,

Afkomutengd veiðigjöld

Meiri­hluti atvinnu­vega­nefndar Alþingis lagði í síð­ustu viku fram frum­varp um end­ur­út­reikn­ing veiði­gjalda.

Þrí­þættur til­gangur

Til­gangur frum­varps­ins er þrí­þætt­ur:

  • Í fyrsta lagi er frum­varpið lagt fram vegna þess að núver­andi lög renna út 31. ágúst og ef ekk­ert er að gert verða engin veiði­gjöld inn­heimt síð­ustu fjóra mán­uði árs­ins.
  • Í öðru lagi felur frum­varpið i sér þá breyt­ingu að í stað þess að afkomu­tengd veiði­gjöld mið­ist við afkomu sjáv­ar­út­vegs­ins þremur árum aftur í tím­ann þá verði þau miðuð við afkom­una árið á und­an.
  • Í þriðja lagi felur frum­varpið í sér að tekin verður upp skýr­ari afkomu­teng­ing, og afslættir fyrir litlar og með­al­stórar útgerð­ir. Hún byggir á nið­ur­stöðu veiði­gjalds­nefndar á grund­velli nýrrar úttektar á rekstri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja, en það er nefnd sér­fræð­inga sem var skipuð árið 2012 og er ætlað að hafa við­var­andi könnun á afkomu sjáv­ar­út­vegs.

Nýjar upp­lýs­ingar lagðar til grund­vallar

Þegar sér­stök veiði­gjöld voru lögð á af vinstri­st­jórn­inni árið 2012 var hugs­unin að þau yrðu afkomu­tengd. Um þessa afkomu­teng­ingu veiði­gjalda hefur verið góð sam­staða.

Frumvarpið sem nú hefur verið lagt fram byggir á nýjum úttektum og rann­sókn­um. Þar er veiga­mest úttekt á rekstri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja sem Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, þáver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra, og Páll Magn­ús­son, þáver­andi for­maður atvinnu­veg­ar­nefnd­ar, settu af stað í fyrra. Nið­ur­staða hennar var kynnt í mars á þessu ári og sýnir að tekjur í sjáv­ar­út­vegi hafi dreg­ist veru­lega sam­an. Það rímar við skýrslu Íslenska sjáv­ar­kla­s­ans frá í fyrra. Hagur veiða og vinnslu, sem Hag­stofan gefur út, sem sýnir einnig verri stöðu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja.

Sam­dráttur í sjáv­ar­út­vegi hefur verið umtals­verður und­an­farin ár og sjálf­stæðum atvinnu­rek­endum hefur fækkað í grein­inni. Á tólf árum, frá 2006, hefur þeim fækkað um 60%, sem er áhyggju­efni og merki um aukna sam­þjöppun í grein­inni. Á örfáum árum hefur gengi krón­unnar styrkst um tugi pró­senta sem aftur hefur áhrif á afkomu sjáv­ar­út­vegs­ins. Og þetta er mik­il­vægt atriði sem gleym­ist oft í umræð­unni. Versn­andi afkoma í sjáv­ar­út­vegi kemur verst niður á minni sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækjum og þess vegna er lögð sér­stök áhersla á það í frum­varp­inu að koma til móts við þau með sér­stökum afslátt­um.

Inn­heimt veiði­gjöld árs­ins 2017 voru 8,4 millj­arðar króna. Frum­varp um end­ur­út­reikn­ing gerir ráð fyrir því að inn­heimt veiði­gjöld árs­ins 2018 verði 8,6 millj­arðar króna, en að teknu til­liti til sér­staks afsláttar fyrir minni sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki verða þau 8,3 millj­arðar króna.

Mynd 1: Innheimt veiðigjöld 2005-2018. Myndin sýnir annars vegar veiðigjöld á verðlagi hvers árs og hins vegar á föstu verðlagi miðað við maí 2018. Tölurnar fyrir 2018 miðast við frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um endurútreikning veiðigjalda.

Mynd 1: Innheimt veiðigjöld 2005-2018. Myndin sýnir annars vegar veiðigjöld á verðlagi hvers árs og hins vegar á föstu verðlagi miðað við maí 2018. Tölurnar fyrir 2018 miðast við frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um endurútreikning veiðigjalda.

Frum­varpið nú þýðir 1,7 millj­arði króna lægri veiði­gjöld en gert var ráð fyrir í fjár­laga­frum­varp­inu sem sam­þykkt var fyrir sex mán­uð­um, en 1,3 millj­örðum hærri en gert er ráð fyrir í fjár­mála­á­ætlun sem kom fram í apr­íl.

