Vinstri græn borg fyrir fólk á öllum aldri

Vinstri græn borg fyrir fólk á öllum aldri

Við Vinstri græn viljum að Reykjavík sé aldursvæn borg þar sem fólk á öllum aldursskeiðum getur lifað góðu og gefandi lífi. Það er okkar sýn að eldri borgarar eigi að ráða sér sjálfir og öll aðstoð skuli taka mið af óskum og þörfum hvers og eins.

 

Hlustum á eldra fólk

Það er mikilvægt að við virðum reynslu, skoðanir og sjálfákvörðunarrétt eldra fólks. Við verðum að stuðla að því að allt eldra fólk geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Það gerum við með því að huga að ólíkum aðgengisþörfum og gera eldri borgurum kleift að rækta fjölskyldu- og vinatengsl, með þátttöku í fjölbreyttu félags- og menningarlífi.

 

Vinstri græn vilja efla samvinnu við aðstandendur, hagsmunasamtök og notendur þjónustu. Öldungaráð borgarinnar, sem tók til starfa á kjörtímabilinu er mikilvægt skref í þá átt.

 

Við í VG leggjum áherslu á raunhæf skref til að mæta fjölbreyttum þörfum eldra fólks:

Menningar og lýðheilsukort aldraðra: Á þessu kjörtímabili höfum við í VG beitt okkur fyrir því að borgin bjóði upp á menningar- og lýðheilsukort fyrir aldraða, til að efla hreyfingu og félagsstarf. Nú veitir kortið ókeypis í sund, söfn borgarinnar og bókasöfn, auk verulegs afsláttar í strætó. Við viljum stórauka þá þjónustu sem kortið veitir aðgang að.

Fleiri hjúkrunar og dagvalarrými: Í samvinnu við ríkið viljum við tryggja nægt framboð af hjúkrunar- og dagdvalarrýmum fyrir eldra fólk í borginni.

 

Eflum heimaþjónustu og heimahjúkrun: Mikilvægt er að tryggja fjáragn frá ríkinu til að efla almenna heimahjúkrun og koma á fót sérhæfðri þjónustu, svo sem við heilabilaðra og liknarmeðferð i heimahúsi.


Endurhæfing í heimahúsi
: Ljúka verður innleiðingu endurhæfingar i heimahúsi í öllum hverfum. Bæta þarf sjúkra- og iðjuþjálfum ásamt næringarráðgjöfum við þann hóp fagfólks sem annast þjónustu við aldraða.

Nýtum velferðartækni: Ný tækifæri liggja á sviði velferðartækni og rafrænum heimaþjónustukerfum.

Rjúfum félagslega einangrun: Á þessu kjörtímabili höfum við stutt aðgerðir sem stuðla að samveru kynslóðanna. Efla þarf verkefni á borð við að háskólanemum sé boðið upp á íbúðir í þjónustuíbúðakjörnum eldri borgara.

Allskonar eldra fólk: Þarfir eldri borgara eru allskonar, við þurfm að tryggja jafnan aðgang fátækra eldri borgara, innflytjenda og hinsegin fólks að þjónustu, stuðningi og ráðgjöf á vegum borgarinnar.

 

Það er forgangsmál okkar að bæta þjónustu við alla óháð efnahag. Það gerum við best með öflugri og fjölbreyttrni þjónustu sem mætir þörfum fólks og rekin er fyrir fé úr sameiginlegum sjóðum.

 

Elín Oddný Sigurðardóttir

 

Formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar og skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna fyrir komandi borgarstjornarkosningar.

,

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið

Stóru áherslumálin Vinstri grænna í borgarstjórnarkosningunum í vor eru loftslags- og umhverfismál, kjaramál og málefni leikskólanna og loks húsnæðismálin. Rauði þráðurinn í kosningastefnuskrá Vinstri grænna er jöfnuður, kvenfrelsi og umhverfisvernd, segir Líf Magneudóttir oddviti.

