Ný stjórn í Hafnarfirði

Aðalfundur Vinstri grænna í Hafnarfirði var haldinn í gærkvöldi í húsnæði hreyfingarinnar að Strandgötu 11.

Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, kosning stjórnar og samþykkt ársreikninga.

Nýja stjórn skipa:

Júlíus Andri Þórðarson, formaður
Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir, varaformaður
Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir
Sigurbergur Árnason
Árni Stefán Jónsson

Ný stjórn VG-R

Aðalfundur Vinstri grænna í Reykjavík var haldinn í gærkvöldi. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, kosning stjórnar, samþykkt reikninga og skýrsla stjórnar.

Fundurinn var vel sóttur og uppskárust líflegar umræður um hin formföstustu mál.

Ný stjórn skipa:

Sesselja Traustadóttir, formaður
Sigurbjörg Gísladóttir
Magnús Sveinn Helgason
Benóný Harðarson
Dóra Svavarsdóttir
Álfheiður Ingadóttir
Ragnar Karl Jóhannsson
Auður Alfífa Ketilsdóttir
Steinar Harðarson

Ný stjórn í Borgarbyggð

Aðalfundur Vinstri grænna í Borgarbyggð var haldinn í Verkalýðshúsinu, Sæunnargötu, þann 11. júní síðastliðinn.

Venjuleg aðalfundarstörf voru á dagskrá þar sem farið var yfir liðið ár, ársreikningar samþykktir og ný stjórn kosin.

Friðrik Aspelund gaf ekki kost á sér til endurkjörs en hann hefur verið formaður Vinstri grænna í Borgarbyggð síðastliðin ár.

Stjórn í Borgarbyggð skipa:

Bjarki Grönfeldt Gunnarsson, formaður
Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir
Finnbogi Rögnvaldsson

Til vara:
Ingibjörg Daníelsdóttir
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Nýr meirihluti í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, Sigurður Björn Blöndal, Bjartri Framtíð, Sóley Tómasdóttir, Vinstri Grænum og Halldór Auðar Svansson, Pírötum kynntu samstarfssáttmálann sem flokkarnir hafa gert með sér fyrir komandi kjörtímabil.

Farið var yfir helstu atriði samstarfssáttmála flokkanna. Í upphafsorðum sáttmálans segir:
„Við sem myndum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur komum úr ólíkum áttum en stefnum nú að sama markmiði. Með hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi ætlum við að læra hvert af öðru og mynda heild sem er auðugri en summa okkar samanlögð.“

Þá var greint frá verkaskiptingu og formennsku í helstu ráðum og nefndum:

Borgarstjóri: Dagur B. Eggertsson
Formaður borgarráðs: S. Björn Blöndal
Forseti borgarstjórnar: Sóley Tómasdóttir
Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisnefndar: Halldór Auðar Svansson

Formennska í öðrum helstu nefndum skiptist þannig:

Skóla- og frístundaráð: Skúli Helgason
Velferðarráð: Björk Vilhelmsdóttir fyrsta árið og Ilmur Kristjánsdóttir tekur við að ári liðnu.
Umhverfis- og skipulagsráð: Hjálmar Sveinsson
Mannréttindaráð: Líf Magneudóttir
Menningar- og ferðamálaráð: Elsa Yeoman
Íþrótta- og tómstundaráð: Þórgnýr Thoroddsen
Hér má nálgast málefnasamning nýs meirihluta

,

Lykilstaðan á vellinum

Í síðustu borgarstjórnarkosningum sópaði Besti flokkurinn til sín fylgi og aðrir flokkar fóru halloka, allir sem einn. Sóley Tómasdóttir, komst ein frambjóðenda VG í borgarstjórn og það var ekki auðvelt hlutskipti. En hún lét ekki deigan síga og hefur svo sannarlega sýnt hvað í henni býr. Sóley tryggði VG þann hlut sem þurfti í nefndum og ráðum borgarinnar og stóð sjálf stífa vakt um ótal réttlætismál og stefnumið, oftar en ekki í góðri samvinnu við meirihlutann en stundum líka, þegar þörf krafði og það átti við, í bullandi ágreiningi. Hún er í lykilhlutverki og leikur í borgarstjórn mikilvægustu stöðuna á vellinum, stendur þá vaktina sem mestu skiptir frá sjónarhorni félagshyggju, jöfnuðar, kvenfrelsis og umhverfisverndar.

