Óskað eftir upplýsingum um uppsagnir hjá borginni

Í borgarráði í dag óskaði borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna eftir upplýsingum um uppsagnir starfsfólks borgarinnar á árunum 2010 til 2012, greint eftir ári, sviði og kyni.

Brýnt er að þessar upplýsingar séu aðgengilegar almenningi fyrir kosningar eftir erfitt kjörtímabil þar sem hart hefur verið vegið að leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Leiða má líkum að því að mun fleiri konum hafi verið sagt upp en körlum og að þær hafi bitnað harðast á leikskólum borgarinnar.

Það er vont, ef rétt reynist, að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar hafi gengið harðast fram gagnvart þeim stéttum sem eiga að tryggja menntun, uppeldi og gott atlæti barna, sér í lagi svo stuttu eftir hrun. Auk þess má velta fyrir sér gagnsemi uppsagna á skóla- og frístundasviði, þar sem lægstu launin eru greidd að jafnaði.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna mun fylgja því fast eftir að upplýsingarnar verði lagðar fram fyrir kosningar, enda hljóta borgarbúar að vilja kjósa ábyrga fjármálastjórn sem byggir á sanngirni og jöfnuði.

,

Reykjavík er rík borg

„Fyrir utan að vera ósanngjarn og hafa bein áhrif á líðan og aðstæður þeirra sem verða undir, hefur ójöfnuðurinn neikvæð áhrif á samfélagið allt, samskipti og félagsauð í borginni.“ Þetta segir Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna sem fagnaði góðri niðurstöðu í ársreikningi borgarinnar í borgarstjórn í gær.

Hún sagði niðurstöðurnar vera til marks um ríkan borgarsjóð og að hægt væri að gera betur. Fyrst og fremst þyrfti að vinna að auknum jöfnuði í samfélaginu.

„Ójöfnuður hefur þess utan sýnt sig að vera kostnaðarsamur fyrir samfélagið – samfélög sem tryggja jöfn tækifæri fólks búa almennt við meiri hagsæld en samfélög ójöfnuðar. Það er því ekki bara af rómantískum ástæðum eða kreddum sem við Vinstri græn tölum fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu. Það er einfaldlega ábyrgasta leiðin til að reka samfélag – fyrir okkur öll.” sagði Sóley og hvatti meirihlutann, borgarfulltrúa og frambjóðendur til borgarstjórnar til að kynna sér þær leiðir sem Vinstri græn hefðu sett fram til að stuðla að jafnari tækifærum barna og bættum kjörum barnafjölskyldna.“

Sóley fagnaði góðum árangri sem náðst hefði í fjármálum Orkuveitu Reykjavíkur en brýndi meirihlutann í ábyrgari afstöðu gagnvart samfélagslegu mikilvægi fyrirtæksisins. Hún hvatti meirihlutann til að vinda ofanaf einkavæðingaráformum Gagnaveitunnar, þar sem áformum um eignasölu væri þegar náð og gagnrýndi söluna á hlut borgarbúa í HS-veitum, sem væru mikilvægir innviðir sem ekki hefðu átt að lenda í höndum einkaaðila.

Sóley var líka gagnrýnin á meintar lausnir meirihluta Besta flokks og Samfylkingar á dvínandi framleiðslugetu Hellisheiðarvirkjunar. Það væri ekki ábyrgt að fara í framkvæmdir upp á 4,3 milljarða króna upp á von og óvon og spurði hvort meirihlutinn hefði gert varaáætlun ef meint lausn stæðist ekki.“

„Það er óábyrgt að verja fjármunum almennings í tilraunastarfsemi á sviði jarðhitavirkjana. Allt of hröð uppbygging var óábyrg á sínum tíma – og um fortíðina getum við endalaust deilt en fyrst og fremst ber okkur að læra af henni.“

Og ennfremur:

„Rekstur fyrirtækis sem byggir á jarðfræði verður að byggja á áætlunum til miklu mun lengri tíma – þar þarf að gæta miklu meiri varúðar í framkvæmda- og fjárhagsáætlunum og þar þarf að slá miklu fleiri fyrirvara en í öðrum og hefðbundnari rekstri.“

