Ræða Edwards Huijbens varaformanns

 

Kæru félagar,

 

Ég vil byrja á að biðja ykkur öll hjartanlega velkomin á þennan flokksráðsfund sem haldin er á tuttugasta afmælisári hreyfingarinnar. Á morgun verður hreint út sagt frábær dagskrá þar sem við ferðumst fram og aftur í tíma og skoðum okkar hreyfingu, hvað hún hefur lagt til þjóðmálaumræðu á Íslandi og hvað hún getur gert fyrir pólitíkina framundan. Það er engum ofsögum sagt að okkar hreyfing breytti pólitíkinni á Íslandi! Okkar hreyfing kom á dagskrá málum sem í dag ekki nokkurt stjórnmálaafl þorir því að sleppa að ræða. Hinsvegar þegar umhverfismál og náttúruvernd, kvennfrelsi, friður og jöfnuður eru nú á allra vörum, þá blasir við okkur að viðhalda forystu í þessum málaflokkum og tryggja að háleitum markmiðum sé náð og orðin verði ekki bara innihaldslaus tískufroða.

 

Um leið og ég býð ykkur því velkomin vil ég ræða hvert við stefnum á þessum tímamótum í okkar hreyfingu. Ég vil ræða hvernig við skerpum hugmyndir okkar og sýn og styrkjum um leið innviði okkar hreyfingar. Hreyfing sem þessi og öll okkar háleitu markmið geta aðeins náð fótfestu og árangri með því fólki sem hreyfinguna skipa, fólkið, við sjálf, sem aftur erum hinir styrku innviðir okkar.

 

En fyrst að því að skerpa okkar hugmyndir og sýn.

 

Ég skynja breytingu! Ég skynja satt best að segja, bæði hér á landi og erlendis, stórkostlegar breytingar í farvatninu sem eru af tvennum toga. Þær togast sannarlega á og eru eiginlega algerlega af öndverðu meiði, en mögulega eiga þesar breytingar sér sameiginlega rót og sameiginlega lausn. Annarsvegar er um að ræða þau öfl sem nú naga að innan samfélög okkar um allan heim með þjóðernispópúlisma og hugmyndum sem í raun eru fasískar. Já fasískar segi ég og það er engum ofsögum sagt að víða er hreinn fasismi gengin í endurnýjun lífdaga. Það sorglega í því er að fasískar hugmyndir hafa reglulega komið upp á yfirborðið í sögu Vesturlanda, ekki bara í aðdraganda síðara stríðs og eru afleiðing og sorgleg hliðarverkan okkar kapítalíska hagkerfis. Hagkerfi sem inniber misrétti og ójafna skiptingu gæða, hagkerfi sem stillir hópum upp sem andstæðum sem þurfi að keppast um molana sem hrjóta af borði þeirra sem halda í raun um alla þræði valdins. Nú á ný stafar veruleg ógn af fasískum hugmyndum sem aukinheldur geta nýtt sér sí vaxandi einangrun hugarheims hvers og eins á internetinu. Með Brexit og Trump og í orðræðu sumra stjórnmálamanna hér á landi er heimurinn þannig að verða svart/hvítur – við og þeir, við og allir hinir óvinir okkar sem við verðum að standa saman gegn sem ógna tilveru okkar uppá hvern dag. Kunnuglegt stef?! Er ekki viðvarandi neyðarástand í heiminum? Stöðug krísa sem við verðum öll að berjast við? Það er hægur leikur að mála heiminn upp svo, hræða alla inn í skelina, titrandi með snjallsímann einan við hönd sem matar okkur með fréttum gervimenna sem lesið hafa í persónugerð okkar út frá eigin netnotkun, netnotkun sem auðvitað einkennist af leit að skýringum á hinu viðvarandi neyðarástandi. Áhugaverð sjálfstyrkjandi hringrás sem er að leiða okkur á nýjar lendur í stjórnmálum, eru raunveruleg ógn við lýðræðið. Hvernig svörum við í VG því?

 

Hinsvegar þegar kemur að þeim stórkostlegu breytingum sem ég skynja, eru það umhverfis- og loftslagsmálin. Nú tala auglýsingar um kolefnisspor og matarsóun, fyrirtæki eru að umbreyta umbúðum svo þær séu endurvinnanlegar og fólk er farið að huga að mataræði sínu og samgöngum vegna loftslagsins. Þetta er meira nú en hefðbundin hýðing sálarinnar í janúar vegna jólasukksins.  Loftslagsbreytingar eru sannarlega mest aðkallandi áskorun fyrir mannkyn allt. Rót þeirra breytinga liggur í neysluháttum okkar og nýttum orkugjöfum, sér í lagi á Vesturlöndum þó heimsbyggðin öll sé nú á harðahlaupum við að ná því sem við höfum. Til að ná tökum á loftslagsbreytingum er því nauðsynlegt að endurskoða í grunninn hvernig við högum okkar lífi og taka umhverfi, náttúru, dýralíf og jörðina alla með í reikninginn við þá endurskoðun. Þannig er tækifæri nú til að skoða allar stefnur VG útfrá þeirri ógn sem mannkyni stafar af loftslagsbreytingum og hvernig hægt er að bregðast við henni á öllum sviðum mannlífsins. Dæmi þar um væri hvernig við nálgumst boðaða matvælastefnu sem nú er í bígerð.

 

Kæru félagar, ég sagði nú áðan að þessir tvær straumar, fasisminn og loftslagsmálin, stöfuðu mögulega af sameiginlegri rót. Jú þannig er að auðvelt er að mála loftslagsmálin upp sem eitt viðvarandi neyðarástand, sem jafnvel réttlæta valdboð byggt á einföldum svart/hvítum lausnum. Þörf okkar fyrir að einfalda heiminn, flokka hann niður í gott og vont, svart og hvítt, rétt og rangt gerir það að verkum að einfaldar lausnir ná gripi í sálarlífi okkar. Loftslagsmálin sem viðvarandi neyðarástand réttlætir þannig hugmyndir um stórkostleg inngrip á hnattræna vísu sem vísindamenn leiða. Líkt og með einfaldar patent lausnir fasistanna á öllum okkar málum þá ber að varast slíka hugsun. Arfleið smættunarhyggju í vísindum er löng og sorgleg og hefur mikið til leitt okkur þangað sem við erum í dag. Nú hvá eflaust margir; smættunarhyggja vísindanna?! er þessi varaformaður ekki að verða full fræðilegur? Tja mögulega, en við sáum nýverið stórkostlegt dæmi um vísindi smættunar að störfum í skýrslu hagfræðistofnunar um hvalveiðar. Þegar vistfræði hafsins varð að línulegu viðfangi hagfræðinnar og hvalur drepin varð að veiddri loðnu eins og ekkert væri.

 

Okkar verkefni, kæru félagar, okkar verkefni í stjórnmálum er að vinna með og viðurkenna að málin eru ekki einföld, klippt og skorin. Heimurinn er ekki svartur og hvítur, það eru ekki við og þeir. Það erum við öll. Já „við öll“ og sumir hér ættu að kannast við þessa vísun frá 2006. Þá líkt og nú er okkar verkefni að standa vörð um íslenskt velferðarsamfélag, eyða fátækt og tryggja stóraukinn jöfnuð í skiptingu lífsgæða á Íslandi og jörðinni allri, vernda umhverfið og íslenska náttúru og vera boðberar friðar í heiminum og friðsamlegra lausna í samskiptum.

