Ég á hana!

Ég fór í bíó um síðustu helgi með sex ára syni mínum. Sáum teiknimynd um lítinn karlkyns fuglsunga sem horfði upp á föður sinn drepinn, var rænt af óhugnanlegum ketti og svo yfirgefinn af fjölskyldu sinni. Áður en að þeim hörmungum kom kynntist unginn kvenkyns unga og úr því var gerð rómantísk sena, þau kysstust og urðu auðvitað ástfangin. Skýr skilaboð um að stelpa og strákur eigi að verða ástfangin, þau geta ekki bara verið vinir. Myndin er stútfull af skaðlegum stöðluðum karlmennskuímyndum, sem mig langar aðeins að velta fyrir mér í femínísku ljósi.
Skaðleg karlmennska byggist til dæmis upp á skorti á tilfinninganæmni. Það er akkúrat það sem einkennir ungann. Hann er staðráðinn í að bjarga fjölskyldu sinni og ástinni og syrgir aldrei pabba sinn né það að vera yfirgefinn. Annað dæmi um skaðlega karlmennsku er að karlmenn eigi að bjarga sér og öðrum. Þriðja dæmið er fyrirhafnarlaus snilli: að að þurfa ekki að æfa sig og leggja mikið á sig til að ná árangri, heldur sé dyggð karlmennskunnar að vera fæddur sigurvegari. Læra ekkert fyrir próf en fá samt 9. Unginn leyfir okkur að njóta allskonar fyrirhafnarlausrar snilli sinnar í gegnum teiknimyndina.
Fjórða dæmið og það allra versta var þó þegar unginn sagði reiðilega: „ÉG Á HANA! ÉG Á HANA!” um vinkonu sína þegar hann sá hana fyrir sér með öðrum strák. Þessi sjúka ást, reiði og afbrýðisemi er síðan það sem fær ungann til að læra að fljúga og vera hugrakkan. Hræðileg framsetning og hræðileg skilaboð. Þarna er gefið í skyn að afbrýðisemi sé eðlileg birtingarmynd ástar og að eignarhald karlkyns yfir kvenkyni sé í lagi. Strax í teiknimyndum er byrjað að undiskipa konur. Feðraveldið er mætt.
Þessi birtingarmynd á karlmennskunni er síendurtekið þrástef í miklu barnaefni og skapar þannig hugmyndir barna um það sem telst gott og rétt. Allt frá því að við höfum varla hugmynd um hver við erum. Karlmennskan, kynjatvíhyggjan, gagnkynhneigðarhyggjan og mismununin er búin til í teiknimyndum og viðhaldið af okkur sjálfum í algjöru andvaraleysi. Af því að hún er svo ótrúlega samofin veruleika okkar. Mér hefði þótt gaman að sjá karlkyns og kvenkyns ungann verða góða vini, sleppa þessari rómantík hjá ungunum. Það hefði mátt gefa tilfinningum ungans meiri gaum, ekki sýna hann sem nánast tilfinningalausa hetju sem heldur áfram sama á hverju dynur, drifinn áfram af afbrýðisemi og mikilmennsku. Fyrir utan að það hefði auðvitað mátt hafa kvenkyns ungann sem aðalsöguhetjuna eða allavega sýna tvær kvenkyns persónur tala saman um annað en karlkyn. Mér finnst að ábyrgð þeirra sem búa til teiknimyndir fyrir börn þurfi að vera meiri en sú að ala á skaðlegum staðalmyndum. Af því að það er akkúrat þessi framsetning karlmennskunnar sem á þátt í afbökuðum samskiptum kynja. Þetta er karlmennskumein sem við þurfum að taka ábyrgð á í sameiningu, að byggja upp betri karlmennsku. Það er eftirspurn eftir henni.
Þorsteinn V. Einarsson, er frambjóðandi í forvali VG í Reykjavík.

Vatnsból í hættu

Við vitum öll að vatn er ein af okkar mikilvægustu auðlindum, undirstaða alls lífs á jörðinni og að án þess gætum við ekki lifað. Við sem búum á Íslandi njótum þeirra forréttinda að hafa aðgang að einna hreinasta og besta vatni í heimi. Því þurfum við að vera vakandi fyrir öllu því sem kann að hafa áhrif á vatnsból okkar, hafa með þeim reglulegt og virkt eftirlit og gera ríkar kröfur um að vernda grunnvatn vatnsverndarsvæða.