Vinstri græn í Reykjavík – fyrir fólk á öllum aldri

Nánari útlistun á aðgerðum og öðrum þeim málaflokkum sem ekki er fjallað um hér er að finna í stefnuskrá Vinstri grænna í Reykjavík

 

reykjav-k-5-n-v-2007_519

 

Stefnuskrá Vinstri grænna byggir fyrst og fremst á samfélagslega ábyrgri nálgun gagnvart innviðum og umgjörð samfélagsins. Stærstu viðfangsefni borgarstjórnar á næsta kjörtímabili verða að sporna gegn sívaxandi fátækt og ójöfnuði og loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Gjaldfrjáls leikskóli, skólamáltíðir og frístundaheimili

Ábyrg og róttæk nálgun til að uppræta fátækt og auka jöfnuð í samfélaginu er að gera leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili gjaldfrjáls. Þannig tryggja Vinstri græn aðgengi allra barna að góðri og uppbyggilegri grunnmenntun og auka ráðstöfunartekjur foreldra til muna á sama tíma.

(Afnám gjaldskránna krefst þess að við bætum 750 milljónum á ári inn í fjárhag skóla- og frístundasviðs, 0,9% af heildartekjum borgarinnar. Þannig getum við lækkað gjaldskrár um 25% á hverju ári og innleitt gjaldfrelsið árið 2018).

Til að tryggja jöfnuð munu Vinstri græn jafnframt standa dyggan vörð um grunnstoðir samfélagsins og koma í veg fyrir að þeim verði úthýst með skammtímasparnað fyrir borgina að leiðarljósi en hagnaðarsjónarmið fyrir einkaaðila. Slíkt leiðir oftast til verri þjónustu og aukins kostnaðar fyrir samfélagið á endanum.

Stöndum með samfélaginu

Vinstri græn standa með leikskólum, grunnskólum, frístundastarfi, velferðarkerfinu og samfélagslegum fyrirtækjum í eigu borgarinnar; Strætó, Sorpu og Orkuveitunni. Við tryggjum opinbera eigu og skýrt forræði almennings á þessum grunnstoðum og höfnum markaðs- og samkeppnisvæðingu þeirra. Þær eiga að vera fyrir okkur öll óháð efnahag, aldri eða félagslegri stöðu. Sérstaklega þarf að gæta að Orkuveitunni nú þegar henni hefur verið skipt upp og blikur eru á lofti um einkavæðingu einhverra hluta hennar.

Sanngjarnari húsnæðismarkað

Vinstri græn munu stuðla að uppbyggingu fjölbreyttra íbúða til kaups, leigu og íbúðarréttar á kjörtímabilinu auk þess sem gerð verður áætlun um að útrýma biðlista þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir félagslegt húsnæði hjá Félagsbústöðum. Þannig stuðlum við að sanngjarnari og betri húsnæðismarkaði fyrir borgarbúa.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum

Loftslagsbreytingar af mannavöldum snúast ekki síður um fátækt og ójöfnuð, þó vandinn muni fyrst og fremst bitna á komandi kynslóðum og fólki í öðrum heimsálfum. Reykjavík er lítil borg í stórum heimi og á að axla ábyrgð sem slík.

Vinstri græn munu áfram beita sér fyrir umhverfisvænni lifnaðaháttum með skynsamlegri þéttingu byggðar og stórelfdri nærþjónustu í hverfum borgarinnar. Við munum beita okkur fyrir minni neyslu og sóun, aukinni sorpflokkun og meiri endurvinnslu. Við munum halda áfram að bæta þjónustu Strætó með tilliti til þarfa barna, skólafólks og þeirra sem eldri eru og vinna að bættri aðstöðu til hjólreiða. Auk þess munum við stuðla að raf- og metanvæðingu í borginni og hægari umferð í bland við aðra samgöngumáta.

Ábyrgari nýting auðlinda

Við verðum að staldra við eftir allt of hraða uppbyggingu jarðvarmavirkjana Orkuveitunnar á Hellisheiði. Þar fer nú fram ofnýting á dýrmætri auðlind sem mun bitna á komandi kynslóðum, verði ekkert að gert. Frekari virkjanaframkvæmdir mega ekki eiga sér stað fyrr en jafnvægi hefur náðst á svæðinu og lausnir hafa fundist á þeim vandamálum sem upp hafa komið, á borð við brennisteinsmengun og niðursdælingu affalsvatns.

 

vgr-efstu-6-2014-300x225

 

,

Vald yfir velferð

Árið 2007 kom fram í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að stefna bæri að „fjölbreyttari rekstrarformum“ í heilbrigðisþjónustu. Þessi stefna gengur nú aftur, ekki síst í áherslum Bjartrar framtíðar fyrir síðustu þingkosningar. Þessar hugmyndir varða okkur Akureyringa miklu þar sem bæði Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæslan eru máttarstoðir velferðar hér og víðar um Norðurland. Hið fyrra er rekið af ríki og síðara af sveitarfélaginu með framlagi frá ríki. Akureyrarbær hefur þurft að borga með heilsugæslunni, þar sem ónóg framlög hafa fylgt frá ríkinu og þrengt hefur verið að rekstri Sjúkrahússins frá því löngu fyrir hrun. Með auraleysi hins opinbera hefur nú verið skapað „svigrúm“ fyrir „fjölbreyttari rekstrarform“ eins og sumir pólitíkusar kjósa nú að kalla einkavæðingaráform sín. Þá er rétt að skoða hvað felst í þessum fjölbreytileika.

Um er að ræða samninga við einkaaðila um framkvæmd þjónustu undir eftirliti hins opinbera. Vissulega er hægt að setja skýran ramma utan um slíka samninga en þegar öllu er á botninn hvolft er um einkaaðila að ræða, sem óhjákvæmilega munu gera kröfu um að reksturinn skili hagnaði. Það vita allir að helsti hvati fyrirtækjareksturs er vonin um hagnað og það er ákaflega erfitt að hugsa sér að einhver vilji taka að sér rekstur fyrir hið opinbera og í ofanálag undir ströngu eftirliti, án þess að vilja nokkuð fyrir sinn snúð. Þannig að ljóst er að allur einkarekstur mun annað hvort verða okkur dýrari eða við fáum minni þjónustu.

Það er þó aðeins einn angi. Í samningum um rekstur velferðaþjónustu mun eðli þjónustunnar og skyldur rekstraraðila verða skilgreind nákvæmlega. Það er hagur rekstraraðilans að geta skilgreint þjónustuna sem nákvæmast, bæði uppá verðlagningu og til að komast hjá ófyrirséðum kostnaði vegna þjónustu sem þá er hægt að semja sérstaklega um við ríkið. Með þessum hætti dregur verulega úr sveigjaleika þjónustunnar, auk þess sem líklegast er að samið verði um þá hluta hennar sem auðveldast er að skilgreina og óvissir þættir verði eftirlátnir hinu opinbera, þ.e. okkur skattgreiðendum .

Þá er komið að þriðja hluta afleiðinga þess að opna á einkarekstur í velferðarþjónustu. Það er að við semjum frá okkur vald yfir áherslum og forgangsröðun velferðarþjónustunnar. Það leggjum við í hendur lögfræðinga og dómstóla sem munu kíta um efnisatriði og efndir samninga, frekar en að ræða stefnu og sjónarmið sem liggja eiga til grundvallar velferð okkar.
Látum ekki glepjast af fagurgala um fjölbreytni. Þegar við framseljum vald yfir velferð gerist það með samningum sem binda hendur okkar um langa tíð og fellir umræðu um velferð í skotgrafir lagaklækja og málaferla um efndir og inntak samninga. Í þeirri umræðu verða íbúar og kjörnir fulltrúar þeirra ekki þátttakendur og aðeins þeir sem hafa mesta möguleika á lögfræðiþjónustu, fá bestu þjónustuna.

Edward H. Huijbens
Höfundur skipar 2. sæti á lista VG Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Greinin birtist fyrst á netmiðlinum Akureyri, www.akv.is

Óréttlætanlegt að veita fjármagni í stúkusæti við núverandi aðstæður

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar samþykkti í dag viðbótarframlag úr borgarsjóði til Fylkis til kaupa á sætum í áhorfendastúku fyrir keppnisvöll meistaradeildar. Borgarfulltrúi Vinstri grænna greiddi atkvæði gegn tillögunni og bókaði með eftirfarandi hætti:

Borgarfulltrúi Vinstri grænna getur ekki samþykkt frekari fjárveitingu til stúkubygginga við núverandi aðstæður. Þegar hefur 90 milljónum króna verið varið til verksins með fögrum fyrirheitum um ráðdeild og sparnað við framkvæmdirnar, en allt kemur fyrir ekki, nú á að bæta enn frekar í. Á meðan leik- og grunnskólastarf fer fram við þröngan kost, viðhaldi skólabygginga er stórlega ábótavant og aðstaða til íþróttaiðkunar í yngri flokkum er víða slæm er óréttlætanlegt með öllu að frekara fjármagni verði varið í nógu þægileg sæti fyrir áhorfendur meistaraflokks Fylkis.

 

,

Kosningavor í Mosfellsbæ

Fyrir skemmstu voru jafndægur á vori sem mörkuðu til forna upphaf vorsins. Sú árstíð er ævinlega kærkomin eftir langan og myrkan vetur sem var nokkuð harðhentur við okkur Mosfellinga að þessu sinni og hefur skilið eftir fingraför sín víða um sveitina. Enn sjást skaflar í fjallahlíðum, hálkusandur á bílastæðum og sinustrá sem munu syngja sitt síðasta vers í sumar. En vorið er komið og ekki spillir að það er kosningavor.

Kosningar hleypa ævinlega miklu lífi í alla samfélagsumræðu; þær eru ákveðin tímamót, í senn er horft um öxl og fram á ófarinn veg. Á síðustu vikum hafa framboðslistar litið dagsins ljós og vinstri-græn bjóða nú fram í þriðja skipti undir eigin merkjum í Mosfellsbæ. Ég er afar stoltur að fá að leiða þennan öfluga hóp sem er reiðubúinn að vinna samfélaginu gagn hér á heimavelli. Á listanum er fólk með ólíkt lífshlaup að baki en sömu markmið og grunngildi að leiðarljósi.

Um þessar mundir stendur yfir málefnavinna hjá VG-Mos og mótun á stefnuskrá framboðsins. Bæjarbúar eru hvattir til að senda okkur ábendingar og hugmyndir sínar um það sem bæta má hér í sveitarfélaginu. Það er meðal annars hægt að gera í sérstökum hugmyndabanka á heimasíðunni www.vgmos.is. Þegar nær dregur kosningum mun VG opna skrifstofu í Kjarna, þar sem áður var skrifstofa VÍS.

Gleðilegt kosningavor, Mosfellingar!

Bjarki Bjarnason, skipar 1. sæti á lista VG í komandi kosningum. 

Sveitarstjórnarráðstefnu lokið

Mikill hugur var í sveitarstjórnarfólki og frambjóðendum Vinstri grænna sem hittust um helgina á sveitarstjóranrráðstefnu í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Þar voru flutt áhugaverð erindi um brýnustu viðfangsefni sveitarfélaganna og félagar miðluðu af reynslu sinni úr sveitarstjórnarstarfinu. Að lokum voru sameiginlegar grunnáherslur hreyfingarinnar voru samþykktar sem fara nú til útfærslu og aðlögunar að aðstæðum og áherslum í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

,

Fjölskylduborgin Reykjavík

Þó kannanir sýni að stór hluti ungs fólks vilji búa í Reykjavík og miðsvæðis er staðreyndin því miður sú að margt ungt fólk sem er að stofna fjölskyldu kýs að búa í nágrannasveitarfélögunum. Ástæðan er einföld: Húsnæðiskostnaður er of hár í Reykjavík, sérstaklega vegna þess hversu dýrt er að stofna og reka fjölskyldu.

