Slembival sem svar við alvarlegasta vanda stjórnmálanna

Ein alvar­leg­asta ógnin sem stafar að lýð­ræð­inu í dag er vax­andi áhuga­leysi almenn­ings um lýð­ræð­is­lega þátt­töku. Eitt mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­mál­anna er því að snúa þess­ari þróun við. Rót­tæk­asta, og hugs­an­lega áhrifa­rík­asta aðferðin til þess að ná því mark­miði er slembival: Að velja af handa­hófi venju­legt fólk eins og mig og þig til þess að taka þátt í opin­berum störf­um.

Slembival og full­trúa­lýð­ræði

Helstu rökin gegn slembivali er að það með því tryggjum við ekki að við fáum hæft fólk til starfa. En reynslan af mis­mun­andi formum slembivals, t.a.m. í Eist­landi, Oregon-­fylki í Banda­ríkj­unum og í Írlandi, virð­ast gefa allt annað til kynna. Og við skulum ekki gleyma að hefð­bundnar kosn­ingar hafa heldur ekki verið nein trygg­ing. Valda­sjúkt fólk og fáfróðir frama­gosar með mik­il­mennsku­brjál­æði hafa oftar en einu sinni kom­ist til áhrifa í kosn­ing­um. Síð­ustu for­seta­kosn­ingar í Banda­ríkj­unum eru auð­vitað nær­tækt dæmi.

Lýð­ræðið er aug­ljós­lega í krísu. Rót­tæk­asta lausnin á þeirri krísu er að virkja fólk, almenn­ing, til beinnar þátt­töku í ákvarð­ana­töku.

Hvernig fer slembival fram?

Slembival hefur verið reynt og notað víðs vegar um heim og með góðum árangri. Við eigum okkar eigin til­raun í formi þjóð­fund­anna 2009 og 2010. Þó þeir hafi ekki haft skýrt vald­svið eða bundið hendur ráða­manna hvað stefnu­mótun varðar þá var mikil ánægja meðal þátt­tak­enda með fund­ina og þeir léku mik­il­vægt hlut­verk í því skapa umræðu um hvers­konar sam­fé­lagi við viljum búa í.

Við getum notað slembival með ýmsum hætti. Við getum skipað íbúa­þing þar sem stefna til fram­tíðar er mót­uð. Við getum notað það til þess að fram­kvæma rök­ræðukann­an­ir, þar sem afmark­aður hópur borg­ar­búa fær tæki­færi til þess að kynna sér mál í þaula og taka upp­lýsta ákvörðun um þau eða við getum hrein­lega skipað fólk í hverf­is­ráð með slembivali.

Póli­tík og stjórn­mál

Slembivalið er óplægður akur þegar kemur að því að virkja lýð­ræð­ið, að tengja fleiri borg­ara við stjórn­kerfið og ákvörð­un­ar­töku, að dreifa vald­inu og tryggja að sem flestar raddir fái að heyr­ast.

Af hverju ættum við t.d. að sætta okkur við að stórt og dýrt verk­efni eins og það að setja Mikla­braut í stokk sé póli­tískt bit­bein eða slag­orð í kosn­inga­bar­áttu? Væri ekki nær að setja slíkt verk­efni í rök­ræðukönnun og leita leiða til þess að kom­ast að því hver upp­lýst ákvörðun almenn­ings væri og koma okkur þannig undan póli­tískum skot­grafa­hern­aði og kjör­tíma­bila­hugs­un?

Við þurfum að koma til móts við þá sem hafa áhuga á stjórn­málum en ekki póli­tík. Fólk hefur áhuga á því að hafa áhrif á sam­fé­lagið sem það býr í en hefur á end­anum mjög fá tæki­færi til þess. Slembival er leið til þess að ná til þess fólks – og virkja það.

Stjórn­málin hafa orðið póli­tík­inni að bráð. Við höfum skapað þrösk­ulda í stjórn­mála­þátt­töku sem eru ekk­ert endi­lega að skila okkur bestu nið­ur­stöð­unum eða þeim lýð­ræð­is­leg­ustu.

Reykja­vík­ur­borg hefur verið fram­ar­lega í lýð­ræð­istil­raunum og hefur átt gott sam­tal við borg­ar­bú­ana. En á næsta kjör­tíma­bili þurfum við að gera enn bet­ur.

Höf­undur situr í Stjórn­kerf­is- og lýð­ræð­is­ráði Reykja­vík­ur­borgar og skipar 6. sæti á fram­boðs­lista VG fyrir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar.

Verndun Elliðaárdalinn

Elliðaárdalurinn er eitt vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga. Þó að dalurinn sé inni í miðri borg og umkringdur þungum umferðargötum ríkir náttúruleg kyrrð í skóginum á eyjunni, laxinn stekkur upp ána og það er auðvelt að gleyma því að borgin sé í raun rétt handan við hornið.