Risaframkvæmd innan vatnsverndarsvæðis

Um langt skeið hefur Landsnet verið að undirbúa lagningu háspennulína yfir vatnsverndarsvæði alls höfuðborgarsvæðisins, svokallaðrar Lyklafellslínu (Sandskeiðslínu 1). Slíkri framkvæmd fylgir stórfellt og óafturkræft rask og hættan á því að vatnsból okkar mengist getur orðið veruleg. Það er líka í andstöðu við ákvæði reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns en þar segir í 13. gr. um grannsvæði: „Á þessu svæði skal banna notkun á hættulegum efnum og birgðageymslu slíkra efna. Hér er m.a. átt við olíu, bensín og skyld efni, salt, eiturefni til útrýmingar á skordýrum eða gróðri og önnur efni sem mengað geta grunnvatn, auk efna sem sérstaklega eru tilgreind í reglugerð um neysluvatn.“

Framkvæmdaleyfi línunnar byggir á umhverfismati sem er nær tíu ára gamalt og samkvæmt dómi Hæstaréttar uppfyllti matsferlið og umhverfisskýrslan sem lá framkvæmdunum til grundvallar ekki þann áskilnað sem gerður er í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það hlýtur því að vera ófrávíkjanleg lágmarkskrafa að nýtt umhverfismat fari fram fyrir nýjum línulögnum þegar vatnsvernd meirihluta landsmanna er í húfi.

Nú hafa öll nágrannasveitarfélög Reykjavíkur, sem fara með skipulagsvald á svæðinu, gefið út framkvæmdaleyfi, þrátt fyrir hávær mótmæli íbúa og umhverfisverndarsamtaka. Það segir sína sögu að nánast öll framkvæmdaleyfin hafa verið kærð.

Óþörf stórframkvæmd

Forsendurnar fyrir framkvæmdum háspennulínanna sem lengi hafa verið á teikniborðinu eru brostnar. Uppbyggingaráform um álbræðslu í Helguvík virðast hafa verið blásin af, engin stækkun hefur átt sér stað í Straumsvík og illa er komið fyrir kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík. Fjölgun netþjónabúa virðist einnig vera fjarlægur draumur. Þá má nefna að Hverahlíðarvirkjun og Bitruvirkjun eru ekki lengur á dagskrá og ekki heldur stækkun Reykjanesvirkjunar og virkjun í Eldvörpum. Frá því að umhverfismatið var gert fyrir tæpum tíu árum hafa ný lög um náttúruvernd tekið gildi og einnig ný samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla fyrir höfuðborgarsvæðið. Þetta skiptir allt máli þegar málið er skoðað í dag í nýju ljósi.

Það liggur því í augum uppi að ekki þarf að ana að neinu í lagningu línanna. Í þessu máli þarf að gæta sérstakrar og fyllstu varúðar og aðhafast ekkert sem setur vatnsból okkar í hættu. Af framangreindu má sjá að gera þarf nýtt umhverfismat og endurskoða þetta mál heildstætt og frá grunni. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa allra þeirra sem drekka vatn úr Gvendarbrunnum að svo sé gert?

Höfundur er forseti borgarstjórnar og oddviti Vinstri grænna 

, ,

Fundur á Selfossi um sveitarstjórnarmál í gær.

Ari Trausti Guðmundsson og Katrín Jakobsdóttir ræddu sveitarstjórnarmàl á góðum fundi á Selfossi í gærkvöld. Framtíð íslenskunar, samgöngumál, heilbrigðismál og menntamál voru meðal umræðuefna. Katrín fór hratt yfir sögu hvernig hún hefur farið úr 18. sæti á lista VG í borginni yfir í forsætisráðuneytið og hvatti fundargesti til þátttöku í sveitarstjórnum. Allt geti gerst í stjórnmálum og það sé það sem geri starfið svo skemmtilegt.

 

 

,

Fundur með Katrínu á Hótel Selfossi þriðjudagskvöldið 13. febrúar.

Vilt þú taka þátt í að móta þitt nærsamfélag?
Hefur þú áhuga á skipulagsmálum, fræðslumálum, menningarmálum, málefnum eldri borgara eða öðrum sveitarstjórnarmálum?
Við ætlum að hefja undirbúning fyrir sveitastjórnarkosningar og blásum til fundar þriðjudagskvöldið 13. febrúar kl. 20:30 á Hótel Selfoss.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra verður gestur fundarins og ætlar að segja frá sínum afskiptum af sveitastjórnarmálum og hvernig við getum öll haft áhrif.
Fundarstjóri: Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG í Suðurkjördæmi.
Vertu með í að móta framtíðina.
Öll velkomin!

Það sem gleður og grætir, hrærir og ögrar

 

Fyrir ekki fyrir svo löngu spurði skeleggur menningarritstjóri á RÚV vini sína á samfélagsmiðlum eftirfarandi spurningar: „Hvaða listaverk – leikrit, mynd, lag eða bók – manstu eftir að hafi síðast haft raunveruleg áhrif á þig; gladdi þig, grætti, hrærði eða ögraði – nokkurn veginn allt nema að vekja leiða?“

Auðvitað spruttu upp ýmsar minningar. Persónulega man ég eftir að hafa staðið gersamlega á öndinni við að upplifa The Visitors eftir Ragnar Kjartansson og finna fyrir gleðitárum renna niður kinnar. Yfir hinu sammannlega, hinu einlæga sjónarhorni listamanns og samstarfsfólks hans að fanga gleðina í hinu hversdagslega en um leið stórkostlega. Samsöngurinn í hægri uppbyggingu, sem sýndi hve sérstök við erum öll sem einstaklingar – en um leið svo lík sem heild. Magnað.

En að því sögðu var það þó ein bók sem kom upp í hugann, þegar ég las þessa spurningu fyrst. Bók sem væri tæplega hægt að flokka sem listaverk, eða alltént ekki sem fagurbókmenntir. En þessi bók uppfyllti allar kröfur á listanum; hún gladdi mig og grætti, hrærði og ögraði. Þessi bók heitir Streetfight: Handbook for an Urban Revolution og er eftir Janette Sadik-Khan, fyrrverandi samgöngumálastjóra New York-borgar. Þessi bók er í stuttu máli talin til skyldulesefnis fyrir fólk sem hefur áhuga á borgarmálum. Og ætti að vera skyldulesefni fyrir fólk sem fjallar um borgarmál.

Já, þessi grein er að fara þangað. En þetta er áhugavert, ég lofa!

Borgarbylting lífsgæða

Sadik-Khan var yfirmaður samgöngumála í New York frá 2007 til 2013. Bókin sem hún skrifaði er leiðarvísir í borgarhönnun, eða öllu heldur borgarendurhönnun. Hún er einnig ævisöguleg, þar sem í bókinni má lesa um baráttu Sadik-Khan fyrir betri borg. Þær hindranir sem hún þurfti að yfirstíga og um þann áróður sem var notaður gegn henni.

Breytingarnar sem henni eru þakkaðar mættu gríðarlegri mótspyrnu frá fréttamiðlum. Sérstaklega frá þeim sem teljast til hægri vængsins en í raun frá fjölmörgum körlum sem þóttust vita betur. Frá hagsmunaaðilum í olíu-og bílaiðnaðinum. Frá pólitískum andstæðingum. Aðilum sem höfðu á sínum snærum ógrynni fjármagns, ógrynni úrræða til að gera lítið úr öllu því sem hún stóð fyrir. (Var notað gegn henni að hún er kona? Ójá).

En sko. Besta er… Yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa lýstu yfir ánægju með hennar störf. Fólkið sjálft studdi þær breytingar sem hún stóð fyrir og taldi þær jákvæðar.

 

Meðal þessara breytinga var að umbreyta malbikuðum illa nýttum götum í almannarými. Torg og græn svæði. Þar sem verslun og menning blómstrar. Þetta gerði hún á yfir 60 stöðum í borginni. Hún lagði áherslu á fjárfestingar í innviðum borgarinnar sem myndu hvetja til fjölbreyttari samgöngumáta. Hún lagði yfir 90 kílómetra af hjólastígum og gerði forgangsakreinar fyrir strætisvagna á sjö fjölförnustu leiðum borgarinnar (í raun #borgarlína). Hún lagði grunninn að CitiBike, hjólapóstum þar sem jafnt borgarbúar og gestir í New York geta fengið lánuð hjól sem er svo skilað á næsta póst. Í dag eru 12.000 slík hjól í umferð í New York.

 

Og vitið þið hvað? Þetta bar árangur. Auðvitað! Umferð gengur betur nú en nokkru sinni fyrr. Umferðaröryggi er meira um leið og lífsgæði hafa aukist. Þessar breytingar höfðu einnig í för með sér fjárhagslegan ávinning fyrir borgina. Beint og óbeint. Mislæg gatnamót og aukaakreinar heyrðu sögunni til. Enda engin þörf fyrir. Hugsiði ykkur alla milljarðana sem sparast, sem hægt er að verja í þarfari hluti eins og menntun barna, umönnun aldraðra eða menningarstarf um alla borg.

Endurtekin saga. Aftur og aftur og aftur og aftur og aftur

En til hvers að rifja þetta upp, hér og nú? Ástæðan er ef til vill aukinn áhugi fólks á samgöngu-og skipulagsmálum. Ef fram heldur sem horfir verður það eitt helsta, ef ekki helsta, hitamálið í komandi sveitarstjórnarkosningum, í öllu falli á höfuðborgarsvæðinu. Það væri því ekki úr vegi, að fjölmiðlafólk sem kýs að fjalla um slík mál myndi sýna fræðunum aukinn áhuga, því það er jú fjölmiðlafólkið sem þarf að miðla staðreyndum – og passa um leið að sigta út kjaftæðið. Nóg er til af því. Ábyrgðin er mikil og það verður að sýna efninu tilhlýðilega virðingu.

Það er nefnilega nokkuð spaugilegt að fylgjast með þessu. Fjölmiðlaumfjöllun sem fer fram um borgarmál er oftar en ekki afgreidd án nokkurrar aðkomu sérfræðinga. Eða þar sem fólk út í bæ fær að hafa jafnháa rödd og fólk sem hefur helgað borgarfræðum náms-og starfsferil sinn. Flest erum við væntanlega sammála um að þetta er gallinn við fjölmiðla í víðari skilningi. Að sjálfsögðu höfum við öll skoðanir sem eiga rétt á að heyrast. En við verðum að gera greinarmun á áliti sérfræðinga annars vegar, og leikmanna hins vegar. Og við verðum að sigta kjaftæðið frá þegar því er að skipta.

Fólk þráir nefnilega að skilja umhverfi sitt betur. Hvers vegna er verið að þétta borgina? Hvað græðir fólk á því? Þetta er nefnilega ekki eitthvað hugðarefni eða óútskýrt áhugamál einhverra vinstri sinnaðra pólitíkusa? Alls ekki. Þetta er þverpólitísk og fræðileg niðurstaða sem er verið að framkvæma um allan heim. Þétta byggð, bæta almenningssamgöngur. Um þetta fjallar meira að segja World Economic Forum, að bíllinn sem samgöngumáti hafi runnið sitt skeið. Þetta er nú ekki meiri jaðarskoðun en það. Á Íslandi hafa allir stærstu hagsmunaaðilar á húsnæðismarkaði áttað sig á þessu. Allir viðskiptabankarnir, Reitir, Gamma, Samtök atvinnulífsins. Meira að segja Hagar hafa sett þá stefnu að hætta að opna nýjar verslanir í útjaðri hverfa. Verslanir verða hér eftir innan hverfa, til að auðvelda fólki að nálgast verslun og þjónustu í næsta nágrenni. Það er hins vegar hulin ráðgáta hvers vegna Samtök iðnaðarins hafa tekið vandræðalega einarða afstöðu á móti þéttingu byggðar. Greining frá Byggingarfulltrúa hefur sýnt að byggingartíminn er skemmri á þéttingarsvæðum, þvert á það sem SI hefur haldið fram. Þar að auki er mun umhverfisvænna að byggja á landi sem hefur þegar verið brotið undir byggð. Þar er hægt að nýta innviði sem eru þegar til staðar. Gatnakerfi, holræsakerfi, rafmagn, vatnsveitukerfi, skóla, leikskóla. Að brjóta nýtt land undir ný hverfi á jaðri borgarinnar er ótrúlega kostnaðarsamt og skilur eftir sig djúpt, óafturkræft vistspor. Þetta mætti alveg koma fram öðru hverju þegar um umfjöllun birtist um þéttingu byggðar.

Setjum okkur í alþjóðlegt samhengi

Þetta er endurtekin saga. Þegar kemur að umræðum um Borgarlínu, sem dæmi, er í raun hægt að gera copy/paste á umræður sem fóru fram um Bybanen, léttlestarkerfi Björgvinjar í Noregi. Sú borg er um margt lík höfuðborgarsvæðinu, bæði hvað varðar stærð og veðurfar. Og þar hafði fólki verið lofað léttlest um árabil. Vegna pólitísks þrýstings var hins vegar ákveðið, á 9. áratug síðustu aldar, að skattleggja ökumenn einkabíla til að eiga fyrir miklum nýfjárfestingum í stofnvegakerfinu umhverfis borgina. Umferðin var orðin svo slæm. Tveimur áratugum síðar kom í ljós að umferðin hafði ekkert skánað. Hún var verri ef eittthvað var. Verkefnið um Bybanen var samþykkt 2005 og mótbárurnar voru þær nákvæmlega sömu og eru hér á landi. Eða, úr sömu átt. Frá Íhaldsmönnum (norska Framsóknarflokknum) og frá háværum einstaklingum sem fengu skyndilega að láta allt flakka í fjölmiðlum. Þetta er alveg hreint ótrúlegt. Nákvæmlega eins! Það er rétt að taka fram að í dag ríkir auðvitað mikil og yfirgnæfandi ánægja með Bybanen. Umferð er betri fyrir alla samgöngumáta, mengun er minni og fólk hefur fleiri valkosti. Búið er að leggja 21 km af léttlestarkerfi sem verður aukið enn meira nú á næstu árum.

Það myndi spara heilmikinn tíma og þras um borgarmál ef við gætum hugað að þróuninni í kringum okkur. Hvað er verið að gera í samanburðarlöndum okkar? Hver hefur árangurinn verið? Ef við tökum fréttir úr miðbænum sem dæmi, þá er alltaf sama sagan. Það er alltaf hægt að gera frétt úr því þegar einn verslunareigandi kvartar yfir því að opnað sé fyrir gangandi fólk á Laugavegi. Jújú, þetta skapar spennu og er alveg örugglega lesið. En hvar er fréttin frá fréttaritara RÚV í Noregi? Gæti hann vinsamlegast staðið á Karl Johans gate í Ósló og spurt fólk, mjög blákalt og einfaldlega: „Myndirðu ekki vilja fá bílaumferð hingað aftur?“ Það er kannski ekkert leyndarmál, en það eru ekki nema rétt tveir áratugir síðan opnað var fyrir fólk en lokað fyrir bíla. Sömu spurningar má reyndar spyrja í Kaupmannahöfn, þar sem bílaumferð var á Strikinu allt til 1965. Hve mörg myndu vilja fá þá umferð aftur? Ég bara spyr.

Þetta þarf nefnilega ekki að vera svona erfitt. Sérfræðingar um borgarmál eru víða og það er eftirspurn eftir því að skilja borgarfræðin betur. Og það er til gnótt af frábæru lesefni. Hvað er það sem raunverulega bætir lífið, umhverfið í kringum okkur? Til sérfræðinga má alltaf leita og fólk verður ekki fyrir vonbrigðum. Því, ykkur að segja, þá eru þessi fræði alveg yfirgengilega skemmtileg. Þau geta nefnilega glatt og grætt, ögrað og hrært, og það allt í senn.

Ef þið ætlið bara að lesa eina bók í ár, lesið þá þessa bók. Mæli með.

Björn Teitsson, frambjóðandi í prófkjöri Vinstri grænna í Reykjavík

Af aumingjavæðingu og aðstoð við þá sem þurfa hjálp

 

 

Talsverð umræða hefur verið í samfélaginu um stöðu ýmissa jaðarsetta hópa. Það er sérstaklega ánægjulegt að fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málefni utangarðsfólks, því fáir ef nokkrir hópar í samfélaginu eru meira jaðarsettir en þeir sem teljast utangarðs.

 

Vaxandi skilningur á vanda utangarðsfólks, sem margt glímir við fíknisjúkdóma, birtist meðal annars í því að heilbrigðisráðherra ætlar að skoða möguleika á því að opna neyslurými fyrir fíkla. Skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við fíkla snýst ekki um lögleiðingu fíkniefna heldur afglæpavæðingu neyslu og rétt fólks til þjónustu óháð félagslegri stöðu.

 

En þó skilningur á vanda margra jaðarsettra hópa hafi aukist virðist samfélagsumræðan oft vera komin á þann skrýtna stað að meta þurfi hverjir séu „verðugir“ notendur velferðarþjónustunnar. Þetta birtist í dylgjum um að stór hluti þess fólks sem nýtir sér velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga sé að svindla. Eða að fólk þurfi bara að „hætta þessu væli“. Það þurfi að redda sér sjálft.

 

Þessari mannfjandsamlegu hugmynd hefur t.d. verið haldið á lofti af einum af frambjóðendunum í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni sem fram fór á dögunum. Sá talaði um „aumingjavæðingu“, og mátti skilja af orðum hans að fólk sem þyrfti aðstoð hefði það of gott. Mikið af þessu fólki væri ekkert nema afætur á samfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn gerði ekkert til að sverja þennan málflutning af sér, enda eiga þessar hugmyndir sér því miður hljómgrunn í samfélaginu.

 

Ég sé það ekki fyrir mér að einstaklingur sem leitar sér læknisaðstoðar vegna hjartaáfalls yrðri véfengdur af samfélaginu. Hinsvegar virðist það algengt viðhorf að einstaklingar sem glíma við geðræn veikindi og fíknisjúkdóma eigi bara að hætta að kvarta og finna sér almennilega vinnu. Ég hélt lengi vel að þessar skoðanir væru á undanhaldi og ég vona svo sannarlega að það sé raunin.

 

Nú er ég ekki að tala gegn reglum og eftirliti í velferðarþjónustunni, en á hvaða forsendum er velferðarþjónusta veitt? Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem glímir við geðræn veikindi og fíknisjúkdóma á erfiðara með að leita sér læknishjálpar en aðrir hópar í samfélaginu. Fjölmörg mikilvæg skref hafa verið stigin í átt að skaðaminnkandi nálgun í þjónustu. Ber þar helst að nefna verkefnið Frú Ragnheiði sem sinnir nálaskiptaþjónustu og grunnheilsugæslu fyrir þá sem teljast utangarðs. Viðhorfsbreyting samfélagsins er hafin, en betur má ef duga skal. Við þurfum að hverfa frá ölmusumiðuðu kerfi sem tortryggir fólk yfir í réttindamiðað kerfi sem býður fólk velkomið.

 

Fólk sem þarf aðstoð og hjálp á ekki skilið að mæta ásökunum um leti og óheiðarleika, heldur þarf að mæta hverjum og einum með virðingu og skilningi. Það er verkefni okkar allra sem samfélags að tryggja það að engin falli milli skips og bryggju.

 

Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

 

 

Fjölgun borgarfulltrúa er aðkallandi lýðræðismál

 

Árið 1908 kusu íbúar þess sem þá hét Reykjavíkurbær sér 15 fulltrúa í bæjarstjórn. Reykvíkingar voru þá  11.016. F-listi Kvennalistans vann yfirburðasigur, fékk 345 atkvæði, heil 21,3% og 4 bæjarfulltrúa. Nú 110 árum síðar heitir Reykjavíkurbær Reykjavíkurborg og íbúarnir eru 123.246. En þó við bæjarbúar séum nú meira en tífalt fleiri, höfum við borgararnir enn bara 15 fulltrúa í stjórn bæjarins.

Eins og gefur að skilja hafa stærðargráður verkefnanna og fjöldi þeirra aukist samfara vexti bæjarins. Sveitarfélögin hafa tekið við sífellt fleiri skyldum á síðustu öld, eins og rekstri grunn- og leikskóla og stóraukinni félagsþjónustu sem auðgar og bætir líf borgaranna.

Í takt við gildandi sveitastjórnarlög stendur því nú til að fjölga fulltrúunum um 8. Úr 15 í 23.

Innihaldsrýr gagnrýni á fjölgun

Sjálfstæðismenn hafa staðið gegn þessari fjölgun bæði á Alþingi og nú síðast í borgastjórn. Kjarninn í gagnrýni Sjálfstæðismanna hefur verið að sú að breytingin sé dýr.

Þessari fjölgun fylgir hins vegar sáralítill kostnaðarauki. Fundir í nefndum og ráðum borgarinnar, þar sem teknar eru ákvarðanir um öll þau mál sem varða okkar íbúana eru einfaldlega fleiri en svo að borgarfulltrúarnir 15 geti sótt þá alla. Til að bregðast við þessum aukna fjölda verkefna hefur hægt og bítandi orðið breyting á nefndarmannafyrirkomulaginu þar sem í auknum mæli þarf að leita út fyrir raðir réttkjörinna fulltrúa, ýmist til varaborgarfulltrúa eða jafnvel neðar á framboðlistum flokkanna. Í þessu felst að íbúar kjósa sér vissulega sína 15 fulltrúa í borgarstjórn, en til þess að sinna öllum þeim pólítísku skyldum sem sinna þarf eru borgarfulltrúar oft tilneyddir til þess að tilnefna fulltrúa sem eru ekki til þess kosnir af borgurum í mikilvægar nefndir og ráð borgarinnar. Fyrir þessi störf er nú þegar greitt.

Kostnaðaraukinn er því lítill sem enginn. Með fjölgun borgarfulltrúa verða einfaldlega fleiri af þessum fulltrúum með umboð kjósenda sem kjörnir fulltrúar, frekar en pólítískt skipaðir fulltrúar án réttnefnds lýðræðislegs umboðs.

Atkvæði á öskuhaugunum

En lýðræðisrökin með fjölguninni eru fleiri. Með því að fjölga borgarfulltrúum lækkar lágmarkið sem framboð þarf til að fá kjörinn fulltrúa. Nú þarf framboð um 6,7% atkvæða til að fá fulltrúa í borgarstjórn. Með því að fjölga borgarfulltrúum lækkar þetta hlutfall niður í 4.3%. Með því að hafa þröskuldinn háan ýtum við undir kerfi fárra og stórra flokka, en slíkt er úr takti við það pólítíska landslag sem fyrir löngu hefur myndast hér á landi.

Ef niðurstaðan úr borgarstjórnarkosningunum í vor myndi svipa til Alþingiskosninganna 2016 eða 2017 er auðvelt að sjá út dæmi þar sem svo hár þröskuldur myndi hafa hrapalegar afleiðingar. Fjöldi smárra flokka hafa verið að fá kosningu í grennd við þessar tölur, þar á meðal Samfylkingin, Viðreisn og Björt Framtíð. Auðvelt er að sjá fyrir sér dæmi þar sem 10%, 15% eða jafnvel 20% atkvæða borgarbúa falla dauð niður vegna þess hve þröskuldurinn er hár. Slíkt yrði til þess að borgarstjórn myndi bæði hafa mikið verra umboð frá kjósendum og grafa undan trausti almennings á lýðræðislegum kosningum. En þar að auki þvingar þessi hái þröskuldur fólk til þess að kjósa stærri flokkana af ótta við að atkvæði þeirra falli niður dauð – og þetta þekkja kjósendur vel – því hver vill sjá atkvæðinu sínu kastað á öskuhaugana?

Betra og sterkara lýðræði

Fjölgun borgarfulltrúar er því bæði nauðsynleg til þess að endurspegla þann raunveruleika sem við okkur blasir nú þegar í borgarkerfinu, með því að gefa okkur möguleika á að skipa á heiðarlegan og lýðræðislegan hátt í ráð og nefndir borgarinnar. En hún er ekki síður nauðsynleg til þess að gefa okkur réttari mynd af vilja kjósenda og styðja við betra og sterkara lýðræði, þar sem borgurunum gefst frekari kostur á að kjósa í raun það sem þeir vilja.

Höfundur situr fyrir hönd Vinstri grænna í stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og býður sig fram í 2.-4. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem fer fram þann 24. febrúar.

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson

 

 

,

Uppstillingarnefnd í Hafnarfirði

Á fundi Hafnarfjarðar félagsins þann 22. janúar var samþykkt að uppstillingarnefnd myndi stilla upp á lista flokkins fyrir bæjarstjórnakosningar nú í vor í bæjarfélaginu. Í uppstillinganefnd voru kosin Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Gestur Svavarsson og Birna Ólafsdóttir.