Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

 

Þingflokkur VG harmar hið mikla mannfall sem orðið hefur í hræðilegum stríðsátökum í Sýrlandi, Írak og Jemen undanfarin misseri, nú siðast í loftárásum á borgina Idlib. Ljóst er að alþjóðalög um vernd almennra borgara á átakatímum eru þverbrotin af stríðsaðilum í þessum löndum, ekki síst með loftárásum sem fara ekki í manngreinarálit. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld að nýta hvert tækifæri til að koma á framfæri mótmælum sínum vegna mannfalls almennra borgara, þar á meðal barna, í þessum löndum og annars staðar. Sérstaklega fordæmir þingflokkurinn notkun efnavopna sem er skýlaust brot á alþjóðlegum sáttmálum en sterkar vísbendingar eru um að þeim hafi nú verið beitt í Sýrlandi.  Þingflokkur VG áréttar jafnframt þá skyldu Íslands að axla ábyrgð í því að veita þolendum stríðsátaka skjól og vernd. Í Miðausturlöndum verður ekki komið á friði með vopnavaldi, drápum og stigmögnun ofbeldis. Samningar eru alltaf rétta leiðin til að ná markmiðinu um frið og jafnvægi.

 

Hægt er að ná í fulltrúa VG í utanríkismálanefnd til viðtals um yfirlýsinguna. Þær eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, s. 824-6743 og Steinunn Þóra Árnadóttir s. 690-2592.

 

Bjarni Jónsson nýr á þingi

Bjarni Jónsson tók í gær sæti á Alþingi í gær, í fjarveru Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Er þetta í fyrsta sinn sem hann tekur sæti á Alþingi. Bjarni er ættaður af Ströndum og úr Húnavatnssýslum en ólst upp í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 15 ára aldurs er hann fluttist með fjölskyldu sinni að Hólum í Hjaltadal. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1986, BA-prófi í hagsögu og viðskiptafræði frá HÍ árið 1992 og meistaraprófi í fiskifræði frá Háskólanum í Oregon í Bandaríkjunum 1996. Bjarni hefur unnið margvísleg störf til sjávar og sveita. Hann starfaði m.a. sem forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og er nú forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Eiginkona Bjarna er Izati Zahra og búa þau á Sauðárkróki. Bjarni á tvö börn, og er nýbakaður faðir en þau hjónin eignuðust son 2. mars síðastliðinn.

Bjarni flutti jómfrúarræðu sína í gær, í sérstakri umræðu um áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða. Bjarni lagði áherslu á hlutverk sveitarfélaganna og rannsóknarstofnana á landsbyggðinni um eftirlit og rannsóknir þegar kemur að verndun og nýtingu haf- og strandsvæða.

Einnig ber að geta þess að Björn Valur Gíslason tók sæti í gær sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar, en Björn Valur hefur áður setið á þingi.

Yfirlýsing þingflokks vegna viðbragða íslenskra stjórnvalda við aðgerðum Bandaríkjaforseta

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir hvers kyns lokun landamæra og brot á ferðafrelsi gagnvart sérstökum trúarhópum frá tilteknum löndum og gagnvart flóttafólki frá Sýrlandi, líkt og forsetatilskipun Bandaríkjaforseta frá því á föstudag felur í sér. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld til að koma andmælum við ákvörðun Bandaríkjaforseta skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld með formlegum hætti og halda með því á lofti grundvallarvirðingu fyrir frelsi, lýðræði og mannréttindum.

Um ferðamálaráðuneyti og fleira skylt.

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar á Alþingi 26. janúar.

 

Herra forseti. Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu á að fjölga ráðuneytum úr átta í níu. Ég ætla ekki að ræða þá skipan eða endanlegan fjölda heldur nýtt ráðuneyti ferðamála sem hefði átt hér heima í plagginu. Ég hef talað fyrir því lengi og það má fullyrða að aðilar í ferðaþjónusta óska eftir því. Ég hef fylgst með þróun ferðamála í 30, 40 ár og horft upp á þessar undirmönnuðu stofnanir, sérstaklega innan Stjórnarráðsins, sem hafa verið alla tíð. Það hefur verið mjög lítil áhersla í raun og veru lögð á ferðamál, enda má kannski segja að lengst af hafi þau ekki verið mjög stór þáttur af hagkerfi okkar en eru nú orðin það.

Það er til Ferðamálastofa. Það er til Stjórnstöð ferðamála. Það er til Vegvísir í ferðaþjónustu. Það eru til lög um Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja. Þetta eru allt framfarir að vissu marki en það þarf að gera mun betur.

Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur, en henni er ekki ætlað að taka yfir ábyrgð og skyldur stjórnkerfisins eða hagsmunasamtaka eins og segir í kynningu á henni. Henni er stjórnað af fjórum ráðherrum. Ég hef lítið séð til þessarar stjórnstöðvar og hún hefur væntanlega unnið sín störf ágætlega, þar eru í gangi ýmiss konar verkefni en mér finnst þessi skipan of veik. Stjórnstöðin mun starfa til 2020. Þá spyr maður sig: Hvað tekur þá við?

Þegar hefði átt að hefja vandaðan undirbúning að stofnun ráðuneytis og reyna að klára þá vinnu fyrir árið 2020, jafnvel á einu til tveimur árum. Ástandið í ferðaþjónustunni heilt yfir er ámælisvert að mati mjög margra aðila, hvort sem er í ferðaþjónustunni eða utan. Um þetta hafa margir fjölyrt og fjölmiðlar flytja daglega fregnir af alls konar óboðlegu ástandi sem hægt er jafnvel að hneykslast á.

Ef maður dregur þetta saman þá getur maður sagt að við höfum ekki haft tök á viðbrögðum við fjölgun ferðamanna. Sjálfbærnin sem við höfum sett sem markmið er meira í orði en á borði og það vill oft gleymast að sjálfbærni snýst ekki bara um náttúruna, hún snýst líka um félagslega þætti og hún snýst um hagræna þætti.

Innviðauppbyggingin er í ólagi, ekki alls staðar, en mjög víða og heldur alls ekki í við þróunina. Öryggi ferðamanna er ekki nægilega tryggt og fjármögnun er of lítil til greinarinnar, bæði í einkageiranum og opinbera geiranum. Það eru líka undantekningar á því.

Það er vissulega svo að ferðaþjónusta er mjög fjölbreytt, en það er rangt hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni að þetta snúist eiginlega helst um samgöngur og landkynningu. Þetta er svo miklu, miklu víðara og einmitt vegna þess hversu ferðaþjónustan er fjölbreytt og fjölþætt er nauðsynlegt að henni sé fundinn staður í Stjórnarráðinu.

Herra forseti. Næstu árin mun ferðamönnum fjölga mjög fljótlega í 2 milljónir, síðan í 4, 6, við höfum jafnvel séð hærri tölur fyrir 2040. Það er alveg augljóst að þessar nytjar sem að baki ferðaþjónustu liggja hafa þolmörk eins og allar aðrar náttúru- og menningarnytjar eða félagslegar nytjar. Við getum líka fullyrt að það er mjög mikið misræmi í álagi á land og fólk.

Stærsti flókni atvinnuvegurinn þarf augljósa stýringu hvað varðar skipulag, náttúrunýtingu og auðlindir hvers konar, enda eru til sérlög um ferðaþjónustu á Íslandi. Það er verið að endurskoða þau.

Annað verkefni til vandaðrar umræðu sem ég hef rætt um er endurskipulagning ríkisstofnana sem koma að náttúruauðlindum. Það hefur jafnvel verið kölluð auðlindastofnun. Ég ætla að leyfa mér hér, herra forseti, að vísa í álit fyrrum landgræðslustjóra, Sveins Runólfssonar, sem hann sendi umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir um tveimur árum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að sett verði á laggirnar auðlindastofnun er fari með verndun og endurheimt auðlinda landsins, gróðurs, jarðvegs, ferskvatns, náttúru, ásamt umsýslu mikilvægra svæða í eigu ríkisins. Hún verði þekkingar-, framkvæmda- og þjónustustofnun á þessu sviði. Undir hana færist öll landgræðslumálefni frá Landgræðslu ríkisins sem má þjappa saman sem vernd og endurreisn á virkni vistkerfa, skógrækt og þjóðskógar frá Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefni í skógrækt, Hekluskógar, málefni Veiðimálastofnunar, náttúruverndarþátturinn sem nú er fóstraður í Umhverfisstofnun og sviði gróðurverndar, landslagsverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og fleira. Undir hana myndi einnig heyra rekstur þjóðgarða, þar með talið Vatnajökulsþjóðgarðar. Síðast ekki síst er brýnt að í hinni nýju stofnun yrðu sem allra flest málefni er varða verndun ferðamannastaða, ferðaleiða og svæða gegn ágangi og álagi af völdum ferðamanna og utanumhald vinnu við að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið. Brýnt er að á einum stað verði til þekking og reynsla varðandi allar framkvæmdir er lúta að verndun náttúru, gróðurs og jarðvegs vegna sívaxandi ferðamennsku.“