Sóley ávann sér virðingu annarra borgarfulltrúa, hefur átt mjög gott samstarf við meirihlutann og veitt honum bæði öruggan stuðning og beitt aðhald. Margt af því sem meirihlutinn gerði best á kjörtímabilinu hefði haft á sér annan svip og leitað í aðra farvegi ef ekki væri fyrir krafta Sóleyjar, áhrif í nefndum og ráðum og sjónarmið VG. Margir eru í hjarta sínu sammála þeim sjónarmiðum og flestum finnst þeir geta gengið að rödd VG vísri í þjóðmálaumræðunni en til þess að hún fái notið sín og hafi tilætluð áhrif þarf að veita stuðning og kjósa þá sem þar ganga undir merkjum. Flóknara er það nú ekki.

Félagshyggja er ekki spurning um smekk fyrir fólki eða stemmningu í aðdraganda kosninga heldur snýst hún um gallharða pólitík og raunverulega baráttu gegn peningaöflum sem aldrei taka sér hvíld. Nú eins og áður er verkefnið að berjast gegn fátækt, létta barnafólki róðurinn með gjaldfrjálsri grunnþjónustu og draga úr húsnæðiseklu, hugsa um aldraða og standa með sjúkum, berjast fyrir jafnrétti, efla skólastarf á alla kanta, leggja rækt við menningu, gæta að náttúrunni og gæðum í skipulagi. Sóley hefur barist af alefli fyrir þessum málum og nýtur virðingar allra sem til þekkja.

Um borgarstjóra að kosningum loknum þarf ekki að velta vöngum, stóra spurningin er hvort tekst að veita honum og miðjusæknu fólki, sem oft vill rása yfir á hægra vænginn, þann stuðning og það aðhald frá vinstri sem það þarf á að halda. Karlar verða í forystu og þurfa viðnám frá forystukonu. Náttúran þarf sárlega sína talsmenn. Og svo þarf að veita kynþáttahatrinu sem kann að spretta upp úr kjörkössunum öflugt viðnám. Til þessara verka þarf öfluga konu á vinstri vængnum, Sóleyju Tómasdóttur og allt það góða fólk sem henni fylgir að málum. Notum atkvæðið vel!

,

Réttlát Reykjavík

Kæru félagar.

Það eru þrír dagar til kosninga. Við erum komin á lokasprettinn og staðan er að skýrast. Valið stendur á milli átta framboða – Vinstri grænna og sjö annarra.

Fjölmiðlar hafa sýnt kosningunum lítinn áhuga. Þeir birta gjarnan myndir frá veislum og hátíðarhöldum, þeir standa fyrir róðrarkeppni og birta heilu opnurnar með hinni hlið oddvitanna þar sem spurt er um fyrsta kossinn og mestu eftirsjána. Minna fer fyrir stefnunni og hugmyndafræðinni. Fyrir því sem borgarbúar eru raunverulega að kjósa um.

Þessar kosningar eru auðvitað grafalvarlegt mál og þær skipta mjög miklu máli.

Við erum að kjósa um kjör borgarbúa, um það hvernig grunnþjónustunni verður háttað – og hver veitir hana. Við erum að kjósa um menntun og uppeldi, þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk, velferðarkerfið, húsnæði og fjárhagsaðstoð, samgönguhætti, umhverfi, auðlindir, neysluvatn, andrúmsloft og veðurfar.

Við erum að kjósa um hvernig samfélagi við viljum búa í og hvernig við viljum að það þróist. Og þá er bara einn skýr valkostur.

