Réttlát forgangsröðun

Eitt stærsta verkefni borgarstjórnar á síðustu tíu árum hefur verið að takast á við afleiðingar fjármálahrunsins. Óskynsamleg offjárfesting og misheppnuð útrásarævintýri á vegum m.a. Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hrun skiluðu Reykjavík gríðarlegum skuldum. Það hefur kostað sárar fórnir að takast á við þennan fortíðarvanda.

Við sjáum afleiðingar niðurskurðarins allt í kringum okkur. Í borgarstjórnartíð Besta flokksins og Samfylkingarinnar 2010-2014 voru leikskólagjöld t.d. hækkuð og framlög til leikskóla skorin niður. Þegar við Vinstri græn mynduðum meirihluta með Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum 2014 lögðum við áherslu á að hefja stóreflda uppbyggingu leik- og grunnskóla og létta byrðar á barnafjölskyldum m.a. með lækkun leikskólagjalda.

Vörn snúið í sókn

Eftir þetta kjörtímabil er ég stolt af þeim árangri sem við höfum náð. Snúið hefur verið af braut niðurskurðar og framlög til leikskólanna hafa verið aukin um tæpa tvo milljarða á síðustu tveimur árum. Þegar allt er tekið saman þá greiða barnafjölskyldur í Reykjavík minnst fyrir menntun og tómstundir barna sinna samanborið við nágrannasveitarfélögin.

Það er hins vegar ekki nóg, eins og birtist skýrt í því verkefni að fá fólk til starfa í leikskólum. Við höfum hrint í framkvæmd metnaðarfullri áætlun um ungbarnadeildir til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans og við höfum þegar opnað nokkrar þannig deildir í hverfum borgarinnar. Það er brýnt að halda áfram á þeirri braut á næsta kjörtímabili og verkefnin sem þarf að ráðast í eru stór og mikil þegar það kemur að rekstri menntakerfisins.

Áframhaldandi meirihluti

Við Vinstri græn viljum halda áfram að starfa að þessum verkefnum sem við hófum í samstarfi við Samfylkingu, Bjarta framtíð og Pírata fyrir fjórum árum. Það samstarf hefur gefist mjög vel og skilað góðum árangri á mörgum sviðum og viljum við halda því áfram í einhverri mynd.

Í sameiningu höfum við haldið áfram að vinna úr fortíðarvanda útrásaráranna, fjárhagsstaða borgarinnar hefur batnað mikið á síðustu árum og er í dag mjög sterk. Traust staða borgarsjóðs skapar forsendur fyrir því að borgin blási til sóknar og ráðist í löngu tímabæra uppbyggingu. Þar skiptir hins vegar öllu máli hvernig er forgangsraðað og um það verður kosið í komandi borgarstjórnarkosningum.

Forgangsröðum rétt

Vinstri græn vilja forgangsraða fyrir barnafjölskyldur. Okkur finnast því kosningaloforð Samfylkingarinnar um dýrar risaframkvæmdir eins og að leggja Miklubraut í stokk strax á næsta ári vera nokkuð stórkarlalegar í því ljósi. Við viljum að borgin byrji á því að ljúka endurreisn leikskólanna, uppbyggingu ungbarnadeilda og bættum kjörum stétta í reykvískum leik- og grunnskólum. Að okkar mati er það forgangsmál að fjárfesta í þeim mannauði sem er í raun gangverk borgarinnar.

Við höfnum sömuleiðis loforðum Sjálfstæðisflokksins, sem stangast á við gildandi lög, um stórfelldar skattalækkanir til valinna hópa. Það er óréttlát og röng forgangsröðun að færa best stæðu íbúum Reykjavíkur 2,3 til 3,7 milljarða frekar en að auka lífsgæði barnafjölskyldna í borginni, koma til móts við eldra fólk sem býr við kröpp kjör og annarra sem svo sannarlega þurfa á stuðningi að halda.

Leiðréttum efnahagslegt óréttlæti

Á síðustu árum hefur stundum verið talað um „leiðréttingu“: Fasteignaeigendur hafa fengið sína leiðréttingu og sömuleiðis fjármagnseigendur. Æðstu stjórnendur hjá hinu opinbera og í einkafyrirtækjum hafa líka fengið myndarlega leiðréttingu, þökk sé kjararáði og kaupaukakerfum. Við eigum hins vegar alveg eftir að „leiðrétta“ að fullu niðurskurðinn sem varð á þjónustu við íbúa borgarinnar. Og við eigum eftir að leiðrétta kjör fjölmennra kvennastétta sem mennta og þroska börn í leik- og grunnskólum borgarinnar.

