Þorsteinn nýr á þingi

Þorsteinn V. Einarsson tók sæti á Alþingi í dag, í fjarveru Andrésar Inga Jónssonar. Er þetta í fyrsta sinn sem hann tekur sæti á þingi. Þorsteinn er 32 ára, fæddur 2. apríl 1985 á Selfossi, en alinn upp frá barnsaldri í Reykjavík – nánar tiltekið í Foldahverfinu í Grafarvogi. Þorsteinn er búsettur í Reykjavík, faðir Ólafs Ísaks (6 ára) og er í sambúð með Huldu Jónsdóttur Tölgyes. Þorsteinn útskrifaðist með stúdentspróf frá Borgarholtsskóla árið 2005 og með B.Ed í grunnskólakennarafræðum með kennsluréttindi árið 2010 frá Háskóla Íslands. Síðan í ársbyrjun 2006 hefur Þorsteinn starfað hjá félagsmiðstöðvunum í Reykjavík, ýmist sem frístundaleiðbeinandi, forstöðumaður og nú sem deildarstjóri unglingasviðs hjá Tjörninni frístundamiðstöð. Þorsteinn var í 7. sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum.
Við bjóðum Þorstein velkominn til starfa á þingi!

Jómfrúarræða Óla

Virðulegi forseti

Það er áhugavert að stíga inn á vettvang Alþingis nú þegar hyllir undir lok þingsins og rýna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar; sem má segja að sé meginafrakstur þessa þingvetrar. Hún virðist í einfaldri mynd ganga út á þrennt: samdrátt í ríkisrekstri, lágmarksfé í uppbyggingu innviða og því að létta skattbyrði af þeim efnaðari.

Þessari stefnu er svo ætlað að keyra áfram nútímalegt og blómlegt samfélag; byggt á nýsköpun og grænum atvinnuháttum.  (Í anda atvinnustefnu Vinstri grænna frá því fyrir um áratug).

En það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Nýsköpun kemur ekki uppúr engu. Sprotar fæðast ekki í fjársveltu menntakerfi.  Ferðaþjónusta þrífst illa á holóttum malarvegum, einfasa rafmagni og ótraustu netsambandi.  Þessir breyttu atvinnuhættir, og sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir, útheimtir einfaldlega verulega öflugri innviði og sterkari samrekstur.

Það er bleikur fíll í þessu líka:  Það er engin alvöru peningastefna til að jarðtengja fjármálaáætlunina. Engin sátt um það hvernig skuli ná stjórn á ofrisi krónunnar.  Það er svo komið að við Íslendingar erum orðin vön því að hugsa og reka okkur sjálf eins og Vogunarsjóðir, sem þrífast best í áhættu og óvissu.

Kjarni vandans birtist svo þegar þessir stóru gallar fjármálaáætlunarinnar leggjast allir saman á eitt;  Það myndast olía á eld ójöfnuðar. Óstöðugleiki og veik samneysla eykur ójöfnuð. Og það er ójöfnuðurinn sem er mesta áhyggjuefni stjórnmálanna um allan heim.   Með breikkandi bilinu fjölgar reiðum á öðrum endanum og firrtum á hinum endanum.

Og verst af öllu er svo að á endanum geta jaðrarnir náð saman; þannig að réttlát reiði þeirra sem of lítið hafa umbreytist í byr í segl þeirra firrtu.  Og þá geta myndast kjöraðstæður til að rækta pólitísk   skrímsli í skápum.  Sem alltof víða í alþjóðlegum stjórnmálum hafa verið að láta á sér kræla. Það vill held ég ekkert okkar fara þangað.

En við verðum þá að taka beygjuna þegar kemur að næstu gatnamótum.

Eldhúsdagsræða Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur

Virðulegi forseti – kæru landsmenn.