Hugmyndir um byggingarframkvæmdir í dalnum
Í dag nýtur landið meðfram ánum ásamt eyjunum ákveðinnar verndar. Þetta verndarsvæði er að okkar mati of þröngt, og fyrirætlanir eru um framkvæmdir sem munu þrengja umtalsvert að dalnum.

Alvarlegast teljum við að í sunnanverðum dalnum, meðfram Stekkjabakka, er hugmynd um stjórt og mikið fyrirtæki með verslun, veitingarekstri og starfsemi sem á að vera græn að hluta til, og það verður selt inn. Auðvitað verða þarna bílastæði og ef reksturinn á að geta gengið þá þarf marga viðskiptavini.

Við teljum að starfsemi af þessu tagi muni hafa óafturkræf áhrif á gæði Elliðárdalsins og rýra gildi hans sem útivistarsvæðis.

Nú er rétt að muna að hugmyndin, sem var kynnt á aðalfundi Hollvinasamtaka Elliðárdalsins í síðustu viku, hefur ekki verið samþykkt af skipulagsráði Reykjavíkur. Fyrirtækið sem hefur fengið vilyrði fyrir lóðarúthlutun hefur ekki lagt fram endanlegar hugmyndir og þegar og ef þær berast og svæðið verður skipulagt munu nágrannar sem og allir Reykvíkingar geta gert athugasemdir.

Það þarf að fara sér hægt og best væri að falla frá öllum hugmyndum um nýjan atvinnurekstur og uppbyggingu í dalnum. Í stað þess að þrengja að útivistarsvæðinu í Elliðárdal eigum við að stækka svæðið og vernda þannig dalinn fyrir frekari byggingaframkvæmdum.

Nýjar göngu- og hjólaleiðir, nýjar brýr og bætt aðstaða laðar æ fleira fólk að dalnum. Þar er nú múgur og margmenni sem nýtur útivistar í þessari einstöku náttúruperlu.

Notum „þróunarsvæðin“ til að styrkja dalinn
Töluvert er af grænum svæðum á mörkum dalsins og nálægrar byggðar. Þessi svæði eru ýmist skilgreind sem opin svæði eða þróunarsvæði.

Vissulega eru þessi svæði röskuð, en það má engu að síður endurheimta náttúrulegan gróður og landslag, eða einfaldlega skipuleggja þau sem almenningsgarða með fjölbreyttum leiksvæðum. Við eigum að tengja svæðið við Stekkjabakka við útivistarsvæðið í dalnum, planta trjám, leggja göngustíga og koma upp nestis- og grillaðstöðu. Við getum notað heita vatnið úr borholunum sem þar eru til þess að hita vaðlaug fyrir börn. Við getum búið til óræktargarð með njólabeðum og drullupollum þar sem krakkar geta leikið sér.

Slíkur almenningsgarður milli ánna og íbúðarbyggðarinnar í Stekkjunum mun auka gildi Elliðaárdalsins og möguleika íbúanna til að njóta fjölbreyttrar útivistar í honum.

Borgarfriðland frá heiðum út á Sundin
Við í VG höfum talað fyrir því að friðlýst svæði innan borgarmarkanna verði stækkuð og nýjum bætt við. Net friðlýstra svæða gæti náð ofan af heiðunum austan borgarinnar og teygt sig út á Sundin, þar sem ósnertir hlutar strandlengjunnar og eyjarnar yrðu gerðir hluti af samfelldu Borgarfriðlandi. Elliðárdalurinn yrði burðarás slíks friðlands.

Leggjum til hliðar áform um mannvirki sem þrengja að dalnum og rýra gæði hans. Útivistarsvæði á borð við Elliðárdalinn eru ómetanleg gæði sem eiga aðeins eftir að verða mikilvægari þegar fram líða stundir. Við eigum að vernda og styrkja þessi verðmæti. Við getum gert svo miklu betur í því að vernda grænu svæðin okkar í borginni.

René Biasone, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, skipar 5 sæti á framboðslista VG í borgarstjórnarkosningunum.

Guðrún Ágústsdóttir, félagi í Hollvinasamtökum Elliðárdalsins, skipar 7 sæti á framboðslista VG í borgarstjórnarkosningunum.

Um mikilvægi íþróttastarfs í Borgarbyggð

Hreyfing hefur margvísleg góð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og hefur fjölþætt forvarnargildi hjá öllum aldurshópum. Síðustu áratugina hefur samfélag okkar breyst talsvert með aukinni notkun snjalltækja, aukinni kyrrsetu og aukinni tíðni offituvandamála, með þetta til hliðsjónar þurfum við að bregðast við og reyna eftir fremsta megni að styðja við bæði skipulagt íþróttastarf sem og aðgengi almennings að útivistarsvæðum, líkamsræktaraðstöðu og sundlaugum.

Í héraðinu okkar er mikið af flottu íþróttafólki sem náð hefur langt í sinni grein, hvort sem það er einstaklingsgrein eða hópíþrótt. Einnig búum við vel með flott fólk sem stendur að baki þessum árangri, þjálfarar, foreldrar og áhugafólk sem tilbúið er að vinna íþróttunum til heilla.

