,

Skilyrðum ekki fjárhagsaðstoð

“Okkur finnst ekki eðlilegt að námsmaður geti rölt inn á hverfismiðstöð og fengið fjárhagsaðstoð yfir sumarið í stað þess að fá sér vinnu.” sagði Dagur B. Eggertsson í Fréttablaðinu í dag til að rökstyðja þá stefnu Samfylkingarinnar að rétt sé að skilyrða fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.

Svo það sé á hreinu, þá finnst okkur Vinstri grænum það sjálfsagt og eðlilegt. Námsmenn sem af einhverjum ástæðum fá ekki vinnu yfir sumartímann eiga þann eina möguleika að sækja um fjárhagsaðstoð hjá borginni. Og það er sjálfsagt og eðlilegt að veita hana þegar svo ber undir.

Fjárhagsaðstoð er síðasta úrræði borgarbúa, þegar allar aðrar bjargir eru bannaðar. Það er lögbundin skylda sveitarfélaga að veita hana, enda ríkir almenn sátt í samfélaginu um að axla ábyrgð hvert á öðru ef nauðsyn krefur.

Skilyrðing á fjárhagsaðstoð er forsendubrestur á þessum samfélagssáttmála. Þá værum við bara að axla ábyrgð á sumum – á þeim sem eru nógu hraustir eða vel haldnir til að gera það sem þeim er sagt. Velferðarsamfélag skilyrðir ekki fjárhagsaðstoð. Þess vegna sætir furðu að lesa svona ummæli frá oddvita Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands.

Reykjavíkurborg á að sjálfsögðu að stuðla að aukinni virkni borgarbúa, hvetja til þátttöku á vinnumarkaði, bjóða upp á fjölbreytt virkniverkefni og gera allt sem hægt er til að stuðla ða sem mestri þátttöku í þeim. Það er sjálfsagt og eðlilegt, jafn sjálfsagt og eðlilelgt að það er að námsmaður sem ekki fær vinnu geti fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu sínu.

Sóley Tómasdóttir skipar 1.sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík

,

(Vaxandi) hatur í garð múslima

Áður fyrr fann skortur á umburðarlyndi og fordómar sér farveg í gyðingahatri. Nú á dögum birtast fordómar einna helst í andúð á íslam.

Þegar byggingarland mosku var smánað í nóvember síðast liðnum virtist lögreglunni ekki liggja á að rannsaka málið þrátt fyrir að tjáning kynþáttahaturs og annarra fordóma sé bönnuð og refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Í tengslum við smánunina kom upp á yfirborðið djúpstæð andúð meðal margra Íslendinga í garð múslíma. Þessi andúð birtist skírt í hatursfullri umræðu í ummælakerfium netmiðla, en einnig á síðum dagblaða. Nýjasta dæmið um þessa andúð er málflutningur oddvita Framsóknaflokksins í Reykjavík sem tekur sér stöðu með níði gegn múslímum þegar hún tekur undir kröfur um að múslímum sé meinað að byggja mosku.

Það er brýnt að uppræta þekkingaleysi um íslam og múslíma. Það er jú þekkingarleysið sem er rót fordómana og skapar hatursfulla umræðu og viðhorf. Þá er mikilvægt að sporna gegn hræðslu fólks gagnvart íslam sem byggir að mestu á úreltum staðalímyndunum og sleggjudómum. Veit oddviti Framsóknaflokksins til dæmis ekki að hluti múslíma á Íslandi eru bornir og barnsfæddir Íslendingar sem hafa valið að skipta um trú? Ekki að það skipti þó máli þegar öllu er á botnin hvolft!

Fordómar í garð múslíma og íslam er raunverulegt vandamál sem við verðum að taka á. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) hefur gert athugasemdir við viðhorfi hérlendis til íslam og hefur ítrekað gagnrýnt harðlega hversu lengi múslimar hafa þurft að bíða eftir byggingalóð undir mosku.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar, uppruna eða félagslegrar stöðu. Það er gríðarlega mikilvægt að allir geri sér grein fyrir þeim hættum sem samfélaginu stafar af auknum fordómum og umburðarleysi.
Vinstri Græn vilja styðja enn betur við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og grasrótarsamtök sem berjast gegn kynþáttahatri og umburðarleysi og halda áfram að berjast fyrir bættu samfélagi sem byggist á jöfnuði allra. Þá styðja Vinstri græn byggingu mosku í Sogamýri og rétt alls fólks til að stunda sín trúarbrögð. Líka íslam.