Er hægt að verðleggja hamingju og vellíðan? Þessi spurning leitar á hugann eftir langa umræðu um ríkisfjármálaáætlun hægri stjórnarinnar undanfarna daga. Er hægt að meta fjárhagslegt virði þess hvernig börnum okkar líður í skóla, eða foreldrum okkar á öldrunarstofnunum? Eigum við að nota einhverskonar reiknireglu til að segja okkur hvernig barni líður sem býr við þær aðstæður að geta ekki boðið í afmælisveislu eða hvernig eldri borgarar geti notið lífsins á öldrunarstofnunum eftir að hafa skilað samfélaginu ómældri vinnu í gegnum tíðina? Hvað með öryrkjana og láglaunafólkið sem getur vart framfleytt sér, á það rétt til mannsæmandi lífs? Unga fólkið sem getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið. Skiptir það einhverju máli? Auðvitað skiptir þetta allt máli og þess vegna höfum við Vinstri græn lagt fram tillögur til þess að koma til móts við það ákall sem komið hefur fram í samfélaginu og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar um að bæta kjör og byggja upp innviði, loforðum sem stjórnarflokkarnir eru nú á hröðum flótta frá en við viljum standa við. Því velferð og líðan snýst nefnilega ekki um prósentur, hagsveiflu eða niðurstöður exelskjals.

Okkar hlutverk hér á þingi er að standa vörð um jöfn tækifæri fólks, barna jafnt sem fullorðinna. Það eru mannréttindi sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja ekki síst gagnvart þeim sem standa höllum fæti, hafa verið beittir órétti eða einhverskonar mismunun.

Núverandi ríkisstjórn sýnir ekki í verki að hún leggi áherslu á jöfnuð en það kemur líklega ekki á óvart. Heilbrigðismálin, hvort sem um er að ræða stóru sjúkrahúsin eða lágmarksþjónustu á landsbyggðunum, samgöngumálin bæði á vegum og hið rándýra innanlandsflug, löggæslan, skólamálin allt er þetta vanfjármagnað enda er þetta hægri stjórn og hagar sér sem slík. Hinum efnameiri er áfram hlíft við skattgreiðslum og minna og minna fer í samneysluna.

Ísland er velmegunarsamfélag og það á að vera forgangsverkefni að auka jöfnuð meðal okkar og stuðla að jafnrétti. Að allir geti notið velferðarkerfisins, allir sem vilja geti sótt sér menntun, að allir hafi raunverulegt val til búsetu og þeir sem geta leggi jafnframt sitt af mörkum til þess að viðhalda því.

Við eigum ekki að taka því þegjandi þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, að ekki séu til peningar til að standa við kosningaloforðin og byggja upp innviðina og hlúa að þeim sem hafa það skítt í samfélaginu eða þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu af því fjárhagurinn leyfir það ekki.

 

Góðir landsmenn.

Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar er öllum augljós og ríkisfjármálaáætlun er ein af birtingarmyndum þess. Þar skila fulltrúar meirihlutans áliti sem frestar ákvarðanatökum um grundvallarramma fjármálanna fram til haustsins og reynt er að sópa ágreiningnum undir teppið. Þau standa ekki öll að baki forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem setja trúverðugleika sinn að veði með því að ætla ekki að kvika frá ákvörðuninni um hækkun virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna.

En um eitt er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sammála að auka einkavæðingu og minnka samneyslu. Saman leggja þau upp með að svelta hið opinbera kerfi og veikja til þess að rýmka fyrir „fjölbreyttum rekstrarformum“ eins og þeim er tíðrætt um. Ráðherra leynir fyrir þingnefndum fyrirhuguðum einkavæðingaráformum og hundsar samtal við þá sem málið snýst um. Það er í raun ógnvekjandi að ríkisstjórnin fái að starfa óáreitt í sumar því hver veit hvað verður búið að einkavæða í lok sumars.

 

Kæru landsmenn.

Við þurfum nýja ríkisstjórn í þessu landi sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem lafir á lyginni og er með slíka blekkingaleiki. Ríkisstjórn sem hangir saman valdsins vegna.

Ef raunverulegur vilji er til að byggja réttlátt samfélag þá sameinumst við um að setja velferð barna, elstu borgara landsins, öryrkja og þeirra sem standa höllum fæti í lífinu í forgang. Því segi ég það er afar brýnt að koma þessari hægri ríkisstjórn frá og til þess þurfum við, kæru landsmenn, að standa saman.

 

Eldhúsdagsræða Svandísar Svavarsdóttur

Forseti – góðir áhorfendur.

Það er ennþá stjórnarkreppa á Íslandi. Hjálparflokkar Sjálfstæðisflokksins eru í kreppu. Kjósendum þeirra og jafnvel þeim sjálfum er ljóst að þeir koma engu í gegn af stefnumálum sínum – engu. Þeir kusu að fara með Sjálfstæðisflokknum í stjórn frekar en að standa að myndun félagshyggjustjórnar sem hefði snúist um jöfnuð og réttlæti. Þeir lofuðu betra heilbrigðiskerfi, betra skólakerfi, að allt yrði betra. Ekkert fúsk, sagði  Björt framtíð.  En stjórnarhættirnir endurspegla allt annað, lítið fer fyrir forystu og samráði, vinnubrögðin eru fálmkennd og ákvarðanir illa rökstuddar. Átakanlegast var það þegar fjármálaráðherrann formaður Viðreisnar mælti fyrir tillögu að fjármálastefnu til nokkurra ára. Þá hlupust þingmenn Sjálfstæðisflokksins einn af öðrum undan merkjum og loks sjálfur forsætisráðherrann formaður Sjálfstæðisflokksins. Fjármálaráðherra sem ekki nýtur stuðnings forsætisráðherra er enginn fjármálaráðherra – hann er eitthvað allt annað og minnir helst á strandaglóp.

Það er því ennþá stjórnarkreppa. Það höfum við fengið staðfest aftur og aftur allt þetta þing sem svo litlu skilar. Hjálparflokkarnir fengu ekkert nema ráðherrastólana. Sjálfstæðisflokkurinn ræður því sem hann vill í þessu gæfulausa föruneyti, hann þurfti engu að fórna í samningum.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur í vetur eins og á síðasta kjörtímabili lagt áherslu á samstöðu og samvinnu allra stjórnarandstöðuflokkanna. Um leið höfum við haldið til haga stefnu flokksins í öllum málaflokkum. Við höfum gert kröfur um brýnar úrbætur í heilbrigðismálum og sýnt fram á hvernig unnt er að fjármagna þær. Við höfum lagt til lengingu fæðingarorlofs og hvernig hægt væri að fjármagna það. Við höfum flett ofan af skipulagðri aðför Sjálfstæðisflokksins að skólum og menningarstarfsemi og bent á leiðir til að hlúa að hvoru tveggja. Háskólana þarf að efla til að atvinnulíf fái blómstrað og við höfum lagt fram tillögur um úrbætur í samgöngumálum til að bregðast við stríðum og ört vaxandi straumi ferðamanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í ríkisstjórn landsins í fimm ár án þess að ná nokkrum tökum á þeim vanda. Sjálfstæðismenn ráða nefnilega ekki við að stýra samfélagi, innviðum og áskorunum í atvinnumálum svo að vel fari. Náttúrupassinn var þeirra uppgjafarfáni og verður viðvarandi áminning um getuleysi þeirra á breytingatímum. Sanngjarnir skattar – lykillinn að siðuðu samfélagi – eru verkefni sem þeir ráða ekki við og geta ekki leyst. Ójöfnuður eykst og brýnustu úrlausnarefni bíða. Við getum talið upp hvern málaflokkinn á fætur öðrum; við getum nefnt þá alla, hvarvetna blasir við kjarkleysið og aðgerðarleysið. Jafnvel í  utanríkismálum eru framlög til þróunaraðstoðar til háborinnar skammar og ríkisstjórninni til háðungar.

Tillögur okkar Vinstri grænna eru skýrar, málefnalegar, ábyrgar og fjármagnaðar. Það er vegna þess að það eru til peningar í þjóðfélaginu – hjá þeim efnuðustu í samfélaginu og við höfum sýnt fram á leiðir til að sækja þá. Vinstri græn eru í sókn vegna þess að okkar sýn er skýr og trúverðug. Við leggjum líka mikla áherslu á öflugt og málefnalegt aðhald í þinginu. Við viljum berjast gegn sveltistefnu, hættulegum einkavæðingartilburðum og auknum ójöfnuði. Við viljum halda því til haga að ríkisstjórnin byggir á minnihluta atkvæða, er veik og hefur ekkert umboð til að standa fyrir grundvallarbreytingum á samfélaginu þvert á vilja almennings í landinu.