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið og koma böndum á leigumarkaðinn. „Við þurfum húsnæðismarkað sem er fyrir fólk, ekki fjármagn,“ segir Líf. Eyða á biðlistum fyrir fólk sem er í brýnni þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði og fjölga félagslegum leiguíbúðum um 600, auka á stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög og hefja samtal við stjórnvöld um heimildir til þess að hafa stjórn á þróun leiguverðs. Vinstri græn vilja líka að borgin leiti eftir tvíhliða samningum við Airbnb um að endurheimta húsnæði sem er farið af langtímaleigumarkaði í skammtímaleigu til ferðamanna.

Önnur megináhersla Vinstri grænna eru leikskólamálin. Tryggja verður öllum fjölskyldum í Reykjavík pláss á borgarreknum leikskólum strax að fæðingarorlofi loknu. Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með opnun ungbarnadeilda í öllum hverfum, og tryggja að allir leikskólar séu full mannaðir.

„Það verður að vera algert forgangsverkefni að fjölga starfsfólki. Það gerum við ekki nema við bætum kjör starfsfólks, þessara fjölmennra kvennastétta sem halda uppi starfi leikskólanna hafa setið eftir í kjaramálum á síðustu árum. Við eigum að skila viðsnúningnum sem hefur orðið í fjármálum borgarinnar til skólanna. Við eigum að fjárfesta í börnunum okkar og skólunun. Við þurfum að hugsa meira um fólk og setja minna í steinsteypu.“

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg leiði með góðu fordæmi í kjaramálum og hafni láglaunastefnu og móti sér stefnu um launamun æðstu stjórnenda og almennra starfsmanna. „Reykjavík, sem stærsta sveitarfélag landsins á að leggja sitt af mörkum til að skapa félagslegan stöðugleika, sem verður aldrei reistur nema á félagslegu réttlæti.“

Líf leggur áherslu á að Reykjavík verði líka leiðandi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Taka á fyrir notkun nagladekkja til að útrýma svifryki og taka stærri skref til að Reykjavík nái markmiðum um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Greiða á götu vistvænni samgangna, fjölga hlöðum fyrir rafmagnsbíla, hefjast handa við lagningu borgarlínu, fjölga hjólreiðastígum og auka kolefnisbindingu með endurheimt votlendis og náttúrugæða í borgarlandinu.

Líf segir að Reykjavíkurborg eigi að fara fyrir með góðu fordæmi og vera leiðandi í þessum stóru málum. „Í öllum þessum stóru viðfangsefnum dagsins, loftslags- og umhverfismálunum, húsnæðismálum og loks kjaramálum verður Reykjavíkurborg að stíga fram og leiða með góðu fordæmi.“

Meira og virkara lýðræði: Betri Reykjavík, betra samfélag

Gangir þú um Hljómskálagarðinn blasir við þér, rétt við sjálfan skálann, skilti þar sem kynnt er bygging nýrrar vaðlaugar. Vaðlaugin er eitt þeirra fjölmörgu góðu verkefna sem komu út úr þátttökufjárhagsáætlunarkerfinu „Hverfið mitt“ þetta árið. Í nóvember síðastliðnum voru kosnar til framkvæmda 76 tillögur og er fjöldi þeirra nú þegar vel á veg kominn.

Borgararnir taki þátt í fjárhagsgerð
„Þátttökufjárhagsáætlanagerð“ er sennilega bæði óþjált og nýtt orð fyrir flesta, en hugmyndin sem býr þar að baki er sú að ákvarðanir um hvernig fé úr sameiginlegum sjóðum er varið til nýframkvæmda og viðhalds verði betri ef almenningur tekur beinan þátt í ákvörðunartökuferlinu. Í stað þess að ákvarðanirnar séu teknar miðlægt af fáum er valdinu dreift og opnað borgarbúum.

Verkefninu var hleypt af stokkunum árið 2010 og hefur verið í sífelldri þróun og mótun og verður betra og skilvirkara ár frá ári. Samhliða því hefur þátttaka borgarbúa aukist jafnt og þétt. Nú á að efla verkefnið enn frekar með því að auka samvinnu starfsmanna borgarinnar með þeim sem senda inn hugmyndir, þróa þær betur og laga að því lagaumhverfi sem borgin er bundin af.