 

Í staðinn fyrir við og þeir, þá segjum við; við öll, þegar við bjóðum flóttafólk og hælisleitendur velkomin hingað. Við segjum „við öll“ þegar við bjóðum þeim velferð og góð laun sem hingað koma til að vinna. Við segjum „við öll“ þegar við tryggjum öllum þeim sem höllum fæti standa gott húsnæði, góð lífskjör og öryggi. Það sem meira er, við segjum líka „við öll“ þegar kemur að náttúru, umhverfi og jörðinni allri. Náttúran og jörðin eru ekki hlutbundin viðföng, einhverskonar passívir móttakendur okkar gerða og hugmynda. Loftslagsbreytingar hafa einmitt fært okkur heim sannin af því að náttúran og jörðin eru þátttakendur sem svara gjörðum okkar, á máli sem við í raun erum rétt að byrja að ná tökum á í dag. Líkt og vistfræði hafsins er aðeins flóknari en hagfræðistofnun vill vera láta, þá er jörðin og hennar loftslag, umhverfi og náttúra ekki bara þarna fyrir okkur til að manipúlera. Við mætum ekki bara með sleggjuna hans Krumma á lofthjúpinn og reddum þessu með verkfræði lausnum. Við verðum að hugsa okkur með jörðinni og öllu sem á henni þrífst. Við þurfum að hugsa um ábyrgð okkar og okkur sem vörslufólk jarðar, ráðsmenn svo gripið sé til hefða í orðum, ekki ráðandi heldur með ráð undir rifi hverju, góð ráð – sem þurfa ekki einu sinni að vera dýr. „Við öll“ á því ekki bara við um mannfólkið sem jörðina byggir, heldur og hana sjálfa, dýr merkurinnar, fugla himinsins og allt sem í djúpunum býr.

 

Hver er þá framtíð stjórnmálanna? Hvert stefnum við í VG nú. Jú, loftslagsvandinn er víst ógn sem að mannkyni steðjar, lausn hans felst í umbreytingu á okkar hugmyndum og þankagangi um okkur sjálf, hver við erum og hlutverk okkar hér á jörð. Við búum  í flóknum heimi, þar sem eitt leiðir alls ekki beinlínis til annars. Gagnvart flóknum veruleika þarf æðruleysi og tileinka sér virðingu og jafnvel auðmýkt fyrir því að lausnir eru ekki algildar né einfaldar. Ef við getum talað fyrir opnu hugarfari sem býður alla og allt velkomna inn í þá mynd sem við og framtíðin er, þá held ég að við vinnum á móti fasisma og umhverfisvanda jarðar. Ef við tölum fyrir því að dýrið sem við borðum er gjöf jarðar, ekki samkeppnishæft kílóverð, byrjum við að borða það öðruvísi – eða ekki, eftir atvikum. Ef við tölum fyrir því að fólk er fólk, ekki tölur á blaði þá förum við að umgangast það öðruvísi. Ef við tölum fyrir því að jörðin er jörðin, eiginlega alveg óháð því hvort á henni þrífist mannkyn eða ekki, þá förum við að umgangast hana öðruvísi.

 

Kæru félagar. Loftslags og umhverfismálin og fasísk öfl sem naga samfélag okkar að innan með frasa pólitík og patent lausnum eru mál málanna. Þau verða ekki leyst með nýsköpun í markaðssetningu eða því að klæðast grænu við gefin tilefni. Við kaupum okkur ekki frá þessum málum. Við þurfum að kaupa minna, kaupa minna af þvætting, kaupa minna af einföldum lausnum, kaupa minna af reddingum, kaupa minna af drasli, kaupa minna – vera meira! Góð ráð þurfa nefninlega alls ekki að vera dýr, jafnvel þó vandinn sé stór. Við öll, erum einfaldlega það „við öll“ í víðustu merkingu þess orðs.

 

Ég vil enda þetta erindi á smá fréttum. Þannig er eins og mörg ykkar hafa heyrt að hagir mínir eru að breytast. Ég fékk stöðu sem prófessor og yfirmaður 35 manna rannsóknarteymis í menningarlandfræði við Wageningen háskóla í Hollandi. Um er að ræða sérhæfða rannsóknarstofnun í umhverfsivísindum og ég hef fegnið topp stöðu sem leiðtogi þessa öfluga rannsóknarhóps. Þetta leiðir til þess að ég flyt til Hollands núna eftir helgina. Ég mun áfram sinna af elju störfum mínum sem varaformaður. Líkt og til þessa mun ég vinna gegnum netið og síma og frómt frá sagt er ferðalagið frá Hollandi til Reykjavíkur oft á tíðum einfaldara en Akureyri – Reykjavík, sér í lagi að vetri og stundum jafnvel ódýrara. Fjölskyldan kemur með mér í haust en við munum engu að síður halda heimili hér á landi einnig. Því er fyrirsjáanlegt að ég verði í nokkuð tíðum ferðum heim fram á haustið. Hinsvegar er ljóst að svona breyting á högum er ekki góð fyrir varaformann til langs tíma litið. Því vil ég tilkynna hér og nú að ég mun ekki sækjast eftir endurkjöri á landsfundi okkar nú í október. Samhliða því hef ég lagt til og mun fylgja eftir, skoðun á hlutverki stjórnar og varaformanns sérstaklega til að styrkja innviði hreyfingarinnar. Það er mikilvægt að skoða hvaða hlutverki þeir gegna sem sækjast eftir forystu í stjórnmálaafli sem þessu. Gera má ráð fyrir að sá sem sækist eftir slíku ætli sér eitthvað á vettvangi stjórnmálanna, en ekki á skrifstofu hreyfingarinnar sem nú er orðin mjög öflug og skipulögð. Ég vænti þess að línur skýrist fyrir landsfund okkar, hvað sá er nær kjöri varafomanns getur vænst að ætlast sé til af sér og ekki síður að sá hinn sami fái færi á að beita sér á hinum pólitíska vettvang.

 

Kæru félagar. Það eru spennandi tímar framundan hjá okkar tvítugu hreyfingu. Við vitum hver við erum, vitum hvað við viljum og höfum starfsemi sem getur framfylgt því. Nú brýnum við okkar góðu stefnumál og höldum ótrauð áfram baráttunni til jafnara, grænna og manneskjulegra samfélags. – Áfram VG, 20 ár hið minnsta …

Ræða forsætisráðherra á 100 ára afmæli fullveldis

Kæru landsmenn.