Afkomu­tengd veiði­gjöld mið­ist við nýj­ustu upp­lýs­ingar

Veiði­gjöld hafa fram til þessa verið byggð á afkomu sjáv­ar­út­vegs­ins tvö til þrjú ár aftur í tím­ann. Frá árinu 2012 hefur það verið mark­miðið að færa þessa útreikn­inga nær raun­tíma enda er óheppi­legt að miða afkomu­tengd veiði­gjöld við afkomu nokkur ár aftur í tím­ann.

Sam­staða hefur ríkt um það í stjórn­mál­unum að mik­il­vægt sé að breyta þessu og færa útreikn­ing­inn eins nálægt raun­tíma og hægt er. Með frum­varp­inu er það lagt til. Slík breyt­ing mun þó alltaf og óhjá­kvæmi­lega fela í sér breyt­ingu á inn­heimtri upp­hæð. Þau sem vilja raun­tíma­út­reikn­ing, en enga lækk­un, verða því að svara því til hvort þau vilji bíða með kerf­is­breyt­ing­arnar þar til þannig árar að þær skili hækkun en ekki lækk­un. Og þá hvenær þau telja að af því verði. Það væri heið­ar­legt.

Fyrir mér eru mark­miðin skýr, þegar að sjáv­ar­út­vegi kem­ur. Ég vil sjálf­bæra umgengni um auð­lind­ina, sjálf­bæran rekst­ur, að sjáv­ar­út­vegur geti gegnt mik­il­vægu hlut­verki í atvinnu­lífi í byggðum lands­ins, að hann geti haldið áfram að þró­ast í átt til umhverf­is­vænni veiða og vinnslu með auknum fjár­fest­ingum og verið þannig hluti af aðgerðum okkar til kolefn­is­jöfn­un­ar. Á sama tíma vil ég sem hæst gjald til rík­is­sjóðs fyrir afnot af sam­eig­in­legri auð­lind þjóð­ar­inn­ar. Um þetta á umræðan að snúast, að mínu vitu; hvaða fyr­ir­komu­lag er best til að tryggja allt þetta.

Höf­undur er þing­maður Vinstri grænna og einn flutn­ings­manna frum­varps um breyt­ingar á veiði­gjöld­um.

,

Una Hildardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, flutti jómfrúrræðu sína á Alþingi 24 jan. 2018

Virðulegur forseti. Ég vil beina augum þingheims að stöðu samnings Evrópuráðsins um forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi sem undirritaður var í Istanbúl 2011. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta:
„Lagaumhverfi kynferðisbrota verður rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota. Istanbúl-samningurinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi verður fullgiltur.“
Ég fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að vinna að fullgildingu samningsins. Eftir #metoo-byltinguna kallaði almenningur eftir nauðsynlegum breytingum á lagaumhverfi kynferðisbrota og væri fullgilding samningsins stórt skref í þá átt.
Ofbeldi gegn konum, þar með talið heimilisofbeldi, er ein alvarlegasta tegund kynbundinna mannréttindabrota sem um getur og samfélagsmein hvar sem þess gætir. Istanbúl-samningurinn skuldbindur aðildarríkin til að gera ráðstafanir gegn ofbeldi gegn konum og er því mikilvægt að hann verði fullgiltur hér á Íslandi og þær breytingar gerðar á lögum sem fullgildingin krefst.
Samkvæmt svari ráðherra við skriflegri fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur til þáverandi innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, á 144. löggjafarþingi er greint frá lagabreytingum sem gera þurfi áður en unnt sé að fullgilda samninginn. Síðan segir, með leyfi forseta:
„Því má búast við því að fullgilda megi samninginn þegar fyrrgreind frumvörp ná fram að ganga. Stefnt er að framlagningu þeirra á haustþingi 2015.“
Enn hefur þessi mikilvægi samningur ekki hlotið fullgildingu en mikilvægt er að það gerist eins fljótt og unnt er og staðið verði við fyrirheit í stjórnarsáttmála þá sem málið varðar. Greinilegt er að málið er komið langt á leið miðað við svör þáverandi ráðherra árið 2015. En því er ekki lokið. Ég mun því á næstu dögum senda inn nýja fyrirspurn til ráðherra um stöðu málsins og vona að þingmenn fylgist með því að Istanbúl-samningurinn verði fullgiltur hið fyrsta.

Hægt er að horfa á ræðuna hér.

 

 

Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi í gærkvöldi.

Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi í gærkvöldi. Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi koma fram áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ýmis lykilverkefni sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Þar má einkum nefna fjármögnun heilbrigðiskerfisins, eflingu menntakerfisins og máltækniverkefni, útgjöld til samgöngumála og úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis.

Fjárlög voru samþykkt með tæpum 33 ma.kr. afgangi, eða um 1,2% af landsframleiðslu. 55,3 ma.kr. aukin fjárframlög voru samþykkt ef miðað er við fjárlög fyrra árs, en um er að ræða 19 ma.kr. aukningu frá því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Fjárlögin endurspegla sterka stöðu efnahagsmála með áformum um skuldalækkun ríkissjóðs á sama tíma og brugðist er við ákalli um auknar fjárveitingar í mikilvæga samfélagslega innviði.

Með samþykkt fjárlaga eru stigin fyrstu skrefin í langtímastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er megináhersla á að varðveita efnahagslegan stöðugleika, styrkja innviði s.s. samgöngur og heilbrigðiskerfið, renna stoðum undir samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og auka stuðning við menntun og nýsköpun.

Skýr langtímasýn í öllum málaflokkum ríkisstjórnarinnar mun síðan birtast í fjármálaáætlun sem lögð verður fram í vor.

Heildaraukning til heilbrigðismála frá síðustu fjárlögum er 22 ma.kr. sem skiptist m.a. þannig að til heilsugæslunnar rennur 2,3 ma.kr., í sjúkrahúsþjónustu 8,8 ma.kr., í lyf: 5,4 ma.kr. og í tannlækningar: 500 m.kr.

Aukning frá síðasta fjárlagafrumvarpi í heilbrigðismálum eru 8 ma.kr. og skiptist þannig að til sjúkrahúsþjónustu er veitt 3 ma.kr., í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa (þ.m.t. heilsugæsla) 1,3 ma.kr., í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu 360 m.kr., í lyf og lækningavörur 3 ma.kr. og í lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála fara 270 m.kr.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% og tekjuviðmiðunarmörk um 7,4%. Þannig munu greiðslur til einstæðs tveggja barna foreldris á lágmarkslaunum hækka um rúmlega 12% á ári. Frítekjumark fyrir aldraða verður þegar hækkað úr 25 þúsund kr. í 100 þúsund kr. um áramótin.

Aukning í menntamálum frá síðustu fjárlögum nemur 4,1 ma.kr. Af þeim fer 2,9 ma.kr. til háskólastigsins og 1,0 ma.kr. til framhaldsskólastigsins.

Til úrbóta í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis renna samtals 376 m.kr. til nokkurra málefnasviða, m.a. innan löggæslu, heilbrigðiskerfisins og réttarkerfisins.

Í eflingu Alþingis er veitt 22,5 m.kr. framlag til þess að styrkja löggjafar, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk þingsins. Aukið framlag til þingflokka nemur 20 m.kr.

Varðandi eflingu löggæslu er tímabundið 400 m.kr. framlag, sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs, gert varanlegt. Þá er veitt 298 m.kr. framlag til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlagið skiptist í 178 m.kr. framlag til að styrkja innviði lögreglu á sviði rannsóknar kynferðisbrotamála og í öllum þáttum málsmeðferðar, 80 m.kr. framlag til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið og 40 m.kr. tímabundið framlag til uppfærslu rannsóknarhugbúnaðar, upplýsinga og gæðastaðla lögreglu.

Framlag til héraðssaksóknara er aukið um 38 m.kr. sem ein fjölmargra aðgerða til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlaginu er ætlað að styrkja innviði embættisins til að bæta ákærumeðferð kynferðisbrota í samræmi við áherslur sem fram koma í aðgerðaáætluninni.

Framlag til aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins er aukið um 20 m.kr. til að styrkja framkvæmd aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og vinnu við fullgildingu Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Í samgöngumálum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hraða uppbyggingu í vegamálum þannig að á árinu 2018 verði 2,3 ma.kr. varið til viðbótar í framkvæmdir á vegum, þ.e. umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Um er að ræða sjö framkvæmdir sem snúa fyrst og fremst að umferðaröryggismálum en einnig aðgerðum til að greiða úr umferð og minnka tafir. Framlag til hafnaframkvæmda (hafnabótasjóðs) hækkar um 500 m.kr. frá gildandi fjárlögum.

Fjárheimild á sviði sjávarútvegsmála hækkar um 90 m.kr. vegna framlags til vöktunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum.