Hugmyndin um nýja auðlindastofnun er ekki nýtt fyrirbæri og hentar í sjálfu sér til vandaðrar umræðu. Þetta er sett hér fram þess vegna og í von um að menn átti sig á þörfinni þótt breytingar sem þessar kunni að kosta mikla vinnu og töluvert fé, en það er alveg ljóst, jafnvel þegar menn horfa aðeins á málefni þjóðgarða, að það er auðvelt að nefna sjö, átta, níu stofnanir og nefndir sem véla um þessa mikilvægu þætti í ferðaþjónustu og allri menningu landsmanna.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég ætla að vona að við berum gæfu til þess að fleyta þessu máli lengra í þinginu og að hv. ríkisstjórn taki tillit til þess að það er löngu kominn tími til að það verði til ferðamálaráðuneyti á Íslandi.

Rósa Björk óskar eftir fundi í utanríkismálanefnd

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrir hönd fulltrúa VG í utanríkismálanefnd Alþingis, hefur óskað eftir fundi hið fyrsta í utanríkismálanefnd með utanríkisráðherra til að ræða aðgerðir Bandaríkjaforseta gegn íbúum tiltekinna ríkja sem tilheyra tilteknum trúarbrögðum og gegn flóttafólki frá Sýrlandi. Ósk um fundinn með utanríkisráðherra er til að ræða viðbrögð annarra ríkja og ekki síst hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda verði; bæði út frá samskiptum þjóðanna og mannréttindasjónarmiðum sem og hagsmunum á borð við flugsamgöngur.

 

Þingmenn VG í nefndum Alþingis

 

Allsherjar- og menntamálanefnd

Andrés Ingi Jónsson

Atvinnuveganefnd

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Efnahags- og viðskiptanefnd

Katrín Jakobsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Fjárlaganefnd

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Svandís Svavarsdóttir

Umhverfis- og samgöngunefnd

Ari Trausti Guðmundsson

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Utanríkismálanefnd

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Steinunn Þóra Árnadóttir

Velferðarnefnd

Steingrímur J. Sigfússon

Forsætisnefnd

Steingrímur J. Sigfússon, 1. varaforseti

Ræða Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur

Ræða Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

Virðulegi forseti, kæru landsmenn.

Helstu áskoranir okkar nú felast í tveimur risastórum verkefnum. Verkefni sem eru tilkomin af mannanna völdum og eru því á hendi mannanna sjálfra að leysa úr. Þetta eru hlýnun loftslags og vaxandi ójöfnuður í heiminum.

Það er ískyggilegt hvernig loftlagsbreytingar og ójöfnuður tengjast órjúfanlegum böndum. Mengandi frumiðnaður í reykspúandi verksmiðjum með heilsuspillandi úrgangi hefur oftast haldist þétt í hendur við láglaunastörf sem verkafólk hefur unnið við óviðunandi starfsaðstæður víða um heim. Allt of margir fjármagnseigendur hafa hagnast á mengandi verksmiðjuframleiðslu á kostnað okkar allra og náttúrunnar.

Við verðum öll að sameinast um að sporna við hlýnandi loftslagi og vaxandi ójöfnuði. En búum við ekki við hreinasta vatnið og bestu loftgæði sem um getur? Kannski, en við þurfum að leggja miklu meira á okkur en við höfum gert undanfarin ár til að sporna við loftslagsbreytingum. Við þurfum að taka Parísarsamkomulagið alvarlega og leggja af stað í raunverulegar aðgerðir sem virka. Enginn er eyland þegar kemur að hlýnun loftlags.

Og hvað með ójöfnuðinn, höfum við það ekki öll bara býsna gott hér með sterka stöðu efnahagsmála líkt og hæstvirtur forsætisráðherra benti á í sinni stefnuræðu?

Nei. Ójöfnuður er staðreynd og fer því miður vaxandi um allan heim. Um það vitnar glæný skýrsla  Oxfam-samtakanna sem sýnir að 8 karlmenn eiga meiri peningaleg auðæfi en helmingur alls mannkyns.

Virðulegi forseti,

Það er engin ástæða til að ætla að ójöfnuður fari ekki vaxandi á Íslandi og sterk teikn eru á lofti um að það hafi gerst undanfarin ár. Um það vitna tölur ríkisskattstjóra sem sýna að ríkasta eina prósentið á Íslandi þénar nálægt helmingi fjármagnstekna og tölur Hagstofunnar frá síðasta ári sýna að ríkasti fimmtungur landsmanna á 87 prósent af öllu eigin fé í landinu.