Ófrávíkjanleg krafa

Það liggur í augum uppi að brýnustu verkefni næstu ára eru hvorki rausnarlegar skattalækkanir fyrir útvalda hópa eignafólks né nýjar dýrar vegaframkvæmdir. Brýnustu verkefni næstu ára eru að styrkja og endurreisa félagslega innviði borgarinnar og skapa réttlátt samfélag í Reykjavík.

Það verður að vera forgangsverkefni að leysa bráðavanda leikskólanna sem birtist í alvarlegri manneklu. Það verður ekki gert nema með því að bæta kjör starfsmanna. Vinstri græn ætla að gera það að ófrávíkjanlegri kröfu að borgin gangi fram með góðu fordæmi og hafni láglaunastefnu sem bitnar fyrst og fremst á lífsgæðum barnafjölskyldna og gangverki borgarinnar.

Að sýna gott fordæmi

Reykjavíkurborg á líka að ganga fram með góðu fordæmi og móta sér stefnu um launamun milli æðstu stjórnenda og almennra starfsmanna. Vaxandi launamunur og misskipting sem er knúin áfram af óeðlilega háuum ofurlaunum stjórnenda eru sem eitur í samfélaginu sem skapar tortryggni og úlfúð.

Við viljum að borgin taki afdráttarlausa afstöðu gegn þessari þróun og opni á umræðu um hvað sé eðlilegur launamunur milli stjórnenda og starfsmanna. Ég tel að slík samræða sé ein af forsendum þess að hægt sé að skapa félagslegan stöð- ugleika sem er byggður á traustum stoðum efnahagslegs réttlætis og sanngirni. Í komandi kosningum er hægt að velja leið réttlætis og sanngirni með því að kjósa Vinstri græn til áhrifa. Gerum það.

Líf Magneudóttir er oddviti VG og forseti borgarstjórnar.

Skólarnir eru lífæðin

Sveitarstjórnarkosningar snúast um málefni nærsamfélagsins okkar. Í því eru skólarnir einn mikilvægasti þátturinn, hvað þá í sveitarfélagi eins og Borgarbyggð. Í sveitarfélagi sem telur varla fjögur þúsund íbúa eru starfræktir skólar á öllum skólastigum, frá leikskóla og upp í háskóla. Um þessa sérstöðu verðum við að standa vörð. Skólamálin eru því eitt helsta hagsmunamál íbúa Borgarbyggðar.

Í Borgarbyggð eru nú starfræktir tveir grunnskólar, Grunnskólinn í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar, sem er með starfsstöðvar á Hvanneyri, Varmalandi og Kleppjárnsreykjum. Á kjörtímabilinu sem nú er að líða stóð yfir mikill styr um hvernig starfsemi skólanna skyldi háttað. Háværar raddir voru uppi um að fækka starfsstöðvum í Grunnskóla Borgarfjarðar og meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins féll út af málinu. Til allrar lukku náðu þessi áform ekki fram að ganga og enn er öflugri starfsemi haldið uppi á áðurnefndum starfsstöðvum. Stórar ákvarðanir sem þessar þarf nefnilega að taka í sátt við alla hlutaðeigandi. Grunnskólarnir í uppsveitunum eru mikilvægur þáttur í mannlífi svæðanna. Þar hafa margar kynslóðir, mann fram af manni, sótt sér menntun og kynnst samfélaginu í gegnum skólana. Þær rætur verða ekki slitnar upp auðveldlega, hvað þá fyrir óljósan árangur, hvort sem er í faglegu eða fjárhagslegu tilliti. Í þessari baráttu stóðu Vinstri græn með skólunum, og það munum við áfram gera.