Þrátt fyrir það eru of margir bæði börn og fullorðnir sem ekki stunda reglulega hreyfingu. Til að auka þátttöku í skipulagðri hreyfingu þarf að hafa hana aðgengilega og fjölbreytta, fyrir suma henta hópíþróttir en aðrir kjósa einstaklingsgreinarnar, sumir hafa gaman að boltaíþróttum á meðan þær henta ekki öllum.

Með tilkomu tómstundabílsins hafa möguleikar barna og unglinga, úr dreifbýlinu, á að sækja æfingar í Borgarnes aukist gífurlega og hjálpar það mikið til við að auka þátttöku. Áhugavert væri að skoða möguleikann á að fjölga ferðum tómstundabílsins og eins hvort hægt væri að nýta íþróttamannvirkin á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum betur með fjölbreyttari akstursleiðum. Þannig mætti í leiðinni auka samstarf íþróttafélaganna í héraðinu og auka möguleikana á að ná í lið í fleiri aldursflokkum og eins rýmka um íþróttahúsið í Borgarnesi þar sem hver æfingatími er umsetinn.

Einnig hefur tilkoma íþrótta- og tómstundaskólans breytt miklu fyrir yngstu árgangana og er það mjög jákvætt að geta stytt „vinnudag“ þeirra með þessu móti og gera þeim sem búa í dreifbýlinu kleift að æfa íþróttir beint eftir skóla og fá skólaakstur heim að þeim loknum.

Ég myndi einnig vilja sjá sveitarfélagið okkar setja sér framtíðaráætlun hvað stækkun og uppbyggingu íþróttamannvirkja varðar. Íþróttahúsið í Borgarnesi er eins og áður segir fullnýtt og barist um hvern æfingatíma þar. Árið 2013 setti Ungmennasamband Borgarfjarðar upp áætlanir, annars vegar 4 ára og hins vegar 10 ára, að því hvernig sambandið myndi vilja haga uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarfirði. Var sú vinna unnin að beiðni sveitarfélagsins og var hluti af samstarfssamningi þess við UMSB. Fátt af því sem þar er sett á 4 ára áætlunina hefur komist í verk og ekkert af 10 ára áætluninni. Þessu þarf að breyta og sveitarfélagið þarf að mynda sér skýra framtíðaráætlun ætli það að halda sér samkeppnishæfu við önnur sveitarfélög hvað íþróttamannvirki varðar.

Höldum áfram að leita leiða til að hámarka nýtingu íþróttamannvirkjanna okkar og byggja upp íþróttaaðstöðuna í Borgarbyggð.

 

Unnur Jónsdóttir

Höfundur skipar 10. sæti á lista VG í Borgarbyggð

Meira fólk, minna malbik

Á fundi borgarstjórnar í gær átti sér stað fyrri umræða um ársreikningi Reykjavíkurborgar. Gríðarlega jákvæður viðsnúningur hefur orðið í rekstri borgarinnar á yfirstandandi kjörtímabili. Fimm milljarða króna afgangur var af eiginlegum rekstri Reykjavíkurborgar á síðasta ári og 28 millarða afgangur þegar fyrirtæki borgarinnar eru tekin með. Skuldir hafa lækkað og útlitið er bjart.

Skilum viðsnúningi til skólanna
Þessi viðsnúningur er ein ástæða þess að farið er að tala um stórframkvæmdir á borð við Sundabraut og Miklubraut í stokk. Samfylkingin hefur lagt áherslu á að borgin nýti fjárhagslegan styrk sinn til að ráðast strax í lagningu Miklubrautar í stokk. Ég er ósammála þeirri forgangsröðun. Þó samgöngubætur séu mikilvægar er ekki forgangsverkefni að ráðast í stórkarlalegar risaframkvæmdir, jarðgangnagerð við Klambratún eða brýr og landfyllingar á sundunum.

Þess í stað höfum við í Vinstri grænum lagt áherslu á að viðsnúningnum verði skilað í skólakerfið, sérstaklega í leikskólana sem báru of miklar byrðar vegna niðurskurðar og aðhaldsaðgerða áranna eftir hrun, fyrst í tíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og síðan meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.

Það er sérstaklega mikilvægt að við bætum kjör og starfsaðstæður starfsfólksins, leikskólakennara, stuðningsfulltrúa, leikskólaliða og annars starfsfólks, fjölmennra kvennastétta sem héldu starfi skólanna gangandi af ótrúlegri eljusemi.

Það er ekki bara réttlætismál að við styrkjum leikskólana. Það er beinlínis forsenda þess að hægt sé að opna ungbarnadeildir á leikskólum borgarinnar að við styrkjum starf þeirra.

Forgangsröðum
Mikið af starfi okkar stjórnmálamanna snýst um forgangsröðun. Við getum ekki gert allt í einu og þurfum að ákveða á hverju skuli byrja og hvað geti beðið. Til þess þurfum við að hafa skýra sýn á hvers konar samfélag það er sem við viljum búa til.

Í mínum huga snúast stjórnmál fyrst og fremst um fólk og börn og að jafna kjör þeirra. Þannig eigum við að forgangsraða. Í mínum huga er ljóst að forgangsverkefni næsta kjörtímabils verður að endurreisa og efla velferðarþjónustu borgarinnar, skólakerfið og þó sérstaklega leikskólana.

Það breytir ekki öllu hvort við hefjum lagningu Sundabrautar eða leggjum Miklubraut í stokk strax á næsta ári. Slíkar framkvæmdir geta beðið. Börn eiga hins vegar ekki að bíða. Eitt ár í lífi barns er langur tími og fjögur enn lengri.

Líf Magneudóttir. Höfundur er oddviti Vinstri grænna í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Hvar áttu heima? Hvaðan kemur þú?

Íslenskt samfélag hefur breyst geysilega á seinustu áratugum. Það er mun fjölbreyttara en það hefur nokkurn tímann verið, þökk sé töluverðum fjölda innflytjenda frá ýmsum löndum. Samkvæmt Hagstofunni eru um 30.000 nýbúar hér á landi sem er um 10% þjóðarinnar. Mikill meiri hluti þessara íbúa tekur þátt í samfélaginu og leggur sitt af mörkum til hagkerfisins. Þetta fólk er að gera góða hluti. Við þurfum ekki að fara langt til að sjá útlendinga, það er nóg að líta í kringum okkur – verslanir, veitingastaðir, bensínstöðvar, nýbyggingar – það sést hvernig þeir þjóna samfélaginu og stunda oft mjög kröfuharða og erfiða vinnu eins og í byggingageiranum.

Á sama tíma eru örfáir nýbúar í stjórnmálum á Íslandi. Þegar einn tíundi af þjóðinni tekur þátt í hagkerfinu en er ekki þátttakandi í stjórnmálum og ákvarðanatöku, leiðir það til einangrunar og aðskilnaðar þessa hóps og þar af leiðandi til ótrúverðugleika stjórnmálakerfisins. Það er ekki lengur fyndið að hafa þennan „eina” útlending á Alþingi eða í bæjarstjórn. Þetta er líka merki þess að aðlögun nýbúa hér gengur ekki nógu vel. Það er ekki nægur stuðningur í tungumálakennslu fyrir innflytjendur og börn þeirra og alls staðar reka nýbúar sig á þennan ósýnilega íslenskuvegg. Margar greinar á háskólastigi eru lokaðar nýbúum vegan inntökuprófa sem gera geysilegar kröfur til íslenskukunnáttu og þekkingu á íslenskri menningu þó að þessi kunnátta komi greininni í raun ekkert við.

Atvinnuauglýsingar eru á ensku ef það er verið að auglýsa eftir starfsfólki í þrif, annars nær undantekingarlaust á íslensku. Og það gefur óbein skilaboð; þeir sem ekki tala góða íslensku eru annars flokks. Eins og fram hefur komið í tengslum við #Metoo byltinguna er þessi hópur mjög viðkvæmur fyrir hvers konar misnotkun. Það er líka hætta á að hér myndist stór hópur innflytjenda sem vinnur láglaunastörf og hefur enga möguleika á því að bæta kjör sín, fastur í fátæktargildru.

Nýbúar treysta sér oftast ekki að fara út í stjórnmál þar sem þeir standa höllum fæti í samskiptum. Íslendingar hafa heldur ekki verið tilbúnir að taka á móti nýbúum á þessum vettvangi af einhverri alvöru. Við blasir að Íslendingar verða að hvetja nýbúa til að tjá skoðanir sínar og gera þátttöku þeirra í stjórnmálum auðveldari. Það þýðir líka að hugsunarháttur Íslendinga þarf að breytast, sem og stjórnmálamenningin. Íslendingar þurfa að læra að hlusta á fólk sem ekki talar fullkomna íslensku og taka mark á því sem það hefur að segja.

Þátttaka mín í stjórnmálum á Íslandi
Ég hef búið meira en 20 ár á Íslandi og samt er íslenskan mín langt frá því að vera fullkomin. Ég hef samt ekki látið það aftra mér frá því að taka þátt í stjórnmálum hér og hef verið í Vinstri grænum í meira en 10 ár. Hjá VG hef ég getað tjáð mig um stjórnmál Kópavogs og stjórnmál almennt og mér hefur alltaf verið vel tekið þrátt fyrir tungumálavankunnáttu mína. Ég valdi að ganga í VG vegna þess að mig langar til að vinna að jafnrétti í samfélaginu, ekki bara kynjanna heldur líka minnihlutahópa. Ég vil að allir fái tækifæri til menntunar og fyrir nýbúa þá tel ég að stuðningur í tungumálakennslu sé þar lykilatriði. Ég vil einnig að nýbúar taki virkan þátt og verði sýnilegri í stjórnmálum á Íslandi, alveg óháð tungumálakunnáttu sinni, litarhætti og uppruna. Og ég vil hvetja þá til að taka þátt í bæjarstjórnarkosningunum og styðja VG. Stefna VG í málum útlendinga er sanngjörn, hvetur til meiri menntunar og velferðar, ásamt stórbættu upplýsingastreymi og leggur mikla áherslu á menntun fyrir börn nýbúa.

Saman getum við mótað samfélag sem styður við fólk hvaðan sem það kemur. Samfélag sem fagnar fjölbreytileikanum.

Amid Derayat. Amid skipar 2. sæti Vinstri grænna í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum

Umhverfismál og réttindi almennings

Umhverfismál og réttindi almennings

Árið 1998 var samþykktur í Árósum í Danmörku tímamótasamningur sem stuðlar að því að sérhver einstaklingur og komandi kynslóðir hafi rétt til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans. Árósasamningurinn svokallaði fjallar því um mannréttindi. Hann veitir þrískipt réttindi þegar kemur að umhverfis- og náttúruverndarmálum: Aðgang að upplýsingum, rétt til þátttöku í ákvarðanatöku og stefnumótun og rétt til þess að bera ákvarðanir stjórnvalda undir óháða úrskurðaraðila. Tæp fimmtíu ríki eru aðilar að samningnum, í Evrópu og Mið-Asíu og var hann fullgiltur hérlendis árið 2011.

Á málþingi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í aprílbyrjun kynnti ég drög að aðgerðaáætlun um frekari framfylgd samningsins hérlendis. Á næstu vikum mun ég kynna þessi drög fyrir umhverfisverndarsamtökum, stofnunum, sveitarfélögum og samtökum í atvinnulífinu.

Aukin þátttaka og sátt  

Þátttaka almennings í ákvarðanatöku er sérstakt viðfangsefni aðgerðaáætlunarinnar en mikilvægt er að finna leiðir til að auka þátttöku snemma í ferli ákvarðanatöku til að byggja undir aukna sátt um áætlanir og framkvæmdir, og fækka deilumálum, þar með talið kærum. Sveitarfélög sem ábyrgð bera á skipulagsgerð og fyrirtæki sem standa í stórum framkvæmdum þurfa að koma hér að málum. Þá verður skoðað hvernig megi auka þátttöku umhverfisverndarsamtaka í starfshópum og lögbundnum nefndum.

Nauðsynlegt er að ráðast í úttekt á framfylgd samningsins er varðar réttláta málsmeðferð. Annars vegar þarf að kanna hvernig íslenskur réttur samrýmist ákvæðum Árósasamningsins um að brot stjórnvalda eða einkaaðila á landslögum sem varða umhverfismál megi bera undir óháða úrskurðarnefnd eða dómsstóla. Hins vegar þarf að meta svigrúm kæruaðila til að velja stjórnsýsluleið eða dómsstólaleið þegar ákvarðanir stjórnvalda sem varða umhverfismetnar framkvæmdir eru uppi á borðum.

Úrskurðarnefndir styrktar

Einn þátturinn snýr að úrskurðanefndum, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur þegar verið styrkt með auknum fjárheimildum til að stytta málsmeðferðartíma fyrir nefndinni. Þá þarf að endurskoða lög um upplýsingarétt um umhverfismál og gæta að samræmi við hin almennu upplýsingalög. Eins verður menntun og fræðsla um Árósasamninginn aukin hjá hinu opinbera og meðal almennings og félagasamtaka.

Mikilvægi Árósasamningsins fyrir lýðræðislega þátttöku almennings í umhverfismálum verður seint fullmetið auk þess sem hann veitir stjórnvöldum og fyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Innleiðing samningsins hér á landi var mikilvægt framfaraskref á sínum tíma og hefur hann þegar skilað miklum árangri fyrir umhverfisvernd og íbúalýðræði á Íslandi. Með markvissri framfylgd og endurskoðun á innleiðingu hans er ætlunin að auka samtal og styrkja aðkomu almennings að ákvarðanatöku um umhverfismál.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

greinin birtist 5 maí í morgunblaðinu.

Réttlát forgangsröðun

Eitt stærsta verkefni borgarstjórnar á síðustu tíu árum hefur verið að takast á við afleiðingar fjármálahrunsins. Óskynsamleg offjárfesting og misheppnuð útrásarævintýri á vegum m.a. Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hrun skiluðu Reykjavík gríðarlegum skuldum. Það hefur kostað sárar fórnir að takast á við þennan fortíðarvanda.

Við sjáum afleiðingar niðurskurðarins allt í kringum okkur. Í borgarstjórnartíð Besta flokksins og Samfylkingarinnar 2010-2014 voru leikskólagjöld t.d. hækkuð og framlög til leikskóla skorin niður. Þegar við Vinstri græn mynduðum meirihluta með Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum 2014 lögðum við áherslu á að hefja stóreflda uppbyggingu leik- og grunnskóla og létta byrðar á barnafjölskyldum m.a. með lækkun leikskólagjalda.