Og aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins  á borð við Leiðréttinguna juku líka ójöfnuðinn. Nú hefur komið í ljós að þessi risavaxna aðgerð; að gefa 72,2 milljarða úr ríkissjóði til tiltekins hluta þjóðarinnar, kom þeim mest til góða sem áttu mest og þénuðu mest. Þau 20 prósent Íslendinga sem hafa hæstar tekjur fengu samtals 22 milljarða króna úr ríkissjóði. Á sama tíma og fjármagn til heilbrigðismála, menntunar og annarra innviða hefur skort. Það er einfaldlega alröng forgangsröðun.

Virðulegi forseti, kæru landsmenn,

Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi eins og annars staðar. Hér er um grafalvarlegan hlut að ræða. Það er engin samfélagslegur sáttmáli til um það að hinir ríku verði ríkari á meðan hin efnaminni sitji eftir og hafi minna á milli handanna. Það hefur ekkert með lýðræði að gera að fjármunum okkar allra sé skammtað til hinna efnameiri. Það hefur heldur  ekkert með lýðræði að gera að samfélag sem býr við gnægð náttúruauðlinda geti ekki skipt arðinum af þeim jafnt. Það er engin samfélagslegur sáttmáli til um að börn efnaminni foreldra búi við skort og hafi takmarkaðri aðgang að gæðum samfélagsins en börn efnameiri foreldra. Það er nefnilega engin sátt til um ójöfnuð. Ójöfnuður hefur víðtæk samfélagsleg áhrif og er ólíðandi út frá öllum siðfræðilegum viðmiðum um réttlátt samfélag.

 

Virðulegi forseti,

Forsætisráðherra er tíðrætt um jafnvægi í stefnuræðu sinni. Það er kannski ekki að undra að forsætisráðherra sækist eftir jafnvægi, þar sem síðustu ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkur hefur tekið þátt hafa ekki beint stuðlað að samfélagslegu, stjórnmálalegu eða efnahagslegu jafnvægi. Það var ekkert jafnvægi í að ákveða byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða setja Ísland á lista viljugra þjóða vegna innrásarinnar í Írak. Það var ekkert jafnvægi í efnahagshruninu fyrir 8 og hálfu ári eða í Lekamálinu, Orku Energy málinu eða uppljóstrun um Panamaskjölin á síðasta kjörtímabili.

Ein af skilgreiningum orðsins jafnvægi sem forsætisráðherra vill leitast eftir, er að eitthvað sé jafnþungt og kyrrt. Rólegt og stillt.

En íslenskt samfélag á ekki að vera þungt og kyrrt. Íslenskt samfélag er ekki kyrrstöðusamfélag afturhalds og íhalds, heldur á að vera á stöðugri hreyfingu og í framþróun. Það gerum við meðal annars með því að leggja áherslu á menntun og opna faðminn fyrir þeim sem leita til okkar eftir nýjum tækifærum. Ég fagna því að forsætisráðherra ætlar sér að leggja áherslu á þetta tvennt.

Og það er sannarlega ósk okkar flestra að hér ríki ró og friður, en eigum við að vera róleg og stillt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að arði auðlindanna sé ekki jafnt skipt á milli okkar allra? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að 4-6 þúsund íslensk börn búa við skort og fátækt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að þurfa að bíða í marga mánuði eftir viðunandi heilbrigðisþjónustu? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að íslenskt stóreignafólk og stjórnmálamenn fari með peningana sína út úr íslensku hagkerfi, úr okkar sameiginlegu sjóðum og feli á aflandseyjum? Það er ekki hægt að segja okkur að hér eigi að vera jafnvægi, að við eigum að vera róleg og stillt á meðan ójöfnuður fer vaxandi í íslensku samfélagi. Það er ekkert jafnvægi fólgið í því.

 

Kæru landsmenn, framsýni hefur ekkert með vaxandi ójöfnuð að gera. Framsýni er að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, að minnka ójöfnuð, að draga með öllum ráðum úr loftlagsbreytingum. Að vinna saman að sátt í samfélaginu þar sem allir geti notið sín og haft sömu tækifæri óháð stétt eða stöðu. Sameinumst um það markmið.

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

 

Virðulegi forseti og kæru landsmenn.

Á mínum stutta þingmannsferli hef ég heyrt úr ræðustól staðhæfingar eins og þær að ekki sé hægt að eyða sömu krónunni tvisvar, að menn geti ekki fengið allar sínar kröfur uppfylltar og nú síðast að framtíðin sé okkur hulin. Hvað annað? Við sem erum eldri en tvævetur – þingmenn og kjósendur – hljótum að óska eftir bitastæðari orðum en þeim sem hæfa tilteknu skólastigi en varla Alþingi – við viljum sjá og heyra umræður um raunveruleg vandamál, öruggar framfarir, ólíka hugmyndafræði og síðast en ekki síst stefnuræðu sem stendur undir heiti og dregur upp skýrar línur nýs þingmeirihluta. Hún á að fjalla um markmið og leiðir í stað útlistunar á almennum hugtökum eins og stöðugleika, jafnvægi og framsýni, með eða án ljóðatilvitnana.

 

Ekki lasta ég það sem stefnt er að á vegum nýrrar ríkisstjórnar svo sem aukna nýsköpun eða fé til heilsugæslu, eða annað sem gæti horft til aukinnar samneyslu, jöfnuðar og bættrar afkomu tugþúsunda. Við erum mörg sem sjáum fá ljós í því sem háttvirtur forsætsráðherra nefnir stefnu sína og stjórnarinnar – af því að ræða hans fjallar fyrst og fremst um markmið en ekki leiðir – um gildi en ekki lausnir. Þar með erum við litlu nær um hvað bíður landsmanna næstu fjögur árin – og þó: Innviðauppbygging sem greiða á fyrir með aukinni verðmætasköpun og hagvexti. Hvort tveggja er óútfylltur víxill. Hvort tveggja byggir á kökukenningunni: Vinnandi fólk fær ekki stærri hlut í kökunni nema hún stækki fyrir þess atbeina. Þetta svarar ekki ákalli tugþúsundanna um betri heilbrigðisþjónustu, samgöngur, menntakerfi og almannatryggingar. Þarna fer úthugsuð hagfræði auðhyggjunnar. Með henni má vernda hag 10% þjóðarinnar sem eiga 60% eigna, eða þess eina prósents sem tekur við 44% allra fjármagnstekna. Það er til mikið fjármagn, handan allra hagsveiflna, sem taka má af til samneyslunnar – án þess að samfélagið brotni. Í því er fólgin úthugsuð félagshyggja – sem sagt við getum valið á milli hægri og vinstri – og má vera að óánægja með nýja ríkisstjórn í skoðanakönnun endurspegli þrotna þolinmæði gagnvart tregðu við að lagfæra skemmda innviði þegar næg efni eru til þess.

 

Hæstvirtur forsætisráðherra ber fyrir sig gagnrýni fjölda hagfræðinga á aukin útgjöld ríkisins þegar hagvöxtur er mikill. Sem jarðvísindamaður get ég fullyrt að álíka margir hagfræðingar, hvað þá jarðfræðingar, eru á öndverðri skoðun. Aftur má velja á milli hægri og vinstri en stakur óþarfi að leyna því að hagvísindi eru pólitísk og umdeilanleg – fjarri því að líkjast náttúrulögmálum. Vernd hinna efnamiklu er aðeins einn flokkur hagfræði – sem hæstvirtur ráðherra velur sér og sínum.

 

Frú forseti, til þess að marka stefnumið og leiðir þarf raunhæfa greiningu á samfélagsstöðunni. Skammt dugar að telja að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hafi kallað fram neikvæð hughrif hjá almenningi, eins og heyrðist hér í upphafi. Almenningur finnur glöggt á huga og líkama hvað er að: Í heilbrigðiskerfinu er raunveruleikinn dökkur – og í andstöðu við nýja stjórn er greining almennings réttust: Kerfið í heild er við þolmörk og þjónustustig víðast hvar ekki sæmandi. Ef greiningar tíu ráðherra eru með sama sniði og hjá forsætisráðherra er vonlítið að úrlausnir verði teknar í sátt.

Tvennt undir lokin, frú forseti. Við höfum aðeins 13 ár til að standa við Parísarsamkomulagið. Eftir er að útskýra hvað gera skal annað en búa til græna hvata, rækta skóg, auka landgræðslu og hafa orkuskipti í samgöngum – eins og fram kom áðan. Verkefnin eru margfalt fleiri, kosta milljarða og þarfnast mikillar samvinnu – en einnig vandaðra markmiða í öllum geirum umhverfismála. Þarna fer mikilvægasta mál jarðarbúa til langs tíma litið og um það hefði hæstvirtur Bjarni Benediktsson átt að fjölyrða. Í öðru lagi sneiðir ráðherrann og stjórn hans framhjá flest öllu sem horft getur til stjórnunar á viðbrögðum við fjölgun ferðamanna og frumskógarlögmálum sem ríkja enn um of í greininni, þrátt fyrir framfarir. Þolmörk staða, svæða og landsins alls – ef sjálfbærni, náttúruleg, félagsleg og hagræn, á að ríkja – kalla á umræðu og ákvarðanir sem virðast rýrar í meira lagi í stjórnarsáttmálanum. Auðlindastjórnun nær auðvitað til stærsta atvinnuvegarins.

100 ára fullveldi örþjóðar í stóru en gjöfulu landi, er merkileg tilraun og afrek að mörgu leyti. Á sömu öld jókst jöfnuður, fyrst og fremst vegna baráttu launamanna, lengi framan af. En í þrjá til fjóra áratugi hefur ójöfnuður aukist og velferðin trosnað um of – slík sýn er gjörólík sýn háttvirts forsætisráðherra og þeirra flokka sem mynda ríkisstjórnina. Það er kjarni máls. Um hann og leiðir til annars konar samfélags en þeirra óskir ná til – mun samtal okkar hér á þingi snúast, átök jafnt sem samvinna – og það á líka við um þjóðfélagið allt.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur

Ræða Katrínar Jakobsdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

 

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.

 

Ég vil byrja á því að taka undir með hæstvirtum forsætisráðherra um þann samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt að undanförnu eftir að ung kona var svipt framtíð sinni með óhugnanlegum hætti. Við skulum öll standa saman gegn ofbeldi og tryggja að unga fólkið okkar fái að eiga framtíð sína í friði.

 

Víða eru blikur á lofti í heiminum, víða er ófriðlegt og víða hafa kosningaúrslit komið mörgum í opna skjöldu. Þau endurspegla vaxandi gjá milli ólíkra hópa í samfélögum vestan hafs og austan og sýna að hægt er að bregðast við með ólíkum hætti.

 

Stjórnmálamenn geta nefnilega gert hvorttveggja. Þeir geta byggt múra eða þeir geta byggt brýr. Ég segi að við eigum að byggja brýr. En til þess þarf að takast á við hin raunverulegu stóru verkefni:
Þau eru að tryggja jöfnuð og þar með félagslegan stöðugleika. Þau eru að tryggja raunverulegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar.

Þau eru að undirbúa vinnumarkaðinn á Íslandi til að takast á við tækniþróun sem getur gerbreytt honum hér eins og annars staðar.

Öll kalla þessi verkefni á raunverulegar kerfisbreytingar.

 

Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við er ekki ríkisstjórn utan um slíkar breytingar. Það segir sína sögu að hæstvirtur forsætisráðherra ákvað að vitna í Tómas Guðmundsson og kvæði hans frá fjórða áratug síðustu aldar. Stjórnarsáttmálinn er í besta 1920-stíl og undirritaður af þremur karlmönnum þrátt fyrir batnandi kynjahlutföll á þingi.

 

Valdamisrétti kynjanna birtist nefnilega ekki aðeins í hausatalningu á þingmönnum heldur líka því hvar konur eru í forystu.

Kynning fjármálaráðherra á ríkisfjármálastefnu nýrrar stjórnar er sömuleiðis íhaldssöm. Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við boðar nefnilega íhaldssama stefnu – sem má kalla jafnvægi en líka kyrrstöðu

 

Ætlunin er að fresta nauðsynlegri eflingu velferðar- og menntakerfis. Það á ekki að byggja meira upp en rúmast innan hagsveiflunnar. Það má alls ekki afla tekna til að byggja upp aðþrengt velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Hæstvirtur forsætisráðherra kvittar undir þetta í ræðu sinni hér: Fjármagnið er af of skornum skammti. Hins vegar, segir ráðherrann, þarf að gera eitthvað í þeim hughrifum að samfélagssáttmálinn um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið.
Hughrifin, ágætu landsmenn, birtast líklega í undirskriftum 86 þúsund Íslendinga sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála. Hughrifin birtast í því að greiðsluþátttaka sjúklinga er umtalsvert meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma og fjármuni skortir til að tryggja mönnun og viðunandi aðstæður. Og ætli það skapi ekki líka ákveðin hughrif að í tíð núverandi hæstvirts forsætisráðherra í fjármálaráðuneytinu lækkaði skattbyrðin á tekjuhæstu hópana en þyngdist á aðra hópa. Þetta myndu sumir reyndar kalla staðreyndir fremur en hughrif.