Vinstri græn bjóða nú fram í þriðja skipti undir eigin merkjum í Rekjavík. Við bjóðum fram sömu stefnu og byggjum á sömu hugmyndafræði og í hin skiptin og erum blessunarlega laus við að þurfa að endurskoða og yfirfara stefnumál okkar með tilliti til tíðarfars eða vinsælda.

Stefnan byggir nú sem fyrr á friðsamlegri nálgun, kvenfrelsi, umhverfisvernd og félagslegu réttlæti. Þessar grunnstoðir fléttast saman í stefnu sem miðar í raun að réttlátari borg, réttlátara samfélagi og réttlátari heimi.

Og það er ekki vanþörf á. Um þessar mundir kemur út hver skýrslan á fætur annarri um vaxandi fátækt á Íslandi. Á sama tíma og hagvöxtur og velmegun eykst í samfélaginu verður fátæktin raunverulegra og stærra vandamál og misskiptingin vindur uppá sig.

Skýrsluhöfundar lýsa eðlilega yfir áhyggjum vegna málsins og taka fram að alvarlegast sé ástandið hjá barnafjölskyldum. Fátæktin bitnar verst á börnum, þau verða af nauðsynlegri þjónustu og einangrast félagslega.

Í þessu felst félagslegur arfur fátæktarinnar. Fátæktin skerðir möguleika barnanna til að spjara sig á fullorðinsárum. Fátæktin er þannig bæði mein í núinu þar sem börn líða fyrir efnahag foreldra sinna en líka til framtíðar, þar sem börn hafa ekki sömu tækifæri til virkni, þátttöku og góðs lífs í samfélaginu.

Við þessu verður að bregðast með aðgerðum sem tryggja aukið réttlæti og jafnari möguleika barna og fullorðinna. Með samfélagslega ábyrgri nálgun og forgangsröðun getum við tryggt börnum og fullorðnum svo miklu sanngjarnari lífsskilyrði.

Þess vegna viljum við afnema gjaldskrár fyrir leikskóla, skólamáltíðir og frístundahiemili. Afnámið snýst ekki bara um ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna, heldur tryggir aðgerðin okkur sanngjarnara samfélag á svo mörgum sviðum:

Í réttlátu samfélagi geta öll börn stundað leikskóla, fengið heitan mat í skólanum og tekið þátt í starfi frístundaheimilanna
Í réttlátu samfélagi er börnum ekki mismunað eftir efnahag foreldra sinna
Í réttlátu samfélagi eru barnafjölskyldur ekki rukkaðar um hundruði þúsunda fyrir sjálfsagða þjónustu við börn
Í réttlátu samfélagi er leikskólinn raunverulega viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og það sama gildir um hann og grunnskólann
Í réttlátu samfélagi er skóladagur barna ekki bútaður niður í menntun, máltíðir og frístundir – hann er ein samfelld heild
Í réttlátu samfélagi líða börn ekki fyrri fjárhag foreldra sinna. Réttlátt samfélag tryggir öllum börnum gott atlæti og góða menntun og greiðir fyrir það úr sameiginlegum sjóðum.

Og það er ekki allt. Í réttlátu samfélagi eru kennslu- og uppeldisstéttir ekki lægstlaunaða starfsfólk landsins. Það verður að stórbæta kjör kennara á báðum skólastigum, skapa svigrúm og aðstæður til skólaþróunar.

En fleira þarf til. Það verður að mæta vanda fólks þar sem það er og fátæktina sjálfa. Fjárhagsaðstoð í Reykjavík er skammarlega lág, félagslegar íbúðir eru allt of fáar og félagsráðgjöf og barnavernd búa við mjög þröngan kost. Velferðarkerfið sem á að grípa og styðja við fólk í vanda er illa í stakk búið til að þjóna hlutverki sínu. Þar verðum við að gera svo miklu miklu betur.