Styrkjum lýðræðið
Fólk er hins vegar flest enn óvant því að taka beinan þátt í ákvarðanatöku. Við þurfum því að finna fleiri og fjölbreyttari leiðir fyrir fólk til þess að taka þátt og til þess að láta rödd sína heyrast. Við þurfum að styrkja beint lýðræði og skapa fleiri vettvanga þar sem fólk getur tekið þátt í ferlinu. Þannig mætti t.d. nota rökræðukannanir eða íbúaþing til þess að komast að niðurstöðum í flóknum málum og formgera mætti með betri hætti hvernig safna má undirskriftum til þess að hafa aðkomu að einstökum málum í borgarkerfinu.

Við verðum stöðugt að leita leiða til þess að auka og styrkja lýðræðislega ferla. Við þurfum að huga að því að mjög misjafnlega er gefið í möguleikum fólks til þátttöku, hvort sem það er við kosningu á vefnum eða á borgarafundum eða öðrum samkomum. Langir vinnudagar, aðgengistakmarkanir, hvort sem þær felast í tungumálahindrunum, aðgengi fyrir fatlaða eða takmarkaðrar tæknikunnáttu er eitthvað sem við verðum alltaf að huga að.

Stjórnkerfi fyrir samfélagið
Við þurfum að stefna frá þeirra ásýnd að stjórnkerfið sé svartur kassi frá hverjum flæða ákvarðanir og byggja hér þess í stað stjórnkerfi sem byggist á virku samtali, þar sem raddir okkar allra fá að heyrast. „Hverfið mitt“ hefur verið liður í þeirri vegferð, en við þurfum að nýta okkur fleiri aðferðir, sem bæði hafa fengið reynslu hérlendis og erlendis, til þess að borgarfulltrúar geta skilað valdinu aftur til þeirra sem valdið eiga. Þannig byggjum við upp stjórnkerfi sem endurspeglar samfélagið sem það á að þjóna.

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson.
Höfundur situr í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og skipar 6. sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Fallega Reykjavík fyrir okkur öll

Reykjavík á að rúma okkur öll – fólkið sem býr í borginni og ekki síður fólkið sem vill flytja í borgina – sama hvernig við erum og sama hvaðan við komum. Reykjavík er og á að vera falleg borg þar sem við eigum öll að hafa jöfn tækifæri til lífs og leiks og athafna.

Hvað gerir borg fallega?
Eitt af því sem gerir Reykjavík fallega er nálægðin við náttúruna. Við sem erum Vinstri græn viljum varðveita þau ómetanlegu verðmæti sem umlykja okkur alls staðar með því m.a. að vernda hinar fjölmörgu náttúruperlur í borgarlandinu. Við viljum stofna víðfeman borgargarð sem teygir sig frá heiðum og út á sundin. Við ætlum að opna nýjar ylstrendur og við ætlum að styðja við sjálfsprottna menningarstarfsemi í öllum hverfunum.

Það eru ekki einungis almenningsgarðar, hrein og snyrtileg torg og stræti, list í almannarýminu eða nálægð við náttúruna sem gera borgir fallegar. Það sem glæðir borgir lífi og fegurð er blómlegt og fjölbreytt mannlífið. Borgir sem taka vel á móti fólki og gefa öllum jöfn tækifæri eru fallegar borgir.

Jöfnuður er forsenda fallegs mannlífs
Við vitum að fólki líður best þegar það er frjálst og óheft – bæði undan kröfum samtímans, staðalmyndum kynjanna og hvers kyns ofbeldi en líka þegar það þarf ekki að hafa áhyggjur af hinu daglega amstri og að ná endum saman. Í því sambandi getur Reykjavík beitt sér sem stærsti vinnustaður landsins og gengið fram með góðu fordæmi, stytt vinnuvikuna og bætt kjör fjölmennra kvennastétta sem starfa við umönnun og menntun í skólum borgarinnar.

