Aukum lífsgæði

 

Frá því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð var stofnuð fyrir nærri 20 árum hefur hugsjón hreyfingarinnar verið haldið uppi af harðduglegu fólki um land allt. Í heimabyggð er ljóst að raddir umhverfisverndar, félagshyggju og femínisma geta haft mikil áhrif enda margar mikilvægar ákvarðanir teknar af sveitarstjórnum; ákvarðanir sem varða hagsæld og velferð okkar allra.

Sveitarstjórnarmál eru nefnilega hápólitísk mál sem snerta daglegt líf okkar allra. Þar eru teknar ákvarðanir sem geta breytt lífsgæðum okkar og gildismati. Þannig hafa Vinstri-græn í meirihlutanum í Reykjavík beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar og lækkun leikskólagjalda þannig að reykvískir foreldrar borga nú lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Vinstri-græn í Norðurþingi beittu sér fyrir því að öll börn yfir tólf mánaða aldri fá nú vist á leikskólum sveitarfélagsins. Vinstri-græn í Mosfellsbæ hafa unnið ötullega að því að friðlýsa ýmis náttúruvætti í bæjarlandinu, til dæmis Álafoss í Varmá og meðal annars fyrir tilstilli okkar var Mosfellsbær fyrsta sveitarfélagið til að fá jafnlaunavottun.

Margt fleira mætti nefna sem fulltrúar Vinstri-grænna innan meirihlutasamstarfs um land allt hafa áorkað sem hefur gert samfélagið betra fyrir fólk, bætt umhverfi og jafnað stöðu kynjanna. Fulltrúar okkar í sveitarstjórnum um land allt hafa sömuleiðis veitt meirihlutum virkt aðhald, og er skemmst að minnast umræðu um boðsferðir og siðareglur bæjarfulltrúa á Akureyri sem bæjarfulltrúi Vinstri-grænna leiddi.

Málin framundan í sveitarstjórnum landsins verða mörg og ekki af minna taginu. Hvernig ætla sveitarfélögin að leggja sitt af mörkum til að ná fram kolefnishlutleysi? Þar leggja Vinstri-græn áherslu á hleðslustöðvar fyrir rafbíla, öflugri almenningssamgöngur, þ.m.t. Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, minna plast og minni sóun í öllum stofnunum sveitarfélaga og náttúruvernd bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Hvernig ætla sveitarfélögin að tryggja betra samfélag fyrir íbúa sína? Þar leggja Vinstri-græn sérstaka áherslu á húsnæðismál og að sveitarfélögin verði meiri gerendur í uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði þannig að venjulegt fólk geti verið öruggt um að hafa þak yfir höfuðið. Sömuleiðis eru skólamál lykilatriði; að sveitarfélögin bregðist við þeim vanda sem blasir við í mönnun bæði grunnskóla og leikskóla, tryggi góðar starfsaðstæður fyrir kennara og leggi sitt af mörkum við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Þegar kemur að jafnréttismálum eru sveitarfélögin í lykilaðstöðu til að gera enn betur. Meðal annars með því að innleiða jafnlaunavottun en sömuleiðis með gagnsærri og skýrri kjarastefnu þar sem launafólk fær mannsæmandi laun og karlar og konur eru metin til jafns. En líka með því að taka á málum sem tengjast kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni. Þar hafa stjórnvöld stigið mikilvæg skref, meðal annars með heilstæðri og fjármagnaðri áætlun um hvernig á að taka á kynferðisofbeldi og áætlunum um hvernig á að taka á kynbundinni og kynferðislegri áreitni.

Það liggja tækifæri víða. Ríkisstjórnin vinnur ötullega að því að tryggja að sú efnahagslega hagsæld sem við höfum séð að undanförnu skili sér inni í samfélagið, með sérstakri áherslu á uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og samgangna og umbóta í almannatryggingum. Mikilvægt er að samfélagsleg uppbygging í þágu almennings fari fram um land allt á sveitarstjórnarstigi. Í kosningunum á morgun verða í boði V-listar Vinstri-grænna og óháðra í tíu sveitarfélögum. Þá eru fulltrúar Vinstri-grænna víða ofarlega á listum blandaðra framboða um land allt. Ég veit að þau munu öll sem eitt beita sér fyrir almannahagsmunum, umhverfis- og náttúruvernd, aukinni velferð og jöfnuði og jafnrétti kynjanna – málum sem miða að því að auka lífsgæði okkar allra. Við viljum samfélag fyrir okkur öll, hver sem við erum og hvaðan sem við komum, þar sem við höfum tækifæri til að skapa okkar eigin örlög, rækta hæfileika okkar og taka virkan þátt í ákvörðunum. Höfum þau sjónarmið í huga þegar við göngum inn í kjörklefann.