Fátækt og misskipting er afleiðing þess að stjórnvöld hafa fríað sig samfélagslegri ábyrgð. Stjórnvöld hafa einfaldlega ekki staðið sig í að tryggja jöfn tækifæri og gott velferðarkerfi, heldur er tilhneiging til að líta á hið opinbera sem þjónustuaðila eða fyrirtæki sem þarf að fá greitt fyrir það sem innt er af hendi.

Og því miður sér ekki fyrir endann á því. Alvarlegasta afleiðing þeirrar hugmyndafræði er markaðsvæðing grunnþjónustunnar, útvistun og einkavæðing. Þar sem einkaaðilum er falið að sjá um samfélagsleg verkefni með gróðasjónarmið að leiðarljósi.

Í réttlátu samfélagi getur efnameira fólk ekki keypt betri eða öðruvísi menntun fyrir börnin sín
Í réttlátu samfélagi er ekki hægt að braska með innborganir eldra fólks í þjónustuíbúðum
Í réttlátu samfélagi eru orku- og veitufyrirtæki ekki seld einkaaðilum
Í réttlátu samfélagi er ferðaþjónusta fatlaðs fólks ekki unnin af einkaaðilum
Í réttlátu samfélagi er trúarsöfnuðum ekki falið að reka gistiskýli fyrir utangarðsfólk
Í réttlátu samfélagi er grunnþjónustan ekki féþúfa. Réttlátt samfélag innheimtir tekjur eftir getu fólks og veitir þjónustu í samræmi við þarfir fólks.

Og talandi um ábyrgð. Ég sagði í upphafi að við værum að kjósa um veðrið. Það er ekkert djók. Árið 1979 þótti Sólskinsflokkurinn agalega fyndið framboð. Þau lofuðu betra veðri á Íslandi. Í dag vitum við að mannfólkið hefur raunveruleg áhrif á veðurfar. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta ógn sem steðjar að mannkyninu. Og þær eru ekki síður réttlætismál en það sem ég hef rakið hér á undan.

Sumir fá glýju í augun þegar þeir hugsa til tækifæranna sem loftslagsbreytingar kunna að hafa í för með sér fyrir Íslendinga. Ekki ég. Og ekki við Vinstri græn. Loftslagsbreytingarnar munu hafa hrikaleg áhrif á lífsgæði fólks um allan heim. Þær munu valda hungursneyð og örbyrgð og auka á misskiptingu ríkra og fátækra landa.

Loftslagsbreytingarnar munu ennfremur vinna gegn sjálfsögðu jafnrétti kynslóðanna. Ef fram heldur sem horfir munu lífsgæði barna okkar og barnabarna verða mun verri en okkar sem nú lifum.

Það er skylda okkar að bregðast við. Sem einstaklinga, sem hreyfingar, sem borgar og sem lands.

Margt gott hefur gerst í Reykjavík í þessum efnum, ekki síst fyrir tilstuðlan Vinstri grænna. Miklar umbætur hafa orðið á hjólastígakerfi borgarinnar, almennignssamgöngur eru í stöðugri þróun og aðförin að einkabílnum er ekki lengur bara áhugamál kreddufullra vinstrimanna og umhverfishippa heldur sjálfsagt viðfangsefni allra stjórnmálaflokka.

En betur má ef duga skal og þar á krafan um réttlátari Reykjavík aldeilis við. Enn virðist enginn annar stjórnmálaflokkur vera reiðubúinn að horfast af alvöru í augu við vandann sem við blasir á Hellisheiði, þar sem Orkuveitan hefur gengið allt of hart fram gagnvart jarðhitauðlindinni á Hengilssvæðinu og enn eru uppi hugmyndir um frekari virkjanir. Brennisteinsmengun leggur yfir svæðið og niðurdæling affallsvatns veldur jarðskjálftum.