Borgin á líka að ganga lengra í því að beita gjaldskrám til þess að jafna aðstöðumun fólks. Skilum fjárhagslegum viðsnúningi borgarinnar til skólanna og forgangsröðum fyrir grunnþjónustu og velferð íbúanna. Það á að vera forgangsmál að bæta kjör barnafjölskyldna og þeirra sem búa við kröpp kjör.

Borgarbúar eru hreyfiafl
Við vitum líka að fólk þarf að lyfta andanum, bæði í einrúmi og í félagsskap við aðra, sækja söfn og kaffihús, fara í sund og í göngutrúa eða á leikvell eða einfaldlega skjótast til kaupmannsins á horninu. Borgarskipulag sem styður við sjálfbær hverfi, verndar græn svæði og náttúru og fjölbreytta samgöngumáta er forsenda þess að fjölbreytt mannlíf geti blómstrað í borginni.

Og allt þetta má gera í Reykjavík. Reykjavík er fólkið sem í henni býr og fólkið sem hana skapar með tilveru sinni, hugviti, væntumþykju og auðvitað líka hversdagsleikanum. Það er fólkið og mannlífið sem gerir Reykjavík fallega.

Við Vinstri græn erum ánægð með höfuðborgina okkar og við viljum halda áfram og gera enn betur í Reykjavík. Með ykkur öllum.

Gerum Reykjavík Vinstri græna eftir kosningarnar.

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í komandi borgarstjórnarkosningum.

Íbúalýðræði

Ýmislegt kemur upp í hugann þegar ég hugsa um mitt nánasta umhverfi, Skagafjörðinn. Margt af því sem er að gerast í kringum okkur er framúrskarandi, annað síður en svo. Hægt væri að ræða fjölmörg verkefni og ýmsar áskoranir sem við íbúarnir stöndum nú frammi fyrir, en það sem sækir hvað fastast að mér þessa stundina er hugtakið íbúalýðræði.

 

 

Íbúalýðræði

Hugtakið lýðræði þekkja flestir, en þá liggur vald í stjórnskipulagslegum skilningi á einn eða annan hátt hjá almenningi. Gunnar Helgi Kristinsson fjallar um íbúalýðræði í ritinu Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum. Hann segir: „Íbúalýðræði er samheiti yfir þær aðferðir sem notaðar eru við að virkja íbúa til þátttöku í einstökum málefnum eða málaflokkum sveitarfélaga.“ (bls. 12). Tilgangur þess er að opna íbúum leiðir til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á undirbúning og ákvarðanatöku eða einstök málefni. Samráð við íbúa má greina í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er kynning, þar sem áætlanir eru kynntar fyrir íbúum og þeir fá tækifæri til að gera athugasemdir þó þeir hafi ekki endilega vald til að breyta ákvörðunum. Í öðru lagi er samstarf, en þá fá íbúar tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og virkilega hafa áhrif, t.d. með ráðgefandi atkvæðagreiðslum. Í þriðja lagi er valdaframsal sveitarstjórnar, en þá láta kjörnir fulltrúar valdið í hendur íbúa eða samráðsvettvangs í ákveðnum málum (valdaframsal er þó bundið takmörkunum skv. lögum). Markmið íbúalýðræðis er að færa íbúum hlutdeild í ákvarðanatöku sem hefur áhrif á líf þeirra og nærumhverfi. Með samvinnu milli kjörinna fjölltrúa í sveitarstjórn og íbúanna getur náðst betri sátt um framkvæmdir og ákvarðanaferli, sem leiðir af sér meiri ánægju meðal íbúa.