Katrín Jakobsdóttir. 

Þak yfir höfuðið

Öruggt húsnæði er ein af frumþörfum hvers manns. Í dag er þessar þörf ekki fullnægt í Reykjavík. Húsnæðisverð er svimandi hátt og leiguverð á almennum markaði mikið hærra en flestir geta borgað með góðu móti. Margir kjósa að reyna að eignast eigið húsnæði þó þeim fari fjölgandi sem velja að leigja. Til þess að mæta þörfum þessara hópa viljum við Vinstri-græn grípa til eftirfarandi ráðstafana:

  1. Endurreisa verkamannbústaðakerfið eða öllu heldur almenningsbústaðakerfi í samstarfi verkalýðsfélaga, ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög leggja til ódýrar lóðir, ríki og sveitarfélög leggi til stofnframlög og ríkið láni vaxtalaust. Byggingarkostnaði verði haldið í lágmarki með magninnkaupum, stöðluðum einingum og öðrum skynsamlegum ráðstöfunum svo kaupverð slíkra íbúða verði mun lægri en á almennum markaði og viðráðanlegt jafnvel fyrir þá sem lægst hafa laun. Svipuð leið hefur verið farin áður og reynst prýðilega.
  2. Sveitarfélög stuðli að eða stofni sjálf leigufélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Dæmi um slík félög sem eru að hefja byggingu leiguíbúða er félagið Bjarg sem stofnað var til að frumkvæði ASÍ. Það er ágætis framtak en það þarf miklu meira til, mun fleiri íbúðir. Þessi félög fái stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum ásamt ódýrum lóðum og lán á lægst mögulegum vöxtum. Húsaleiga hjá slíkum félögum getur orðið mun lægri en á almennum markaði. Til viðbótar njóta leigjendur öryggis, bæði samningsbundinnar langtímaleigu og vernd gegn ósanngjarnri hækkun húsaleigu.

 

Steinar Harðarson

Burt  með  allan  kísiliðnað  úr  Helguvík    

Ný  bæjarstjórn  verður  að  breyta  deiliskipulagi  í  Helguvík  og   leggja  til  bann  við    mengandi  stóriðju.    Íbúar  verða  að  fá  að  kjósa   um  breytingu  á  skipulaginu  í  bindandi  kosningu.       Í  mörg  ár  hef  ég  barist  af  krafti  gegn  kísilverksmiðjum  í  Helguvík.    Ég   hélt  íbúafundi,  skipulagði  mótmæli  og  fór  af  stað  með   undirskriftalista  til  að  knýja  fram  íbúakosningu.      Ég  hef  barist  gegn   þessum  mengandi  iðnaði  vegna  þess  að  ég  vill  ekki  fórna  náttúru  og   heilsu  minni  né    samborgara  um  ókomna  tíð.

Heilsan  er  það   dýrmætasta  sem  við  eigum  og  hún  er  ekki  til  sölu.  Framtíðin  liggur  í   ósnertri  náttúru,  heilsusamlegu  andrúmslofti  og  hreinu  vatni.

  Mengandi  iðnaður  mengar  alltaf .

Kísilver  United  Silicon  er  málefni  sem  mikið  er  rætt  í  aðdraganda   sveitarstjórnarkosninga  í  Reykjanesbæ.  United  Silicon  er   skólabókardæmi  um  hvernig  ekki  skal  gera  hlutina,  og  afleiðingarnar   skelfilegar  fyrir  alla  sem  að  komu  en  fyrst  og  síðast  fyrir  bæjarbúa,   sem  m.a  þurftu  að  líða  fyrir mikla  mengun  þann  stutta  tíma  sem  kísilverið   var  í  rekstri.