Í réttlátu samfélagi ganga menn ekki fram af náttúrunni
Í réttlátu samfélagi er náttúran látin njóta vafans
Í réttlátu samfélagi er fjármunum almennings ekki varið í tilraunastarfsemi í þágu mengandi stóriðju
Í réttlátu samfélagi er borin virðing fyrir lýðheilsu og eignum fólks umfram möguleg gróðasjónarmið orkufyrirtækja
Það verður að stíga varlega til jarðar. Við verðum að staldra við og bíða, draga lærdóm af öllum þeim stórfenglegu mistökum sem gerð hafa verið og vinda ofanaf gerræðislegum samningum um frekari orkuöflun til stóriðju.

Kæru félagar.

Þau verkefni sem ég hef farið hér í kvöld mun enginn vinna nema Vinstrihreyfingin grænt framboð. Það er ekkert framboð með jafn skýra sýn og jafn heildstæða stefnu um réttlátara samfélag.

Ekkert annað framboð er reiðubúið til að afnema efnahagslegar hindranir til menntunar – m.a.s. Jafnaðarmannaflokkur Íslands telur kostnaðarþátttöku foreldra mikilvæga fyrir þjónustu hins opinbera og enginn fer í grafgötur með afstöðu, aðgerðir eða fyrirætlanir hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð er tilbúið til að standa vörð um grunnþjónustu og samfélagsleg fyrirtæki. Samfylking og Björt framtíð hafa aldeilis sýnt vilja í verki á kjörtímabilinu, farið í viðræður við lífeyrissjóði vegna verkefna Orkuveitu Reykjavíkur, boðið út ferðaþjónustu fatlaðra og selt hlut okkar Reykvíkinga í HS-Veitum. Og aftur þarf ekkert að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Ekkert annað framboð hefur talað fyrir ábyrgri auðlindanýtingu, gegn stóriðjustefnunni og með almannahagsmunum, umhverfi, náttúru og komandi kynslóðum. Fagurt Ísland Samfylkingarinnar er dregið fram fyrir kosningar, Besti flokkurinn syngur í karaókí fyrir auðlindir á meðan fjölmiðlar veita því athygli – en því miður er ekki stólandi á þessa flokka þegar á reynir. Og enn eina ferðina þarf ég ekki að segja ykkur frá afstöðu, aðgerðum eða fyrirætlunum hægriflokkanna.

Það er alveg ljóst – að Vinstrihreyfingin grænt framboð er eini raunverulegi valkosturinn ef við viljum samfélag félagslegs réttlætis með öllu því sem slíkt samfélag inniber – umhverfisvernd, frið og kvenfrelsi.

Kæru félagar.

Ég ætla að enda þetta á að ræða stöðu stjórnmálanna í dag – akkúarat í dag, þremur dögum fyrir kosningar. Eftir afdrifaríkar kosningar í Evrópu þar sem öfgahægri og rasismi vann stórsigur virðist ógnvekjandi alda vera að flytjast með ofsahraða til Íslands.

Könnunin í dag og þróun kannana undanfarna daga bendir til þess að Framsóknarflokknum takist jafnvel að ná inn manni í borgarstjórn með fordæmalausum og fordómafullum málflutningi á kostnað minnihlutahópa og mannréttinda. Tilhugsunin er óbærileg. Ekki bara tilhugsunin um stjórnmál þar sem leyfilegt er að valta yfir grundvallarmannréttindi – heldur ekki síður um að borgarbúar séu mögulega reiðubúnir að velja þessi sjónarmið framyfir önnur.

Framsóknarflokkurinn bauð fram og tók sér strax pláss sem gamaldags, heiftúðugt niðurrifsafl. Ekki bara gamaldags íhald, heldur reglulega harðsnúið öllu því sem gert hefur verið eða boðað til framfara. Þegar svo við bættist boðskapur sem elur á fordómum og rasisma keyrði um þverbak.

Eitt er þó verra en tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum. Það er tilhugsunin um borgarstjórn með Framsóknarmönnum án Vinstri grænna. Könnunin í dag og þróunin undanfarna daga gefur okkur tilefni til að óttast það að rödd Vinstri grænna hverfi úr borgarstjórnarsalnum. Það má ekki gerast.