Menntaskóli Borgarfjarðar hefur verið ein af lyftistöngunum í samfélaginu frá því til hans var stofnað. Þrátt fyrir að hafa aðeins starfað í rétt rúman áratug eru merki um áhrif hans á sveitarfélagið augljós. Ungt fólk er lengur á sínu heimasvæði en áður, sem er öllum til heilla og auðgar samfélagið á fjölda vegu. Einnig hefur skólinn sýnt það í verki að hann er mjög framsækin stofnun, og er til fyrirmyndar fyrir aðra skóla í mörgum málum. Til dæmis má nefna það að skólinn hefur frá upphafi lagt áherslu á því að hagnýta tækni í námi. Nú þegar aðeins er farið að líða á 21. öldina hefur komið æ betur í ljós hve mikilvægt tölvulæsi og tæknikunnátta verða í framtíðinni. Í öðru lagi reið skólinn á vaðið með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu fyrir nemendur sína, í samstarfi við Stéttarfélag Vesturlands. Í öllum þeim Alþingiskosningum sem haldnar hafa verið á undanförnum misserum hefur mikið verið rætt um að bæta aðgengi fólks, og þá sérstaklega ungs fólks, að geðheilbrigðisþjónustu. Margir hafa lofað, en eftirfylgnin hefur verið misjöfn, þó einhver hreyfing sé þó komið á málið núna. En Menntaskóli Borgarfjarðar sýndi í verki það sem litlar stofnanir geta áorkað: Hann er árabátur sem getur auðveldlega skipt um stefnu, þróað nýjar leiðir og fundið nýjar lausnir. Stærri stofnanir eiga það til að haga sér eins og olíuskip sem tekur langan tíma að fá til að skipta um stefnu. Á komandi árum er því mikilvægt að viðhalda þeim góða árangri sem Menntaskóli Borgarfjarðar hefur náð, og skólinn og Borgarbyggð ættu að vinna saman að því markmiði að fjölga nemendum sem koma víðar af landinu og vilja sækja sér menntun í MB.

Að lokum eru það háskólanir tveir, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri og Háskólinn á Bifröst. Það er mikið fagnaðarefni, og léttir, að áform um að hrófla við starfsemi þeirra hafa ekki náð fram að ganga. Háskólarnir eru mikilvægur liður í því að gera Borgarbyggð að því skólasamfélagi sem það er. Fólk hvaðanæva af landinu sækir sér menntun í þessum tveimur skólum, og margir ílengjast hér, fá vinnu í héraðinu, stofna fjölskyldur og auðga samfélagið með ýmsum hætti. Sú sveitarstjórn sem verður kjörin í lok maí mun vonandi halda uppi öflugri baráttu fyrir háskólunum.

Skólarnir okkar eru lífæð samfélagsins og við megum því aldrei sofna á verðinum.

 

Bjarki Þór Grönfeldt

Höfundur er í 16. sæti á lista Vinstri grænna í Borgarbyggð

,

Aukin samvinna ríkis og sveitarfélaga í öldrunarþjónustu – allra hagur!

Aukin samvinna ríkis og sveitarfélaga í öldrunarþjónustu – allra hagur!

Reykjavíkurborg samþykkti á dögunum nýja stefnu í málefnum eldri borgara til ársins 2022. Þar er kveðið á um nauðsyn þess að efla samstarf við ríkið í þessum mikilvæga málaflokki meðal annars með því að fjölga hjúkrunarrýmum. Þessi áform borgarinnar ríma vel við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem boðuð er stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Skortur hefur verið á hjúkrunarrýmum í alltof langan tíma og nú er svo komið að biðtími eftir hjúkrunarrýmum er óásættanlega langur. Bara á höfuðborgarsvæðinu vantar um 130 rými til þess að uppfylla þörf fyrir þjónustu. Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt og vel við þessu ákalli. Það skiptir ekki aðeins máli fyrir lífsgæði aldraðra, heldur hefur fjölgun hjúkrunarrýma áhrif á heilbrigðiskerfið allt. Skort á legurýmum á Landspítala má að stórum hluta skýra með því að alltof margir eldri borgarar fá ekki viðeigandi þjónustu, þ.e. pláss á hjúkrunarheimili. Fjölgun hjúkrunarrýma hefur auk þess þau áhrif að heilbrigðisþjónusta verður markvissari og Landspítala, heilsugæslu og öðrum heilbrigðisstofnunum er gert kleift að sinna öllum þeim brýnu verkefnum sem fyrir liggja enn betur en nú er raunin.

 

Fjölgun hjúkrunarrýma

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er tekið á þessum vanda með afgerandi hætti. Hjúkrunarrýmum verður fjölgað á landinu öllu um 300 frá fjármálaætlun síðastliðins árs auk þess sem dagdvalarrýmum verður fjölgað um allt land. Uppbygging er þegar hafin á nýju hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík með um 100 rýmum en þar verður auk þess byggð dagdeild með um 30 dagdvalarrýmum. Þegar eldri borgarar þurfa á meiri stuðningi að halda, en hægt er að veita í heimahúsum, getur dagdvöl nýst til að rjúfa félagslega einangrun og styðja við áframhaldandi sjálfstæða búsetu. Mikilvægt er að tryggja aðgengi eldra fólks að dagdvalarrýmum og þá þarf að þróa frekari sérhæfingu í dagdvölum, sem geta komið til móts við mismunandi þarfir aldraðra.

 

Fjölbreyttur hópur

Þegar þjónusta við aldraða er annars vegar þarf að hafa í huga að aldraðir eru fjölbreyttur hópur. Engin ein lausn hentar öllum og því þarf að tryggja að í boði séu úrræði sem henta hverjum og einum einstaklingi. Hluti af því er að veita fólki sem enn getur búið heima viðeigandi stuðning. Öflug og fjölbreytt stuðningsþjónusta heim er þar vegamikill þáttur. Þá skiptir einnig máli að allir þeir sem koma að þjónustu við aldraða, ríki og sveitarfélög, vinni vel saman. Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár veitt samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu til íbúa Reykjavíkur gegn samningi við ríkið. Ljóst er eftir innleiðingu verkefnisins að samþættingin veitir notendum heildstæðari þjónustu en áður. Nú hefur samningurinn verið endurnýjaður og sérstakt fjármagn sett í að sinna endurhæfingu í heimahúsi.

Hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsum stuðlar að sjálfstæði, auknu öryggi og sjálfsbjargargetu, betri lífsgæðum og meiri virkni eldra fólks. Með þeirri nálgun fá eldri borgarar, sem vegna færniskerðingar eða í kjölfar slysa og veikinda upplifa erfiðleika við athafnir daglegs lífs, aðstoð á eigin heimili. Aðstoðin felst í því að virkja notendur og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi eins lengi og mögulegt er. Endurhæfingin er veitt af fagaðilum og fer þjónustan öll fram inni á heimili viðkomandi og í hans daglega umhverfi.

 

Mikilvægt samstarf

Samstarf ríkis og sveitarfélaga er mikilvægur hlekkur í því að tryggja öldruðum samfellda gæðaþjónustu. Núverandi fyrirkomulag samþættrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar hjá Reykjavíkurborg er til fyrirmyndar og því vert að efla það fyrirkomulag enn frekar. Í því skyni að stuðla að enn markvissara samstarfi ríkisins og Reykjavíkurborgar í þessum málaflokki boðaði heilbrigðisráðherra, í samvinnu við Landspítala og formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar, til vinnustofu í lok apríl. Þar ræddu saman aðilar, sem koma að öldrunarþjónustu, um áskoranir í þjónustu við aldraða. Lögð verður áhersla á að vinna úr þeim tillögum, sem vinnustofan skilaði, með það að markmiði að gera þjónustu við aldraða enn heildstæðari og markvissari.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Elín Oddný Sigurðardóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar

 

,

Breyting á lista í Borgarbyggð

Félagsfundur í VG í Borgarbyggð hefur samþykkt var að Guðmundur Freyr Kristbergsson, ferðaþjónustubóndi á Háafelli í Hvítársíðu, verði í 3. sæti á framboðslista hreyfingarinnar í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þessi breyting kemur til í kjölfar þess að Eiríkur Þór Theódórsson, sem hafði áður skipað 3. sætið, óskaði eftir því að draga framboð sitt til baka af persónulegum ástæðum. Listinn er að öðru leyti óbreyttur, og lítur nú svona út:

 

 • Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, bóndi og náms- og starfsráðgjafi
 • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðsstjóri auðlindasviðs Skógræktarinnar
 • Guðmundur Freyr Kristbergsson, ferðaþjónustubóndi
 • Friðrik Aspelund, skógfræðingur og leiðsögumaður
 • Brynja Þorsteinsdóttir, leiðbeinandi á leikskóla
 • Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, líffræðingur og kennari
 • Stefán Ingi Ólafsson, rafvirki og veiðimaður
 • Ása Erlingsdóttir, grunnskólakennari
 • Rúnar Gíslason, lögreglumaður
 • Unnur Jónsdóttir, íþróttafræðingur
 • Flemming Jessen, frv. skólastjóri
 • Eyrún Baldursdóttir, hjúkrunarfræðinemi
 • Sigurður Helgason, eldri borgari og frv. bóndi
 • Hildur Traustadóttir, framkvæmdastjóri
 • Kristberg Jónsson, frv. verslunarmaður
 • Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson, sálfræðinemi
 • Vigdís Kristjánsdóttir, eftirlaunaþegi
 • Guðbrandur Brynjúlfsson, bóndi

 

Af hverju talar enginn um félagsmiðstöðvarnar?

Það er fáránlegt að félagsmiðstöðvar og starfsfólk þeirra þurfi stöðugt að réttlæta og útskýra tilvist sína. Að í hvert skipti sem talað er um stórbrotinn árangur í forvarnarstarfi sé yfirleitt einungis talað um skóla og íþróttastarf, en horft framhjá hlut félagsmiðstöðvanna. Eins og þær séu ekki til eða skipti ekki máli.

Ein fjögurra grunnstoða forvarna

Reykjavíkurborg hefur náð undraverðum árangri í forvörnum þannig að borgir um allan heim leitast við að feta sömu leið og við. Tölurnar tala sínu máli. Einungis um 5% unglinga hafa orðið drukknir í dag, miðað við 50% í kringum aldamótin 2000. Þessi undraverði árangur er ekki síst starfi félagsmiðstöðvanna að þakka og brautryðjenda á vettvangi frítímans. Samt heyrist allt of sjaldan talað um mikilvægi félagsmiðstöðvanna.

Að taka virkan þátt í skipulögðu félagsmiðstöðvastarfi minnkar líkurnar á því að unglingar neyti áfengis eða vímuefna. Það er meðal annars vegna þess að umhverfi félagsmiðstöðva í Reykjavík, skipulagið og verkferlarnir, er byggt upp á menntunar- og forvarnargildum. Í félagsmiðstöðvum starfar yfirleitt háskólamenntaður stjórnandi auk leiðbeinenda sem eru framúrskarandi fyrirmyndir á mörgum sviðum.

Ein lykilfærni starfsfólksins er að mynda og viðhalda traust milli sín og unglinganna sem koma í félagsmiðstöðvarnar. Það er lykilforsenda þess að starfið gangi upp, því það er ekki mætingaskylda, né nokkrar aðrar kvaðir á þátttöku í starfinu. Félagsmiðstöðvum í Reykjavík virðist ganga ansi vel að byggja upp traust, því stór hluti unglinga mætir í félagsmiðstöðvarnar. Hinir eru flestir í það miklu íþróttastarfi að þeir komast ekki.

Unglingarnir segja sjálfir, þegar rýnt er í starfsemina með könnunum, samtölum eða rýnihópum, að það besta við félagsmiðstöðina þeirra sé starfsfólkið. Það ætti að segja ýmislegt.

Starfsfólk félagsmiðstöðva eru inni í málefnum unglinga

Stundum kemur upp ágreiningur meðal unglinga sem getur brotist út á stórum viðburðum þar sem krakkar úr öllum hverfum koma saman. Slíkt gerist sjaldan, en það kemur þó fyrir. Vegna góðs samstarfs og reynds starfsfólks tekur það örskamma stund að kortleggja nákvæmlega hvaða unglingar koma hvaðan, hvað þeir heita, hverjir eru vinir hverra og hver baksaga ágreiningsins er. Þá er yfirleitt hægt að leysa vandann hratt með unglingunum sjálfum, foreldrum þeirra og öðrum viðeigandi aðilum.

Þetta er hægt af því að unglingar treysta almennt starfsfólki félagsmiðstöðvanna, félagsmiðstöðvar eru í góðu samstarfi milli borgarhluta og stöðugt er leitast við að greina áhættuþætti í umhverfi unglinganna. Ég er ekki viss um að nokkur önnur starfsstétt geti með jafn skjótum hætti áttað sig á félagstengslum og unnið jafn fljótt úr málum.

Forvarnir skila sér margfalt til baka

Félagsmiðstöðvastarf gengur ekki einungis út á að halda böll, spila borðtennis eða leika sér. Félagsmiðstöðvastarf er geðheilbrigðisstarf, sáluhjálp, fyrsta hjálp, forvarnarstarf og menntunarstarf. Á sama tíma og það er afþreying og skemmtun. Sérsniðið af unglingunum sjálfum á eins lýðræðislegan hátt og mögulegt er hverju sinni.

Við eigum að lyfta félagsmiðstöðvastarfi á þann stall sem því ber, tölum um gildi félagsmiðstöðvanna og gefum starfsfólki þeirra þá virðingu sem það á skilið. Fjölga heilsársstöðugildum og bæta aðstöðuna enda hafa félagsmiðstöðvar í fæstum tilfellum viðunandi húsnæði.

Nái ég kjöri til borgarstjórnar í kosningunum í maí mun ég beita mér fyrir því af öllum krafti að styrkja rekstargrundvöll félagsmiðstöðvanna, því ég veit að það mun skila sér margfalt til baka út í samfélagið.

Þorsteinn V. Einarsson. 
Höfundur skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík og greinin birtist á visir.is. 

Vinstri græn borg fyrir fólk á öllum aldri

Vinstri græn borg fyrir fólk á öllum aldri

Við Vinstri græn viljum að Reykjavík sé aldursvæn borg þar sem fólk á öllum aldursskeiðum getur lifað góðu og gefandi lífi. Það er okkar sýn að eldri borgarar eigi að ráða sér sjálfir og öll aðstoð skuli taka mið af óskum og þörfum hvers og eins.

 

Hlustum á eldra fólk

Það er mikilvægt að við virðum reynslu, skoðanir og sjálfákvörðunarrétt eldra fólks. Við verðum að stuðla að því að allt eldra fólk geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Það gerum við með því að huga að ólíkum aðgengisþörfum og gera eldri borgurum kleift að rækta fjölskyldu- og vinatengsl, með þátttöku í fjölbreyttu félags- og menningarlífi.

 

Vinstri græn vilja efla samvinnu við aðstandendur, hagsmunasamtök og notendur þjónustu. Öldungaráð borgarinnar, sem tók til starfa á kjörtímabilinu er mikilvægt skref í þá átt.

 

Við í VG leggjum áherslu á raunhæf skref til að mæta fjölbreyttum þörfum eldra fólks:

Menningar og lýðheilsukort aldraðra: Á þessu kjörtímabili höfum við í VG beitt okkur fyrir því að borgin bjóði upp á menningar- og lýðheilsukort fyrir aldraða, til að efla hreyfingu og félagsstarf. Nú veitir kortið ókeypis í sund, söfn borgarinnar og bókasöfn, auk verulegs afsláttar í strætó. Við viljum stórauka þá þjónustu sem kortið veitir aðgang að.

Fleiri hjúkrunar og dagvalarrými: Í samvinnu við ríkið viljum við tryggja nægt framboð af hjúkrunar- og dagdvalarrýmum fyrir eldra fólk í borginni.

 

Eflum heimaþjónustu og heimahjúkrun: Mikilvægt er að tryggja fjáragn frá ríkinu til að efla almenna heimahjúkrun og koma á fót sérhæfðri þjónustu, svo sem við heilabilaðra og liknarmeðferð i heimahúsi.


Endurhæfing í heimahúsi
: Ljúka verður innleiðingu endurhæfingar i heimahúsi í öllum hverfum. Bæta þarf sjúkra- og iðjuþjálfum ásamt næringarráðgjöfum við þann hóp fagfólks sem annast þjónustu við aldraða.

Nýtum velferðartækni: Ný tækifæri liggja á sviði velferðartækni og rafrænum heimaþjónustukerfum.

Rjúfum félagslega einangrun: Á þessu kjörtímabili höfum við stutt aðgerðir sem stuðla að samveru kynslóðanna. Efla þarf verkefni á borð við að háskólanemum sé boðið upp á íbúðir í þjónustuíbúðakjörnum eldri borgara.

Allskonar eldra fólk: Þarfir eldri borgara eru allskonar, við þurfm að tryggja jafnan aðgang fátækra eldri borgara, innflytjenda og hinsegin fólks að þjónustu, stuðningi og ráðgjöf á vegum borgarinnar.

 

Það er forgangsmál okkar að bæta þjónustu við alla óháð efnahag. Það gerum við best með öflugri og fjölbreyttrni þjónustu sem mætir þörfum fólks og rekin er fyrir fé úr sameiginlegum sjóðum.

 

Elín Oddný Sigurðardóttir

 

Formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar og skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna fyrir komandi borgarstjornarkosningar.

,

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið

Stóru áherslumálin Vinstri grænna í borgarstjórnarkosningunum í vor eru loftslags- og umhverfismál, kjaramál og málefni leikskólanna og loks húsnæðismálin. Rauði þráðurinn í kosningastefnuskrá Vinstri grænna er jöfnuður, kvenfrelsi og umhverfisvernd, segir Líf Magneudóttir oddviti.

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið og koma böndum á leigumarkaðinn. „Við þurfum húsnæðismarkað sem er fyrir fólk, ekki fjármagn,“ segir Líf. Eyða á biðlistum fyrir fólk sem er í brýnni þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði og fjölga félagslegum leiguíbúðum um 600, auka á stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög og hefja samtal við stjórnvöld um heimildir til þess að hafa stjórn á þróun leiguverðs. Vinstri græn vilja líka að borgin leiti eftir tvíhliða samningum við Airbnb um að endurheimta húsnæði sem er farið af langtímaleigumarkaði í skammtímaleigu til ferðamanna.