Eyrún Eyþórsdóttir skipar 5. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík
Greinin birtist fyrst á Vísir.is

,

Í þágu almannahagsmuna gegn einkavæðingu

Endurteknar yfirlýsingar ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem boðuð er einkavæðing eða aukinn einkarekstur í velferðar- og almannaþjónustu gefa tilefni til að vera á varðbergi. Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson hefur nýlega talað fyrir því að selja hlut í Landsvirkjun. Heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson hefur ítrekað boðað aukinn einkarekstur í heilsugæslu og að almannaeigur verði seldar til að fjármagna byggingu nýs Landspítala. Einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað í sömu átt.

Sagan sýnir að ekki hefur verið hægt að treysta á Framsóknarflokkinn í þessum efnum þrátt fyrir góð orð einstakra ráðherra eða þingmanna. Saman stóðu núverandi stjórnarflokkar að einhverri óvönduðustu einkavæðingu sögunnar fyrir um áratug, þegar Síminn og bankarnir voru seldir, með hörmulegum afleiðingum bæði fyrir fjarskiptakerfið, fjármálamarkaðinn og þjóðarbúið. Meintur gróði af þessari einkavæðingu átti meðal annars að fjármagna byggingu nýs spítala þá en úr því varð ekkert fremur en öðrum fyrirætlunum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð og frambjóðendur flokksins til sveitarstjórna taka afdráttarlausa afstöðu í þessum efnum nú sem áður enda sýnir sagan að afstaða okkar hefur stundum skipt lykilmáli og nægir þar að nefna REI-málið þar sem einkavæða átti hluta Orkuveitu Reykjavíkur.

Okkar stefna er skýr; við höfnum alfarið einkavæðingu almannaþjónustunnar og við erum andvíg því að unnt sé að hagnast á henni. Þar sem félagasamtök, sjálfseignarstofnanir eða einkaaðilar koma að því að reka eða veita tiltekna velferðar- og almannaþjónustu er eðlilegt að það sé ekki gert í gróðaskyni og ekki sé hægt að greiða sér arð út úr rekstrinum.

Grundvallarspurningar af þessu tagi þarf að ræða í aðdraganda kosninga, ekki síður þegar kosið er til sveitarstjórna en Alþingis því sveitarfélögin bera ábyrgð á stórum hluta velferðarþjónustunnar og eiga mörg mikilvægustu orku-, veitu- og innviðafyrirtæki landsins. Lágmarkskrafa er að flokkar og framboð tali skýrt um sín áform. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur skýra stefnu í þessum efnum; almannahagsmunir þurfa að ráða för og því höfnum við einkavæðingu á almannaeigum og almannaþjónustu.

Undirskrift 1Undirskrift 2

,

Forgangsröðum rétt

Hlutverk sveitarfélaga er að veita samfélagslega þjónustu. Mikið af henni er lögbundin en þar til viðbótar eru þau að leggja margt til að eigin frumkvæði. Hvort heldur er, þá skiptir öllu hvernig forgangsraðað er. Fyrir okkur sem aðhyllumst félagshyggju og jöfnuð, þýðir það að taka saman ábyrgð á þeim viðfangsefnum og að gæta jöfnuðar við val á verkefnum og hvernig þeim er deilt út.

Oft er sagt að einstakt fólk og sumar fjölskyldur hafi alveg efni á einu og öðru af því sem samfélagið leggur þeim eða börnum þeirra til og þess vegna eigi að tekjutengja gjöld fyrir slíka þjónustu. Ég segi hins vegar: Ef fólk hefur efni á að borga þjónustuna, þá hefur það efni á að borga skatta. Með því að hver og einn borgi fyrir sína þjónustu, þá er hætta á að sumir fái meiri eða betri þjónustu en aðrir. Sem er alveg sök sér, ef ekki er um að ræða grunnþjónustu sem jafnt aðgengi á að vera að. Með tekjutengingu þjónustugjalda verður líka sífellt verið að flokka fólk eftir tekjum sínum og það þarf að rekja fjármál sín fyrir hinum og þessum allsstaðar. Sinnum samfélagsþjónustu sameiginlega, leggjum á sanngjarna og hæfilega skatta til þess og notum þá til að veita öllum sömu grunnþjónustu.

Fyrst er að forgangsraða í þágu barna, það gera foreldrar og það á sveitarfélagið að gera líka. Það getum við gert á margan hátt. Við eigum að bjóða börnum að vera í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og félagsstarfi á öllum aldri. Það er löngu orðið almennt viðhorf að grunnskólinn eigi að vera fyrir öll börn óháð efnahag foreldra. Hvers vegna ættu hin skólastigin ekki að vera það líka? Hvers vegna ættum við ekki að jafna aðstöðu barna til félagslegs þroska líka í gegnum aðgang að íþróttum, listgreinum, félagsstarfi og margvíslegum öðrum tómstundum? Mér finnst við eigum að gera það sem samfélag. Þess vegna vil ég lækka leikskólagjöld jafnt og þétt niður í að vera gjaldfrjáls fyrir börn. Þess vegna vil ég að máltíðir og öll kennslugögn séu hluti af rekstri skólans, rétt eins og laun kennara og ræstingafólks. Þess vegna vil ég hækka tómstundastyrki til barna. Þess vegna vil ég hafa auknar og gjaldfrjálsar samgöngur innan þessa stóra sveitarfélags okkar.

Ég nefni börn að þessu sinni, af því þau eru mér efst í huga og af því að ég hef sömu grunn hugmynd um það hvernig við stöndum að annarri brýnni samfélagsþjónustu.

 

Andrés Rúnar Ingason, skipar 1. sæti á V-lista Vinstri grænna í Árborg.
Vinstri Græn Árborg

,

Finnst Samfylkingunni óábyrgt að bæta kjör barnafjölskyldna?

Stór skref hafa verið stigin á síðustu áratugum í þágu barnafjölskyldna og kannski stærsta skrefið þegar leikskólinn var samkvæmt lögum gerður að fyrsta skólastiginu og þegar Reykjavíkurlistinn tryggði að leikskólinn yrði raunverulegur kostur fyrir öll börn.

Enn er staðan þó þannig að foreldrar greiða 10% af kostnaðinum við skólagöngu hvers leikskólabarns en borgin 90%. Það er mat VG að það sé tímabært að hverfa frá þessari gjaldtöku og sömuleiðis gjaldtöku fyrir skólamáltíðir og frístund. Hér er um þjónustu að ræða sem við ættum að líta á sem grunnþjónustu án tillits til efnahags, – þjónustu sem greiða á fyrir úr sameiginlegum sjóðum.

Á Harmageddon í morgun tókust þau á Sóley Tómasdóttir og Skúli Helgason frambjóðandi Samfylkingarinnar. Þar kom fram að honum finnst ekki tímabært að gera leikskólann gjaldfrjálsan, skólamáltíðir og frístundaheimili. Þó kom fram að honum finnst það eigi að vera langtímastefna en hvað? Hvenær á að hefjast handa? Einhverntíma hefði það þótt undarlegt að jafnaðarmannaflokkur stæði á móti róttækum framförum í þágu barna.

Í viðtalinu ræddi Skúli að hér væri um að ræða gríðarlegar fjárhæðir og gekk meira að segja svo langt að segja að ekki væri ábyrgt að lofa þessu. VG í Reykjavík hefur hins vegar sýnt fram á með útreikningum og með ábyrgum hætti að þetta er raunhæf áætlun sem hefur gríðarlega áhrif á stöðu barnafjölskyldna, er mikilvægt skref í baráttunni gegn fátækt en síðast en ekki síst er með þessu verið að viðurkenna skólastigið til fulls sem hluta grunnþjónustunnar.

Sóley benti á hversu ódýrt það væri að segja stuttu fyrir kosningar að hér væri um að ræða langtímastefnu Samfylkingarinnar. Ég tek eindregið undir orð Sóleyjar í lok viðtalsins þegar hún segir: „Hvenær verður þetta raunhæft? Það gerist þegar pólitíski viljinn verður til staðar. Ekki fyrr.“

,

Höfnun markaðsvæðingu skólakerfisins

Fyrir skömmu hélt Margrét Pála, stofnandi og fræðslustjóri Hjallastefnunnar, erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins. Þar kallaði hún eftir aðstoð atvinnulífsins við „bjarga‟ börnunum okkar frá eyðileggingarmætti skólakerfisins með því að „ráðast sem víðast‟ að því og byggja upp nýtt kerfi í samvinnu við hana. Það má því öllum ljóst vera að hér boðar Margrét Pála að eina lausnin við úreltu og einsleitu skólakerfi sé einkavæðing þess.

Fjölmargir hafa tekið undir þetta sjónarmið og talað fyrir nauðsyn þess að innleiða svokallað fjölbreytt rekstrarfyrirkomulag til að svara auknum kröfum um nýjar áherslur í skólastarfi og meiri hagkvæmni í rekstri. Því hafa æ fleiri sveitarfélög kosið að fara þá leið að útvista hluta af skólastarfi sínu til einkaaðila. Markaðsvæðing skólakerfisins hér á landi er því hafin af fullri alvöru.

Sams konar þróun hefur átt sér stað í fleiri löndum og er því tilvalið að líta til þeirrar reynslu sem þar er komin. Berglind Rós Magnúsdóttir hefur rannsakað áhrif markaðsvæðingar á breskt og bandarískt skólakerfi. Hún hefur bent á að óheft markaðsvæðing í skólakerfum skapi til lengri tíma meiri menningar- og stéttarmun milli skóla. Þar sem markaðslögmál ráða för í skól­um verður meiri eft­ir­spurn eft­ir nemendum sem þykja góðir fyrir ímynd skólans. Þannig er meiri eftirspurn eftir börn­um foreldra sem hafa komið sér vel fyr­ir í sam­fé­lag­inu og minni eft­ir­spurn eft­ir þeim sem standa þar höllum fæti.

Um 20 ár eru síðan Svíar veittu aukið svigrúm til einkareksturs innan skólakerfisins. Reynsla þeirra sýnir sömuleiðis að stéttarmunur milli skóla hefur aukist við breytt rekstrarfyrirkomulag og niðurstöður úr alþjóðlegum samanburðarmælingum hafa sýnt að hið aukna frjálsræði innan kerfisins hefur síður en svo verið til þess fallið að bæta námsárangur nemenda.

Við í Vinstri grænum lítum svo á að uppbyggilegt og metnaðarfullt starf í almenningsskólum sé hornsteinn félagslegs réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Tryggja þarf að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins. Það er okkar trú að slíkt verði einungis kleift með öflugu opinberu skólakerfi. Fagfólk skóla hefur í dag svigrúm til að þróa eigin stíl, stefnu og menningu. Svigrúm er því nú þegar til staðar fyrir fjölbreytileika á borð við Hjallastefnuna sem spratt einmitt fram innan opinbera kerfisins og í raun eru engin rök fyrir því að þeirri stefnu sé ekki hægt að framfylgja innan þess.

Skólakerfið á að vera sameign okkar allra. Það á ekki að vera í einkaeign heldur að vera rekið fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum. Þess vegna hafnar Vinstri hreyfingin grænt framboð allri markaðsvæðingu skólakerfisins.

Hildur Friðriksdóttir skipar þriðja sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Pistillinn birtist fyrst á Vísir.is

,

Sérstakt átak í upplýsingamiðlun Garðabæjar

Aðgengi bæjarbúa að upplýsingum um rekstur og ákvarðanir í hverju sveitarfélagi eru forsenda þess að sátt ríki um stjórnun bæjarins. Krafan um gegnsæi er krafa um að almenningur geti nálgast þessar upplýsingar með einföldum hætti til að mynda sér skoðun á skilvirkni bæjarkerfisins.

Hjá mörgum stærstu sveitarfélögum landsins hefur hin síðari ár náðst markverður árangur í að gera slíkar upplýsingar aðgengilegar og skýrist það m.a. af tilkomu netsins.

Hjá Garðabæ má nálgast fundargerðir nefnda og eru helstu fjárhagsupplýsingar bæjarins aðgengilegar á vefnum. Þannig er hægt að ná í ársreikning bæjarins aftur í tímann og glöggva sig á helstu rekstrartölum bæjarins.

Þó að mikið hafi áunnist hin síðari ár í að gera fjárhagsupplýsingar opinberra aðila aðgengilegar almenningi er verulegt rúm til að gera enn betur. Garðbær gæti raunar tekið forystu í þessum efnum og leggur FÓLKIÐ- í bænum til að það verði sérstakt tilraunasveitarfélag á Íslandi í að gera fjárhagsupplýsingar aðgengilegri bæjarbúum.

Ekki nægir að setja helstu bókhaldsupplýsingar ársreikninga á netið heldur þarf að vinna úr upplýsingunum þannig að þær séu skiljanlegar þeim sem vilja leita þeirra. Styðja má við fjármálalæsi með skipulagðri framsetningu gagna.

Þetta má gera með tvennum hætti. Hægt er að gera grunngögnin aðgengileg hverjum þeim sem vilja til að útbúa eigin gögn og auðvelda þannig frekari framsetningu á þeim. Þannig hafa ýmis fyrirtæki sérhæft sig í að nýta sér grunngögn til að setja slíka upplýsingar fram þannig að þær verði skiljanlegar. Gott dæmi um eitt slíkt er íslenska sprotafyrirtækið Datamarket.

Einnig getur sveitarfélagið látið vinna úr þessum gögnum helstu lykilstærðir til upplýsinga fyrir bæjarbúa. Gera má einfaldar myndir sem sýna hversu hátt hlutfall útsvars fer í stóra málaflokka eins og skólamál, rekstur stjórnsýslu eða æskulýðs- og íþróttamál. Þá má bæta við myndum um þróun skulda, tekna og gjalda. Ótal fleiri atriði er hægt að týna til en fyrirmynda má líka leita víða hvort sem það er hjá fyrirtækjum eða opinberum aðilum erlendis.

Hugmyndinni er ekki varpað hér fram til að gera lítið úr þeim upplýsingum, sem þegar er að finna hjá bænum, heldur fremur til að styðja við áframhaldandi þróun þessarar vinnu.

Með einföldum hætti og litlum tilkostnaði er hægt að stórbæta aðgengi almennings að þessum upplýsingum og ætti að vera auðvelt að sameinast um slík markmið.

Huginn Freyr Þorsteinsson
Höfundur, situr í 4 sæti M-Lista í Garðabæ.

Greinin birtist fyrst á Vísi.is

,

Bæjarmyndin til framtíðar – græna Akureyri

Í stefnuskrá vinstrihreyfingarinnar græns framboðs (VG) á Akureyri er lögð fram skýr sýn á þróun Akureyrar til framtíðar í þágu fjölbreyttra samgöngumáta, þar sem fólki er gert kleift að komast sinna ferða gangandi, hjólandi, með barnavagna eða í hjólastól. Til þess að svo megi verða þarf byggðin að vera þétt. Þjónusta, vinnustaðir og skólar þurfa að vera í hjarta hverfanna og skipulögð þannig að fjölbreytt aðgengi sé að þeim, ekki bara fyrir bíla.

Byggðin á Akureyri er byrjuð að bera þess merki að hún dreifist um of. Nýtt Hagahverfi er nýjasta birtingarmynd þess. Á þessari útþenslu viljum við hægja og þess í stað hefja uppbyggingu á skipulögðum reitum miðbæjarins og Drottningarbrautarreits og hefja af krafti skipulag og uppbyggingu byggðar á Oddeyrinni. Til langrar framtíðar er sýn okkar sú að starfsemi vöruflutninga og stærri hafnsækin starfsemi verði á Dysnesi, eins og lýst er í svæðisskipulagi og Oddeyrartangi verði hafnarhverfi. Skipulag nýrra hverfa á að okkar viti að byggja á hugmyndafræði miðbæjarskipulags sem nú er verið að samþykkja, þar sem íbúðir blandast smærri verslun og þjónustu í grænu og gönguvænu umhverfi og húsamyndir hafa yfirbragð eldri húsa, sem Akureyri er þekkt fyrir.

Þétting byggðar og uppbygging fjölbreyttra samgöngumöguleika er undirstaða grænnar Akureyrar. Í fyrsta lagi að gera fólki frekar kleift að fara gangandi eða hjólandi minnkar hávaða, dregur úr mengun af völdum útblásturs og svifryks og stækkar græn svæði, þar sem minna fer undir malbik. Akureyri er í okkar huga eitt stórt grænt svæði. Þau eiga ekki að vera aðskilin götum og byggingum á sérmerktum reitum, heldust blandast byggð og fjölbreyttum samgönguleiðum. Í öðru lagi stuðlar þétting byggðar að hagkvæmni í uppbyggingu innviða og bættri nýtingu þeirra. Vatnsveita, fráveita og rafmagn þarf að leiða um skemmri veg og dreifi- og dælustöðvar verða færri og öflugri. Þetta dregur úr sóun og tapi á þessum verðmætu auðlindum sem heitt og kalt vatn og rafmagn eru. Það að þétta byggð gerir uppbygginu fráveitu hagkvæmari, en uppbygging hennar og öflugra hreinsimannvirkja teljum við í VG forgangsmál og höfum talað fyrir í nú rúm 12 ár. Í þriðja lagi viljum við í VG gera fólki kleift að ganga og hjóla þar sem það stuðlar að bættri lýðheilsu þar sem það eykur möguleika fólks á að hreyfa sig. Heilsa og umhverfisvernd þættast þannig saman við skipulag byggðar á Akureyri og því viljum við í VG hafa þessa þætti í forgrunni þegar skipulagsmál eru rædd á Akureyri.