Björt framtíð og Viðreisn kusu að afhenda Sjálfstæðisflokknum miklu meira vald en hann á innistæðu fyrir. Eins og nú standa sakir er ljóst að Viðreisn fær engu sinna stefnumála framgengt, hún fær ekkert, ekki breytingar í landbúnaði, ekki sjávarútvegi, ekki í gjaldmiðilsmálum, ekkert. Allt stefnir í söguleg kosningasvik. Björt framtíð flaut svo inn á þing á síðustu stundu á fyrirheitum um annan búvörusamning. En hvað er orðið af því máli? Mér er spurn. Björt framtíð vill líka vel í umhverfismálum og notar eins og unnt er þau stjórntæki í umhverfismálum og náttúruvernd sem urðu til í vinstri stjórninni 2009–2013. Það er gott. En umhverfismálin snúast um meira en orð og stefnu. Áhersla á málaflokkinn ætti að endurspeglast í fjármálaáætlun en gerir það ekki, hvorki að því er varðar umhverfismálin almennt né mál málanna, loftslagsmálin.

Það er stjórnarkreppa. Best væri að kjósa aftur. Og það eru reyndar kosningar eftir eitt ár. Þá er tækifæri til að safna liði um meginmál stjórnmálanna. Undirbúningur kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 er hafinn og þar þurfum við öll sem viljum sjá félagshyggju í verki að leggjast á eitt.  Við þurfum að koma sterk út úr kosningunum að ári um land allt til að tryggja sveitarfélögunum örugga forystu og til losa  þjóðina út úr stjórnarkreppunni sem stendur enn. Stjórnarflokkarnir verða að fá rækilega áminningu í sveitarstjórnarkosningunum, allir með tölu, ef einhver í þeirra röðum sér ekki að sér fyrr. Það þarf ekki nema einn til að velta þessari stjórn.

Góðar stundir!

Eldhúsdagsræða Katrínar Jakobsdóttur

Virðulegi forseti, góðir landsmenn

Það skal viðurkennt að þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð í janúar síðastliðnum var það eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta var eins og kvöld á barnum þar sem menn hafa kannski vakað heldur lengi í von um enn meiri skemmtun seinna. En svo fóru ríkisstjórnarflokkarnir saman heim í eftirpartý sem hefur verið í ætt við önnur slík.. Þegar partýið loksins hefst hefur þreytan náð yfirhöndinni, enginn man lengur væntingarnar frá fyrr í kvöld, fólk syngur kannski þreytulega en ekki í takti, sumir eru svolítið fúlir með að hafa lent í þessu partýi en ekki einhverju öðru. Og húsráðandinn er ekki einu sinni heima.

Er þetta nú sanngjarnt, hugsa nú einhverjir, að minnsta kosti ráðherrarnir. En við verðum að meta þetta fyrsta misseri ríkisstjórnarinnar af verkum hennar og líka orðum forsvarsmanna hennar. Það voru ýmis stór mál á dagskrá fyrir kosningar. Viðreisn kom fram sem nýtt afl sem talaði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og róttækum breytingum á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Einhvern veginn tókst húsráðanda að tala Viðreisnarfólk inn á að geyma sitt stærsta mál þar til seinna – líklega þangað til að tími verður kominn til að hringja á leigubíl og fara heim.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar af alkunnugum töffaraskap sem við kunnum mörg að meta en hefur enn ekki náð neinu fram öðru en því að færa skrifstofuna vítt og breitt um landið sem er mikið tekið hjá nýrri stjórnmálaflokkum – hér áður fyrr hétu þetta heimsóknir.

Og umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar talar djarfmannlega um loftslagsmál en enn höfum við ekkert í höndum – annað en blaðamannafund þar sem hálf ríkisstjórnin tilkynnti að hún myndi vinna saman að aðgerðum í loftslagsmálum – og við sem héldum að þau hefðu sagt það í stjórnarsáttmála. Nema að núna er það ekki öll ríkisstjórnin sem vinnur saman að loftslagsmálum heldur aðeins hálf. Loftslagmálin þola enga bið og þar þarf skýra pólitíska sýn um kolefnishlutlaust Ísland.

Gjaldmiðlamálin sem voru aðalmál Viðreisnar og formanns hennar voru skyndilega komin í hendur húsráðandans sem færði Seðlabankann og endurskoðun peningastefnunnar yfir til sín og skrifaði í erindisbréfið til nefndarinnar sem á að endurskoða þá stefnu að öll yrði sú endurskoðun innan ramma krónunnar. Svolítið eins og maðurinn sem alltaf setur leiðinlegt lag á fóninn til að ganga frá eftirpartýinu. Og hvað gerir maður þá annað en að draga fram djörfustu flíkina sem maður finnur í fataskápnum og bjóða sig fram í næsta lausa embætti, í þessu tilviki embætti formanns Hollvinasamtaka MR. Verst að fjármálaráðherrann sem leggur fram meiri niðurskurðaráætlun en við höfum áður séð gagnvart framhaldsskólunum, skyldi ekki átta sig á því hversu óviðeigandi það var fyrr en framboðsfrestur var útrunninn.

Væntingarnar voru líklega ekki miklar en af meira en hundrað málum á málalista ríkisstjórnarinnar eru heimturnar ekki miklar heldur. Innleiðingar á EES-málum hafa verið áberandi í þingstörfum vetrarins og fá stórpólitísk mál sem hafa komið til þingsins sjálfs fyrir utan fjármálaáætlunina sjálfa. Félags- og jafnréttismálaráðherrann byrjaði á því að kynna jafnlaunavottun í Ameríku, átti sínar 15 mínútur af heimsfrægð og lét taka víkingaklappið fyrir sig. Talsvert seinna lagði ráðherrann málið fram hér í þinginu og hefur svo þrýst mjög á um að málið verði klárað – enda væri annað vandræðalegt – og það mun verða tekið til annarrar umræðu hér á morgun ásamt mjög nauðsynlegum lágmarkslagfæringum því þetta grundvallarmál Viðreisnar var undarlega illa undirbúið þegar hingað kom í þingið.

Ýmis góð mál komu seint og illa inn sem útskýrir af hverju þurfti að fresta frekari vinnu við þau til haustsins og má þar nefna ný lög um málefni fatlaðra og innleiðingu tilskipunar um keðjuábyrgð sem gengur reyndar mun skemmra en við Vinstri-græn teljum rétt og eðlilegt. Nýr forseti þingsins hefur hins vegar með verkum sínum sýnt að ekki dugir að vera of seinn. Hún hefur ákveðið að starfsáætlun þingsins verði fylgt og setur þar með mikilvægt fordæmi til næstu ára.

Stærsta mál ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar verið fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Og svo að ég skilji ekki alveg við myndlíkinguna frá upphafi hefur umræðan um hana einmitt verið eins og partý þar sem reykingamennirnir norpa heldur súrir úti á svölum, einhverjir eru að dansa við sænskt teknó í stofunni og enn aðrir eru á trúnó inni í eldhúsi. Eða í þessu tilviki segir einn að áætlunin sé nú bara lærdómsferli fremur en niðurstaða þar sem muni breytast. Annar segir að áætluninni verði ekki breytt nema því eina sem hann eða hún er ósammála. Og sá þriðji segir að áætluninni verði alls ekki breytt.

Og það má henda gaman að því að enginn er sammála í ríkisstjórninni. Og verum sanngjörn; það er ekki eins og þeir sjö flokkar sem nú skipa Alþingi Íslendinga séu endilega sammála um allt. En kannski er það einmitt vegna stóru átakalínanna sem eru að verða æ skýrari í íslenskum stjórnmálum og birtast svo ljóslega í fjármálaáætluninni. Því þó að deilt sé um fjármálaáætlunina í partýinu þá virðast gestirnir sammála um eitt: þá miklu hægristefnu sem hún boðar.

Því hverjar eru stóru línurnar í fjármálaáætluninni? Hún er römmuð inn í strangar fjármálareglur sem eiga rætur að rekja til nýfrjálshyggju þar sem öll áhersla er á lækkandi hlutfall samneyslunnar sem þýðir á mannamáli að draga úr þjónustu við almenning án sýnlegra markmiða eða ávinnings fyrir okkur sem myndum samfélagið hér á Íslandi.

Þingmenn og ráðherrar meirihlutans tala um að fleiri krónur renni til ýmissa málaflokka en þegar hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu er skoðað gerir áætlunin ráð fyrir að hún dragist saman – hún er fjarri því að mæta þeim væntingum sem gefnar voru fyrir síðustu kosningar. Og það kemur ekki á óvart þar sem áætlunin boðar enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins. Þetta er allt í anda sömu frjálshyggjukredduhugsunarinnar sem ber mikla ábyrgð á vaxandi ójöfnuði.

En hvað þurfum við að gera? Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig – ríkisstjórnin kannski? – en ef við viljum það ekki þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur og skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum. Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Og að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar.

Við þurfum að endurreisa velferðarkerfið. Það er okkar sameiginlega verkefni; að reka öflugt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar þurfa ekki að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á veikindi vegna of hárrar greiðsluþátttöku. Við þurfum ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi. Fólkið í landinu vill ekki slíkt kerfi, ítrekað hefur það komið fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill félagslega rekið heilbrigðiskerfi sem er vel fjármagnað. Og þetta fengu stjórnmálaflokkarnir allir skýr skilaboð um fyrir kosningar, til dæmis með undirskriftum 86.500 Íslendinga.

Við verðum að efla menntakerfið okkar, tryggja að það geti tekist á við þær miklu breytingar sem framundan eru og gera öllum kleift að sækja sér menntun óháð aldri. Við eigum að fjölga nemendum en ekki að fækka þeim eins og stefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir en hún er því miður algjörlega metnaðarlaus, nánast eins og menntamálin hafi gleymst á leiðinni í eftirpartýið. Það eina sem virðist skipta máli er að stytta tímann sem tekur að veita menntunina en ekki menntunin sjálf. Og auðvitað spyrjum við hvað hafi breyst frá síðustu fjármálaáætlun – þar sem menntamálaráðherrann var líka sjálfstæðismaður – þar sem gert var ráð fyrir að þeir fjármunir sem spöruðust við styttingu námsins skiluðu sér inn í kerfið. En frá síðustu samþykktu áætlun eru fjármunir til framhaldsskólanna skertir svo um munar, eða um 1.400 milljónir miðað við árið 2021. Hvað hefur breyst síðan í ágúst í fyrra? Er það tilkoma nýrra meðreiðarsveina Sjálfstæðisflokksins? Eða gafst ráðherra menntamála bara upp?Við eigum að tryggja viðunandi framfærslu – hvort sem við tölum um laun öryrkja og aldraðra, lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur. Það er algjörlega óviðunandi að á þeim tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu. Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu öryrkjar fá 288 þúsund króna mánaðarlaun árið 2022. Þetta er sýn ríkisstjórnarinnar á hvernig kjör þessa hóps eigi að vera. Og ekki ætlar hún að bæta kjör þessara hópa með auknum húsnæðisstuðningi sem skerðist ár frá ári í fjármálaáætluninni.

Eftirpartýin eru þreytt þegar þau hefjast. Þetta sem nú stendur yfir hófst mæðulega og mun ekki batna. Aðallega vegna þess að sameiningarþátturinn – límið sem heldur ríkisstjórninni saman – er sú hugmynd að árangurinn verði einungis mældur í því ef samneyslan minnkar og minnkar og minnkar.

Mér finnst aðkallandi raunveruleg hugarfarsbreyting um hvernig við rekum samfélag. Samfélag er ekki aðeins bókhald sem þarf að stemma af. Samfélag er undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum búa fólkinu okkar. Það er sáttmáli grundvallaður á réttlæti og sanngirni þannig að þeir sem mest hafa leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem hafa minna á milli handanna. Samfélag snýst um að tryggja öllum mannsæmandi kjör, tryggja öllum jöfn tækifæri. Munum að baráttunni fyrir réttlátu samfélagi lýkur aldrei – við getum gert svo miklu betur!

 

 

 

 

Óli Halldórsson á þingi í fyrsta sinn

Óli Halldórsson tók sæti í fyrsta sinn á Alþingi í dag, í fjarveru Steingríms J. Sigfússonar. Óli er 42 ára, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga og oddviti VG í sveitarstjórn Norðurþings, en hann gegnir  formennsku í byggðaráði sveitarfélagsins. Óli lauk BA-gráðu í heimspeki og meistaragráðu í umhverfisfræðum, hvoru tveggja frá Háskóla Íslands, með viðkomu í Middelsex University í London. Þá hefur hann einnig kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri.