Nú reynir á – af alvöru.

Ástandið í samfélaginu kallar á skýra, sterka og háværa vinstrirödd. Vinstrið er mótvægið við öfgarnar – mótvægið við misréttið – mótvægið við fordómana.

Við erum vinstrið kæru félagar. Það er okkar að tryggja að rödd Vinstri grænna hljómi áfram á vettvangi borgarstjórnar, að áfram verði barist með kjafti og klóm gegn misrétti – gegn arðráni – gegn rányrkju – með réttlæti – með ábyrgð og sanngirni.

Við trúum á málstaðinn. Við stöndum með honum. Við höfum kjark og kraft til að berjast. Látum það gerast. Tökum öll þátt.

Ég vona svo sannarlega kæru félagar að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu. Að vondu kannanirnar séu rangar og góðu kannanirnar réttar. En það gefur ekki síður tilefni til þess að við leggjum allt undir næstu daga. Því ef bestu kannanir reynast réttar og við leggjum samt allt undir – þá tryggjum við ekki bara rödd Vinstri grænna – heldur helmingi sterkari rödd. Þá náum við því markmiði sem við höfum stefnt að í allt vor og munum ekki gefa upp á bátinn – að ná Líf Magneudóttur inn í borgarstjórn.

Á laugardaginn eigum við í alvörunni möguleika á að tryggja líf í borgarstjórn. Gerum það á þeim þremur dögum sem eftir eru. Setjum undir okkur hausinn og sannfærum borgarbúa.

Áfram við!

Sóley Tómasdóttir

Ræðan var flutt á skemmtikvöldi Vinstri grænna í Reykjavík 28. maí 2014.

,

Burt með fordóma – Réttlátt samfélag

Sveitarstjórnarkosningarnar á laugardaginn snúast um pólitískar áherslur, stefnumál og framtíðarsýn.
Þessi grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi gleymast oft eða víkja fyrir hversdagslegri þáttum eins og persónulegri lífsreynslu einstakra frambjóðanda, jafnvel þannig að það varði kjósendur meiru hvort frambjóðendur hafi verið naktir í óbyggðum, en hvernig þeir hyggist bregðast við þeim aðkallandi verkefnum sem brenna á íbúum í hverju sveitarfélagi. Þetta er ekki alveg ný þróun, en það er ekki örgrannt um að hún hafi heldur ágerst.

Um liðna helgi var kosið til Evrópuþingsins í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Sérstaka athygli hefur vakið að hægri sinnaðir öfgaflokkar, sem ala á tortryggni og fordómum af ýmsum toga, juku verulega við sig fylgi. Að minnsta kosti í sumum ríkjum. Þessi úrslit vekja eðlilega áhyggjur en líka spurningar um þá vegferð sem stjórnmálin innan Evrópusambandsins og einstakra ríkja er á um þessar mundir. Raunar er það svo að róttæk vinstriöfl bættu stöðu sína í nokkrum ríkjum í þessum sömu kosningum, s.s. í Grikklandi, Spáni og Portúgal, þar sem atvinnuleysi og félagslegur ójöfnuður hefur herjað hvað mest. Þar ómar krafan um meira réttlæti, aukinn jöfnuð og samfélagslega ábyrgð. Kosningaúrslitin í Evrópu eiga að vera skýrt ákall um að hverfa af braut óheftrar markaðshyggju og misskiptingar og inn á leið réttlátrar og sjálfbærrar samfélagsþróunar.

Ekki er laust við að hér á landi hafi að undanförnu borið á pólitískum málflutningi sem er reistur á fordómum, vísvitandi rangfærslum og allt að því hatri. Slík neikvæð kosningabarátta kemur úr ranni þeirra sem hafa ekkert jákvætt fram að færa, enga uppbyggilega framtíðarsýn, heldur vilja ala á ótta og vanvirðingu. Það er sannarlega uggvænlegt og í raun skammarlegt þegar frambjóðendur fjalla um skipulagsmál í Reykjavík með því að gera öðrum upp áform í sovéskum anda; þeir sem það gera vita ekkert hvað þeir eru að tala um, vita ekkert hvað fólst í sovéskri samfélagsgerð, ættu etv. að kynna sér söguna áður en þeir grípa til svo ómerkilegs málflutnings.

En varhugaverðastur er samt hinn ljóti leikur að spila á lægstu hvatir manneskjunnar, hatrið, öfundina og fordómana. Það er illt til þess að vita að íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag verði þeirri óheillaþróun að bráð, sem við sáum koma fram í kosningaúrslitum í Danmörku, Frakklandi, Bretlandi og víðar um síðustu helgi. Sjálfsvirðing stjórnmálanna og stjórnmálamanna bíður hnekki þegar svo er komið. Og það sem meira er: það er ógn við frið og öryggi í sérhverju samfélagi að kynda undir missætti, tortryggni og rætni.

Kosningar í lýðræðissamfélagi snúast um grundvallargildi, um framtíðarsýn. Ekki um fyrsta koss frambjóðenda eða svokallaða „hina hlið“ þeirra, heldur um það hvernig samfélag við viljum byggja. Þeir sem vilja byggja réttlátt samfélag, auka jöfnuð og tryggja komandi kynslóðum eftirsóknarverða framtíð ljáðu róttækum vinstriöflum atkvæði sitt í öðrum Evrópulöndum um síðustu helgi. Hér á landi er tryggingin fyrir réttlátu samfélagi og gegn fordómum fólgin í atkvæði veittu Vinstri grænum. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Í húfi er heill þjóðfélagsins og friðsamleg sambúð í samfélagi fjölmenningar og mannlegrar reisnar. Látum kosningarnar á laugardag snúast um réttlátt og fordómalaust samfélag.

,

Björt framtíð

Það skiptir máli hvernig við tölum um hlutina, hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur og hvaða orð við notum til að lýsa þeirri framtíð. Í dag eru við lýði orð og hugmyndir sem setja framtíð okkar í mjög svo fyrirfram mótaðan búning. Einstaklingshyggjan er efst á blaði og sú hugmynd að einstaklingurinn sé sjálfstæður gerandi, algerlega við stjórn eigin hugmynda og gerða og þær ráðist nánast aðeins af mati á eigin hagsmunum, hagsmunum sem yfirleitt eru peningalegs eðlis. Frelsi hverfist um þessa hugmynd og þetta frelsi hefur skilgreindan leikvöll, markaðinn sem er orðin alltumlykjandi og er að verða grundvöllur allra samskipta okkar. Hvert sem við komum, hvað sem við gerum ráða auglýsingar og almannatenglar upplýsingagjöf, kennarar og læknar eru orðnir þjónustuveitendur og við veljum eins og neytendur í búð.

Markaðurinn er hinsvegar ekki vettvangur frelsis. Það er skilyrt frelsi sem snýst um auðsköpun, framlegð, hagvöxt og störf. Þetta eru ráðandi stef í samfélaginu og ef ekki er hægt að þýða það sem þú segir yfir á eitthvert þeirra er fljótt hætt að hlusta. Hagvöxtur er álitin náttúrulögmál en hvernig sá vöxtur kemur ólíkum hópum til góða er ekki rætt. Hagvexti er nefninlega mjög misskipt. Hvernig krafan um hagvöxt og framlegð er að fara með umhverfi okkar og hvort hagvöxturinn og gróðinn eru að skila einhverri raunverulegri lífsfyllingu eða hamingju falla einnig í skuggann. Hvernig væri að snúa þessu við. Ræða lífsfyllingu, hamingju, heill umhverfis og náttúru og skiptingu þess auðs sem við búum yfir og ræða svo tilhvers hagvöxtur og framlegð ættu að vera?

