða á þá sem ekki hafa þetta sérstaka vegabréf. Þar þarf að bæta við mörgum opinberum störfum ef ekki á að draga úr annarri þjónustu og umsýslu Ferðamálastofu. Með þessu nýja skattkerfi vonast menn til að ná inn 3 milljörðum á ári. Ég leyfi mér að giska á að fjórðungur þess sem inn kemur fari í beinan og óbeinan kostnað við kerfið. Hvers vegna í ósköpunum þarf að setja á nýtt gjaldheimtukerfi til að ná inn rúmlega 2 milljörðum króna á ári nettó? Hví ekki gera það með núverandi skattkerfi?

3. Í frumvarpinu ásamt langri greinargerð er ekki skoðaður sá möguleiki að fjármagna viðhald og vernd náttúru á ferðamannastöðum af almennu skattfé. Nú greiða ferðamenn og ferðaþjónustuaðilar virðisaukaskatt (vsk) af vörum og þjónustu, flugvallarskatt, hafnargjöld, vegagjöld (bensínskatt) og fleiri gjöld til hins opinbera og nýbúið er að hækka vsk af mat og veitingum úr 7 í 11%. Ef bara ein króna af hverjum eldsneytislítra væri eyrnamerkt viðhaldi og verndun ferðamannastaða gæti það eitt skilað 300 milljónum á ári. Svo greiðir vaxandi fjöldi starfsfólks skatt af sínum launum. Nærri 80% erlendra gesta koma til landsins aðallega vegna náttúrunnar – hví má ekki nýta til náttúruverndar brot af sköttunum sem þeir og þjónustuaðilar þeirra greiða? Vilji landsmenn auka tekjur af ferðamönnum er besta leiðin að auka og bæta þjónustu við þá, þ.e. þróa atvinnugreinina. Öll greiðum við glöð fyrir góða þjónustu!

4. Hér er um óvenjulegt fyrirkomulag að ræða og hætta á neikvæðri ímynd. Flestir sem ferðast um Ísland hafa farið víða og sjaldan ef nokkru sinni þurft að sýna passa til að fá að vera úti í náttúrunni. Hætt er við að náttúrupassafyrirkomulagið verði uppspretta leiðinda, auk þess að vera dýrt í rekstri. Fólki í sumarleyfisferð mun leiðast að vera undir smásjá sérstakra gjaldheimtumanna. Svo er hér vegið að ævafornum rétti fólks til að fara frjálst um villta náttúru. Gert er ráð fyrir að Íslendingum nægi að sýna almenn skilríki eða þylja kennitöluna, en munu erlendir ferðamenn muna eftir að bera á sér þennan nýstárlega passa?

5. Í frumvarpinu er talað um uppbyggingu, viðhald og verndun ferðamannastaða. Mér stendur stuggur af orðinu uppbygging þegar um náttúru á ferðamannastöðum er að ræða, sé fyrir mér stórkarlaleg mannvirki sem spilla ásýnd. Mér fellur betur að tala um viðhald og vernd.

Ég fagna hins vegar frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Þar er boðuð bráðnauðsynleg skráning, stefnumörkun og framkvæmdaáætlun og hvergi minnst á náttúrupassa. Hins vegar tekið fram að ferðamannaleiðir og staðir sem njóta greiðsluþátttöku úr ríkissjóði af því að þau eru í landsáætlun skuli vera opin gjaldfrjálsri umferð almennings. Vonandi ber Alþingi gæfu til að stöðva náttúrupassafrumvarpið en klára hitt frumvarpið og mætti skjóta þar inn grein um að nauðsynlegar framkvæmdir á ferðamannastöðum verði fjármagnaðar af skattfé sem ríkið almennt innheimtir af ferðamönnum sem öðrum.

Þorvaldur Örn Árnason er  formaður Sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd og flokksráðsfulltrúi Vinstri grænna.

Sátt við hverja?

Nýjasta útspil sjávarútvegsráðherra, að hann treysti sér ekki til að leggja fram nýtt fiskveiðstjórnunarfrumvarp sökum ósamkomulags á milli stjórnarflokkanna, hefur vakið mikla athygli þjóðarinnar og kristallast þar sá mikli ágreiningur sem ríkir um eignarhald og ráðstöfunarrétt á þessari sameiginlegu sjávarauðlind landsmanna.

Þegar byrjað er að ræða um kvótakerfið svokallaða lokast oftar en ekki eyru þeirra sem ekki hafa beina hagsmuni af sjávarútvegi og mörgum þykir málið flókið og illskiljanlegt. Erfitt reynist að keppa við þá miklu áróðursmaskínu sem samtök í sjávarútvegi setja jafnan í gang þegar þeim þykir sínum hagsmunum ógnað og gleymist seint sú herferð og heimsendaspá sem lýst var yfir af LÍÚ á síðasta kjörtímabili þegar reynt var að bylta kvótakerfinu.

Dóttir mín ráðlagði mér að nálgast umræðuna um sjávarútvegsmál á sem auðskiljanlegastan hátt svo ungt fólk gerði sér betur grein fyrir því út á hvað það gengi að breyta kvótakerfinu. Meginatriðin eru að tryggja atvinnurétt og afnot komandi kynslóða af sjávarauðlindinni með sjálfbærum hætti og að arðurinn skili sér til þjóðarinnar.

Nýting fiskimiðanna

Ágreiningur innan stjórnarflokkanna virðist fyrst og fremst snúast um það hver eigi að fara með eignarhald á nýtingu fiskimiðanna – útgerðirnar eða ríkið fyrir hönd þjóðarinnar. Þau drög að nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi sem kynnt voru fyrir okkur í stjórnarandstöðunni í haust gengu út á það að gerðir yrðu samningar til 23 ára með óbreyttu hlutfalli til byggðaráðstafana, ekkert var þar tekið á meiri möguleikum til nýliðunar með öflugum leigupotti ríkisins né byggðafestu aflaheimilda svo eitthvað sé nefnt. Í rauninni var verið að njörva núverandi kerfi niður óbreytt um aldur og ævi og nýrri ríkisstjórn í raun gert ókleift að gera breytingar á kvótakerfinu þótt hún fengi til þess nægan þingstyrk í næstu kosningum. Þess vegna hef ég sagt það að ég gráti það ekki að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að ná samstöðu um að leggja þetta óláns frumvarp fram og stjórnarandstaðan hefur mér vitanlega ekki fengið nein tækifæri til að hafa áhrif á efni þess.

Stjórnarliðar hafa látið að því liggja að það sé vegna andstöðu stjórnarandstöðunnar sem hætt hafi verið við að leggja frumvarpið fram á þessu vorþingi. Þetta lýsir best vandræðaganginum á stjórnarheimilinu þessa dagana þegar hvert málið á fætur öðru er í uppnámi.

Umræðan um veiðigjöld og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru tvö aðskilin mál að mínu mati.
Það má með sanni segja að það þarf að nálgast það verkefni að ná auðlindarentu út úr sjávarútvegi með jafnræði í huga og með sem gagnsæjustum og skilvirkustum hætti.
Þau veiðigjöld sem urðu að lögum árið 2010 hafa ekki náð tilgangi sínum sem skyldi þar sem ekki hefur tekist að fá þær upplýsingar sem til þurfti til að álagning yrði rétt.

Mismunandi álagning

Ég tel rétt að skoða mismunandi álagningu eftir útgerðarflokkum, einhvers konar þrepaskipta álagningu, þar sem brugðist væri við erfiðleikum minni útgerða við að standa undir þeim veiðigjöldum sem þær búa við í dag. En í mínum huga er það knýjandi réttlætismál að breyta sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu áður en krafan um eignarétt útgerðarinnar verður enn háværari í valdablokkum landsins bæði í fjármálageiranum og hjá stórútgerðinni.

Afleiðingum hagræðingar í sjávarútvegi má skipta í þrjá flokka á landsvísu

1. Þau byggðarlög sem hagnast hafa á samþjöppun í greininni og njóta í núinu mikilla tekna og stöðugrar atvinnu.
2. Þau sjávarpláss þar sem eru minni sjávarútvegs- og fjölskyldufyrirtæki og þar sem ekkert má út af bera svo allt fari ekki á hliðina og atvinnuöryggið fari í uppnám.
3. Hinar svokölluðu „brothættu byggðir“ sem Byggðastofnun hefur verið að vinna með. Þeirra á meðal eru mörg minni sjávarpláss sem eru í gífurlegum vanda eftir að fiskveiðiheimildirnar hafa verið fluttar á brott og lífsbjörgin í raun tekin frá öllum íbúum þessara staða. Þar býr fólk ekki við búsetuöryggi lengur og byggðarlagið hefur verið gjaldfellt á einu bretti.

Ég treysti ekki núverandi ríkisstjórn fyrir ásættanlegum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu en ég geri mér líka fulla grein fyrir því að ef nást eiga fram breytingar á núverandi kerfi verða allir að slá eitthvað af sínum ítrustu kröfum, annars festist núverandi kerfi bara enn frekar í sessi.

Sáttin á ekki bara að ná til hagsmunaaðila í sjávarútvegi heldur líka til fólksins í landinu með tryggara atvinnuöryggi og í eflingu byggða ásamt rétti komandi kynslóða til atvinnufrelsis og að skýrt eignaréttarákvæði á sjávarauðlindinni verði sett í stjórnarskrá.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Traust á skattkerfinu er mikilvægt

Ein helsta undirstaða samfélagsins er að borgararnir geti treyst því að stofnanir þess séu réttlátar og allir standi jafnt gagnvart lögum og reglu. Þessi undirstaða þarf að vera traust, annars er hættan sú að grunnurinn gliðni undan fótum okkar og glundroði skapist. Þetta á við um skattkerfið eins og aðrar stofnanir samfélagsins. Þess vegna er mikilvægt að hið opinbera tryggi að þar séu engar glufur á löggjöf sem geri sumum kleift að komast hjá því að leggja sanngjarnan skerf til samfélagsins á meðan langflestir, bæði almenningur og fyrirtæki, greiða sín skatta og gjöld án undanskota.

Einn liður í því að tryggja þetta væri gerð upplýsingaskiptasamninga milli landa en fjölmargir slíkir hafa verið gerðir á undanförnum árum. Þá er umræðan um kaup á gögnum úr skattaskjólum angi af sama meiði en þar þarf að sjálfsögðu að meta mikilvægi gagnanna fyrir samfélagið. Séu þau metin mikilvæg hlýtur það að vera í þágu almannahagsmuna að fá slík gögn enda gætu þau verið vísbending um að einhverjir aðilar hafi komið sér hjá því að greiða skatt til samfélagsins.

Inn í þessa umræðu mætti draga fleiri þætti, til að mynda þegar alþjóðleg fyrirtæki taka lán hjá móðurfélögum og flytja svo skattskyldan hagnað úr landi í formi vaxtagreiðslna til móðurfélagsins ef það er staðsett í ríki þar sem finna má lægra skatthlutfall en hér. Þannig getur móðurfélagið tekið sér arð í formi þessara vaxtagreiðslna með því að lána dótturfélaginu háar fjárhæðir (í stað til dæmis að auka hlutafé þess). Þetta hefur verið kallað þunn eiginfjármögnun. Undirrituð lagði fram frumvarp ásamt fleiri þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um að tekið yrði á þunnri eiginfjármögnun og var markmið þess að tryggja að þær tekjur sem verða til hér á landi renni til samfélagsins og uppbyggingar þess.

Ljóst er að reglur um þunna eiginfjármögnun munu aðeins taka til fárra fyrirtækja á Íslandi. Þeim er einkum ætlað að taka til stórra alþjóðlegra félagasamstæðna og þó svo að fáar slíkar séu starfandi hér á landi finnast nokkrar slíkar og eru gríðarlega stórar og starfsemi þeirra hér á landi veltir miklum fjármunum og skilar töluverðum hagnaði. Er því um verulegt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska ríkið. Þunn eiginfjármögnun er líka töluvert til umræðu á alþjóðlegum vettvangi og má þar nefna skýrslur frá bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Skemmst er frá því að segja að frumvarpið var tekið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og var það niðurstaða nefndarinnar að meginefnið væri gott og ástæða væri til að breyta lögum í þessa veru. Frumvarpinu var vísað til ríkisstjórnar með þeim tilmælum að málið yrði unnið áfram og lagt fram á nýju á haustþingi 2014. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og nú liggur fyrir að slíkt frumvarp verður ekki tilbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar á þessu þingi. Það hlýtur að vekja athygli hversu hægt þessari vinnu hefur miðað og virðist erfitt að draga aðra ályktun en að hér sé ekki um forgangsmál að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Viðskiptaráð vill reyna aftur

Á tíunda áratug síðustu aldar og upphafsárum nýrrar aldar var Viðskiptaráð og forveri þess, Verslunarráðið, óhemju duglegt. Þetta var í aðdraganda hrunsins. Ætli nokkur stofnun, nema ef vera skyldi Samtök banka og fjármálafyrirtækja, hafi verið eins dugleg í baráttunni fyrir „einfaldara Íslandi“ einsog það hét þegar talað var fyrir afnámi alls þess sem þótti setja markaðsviðskiptum hömlur. Fluttir voru inn trúboðar sem kenndu aðferðafræði einkavæðingar og minnist ég sérstaklega dr. Pieris í því sambandi en hann setti ráðleggingar sínar einmitt fram að hætti trúboða. Verslunarráðið sló upp í málgagni sínu: 10 boðorð dr. Pieris!

Þá var hamast á því að „framleiðni“ væri ekki næg í opinbera geiranum, sem náttúrlega þýddi það eitt að fækka þyrfti þar fólki. Starfsfólki sjúkrahúsa, skóla, lögreglu og umönnunarstofnana kom þetta alltaf nokkuð spánskt fyrir sjónir þótt öllum bæri saman um að stöðugt ætti að reyna að finna nýjar leiðir til að hagnýta fjármagn sem best með nýrri tækni og markvissara vinnufyrirkomulagi.

Og svo var það sala eigna ríkis og sveitarfélaga. Hún skyldi sett í forgang! Þetta var framlag Verslunar-/Viðskiptaráðs í aðdraganda hrunsins.

Varnarorðum ekki sinnt

Ekki verður sagt að talað hafi verið fyrir daufum eyrum. Hafist var handa um lagabreytingar í framangreindum anda, reynt var að skerða réttindi opinberra starfsmanna þannig að kostnaðarminna yrði að reka þá og síðast en ekki síst var farið að selja/gefa ríkiseignir, banka og orkustofnanir því allt átti að verða betra á markaði en hjá hinu opinbera. Meira að segja varð það bannorð að ríki og sveitarfélög ættu húsnæðið undir starfsemi sína heldur bæri að selja það og leigja síðan af nýjum eigendum. Samkvæmt forskriftinni átti þetta að verða miklu betra.

Varnaðarorðum var engu sinnt. Ekki einu sinni að ríkið ætti í okkar agnarsmáa hagkerfi að hafa einn banka á sinni hendi til að tryggja nægilega kjölfestu í fjármálakerfinu.

Fróðlegt er að skoða afleiðingar þessarar stefnu. Nýlega fengum við fréttir af 28,5 milljarða gjaldþroti Geysi GreenEnergy orkufyrirtækisins, bankarnir urðu taumlausri græðgi eigenda og stjórnenda að bráð, Reykjanesbær sem lengst gekk í sölu eigna sinna varð nánast gjaldþrota, einkaframkvæmd reyndist skattborgurum dýrkeypt og engin deilir lengur um að mannfækkun á umönnunarstofnunum, „aukin framleiðni“ þar, hefur reynst dýrkeypt.

En nú stígur Viðskiptaráðið aftur fram eins og ekkert hafi í skorist með glænýrri áskorun en um leið svo gamalkunnri: Ríki og sveitarfélög eiga að selja eignir fyrir 800 milljarða, hefja á sölu Landsvirkjunar og Landsbankans, eina ríkisbankans, auka þarf framleiðni í umönnunargeiranum og hjá lögreglunni. Skyldum við eiga von á dr. Pieri með vorinu?

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi

Kæru félagar!

Ég mun ekki lengja mál mitt í dag enda dagskráin þétt. Mig langar þó að deila með ykkur nokkrum hugsunum um orð og mikilvægi þeirra.

Þegar ég var kjörin varaformaður þessarar hreyfingar árið 2003 sagði ég aðspurð að mig langaði mest til að breyta orðræðunni og vafalaust kímdu einhverjir yfir þessari stelpu sem talaði um orð á meðan karlar í krapinu ætluðu að reisa hér verksmiðjur. Ég er enn á því að það sé fátt mikilvægara en að einmitt þetta. Meðal þeirra áskorana sem við, Vinstri-græn, þurftum að takast á við þá var að teljast vera „fúl á móti“-flokkurinn, nánast á móti öllu sem þá var ofarlega á baugi: nánast þráhyggjukenndri markaðsvæðingu allra hluta og algjöru skeytingarleysi um umhverfismál. Önnur áskorun var að við værum „ekki stjórntæk“ eins og það var kallað því að við féllumst ekki á allar forsendur nútímalegs markaðssamfélags og því myndum líklega setja allt á hausinn um leið og við kæmum nærri stjórn samfélagsins.

Báðir þessir frasar (fúl á móti og ekki stjórntæk) þóttu mér ósanngjarnir. Við höfðum gert ýmislegt til að sporna gegn á móti-stimplinum, meðal annas hannað heila auglýsingaherferð sem hét MEÐ alls konar góðum málum; MEÐ náttúruvernd, friði og velferð. Og það er mín trú að þessi barátta við orðin hafi hægt og bítandi skilað sér með þeim árangri að í kosningum 2007 uppskárum við rúm 14% úr kjörkössunum sem fyrir litlum átta árum þótti mjög mikið fylgi fyrir róttækan vinstriflokk.

Hvað varðar það að vera stjórntæk þá skipti nú kannski mestu að við fengum að spreyta okkur á því vandasama verkefni að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi og reyna á flokkinn undir erfiðum kringumstæðum sem var bæði lærdómsríkt en líka skilaði það miklum árangri. Og það var nú raunar vegna þess að aðrir flokkar höfðu sett allt á hausinn fyrst.

En baráttan hættir aldrei þó að viðfangsefnin breytist. Nú þegar við Vinstri-græn erum orðin stjórntæk erum við líka orðin hluti af kerfinu í hugum margra og margir þeirra sem vilja kjósa gegn kerfinu líta ekki lengur á okkur sem valkost.

Annar frasi sem ég veit að mörgum þykir erfiður er að þrátt fyrir óteljandi mál, frumvörp, tillögur og fyrirspurnir á þingi, þrátt fyrir öflugan málflutning og andstöðu við mál sem við teljum ganga gegn jöfnuði, sjálfbærni, kvenfrelsi, friði og öðrum af okkar grunngildum, þá klifa álitsgjafar á því að stjórnarandstaðan sé ekki nægjanlega öflug eða ekki nægilega sýnileg. Því er til að svara að í fyrsta lagi þá erum við í stjórnmálum til að berjast fyrir okkar hugsjón en ekki aðeins til að vera í andstöðu. Í öðru lagi ákváðum við, þingmenn Vinstri-grænna, að við hefðum engan áhuga á að líkjast þeirri ómálefnalegu stjórnarandstöðu sem fulltrúar núverandi stjórnarflokka héldu uppi á síðasta kjörtímabili og litar raunar enn þeirra málflutning svo mjög að stundum held ég að forsætisráðherra sé enn í stjórnarandstöðu við Steingrím og Jóhönnu og gleymi stundum að hann er kominn í aðra vinnu. Og við lítum á það sem okkar hlutskipti, ásamt hinum flokkunum í minnihlutanum, að breyta umræðunni aftur til batnaðar og tileinka okkur ekki fúkyrðaflauminn. Enda ætlum við okkur ekki hlutskipti stjórnarandstöðu til langframa! Það er gott að vera sýnilegur en okkur þarf samt ekki að langa til að vera sýnileg á svipuðum forsendum og þáverandi stjórnarandstaða var á seinasta kjörtímabili.

Enn eru það átök um orð og hugtök.

Mig langar sérstaklega að nefna nokkur orð sem er mikilvægt að við Vinstri-græn tökum upp á okkar arma og hafa of lengi verið í gíslingu hægri-aflanna. Góðir félagar, við þurfum að fóstra þessi orð og setja þau í okkar verkfærakistu.

Svo ég nefni nokkur þessara orða: frelsi – stöðugleiki – öryggi.

Frelsi einstaklingsins hefur lengi verið frasi í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem líka talaði um stétt með stétt og ætlaði að vinna fyrir háa jafnt sem lága. Flokknum tókst svo vel að eigna sér þetta orð í pólitískri umræðu á Íslandi að margar aðrar stjórnmálahreyfingar veigruðu sér við að tala um frelsi, rétt eins og það væri einkamál Sjálfstæðisflokksins. En það er ekki svo.

Frelsi Sjálfstæðisflokksins hefur þróast út í að vera aðeins frelsi hinna fáu efnamiklu til að maka krókinn, iðulega með sérstakri ríkisaðstoð á kostnað frelsis fjöldans.

Hvað verður þá um frelsið til að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu við hæfi eða frelsi fólks er að búa í samfélagi þar sem dagvinnulaun duga fyrir mannsæmandi lífi? Þegar skorið er niður þannig að þjónusta hins opinbera við almenning rýrnar, aðgangur 25 ára og eldri er takmarkaður að framhaldsskólamenntun, gjöld fyrir læknisþjónustu eru hækkuð, fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun eru skornar niður þannig að framtíðartækifærum á landinu okkar fækkar, þá er verið að skerða frelsi fólks. Frelsi fólks til að lifa góðu lífi..

Og kjörin eru það sem brennur á okkur í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði um þessar mundir. Á vef Hagstofunnar má finna upplýsingar um hlutfall þeirra sem teljast undir lágtekjumörkum. Nýjustu tölur, sem eru frá 2013, sýna að lágtekjumörk fyrir einstakling eru kr. 170.600 og fyrir fjölskyldu tveggja fullorðinna með tvö börn kr. 358.400. Samkvæmt félagsvísum Velferðarvaktarinnar voru 9,3% landsmanna undir lágtekjumörkum árið 2013. Einhleypir einstaklingar eru stærsti hópurinn undir lágtekjumörkum á síðustu 10 árum en árið 2013 voru þeir 32,1% hópsins. Næst stærsti hópurinn sem er undir lágtekjumörkum á sama tímabili eru einstæðir foreldrar, sem eru 27,1% hópsins. Félagsvísar mæla einnig ójöfnuð í samfélaginu samkvæmt hinum svokallaða Gini stuðli. Samkvæmt honum er ójöfnuður minni nú en fyrir efnahagshrunið. Ójöfnuður mældist mestur árið 2008 (skömmu fyrir hrun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í stjórn í 17 ár) og var þá 29,61 en hefur verið í kringum 24–26 frá þeim tíma. Hann mældist 24,0 árið 2013.

Þegar við hugsum um frelsi þá eigum við að hugsa um frelsi launamannsins til að geta átt nóg í matinn og til að leita hamingjunnar og njóta lífsins. Það má minna á að rétturinn til að leita hamingjunnar er nefndur í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna – ég sæi í anda þá sem mestu hafa ráðið um örlög íslensku stjórnarskrárinnar ef þetta rataði þar inn!

En ævinlega þegar lágtekjuhópar krefjast bættra kjara birtist annað orð: Stöðugleiki. Honum er ógnað í hvert sinn sem skúringafólk vill kjarabætur. En um hvað snýst þessi stöðugleiki?
Er það sá stöðugleiki að þeir sem eigi mest haldi áfram að eiga meir og meir? Því þannig er staðan á Íslandi að ríkustu 10% eiga 70% alls auðs. Verra er það víða annars staðar en ekki er þetta samt viðunandi. En kannski snýst skattastefna núverandi stjórnvalda einmitt um að halda þessu ástandi stöðugu því ekki leiða þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í til aukins jafnaðar. Lækkun veiðigjalda, afnám auðlegðarskatts, hækkun matarskatts og nú síðast talar fjármálaráðherra um að hverfa frá hinu þrepaskipta skattkerfi í áföngum. Allar stuðla þessar breytingar að aukinni misskiptingu. Þetta er ekki stöðugleiki sem nýtist hinum kúguðu og undirokuðu. Engin þessara nýlegu breytinga bætir kjör lægst launuðu hópanna. Engin þeirra stuðlar að minni fátækt í samfélaginu. Og engin þeirra eykur öryggi okkar.
Sem er enn eitt orðið sem hægrimenn hafa gert að sínu og láta eins og snúist um að lögreglan eigi nógu margar byssur til að geta brugðist við því ef það verður „attack“ eins og einn þingmaður kallar það. Sú hugmynd að öryggi verði varðveitt best með sem flestum sprengjum setti sannarlega svip sinn á 20. öldina og ekki síður þá 21. Og ekki jók hún nú öryggið í heiminum eins og allir muna sem lifðu Kúbudeiluna og enn má sjá á ástandinu í Mið-Austurlöndum. Hér er á ferð orð sem hefur verið afskræmt og snúið í andstæðu sína. Og er ekki kominn tími til að orðinu verði aftur ljáð skynsamleg merking? Þegar rýnt er í hugmyndina um öryggi þá hlýtur niðurstaðan að verða sú að það snúist miklu frekar um það að við byggjum upp gott samfélag, friðsamt jafnaðarsamfélag, þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi, með aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, og öðrum mikilvægum þáttum fyrir lífshamingju okkar, eða þak yfir höfuðið sem er það sem unga kynslóðin núna sér ekki fram á – öryggi hefur ekkert með skotvopn eða forvirkar rannsóknarheimildir að gera, og við höfnum slíkri hugmyndafræði.

Kæru félagar,
ég get að lokum ekki látið hjá líða að nefna hér rammaáætlun. Þar koma fleiri orð við sögu en kannski er rétt að nefna bara tvö: Hjól atvinnulífsins. Því er gjarnan haldið fram af sjálfskipuðum vinum atvinnulífsins að nú þurfi að virkja og virkja og virkja til að knýja hjól atvinnulífsins. Ekki veit ég hvernig nákvæmlega þessir virkjanavinir geta skýrt þá staðreynd að atvinnuleysi minnkaði jafnt og þétt í tíð síðustu ríkisstjórnar án þess að sú sæi ástæðu til að ganga fram hjá lögbundnu og faglegu ferli rammaáætlunar eða velja eftir eigin geðþótta virkjanakosti sem eftir er að fjalla um og skella þeim í nýtingarflokk án þess að hafa fyrir þvi nein rök önnur en hin margfrægu hjól atvinnulífsins. Þetta eru réttnefndar stórkalla-lausnir sem einkenndu atvinnustefnuna fyrir hrun og skildu samfélagið eftir í sárum, í raun og veru eins langt frá einstaklingsframtaki (svo að ég nefni enn eitt orðið sem engin ástæða er að leyfa öðrum að eigna sér) og hugsast getur á sama tíma og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki fá ekki áheyrn stjórnvalda og flýja land.
Umhverfismálin verða ekki rædd án þess að við ræðum atvinnumálin; við stóðum fyrir fjárfestingu í rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, fjárfestingu sem snýst um að leyfa einstaklingsframtakinu að njóta sín, og þær greinar sköpuðu um leið verðmæti. Fjölbreytni í atvinnulífi þar sem ekki er gengið um of á auðlindir landsins er okkar markmið, ekki þráhyggjukennd trú á stóriðju og virkjanir sem þolir engar mótbárur og enga skoðun þannig að til að þjóna þessari köllun þurfa menn að ganga framhjá öllum faglegum ferlum. Eru þetta ekki hinar einu raunverulegu öfgar í íslenskum stjórnmálum? Og ekki aðeins er slíka trúboða að finna í hópi stjórnmálamanna sem vilja komast sveigja og beygja lög um rammaáætlun því eins og kunnugt er hefur Orkustofnun nú skotið upp kolli með hina sakleysislegu Kjalölduveitu – sem reynist svo vera Norðlingaölduveita með nýju nafni! Mikið hefur þeim fundist þeir vera snjallir þegar þeir fundu upp á þessum glænýja merkimiða.

En kæru félagar…
Orð geta verið kúgunartæki eða öflugt vopn í baráttu fyrir friði, frelsi og jöfnuði. Við þurfum að hafa sjálfstraust andspænis orðunum sem spunameistarar vilja gjarnan nota til að berja á andstæðingum sínum. Frelsi, öryggi og stöðugleiki eiga að vera á okkar stefnuskrá en á okkar forsendum, frelsi almennings, öryggi almennings og stöðugleiki í þágu almennings en ekki aðeins hinna auðugu eða forréttindahópanna.

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu – fyrir hvern?

Einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur verið sérstakt áhugamál hægrimanna um langt skeið, að minnsta kosti frá tímum Margrétar Thatcher og annarra forgöngumanna nýfrjálshyggjunnar. Það kom því ekki sérstaklega á óvart að sjá að í yfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og Læknafélags Íslands vegna nýfenginna kjarasamninga hafði verið laumað inn setningu um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem nú þegar er einkarekið að nokkru leyti. Einkavæðingin kallast reyndar „fjölbreytt rekstrarform“ í þessari yfirlýsingu en það er sama hugtak og iðulega er notað þegar kynna á einkavæðinguna til leiks undir rós. En til hvers og fyrir hvern er verið að leggja til aukna einkavæðingu í heilbriðgiskerfinu? Hver ætli hagnist á því?

Dýrara fyrir skattgreiðendur
Undanfarnir áratugir hafa veitt okkur mikla reynslu af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem ýmislegt fróðlegt hefur komið í ljós. Við vitum til dæmis að Bandaríkin eru með langdýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, en þar er kerfið í heild sinni einkavætt eins og kunnugt er. Kostaðurinn skýrist að miklu leyti af því að óhemju miklum fjármunum er varið í yfirbyggingu á sjúkrahúsum og sjúkratryggingarfélögum, auk þess sem tvíverknaður er mikill og hagkvæmni lítil. Svipaða sögu er að segja af einkavæðingu sem ráðist hefur verið í í öðrum löndum: einkavædd heilbrigðisþjónusta er almennt séð dýrari, þótt einstaka sjúkrahús sem sinni fyrst og fremst heilbrigðustu sjúklingunum geti að sjálfsögðu verið ódýrari en sum opinber sjúkrahús. Það er því ljóst að enginn ávinningur er af einkavæðingu fyrir íslenska skattgreiðendur – þvert á móti bendir flest til þess að einkavætt heilbrigðiskerfi sé dýrara en opinbert.

Verri þjónusta fyrir sjúklinga
Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu þjónar heldur ekki markmiðum um bætta þjónustu fyrir sjúklinga – notendur þjónustunnar. Í þeim löndum þar sem opinber heilbrigðisþjónusta hefur verið einkavædd er gengur aðferðafræðin iðulega út á að einkavæða „hagkvæmustu“ einingarnar og skilja hið opinbera eftir með erfiðustu og viðkvæmustu þjónustuna. Í einkavæddu þjónustunni er svo allt gert til þess að draga úr kostnaði og fara framhjá þeim reglum og viðmiðum sem hið opinbera setur um hvaða þjónustu beri að veita og með hvaða hætti. Á það hefur margoft verið bent að engin leið er til að skilgreina nákvæmlega í samningum hins opinbera við einkafyrirtæki hvernig þjónustu veri að veita og því koma reglulega upp hneykslismál þar sem hinar einkavæddu stofnanir hafa með einum eða öðrum hætti komist upp með að veita miklu verri þjónustu en sú sem veitt var af hinu opinbera áður.

Meiri ójöfnuður hjá starfsfólki
Því er stundum haldið fram að laun séu hærri í einkavæddum heilbrigðiskerfum en opinberum. Í þessari fullyrðingu er ákveðið sannleikskorn að því leyti að laun stjórnenda og allskonar millistjórnenda – sem iðulega fjölgar við einkavæðingu – eru miklum mun hærri í einkavæddum heilbrigðisstofnunum en opinberum. Hinir fjölmörgu stjórnendur í einkavæddum heilbrigðiskerfum keyra iðulega um á rándýrum sportbílum og lúxusjeppum, sem fjármagnaðir eru með skattfé eða gjöldum á sjúklinga. Almennt starfsfólk – hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ræstitæknar, og svo framvegis – þurfa hins vegar jafnan að sætta sig við talsvert lægri laun og – sem oft gleymist – skerðingar á réttindum og starfsöryggi.

… en eigendur græða
Af ofansögðu er ljóst að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er hvorki til hagsbóta fyrir skattgreiðendur, sjúklinga né almennt starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Hverjir eru það þá sem eru að þrýsta á um aukna einkavæðingu? Einn er sá hópur sem augljóslega telur sig geta hagnast á einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, en það eru væntanlegir eigendur. Eðli málsins samkvæmt gera eigendur sér vonir um að geta tekið hagnað út úr þeim heilbrigðisstofnunum sem þeir myndu eignast við einkavæðingu, og raunar eru víða til svimandi tölur um hagnað einkavæddra heilbrigðisstofnana og ótrúlegar arðgreiðslur til eigenda. Mörg dæmi hafa litið dagsins ljós, t.d. frá Svíþjóð, þar sem opinbert fé sem varið hefur verið til einkavæddra heilbrigðisstofnana hefur að stórum hluta farið í arðgreiðslur til eigenda. Stóru spurningarnar sem við Íslendingar þurfum að svara eru því þessar: Er rétt að heilbrigðiskerfið sé leið til að græða — sé leið til að hagnast? Er verjandi að gera sjúkdóma og veikindi að féþúfu?

Nýja leið í stað náttúrupassa

Það stefnir í mikil átök um hinn alræmda náttúrupassa og umræðan hefur verið afvegaleidd frá upphafi. Stjórnarmeirihlutinn hefur kosið að flytja þann boðskap af furðulegri nauðhyggju að passinn sé eina leiðin til að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu á náttúruverndarsvæðum og vinsælum ferðamannastöðum.

Það er dapurlegt að málið hafi farið í þennan átakafarveg, enda eru flestir á einu máli um mikilvægi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur skipt sköpum fyrir þjóðarbúið á undanförnum árum, meðal annars vegna þess að gjaldeyristekjur hafa aukist jafnt og þétt með sívaxandi fjölgun ferðamanna. Því miður hefur uppbygging innviða ekki náð að fylgja eftir þessari fjögun og þörfin því brýn til að finna leið til að fjármagna aukna uppbyggingu.

Vandi er sannarlega á ferð en á hinn bóginn er náttúrupassinn ekki eina lausnin og raunar ótvírætt versta lausnin. Fara mætti blandaða leið þar sem bæði ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki legðu sitt af mörkum, til dæmis með því að þróa áfram gistináttagjaldið sem er innheimt hvarvetna í Evrópu en hefur verið mjög lágt hér á landi. Þá mætti rukka fyrir ýmsa sértæka þjónustu, til að mynda bílastæði, enda ekki óeðlilegt að ferðamenn greiði fyrir slíkt. Einnig mætti athuga að leggja á einhvers konar komugjald á farseðla, til að mynda yfir hásumartímann. Þessar fjölbreyttu leiðir gætu skilað jafn miklum fjármunum og náttúrupassinn án þess að fótum troða grundvallarrétt almennings til frjálsrar farar um landið.

Hér er nefnilega rætt um grundvallaratriði. Vel væri hægt að ná sátt um leiðir til fjáröflunar án þess að takmarka ferðafrelsi með þeim hætti sem náttúrupassinn gerir. Almannarétturinn, rétturinn til frjálsrar farar um landið, hefur verið hluti af íslenskri löggjöf allt frá Jónsbók. Þær reglur eru ekki séríslenskar. Þær hafa endurspeglast í rétti vestrænna ríkja allt frá því að almannaréttur var skilgreindur í Rómaveldi hinu forna. Með nefskatti á borð við náttúrupassann, þó að upphæðin sé í fyrstu ekki há, er verið að skerða ferðafrelsi.

Ráðherra ferðamála segir að þeir eigi að borga sem njóta. Ég er því ósammála. Þó að auðlindagjöld séu mikilvæg og eðlileg vekur það upp ýmsar siðferðilegar spurningar að rukka eigi fyrir aðgang að náttúrunni sjálfri. Er réttmætt að færa lögmál markaðarins með þessum hætti upp á náttúrugæði sem ekki fela í sér neinn efnislegan ágóða fyrir ferðamanninn? Því þeir sem ferðast hagnast ekki efnislega á því. Þeir njóta þessara sameiginlegu gæða okkar allra, ekki aðeins Íslendinga heldur okkar allra, án þess að þau séu þeim gróðalind. Þessi grundvallaratriði eru algjörlega vanreifuð í frumvarpinu og því sætir engri furðu að margir séu gáttaðir á þessari hugsun.

Svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn sé ekki einhuga um málið, auk þess sem mikil andstaða er við málið hjá stjórnarandstöðunni og öllum almenningi. Ráðherra væri nær að skipta nú hressilega um stefnu og ná samkomulagi um blandaða leið með þingmönnum allra flokka og gefa náttúrupassanum reisupassann.

Katrín Jakobsdóttir

Í átt til ójöfnuðar

Eflaust eru margir hugsi yfir nýlegum fréttum um að ríkasta eina prósentið á jörðinni eigi nú næstum helming alls auðs mannkyns og í nýrri skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam er því spáð að á næsta ári verði eignir þessa eina prósents meiri en samanlagðar eigur allra hinna. Samkvæmt gögnum frá Skattstjóra sem Ríkisútvarpið hefur tekið saman á ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda hátt í fjórðung alls auðs landsmanna. Ríkustu tíu prósentin eiga næstum þrjá fjórðu. Líklega eru eignirnar þó vanmetnar fremur en hitt því að stór hluti þeirra liggur í verðbréfum sem geta verið talsvert meira virði en nafnvirði þeirra segir til um.

Það er jákvætt að um þessi málefni er meira fjallað nú eftir efnahagskreppu en fyrir hana þegar brauðmolahagfræðin var ráðandi í allri umræðu sem boðaði að það væri sérstaklega gott að hinir ríku yrðu ríkari því þá myndu brauðmolar hrjóta af gnægtaborðum þeirra til hinna fátækari þannig að ójöfnuðurinn gagnaðist öllum. Nú keppast alþjóðastofnanir hins vegar við að lýsa brauðmolahagfræðina dauða, þeirra á meðal íhaldssamar stofnanir á borð við OECD. Stofnanir innan Sameinuðu þjóðanna hafa ennfremur bent á að ójöfnuður, hið sívaxandi bil milli ríkra og fátækra, sé ein helsta orsök átaka í heiminum.

Af einhverjum ástæðum virðast fregnir af dauða brauðmolahagfræðinnar ekki hafa skilað sér inn í stjórnarráð Íslands. Þar boða menn sömu hagfræði og hér var iðkuð fyrir hrun. Fjármálaráðherra vill hverfa frá þrepaskipta skattkerfinu sem er raunverulegt tekjujöfnunartæki og lækka skatta. Þetta á að gera í nafni einföldunar en hefur þau óhjákvæmilegu áhrif að lækka skatta þeirra sem hafa háar tekjur og færa skattbyrðina yfir á lág- og millitekjuhópa. Slík aðgerð myndi beinlínis auka ójöfnuð.

Önnur áhrif væru þau að rýra skattstofna samfélagsins sem svo sannarlega þarf á þeim að halda. Skattalækkanir sem þýða að ekki er hægt að byggja upp velferðarkerfið eru ekki kjarabót fyrir almenning heldur kjaraskerðing því þær standa í vegi fyrir því að allir geti sótt sér menntun og heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Í því felst engin kjarabót fyrir venjulegt fólk.

Framundan eru kjarasamningar. Ein mikilvægasta kjarabót almennings í landinu er að tryggja aðgengi allra að velferðarkerfi og menntun. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki sýnt í verki að hún vilji slíkar kjarabætur þar sem hún hefur hækkað hvers kyns sjúklingaskatta, takmarkað aðgang að framhaldsskólamenntun og dregið úr þjónustu við almenning. Á sama tíma boða talsmenn ríkisstjórnarinnar afturhvarf til flatra skatta sem munu koma mest við kaun lág- og millitekjuhópa.

Á meðan alþjóðasamfélagið lýsir þungum áhyggjum af vaxandi ójöfnuði á heimsvísu ætti verkefni hérlendra stjórnvalda að vera að tryggja að hagvöxtur nýtist öllum og auka jöfnuð með markvissri uppbyggingu samfélagsins og réttlátri dreifingu skattbyrði. Markmið komandi kjarasamninga ætti líka að vera að dreifa þeim verðmætum sem sannanlega eru til í hagkerfinu með réttlátum hætti. Því miður virðast íslensk stjórnvöld ekki standa undir þessu verkefni.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna

Þróum lýðræðið, aukum áhrif almennings

Á undanförnum árum og áratugum hafa miklar hræringar átt sér stað – í stjórnmálum, meðal almennings, og innan fræðasamfélagsins – hvað varðar leiðir til að auka lýðræðislega þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum. Þessar hræringar birtust ekki síst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 þegar mikil vakning varð meðal almennings um nauðsyn þess fyrir lýðræðið að almenningur tæki virkari þátt í allri ákvarðanatöku.

Lýðræði grundvallast á þeirri hugmynd að almenningur, „lýðurinn“, ráði. Stjórnkerfi lýðræðisríkis verður fyrst og síðast að taka mið af þörfum og afstöðu almennings og þátttökulýðræði miðar að því að auka þessi áhrif almennings. Þátttaka almennings getur verið af ýmsum toga, s.s. að forgangsraða, skilgreina markmið, leggja fram tillögur eða hlutast til um niðurstöðu.

Þátttökulýðræði er mismikið eftir samfélögum og er sjaldan í andstöðu við hefðbundið fulltrúalýðræði á borð við það þingræði sem við lýði er á Íslandi, þvert á það sem margir halda. Réttara er að líta á það sem viðbót eða framlengingu á fulltrúalýðræðinu. Í hefðbundnu fulltrúalýðræði er þátttaka vissulega takmörkuð að jafnaði við kosningar á fjögurra ára fresti, en í þátttökulýðræði bætist við að almenningur getur haft áhrif með ýmsu móti á opinberar ákvarðanir oftar og með virkari hætti.

Svokölluð þátttökuferli gefa fólki færi á að móta eigin afstöðu og koma henni á framfæri og í framkvæmd. Þau veita kjörnum fulltrúum aðhald og mikilvægar upplýsingar um viðhorf og áhuga kjósenda en rökin fyrir beitingu þátttökuferla eru meðal annars að þær upplýsingar sem fást í gegnum kjörklefann á fjögurra ára fresti gefa oft heldur óskýra mynd af valröðun kjósenda í einstökum málum.

Þá snýst þátttökulýðræði ekki einungis um atkvæðagreiðslur heldur einnig um að gera tilraunir með breytt vinnulag á ýmsum sviðum til að auka aðkomu almennings að stefnumótun. Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu.

Einna frægust þessara tilrauna er þátttökuákvarðanaferlið sem komið var á fót í árlegri fjárhagsáætlanagerð brasilísku borgarinnar Porto Alegre árið 1989. 8% borgarbúa taka þátt í ferlinu árlega og hefur reynslan verið afar jákvæð þótt tekið hafi nokkur ár að þróa ferlið. Meðal þeirra breytinga sem áttu sér stað í kjölfar þessara lýðræðisumbóta er að spilling hvarf, enda um opið og gagnsætt ferli að ræða, fjármunir fluttust til fátækari svæða og grasrótarstarf efldist til muna. Tekið skal fram að í borginni býr um ein og hálf milljón, þ.e.a.s. fjórum til fimm sinnum fleiri en á Íslandi öllu, og hefur ferlið gengið vel þrátt fyrir þann mikla fjölda fólks sem kemur að ákvarðanatökunni.

Annað áhugavert dæmi um þátttökulýðræði í verki átti sér stað árin 2004-2005 í Bresku Kólumbíu í Kanada í kjölfar umræðna um breytingar á kosningakerfi fylkisins. Ákveðið var að skipa slembivalsþing þar sem 158 fulltrúar voru valdir af handahófi úr þjóðskrá, en þó þannig að kynjahlutföll voru jöfn, aldursdreifing endurspeglaði aldursdreifingu þjóðarinnar, og jafnmargir fulltrúar komu úr hverju kjördæmi fylkisins. Einnig voru skipaðir á þingið fulltrúar frumbyggja, sem eru minnihlutahópur í Kanada, auk forseta þingsins sem skipaður var sérstaklega. Eftir að hafa fengið ýtarlega fræðslu og tekið þátt í miklum umræðum sín á milli komst yfirgnæfandi meirihluti fulltrúanna að sameiginlegri niðurstöðu um tillögu að breytingum á kosningakerfinu. Tillagan var svo sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaut 57,69% atkvæða en náði þó ekki fram að ganga vegna þess að gerð hafði verið krafa um aukinn meirihluta, eða 60% atkvæða, til að samþykkja breytingar á kosningakerfinu.

Það er knýjandi nauðsyn að reynsla síðustu ára verði nýtt með skipulegum hætti og þátttaka almennings í opinberri stefnumótun verði aukin. Því hef ég ákveðið að leggja til ásamt fleiri þingmönnum frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Markmiðið með vinnu nefndarinnar verði að auka þátttöku og aðkomu almennings í opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði. Það er von mín að þessi tillaga megi hljóta brautargengi á Alþingi Íslendinga og Íslendingar verði í fararbroddi hvað varðar þróun þátttökulýðræðis og aukin áhrif almennings til framtíðar.