Aukið fjárframlag til umhverfismála, frá frumvarpinu sem lagt var fram í september sl., nemur 334 milljónum kr. Til náttúruverndar verður varið 296 m.kr. 260 m.kr. verður veitt í landsáætlun um uppbyggingu innviða og 36 m.kr. til friðlýsinga. Einnig var 150 m.kr. tímabundið framlag til þjóðgarðsmiðstöðar á Hellissandi framlengt. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 380 m.kr. og ófjármagnað af því eru um 180 m.kr.

Til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fara 18 m.kr. og 20 m.kr. í stofnun nýs loftslagsráðs.

Til mennta- og menningarmála verða veittar 290 m.kr. vegna sýningarhalds Náttúruminjasafns Íslands. Þá verða 250 m.kr. veittar vegna efniskostnaðar framhaldsskóla og 450 m.kr. til máltækniverkefnis til þess að stuðla að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

 

Fjárlög

 

,

Stefnuræða heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur á 148. löggjafarþingi 14. desember 2017

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við sögðumst ætla að styrkja innviðina. Við töldum að innviðirnir væru orðnir svo veikir að veruleg hætta stafaði af. Þess vegna erum við hér. Við teljum svo mikilvægt að laga heilbrigðiskerfið, samgöngurnar og menntakerfið að við tókumst það á hendur, við Vinstri græn, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, að efna til samstarfs við þá flokka sem við höfum gagnrýnt hvað mest og aldrei unnið með áður. Til þess þarf skýran pólitískan vilja, þrek og kjark. Við höfum það sem til þarf. Við höfum þann styrk og þann kjark. Við þorðum að taka frumkvæðið og grípa tækifærið.
Það er stundum talað um að við séum ekki að stuðla að kerfisbreytingum í þessari ríkisstjórn. Það er rangt. Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.
Við erum að gera við samfélagsinnviðina, virða samfélagssáttmálann, hefja aftur á loft þá sýn okkar flestra að enginn verði skilinn eftir og vinna samkvæmt því; gera við, breyta og bæta en líka byggja nýtt og byggja við í góðri samvinnu við fólkið sem best þekkir til og veit hvar þörfin er mest. Um leið erum við að leggja grunn að róttækri stefnu í loftslagsmálum og umhverfismálum. Við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, hlut aldraðra og öryrkja, skólana, tungutæknina og náttúruverndina. Við ætlum okkur að styrkja stöðu barnafólks, kvennastétta og brotaþola kynferðisbrota. Þetta eru mikilvægar samfélagsumbætur.
Við leggjum líka áherslu á siðareglur, gagnsæi og opnara samtal milli flokka út í samfélagið. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er stjórnmálahreyfing sem hefur kjark til að takast á við verkefnin, stjórnmálahreyfing sem er óhrædd, getur átt samstarf við aðra og leitt þann björgunarleiðangur fyrir íslenskt samfélag sem þjóðin þarf svo mjög á að halda. Við getum verið í forystu og við getum vísað veginn. Við erum að breyta.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill marka pólitísk kaflaskipti í þágu almennings á Íslandi fyrir umhverfið og náttúruna og fyrir menninguna. Við ætlum að ráðast gegn fátækt í landinu. Við viljum ráðast gegn ójöfnuði, auka samneyslu, draga úr greiðsluþátttöku þeirra sem veikast standa og byggja upp eins og við frekast getum innviði á öllum sviðum. Við viljum réttlátara samfélag.
Þetta eru stór markmið og við munum beita öllu okkar afli. Eitt af því sem við höfum lagt mikla áherslu á við stjórnarmyndunina er að treysta og byggja upp Alþingi. Eftir að hafa verið þingflokksformaður í stjórnarandstöðu í allnokkur ár er mér algerlega ljóst að stöðu þingsins þarf að efla, ekki síst eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma. Löggjafarhlutverkið þarf líka að styrkja, bæði fyrir stjórn og stjórnarandstöðu. Þessar áherslur rötuðu inn í stjórnarsáttmálann. Erum við ekki ánægð með það? Vonandi allir flokkar á þingi.
Erum við ekki ánægð með aukið fjármagn til heilbrigðismála? Erum Við ekki ánægð með aukið fjármagn til menntamála? Erum við ekki ánægð með aukna áherslu á umhverfisvernd og eflingu tungunnar? Erum við ekki ánægð með róttæka stefnu í loftslagsmálum þar sem við skipum okkur í sveit með framsæknustu þjóðum heims? Vonandi erum við ánægð með það.
Fyrir nokkrum árum misstum við Íslendingar mikinn baráttumann fyrir náttúruvernd. Guðmundur Páll Ólafsson var minnisstæður, öflugur og óþreytandi og eftir hann liggja margar bækur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að þekkja Guðmund og njóta leiðsagnar hans og vináttu um árabil, síðast þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra. Guðmundur Páll var kröfuharður liðsmaður. Þannig liðsmenn eru bestir, þeir sem gera miklar kröfur en styðja mann til góðra verka.
Ég hvet landsmenn alla til að vera kröfuharðir liðsmenn nýrrar ríkisstjórnar, halda okkur við efnið af festu. Þannig gengur okkur öllum best. — Góðar stundir.