Atvinna og störf eru annar flötur markaðar og hinnar sjálfgefnu kröfu um hagvöxt og framlegð. En hvað er vinna? Er það kvöð sem við neyðumst til að leysa að jafnaði átta tíma á dag til að geta keypt okkur hamingju? Hvað með alla þá vinnu sem ekki er borguð, sem viðheldur samfélagi okkar, s.s. þegar afi og amma passa eða þegar við tökum til heima. Hvernig væri að snúa hugmyndum okkar um vinnu við? Hætta að horfa á hana sem fjáröflunarleið til að kaupa dót og horfa á vinnu sem uppsprettu lífsfyllingar og hamingju, merkingar og tilgangs. Þá gæti fleira farið að teljast til starfa í okkar samfélagi og það mun hafa raunverulegar afleiðingar fyrir t.d. jafnrétti kynjanna þar sem t.d. umönnum og þrif teljast ekki vinna og eru oft kvennastörf.

Markaðurinn snýst líka um fjárfestingu og kostnað. Fjárfesting er góð, kostnaður slæmur. Þegar einkaaðili byggir skólahús er það fjárfesting til eflingar hagvaxtar en að reka það með skattfé er kostnaður, sem leggur til hallareksturs hins opinbera (þarna er líka áhugaverð kynjavídd en skólastörf oftast kvennastörf). Hvernig væri að snúa þessu við og horfa á rekstur skóla og velferðarþjónustu sem hagvöxt framtíðar, hætta að líta á steypu sem fjárfestingu og horfa frekar til þess sem hún á að hýsa.

Markaðinn, þarf að hugsa útfrá tengslum allra þeirra ólíku einstaklinga sem mynda hann sem heild. Þar hafa ýmsir mikilla hagsmuna að gæta af því að telja okkur trú um að um að markaðurinn sé náttúrulögmál og núverandi skipting auðs mótuð framtakssemi einstaklinga á markaði. Það er gert með orðfæri sem skilgreinir sambönd okkar og hlutverk hverju sinni. Sambönd sem gera okkur meðvirk í viðhaldi kerfisins ef við hugsum ekki vandlega um samhengi orðanna og merkingar þeirra. Að tala um lífsfyllingu, hamingju, gleði og skemmtun án þess að horfa til þess sem mótar skilning okkar á þeim hugmyndum í dag er ekki ávísun á þá björtu framtíð sem margir vilja kenna sig við. Það að andæfa og taka meðvitaða afstöðu gegn þeim hugmyndum og orðum sem skilgreina líf okkar í dag með allri þeirri misskiptingu og sóun sem þeim fylgja er það hinsvegar. Þar duga ekki stubbaknús eða hamingjusöngvar, heldur aðeins raunveruleg þétt og öflug varðstaða um þær hugmyndir sem geta viðhaldið bjartri framtíð allra og fara gegn raunverulegum hagsmunum og völdum í samfélaginu í dag.

Edward Huijbens skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

,

Já, þetta er hægt!

Margir hafa velt fyrir sér hvort tillögur okkar Vinstri grænna séu raunhæfar og hvort það sé til peningur fyrir þessu öllu. Við höfum ætíð svarað því játandi og bent á mikilvægi þess að stórauka framlög til menntamála í borginni um leið. Við viljum bæði gera grunnþjónustu við börn gjaldfrjálsa og við viljum líka bæta kjör umönnunarstétta og forgangsraða fjármunum til skólamála í meira mæli en hefur verið gert.

Þetta er hægt og við viljum, og ætlum, að gera það. Við viljum leita allra leiða til að gera samfélagið betra í dag en það var í gær og betra til framtíðar og fyrir komandi kynslóðir. Með róttækum aðgerðum í þágu barna getur borgin gert sitt til að útrýma fátækt, auka velferð og jöfnuð og koma í veg fyrir misskiptingu. Það er samfélag sem við getum öll samþykkt og því ætti að vera auðvelt að samþykkja stefnu okkar Vinstri grænna í borginni.

Fimm ára plan
Smelltu á mynd til að stækka

Líf Magneudóttir skipar 2.sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík