Umhverfisráðherra segir að náttúrupassi geti þrengt að almannarétti

Katrín Jakobsdóttir þingkona Vinstri grænna stóð fyrir sérstökum umræðum um hvaða áhrif hugmyndir um náttúrupassa gætu haft á almannarétt á Alþingi í dag. Til svara var Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra og sagði hann að náttúrupassi í því formi sem Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra hefur kynnt þrengi að rétti almennings og að mörgum spurningum væri ósvarað í því máli.

Almannaréttur bundinn í lög

Katrín rifjaði upp að almannaréttur sem lýtur að frjálsri för um landið ætti sér djúpar rætur í lögum og menningu vestrænna ríkja og sagðist efast um að hugmyndir iðnaðarráðherra um náttúrupassa samrýmist honum. „Og við sjáum það þegar skyggnst er undir yfirborðið að þessi leið sem er í skoðun hjá stjórnvöldum núna hún er ekki byggð á neinu fordæmi neins staðar frá,“ sagði Katrín. Hún sagðist telja að allir væru sammála um að tryggja þurfi fjármuni til uppbyggingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum, það væri hins vergar spurning um hvernig fara ætti að því. Að lokum spurði hún Sigurð Inga meðal annars um hvernig hann teldi hugmyndir um náttúrupassa samrýmast lögum og reglum um almannarétt og hvort hann teldi náttúrupassan einu leiðini til að tryggja fjármagn til uppbyggingar.

Umhverfisráðherra efast um náttúrpassa iðnaðarráðherra

„Náttúrupassaleiðin í því formi sem hún hefur verið kynnt getur þrengt að réttindum almennings. Það er gjaldtaka á ákveðnum stöðum gegn því að þeir sömu staðir fái aðgang að fjármunum til uppbyggingar í þágu ferðaþjónustu að viðlögðum sektum ef viðkomandi greiðir ekki aðgangseyrir,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við: „Náttúrupassinn útilokar því ekki í þessu formi að landeigendur geti tekið upp sína eigin gjaldtökuleið eins og dæmin hafa sannað og ekki viljum við að gjaldtökuleiðin verði til þess að skapa gjá og togstreitu á milli ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og almennings í landinu.“

Sigurður Ingi sagði rétt almennings til frjálsrar fara um landið vera lögbundinn rétt borgaranna og eitt af einkennum íslensks samfélags og tengsla Íslendinga við landið. „Þann rétt hygg ég að flestir Íslendingar vilji standa að baki og verja,“ sagði hann og bætti við: „Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt að undanförnu og ferðamönnum fjölgað með tilheyrandi ágangi á landið og vaxtarverkjum. Því er brýnt að til sé stefnumótun og útfærsla á framkvæmdum og forgangsröðun fjármuna til einstakra verkefna. Enn er mörgum spurningum ósvarað þar að lútandi.“

Samhljómur á meðal þingmanna

Aðrir þingmenn sem tóku til máls, þar á meðal Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tóku undir með þeim Katrínu og Sigurði Inga að mikilvægt væri að verja almannaréttinn, eðlilegt væri því að skoða aðrar leiðir en þá sem iðnaðarráðherra hefur teflt fram til að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaðaða og friðlýstra svæða. Þá var samhljómur um að mikilvægt væri að vanda vel til verka og að góð sátt næðist um málið.

Horfið frá séreignarstefnu

Katrín Jakobsdóttir þingkona Vinstri grænna lýsti yfir þungum áhyggjum af stöðu húsnæðismála hjá ungu fólki á Alþingi í síðustu viku og spurði Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um sýn hennar í húsnæðismálum á Alþingi í dag. Eygló lýsti þeirri afstöðu að hverfa ætti frá hinni svokölluðu séreignarstefnu.

Erfið staða ungs fólks á húsnæðismarkaði

Katrín sagðist hafa miklar áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði og að dæmi bentu til þess að hún gæti orðið svipuð og í sumum löndum Evrópu þar sem ungt fjölskyldufólk neyðist til að flytja inn á foreldra sína.

„Eins og staðan er, að minnsta kosti hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýjar rannsóknir sýna að flestir vilja búa, þar er ungt fólk í sömu stöðu, því miður, þar sem leiguverð er nánast óviðráðanlegt og húsnæðisverð, sérstaklega í sumum hverfum borgarinnar, hefur farið hækkandi,“ sagði Katrín og kallaði eftir sýn Eyglóar í málinu sem brýnt væri að leysa úr ef Ísland ætti áfram að verða eftirsóknarverður staður fyrir ungt fólk að búa á. „Ég held að ekki verði komist í gegn um þessi mál án þess að til komi mjög markvissar aðgerðir bæði ríkis og sveitarfélaga,“ bætti hún síðan við.

Tafir á vinnu við mótun húsnæðisstefnu

Eygló sagði að nú stæði yfir vinna við mótun húsnæðisstefnu í samræmi við ályktun Alþingis þar um og að tafir hefðu orðið á henni.

„Ég tel að húsnæðisstefnan eigi að endurspegla þann fjölbreytileika sem er í íslensku samfélagi. Að það sé raunar ekki einhver ein lausn sem henti öllum. Að það sé ekki bara þannig að það sé bara hægt að tryggja að allir kaupi eða allir leigi. Þú þarft að vera með þessa valkosti og þú þarft að tryggja það að fólk búi við öryggi,“ sagði Eygló um sína sýn.

Katrín sagði svar Eyglóar vera mikilvægt. „Þar með segir hæstvirtur ráðherra að hverfa eigi frá þeirri séreignarstefnu, sem kannski var aldrei mótuð eða ákveðin en hefur eigi að síður verið raunin í íslensku samfélagi undanfarna áratugi, og það er mjög mikilvæg sýn,“ sagði hún og spurði: „Telur ráðherra að þar muni félagslegur íbúðalánasjóður í eigu hins opinbera og sveitarfélög hafa hlutverki að gegna eða horfir hæstvirtur ráðherra fremur til markaðslausna til að ná þessu markmiði um fjölbreytt húsnæði og öruggt?“ Eygló svaraði því til að mikilvægt væri að bjóða upp á fjölbreyttar lausnir.