Þessu verður að breyta. Reykjavík þarf að verða alvöru fjölskylduborg þar sem fólk getur ráðið hvort það býr í eigin húsnæði eða öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Við þurfum aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum sem henta ungum fjölskyldum og háskólanemum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð gerir sér grein fyrir þessu. Að okkar mati er algert forgangsatriði að íbúðir í þessum stærðarflokkum verði byggðar. En við þurfum að tryggja að verktakar og leigufélög peningamanna og braskara misnoti ekki húsnæðisskortinn til að græða á vanda ungra fjölskyldna, við þurfum að efla húsnæðissamvinnufélög og auðvelda Félagsstofnun stúdenta að leysa húsnæðisvanda háskólanema.

Þurfa fleira en húsnæði
Ef við viljum bæta kjör ungra fjölskyldna þurfum við hins vegar að horfa til fleiri þátta en húsnæðiskostnaðar. Kostnaður foreldra vegna leikskólagjalda, frístundastarfs, skólamáltíða og annarrar grunnþjónustu við börn er t.d. gríðarlega mikill. Gjaldheimta borgarinnar vegna eðlilegrar grunnþjónustu við börn er þungur útgjaldaliður hjá mörgum ungum fjölskyldum. Of þungur, því allt of margar efnalitlar fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að borga fyrir skólamáltíðir og frístundastarf, og fyrir alla hina eru þessi gjöld mjög stór útgjaldaliður.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum því lagt mikla áherslu á að öll grunnþjónusta við börn verði í boði fyrir alla, óháð fjárhag eða stöðu.

Gjaldfrjálsa grunnþjónustu
Að bjóða upp á gjaldfrjálsa leikskóla, skólamat og tómstundastarf er ótrúlega mikilvægt fyrir samfélagið. Hærri tómstundastyrkur dugar ekki til. Við þurfum alvöru aðgerðir til að tryggja jöfnuð.

Slíkar aðgerðir bæta ótvírætt kjör allra fjölskyldna. Þær auka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna og losa efnaminnstu fjölskyldurnar við álagið sem fylgir því að eiga ekki fyrir reikningum vegna skólamatar eða frístundaheimilis.

Kæru Reykvíkingar, fáum ungar fjölskyldur til þess að flytja til Reykjavíkur. Gætum þess að aðstæður séu þannig að allir fái jöfn tækifæri til að blómstra. Setjum því X við V í vor.

Benóný Harðarson skipar 11. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík
Greinin birtist fyrst á Vísi.is

,

Listi samþykktur á Akranesi

Listi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og óháðra á Akranesi var samþykktur fyrir stuttu.

Listann skipa:

 1. Þröstur Þór Ólafsson vélfræðingur
 2. Reynir Þór Eyvindsson verkfræðingur
 3. Elísabet Ingadóttir viðskiptafræðingur
 4. Hjördís Garðarsdóttir aðst. varðstjóri hjá Neyðarlínunni
 5. Guðrún Margrét Jónsdóttir eðlisfræðingur
 6. Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur
 7. Valgerður Helgadóttir háskólanemi
 8. Gunnur Hjálmsdóttir leikskólakennari
 9. Eygló Ólafsdóttir stuðningsfulltrúi FVA
 10. Björn Gunnarsson læknir
 11. Ólöf Samúelsdóttir félagsráðgjafi
 12. Inga Nína Jóhannsd rafeindavirkjanemi
 13. Elísabet Jóhannesdóttir kennari
 14. Ingibjörg Gestsdóttir þjóðfræðingur
 15. Guðundur Þorgrímsson kennari
 16. Jón Hjartarson hárskeri
 17. Rún Halldórsdóttir læknir
 18. Benedikt Sigurðsson kennari