Vörn snúið í sókn

Eftir þetta kjörtímabil er ég stolt af þeim árangri sem við höfum náð. Snúið hefur verið af braut niðurskurðar og framlög til leikskólanna hafa verið aukin um tæpa tvo milljarða á síðustu tveimur árum. Þegar allt er tekið saman þá greiða barnafjölskyldur í Reykjavík minnst fyrir menntun og tómstundir barna sinna samanborið við nágrannasveitarfélögin.

Það er hins vegar ekki nóg, eins og birtist skýrt í því verkefni að fá fólk til starfa í leikskólum. Við höfum hrint í framkvæmd metnaðarfullri áætlun um ungbarnadeildir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans og við höfum þegar opnað nokkrar þannig deildir í hverfum borgarinnar. Það er brýnt að halda áfram á þeirri braut á næsta kjörtímabili og verkefnin sem þarf að ráðast í eru stór og mikil þegar það kemur að rekstri menntakerfisins.

Áframhaldandi meirihluti

Við Vinstri græn viljum halda áfram að starfa að þessum verkefnum sem við hófum í samstarfi við Samfylkingu, Bjarta framtíð og Pírata fyrir fjórum árum. Það samstarf hefur gefist mjög vel og skilað góðum árangri á mörgum sviðum og viljum við halda því áfram í einhverri mynd.

Í sameiningu höfum við haldið áfram að vinna úr fortíðarvanda útrásaráranna, fjárhagsstaða borgarinnar hefur batnað mikið á síðustu árum og er í dag mjög sterk. Traust staða borgarsjóðs skapar forsendur fyrir því að borgin blási til sóknar og ráðist í löngu tímabæra uppbyggingu. Þar skiptir hins vegar öllu máli hvernig er forgangsraðað og um það verður kosið í komandi borgarstjórnarkosningum.

Forgangsröðum rétt

Vinstri græn vilja forgangsraða fyrir barnafjölskyldur. Okkur finnast því kosningaloforð Samfylkingarinnar um dýrar risaframkvæmdir eins og að leggja Miklubraut í stokk strax á næsta ári vera nokkuð stórkarlalegar í því ljósi. Við viljum að borgin byrji á því að ljúka endurreisn leikskólanna, uppbyggingu ungbarnadeilda og bættum kjörum stétta í reykvískum leik- og grunnskólum. Að okkar mati er það forgangsmál að fjárfesta í þeim mannauði sem er í raun gangverk borgarinnar.

Við höfnum sömuleiðis loforðum Sjálfstæðisflokksins, sem stangast á við gildandi lög, um stórfelldar skattalækkanir til valinna hópa. Það er óréttlát og röng forgangsröðun að færa best stæðu íbúum Reykjavíkur 2,3 til 3,7 milljarða frekar en að auka lífsgæði barnafjölskyldna í borginni, koma til móts við eldra fólk sem býr við kröpp kjör og annarra sem svo sannarlega þurfa á stuðningi að halda.

Leiðréttum efnahagslegt óréttlæti

Á síðustu árum hefur stundum verið talað um „leiðréttingu“: Fasteignaeigendur hafa fengið sína leiðréttingu og sömuleiðis fjármagnseigendur. Æðstu stjórnendur hjá hinu opinbera og í einkafyrirtækjum hafa líka fengið myndarlega leiðréttingu, þökk sé kjararáði og kaupaukakerfum. Við eigum hins vegar alveg eftir að „leiðrétta“ að fullu niðurskurðinn sem varð á þjónustu við íbúa borgarinnar. Og við eigum eftir að leiðrétta kjör fjölmennra kvennastétta sem mennta og þroska börn í leik- og grunnskólum borgarinnar.

Ófrávíkjanleg krafa

Það liggur í augum uppi að brýnustu verkefni næstu ára eru hvorki rausnarlegar skattalækkanir fyrir útvalda hópa eignafólks né nýjar dýrar vegaframkvæmdir. Brýnustu verkefni næstu ára eru að styrkja og endurreisa félagslega innviði borgarinnar og skapa réttlátt samfélag í Reykjavík.

Það verður að vera forgangsverkefni að leysa bráðavanda leikskólanna sem birtist í alvarlegri manneklu. Það verður ekki gert nema með því að bæta kjör starfsmanna. Vinstri græn ætla að gera það að ófrávíkjanlegri kröfu að borgin gangi fram með góðu fordæmi og hafni láglaunastefnu sem bitnar fyrst og fremst á lífsgæðum barnafjölskyldna og gangverki borgarinnar.

Að sýna gott fordæmi

Reykjavíkurborg á líka að ganga fram með góðu fordæmi og móta sér stefnu um launamun milli æðstu stjórnenda og almennra starfsmanna. Vaxandi launamunur og misskipting sem er knúin áfram af óeðlilega háuum ofurlaunum stjórnenda eru sem eitur í samfélaginu sem skapar tortryggni og úlfúð.

Við viljum að borgin taki afdráttarlausa afstöðu gegn þessari þróun og opni á umræðu um hvað sé eðlilegur launamunur milli stjórnenda og starfsmanna. Ég tel að slík samræða sé ein af forsendum þess að hægt sé að skapa félagslegan stöð- ugleika sem er byggður á traustum stoðum efnahagslegs réttlætis og sanngirni. Í komandi kosningum er hægt að velja leið réttlætis og sanngirni með því að kjósa Vinstri græn til áhrifa. Gerum það.

Líf Magneudóttir er oddviti VG og forseti borgarstjórnar.

Skólarnir eru lífæðin

Sveitarstjórnarkosningar snúast um málefni nærsamfélagsins okkar. Í því eru skólarnir einn mikilvægasti þátturinn, hvað þá í sveitarfélagi eins og Borgarbyggð. Í sveitarfélagi sem telur varla fjögur þúsund íbúa eru starfræktir skólar á öllum skólastigum, frá leikskóla og upp í háskóla. Um þessa sérstöðu verðum við að standa vörð. Skólamálin eru því eitt helsta hagsmunamál íbúa Borgarbyggðar.

Í Borgarbyggð eru nú starfræktir tveir grunnskólar, Grunnskólinn í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar, sem er með starfsstöðvar á Hvanneyri, Varmalandi og Kleppjárnsreykjum. Á kjörtímabilinu sem nú er að líða stóð yfir mikill styr um hvernig starfsemi skólanna skyldi háttað. Háværar raddir voru uppi um að fækka starfsstöðvum í Grunnskóla Borgarfjarðar og meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins féll út af málinu. Til allrar lukku náðu þessi áform ekki fram að ganga og enn er öflugri starfsemi haldið uppi á áðurnefndum starfsstöðvum. Stórar ákvarðanir sem þessar þarf nefnilega að taka í sátt við alla hlutaðeigandi. Grunnskólarnir í uppsveitunum eru mikilvægur þáttur í mannlífi svæðanna. Þar hafa margar kynslóðir, mann fram af manni, sótt sér menntun og kynnst samfélaginu í gegnum skólana. Þær rætur verða ekki slitnar upp auðveldlega, hvað þá fyrir óljósan árangur, hvort sem er í faglegu eða fjárhagslegu tilliti. Í þessari baráttu stóðu Vinstri græn með skólunum, og það munum við áfram gera.

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur verið ein af lyftistöngunum í samfélaginu frá því til hans var stofnað. Þrátt fyrir að hafa aðeins starfað í rétt rúman áratug eru merki um áhrif hans á sveitarfélagið augljós. Ungt fólk er lengur á sínu heimasvæði en áður, sem er öllum til heilla og auðgar samfélagið á fjölda vegu. Einnig hefur skólinn sýnt það í verki að hann er mjög framsækin stofnun, og er til fyrirmyndar fyrir aðra skóla í mörgum málum. Til dæmis má nefna það að skólinn hefur frá upphafi lagt áherslu á því að hagnýta tækni í námi. Nú þegar aðeins er farið að líða á 21. öldina hefur komið æ betur í ljós hve mikilvægt tölvulæsi og tæknikunnátta verða í framtíðinni. Í öðru lagi reið skólinn á vaðið með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu fyrir nemendur sína, í samstarfi við Stéttarfélag Vesturlands. Í öllum þeim Alþingiskosningum sem haldnar hafa verið á undanförnum misserum hefur mikið verið rætt um að bæta aðgengi fólks, og þá sérstaklega ungs fólks, að geðheilbrigðisþjónustu. Margir hafa lofað, en eftirfylgnin hefur verið misjöfn, þó einhver hreyfing sé þó komið á málið núna. En Menntaskóli Borgarfjarðar sýndi í verki það sem litlar stofnanir geta áorkað: Hann er árabátur sem getur auðveldlega skipt um stefnu, þróað nýjar leiðir og fundið nýjar lausnir. Stærri stofnanir eiga það til að haga sér eins og olíuskip sem tekur langan tíma að fá til að skipta um stefnu. Á komandi árum er því mikilvægt að viðhalda þeim góða árangri sem Menntaskóli Borgarfjarðar hefur náð, og skólinn og Borgarbyggð ættu að vinna saman að því markmiði að fjölga nemendum sem koma víðar af landinu og vilja sækja sér menntun í MB.

Að lokum eru það háskólanir tveir, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Háskólinn á Bifröst. Það er mikið fagnaðarefni, og léttir, að áform um að hrófla við starfsemi þeirra hafa ekki náð fram að ganga. Háskólarnir eru mikilvægur liður í því að gera Borgarbyggð að því skólasamfélagi sem það er. Fólk hvaðanæva af landinu sækir sér menntun í þessum tveimur skólum, og margir ílengjast hér, fá vinnu í héraðinu, stofna fjölskyldur og auðga samfélagið með ýmsum hætti. Sú sveitarstjórn sem verður kjörin í lok maí mun vonandi halda uppi öflugri baráttu fyrir háskólunum.

Skólarnir okkar eru lífæð samfélagsins og við megum því aldrei sofna á verðinum.

 

Bjarki Þór Grönfeldt

Höfundur er í 16. sæti á lista Vinstri grænna í Borgarbyggð

,

Aukin samvinna ríkis og sveitarfélaga í öldrunarþjónustu – allra hagur!

Aukin samvinna ríkis og sveitarfélaga í öldrunarþjónustu – allra hagur!

Reykjavíkurborg samþykkti á dögunum nýja stefnu í málefnum eldri borgara til ársins 2022. Þar er kveðið á um nauðsyn þess að efla samstarf við ríkið í þessum mikilvæga málaflokki meðal annars með því að fjölga hjúkrunarrýmum. Þessi áform borgarinnar ríma vel við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem boðuð er stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Skortur hefur verið á hjúkrunarrýmum í alltof langan tíma og nú er svo komið að biðtími eftir hjúkrunarrýmum er óásættanlega langur. Bara á höfuðborgarsvæðinu vantar um 130 rými til þess að uppfylla þörf fyrir þjónustu. Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt og vel við þessu ákalli. Það skiptir ekki aðeins máli fyrir lífsgæði aldraðra, heldur hefur fjölgun hjúkrunarrýma áhrif á heilbrigðiskerfið allt. Skort á legurýmum á Landspítala má að stórum hluta skýra með því að alltof margir eldri borgarar fá ekki viðeigandi þjónustu, þ.e. pláss á hjúkrunarheimili. Fjölgun hjúkrunarrýma hefur auk þess þau áhrif að heilbrigðisþjónusta verður markvissari og Landspítala, heilsugæslu og öðrum heilbrigðisstofnunum er gert kleift að sinna öllum þeim brýnu verkefnum sem fyrir liggja enn betur en nú er raunin.

 

Fjölgun hjúkrunarrýma

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er tekið á þessum vanda með afgerandi hætti. Hjúkrunarrýmum verður fjölgað á landinu öllu um 300 frá fjármálaætlun síðastliðins árs auk þess sem dagdvalarrýmum verður fjölgað um allt land. Uppbygging er þegar hafin á nýju hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík með um 100 rýmum en þar verður auk þess byggð dagdeild með um 30 dagdvalarrýmum. Þegar eldri borgarar þurfa á meiri stuðningi að halda, en hægt er að veita í heimahúsum, getur dagdvöl nýst til að rjúfa félagslega einangrun og styðja við áframhaldandi sjálfstæða búsetu. Mikilvægt er að tryggja aðgengi eldra fólks að dagdvalarrýmum og þá þarf að þróa frekari sérhæfingu í dagdvölum, sem geta komið til móts við mismunandi þarfir aldraðra.

 

Fjölbreyttur hópur

Þegar þjónusta við aldraða er annars vegar þarf að hafa í huga að aldraðir eru fjölbreyttur hópur. Engin ein lausn hentar öllum og því þarf að tryggja að í boði séu úrræði sem henta hverjum og einum einstaklingi. Hluti af því er að veita fólki sem enn getur búið heima viðeigandi stuðning. Öflug og fjölbreytt stuðningsþjónusta heim er þar vegamikill þáttur. Þá skiptir einnig máli að allir þeir sem koma að þjónustu við aldraða, ríki og sveitarfélög, vinni vel saman. Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár veitt samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu til íbúa Reykjavíkur gegn samningi við ríkið. Ljóst er eftir innleiðingu verkefnisins að samþættingin veitir notendum heildstæðari þjónustu en áður. Nú hefur samningurinn verið endurnýjaður og sérstakt fjármagn sett í að sinna endurhæfingu í heimahúsi.

Hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsum stuðlar að sjálfstæði, auknu öryggi og sjálfsbjargargetu, betri lífsgæðum og meiri virkni eldra fólks. Með þeirri nálgun fá eldri borgarar, sem vegna færniskerðingar eða í kjölfar slysa og veikinda upplifa erfiðleika við athafnir daglegs lífs, aðstoð á eigin heimili. Aðstoðin felst í því að virkja notendur og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi eins lengi og mögulegt er. Endurhæfingin er veitt af fagaðilum og fer þjónustan öll fram inni á heimili viðkomandi og í hans daglega umhverfi.

 

Mikilvægt samstarf

Samstarf ríkis og sveitarfélaga er mikilvægur hlekkur í því að tryggja öldruðum samfellda gæðaþjónustu. Núverandi fyrirkomulag samþættrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar hjá Reykjavíkurborg er til fyrirmyndar og því vert að efla það fyrirkomulag enn frekar. Í því skyni að stuðla að enn markvissara samstarfi ríkisins og Reykjavíkurborgar í þessum málaflokki boðaði heilbrigðisráðherra, í samvinnu við Landspítala og formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar, til vinnustofu í lok apríl. Þar ræddu saman aðilar, sem koma að öldrunarþjónustu, um áskoranir í þjónustu við aldraða. Lögð verður áhersla á að vinna úr þeim tillögum, sem vinnustofan skilaði, með það að markmiði að gera þjónustu við aldraða enn heildstæðari og markvissari.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Elín Oddný Sigurðardóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar