,

Vald yfir velferð

Árið 2007 kom fram í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að stefna bæri að „fjölbreyttari rekstrarformum“ í heilbrigðisþjónustu. Þessi stefna gengur nú aftur, ekki síst í áherslum Bjartrar framtíðar fyrir síðustu þingkosningar. Þessar hugmyndir varða okkur Akureyringa miklu þar sem bæði Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæslan eru máttarstoðir velferðar hér og víðar um Norðurland. Hið fyrra er rekið af ríki og síðara af sveitarfélaginu með framlagi frá ríki. Akureyrarbær hefur þurft að borga með heilsugæslunni, þar sem ónóg framlög hafa fylgt frá ríkinu og þrengt hefur verið að rekstri Sjúkrahússins frá því löngu fyrir hrun. Með auraleysi hins opinbera hefur nú verið skapað „svigrúm“ fyrir „fjölbreyttari rekstrarform“ eins og sumir pólitíkusar kjósa nú að kalla einkavæðingaráform sín. Þá er rétt að skoða hvað felst í þessum fjölbreytileika.

Um er að ræða samninga við einkaaðila um framkvæmd þjónustu undir eftirliti hins opinbera. Vissulega er hægt að setja skýran ramma utan um slíka samninga en þegar öllu er á botninn hvolft er um einkaaðila að ræða, sem óhjákvæmilega munu gera kröfu um að reksturinn skili hagnaði. Það vita allir að helsti hvati fyrirtækjareksturs er vonin um hagnað og það er ákaflega erfitt að hugsa sér að einhver vilji taka að sér rekstur fyrir hið opinbera og í ofanálag undir ströngu eftirliti, án þess að vilja nokkuð fyrir sinn snúð. Þannig að ljóst er að allur einkarekstur mun annað hvort verða okkur dýrari eða við fáum minni þjónustu.

Það er þó aðeins einn angi. Í samningum um rekstur velferðaþjónustu mun eðli þjónustunnar og skyldur rekstraraðila verða skilgreind nákvæmlega. Það er hagur rekstraraðilans að geta skilgreint þjónustuna sem nákvæmast, bæði uppá verðlagningu og til að komast hjá ófyrirséðum kostnaði vegna þjónustu sem þá er hægt að semja sérstaklega um við ríkið. Með þessum hætti dregur verulega úr sveigjaleika þjónustunnar, auk þess sem líklegast er að samið verði um þá hluta hennar sem auðveldast er að skilgreina og óvissir þættir verði eftirlátnir hinu opinbera, þ.e. okkur skattgreiðendum .

Þá er komið að þriðja hluta afleiðinga þess að opna á einkarekstur í velferðarþjónustu. Það er að við semjum frá okkur vald yfir áherslum og forgangsröðun velferðarþjónustunnar. Það leggjum við í hendur lögfræðinga og dómstóla sem munu kíta um efnisatriði og efndir samninga, frekar en að ræða stefnu og sjónarmið sem liggja eiga til grundvallar velferð okkar.
Látum ekki glepjast af fagurgala um fjölbreytni. Þegar við framseljum vald yfir velferð gerist það með samningum sem binda hendur okkar um langa tíð og fellir umræðu um velferð í skotgrafir lagaklækja og málaferla um efndir og inntak samninga. Í þeirri umræðu verða íbúar og kjörnir fulltrúar þeirra ekki þátttakendur og aðeins þeir sem hafa mesta möguleika á lögfræðiþjónustu, fá bestu þjónustuna.

Edward H. Huijbens
Höfundur skipar 2. sæti á lista VG Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Greinin birtist fyrst á netmiðlinum Akureyri, www.akv.is

,

Fjölskylduborgin Reykjavík

Þó kannanir sýni að stór hluti ungs fólks vilji búa í Reykjavík og miðsvæðis er staðreyndin því miður sú að margt ungt fólk sem er að stofna fjölskyldu kýs að búa í nágrannasveitarfélögunum. Ástæðan er einföld: Húsnæðiskostnaður er of hár í Reykjavík, sérstaklega vegna þess hversu dýrt er að stofna og reka fjölskyldu.

Þessu verður að breyta. Reykjavík þarf að verða alvöru fjölskylduborg þar sem fólk getur ráðið hvort það býr í eigin húsnæði eða öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Við þurfum aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum sem henta ungum fjölskyldum og háskólanemum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð gerir sér grein fyrir þessu. Að okkar mati er algert forgangsatriði að íbúðir í þessum stærðarflokkum verði byggðar. En við þurfum að tryggja að verktakar og leigufélög peningamanna og braskara misnoti ekki húsnæðisskortinn til að græða á vanda ungra fjölskyldna, við þurfum að efla húsnæðissamvinnufélög og auðvelda Félagsstofnun stúdenta að leysa húsnæðisvanda háskólanema.

Þurfa fleira en húsnæði
Ef við viljum bæta kjör ungra fjölskyldna þurfum við hins vegar að horfa til fleiri þátta en húsnæðiskostnaðar. Kostnaður foreldra vegna leikskólagjalda, frístundastarfs, skólamáltíða og annarrar grunnþjónustu við börn er t.d. gríðarlega mikill. Gjaldheimta borgarinnar vegna eðlilegrar grunnþjónustu við börn er þungur útgjaldaliður hjá mörgum ungum fjölskyldum. Of þungur, því allt of margar efnalitlar fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að borga fyrir skólamáltíðir og frístundastarf, og fyrir alla hina eru þessi gjöld mjög stór útgjaldaliður.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum því lagt mikla áherslu á að öll grunnþjónusta við börn verði í boði fyrir alla, óháð fjárhag eða stöðu.

Gjaldfrjálsa grunnþjónustu
Að bjóða upp á gjaldfrjálsa leikskóla, skólamat og tómstundastarf er ótrúlega mikilvægt fyrir samfélagið. Hærri tómstundastyrkur dugar ekki til. Við þurfum alvöru aðgerðir til að tryggja jöfnuð.

Slíkar aðgerðir bæta ótvírætt kjör allra fjölskyldna. Þær auka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna og losa efnaminnstu fjölskyldurnar við álagið sem fylgir því að eiga ekki fyrir reikningum vegna skólamatar eða frístundaheimilis.

Kæru Reykvíkingar, fáum ungar fjölskyldur til þess að flytja til Reykjavíkur. Gætum þess að aðstæður séu þannig að allir fái jöfn tækifæri til að blómstra. Setjum því X við V í vor.

Benóný Harðarson skipar 11. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík
Greinin birtist fyrst á Vísi.is

Frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna

Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarps um lögbindingu lágmarkslauna sem lagt var fram á Alþingi á dögunum. Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður VG og Birgitta Jónsdóttir alþingismaður Pírata eru meðflutningsmenn þingmálsins.
Verði frumvarpið að lögum mun upphæð lægstu launa verða bundin í lögum og fylgir þróun neyslu- og framfærslukostnaðar í landinu með tengingu við neysluviðmið velferðarráðuneytisins, en þau byggjast á mælingum á neyslu Íslendinga og ráðstöfun fjár til helstu útgjaldaflokka einstaklinga og heimila. Sá eiginleiki neysluviðmiðs, að sýna raunveruleg útgjöld vegna framfærslu, er vel til þess fallinn að mæla breytingar á framfærslukostnaði í landinu. Tengsl milli neysluviðmiðs og lægstu launa ættu því að tryggja að lágmarkslaunin fylgi verðlagsþróun.
Vinnumálastofnun er ætlað að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt og fær í þeim tilgangi aðgang að launaútreikningum atvinnurekenda.

Margt hefur verkalýðshreyfingin vel gert en umbóta er þó þörf

Enda þótt verkalýðshreyfingin hafi gert margt vel á undanförnum árum verður ekki fram hjá því litið að lægstu laun sem heimilt er að greiða hér á landi eru allt of lág og í raun alls ekki sæmandi í okkar þjóðfélagi sem telst vel efnum búið á heimsvísu. Frumvarp okkar þremenninganna miðar vissulega að því að hækka lægstu launin og tryggja þau en því er alls ekki stefnt gegn hlutverki verkalýðsfélaga sem munu hér eftir sem hingað til gegna meginhlutverki í baráttunni fyrir bættum haga almennings og vera helsti málsvari launafólks í samskiptum þess við atvinnurekendur.

Frumvarpi um lögbindingu lágmarkslauna er ekki ætlað að fara fram með yfirboð, heldur taka mið af raunsæjum grunni og ráðstöfununum er ætlað að falla að því félagslega stuðningskerfi sem hér er í landi svo sem vaxtabótum, húsaleigubótum, barnabótum og þrepaskiptu skattkerfi.

Viðhorf til hækkunar lægstu launa og launajöfnuðar

Ósjaldan heyrast háværar raddir gegn hækkunum lægstu launa frá atvinnulífinu einnig frá ríkinu og nú síðast frá Seðlabanka Íslands þegar launafólk á almenna vinnumarkaðnum gerði kröfu til sérstakrar hækkunar á lægstu laun. Láglaunafólki virðist öllum öðrum fremur ætlað að bera ábyrgð á verðbólgu/þenslu og annari efnahagslegri óáran of því heyrist einatt hljóð úr horni ef krafist er hærri launa þeim til handa.

Samanburður launa innan launþegahreyfingarinnar hefur verið ákveðinn dragbítur á verulega hækkun lægstu launa. Nauðsynlegt er að horfast í augu við það.

Þrátt fyrir það að hlutfall Íslendinga undir lágtekjumörkum sé verulega lægra en innan ESB þá er enn mikið verk að vinna hjá aðilum vinnumarkaðarins við að ná launum upp miðað við raunframfærslu fólks, þar sem allir þættir eru teknir inn í myndina þó án neinna lúxusviðmiða.

Vinnumarkaðurinn glímir enn við mikinn kynbundinn launamun og benda má á bág kjör t.d. erlends verkafólks, umönnunarstétta og almenns verkafólks í landinu. Verkakonur voru t.d. með lægstu laun fullvinnandi launamanna hér á landi árið 2012. Lögbundin lágmarkslaun gætu stuðlað að breytingum á þessu.

Lágmarkslaun gegn félagslegum undirboðum

Þeim fullyrðingum hefur verið haldið á lofti að lögbinding lágmarkslauna veiktu verkalýðshreyfinguna og að þeirra væri ekki þörf þar sem sterk verkalýðshreyfing starfar. Ég tel þessa staðhæfingu vera barns síns tíma og veruleikinn er sá að í 21 ríki af 28 ríkjum ESB eru lögbundin lágmarkslaun og í Þýskalandi sem er fjölmennasta ríki ESB er stefnt að lögbindingu lágmarkslauna 1. janúar 2015. Vinstri menn settu þá kröfu fram og börðust fyrir henni. Helsta ástæða þess að lögbinding lágmarkslauna þykir nauðsynleg eru svonefnd félagsleg undirboð sem fylgja flutningum vinnandi fólks milli ólíkra hagsvæða. Fólk sem býr við lág laun í heimalandi sínu er líklegt til að sætta sig við rýrari kjör en almennt eru í boði á efnaðri svæðum og verður þetta til þess að lækka lægstu launin. Ýmsar vísbendingar eru um að hér á landi sé einmitt sótt hart að lægri enda launaskalans.

Í Kanada og í Bandaríkjunum eru lögbundin lágmarkslaun og enn fremur í fjölda annara ríkja sem teljast hafa þróað efnahagskerfi og hefur útbreiðslan aukist frá síðustu aldamótum og ein skýringin á því er talin vera vaxandi undirboð á vinnumarkaði í kjölfar aukins flæðis vinnuafls á milli ríkja.

Þróun undanfarinna ára og áratuga sýnir að þörfin fyrir lögbindingu lágmarkslauna er vissulega til staðar í nútímasamfélagi. Lögbindingunni er ekki ætlað að veikja kjarabaráttuna heldur þvert á móti að bregðast við aðkallandi vandamáli og verða hvatning til þess að ná fram betri árangri til handa launafólki.

Samfélagið ber ábyrgð á því fólki sem býr við lökust kjörin og því er það líka á ábyrgð löggjafans ekki síður en aðila vinnumarkaðarins að fólki séu tryggð mannsæmandi kjör.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

,

Viðhorfið skiptir máli

„Sífellt fleiri á framfærslu borgarinnar“ – Þannig hljómar fyrirsögn á frétt sem vísir.is birti fyrir helgi. Samkvæmt fréttinni hefur þeim fjölgað sem hafa fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta og að langtímaatvinnuleysi hafi aukist. Eftir hrun ákvað ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að lengja bótarétt atvinnuleysistrygginga úr þremur árum í fjögur. Sú ákvörðun hefur nú verið tekin til baka, því fjölgar þeim sem hafa fullnýtt bótarétt sinn, þó atvinnuástand hafi almennt batnað.

Vissulega er það rétt að langtímaatvinnuleysi hefur aukist sem skilar sér meðal annars í því að fleiri verða að leita á náðir sveitarfélaganna um framfærslu. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er öryggisnet sem grípur þá sem eiga ekki aðra möguleika til að framfleyta sér. Við erum ekki að tala um fólk sem gerir sér það að leik sínum að vera „á framfærslu“ samborgaranna. Við erum að tala um fólk sem á ekki í önnur hús að venda.

Áhyggjuefni
Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að fleiri þurfi að nýta sér fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, ekki síst vegna þess að það er birtingarmynd langtímaatvinnuleysis sem við þurfum að berjast gegn. Við gerum það með samstilltu átaki ríkis og sveitarfélaga og með verkefnum á borð við „Vinnandi vegur“ og „Liðstyrk“, sem hafa komið fjölda atvinnulausra út á vinnumarkaðinn.

Við þurfum að aðstoða langtímaatvinnulausa til virkni og þátttöku í samfélaginu en gerum það með jákvæðum og uppbyggjandi formerkjum. Tölum um að útrýma fátækt í stað þess að fækka þeim sem eru á „framfærslu“ sveitarfélaganna. Við þurfum fleiri úrræði fyrir atvinnuleitendur og fleiri störf. Umfram allt þurfum við að mæta fólki þar sem það er statt.

Skaðleg orðræða
Það er enginn hægðarleikur að lifa af rétt rúmum 156 þúsund krónum á mánuði. Við leysum ekki vandann með því að tala með niðrandi hætti um þá sem neyðast til að nýta sér fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, eða með því að gera fjárhagsaðstoðina að vandamáli. Sú neikvæða orðræða um „afæturnar“ á samfélaginu er skaðleg. Hún brýtur niður sjálfsmynd þeirra sem nú þegar glíma við erfið vandamál og grefur undan grundvallargildum íslensks samfélags: Að allir skuli fá að lifa með reisn og að engum verði hent út á guð og gaddinn.

Elín Oddný Sigurðardóttir

Pistillinn birtist fyrst á Vísi.is

Vinstri græn – hreinar línur

Mér er stundum sagt að stjórnmálaflokkar séu allir eins. Stefna þeirra sé keimlík, þeir lofi öllu fögru fyrir kosningar en hafi í raun það eina markmið að komast til valda. Svo fæ ég ýmist að heyra að flokkarnir séu sammála um allt eða geti aldrei komið sér saman um neitt.  Ég hef svo sem skilning á þessu öllu. Stjórnmálaflokkarnir eru sammála um mjög margt, þó fjölmiðlar fjalli oftast bara um ágreininginn þegar hann er til staðar. Stefnan getur virkað keimlík, sérstaklega í borgarpólítíkinni, og frambjóðendur einsleitur hópur.

Vinstrihreyfingin grænt framboð

Vinstri græn eru þó að mörgu leyti frábrugðin öðrum framboðum. Við höfum ögrað samfélaginu og hefðbundnum stjórnmálum gegnum tíðina með framsæknum hugmyndum um hvernig bæta megi samfélagið og við höfum alltaf valið hugsjónir umfram vinsældir. Við munum áfram gera það. Í Reykjavík snýst málefnaleg sérstaða Vinstri grænna fyrst og fremst um þrennt: Áherslur í skóla- og frístundamálum, umhverfis- og auðlindamálum og trú á opinbera þjónustu. (Fyrir utan að vera eina framboðið sem treystir konu til að leiða lista. Það er ekki lítið.)

Grunnþjónusta við börn verði gjaldfrjáls

Á næsta kjörtímabili verður að byggja aftur upp traust milli skólasamfélagsins og borgaryfirvalda eftir harkalegar sameiningar og niðurskurð sem gengið hefur mjög nærri starfseminni. Þá verður að hefjast handa við afnám gjaldheimtu borgarinnar vegna skóla- og frístundamála. Þannig getum við haft raunveruleg áhrif á ráðstöfunatekjur barnafólks og stuðlað að sanngirni. Flöt gjaldheimta upp á tugi þúsunda á hverjum mánuði umfram útsvarið er ósanngjörn og afnám hennar er fullkomlega raunhæft markmið.

Borgin axli ábyrgð í umhverfis- og auðlindamálum

Til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum verður Reykjavíkurborg að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Við verðum að breyta samgönguháttum, stuðla að orkuskiptum, fjölga hjólastígum, bæta almenningssamgöngur og nærþjónustu í þéttari byggð. Þannig drögum við úr notkun einkabílsins og skaðlegum áhrifum hans. Framganga Orkuveitunnar á Hengilssvæðinu hefur verið óábyrg og nýting auðlindarinnar allt of ágeng. Ábyrg nýting auðlindarinnar krefst þess að við endurskoðum framleiðslugetu Hellisheiðarvirkjunar og sláum öllum frekari virkanaáformum þar á frest.

Enga einkavæðingu opinberrar þjónustu

Á kjörtímabilinu hafa allir flokkar í borgarstjórn sýnt áhuga á einkavæðingu opinberrar þjónustu. Allir nema Vinstri græn. Stefna Sjálfstæðisflokks kemur auðvitað ekkert á óvart, hann vill “leysa krafta einkaframtaksins úr læðingi” hvar sem því verður við komið og leyfa einkaaðilum að græða á almannaþjónustu eins og öllu öðru. Meiri vonbrigðum valda aðgerðir meirihluta Besta flokks og Samfylkingar. Þau hafa nú selt hlut Reykvíkinga í HS-Veitum til einkaaðila og Gagnaveita Reykjavíkur er í söluferli. Ferðaþjónusta fatlaðra hefur verið boðin út og gistiskýli fyrir utangarðsmenn er ekki lengur rekið af borginni. Það er skýlaus krafa Vinstri grænna að opinber þjónusta sé á forræði almennings, að enginn geti grætt á grunnþjónustu og að hún verði aðgengileg öllum borgarbúum. Það hefur sýnt sig hvað eftir annað að einkarekstur hentar ekki í grunnþjónustu. Hann leiðir til verri og dýrari þjónustu.

Einlæg kosningaloforð

Sérstaða Vinstri grænna felst í kjarki og staðestu. Við höfum og við munum áfram standa með hugsjónum okkar og setja mál á dagskrá jafnvel þótt við mætum ekki skilningi til að byrja með. Ég fullyrði að það er hægt að afnema gjaldheimtu fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili jafnvel þótt aðrir flokkar efist. Ég fullyrði að það er hægt að koma í veg fyrir ofnýtingu á Hengilssvæðinu og að við getum spornað með öflugri hætti gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum jafnvel þótt aðrir flokkar efist. Ég fullyrði að það er betra fyrir fjárhag, þjónustu og samfélag í Reykjavík ef grunnþjónustan er rekin af hinu opinbera og á forræði almennings. Jafnvel þótt aðrir flokkar efist. Við Vinstri græn munum standa með þessum áherslum okkar. Um það er engin ástæða til að efast.

Sóley Tómasdóttir skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík
Greinin birtist í DV 4. apríl 2014

Ekkert afturkall

Ný lög um náttúruvernd voru samþykkt vorið 2013 og var ætlað að taka gildi þann 1. apríl 2014. Lögin fela í sér mikla framför í lagaumhverfi náttúruverndar og eru skólabókardæmi um hvernig á að standa að vandaðri lagasetningu. Þau byggja á vönduðum undirbúningi með aðkomu fræðimanna og fagaðila og síðan ítarlegri umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem komið var til móts við fjölda athugasemda hagsmunaaðila áður en þau voru samþykkt.

Það vakti því reiði og furðu þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði í haust fram frumvarp um að afturkalla þessi nýsamþykktu náttúruverndarlög áður en þau tækju gildi þann 1. apríl 2014. Hefði frumvarp ráðherrans náð fram að ganga hefði fimm ára vinna farið í ruslið og horfið yrði aftur til gildandi náttúruverndarlaga frá 1999 sem eru orðin úrelt þar sem þróun í þessum málaflokki hefur verið hröð.

Afturkallsfrumvarpið fékk afar góða, vandaða og málefnalega umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þar kom í ljós að mun færri og smærri álitamál voru uppi um nýju náttúruverndarlögin en sumir höfðu talið. Ágreiningur um utanvegaakstur og tengd mál reyndist mun minni en látið hafði verið að liggja og skemmra reyndist á milli skoðana á ákvæðum um varúðarreglu og sérstaka vernd en virtist í upphafi.

Þá voru nefndarmenn sammála um mikilvægi almannaréttarins sem almenningur er nú orðinn meðvitaðri um eftir að hugmyndir um gjaldtöku við helstu náttúruperlur þjóðarinnar fóru á flug. Nefndin náði að lokum saman um þá málamiðlun að hafna afturkallinu, fallast á að byggja á heildarhugmyndafræði hinna nýju laga og fresta gildistöku þeirra til 1. júlí 2015 þannig að hægt sé að vinna að úrbótum í samstarfi við ráðherra og skapa varanlega sátt um málið.

Þó að ég hefði helst viljað að ný lög tækju gildi nú 1. apríl er ég sátt við niðurstöðu nefndarinnar. Afturkall umhverfis- og auðlindaráðherra er út af borðinu og stefnt er að því að ný og framsækin náttúruverndarlög taki gildi árið 2015. Það skiptir svo sannarlega máli fyrir íslenska náttúru og íslenska þjóð.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst á Vísi.is

48 stundir Hönnu Birnu.

Nú um þessar mundir er Hanna Birna  Kristjánsdóttir mætt í fjölmiðla til að ræða frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem hún leggur fram í skugga kæru á ráðuneyti sem hún ber ábyrgð á.

Þegar ég fyrst heyrði af væntanlegu frumvarpi innanríkisráðherra um breytingar á útlendingalögum sem í sér fólu m.a. að biðtími hælisleitenda eftir svari yrði ekki meiri en 48 stundir, varð ég nokkuð bjartsýnn. Nú loks glitti í einhverjar umbætur á meðferð hælisumsókna sem allir eru sammála um að taki allt of langan tíma. Að vísu hafði ég einnig efasemdir um þennan hámarkstíma enda er sagan hælisleitendum síður en svo hliðholl og ummæli og aðgerðir embættismanna Útlendingastofnunar síðustu ár gefa heldur ekki ástæðu til að ætla annað en að langflestum hælisleitendum verði snúið rakleiðis til baka eftir tvær nætur á Fitjum.

Á þeim tíma virtist lítið upp á ráðherrann að klaga fyrir utan að aðhyllast hugmyndafræði ójöfnuðar sem leikið hefur Ísland grátt á síðustu árum. Það skaut því skelk í bringu, þegar að til stóð að mótmæla brottvísun hælisleitanda sem kært hafði úrskurð Útlendingastofnunnar, að viðkvæmum persónuupplýsingum var lekið í valda fjölmiðla, að því er virðist, til að minnka samúð með hælisleitandanum.

Enginn vill bera ábyrgð á lekanum og virðist sem Hanna Birna og aðstoðarmenn hennar hafi vonast til að málið myndi fljótt falla í gleymskunar dá líkt og mörg hneykslismál í gegnum tíðina. Þegar tveir blaðamenn DV neituðu að láta ráðherra komast upp með slíkt var brugðist við með því að rægja blaðamenn og stilla sér upp sem fórnarlambi í málinu. Í tvo mánuði hefur ráðherra grafið dýpra og dýpra og meðal annars brugðist reið við eðlilegum spurningum stjórnarandstöðunnar á Alþingi og gefið hefur verið í skyn að nú eigi að bregða fæti fyrir umrætt frumvarp.

Slíkt er rökleysa enda er ljóst að allir þeir sem gagnrýnt hafa Hönnu Birnu og viðbrögð hennar í lekamálinu, vilja sjá umbætur á málefnum hælisleitenda. Þó að deila megi um hvort hámarkstíminn eigi að vera 48 stundir eða sex mánuðir (líkt og frumvarp Ögmundar Jónassnar gerði ráð fyrir) hljóta báðir kostir að vera skárri en núverandi ástand þar sem hælisleitendum er haldið mörgum mánuðum saman í algerri óvissu um framtíð sína. Það er því engum til hagsbóta að nota lekamálið til að koma pólitísku höggi á Hönnu Birnu. Segi hún af sér kemur bara annar sjálfstæðismaður í staðinn og ber upp frumvarpið. Það er hins vegar miður að geta ekki treyst flutningsmanni frumvarpsins.

Hugmyndir sem ekki standast

Formaður ráðgjafaráðs Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Árnason, birti grein undir yfirskriftinni „Samfélagsleg skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga“ í nýjasta tölublaði Hjálmars, blaðs hagfræðinema við Háskóla Íslands. Hann leggur þar út af þeirri reglu að rétt verð sé lykilatriði innan hagfræðinnar og því eigi að gjalda varhug við opinberum niðurgreiðslum á kostnaði og segir að það skjóti því skökku við „þegar stórkostlegar niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustunni, sem er mjög veigamikill þáttur í framleiðslu og neyslu samfélagsins, eru ekki aðeins látnar með öllu afskiptalausar í þessari baráttu fyrir hagkvæmni heldur gerðar að samfélagslegri dyggð.“ Niðurstaða Ragnars er að „opinberar heilbrigðistryggingar rýra hag meðalmannsins í samfélaginu og þar með samfélagsins í heild“.

Niðurstaða Ragnars að hagur meðalmannsins sé mælikvarði á hag samfélagsins stenst ekki og endurspeglar fyrst og fremst ákveðna pólitíska sýn um að ekki séu til séu almannagæði sem allir eigi tilkall til. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun en ekki hagfræðilegt reikningsdæmi hvort hér sé samfélag þar sem allir, ekki aðeins meðalmenn og hinir efnaðri, geta sótt sér heilbrigðisþjónustu og menntun. Almannagæði eru ekki aðeins náttúruauðlindir heldur líka gæði á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem samfélagið hefur skapað á þeim grundvelli að allir fái tækifæri til að lifa með reisn.

Ef við samþykkjum að það sé hagur samfélagsins að allir fái slík tækifæri þá skiptir líka máli að kerfið sem við höfum byggt upp hér er félagslegt heilbrigðiskerfi. Kostnaður félagslegra heilbrigðiskerfa er minni en skyldutryggingakerfa eins og t.d. í Frakklandi og Þýskalandi en langdýrust fyrir samfélagið eru einkarekstrarkerfi á borð við hið tvöfalda kerfi Bandaríkjanna. Við þetta bætist að félagsleg heilbrigðiskerfi eru skilvirkust og árangursríkust þegar við metum lýðheilsuárangur á móti kostnaði (og er þá átt við ævilengd, ótímabær dauðsföll, ungbarnadauða o.fl.).

Það er verulegt áhyggjuefni að helsti ráðgjafi fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins boði slíka stefnu dulbúna sem hagfræði og dragi af henni ályktanir sem ekki standast. Ráðherra hefur sjálfur ekki tekið undir þessa speki en í máli hans á Alþingi í gær kom fram að hann væri sérstakur áhugamaður um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þannig að það er ljóst að ríkisstjórnin stefnir í átt til aukinnar einkavæðingar á grunnþjónustu samfélagsins.

Umhverfisráðherra segir að náttúrupassi geti þrengt að almannarétti

Katrín Jakobsdóttir þingkona Vinstri grænna stóð fyrir sérstökum umræðum um hvaða áhrif hugmyndir um náttúrupassa gætu haft á almannarétt á Alþingi í dag. Til svara var Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra og sagði hann að náttúrupassi í því formi sem Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra hefur kynnt þrengi að rétti almennings og að mörgum spurningum væri ósvarað í því máli.

Almannaréttur bundinn í lög

Katrín rifjaði upp að almannaréttur sem lýtur að frjálsri för um landið ætti sér djúpar rætur í lögum og menningu vestrænna ríkja og sagðist efast um að hugmyndir iðnaðarráðherra um náttúrupassa samrýmist honum. „Og við sjáum það þegar skyggnst er undir yfirborðið að þessi leið sem er í skoðun hjá stjórnvöldum núna hún er ekki byggð á neinu fordæmi neins staðar frá,“ sagði Katrín. Hún sagðist telja að allir væru sammála um að tryggja þurfi fjármuni til uppbyggingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum, það væri hins vergar spurning um hvernig fara ætti að því. Að lokum spurði hún Sigurð Inga meðal annars um hvernig hann teldi hugmyndir um náttúrupassa samrýmast lögum og reglum um almannarétt og hvort hann teldi náttúrupassan einu leiðini til að tryggja fjármagn til uppbyggingar.

Umhverfisráðherra efast um náttúrpassa iðnaðarráðherra

„Náttúrupassaleiðin í því formi sem hún hefur verið kynnt getur þrengt að réttindum almennings. Það er gjaldtaka á ákveðnum stöðum gegn því að þeir sömu staðir fái aðgang að fjármunum til uppbyggingar í þágu ferðaþjónustu að viðlögðum sektum ef viðkomandi greiðir ekki aðgangseyrir,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við: „Náttúrupassinn útilokar því ekki í þessu formi að landeigendur geti tekið upp sína eigin gjaldtökuleið eins og dæmin hafa sannað og ekki viljum við að gjaldtökuleiðin verði til þess að skapa gjá og togstreitu á milli ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og almennings í landinu.“

Sigurður Ingi sagði rétt almennings til frjálsrar fara um landið vera lögbundinn rétt borgaranna og eitt af einkennum íslensks samfélags og tengsla Íslendinga við landið. „Þann rétt hygg ég að flestir Íslendingar vilji standa að baki og verja,“ sagði hann og bætti við: „Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt að undanförnu og ferðamönnum fjölgað með tilheyrandi ágangi á landið og vaxtarverkjum. Því er brýnt að til sé stefnumótun og útfærsla á framkvæmdum og forgangsröðun fjármuna til einstakra verkefna. Enn er mörgum spurningum ósvarað þar að lútandi.“

Samhljómur á meðal þingmanna

Aðrir þingmenn sem tóku til máls, þar á meðal Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tóku undir með þeim Katrínu og Sigurði Inga að mikilvægt væri að verja almannaréttinn, eðlilegt væri því að skoða aðrar leiðir en þá sem iðnaðarráðherra hefur teflt fram til að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaðaða og friðlýstra svæða. Þá var samhljómur um að mikilvægt væri að vanda vel til verka og að góð sátt næðist um málið.