Í huga okkar í VG er bæjarmynd Akureyrar til framtíðar þétt byggð með hlýlegu yfirbragði. Þar á fólk að getað notið vandaðrar hönnunar, gangandi, hjólandi eða á hægri bílferð umlukið gróðri í grænum skrúða vors og sumars, hvítum kjólum vetrar eða litadýrð haustsins.

Edward Huijbens skipar 2. sætið á framboðslista VG á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Greinin birtist fyrst í Akureyri Vikublað

,

Við getum breytt kerfinu

Í vor munu sjö flokkar bjóða fram til bæjarstjórnar hér á Akureyri og ljóst er að allir frambjóðendur vilja vinna bænum okkar gagn þó skiptar skoðanir séu um hvernig það sé best gert. Um leið eru pólitískar línur að óskýrast þar sem hluti flokkanna leggur ekki upp með skýrar pólitískar hugsjónir heldur frekar að um sé að ræða hóp ólíkra einstaklinga sem hver fyrir sig taki afstöðu í málum og málefnum samkvæmt sinni persónulegu pólitísku skoðun þó reyndar hafi ekki borið á slíku í hreinum meirihluta L-listans síðastliðið kjörtímabil. Svo það er greinilega ekki nóg. Þess vegna er mikilvægt að efla samræðu- og samvinnustjórnmál og velta upp nýjum möguleikum til þess.

Við í VG viljum afleggja hefðbundna skiptinu í meirihluta og minnihluta en þess í stað vinni allir bæjarfulltrúar saman. Þannig höldum við eðlilegra valdajafnvægi í samræmi við niðurstöður kosninga.

Staðreyndin er þó sú að stór hluti vinnunar fyrir bæjarbúa fer fram í nefndum. Þar hefur meirihlutahópurinn hingað til eignað sér valdamesta embætti í hverri nefnd; formennskuna. Þetta fyrirkomulag er í hróplegu ósamræmi við niðurstöður kosninga og þar með vilja kjósenda. Sem dæmi má nefna að í kosningum 2010 hlaut L-listinn 45% atkvæða en skipar 100% nefndarformanna. Við leggjum til að nefndarformönnum og nefndarmönnum verði skipt niður á flokkana í samræmi við útkomu úr kosningum sem.

Auk þessa er mikilvægt að auka aðkomu íbúa að umræðu og ákvörðunum. Fyrsta skrefið að þessu bætta lýðræði er að auka upplýsingagjöf um það sem fram fer í stjórnsýslunni. Það þýðir ekki að ætlast sé til að allir bæjarbúar kynni sér öll mál sem tekin eru til umræðu heldur að þeir bæjarbúar sem áhuga hafa eigi greiðlega aðgengi að þeim gögnum sem liggja til grundvallar ákvarðanatöku. Með þessu eiga íbúarnir auðveldara með að beita virku aðhaldi. Við leggjum til að öll gögn sem bæjarfulltrúar fá í hendur við umræðu um málefni í nefndum og ráðum séu gerð opinber með fundargerðum innan marka persónuverndar og viðeigandi laga.

Í vikunni bárust þær fréttir að CCP hefði í ársreikningi sínum birt upplýsingar um alla hluthafa í félaginu. Þetta hefur víst ekki gerst áður hjá stórfyrirtæki á Íslandi. Þetta er mikilvægur liður í auknu upplýsingaaðgengi og til mikillar fyrirmyndar og vonandi að fleiri fylgi eftir. Það er nefninlega þannig að það þarf bara að ríða á vaðið, ekki bara afsaka sig með því að þetta eða hitt tíðkist ekki. Það eru ekki gild rök í umræðunni um aukið aðgengi að gögnum.

Einn liður í betra upplýsingaflæði milli bæjarkerfis og bæjarbúa er að haldið sé úti upplýsingagátt þar sem íbúar hafa tækifæri til að koma að ákvarðanatöku, forgangsröðun og til að afla sér upplýsinga án mikillar fyrirhafnar. Bæjarkerfið þarf að taka frumkvæði í upplýsingagjöf til íbúanna sem það þjónustar. Þetta er pólitísk stefna okkar í VG.

Sóley Björk Stefánsdóttir skipar fyrsta sæti á lista Vinstri grænna á Akureyri

Greinin birtist fyrst á Akureyri – vikublað