Óli hefur búið og starfað á Húsavík undanfarin ár ásamt konu sinni Herdísi og fjórum börnum. Hann á ættir að rekja víða um norðausturhorn landsins, m.a. til Húsavíkur, Laxárdals og Vopnafjarðar. Óli ver vinnudeginum í að stýra Þekkingarneti Þingeyinga og góðum hluta þess sem eftir er í lesa Einar Áskel og skrúfa saman trampolín. Þegar færi gefst vill hann þó helst standa úti á Halldórsstaðaflóa í Laxá með flugustöngina eða ganga til rjúpna á þingeyskum heiðum. Nú eða þvælast innan eða utan lands með fjölskyldunni.

,

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

 

Þingflokkur VG harmar hið mikla mannfall sem orðið hefur í hræðilegum stríðsátökum í Sýrlandi, Írak og Jemen undanfarin misseri, nú siðast í loftárásum á borgina Idlib. Ljóst er að alþjóðalög um vernd almennra borgara á átakatímum eru þverbrotin af stríðsaðilum í þessum löndum, ekki síst með loftárásum sem fara ekki í manngreinarálit. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld að nýta hvert tækifæri til að koma á framfæri mótmælum sínum vegna mannfalls almennra borgara, þar á meðal barna, í þessum löndum og annars staðar. Sérstaklega fordæmir þingflokkurinn notkun efnavopna sem er skýlaust brot á alþjóðlegum sáttmálum en sterkar vísbendingar eru um að þeim hafi nú verið beitt í Sýrlandi.  Þingflokkur VG áréttar jafnframt þá skyldu Íslands að axla ábyrgð í því að veita þolendum stríðsátaka skjól og vernd. Í Miðausturlöndum verður ekki komið á friði með vopnavaldi, drápum og stigmögnun ofbeldis. Samningar eru alltaf rétta leiðin til að ná markmiðinu um frið og jafnvægi.

 

Hægt er að ná í fulltrúa VG í utanríkismálanefnd til viðtals um yfirlýsinguna. Þær eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, s. 824-6743 og Steinunn Þóra Árnadóttir s. 690-2592.

 

Bjarni Jónsson nýr á þingi

Bjarni Jónsson tók í gær sæti á Alþingi í gær, í fjarveru Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Er þetta í fyrsta sinn sem hann tekur sæti á Alþingi. Bjarni er ættaður af Ströndum og úr Húnavatnssýslum en ólst upp í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 15 ára aldurs er hann fluttist með fjölskyldu sinni að Hólum í Hjaltadal. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1986, BA-prófi í hagsögu og viðskiptafræði frá HÍ árið 1992 og meistaraprófi í fiskifræði frá Háskólanum í Oregon í Bandaríkjunum 1996. Bjarni hefur unnið margvísleg störf til sjávar og sveita. Hann starfaði m.a. sem forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og er nú forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Eiginkona Bjarna er Izati Zahra og búa þau á Sauðárkróki. Bjarni á tvö börn, og er nýbakaður faðir en þau hjónin eignuðust son 2. mars síðastliðinn.

Bjarni flutti jómfrúarræðu sína í gær, í sérstakri umræðu um áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða. Bjarni lagði áherslu á hlutverk sveitarfélaganna og rannsóknarstofnana á landsbyggðinni um eftirlit og rannsóknir þegar kemur að verndun og nýtingu haf- og strandsvæða.

Einnig ber að geta þess að Björn Valur Gíslason tók sæti í gær sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar, en Björn Valur hefur áður setið á þingi.

Yfirlýsing þingflokks vegna viðbragða íslenskra stjórnvalda við aðgerðum Bandaríkjaforseta

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir hvers kyns lokun landamæra og brot á ferðafrelsi gagnvart sérstökum trúarhópum frá tilteknum löndum og gagnvart flóttafólki frá Sýrlandi, líkt og forsetatilskipun Bandaríkjaforseta frá því á föstudag felur í sér. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld til að koma andmælum við ákvörðun Bandaríkjaforseta skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld með formlegum hætti og halda með því á lofti grundvallarvirðingu fyrir frelsi, lýðræði og mannréttindum.