Í  þessum  kosningum  virðast  margir  framboðslistar  vera  á  móti     kísilverinu,    en  það  þarf  meira  en  orð  á  blaði,  það  þarf  að  sýna  dug  og   þor  að  taka  skrefið  alla  leið.  Það  þarf  að  stöðva  reksturinn  fyrir  fullt   og  allt.  Eflaust  gera  menn  sér  í  hugarlund  að  mengunarslysið  á   síðasta  ári  hafi  verið  mistök  í  framleiðslu  sem  hægt  verði  að  koma  í   veg  fyrir  með  betri  mengunarvörnum.    Staðreyndin  er  sú  að   mengandi  stóriðja  er  mengandi  stóriðja  hvernig  sem  hún  er   matreidd.

Íbúakosning  eða  skoðunarkönnun

Flest  framboð  í  Reykjanesbæ  tala  um  að  hér  verði  íbúakosning  um   framtíðarskipulag  Helguvíkursvæðisins,  en  hún  verði  skv.  Lögum     ekki  bindandi  kosning  og  því  alfarið  undir  bæjaryfirvöldum  kommið   hvort  unnið  sé  í  takti  við    niðurstöðu  kosningar.       Íbúakosning  sem  er  ekki  bindandi  er  gagnlaus  að  mínu  mati,  hún  er  í   raun  bara  kostnaðarsöm  skoðunarkönnun.           Í  107.  gr.  sveitarstjórnarlaga  um  íbúakosningar  segir;  “Sveitarstjórn   ákveður  hvort  fram  skuli  fara  almenn  atkvæðagreiðsla  meðal  íbúa   um  einstök  málefni.    Atkvæðagreiðsla  samkvæmt  þessari  grein,  sem   og  108.  gr.,  er  ráðgefandi  nema  sveitarstjórn  ákveði  að  hún  skuli  
binda  hendur  hennar  til  loka  kjörtímabils”.

Það  er  því  villandi  og   beinlínis  rangt  að  tala  um  að  íbúakosning  geti  ekki  verið  bindandi,   allt  sem  þarf  er  vilji  bæjaryfirvalda  að  hlusta  og  fara  eftir  vilja  íbúa.     Nærtækt  dæmi  er  þegar  Hafnarfjarðarbær  fór  í  íbúakosningu  hér  um   árið,    um  hvort  leyfa  skyldi    stækkun  álversins  við  Straumsvík  og   niðurstaðan  var  að  íbúar  höfnuðu  þeirri  stækkun.    Þarna  var   bæjarstjórn  sem  þorði  að  taka  mark  á  vilja  íbúanna.

 Ekki  gleyma  Thorsil

Allt  virðist  stefna  í  aðra  risavaxna  kísiliðju  við  hliðina  á  United  Silicon   kísilverinu.    Það  furðar  mig  að  menn  skorti  vilja  og  þor  til  að  láta  hér   staðar  numið  í  ljósi  fyrri  reynslu.       Ekki  byrjar  Thorsil  ævintýrið  vel;  Í  lóðasamningi  sem  Reykjanesbæ   og  Thorsil  undirrituðu  árið  2014,  kemur  fram  að  ef  vanskil  verði   vegna  greiðslu  á  gatnagerðargjöldum  skv.  gr.  3.1,  þá  hefur   Reykjaneshöfn  heimild  til  að  rifta  samningum  í  heild  sinni  einhliða.     Það  er  skemmst  frá  því  að  segja  að  ítrekað  hafa  bæjaryfirvöld  gefið   frest  á  greiðslu.    Þetta  segir  mér  að  stóriðjuvitleysan  heldur  áfram  í   Helguvík.    Það  er  sannarlega  mikil  vonbrigði.