 

102-108 gr. sveitarstjórnarlaga fjallar um samráð við íbúa í lagalegu samhengi. Er það margt áhugaverð lesning og rímar að miklu leyti við þá umfjöllun sem hér kom á undan. Þar segir m.a. “Sveitarstjórn skal upplýsa íbúa sína um áætlanir sem sveitarfélag hefur til meðferðar og ákvörðunar og varða þá með almennum hætti. Sama gildir um einstök mál sem hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélagið. Sveitarstjórn skal leitast við að veita íbúum upplýsingar um áhrif slíkra mála og áætlana á þjónustu sveitarfélags til skemmri og lengri tíma, fjárhag sveitarfélagsins, umhverfi og markmið sem að er stefnt.” (Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011,10. Kafli/103 gr.)

 

Hvers vegna viljum við íbúalýðræði?

Nú kunna einhverjir að spyrja, hvers vegna skiptir þetta okkur máli? Hvers vegna finnst okkur mikilvægt að geta komið skoðunum okkar á framfæri og haft áhrif á það umhverfi og málefni sem okkur snertir og breytingar sem að okkur snúa? Ég hafði satt að segja ekki hugleitt þetta mikið þar til í vetur, þegar valdið til að taka þátt í ákvarðanaferlum var tekið af mér. Þegar ég og samstarfsfólk mitt, stóðum allt í einu í þeim sporum að fá ekkert um aðstöðu, framgang eða framtíð vinnustaðarins að segja. Þegar við æptum út í tómið og fengum aðeins bergmál til baka. Ég er hér að vísa til stöðu Byggðasafns Skagfirðinga. Safnsins OKKAR. Við fengum ekki að vera þátttakendur í þeim breytingum sem yfirmenn okkar í sveitarfélaginu hrintu í framkvæmd. Við fengum ekki að fylgjast með framgangi þeirra áætlana og breytinga sem okkur snerti. Í stað þess að fá upplýsingar frá sveitarstjórninni, fréttum við það í fjölmiðlum að safnið okkar á Sauðárkróki væri gott sem heimilislaust til næstu ára. Hvar var upplýsingagjöfin? Hvar var samvinnan? Hvar var kynning á breytingunum, áhrifum þeirra og markmiðum? Hvar var samráðið? Hvar var lýðræðið?

 

Hvað er til ráða?

Á tímum upplýsingasamfélagsins gengur ekki að leyna upplýsingum og vinna mál sem snerta almenning fyrir luktum dyrum. Sveitarstjórnarmenn eru þjónar íbúanna. Vinnum af heiðarleika. Opnum umræðuna og tölum við þá sem málin snerta. Köllum til samráðs og samvinnu við íbúa svæðisins. Krefjumst þess að upplýsingar um verkefni og fjármögnun þeirra séu okkur aðgengilegar. Þetta kemur okkur við.

 

Við getum gert betur. Við verðum að gera betur. Við munum gera betur.

 

Höfundur skipar 6. sæti VG og óháðra.

 

Fjölbreytnin liggur í grasrótinni

Framtíð Reykjanesbæjar byggist á jöfnum tækifærum, virðingu fyrir náttúrunni og gróskunni sem þrífst í fjölbreytninni en ekki í stórum heildarlausnum. Reykjanesbær þarf að styðja og styrkja grasrótina til að viðhalda heilbrigðri stjórnsýslu og hvetja íbúa unga sem aldna til þátttöku í mótun samfélagsins.

Grasrótar samtök spretta fram þegar íbúar taka til sín ýmis verkefni sem ætlað er að þjóna samfélaginu. Skoðum tvö nærtæk dæmi:

Verndun menningarminja. Grasrótarhópar eins og “Björgum Sundhöll Keflavíkur” á sér mikla hefð í sögu húsverndar á íslandi og hafa oft gegnt lykilhlutverki við björgun bygginga. Því miður hafa bæjaryfirvöld ekki haft frumkvæði að farsælli lausn  og hafa samtökin þess í stað fundið vini hjá Minjastofnun Íslands sér til halds og trausts.

Náttúru-og umhverfisvernd. Grasrótarsamtök sem vinna að verndun náttúru hafa mikil áhrif en því miður oft í óþökk yfirvalda.
Samtökin “Andstæðingar stóriðju í Helguvík” er hópur sem berst fyrir grundvallarrétti bæjarbúa til að geta andað að sér hreinu lofti. Þau  krefjast þess að kísilverskmiðjum eins og United Silicon verði lokað. Skemmst er frá því að segja að baráttan hófst löngu áður en verksmiðjan var opnuð þar sem íbúar töldu sig sjá ýmsa vankanta í hönnun byggingarinnar og í umhverfismati.  Því miður létu bæjaryfirvöld þetta engu varða og héldu ótrauð áfram að styðja framkvæmdirnar sem hafa síðan kostað bæjarsjóð  hundruð miljóna.
Þegar yfirvaldið kýs að sniðganga raddir íbúa sem þeim er ætlað að þjóna sýnir það hroka sem skapar vantraust og sundrung í samfélaginu.

Bæjaryfirvöld eiga að umvefja frumkvæði íbúa sem sýna umhverfinu sínu áhuga og vinna með grasrótinni til að finna farsælar lausnir. Einnig ætti bæjarsjóður að leggja til ákveðið fjármagn til úthlutunar sem menningarstyrkir til grasrótarhreyfinga sem um það sækja. Menning er skilgreind sem list og listsköpun en oft vill gleymast að menning felst í mannauði.

Dagný Alda Steinsdóttir, oddviti Vinstri grænna og óháðra í Reykjanesbæ.

Litlar breytingar geta breytt miklu fyrir marga

 

 

Eftir tíu ára fjarveru og tvær háskólagráður flutti ég aftur á heimaslóðir í Skagafirði árið 2007. Ég var efins í fyrstu, hélt að hér væri lítið að gerast og ætlaði að stoppa stutt. Annað kom á daginn, hér er ég enn, horfi á börnin mín blómstra í námi, íþróttum og tómstundum og er sjálf í frábæru starfi á góðum og framsæknum vinnustað, Árskóla.

 

En sem einstæð þriggja barna móðir veit ég hvað kostar að reka fjölskyldu í sveitarfélaginu Skagafirði. Hækkanir á leikskólagjöldum og skólamáltíðum skipta sveitafélagið kannski ekki miklu máli í stóra samhenginu, en þessar hækkanir koma sannarlega við fjölskyldufólk. Almennt gjald fyrir átta tíma vistun er 11.415 krónum dýrara á mánuði hér en í Reykjavík. Einstæðir, öryrkjar og námsmenn greiða 12.741 krónu meira á mánuði fyrir sömu vistun í okkar sveitarfélagi en í Reykjavík. Ég veit ekki með aðra, en mig munar um þessar tæpu 153.000 krónur á ári.

 

Framsókn lofaði fjölskylduvænu samfélagi fyrir síðustu kosningar en meirihlutinn hækkaði leikskólagjöld tvisvar á kjörtímabilinu. Nú eru hér einna dýrustu leikskólagjöld landsins og fá einstæðir foreldrar, öryrkjar og nemar hlutfallslega lægri afslátt af vistunargjöldum en víða annarsstaðar. Aðkeyptar skólamáltíðir hafa einnig hækkað og væri ákjósanlegt að nýta eldhús í Árskóla og Ársölum til þess að elda hollar máltíðir fyrir börnin okkar á staðnum, eins og gert er í hinum grunnskólum og leikskólum Skagafjarðar.

 

Hvatapeningar til niðurgreiðslu tónlistar, íþrótta og annarra tómstunda eru frábært framtak en þeir hafa ekki hækkað frá því þeir voru settir á árið 2007. Sambærilegir tómstundastyrkir eru allt upp í 60.000 krónur í öðrum sveitarfélögum en 8.000 krónur hér. Á tímum leikjatölva og snjalltækja hefur aldrei verið meiri ástæða til að hvetja börn til íþrótta- og tómstundaiðkunnar. Það er mikilvægt að öll börn hafi jöfn tækifæri til þeirrar iðkunnar óháð fjárhagsstöðu heimila, því þarf að hækka hvatapeninga verulega og tryggja fjölbreytt val afþreyingar. Ekki einungis er íþróttaiðkun ein besta forvörnin, heldur er fátt sem þjappar samfélaginu saman líkt og íþróttirnar gera. Það geta allir sameinast um að halda með sínu liði og er stemmingin í Síkinu að undanförnu sönnun þess.