 

Virðulegi forseti.

 

Íslendingar vita að betur hefur árað í efnahagslífinu að undanförnu og margir hafa það betra nú en fyrir nokkrum árum. Slík staða skapar í senn sóknarfæri en felur líka í sér margar áskoranir, eins og forsætisráðherra sagði réttilega. En stjórnun efnahagsmála snýst ekki aðeins um þá áskorun að viðhalda góðu ástandi.

 

Hún snýst líka um að móta stefnu til framtíðar þannig að við hlúum að okkar atvinnugreinum og tryggjum að þar sé skýr sýn en ekki togað í ólíkar áttir. Það er áskorun að vinna með stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustunni, tryggja tekjustofna til uppbyggingar innviða og stefna að umhverfisvænni ferðaþjónustu sem uppfyllir metnaðarfull loftslagsmarkmið og byggir á vernd einstakrar náttúru.

 

En það er líka hægt að bíða bara og sjá, leyfa landeigendum að innheimta alls kyns gjöld þvert á náttúruverndarlög og bíða eftir að tröllin komi þrammandi niður úr fjöllunum, öll sem eitt, og sæki framlág um störf í ferðamannaiðnaðinum, svo að vitnað sé í skáld frá 21. öldinni.

 

Það er áskorun að tryggja að efnahagsbatinn skili sér til allra hópa en ekki aðeins ríkustu hópanna í samfélaginu — þó að stuðningur við ríkisstjórnina sé mestur í þeim hópum. Það er áskorun að tryggja lýðræði í stað auðræðis. Og það er full ástæða til að leiðrétta stöðu tekjulægstu hópanna, ekki síst eftir að síðasta ríkisstjórn ákvað að gefa tekjuhæstu hópunum milljarðatugi úr ríkissjóði – á sama tíma og kannanir sýna okkur að sex þúsund börn teljast búa við efnislegan skort í okkar ríka samfélagi.

 

Til að tryggja jöfnuð og félagslegan stöðugleika, þarf vissulega að ráðast í kerfisbreytingar; skattleggja fjármagnið og létta skattbyrðinni af tekjulægstu hópunum. Þar væri hægt að byrja á sjúklingasköttunum sem eru hærri hér en annars staðar. Um leið væri hægt að afla aukinna tekna af þeim sem mest hafa á milli handanna.

 

Ef aðhald er sett á útgjöld í velferðarmálum í stað þess að hækka skatta á auðmenn er í raun verið að hækka álögur á venjulegt fólk fremur en þá ríkustu. Því það er í velferðina sem venjulegt fólk sækir sín verðmæti. Og ímyndum okkur ekki að hér sé ekki misskipting eins og annars staðar í hinum vestræna heimi.

 

Hér eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs samkvæmt tölum frá 2012 — og ekki er ólíklegt að skattalækkanir og leiðréttingar síðustu þriggja ára hafi aukið enn á þá misskiptingu. Ekki lítur út fyrir breytingar á því sviði. Hér er boðað að staðinn verði vörður um þennan ójöfnuð.

 

Félagslegur stöðugleiki mun líka skipta miklu ef við ætlum að takast á við þær tæknibreytingar sem munu á næstu árum og áratugum gerbreyta vinnumarkaðnum eins og við þekkjum hann. Og þar þarf að hafa í huga réttindi launafólks, aukna menntun og bætt kjör.

 

Það kallar á aukna fjárfestingu í menntun – þannig að við náum að standa undir okkar eigin samþykktu stefnu um að fjárframlög til háskólanna nái OECD-meðaltalinu og í framhaldinu meðaltali Norðurlandanna, þannig að framhaldsskólarnir okkar geti opnað dyr sínar fyrir öllum aldurshópum og tryggt fjölbreytt nám sem mætir þörfum nemenda en er ekki rígbundið niður í einingafjölda eins og ákveðið var á síðasta kjörtímabili. Þarna eru ekki heldur boðaðar miklar breytingar nema þá helst rætt um fjölbreytt rekstrarform sem þýðir á mannamáli aukinn einkarekstur og útvistun sem enginn áhugi er á meðal almennings en þeim mun meira meðal forkólfa Samtaka atvinnulífsins og þessarar ríkisstjórnar Samtaka atvinnulífsins.

 

Ég leyfi mér þó að lýsa stuðningi við nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur sagt að ekki verði sett lög á verkfall sjómanna enda muni slík ráðstöfun ekki vera líklega til að skapa sátt um greinina – ég er hjartanlega sammála hæstvirtum ráðherra um það.
Og vonir eru bundnar við nýjan umhverfisráðherra sem hefur boðað aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Við treystum því að mjög fljótlega komi fram tímasett aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miði við hið minnsta 40% samdrátt í losun fyrir 2030 – væntanlega eiga markmið Íslands að vera metnaðarfyllri en sameiginlegt markmið ESB – og að ráðherra taki höndum saman við þingmenn Vinstri-grænna um að nýjum miðhálendisþjóðgarði verði komið á fót. Við þingmenn Vinstri-grænna munum styðja ráðherrann til allra góðra verka í þeim málaflokki.

 

En eins og við vitum öll þá mun þurfa kerfisbreytingar til að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum. Spurningin er hvort ríkisstjórnin sem virðist svo furðulega íhaldssöm mun komast í gegnum það því að í loftslagsmálunum þurfa öll ráðuneyti og allar stofnanir að vinna saman og þar mun mikið reyna á forystu ríkisstjórnarinnar.

 

Góðir landsmenn.
Kerfisbreytingar voru orð síðustu kosningabaráttu. Heilir flokkar voru stofnaðir um slíkar breytingar í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem og Evrópusambandsaðild. Þessir sömu flokkar eru mættir í ríkisstjórn sem fyrst og fremst mótast af stefnu Sjálfstæðisflokksins — allt á réttri leið sagði hann í síðustu kosningabaráttu og nánast endurprentar stefnuskrá sína í stjórnarsáttmálanum. Kerfisbreytingar bíða betri tíma.

 

Ekki er hægt að gera allt í einu, segir nýr fjármálaráðherra, enda er framtíðin löng. Manni kemur í hug frasinn Róm var ekki byggð á einum degi, sem ráðherrann í sjónvarpsþættinum Já ráðherra var vanur að grípa til eftir að hafa hlýtt á góð ráð embættismanna. Áður en hann varð ráðherra hafði hann einmitt verið ritstjóri blaðsins Reform (sem við getum þýtt sem ‘Kerfisbreytingar’).

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB sem sett var á dagskrá fyrir kosningar verður allt í einu að bíða eftir því að rykið setjist eftir Brexit. Skyndilega er Róm ekki byggð á einum degi og menn vitna í Tómas Guðmundsson í leit að innblæstri. Tómas Guðmundsson orti raunar fleira, til dæmis þetta: „Og satt er það að stundum hef ég þurft / á öllu mínu ístöðuleysi að halda“. Einhvern veginn komu mér þessi orð í hug þegar nýr stjórnarsáttmáli birtist eftir margra mánaða tal sumra stjórnarflokkanna um kerfisbreytingar. Nokkurn veginn kerfisbreytingalaus.

 

Góðir landsmenn.

 

Við, sem sitjum á Alþingi, erum öll fulltrúar almennings. Þess vegna er meginverkefni okkar að tryggja að allir í samfélaginu séu á sama báti og hafi tækifæri til að njóta alls þess sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Þannig stuðlum við að félagslegum stöðugleika, samkennd og bættum lífsgæðum.

 

Við þurfum hins vegar ríkisstjórn sem horfist í augu við framtíðina, þótt hún sé löng, og er reiðubúin til þess að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta lífskjör allra til framtíðar. Kerfum sem standa vörð um forréttindi þarf nefnilega að breyta, góðir landsmenn, og til þess þarf öðruvísi ríkisstjórn en þá sem nú hefur tekið við.

 

Eitt er þó það verkefni sem við ættum öll að geta sameinast um sem hér sitjum þó ekki séum við sammála um þetta. Og það er að byggja brýr.

 

Á hverjum degi hittum við brúarsmiði. Strætóstjórinn sem heilsar öllum og minnir mann á að öll njótum við virðingar í bílnum hans. Leikskólakennarinn sem leysir úr vanda ólíkra barna með ólíkan bakgrunn. Fólk sem hingað kemur frá öðrum löndum, jafnvel á flótta, en kennir okkur hér svo ótal margt og gerir líf okkar fjölbreyttara og betra. Þjóðarleiðtogar sem auka skilning milli ólíkra þjóða. Þingflokksformenn sem leysa hnúta en herða þá ekki. En við hittum líka þá sem smíða múra. Sem alltaf vilja loka sig inni og breyta engu. Og nú er það eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að leggja brúarsmiðunum lið óháð því hvar við stöndum í flokki. Ég vona að það geti í það minnsta orðið okkar sameiginlega verkefni.