 Framtíðin  er  vistvæn  og  Vinstri  græn

“Kálver  í  stað  álvers”,    var  einu  sinni  sprenghlægileg  hugmynd  en   sýnir  sig  nú  meira  og  meira  að  í  breyttum  heimi  er   matvælaframleiðsla  atvinnugrein  framtíðarinnar.       Ég  sé  fyrir  mér  Helguvík  sem  fallegt  útivistarsvæði  og  jafnvel   tjaldstæði  þar  sem  göngu-­‐og  hjólreiðarbrautir  tengja  svæðið  frá   höfninni  inn  í  miðbæ  Reykjanesbæjar.       Skip  sem  fylgja  hertum  reglum  um  hreinsibúnað  og  bruna  svartolíu,   gætu  bætt  fjárhagsstöðu  hafnarinnar  með  því  að  tengja  sig  við   rafmagn.      Ferðamenn  í  göngufæri  við  miðbæinn  væri  velkomin   lyftistöng  fyrir  verslun  og  þjónustu  bæjarins.         Við  verðum  að  sýna  hugrekki  til  að  leiða  bæinn  okkar  inn  í  nýja  tíma,   þar  sem  skýr  framtíðarsýn  og  vistvæn  stefna  fara  hönd  í  hönd  og   náttúran  og  mannfólkið  fái  alltaf  að  vera  í  fyrirrúmi.

   Dagný  Alda  Steinsdóttir   1.  sæti  VG  í  Reykjanesbæ    

Kjósum Vinstri græn á laugardaginn

Um helgina fara sveitarstjórnarkosningar fram. Þá gefst okkur öllum tækifæri til að kjósa okkar fulltrúa í borgarstjórn og bæjarstjórnum úti um allt land.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur átt sæti í ríkisstjórn síðan fyrir áramót. Á þeim stutta tíma sem ríkisstjórnin hefur starfað hefur margt áunnist. Af verkefnum ríkisstjórnarinnar má nefna að fjárframlög til heilbrigðismála hafa verið stóraukin, áætlun um stórátak í byggingu hjúkrunarrýma hefur verið kynnt af hálfu velferðarráðuneytis, ákvörðun um aukna göngudeildarþjónustu við Landspítala hefur verið tekin og unnið hefur verið að innleiðingu neyslurýma í Reykjavík. Vinna við endurskoðun jafnréttislaga er hafin og stýrihópur um úrbætur hvað varðar kynferðislegt ofbeldi hefur verið stofnaður. Í umhverfismálum hefur vinna við loftslagsstefnu og aðgerðaráætlun í Stjórnarráðinu verið hafin, fjármagni verið veitt í endurheimt votlendis og þverpólitísk nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs verið stofnuð, svo fátt eitt sé nefnt.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur einnig átt sæti í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur á síðastliðnu kjörtímabili. Meirihlutinn í Reykjavík hefur unnið hörðum höndum að bættri Reykjavík. Meðal þess sem áunnist hefur er að leikskólagjöld hafa lækkað um 85 þúsund krónur á ársgrundvelli og því eru þau lægst í Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu. Framlög til leikskólanna hafa verið aukin um 2 milljarða króna og uppbygging ungbarnadeilda til að börn komist fyrr inn á leikskóla er hafin. Vinnuvikan hefur verið stytt hjá 2.200 af 8.500 starfsmönnum borgarinnar, Bjarkarhlíð var opnuð, þar sem brotaþolum kynferðisofbeldis er veittur stuðningur og ráðgjöf, frístundastefna var bætt, auk þess sem málstefna var sett hjá Reykjavíkurborg. Svona mætti lengi telja.

Fyrrnefnd dæmi sýna að það skiptir máli hver stjórnar, hvort sem um er að ræða ríkisstjórn eða í borgarstjórn. Ef Vinstrihreyfingin – grænt framboð á sæti við borðið þar sem ráðum er ráðið tryggjum við að umhverfismál, jafnréttismál og félagslegur jöfnuður séu í forgrunni. Vinstri græn eru skýr valkostur fyrir þá sem vilja tryggja góða vinnu í borgar- og sveitarstjórnum landsins. Því sterkari sem við verðum þegar talið verður upp úr kjörkössunum um helgina, þeim mun meiri líkur eru á því að vinstristefnan hafi áhrif á næsta kjörtímabili í sveitarstjórnum. Enginn annar flokkur en VG getur náð raunverulegum árangri með vinstri stefnu og skýr græn sjónarmið.

Það er vissara að kjósa Vinstri græn á laugardaginn.

Höfundur er heilbrigðis­ráðherra

Næsta skrefið í lýðræðisvæðingu í Reykjavík: Vinnustaðalýðræði

Eitt af því merkilegasta sem gert hefur verið í tíð núverandi meirihluta er að unnið hefur verið metnaðarfull lýðræðisstefna fyrir borgina. Við í VG og fulltrúar Pírata höfum borið hitann og þungann af þessari vinnu, en lýðræðismálin eru einn af þeim flötum þar sem Vinstri græn og Píratar hafa unnið náið saman. Í lýðræðisstefnunni er bæði mörkuð sýn til framtíðar og settar fram margþættar aðgerðir til þess að styrkja upplýsingaflæði til borgarbúa og auka samtal og samráð borgarkerfisins og kjörinna fulltrúa við íbúa.

Í stefnunni er líka að finna lið sem ekki á sér hliðstæðu í sambærilegum stefnum hérlendis og þó víðar væri leitað. Við í VG komum því til leiðar að í lýðræðisstefnunni er kveðið á um lýðræði á vinnustöðum borgarinnar.

Vinnustaðir eru ólýðræðislegir

Við lifum í lýðræðissamfélagi en þó eyðum við flest stórum hluta dagsins í mjög ólýðræðislegu umhverfi. Flestir vinnustaðir einkennast í raun fyrst og fremst af einræði frekar en lýðræði. Við höfum okkar yfirmenn, sem skipaðir eru að stjórnendum eða eigendum, yfirleitt algerlega án nokkurs samráðs við almenna starfsmenn.

Flestir vinnustaðir einkennast í raun fyrst og fremst af einræði frekar en lýðræði.

Auðvitað þekkjum við öll góða yfirmenn, en ég myndi vilja halda því fram að þeir séu góðir yfirmenn þrátt fyrir kerfið en ekki út af því. Góðir yfirmenn eru einmitt þeir sem ná að leysa upp hið hefðbundna stigveldisskipulag, tala af virðingu og gagnkvæmni við annað starfsfólk og leita leiða til þess að fá fólk til að vinna saman. Af hverju ekki þá að leysa þetta fyrirkomulag formlega upp?

Reykjavík sé leiðandi í vinnustaðalýðræði

Reykjavík getur rutt veginn í þessum efnum. Það gerir borgin með því að byrja á því að auka samráð við starfsmenn, virða þekkingu og reynslu fólksins á gólfinu að verðleikum og endurhugsa hlutverk yfirmanna. Í stað yfirmanna séu verkefnastjórar eða teymisstjórar.

Margir vinnustaðir borgarinnar vinna nú þegar eftir þessari hugmyndafræði, sérstaklega í leikskólum og grunnskólum borgarinnar. En við þurfum að formgera þetta, það á ekki að vera yfirmannanna sjálfra að ákveða hversu mikið lýðræðið er á hverjum vinnustað. Yfirmenn eiga heldur ekki að hafa vald til þess að taka það til baka um leið og í harðbakka slær.

Lýðræðislegir vinnustaðir eru betri vinnustaðir

Lýðræðislega rekin fyrirtæki eru stöðug. Þau stóðu t.a.m. af sér fjármálakreppuna mikið betur heldur en sambærileg kapítalísk fyrirtæki, þau greiða ekki brjálaðar arðgreiðslur til eigenda sinna og starfsfólk er almennt ánægðara með hlut sinn. Enda hefur það sýnt sig að möguleikarnir til þess að fá að hafa áhrif á það hvernig starf manns er unnið eykur vellíðan fólks í starf. Góður andi á vinnustað getur skipt sköpum og getur verið úrslitaþáttur í því hvort fólki líði vel í vinnunni, hvernig fólk sinnir vinnunni og hve há starfsmannaveltan er.

Aukum lýðræði á vinnustöðum.

 

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson er fulltrúi VG í stjórnkerfis og lýðræðisráði Reykjavíkur og skipar 6. sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar

Menning og máttur

Menning er eitthvað sem við getum öll tengt við og álítum mikilvægt málefni en menning í víðum skilningi er allt sem við gerum til að þroskast.
Ég segi auðvitað að menntun og menning sé máttur hvers manns. Ef þú er þroskaður einstaklingur með góða menntun eru þér allir vegir færir. Þess vegna eru menning og menntun eitt af mikilvægustu málefnunum sem við ættum að hugsa vel um.
Vinstri græn hafna markaðsvæðingu menntunar og stefna að gjaldfrjálsri menntun; leikskóla, skólamáltíðum og frístundastarfi á vegum sveitarfélaganna. Gjaldheimta fyrir menntun stuðlar að misskiptingu og hefur mikil áhrif á lífskjör og aðstæður barnafjölskyldna. Við stefnum að leikskólaplássi um leið og fæðingarorlofi lýkur og samhliða lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Það er mjög mikilvægt að hlúa að kjörum kennara, starfsaðstöðu þeirra og nemenda.
Menntun er eitt af grundvallarmannréttindum samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna, menntun eflir gagnrýna hugsun, eykur nýsköpun og þroskar fólk.
Í öllum blómlegum byggðum verður að vera fjölbreytt menningarlíf og það er hlutverk sveitarfélaganna að skapa þessar aðstæður og tækifæri. Að efla og styðja við listafólk og skapandi greinar og gefa þeim aðstöðu til að geta stundað menningu og listir glæðir sveitarfélögin lífi og gerir þau eftirsóknarverð til búsetu og heimsókna. Í Reykjanesbæ ætti að vera starfræktur myndlistarskóli fyrir skólastigin upp að framhaldsskóla og alla aldurshópa til örva skapandi hugsun og þroska sjónræna athygli. Það á líka að efla listgreinar í skólum þær hjálpa okkur að virkja skynfæri okkar og hafa áhrif á ímyndunaraflið og við lærum að sjá það sem við hefðum annars ekki komið auga á . Markmið allrar menntunar er að auka hæfni og þroska nemenda í gegnum starf þeirra og reynslu sem hjálpar þeim að skapa og skynja.
Söfnin okkar eiga að hafa sérstakan stað í hjarta bæjarbúa, það á að vera ókeypis að fara í þau enda eign bæjarbúa. Það þarf að efla safnfræðslu, bjóða grunnskólanemendum regulega í safnfræðslu og elstu árgöngum leikskólanna. Bæjarbúar verða að fá þessa tengingu við söfnin sín og söguna til að skilja mikilvægi þess og að vera stolt af því hver við erum og hvað við eigum. Við erum með allt sem bæði erlendir og innlendir ferðamenn vilja sjá hér á Suðurnesjum, söfn á heimsmælikvarða, sundlaugar, villta náttúru, fuglalíf, útivistarsvæði (sem reyndar mætti bæta mun meira og efla þ.a.l. lýðheilsu og hreyfingu) en okkur sárvantar tjaldsvæði. Ég myndi líka vilja sjá samstillt átak allra flokka og meira samtal um að fá fleiri ferðamenn til okkar og er ég viss um að með þessum leiðum getum við laðað að fleira fólk.
Góðar stundir
Gunnhildur Þórðardóttir myndlistarmaður
Á lista Vinstri grænna og óháðra

Framboð Vinstri grænna er góður kostur.

Vinstri græn bjóða fram lista í sveitarstjórnarkosningunum í Árborg 26. maí næstkomandi.
Að framboðinu stendur fólk sem vill stuðla að góðu samfélagi fyrir alla. Í góðu samfélagi þarf að huga að mörgum málum, menntamálum, heilbrigðismálum og umhverfismálum o.fl. Aðbúnaður barna, aldraðra og fólks með fötlun eru mál sem þurfa að vera í stöðugri skoðun. Aðgengi að íþróttum, tónlistarnámi og öðrum áhugamálum þarf að vera gott og á færi allra óháð efnahag. Loftslagsmál eru líklega stærsta mál mannkynsins. Því ber að stuðla að vistvænum ferðamáta m.a. með góðu aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Græn svæði innan þéttbýlis hvetja fólk til útiveru og auka ánægju flestra. Fegrun umhverfinsins og ræktun gróðurs er öllum til yndisauka.
Mikilvægt er að sníða sér stakk eftir vexti og því viljum við forgangsraða í þágu almennings. Mörg aðkallandi verkefni bíða úrlausna. Ófremdarástand er í frárennslismálum Árborgar. Góð lausn á þeim þolir ekki lengri bið og hlýtur því að vera forgangsmál í sveitarfélaginu.
Suðurland er þekkt sem láglaunasvæði. Margir íbúar Árborgar leita vinnu á höfuðborgarsvæðinu m.a. vegna láglaunastefnu sem hér viðgengst. Gamalgróin og vel stöndug fyrirtæki virðast mörg hver ekki hafa metnað til að reka þetta slyðruorð af svæðinu. Á þetta bæði við um fyrirtæki í framleiðslu og stórar verslanir þar sem uppistaðan af starfsfólkinu er kornungt fólk á algjörum lágmarkslaunum. Þessi láglaunastefna stendur rekstri bæjarfélaga fyrir þrifum því útsvarstekjur eru í samræmi við laun íbúanna. Það ætti að vera metnaðarmál góðra fyrirtækja að greiða starfsfólki sínu laun sem sómi er að og vera á þann hátt máttarstólpi í samfélaginu. Vinstri græn hafa skýra stefnu í jafnréttismálum. Bæjarfélagið á að hafa forgang í því að kveða niður þennan áratuga gamla láglaunadraug og hækka laun þeirra stétta sem sinna kennslu- og ummönnunarstörfum hverskonar sem og allra bæjarstarfsmanna sem tilheyra láglaunahópum. Allt samfélagið græðir á mannsæmandi launastefnu, hvort sem litið er til einstaklinga eða þess í heild.
Við höfnum ákvarðanatöku sem byggist á frændhygli og vinargreiðum til flokksgæðinga og munum stunda fagleg og ábyrg vinnubrögð.
Framboð Vinstri grænna er góður kostur fyrir þá sem vilja réttlátara, heiðarlegara og betra samfélag – fyrir ALLA.