Á þessum degi fyrir 100 árum var íslenski þjóðfáninn dreginn fyrst að hún, hér á þessum stað. 1. desember 2018 var fallegur dagur í Reykjavík – það var kalt en bjart, fjölmenni var í bænum og hátíðleikinn alltumlykjandi. Fullveldið hafði ekki komið af sjálfu sér. Mörg voru þau sem áttu þennan draum um frjálst og fullvalda ríki; og mörg voru þau sem lögðu hönd á plóg til að ná þessu markmiði sem vafalaust hefur virst fjarlægt oft og tíðum. Saga Íslands á síðustu 100 árum hefur heldur ekki verið saga værðar og hvíldar. Saman höfum við, kynslóð fram af kynslóð, unnið sleitulaust til að koma Íslandi í hóp þeirra sjálfstæðu ríkja í heiminum þar sem velmegun er mest. Margir draumar hafa ræst og Ísland trónir nú á toppi ýmissa þeirra lista sem mæla hagsæld og velferð. Samfélagið hefur orðið fjölbreyttara, uppruni landsmanna er líka fjölbreyttari núna en árið 1918 og þeir eiga ólíka sögu og bakgrunn. Það er ekki nokkur vafi á því að fullveldið reyndist aflgjafi til að ná öllum þessum árangri. Við vildum ráða örlögum okkar sjálf og það reyndist farsælt þó að við höfum ekki liðið gegnum öldina átakalaust. Hitamál hafa reglulega skipt þjóðinni í ólík horn þar sem tekist hefur verið á um ólík sjónarmið. Ekki síst á vettvangi alþjóðlegra samskipta en líka í kjarabaráttu og jafnréttisbaráttu. Þegar áföll hafa dunið yfir hafa landsmenn sett þessi mál til hliðar og staðið saman sem einn. En skiptir það okkur máli að vera fullvalda í daglegu lífi okkar? Og hvaða merkingu hefur það í hugum okkar sem byggjum þessa eyju nú, hundrað árum síðar, í allt öðru samfélagi þar sem allt hefur breyst, samfélagið er orðið fjölbreyttara, lífsgæði hafa aukist og tækifærin allt önnur en fyrir einni öld? Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur fyrir tveimur vikum. Þá heimsótti ég Menntaskólann við Hamrahlíð og fékk tækifæri til að spjalla aðeins við ungu kynslóðina. Þau höfðu stórar hugmyndir um framtíðina, voru bjartsýn á að íslensk tunga myndi halda áfram að dafna og vera notuð á öllum sviðum samfélagsins, fannst gaman að velta fyrir sér framtíðarstörfum og námi og mikilvægt að geta haft eitthvað að segja um eigin örlög. Kannski snýst fullveldið einmitt um það; við náðum því fram að fá einhverju ráðið um eigin örlög og það skiptir okkur máli, jafnvel þó að við séum ekki öll sammála um hvert eigi að stefna og jafnvel þó að ekki séu allar ákvarðanir farsælar. Það er mikilvægt að við berum sjálf ábyrgð á eigin örlögum, bæði sem einstaklingar og sem samfélag. En hvaða örlög eigum við val um nú? Við sem byggjum íslenskt samfélag, við vitum það að okkur hefur verið trúað fyrir miklu. Við vitum að við eigum einstaka náttúru,
stærstu ósnortnu víðerni Evrópu, endurnýjanlega orkugjafa sem munu verða Íslandi dýrmætir til framtíðar, gjöful fiskimið og einstaka fegurð. Við vitum að við eigum tungumál sem geymir ótrúleg blæbrigði, óteljandi orð yfir birtu, myrkur, vind og sjó. Tungumál sem geymir hugmyndaheim Íslendinga allt frá landnámi þar sem menn skipta litum þegar tilfinningarnar bera þá ofurliði, stökkva hæð sína í fullum herklæðum og konur neita körlum um lokk úr hári sínu. Við eigum samfélag sem hefur þroskast og þróast. Á hundrað árum höfum við byggt upp sjúkrahús og leikskóla og rannsóknastofnanir og leikhús og bókasöfn. Við höfum byggt upp almannatryggingar og fest í sessi mikilvæg mannréttindi. Þjóðin er fjölmennari og fjölbreyttari. Við tölum hundrað tungumál. Við forritum, skerum upp sjúklinga, kennum börnum, veiðum fisk eða við gerum eitthvað allt annað. Við skrifum og syngjum og sköpum og leikum. Við erum hann og hún og hán. Við erum alls konar. Líklega hefði sagan orðið öðruvísi ef við hefðum ekki náð hinu sögulega samkomulagi um fullveldið við Dani. Samkomulagi sem um margt er sérstakt í sögunni þar sem það náðist á friðsamlegan hátt, með samningum, án blóðsúthellinga og án varanlegra særinda á báða bóga. Við eigum fullveldinu mikið að þakka en um leið leggur það ríkar skyldur á herðar okkar. Þær skyldur að standa vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem við eigum og nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti. Að tryggja að við öll sem hér búum fáum notið samfélagslegra gæða og þátttöku í samfélaginu. Að skynsamlega sé haldið utan um stjórn efnahagsmála og verðmætasköpun þannig að við tryggjum lífsgæði fyrir okkur öll. Að við varðveitum og tölum íslensku og tryggjum að við notum hana ekki einungis um forna kappa og kvenskörunga heldur líka um það sem gerist í tölvuleikjum, fjármálamarkaði, veðurfræði og geimvísindum. Kæru landsmenn Hvernig sem við snúum teningnum þá höfum við tekið margar farsælar ákvarðanir á liðinni öld sem hafa gert það að verkum að á Íslandi er samfélagið gott, lífsgæði hér eru mikil og við stöndum vel í alþjóðlegum samanburði. Um leið vitum við öll að við getum gert betur og verkefninu um gott samfélag lýkur aldrei. Saga fullveldisins vekur hins vegar bjartsýni um að við munum halda áfram á réttri braut og byggja enn betra Ísland fyrir okkur öll.

Jómfrúrræða Berglindar Häsler á Alþingi

Herra forseti Ég fagna því að nú sé í fyrsta sinn verið að móta matvælastefnu fyrir Ísland og vonast til þess að sjá róttæka niðurstöðu. Íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum, við þurfum að auðvelda kynslóðaskipti. Fyrir tæpum fimm árum fluttum við fjölskyldan frá Reykjavík í sveit á Austfjörðum. Markmiðið var að gera snakk úr heimaræktuðu, lífrænu grænmeti. Þetta fór vel ef stað, við fengum ágætan stuðning til að byrja með en hindranirnar voru líka margar. Nefni ég þar helst skort á þriggja fasa rafmagni, lélegt internetsamband, erfiðar samgöngur, mikinn flutningskostnað, háan húshitunarkostnað og lítinn stuðning við lífræna ræktun og óhefðbundnar búgreinar.

Eftir mikla þróunarvinnu og nýsköpun fór framleiðslan í gang og fljótlega vorum við komin á þann stað sem margir framleiðendur þekkja, það var kominn tími til að stækka og auka framleiðsluna. Við reyndum að laða að okkur fjárfesta og samstarfsaðila til að efla framleiðsluna. Það gekk ekki sem skyldi og á endanum neyddumst við til að setja framleiðsluna til hliðar og einbeita okkur að öruggari tekjum.

Þetta er sennilega saga margra bænda og framleiðenda á Íslandi í dag. Það þarf að borga þessa reikninga. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að brýna fyrir verkefnisstjórn um matvælastefnu að sýna hugrekki í sínu starfi. Það er mikið talað um nýsköpun og það er mikil krafa um nýjar og ferskar hugmyndir, sem er vel, en það er ekki síður mikilvægt að styðja við öll þau fjölmörgu verkefni sem þegar eru unnin um allt land á hverjum degi með blóði, svita og tárum.

Loftslagsmálin þurfa að vera leiðarstef þessarar stefnu og í því samhengi hlýt ég að nefna lífrænan landbúnað. Hefjum íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu upp til þeirrar virðingar sem hún á skilið. Ísland hefur alla burði til að vera í fararbroddi hvað varðar fjölbreyttan, sjálfbæran og arðbæran landbúnað.

,

Ræða formanns á flokksráðsfundi 12 október

Kæru félagar

Velkomin á flokksráðsfund

Verkefni undanfarinna tíu mánaða, allt frá kosningum hafa verið ærin. Ný ríkisstjórn tók við 30. nóvember eftir óvæntar kosningar fyrir tæpu ári. Við Vinstri-græn komum vel út úr þeim kosningum og bættum við fylgi okkar í annað sinn í röð enda settum við fram skýra stefnu með þremur höfuðatriðum sem voru: uppbygging samfélagslegra innviða til að jafna lífskjör og bæta hag almennings, aukið samráð um stórar pólitískar ákvarðanir og raunverulegar umfangsmiklar aðgerðir í loftslagsmálum.

Hér stöndum við tíu mánuðum síðar eftir að hafa tekið þá ákvörðun að ráðast í umdeilt ríkisstjórnarsamstarf sem eigi að síður naut yfirgnæfandi stuðnings innan flokksráðs Vinstri-grænna. Og ég er stolt af þeim árangri sem hefur náðst á þessum skamma tíma. Mig langar að tala sérstaklega um þrjú lykilatriði sem ég tel að skipti máli í þeirri vinnu. Og síðan langar mig – af því að þessi flokksráðsfundur er helgaður innra starfi hreyfingarinnar – að tala um okkur sjálf.

Við erum hreyfing sem leggur áherslu á félagslegt réttlæti. Það er ein af fjórum stoðum stefnuyfirlýsingar okkar. Þessi ríkisstjórn hefur með breytingum sínum í skattamálum nú þegar stuðlað að auknum jöfnuði og réttlátara skattkerfi. Í fyrra við afgreiðslu fjárlaga hækkuðum við fjármagnstekjuskatt um tíu prósent, úr 20 prósentum í 22 prósent en sú skattahækkun leggst á þá sem eiga mest. Núna leggjum við til að hækka barnabætur og auka þannig ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna svo um munar frá næstu áramótum. Ennfremur er lagt til að hækka persónuafsláttinn umfram breytingar á vísitölu neysluverðs og það gagnast best hinum tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir og fyrst og fremst í þágu sem standa höllum fæti. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu, ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Þessar breytingar endurspegla líka þá tóna sem við höfum heyrt frá aðilum vinnumarkaðarins en þar hefur verkalýðshreyfingin til dæmis lagt áherslu á hækkun barnabóta og endurskoðun á persónuafslætti en Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á lækkun tryggingagjalds. Þeir reglubundnu fundir sem við, forystufólk ríkisstjórnarinnar, höfum átt með aðilum vinnumarkaðarins og forsvarsmönnum sveitarfélaga hafa skilað auknum skilningi milli aðila og aðgerðum. Nægir þar að rifja upp hækkun atvinnuleysisbóta og greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa, niðurlagningu kjararáðs sem og þær aðgerðir sem ég nefndi hér áðan.