Önnur megináhersla Vinstri grænna eru leikskólamálin. Tryggja verður öllum fjölskyldum í Reykjavík pláss á borgarreknum leikskólum strax að fæðingarorlofi loknu. Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með opnun ungbarnadeilda í öllum hverfum, og tryggja að allir leikskólar séu full mannaðir.

„Það verður að vera algert forgangsverkefni að fjölga starfsfólki. Það gerum við ekki nema við bætum kjör starfsfólks, þessara fjölmennra kvennastétta sem halda uppi starfi leikskólanna hafa setið eftir í kjaramálum á síðustu árum. Við eigum að skila viðsnúningnum sem hefur orðið í fjármálum borgarinnar til skólanna. Við eigum að fjárfesta í börnunum okkar og skólunun. Við þurfum að hugsa meira um fólk og setja minna í steinsteypu.“

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg leiði með góðu fordæmi í kjaramálum og hafni láglaunastefnu og móti sér stefnu um launamun æðstu stjórnenda og almennra starfsmanna. „Reykjavík, sem stærsta sveitarfélag landsins á að leggja sitt af mörkum til að skapa félagslegan stöðugleika, sem verður aldrei reistur nema á félagslegu réttlæti.“

Líf leggur áherslu á að Reykjavík verði líka leiðandi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Taka á fyrir notkun nagladekkja til að útrýma svifryki og taka stærri skref til að Reykjavík nái markmiðum um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Greiða á götu vistvænni samgangna, fjölga hlöðum fyrir rafmagnsbíla, hefjast handa við lagningu borgarlínu, fjölga hjólreiðastígum og auka kolefnisbindingu með endurheimt votlendis og náttúrugæða í borgarlandinu.

Líf segir að Reykjavíkurborg eigi að fara fyrir með góðu fordæmi og vera leiðandi í þessum stóru málum. „Í öllum þessum stóru viðfangsefnum dagsins, loftslags- og umhverfismálunum, húsnæðismálum og loks kjaramálum verður Reykjavíkurborg að stíga fram og leiða með góðu fordæmi.“

Meira og virkara lýðræði: Betri Reykjavík, betra samfélag

Gangir þú um Hljómskálagarðinn blasir við þér, rétt við sjálfan skálann, skilti þar sem kynnt er bygging nýrrar vaðlaugar. Vaðlaugin er eitt þeirra fjölmörgu góðu verkefna sem komu út úr þátttökufjárhagsáætlunarkerfinu „Hverfið mitt“ þetta árið. Í nóvember síðastliðnum voru kosnar til framkvæmda 76 tillögur og er fjöldi þeirra nú þegar vel á veg kominn.

Borgararnir taki þátt í fjárhagsgerð
„Þátttökufjárhagsáætlanagerð“ er sennilega bæði óþjált og nýtt orð fyrir flesta, en hugmyndin sem býr þar að baki er sú að ákvarðanir um hvernig fé úr sameiginlegum sjóðum er varið til nýframkvæmda og viðhalds verði betri ef almenningur tekur beinan þátt í ákvörðunartökuferlinu. Í stað þess að ákvarðanirnar séu teknar miðlægt af fáum er valdinu dreift og opnað borgarbúum.

Verkefninu var hleypt af stokkunum árið 2010 og hefur verið í sífelldri þróun og mótun og verður betra og skilvirkara ár frá ári. Samhliða því hefur þátttaka borgarbúa aukist jafnt og þétt. Nú á að efla verkefnið enn frekar með því að auka samvinnu starfsmanna borgarinnar með þeim sem senda inn hugmyndir, þróa þær betur og laga að því lagaumhverfi sem borgin er bundin af.

Styrkjum lýðræðið
Fólk er hins vegar flest enn óvant því að taka beinan þátt í ákvarðanatöku. Við þurfum því að finna fleiri og fjölbreyttari leiðir fyrir fólk til þess að taka þátt og til þess að láta rödd sína heyrast. Við þurfum að styrkja beint lýðræði og skapa fleiri vettvanga þar sem fólk getur tekið þátt í ferlinu. Þannig mætti t.d. nota rökræðukannanir eða íbúaþing til þess að komast að niðurstöðum í flóknum málum og formgera mætti með betri hætti hvernig safna má undirskriftum til þess að hafa aðkomu að einstökum málum í borgarkerfinu.

Við verðum stöðugt að leita leiða til þess að auka og styrkja lýðræðislega ferla. Við þurfum að huga að því að mjög misjafnlega er gefið í möguleikum fólks til þátttöku, hvort sem það er við kosningu á vefnum eða á borgarafundum eða öðrum samkomum. Langir vinnudagar, aðgengistakmarkanir, hvort sem þær felast í tungumálahindrunum, aðgengi fyrir fatlaða eða takmarkaðrar tæknikunnáttu er eitthvað sem við verðum alltaf að huga að.

Stjórnkerfi fyrir samfélagið
Við þurfum að stefna frá þeirra ásýnd að stjórnkerfið sé svartur kassi frá hverjum flæða ákvarðanir og byggja hér þess í stað stjórnkerfi sem byggist á virku samtali, þar sem raddir okkar allra fá að heyrast. „Hverfið mitt“ hefur verið liður í þeirri vegferð, en við þurfum að nýta okkur fleiri aðferðir, sem bæði hafa fengið reynslu hérlendis og erlendis, til þess að borgarfulltrúar geta skilað valdinu aftur til þeirra sem valdið eiga. Þannig byggjum við upp stjórnkerfi sem endurspeglar samfélagið sem það á að þjóna.

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson.
Höfundur situr í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og skipar 6. sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Fallega Reykjavík fyrir okkur öll

Reykjavík á að rúma okkur öll – fólkið sem býr í borginni og ekki síður fólkið sem vill flytja í borgina – sama hvernig við erum og sama hvaðan við komum. Reykjavík er og á að vera falleg borg þar sem við eigum öll að hafa jöfn tækifæri til lífs og leiks og athafna.

Hvað gerir borg fallega?
Eitt af því sem gerir Reykjavík fallega er nálægðin við náttúruna. Við sem erum Vinstri græn viljum varðveita þau ómetanlegu verðmæti sem umlykja okkur alls staðar með því m.a. að vernda hinar fjölmörgu náttúruperlur í borgarlandinu. Við viljum stofna víðfeman borgargarð sem teygir sig frá heiðum og út á sundin. Við ætlum að opna nýjar ylstrendur og við ætlum að styðja við sjálfsprottna menningarstarfsemi í öllum hverfunum.

Það eru ekki einungis almenningsgarðar, hrein og snyrtileg torg og stræti, list í almannarýminu eða nálægð við náttúruna sem gera borgir fallegar. Það sem glæðir borgir lífi og fegurð er blómlegt og fjölbreytt mannlífið. Borgir sem taka vel á móti fólki og gefa öllum jöfn tækifæri eru fallegar borgir.

Jöfnuður er forsenda fallegs mannlífs
Við vitum að fólki líður best þegar það er frjálst og óheft – bæði undan kröfum samtímans, staðalmyndum kynjanna og hvers kyns ofbeldi en líka þegar það þarf ekki að hafa áhyggjur af hinu daglega amstri og að ná endum saman. Í því sambandi getur Reykjavík beitt sér sem stærsti vinnustaður landsins og gengið fram með góðu fordæmi, stytt vinnuvikuna og bætt kjör fjölmennra kvennastétta sem starfa við umönnun og menntun í skólum borgarinnar.

Borgin á líka að ganga lengra í því að beita gjaldskrám til þess að jafna aðstöðumun fólks. Skilum fjárhagslegum viðsnúningi borgarinnar til skólanna og forgangsröðum fyrir grunnþjónustu og velferð íbúanna. Það á að vera forgangsmál að bæta kjör barnafjölskyldna og þeirra sem búa við kröpp kjör.

Borgarbúar eru hreyfiafl
Við vitum líka að fólk þarf að lyfta andanum, bæði í einrúmi og í félagsskap við aðra, sækja söfn og kaffihús, fara í sund og í göngutrúa eða á leikvell eða einfaldlega skjótast til kaupmannsins á horninu. Borgarskipulag sem styður við sjálfbær hverfi, verndar græn svæði og náttúru og fjölbreytta samgöngumáta er forsenda þess að fjölbreytt mannlíf geti blómstrað í borginni.

Og allt þetta má gera í Reykjavík. Reykjavík er fólkið sem í henni býr og fólkið sem hana skapar með tilveru sinni, hugviti, væntumþykju og auðvitað líka hversdagsleikanum. Það er fólkið og mannlífið sem gerir Reykjavík fallega.

Við Vinstri græn erum ánægð með höfuðborgina okkar og við viljum halda áfram og gera enn betur í Reykjavík. Með ykkur öllum.

Gerum Reykjavík Vinstri græna eftir kosningarnar.

Höfundur er oddviti Vinstri grænna í komandi borgarstjórnarkosningum.