Nanna Þorláksdóttir
skipar 11. sæti framboðs Vinstri grænna í Árborg.

Sjálfbær hverfi og framtíð úthverfanna

Málefni úthverfanna hafa töluvert verið til umræðu í kosningabaráttunni. Þessi umræða er þó stundum á ákveðnum villigötum. Í grein frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins hér á Vísi um helgina „Stöndum vörð um úthverfin“ er talið upp það sem miður hafi farið í Grafarvoginum á síðustu árum og gerir úr því skóna að það sé núverandi borgarstjórn að kenna. Í rauninni er hún hins vegar að benda á gallana í úthverfavæðingu borgarinnar áratugina á undan og mikilvægi þess að vinna að þéttingu byggða og stuðla þannig að sjálfbærum hverfum þar sem þjónusta getur blómstrað.

Verra var þó að sjá höfundinn, Ingu Maríu Hlíðar Thorsteinsson reyna þyrla upp ryki í augu kjósenda til þess að slá pólitískar keilur. Hún heldur því fram í greininni að til standi að þrengja Gullinbrú niður í eina akrein í hvora átt svo koma megi borgarlínu fyrir. Engar slíkar fyrirætlanir eru uppi, og verður ekki annað séð en að Sjálfstæðismenn vilji espa upp andstöðu gegn borgarlínu með ósönnum fullyrðingum. Var þetta ekki í fyrsta skipti sem frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa reynt þetta, en tveir aðrir frambjóðendur hafa reynt svona lagað nýlega.

Fylgifiskur uppbyggingarinnar
Við uppbyggingu nýrra úthverfa lítur yfirleitt allt vel út. Þannig leit það út á fyrstu árum Grafarvogsins og meðan ég var að vaxa úr grasi í hverfinu óx hverfið hratt. Þjónusta dafnaði, leik- og grunnskólar voru byggðir upp. Leikvellir voru á hverju strái og samspilið við náttúruna var gott. Hægt var að búa í hverfi sem hafði upp á allt að bjóða og ekki þurfti að leita út fyrir hverfið fyrir neitt því hér var allt til staðar.

Grafarvogurinn sprengdi hins vegar mjög fljótt meginumferðaræðarnar inn í hverfið. Raðirnar sem mynduðust þegar Gullinbrúin var einbreið voru daglegt brauð fyrir íbúa hverfisins sem unnu utan þess. Umferðarhnúturinn leystist ekki fyrr en brúin var breikkuð og það stendur ekki til að breyta því, hvað sem Sjálfstæðismenn segja.

Síðan hefur þjónusta annaðhvort farið út úr hverfinu og sá verslunarkjarni sem helst virkar er Spöngin. Fyrir þá sem búa lengst frá er a.m.k. 30 mínútna göngutúr til að komast þangað. Skóla og leikskólaeiningar hafa minnkað og í hagræðingarskyni hefur komið til sameininga þar sem að skólabyggingar voru orðnar vannýttar og verið að leita leiða til að nýta mannauðinn betur innan skólanna. Því hefur kostnaður sveitarfélagsins að halda þessari þjónustu út hækkað.

Hvað getum við lært?
Við höfum lært það að með hraðri uppbyggingu er allt í blóma í upphafi og hverfið tekur á sig mynd, en þegar hverfið fer að eldast, þá fækkar verulega í skólum og önnur þjónusta líður fyrir það. Nýjir kaupendur, ungt fólk, hefur ekki efni á stórum eignum og hverfið eldist og hnignar. Úthverfauppbygging er skammtímalausn. Langtímalausn eru blönduð og þétt hverfi sem geta verið sjálfbær. Við þurfum að endurhanna gömul hverfi í þessum anda.

Þegar við horfum til framtíðar, þá þurfum við að horfa til þess að endurnýjun í hverfum verði stöðugri en ekki sveiflubundin, eins og hún er í dag. Við þurfum að skipuleggja byggð þar sem fjölbreytileiki er hafður í fyrirrúmi og allir hópar sjáu sér fært um að búa þar. Með því getum við náð betri nýtingu úr þeim innviðum sem þegar eru til staðar í hverfum. Í stað þess að finna upp og byggja hjólið í hvert skipti.

Með því að skipuleggja af skynsemi nýtum við fjármuni betur, við búum til skemmtilegri byggð og við drögum úr umferðarteppum. Vinnum saman málefnalega að langtímalausnum.

Ragnar Karl Jóhannsson, höfundur er varamaður í hverfisráðu Grafarvogs og skipar 13 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar

Hlúum að samfélagi, náttúru og menningu

.

Nú þegar styttist í kosningar eiga einhverjir kjósendur eftir að gera upp hug sinn. Flokkar keppast við að bjóða gull og græna skóga og er það skylda hvers framboðs að upplýsa kjósendur sem best um stefnumál sín og hvaða málefni þau munu helst setja á oddinn.

Vinstri græn í Árborg vilja tryggja jöfnuð í samfélaginu, vernda náttúruna, hlúa að menningu og byggja upp vistvænt og gott atvinnulíf. Við viljum að allir geti notið þeirrar þjónustu sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum og allir eigi sama rétt á þeim tækifærum sem hér finnast.

Við viljum byggja samfélag þar sem öllum líður vel og er skipulagt eftir forsendum þeirra sem hér búa. Þjónusta þarf að vera sniðin eftir þörfum íbúa og allir eiga að njóta sömu réttinda. Tryggja þarf fjölskyldufólki aðstöðu til uppeldis barna sinna með fullnægjandi uppbyggingu innviða og þjónustu fyrir aldraða og fatlaða á þeirra eigin forsendum. Listinn er ekki tæmandi og lengi mætti telja.

Sama gildir um náttúru sveitarfélagsins, en í Árborg má víða finna falleg svæði sem hafa sérstöðu. Hér er fjölskrúðugt fuglalíf, margbreytilegur gróður, stórbrotin strandlengja og vatnmesta á landsins. Okkur ber að vernda náttúruna og skila henni í góðu ástandi til komandi kynslóða. Þess má geta að fimm svæði innan sveitarfélagsins eru á náttúruminjaskrá. Vinstri græn í Árborg vilja vinna að lögformlegri friðlýsingu á svæðum í sveitarfélaginu sem eru á náttúruminjaskrá. Við viljum einnig leggja allt kapp á að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í þann besta mögulega farveg sem kostur er á til að spilla ekki verðmætum náttúruminjum.

Í atvinnu- og skipulagsmálum viljum við marka langtíma stefnu sem byggir á sérstöðu og styrkleikum svæðisins í sátt við náttúru og íbúa. Við viljum byggja umhverfi sem hvetur til nýsköpunar og þekkingar. Það hefur víða sýnt sig að sveitarfélög sem byggja atvinnu á nýsköpun, menntun og hugviti búa yfir hvað mestri hagsæld.

Við í Vinstri grænum í Árborg erum ekkert öðruvísi en aðrir flokkar og viljum ná athygli kjósenda. Við erum með háleit en raunhæf markmið og hugsum til framtíðar. Við gefum loforð sem við getum staðið við.

 

Halldór Pétur Þorsteinsson, skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.
Sigurður Torfi Sigurðsson, skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.