En rétt er að minna á að það eru fleiri jöfnunartæki til en skattkerfið. Þannig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bent á að það að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu sé gríðarlega mikilvæg jöfnunaraðgerð. Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin þann 1. september þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð. Gleymum því svo ekki að þetta er mesta bragarbót sem gerð hefur verið á þessum málum síðan við vorum síðast í ríkisstjórn en þá voru tannlækningar barna gerðar gjaldfrjálsar. Heilbrigðisráðherra mun halda áfram á sömu braut og í fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir fjármunum til að lækka kostnað sjúklinga jafnt og þétt uns við verðum komin á par við Norðurlöndin á tíma fjármálaáætlunar.

Gott heilbrigðiskerfi er brýnt lífskjaramál og þar er mikilvægt að bregðast við skýrri forgangsröðun almennings sem hefur sett þennan málaflokk efst á sinn lista fyrir tvennar síðustu kosningar. Þar forgangsraðar heilbrigðisráðherra okkar Vinstri-grænna geðheilbrigðismálunum en nú er unnið að því að auka aðgengi að sálfræðingum um land allt auk geðheilsuteyma en sú geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi 2016 er nú loksins fjármögnuð. Og á morgun verður tekin skóflustunga að nýjum Landspítala sem er löngu tímabær framkvæmd –  og verður stór og flókin en mikið framfaraspor.

Enn eitt jöfnunarmál er það mikilvæga verkefni að bæta framfærslu öryrkja en í það eru lagðir fjórir milljarðar í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi. Starfað hefur samráðshópur sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig þessum fjármunum verður sem best varið ásamt því að auka möguleika öryrkja til virkrar samfélagsþátttöku og þátttöku á vinnumarkaði. Þarna verður að horfa til tveggja mikilvægra þátta að mínu viti; að bæta framfærslu þeirra sem eingöngu hafa úr framfærslu almannatrygginga að spila og standa höllustum fæti og hins vegar að draga úr skerðingum á þær viðbótartekjur sem fólk aflar sér og hafa reynst letjandi til allrar þátttöku á vinnumarkaði. Þá er unnið að því í að fara yfir hvernig breytingar á almannatryggingum sem samþykktar voru árið 2016 hvað varðar eldri borgara hafa reynst þeim en markmiðið er að greina þann hóp eldri borgara sem býr við bágust kjör og styðja betur við hann. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir sem snúast um að útrýma fátækt og tryggja að allir búi við mannsæmandi kjör.

Í þessari umræðu má hins vegar ekki gleyma unga fólkinu okkar en margar vísbendingar eru um að þegar við horfum heildstætt á stöðu ólíkra samfélagshópa þá sé unga kynslóðin sá hópur sem við þurfum að sinna sérstaklega. Öll gögn sem við höfum benda til að unga fólkið hafi dregist aftur úr í tekjum og það er þessi hópur sem á í kröggum með að flytja úr foreldrahúsum.

Kæru félagar.

Enn hef ég ekki nefnt eitt mikilvægasta jöfnunartækið sem er menntakerfið. Þar höfum við aukið verulega fjárveitingar til háskóla og framhaldsskóla. Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu stefnir allt í að fjárframlög til íslenskra háskóla verði komin á par við meðaltal OECD árið 2020 en þetta markmið er í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Sömuleiðis hafa framlög til framhaldsskóla verið aukin en ekki skert eins og fyrirhugað var hjá síðustu ríkisstjórn. Og af hverju er það mikilvægt? Jú, það er mín bjargfasta trú að menntun sé lykilatriði fyrir tvennt. Annars vegar að tryggja aukinn jöfnuð, tryggja það að allir geti sótt sér menntun og þar með þroskað hæfileika sína og skapað sér sín eigin tækifæri og aukið lífshamingju sína. Og hins vegar er aukin menntun undirstaða fyrir hagsæld framtíðarinnar sem mun byggjast á nýsköpun og þekkingariðnaði. Það er langmikilvægasta efnahagsmál þessarar þjóðar, að fjölga stoðunum undir efnahagslífinu, byggja á hugvitinu ekki síður en nýtingu náttúruauðlinda og tryggja þannig hagsæld til langrar framtíðar.

Meðal annars þess vegna leggur ríkisstjórnin til að settur verði á laggirnar þjóðarsjóður með arðgreiðslum frá Landsvirkjun og hluti þeirra verði notaður, annars vegar í hið brýna verkefni, uppbyggingu hjúkrunarrýma, og hins vegar í aukna fjárfestingu í nýsköpun. Nýsköpun í ólíkum geirum sem ekki verður aðeins mikilvæg fyrir hagsæld framtíðar heldur er að mínu viti nauðsynleg til að bregðast við stærstu áskorunum samtímans sem eru annars vegar sú tæknibylting sem blasir við á öllum sviðum samfélagsins og hins vegar loftslagsbreytingar.

Og þá kemur að ekki minna lykilatriði sem eru umhverfismálin. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til loftslagsmála og í stefnumörkun. Ríkisstjórnin kynnti í byrjun september fyrstu áfangana í metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar munu landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis verða fyrirferðarmikil til þess að binda aukið kolefni en í stjórnarsáttmála er kveðið á um að Ísland eigi að verða kolefnishlutlaust ekki seinna en 2040. Annar stór áfangi eru orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak verður í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður tímaáætlun um að ekki verði fluttir inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni eða olíu eftir 2030. Ný skýrsla um loftslagsbreytingar sýnir gjörla að aðgerða er þörf – og víðar en á þessum tveimur sviðum. Þar þurfa stjórnvöld að ganga á undan með skýrri sýn og aðgerðum en mikil ábyrgð hvílir líka á sveitarfélögum og atvinnulífi en ég vil fagna þeim áhuga sem við höfum fundið, bæði frá ýmsum sveitarfélögum en ekki síður heildarsamtökum innan atvinnulífsins á að sýna ábyrgð og takast á við þetta risavaxna verkefni – og ný skýrsla SÞ er auðvitað sláandi áminning um hina alvarlegu stöðu sem mannkynið stendur frammi fyrir ef ekkert er að gert.

Við þurfum að huga að því hvernig við getum orðið mun öflugri í matvælaframleiðslu til að draga úr vistspori innfluttra matvæla og verða sjálfum okkur nægari í matvælaframleiðslu. Við þurfum að tryggja ungum bændum frelsi til að fara ótroðnar slóðir í matvælaframleiðslu, tryggja að bændur eigi ólíka valkosti í framleiðslu sinni, geti selt beint frá býli og greiða fyrir því að þeir geti sinnt nýsköpun og þróun.

Það er orðið leiðigjarnt stef þegar menn kappkosta að tala niður innlendan landbúnað eins og hann sé þurfalingur í íslensku samfélagi þegar hann er einmitt undirstöðuatvinnugrein til þess að Ísland geti orðið raunveruleg matarkista. Öll okkar stefnumörkun á að miðast við þá heildarsýn að við drögum úr vistsporinu, minnkum sóun, eflum nýsköpun í matvælaframleiðslu og tryggjum matvæla- og fæðuöryggi. Sýna þarf stórhug í hvers konar landbúnaði og sjávarútvegi og setja niður matvælastefnu fyrir Ísland sem bregst við þeim raunverulegu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Atvinnulíf í sátt við samfélag og umhverfi er kjarni okkar stefnu; kjarni hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Við eigum einstakt tækifæri til að ráðast í breytingar sem munu gera íslenskt samfélag sjálfbærara. Þar skiptir öllu máli það sem við erum að gera í þessari ríkisstjórn, sú kúvending sem nú hefur orðið í þessum málaflokki, mestu áskorun aldarinnar; loftslagsmálunum.

Og þá komum við að þriðja lykilatriðinu sem snýst um fólk; traust, gagnsæi, mannréttindi. Nú um áramótin munu jafnréttismál færast yfir í forsætisráðuneytið í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað strax í desember að setja á laggirnar ráðherranefnd um jafnréttismál til að tryggja að þau séu forgangsmál allra ráðuneyta. Endurskoðun jafnréttislaga verður þar stórt verkefni en miklu skiptir að samhliða útvíkkun jafnréttishugtaksins sé gætt að því að ekkert bakslag verði í kvenfrelsis- og kynjajafnréttismálum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að uppræta kynbundið ofbeldi. Fullgilding Istanbúlsáttmálans um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi var mikilvægt skref í rétta átt sem stigið var í vor. Á þessu ári hefur hópur sérfræðinga verið að störfum undir forystu Höllu Gunnarsdóttur, og greint hvað þurfi að gera og hverju þurfi að breyta til þess að hafa betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hópurinn hefur nú skilað af sér verkáætlun sem verður samstundis hrint í framkvæmd. Og við munum halda áfram að vinna úr lærdómum #églíka-byltingarinnar, meðal annars með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður hér á landi á komandi ári. Og við ætlum að horfa inn á við í þessum málum – á morgun ræðum við drög að nýrri áætlun VG gegn kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Það var tímabært að endurskoða áætlunina okkar og #églíka bylgjan gaf okkur kærkomið tækifæri til að líta aftur inn á við og spyrja: fara saman orð og gjörðir í okkar hreyfingu?

Að einhverju leyti, tel ég, en við megum ekki slá slöku við. Við þurfum að horfast í augu við að eðli stjórnmálastarfs er með þeim hætti að þar eru áhættuþættir fyrir hendi. Innan stjórnmálaflokka er alltaf ákveðin samkeppni, það komast færri að en vilja í ýmsar stöður, og við eigum í átökum um hugmyndir, stefnur og strauma. Stjórnmálastarfi fylgir líka félagslíf sem er mikilvægur hluti stjórnmálastarfs en getur einmitt orðið vettvangur áreitni og jafnvel ofbeldis.

 

Þetta tölum við sjaldan um, en ég er sannfærð um að opin umræða sé af hinu góða.

Síðan er hitt og það er að við þurfum að vera undir það búin að takast á við einstaklingsmál þegar þau koma upp. Í nýju drögunum okkar er lögð áhersla á að í flóknum málum eigi að sækja utanaðkomandi aðstoð. Vandinn er sá að fæst okkar kunna að takast á við svona mál – og sem betur fer komumst við ekki í góða þjálfun við það. Þess vegna fagna ég því að við séum að útbúa sterkari ferla í sameiningu.

 

En þessi áætlun á að vera lifandi plagg. Við eigum að endurskoða hana reglulega og við eigum öll að eigna okkur hlutdeild í henni. Því þetta er okkar áætlun. Ég veit líka að engir ferlar eru fullkomnir. Kynbundið ofbeldi er aðeins ekki einstaklingsbundið vandamál, heldur menningarbundið og við höfum öll lifað og hrærst í þessari sömu menningu. En kæru félagar, gerum öll, hvert og eitt og í sameiningu, allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að áreitni og ofbeldi sé liðið innan okkar hreyfingar.

En aftur að landsmálunum.

Hér heima vitum við að við höfum dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks. Í vetur verður lagt fram frumvarp á Alþingi um framsækið lagaumhverfi um kynrænt sjálfræði. Þegar frumvarpið verður að lögum mun það koma okkur í fremstu röð – þar sem við eigum að vera, af því að við getum það og af því að það er rétt.

Réttindabarátta hinsegin fólks er ofarlega á forgangslista núverandi ríkisstjórnar og við höfum þegar náð góðum áföngum á þessum fyrstu mánuðum. Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu var samþykkt í vor og er mikilvægt skref til að tryggja mannréttindi allra. Ríkisstjórnin hefur líka tvöfaldað fjárframlög til Samtakanna 78 þannig að þau geti betur sinnt sínu mikilvæga starfi.

Á síðustu misserum höfum við séð stjórnvöld í ýmsum ríkjum afnema réttindi sem lengi hefur verið barist fyrir. Víða hefur orðið bakslag og við þurfum að berjast gegn því og tala skýrt fyrir réttindum fólks hvar sem við komum og á hvaða vettvangi sem er.

 

 

Ég hef sett fram tillögu um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum. Formenn flokkanna hafa fundað nokkrum sinnum og ég vona svo sannarlega að sem breiðust samstaða náist um breytingar á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Ætlunin er að hafa samráð við almenning í því ferli og nýta til þess aðferðir þátttökulýðræðisins. Ríkisstjórnin hefur tekið ýmis skref í því að auka gagnsæi og upplýsingagjöf. Góð skýrsla var gerð um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og verður núna markvisst unnið úr þeim tillögum sem þar eru lagðar fram. Sumt hefur ríkisstjórnin þegar ráðist í, meðal annars að opna dagbækur ráðherra og birta hagsmunaskráningu ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanna. Næstu skref verða að setja skýrari ramma um birtingu upplýsinga, meðal annars með endurskoðun upplýsingalaga. Núna á mánudaginn verða kynnt fimm frumvörp sem heyra undir fjóra ráðherra sem öll efla upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

Að efla traust er langtímaverkefni. Ýmsir hafa orðið til að gera lítið úr þessum aðgerðum og nýjasta tuggan er að gera lítið úr umræðu, undirbúningi og vandaðri vinnu en sem vanur langhlaupari veit ég að í þessum málum er það úthaldið sem skiptir máli.

Að lokum langar mig að nefna eitt frumvarp sem ég fæ vonandi að mæla fyrir í næstu viku og varðar réttindi barna. Það felur í sér endurskoðun á lögum um umboðsmann barna og að efnt verði til barnaþings annað hvert ár. Ég vona sannarlega að þetta verði til þess að börn og ungmenni fái sterkari rödd í okkar samfélagi. Ekki veitir af.

Kæru félagar.

Þessi flokksráðsfundur á ekki síst að snúast um innra starf og okkur sjálf. Við fögnum tuttugu ára afmæli á næsta ári. Sjálf hef ég verið virkur félagi í ein 17 ár. Þessi hreyfing er ekki sú sama og hún var þá. Hreyfingin eldist og breytist, eins og við öll.  Og það er sú spurning sem mig langar að varpa til ykkar góðir félagar. Erum við söm? Eruð þið söm? Og eigum við að vera söm?

Í ár eru tíu ár liðin frá hruni. Þróun stjórnmálanna hefur verið sú að æ fleiri flokkar hafa komið fram og náð áhrifum. Flokkakerfið er gjörbreytt frá árinu 1999, og við erum ekki á sama stað í því kerfi og við vorum þá.

Mér finnst það ekki hættulegt. Mér finnst það ekki slæmt. Hins vegar er mikilvægt að við ígrundum hvað okkur sem hreyfingu finnst um þessa þróun.

Ég ætla að nefna nokkra þætti sem ég tel að geti skipt máli fyrir þá ígrundun.

Í fyrsta lagi eru lýðræðislegir stjórnmálaflokkar ekki ættaðir úr neðra eins og ætla mætti af orðræðu undanfarinna ára. Lýðræðislegir stjórnmálaflokkar sem farvegur hugmynda og gilda eru undirstaða lýðræðisins og að hallmæla flokkakerfi og stjórnmálaflokkum er slæmt fyrir lýðræðið. Þá eykst hættan á að stjórnmálin snúist um einstaklinga og persónur en ekki lýðræðislega ákvarðanatöku á félagslegum grunni.

Þá er ástæða til að gera upp við fjórflokkshugtakið. Þetta er ekkert nema merkimiði sem þjónar tilteknum öflum, hugtak sem beinlínis var búið til í áróðursskyni. Í þessari orðræðu er ung hreyfing eins og okkar lögð að jöfnu við hundrað ára gamla flokka. Við störfum á sviði þar sem eru alls konar stjórnmálahreyfingar, sumar tveggja ára, sumar 19 ára og aðrar 102 ára, sem snúast um ólík gildi og ólíka hugmyndafræði. Og það eru þau gildi og sú hugmyndafræði sem við í Vinstrihreyfingunni-grænu framboði ætlum að ræða hér á eftir.

Í þriðja lagi er það svo að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur breytt um ýmsar áherslur á því tæplega tuttugu ára tímabili sem við höfum starfað. Það er vegna þess að stjórnmálaflokkur er ekki safn eða stofnun með hlutverk sem skráð er í lög heldur hreyfing sem eins og nafnið gefur til kynna er ekki kyrrstæð. Hreyfing fólks sem breytist, þroskast og lærir og skiptir stundum um skoðun. Ég get nefnt mörg dæmi. Eða man einhver eftir því hvernig við tókumst á við spurninguna um olíuleit? Eigum við að ræða Evrópusambandið og þau sjónarmið að þar ætti meirihlutinn að ráða för? Já við erum hreyfing. Og við ættum að huga að því þegar við tölum um stjórnmál og stefnu að þar skipta gildin einmitt mestu. Ég hef lært mikið á þeim tíu árum sem ég hef setið á þingi og skoðanir mínar á ýmsu hafa breyst og þróast. Hvort sem er bönkum, landbúnaði, sjávarútvegi og ég gæti haldið lengi áfram.

Í fjórða lagi hefur reynslan mótað okkur. Þátttaka okkar í ríkisstjórninni 2009 til 2013 breytti þessari hreyfingu talsvert. Þar gátum við ekki látið nægja að gagnrýna og setja fram óskir heldur þurftum við að starfa með öðrum og að leysa ófyrirsjáanleg og flókin verkefni sem kallar á málamiðlanir. Margir aðrir flokkar hafa orðið til síðan sem hafa tekið af okkur það hlutverk að vera nýjasti flokkurinn sem aldrei hefur þurft að miðla málum eða velja milli tveggja erfiðra kosta. Við höfum á meðan lært að maður nær aldrei fram öllum sínum óskalista í ríkisstjórn og jafnvel geta fleiri en eitt af okkar mikilvægu gildum kallað á mismunandi niðurstöðu. Því stundum stangast gildin á og þá þurfum við að viðurkenna það og vinna úr því. Það á við um bæði stjórnmálaflokka og einstaklinga.

Í fimmta lagi tel ég að allir stjórnmálaflokkarnir hafi breyst. Ég held í fyrsta lagi – af því að ég nefndi traust hér áðan – að ekki aðeins hafi traust á stjórnmálum hrunið 2008 heldur hrundi líka traust í stjórnmálum. Það hefur haft áhrif á þróun stjórnmálanna; óttinn við vera kennt um allt sem aflaga fer hefur haft áhrif á hvernig ákvarðanir eru teknar því enginn vill bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum. Og ég er sannfærð um að núverandi ríkisstjórn getur skipt máli í því verkefni – við tókum áhættuna 2009 og við tökum hana aftur núna af því að við ætlum ekki að láta óttann við gagnrýnina ráða för heldur trúna á að við getum náð árangri fyrir fólkið í landinu; árangri sem er í takt við okkar gildi og okkar hugmyndir.

Í sjötta lagi tel ég að þessi staða skapi okkur tækifæri. Vissulega er það svo að þegar við breytumst þá breytist líka kjósendahópur okkar. Bæði vegna þess að við höfðum að einhverju leyti ekki til sama fólks og áður en líka – og það er mikilvægt að muna – að kjósendur eru fólk eins og við sem breytist, þroskast, skiptir um skoðun. Og þá er eini leiðarvísir okkar að vera sjálfum okkur trú, gildum okkar og hugmyndum. Við erum í langhlaupi, góðir félagar, og við höfum reynst drýgri í því langhlaupi en margir hafa spáð gegnum tíðina. Nýtum tímann í kvöld og á morgun til að nesta okkur fyrir það, það gerum við með því að horfa inn á við – og fram á við.

Katrín Jakobsdóttir

 

Svandís Svavardóttir, heilbrigðisráðherra ræða á Landspítala 5. október

Kæru gestir

Við erum hér samankomin til þess að fagna stórum áfanga í Hringbrautarverkefninu, uppbyggingu Landspítalaþorpsins hér við Hringbraut. Fyrir níu árum síðan setti þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, af stað verkefnastjórn, sem síðar varð Nýr Landspítali ohf., til að vinna að undirbúningi og uppbyggingu þessa svæðis. Það var gert með víðtækri þátttöku starfsmanna Landspítala og Háskóla Íslands.
Uppbygging Landspítala við Hringbraut er umfangsmikið verkefni og í vor skipaði ég samstarfsráð til þess að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans sem verður mér til samráðs og ráðgjafar vegna verkefnisins. Ég hef einnig ákveðið að setja á fót vinnuhóp sem mun hafa það hlutverk að framkvæma ástandsmat eldri bygginga spítalans, gera kostnaðaráætlanir vegna stoðbygginga og verkáætlun um flutning á starfsemi í nýtt húsnæði. Í þeim hópi munu eiga sæti fulltrúar Landspítala, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins.

Nú er uppbygging Landspítala við Hringbraut í fullum gangi. Uppbyggingin er mikilvæg fyrir starfsemi sjúkrahússins í heild, en ekki síður fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Laugardaginn 13. október nk. boða ég til skóflustungu að meðferðarkjarnanum, sem kemur til með að vera stærsta húsið í þessari stærstu framkvæmd lýðveldissögunnar.

Þá verður enn einum stóra áfanganum náð en jarðvinna að húsinu hefur þegar verið boðin út og gatna- og bílastæðagerð er hafin hér á svæðinu. Verið öll velkomin á laugardaginn 13. október kl. 14.00 á svæðið milli Barnaspítala og Læknagarðs, neðan gömlu Hringbrautar.
Í dag er verkefnið okkar að festa niður samning milli NLSH ohf. og Corpus3 ehf. um fullnaðarhönnun á rannsóknahúsi Landspítalans. Húsið var forhannað á árunum 2009-2012 með þátttöku notenda og síðan þá hefur forhönnunin verið rýnd og beitt við það LEAN-aðferðarfræðinni. Forval hönnuða fór fram á síðasta ári og voru fjórir íslenskir hönnunarhópar hæfir til að taka þátt í samkeppnisútboði um fullnaðarhönnunina og Corpus3 -hópurinn stóð uppi sem lægstbjóðandi.

Rannsóknahúsið, sem verður um 15.500 fermetrar, mun sameina alla rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað, bæði þjónusturannsóknir og hefðbundnar vísindalegar rannsóknir. Starfsemi Blóðbanka mun einnig verða í húsinu. Á rannsóknahúsinu er gert ráð fyrir þyrlupalli fyrir neyðarflug sem mun tengjast bráðastarfsemi spítalans. Rannsóknahúsið mun tengjast öðrum byggingum spítalans á sjálfvirkan hátt með tæknikerfum en einnig verður innangengt á milli bygginga í göngum eða yfir brýr. Landspítali og Háskóli Íslands hafa átt mjög gott samstarf í þessu verkefni og ég flyt ykkur góðar kveðjur Jóns Atla Benediktssonar háskólarektors sem vildi gjarnan vera með okkur hér í dag en á ekki heimangengt.

Ég vil að lokum óska Nýjum Landspítala ohf. og Corpus áframhaldandi góðs samstarfs varðandi hönnun bygginga spítalans og þakka öllum þeim sem komið hafa að verkefnunum, hvort sem er tæknifólkinu eða klínísku starfsfólki spítalans. Á stundum sem þessum má ekki gleyma því að öll þessi uppbygging mun skila sér í enn betri þjónustu við sjúklinga. Sjúklingar og starfsfólk spítalans og Háskóla Íslands eru hornsteinar að því samfélagi sem er hér við Hringbraut. Við sem komum að verkefnum á annan hátt hlúum að því samfélagi og veitum því brautargengi og samningurinn sem nú er formfestur staðfestir það.

Takk fyrir.

,

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir tekur sæti á alþingi

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir undirritaði drengskaparheit að stjórnarskránni við upphaf þingfundar og flutti sína fyrstu ræðu á alþingi í dag.

” Ég minni á það, herra forseti, að við erum ein þjóð í einu landi og það er stjórnvalda að tryggja öllum landsmönnum sömu grunnþjónustu. Það er stjórnvaldsákvörðun hvað gert er við það rafmagn sem framleitt er í landinu. Í dag er framleitt nóg rafmagn til að knýja flórsköfur og þvottavélar í Skaftárhreppi og rúningsklippur á Vestfjörðum. Vandamálið er hversu illa gengur að flytja rafmagnið og tryggja að það sé til staðar þegar á því þarf að halda og því vill drepast á mjaltavélum og hitakútum fyrir 60 hótelsturtur þegar verst gegnir, en þegar að þessu kemur benda ríkisfyrirtækin hvert á annað.

Ég var á fundi með stjórn og talsmönnum Rariks í lok ágúst og í þeirra máli kom fram að það væri sveitarstjórnarfólks að þrýsta á pólitíkina um að arðgreiðslur Rariks færu í uppbyggingu og endurnýjun dreifikerfisins. Einnig væri þeirra að þrýsta á um auknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun og þrýsta á pólitíkina að herða á Landsneti við uppbyggingu dreifikerfis.

Af hverju þarf að vera að þrýsta á um þetta einhvers staðar fyrir aftan bak, þrjú fyrirtæki að hluta eða öllu í eigu ríkisins, öll með svipuð verkefni, sama grunnmarkmið. Enn og aftur, við erum ein þjóð í einu landi. Ég hvet því þingheim til að íhuga alvarlega það hlutverk sitt að tryggja öllum íbúum þessa lands sambærilega grunnþjónustu.”

Sjá ræðu hér:

Lesið ræðu hér:

 

 

 

Ræða forsætisráðherra á100 ára afmæli fullveldi Íslands – Þingvallafundur 18. júlí 2018

Herra forseti, kæru landsmenn.

Í dag erum við saman komin á Þingvöllum í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldisins. Þingvellir eru í hugum margra tákn þjóðarinnar sjálfrar og hafa gegnt ólíkum hlutverkum í sögu okkar allt frá landnámi. Hér var Alþingi stofnað og þannig urðu Þingvellir miðstöð valds allt frá landnámstíma.

Í samnefndri sögu Halldórs Laxness hékk Íslandsklukkan sjálf fyrir gafli Lögréttuhússins, engin venjuleg klukka, heldur klukka landsins. Þegar sagan hefst var kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari. Á sögutíma Íslandsklukkunnar urðu Þingvellir táknmynd hins danska valds á Íslandi, staður þar sem embættismenn konungs felldu dóma og fullnægðu þeim, karlmenn voru hoggnir og konum var drekkt.

Þegar Íslendingar urðu sjálfstæð þjóð endurheimtum við Þingvelli sem okkar minningarstað. Þeir urðu friðsæll fagnaðarstaður fámennrar þjóðar sem þó var sjálfstæð og fullvalda og hér söfnumst við saman þegar við viljum rifja það upp hvað gerir okkur að þjóð, okkur sem hér búum og deilum kjörum.

Ekki blés byrlega fyrir þjóðinni þetta ár fyrir hundrað árum þegar þjóðin varð fullvalda; Kötlugös, frostaveturinn mikli, Spænska veikin, fátækt, kuldi og vosbúð. En þrátt fyrir þetta ástand var þjóðin samstíga um fullveldið. Og síðan þá hefur fullveldið reynst þjóðinni aflgjafi í þeirri ótrúlegu sögu framfara og velsældar sem hefur einkennt íslenskt samfélag þessa undangengnu öld.

Hinar erfiðu aðstæður haustið 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki minna okkur á að miklu má áorka þó að ytri aðstæður séu ekki endilega hagfelldar. Saga fullveldisins einkennist af stórhug og framförum og sést í stofnun Háskóla Íslands, byggingu Landspítalans, uppbyggingu menningarstofnana en ekki síður með baráttu fjöldahreyfinga á borð við verkalýðshreyfinguna og kvennahreyfinguna sem hafa skilað sigrum sem hafa gerbreytt samfélagi okkar til góðs. Almannatryggingar, fæðingarorlof og fleiri slíkir sigrar hafa stuðlað að jafnari kjörum fyrir okkur öll. Metnaður, barátta og samstaða þegar á þurfti; allt hefur þetta einkennt sögu fullveldisins og skilað okkur samfélagi sem er gjörólíkt íslensku samfélagi ársins 1918 hvað varðar efnahagslega velsæld og velferð, svo stórfelldar hafa breytingarnar orðið á skömmum tíma.

En hvert stefnum við nú einni öld síðar? Gildin sem við höfðum að leiðarljósi, land, þjóð og tunga eru enn þungvæg þó að samfélagið hafi breyst. Um leið og við tökumst saman á við þá áskorun að efla íslenska tungu í gerbreyttum heimi fögnum við því að á Íslandi eru núna töluð svo miklu fleiri tungumál en fyrir hundrað árum.

Þjóðin er sömuleiðis orðin töluvert fjölbreyttari en árið 1918 því að samfélag okkar er lifandi og síbreytilegt. Við eigum að fagna þeirri mikilvægu fjölbreytni sem gerir þjóðina ríkari og tryggja að við öll sem hér búum saman höfum hvert um sig sterka rödd í samfélagi okkar óháð uppruna og óháð trúarbrögðum. Við eigum aldrei að leyfa hatursorðræðu að ná fótfestu í okkar samfélagi.

Landið hefur einnig tekið miklum breytingum ekki síst fyrir gjörðir okkar mannanna. Þar stöndum við á tímamótum, þar hvílir sú skylda á okkur að vernda þá ósnortnu náttúru og víðerni sem við eigum en eru orðin sjaldgæf verðmæti í æ manngerðari heimi.

Í dag horfum við saman til framtíðar. Við afgreiðum hér tillögur sem annars vegar snúast um auðlindarannsóknir á hafinu sem alla tíð hefur mótað þessa eyþjóð, verið uppspretta lífsbjargar okkar en er að breytast, ekki síst vegna loftslagsbreytinga af manna völdum. Og hins vegar tillögu um barnamenningarsjóð til næstu fimm ára sem á að tryggja þátttöku allra barna í sköpun og menningu. Tillagan endurspeglar skýran vilja Alþingis til að horfa sérstaklega til barna og ungmenna og þannig til framtíðar.

Samfélög eiga ekki síst að vera mæld eftir því hvernig þau koma fram við börn og hvernig þau tryggja að öll börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína þannig að þau nái að dafna og fylgja draumum sínum eftir. Þannig tryggjum við gott samfélag, jafnaðarsamfélag.

Fullveldisafmælið snýst bæði um að minnast þess framsýna fólks sem barðist fyrir fullveldinu á erfiðum tímum og að strengja heit inn í framtíðina. Í fullveldishugtakinu sjálfu felst nefnilega fyrirheit um framtíð og þau samfélög sem hafa trú á framtíðinni hlúa einkum og sér í lagi að börnum sínum. Ég fagna þeirri trú á framtíðina sem birtist hér á Alþingi í dag, 18. júlí 2018.

Ræða: Steinunn Þóra Árnadóttir

Kæru landsmenn,

Það líður senn að lokum þessa þings og þar með lokum fyrsta þingvetrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þá er rétt að líta yfir það sem áorkast hefur – en einnig til þeirra verkefna sem ekki er lokið og enn er verið að vinna að. Því þannig er það með samfélag – vinnan við það að móta það er alltaf í gangi og er aldrei lokið.

Gott samfélag er fyrir alla. Öll eigum við að geta notið okkar, bæði með því að leggja okkar af mörkum til samfélagsins og fá þann stuðning sem við þurfum á að halda.

Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að hækka frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna, í takti við áherslur og kröfur eldri borgara. Það er þó vitað að það geta ekki allir í þeim hópi bætt kjör sín með aukinni atvinnuþátttöku. Því er í fullum gangi vinna sem miðar að úrbótum til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir.

 

Virðulegi forseti,

Eftir tæpan mánuð tekur gildi ný gjaldskrá til að draga úr greiðsluþátttöku aldraðra og öryrkja vegna tannlæknaþjónustu. Eftir því hefur lengi verið beðið. Eins hefur heimilisuppbót örorkulífeyrisþega verið hækkuð en vitað er að lífeyrisþegar sem búa einir búa við hvað kröppust kjör. Hafið er samstarf um breytingar á uppbyggingu almannatryggingakerfisins og þegar búið að gera ráð fyrir að frá og með árinu 2019 verði 6 milljörðum árlega varið til viðbótar inn í kerfið til að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Við heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu, sem ljúka skal á þessu ári, verður svo sérstaklega hugað að samspili skattkerfis og bótakerfa.

Ólíkir hópar eru í ólíkri stöðu og því eru ekki til neinar töfralausnir sem gagnast öllum. Þetta verðum við að hafa í huga þegar öryggisnetið sem velferðarkerfið okkar er, er tekið til endurskoðunar og bætt. Í þessu sambandi er ábyrgð atvinnulífsins einnig mikil. Ekki er nóg að byggja upp öflug mennta- og endurhæfingarkerfi ef vinnumarkaðurinn er ekki til í að horfast í augu við mismunandi færni, bakgrunn og aðstæður fólks. Fyrirtækin í landinu, almenningur og hið opinbera verða að taka höndum saman og breyta viðhorfum okkar sem samfélags til atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu.

 

Þegar þingveturinn er gerður upp er ekki hægt að sleppa því að nefna lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem einnar tegundar þjónustu við fatlað fólk, ásamt breytingum á lögum um félagsþjónustu. Við vinnslu þessara mála sýndi Alþingi sínar bestu hliðar þar sem fólk úr ólíkum flokkum lagði sig fram um að ná breiðri sátt með hag þeirra sem þjónustuna nýta að leiðarljósi.

 

 

Góðir tilheyrendur

Kjör þeirra sem verst standa hljóta ætíð að vera lykilviðfangsefni okkar sem störfum í stjórnmálum. En við verðum ekki síður að horfa til mála sem varða heimsbyggðina alla og framtíð afkomenda okkar – umhverfismálanna.

Framlög til umhverfismála hafa verið aukin um 35% frá því að ríkisstjórnin tók við. Fjármögnuð áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum – og þá einkum á friðlýstum svæðum – hefur verið kynnt og unnið er að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs.

Við sem samfélag og mannkyn stöndum frammi fyrir áskorunum varðandi björgun hnignandi vistkerfa og sívaxandi plastmengunar. Stærsta viðfangsefnið er þó baráttan gegn hlýnun jarðar. Miklar vonir eru bundnar við nýtt Loftslagsráð sem hefur störf í þessum mánuði. Stóraukin landgræðsla og endurheimt votlendis kunna að vera mikilvægir þættir í þeirri baráttu, en þó er ljóst að stórfelld orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti í endurnýjanlega orkugjafa er lykilatriði. Orkustefna fyrir Ísland til 20 -30 ára sem nú er unnið að, ásamt orkuskiptum i höfnum landsins eru þar gríðarlega mikilvæg.

Áhrif hnattrænnar hlýnunar raskar þegar lífi milljóna. Og eins og svo oft vill henda í kapítalísku samfélagi eru fórnarlömbin helst úr röðum þeirra fátæku, þeirra landslausu, kvenna og barna. Þetta er barátta sem við megum ekki tapa og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og við í Vinstri – grænum ætlum að leggja okkar af mörkum.

 

Góðar stundir!

 

Ræða: Ólafur Þór Gunnarsson

Herra forseti, góðir landsmenn

Sá þingvetur sem nú fer senn að líða er merkilegur fyrir margra hluta sakir.

Kosningar í annað sinn í október, og fjárlög fyrir vikið unnin á skemmri tíma en ella.

Ríkisstjórn samsett með þeim hætti að tíðindum sætir.

Alþingi hélt rakarastofudag í kjölfar meetoo byltingarinnar fyrst þjóðþinga.

Ríkisstjórnin hefur setið í rúmlega hálft ár, og fjármálaáætlunin sem hún hefur lagt fram ber þess skýr merki á hvaða vegferð hún er.

Framlög til heilbrigðismála eru stóraukin, losa 20% í aukningu á tímabili áætlunarinnar. Bygging Landspítala við Hringbraut er fjármögnuð og gert verður stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Á næstu fimm árum er stefnt að því að greiðsluþátttaka sjúklinga lækki jafnt og þétt og nái sömu viðmiðum og í hinum norrænu velferðarríkjunum.  Sú vegferð hófst strax um áramót með 500 milljóna framlagi til aukinnar niðurgreiðslu tannlæknaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja.  Fleiri skref verða stigin á næstu misserum.

Nú nýlega var stofnuð þróunarmiðstöð heilsugæslunnar.  Ríkisstjórnin vill með þessari aðgerð efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu. Með þessu skrefi verður hægt að efla menntun hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu, efla rannsóknastarf og fjölga námsstöðum fyrir heimilislækna. Allt skref sem lengi hefur verið talað um en er nú hrint í framkvæmd.

Stóraukin framlög til velferðarmála, með 6 milljarða innspýtingu á ári í almannatryggingakerfið  mun bæta hag aldraðara og öryrkja. Fyrstu skrefin voru stigin um síðustu áramót, en betur má ef duga skal. Þegar er hafin vinna við næstu skref, í samráði við hagsmunaaðila.

Þá hafa atvinnuleysisbætur þegar verið hækkaðar.  Hámarksupphæðir í fæðingarorlofi voru hækkaðar ums.l. áramót og næstu skref verða lenging fæðingarorlofs og frekari hækkun fjárframlaga. Sú vegferð verður farin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Tekjuöflun ríkissjóðs og hvernig skattbyrðinni er dreift  þarfnast sífelldrar endurskoðunar. Við gerð fjárlaga var stigið skref til að hækka skatta á fjármagn, jafnhliða því að afsláttur vegna minni fjármagnstekna var aukinn. Þannig eru byrðar fluttar á þá sem eiga fjármagn, en ein helsta gagnrýnin á skiptingu auðs í landinu hefur einmitt verið á það hversu lítið  fjármagns eigendur hafa lagt af mörkum.

Grænir skattar hafa einnig verið hækkaðir og áfram verður haldið á þeirri braut.  Þá mun gistináttagjald renna til sveitarfélaganna, sem er fyrsti nýi tekjustofn þeirra um langt skeið. Með því er komið til móts við kröfur sveitarfélaganna um tekjur af ferðaþjónustunni. Þetta mun skipta miklu máli fyrir sveitarfélögin, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðunum.

Ríkisstjórnin hefur einnig stuðlað að eflingu strandveiða, sem hafa mest áhrif í hinum dreifðu byggðum. Mikilvægt er að endurákvörðun veiðigjalda nýtist litlum og meðalstórum útgerðum best, með sérstökum afslætti, og hjálpi þannig til við að hindra of mikla samþjöppun í greininni. Mikilvægt er sömuleiðis að álagning gjaldanna verði færð nær í rauntíma, og tryggt að gjöldin verði betur afkomutengd.

Sú innspýting sem framundan er í innviðauppbyggingu mun koma á heppilegum tíma fyrir hagkerfið sem hefur nú hægt á mesta vextinum í kjölfar stóraukningar í ferðaþjónustu. Stórframkvæmdir í vegamálum, vegna uppbyggingar landspítala og fleiri verkefna i heilbrigðiskerfinu munu hjálpa við að halda stöðugu atvinnustigi.

Oft er talað um að Íslendingar séu ein stór fjölskylda. Hagsmunir okkar allra séu í grunninn svipaðir og einsleitni samfélagsins mikil.  Í  vel heppnuðum fjölskyldum er hlustað á sjónarmið allra og öllum hleypt að borðinu.

Vinstri græn hafa verið gagnrýnd fyrir að taka þátt í stjórnarsamstarfi. Við lýtum hins vegar þannig á að með þátttökunni öxlum við ábyrgð, tökum að okkur að bera hluta byrðanna og hafa áhrif á alla ákvarðanatöku.

Samfélag er samsett úr mismunandi hópum og sjónarmiðum.  Alþingi endurspeglar þann raunveruleika nú betur en oftast áður.  Það er hlutverk okkar allra að hlusta eftir mismunandi röddum, líka þeim sem við kunnum að vera ósammála, og komast í sameiningu að sanngjarnri niðurstöðu. Þannig byggjum við samfélag sem við getum öll kallað okkar.