 

Talsvert vantar upp á að skólahúsnæði allra grunnskólanna í héraðinu sé viðunandi. Fáir vinnustaðir myndu sætta sig við þá vinnuaðstöðu sem börnunum okkar er boðið í Grunnskólanum austan Vatna, í Varmahlíðarskóla og í A-álmu Árskóla. Um leið þarf að bæta starfsumhverfi kennara t.d. með meiri sérfræðiþjónustu. Enginn Náms- og starfsráðgjafi er starfandi í héraðinu og bið er eftir tímum hjá sálmeðferðaraðila. Skortur á slíkri þjónustu bæði eykur álag á kennara og bitnar á þeim börnum sem þurfa sannarlega á þessari þjónustu að halda. Síðast en ekki síst þá þarf að leysa leikskóla- og dagvistunarúrræði sem fyrst í héraðinu öllu og er mikilvægt að vinna að lausnum á slíkum málum í samvinnu við íbúa.

 

Ég býð fram krafta mína til að vinna af raunsæi að því að gera sveitarfélagið okkar eftirsóknarverðara með góðri grunnþjónustu og traustu samfélagi.

Það er hægt með því að breyta mörgum litlum hlutum sem breyta miklu fyrir marga.

Álfhildur Leifsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti VG og óháðra

 

Byggðasafn Skagfirðinga flaggskip í héraði

 

Byggðasafn Skagfirðinga hefur með starfi sínu og uppbyggingu verið eitt helsta flaggskip íslenskra safna á undanförnum árum. Þar hefur safnstjórinn unnið brautryðjendastarf með því öfluga teymi sem með henni hefur starfað í gegnum árin. Það var því ánægjuleg viðurkenning þegar safnið fékk íslensku safnaverðlaunin árið 2016 fyrir framúrskarandi starfsemi. Það var hátíðleg stund þegar Sigríður Sigurðardóttir safnstjóri Bygggðasafnsins um áratugi veitti þessum verðskuldaða heiðri viðtöku.

Það þarf því ekki að koma á óvart að það umrót og óvissa sem verið hefur um stöðu og framtíð safnsins og sýninga á þess vegum, ásamt samningum um safnastarfsemi í Glaumbæ að undanförnu, valdi áhyggjum hjá þeim sem unna Byggðasafninu og hafa lengi fylgst með farsælu starfi þess og láta sig það varða.

Það er mikilvægt að Sveitarfélagið Skagafjörður sýni hug sinn í verki og standi vörð um Byggðasafnið  og treysta framtíð þess eins gert hefur verið síðustu áratugi. Byggðsafnið  með öflugt fagfólk í forystu  hefur átt ríkan  þátt í að skapa Skagfirðingum þá sérstöðu  sem héraðið hefur öðlast á sviði safnamála og menningtengdar ferðaþjónustu. Hróður þess  og orðspor nær langt útfyrir landsteinana.

Byggðasafnið í Glaumbæ og sterkt safnastarf í héraðinu er  stolt okkar Skagfirðinga

 

Gleðilegt sumar

Bjarni Jónsson, VG og óháðum

Kosningamiðstöðvar opna 1. maí

VG-framboð víða um land opna kosningamiðstöðvar sínar á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Miðstöðvar verða opnaðar á Selfossi, Húsavík, Akureyri, í Kópavogi og Reykjanesbæ þennan dag og eru allir VG félagar hvattir til að mæta og taka með sér gesti. Oddvitar framboða verða á staðnum.

Í Reykjavík var kosningamiðstöð opnuð í Þingholtsstræti 27 í gærkvöld að viðstöddu fjölmenni. Líf Magneudóttir, oddviti í Reykjavík fór yfir málin og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra tók þátt. Reykjavíkurfélagið heldur hádegisfund í nýopnaðri kosningamiðstöð á morgun laugardag.