,

Stefnuræða forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, á 148. löggjafarþingi, 14. desember 2017

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Við höfum lifað óvenjulega pólitíska tíma undanfarin ár og þessi árstími er óvenjulegur til að eiga umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Og vissulega er þessi ríkisstjórn þriggja flokka óvenjuleg að því leyti að þeir hafa aldrei starfað saman áður, allir þrír, að stjórn landsmálanna. Hún snýst um ákveðin lykilverkefni sem við öll metum svo mikilvæg fyrir fólkið í landinu að við teljum það forsendu fyrir svo breiðu samstarfi. Um leið endurspeglar stjórnin niðurstöður tvennra síðustu alþingiskosninga sem haldnar voru með skömmu millibili og skiluðu ekki afgerandi meiri hluta til hægri eða vinstri.

Sagt hefur verið að það sé auðvelt að dæma stjórnmálamenn út frá hugsjónum þeirra en mikilvægari dómur sé sá sem falli um þær málamiðlanir sem þeir gera. Málamiðlanir eru ekki í eðli sínu góðar eða slæmar. Og stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri en niðurstaðan þarf hins vegar að vera samfélaginu í heild til heilla. Markmið þessarar ríkisstjórnar er fyrst og fremst að koma til móts við ákall almennings um að sú hagsæld sem hér hefur verið á undanförnum árum skili sér í ríkari mæli til samfélagsins, fyrst og fremst til uppbyggingar heilbrigðis- og menntakerfis, en einnig hinna efnislegu innviða, þess sem við öll sem búum í þessu landi eigum saman.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar fjallar um leiðir til að ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika sem tryggir góð lífskjör til framtíðar fyrir venjulegt fólk. Hann ber vitni ágætri stöðu efnahagsmála en jafnframt þeim miklu viðfangsefnum sem blasa við í uppbyggingu samfélagsinnviða og þeirri félagslegu sátt sem þjóðin hefur kallað eftir. Megináherslur ríkisstjórnarinnar eins og þær birtast í stjórnarsáttmála eru sterkt samfélag, þróttmikið efnahagslíf, umhverfi og loftslag, nýsköpun og rannsóknir, jöfn tækifæri, lýðræði og gagnsæi og alþjóðamál.

Viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar snúast þó ekki einungis um þau lykilverkefni sem ég nefndi hér. Verkefni þeirra flokka sem skipa ríkisstjórnina, sem og allra annarra flokka á Alþingi, hlýtur að vera það að byggja upp traust á stjórnmálum og Alþingi. Nú er senn áratugur liðinn frá hruni, efnahagur landsins hefur vænkast en traust almennings á Alþingi og stofnunum samfélagsins er enn umtalsvert minna en fyrir áratug og það er alvarleg staða fyrir lýðræðið á Íslandi.

Ábyrgð stjórnarmeirihlutans hér er mikil. Ekki aðeins er mikilvægt að breyta umræðunni, heldur þarf að tryggja gagnsæi og traust. Þess vegna munum við leggja áherslu á að læra af reynslu undanfarinna ára og líta til alþjóðlegra viðmiða, t.d. þegar kemur að endurskoðun siðareglna og reglna um hagsmunaskráningu. Gott talsamband stjórnvalda og fjölmiðla er líka lykilþáttur í þessu verkefni og það er mikilvægt að við reynum að skapa samstöðu um það hvernig við leiðum mikilvæg mál til lykta. Ég nefni heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í því samhengi sem hefur verið eitt stærsta pólitíska þrætuepli undanfarinna ára.

Við megum aldrei gleyma því að orðið minister þýðir þjónn á latínu en ekki herra eins og innlend hefð er fyrir að láta okkur sem skipum ríkisstjórn heita. En traust á stjórnmálum og Alþingi getur aldrei einungis verið á ábyrgð meiri hlutans — það þekkjum við sem hvað lengstum tíma höfum eytt í stjórnarandstöðu á Alþingi — það er verkefni okkar allra, allra þingmanna á Alþingi Íslendinga.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin ætlar að gera betur í loftslagsmálum en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Það er frumskylda okkar að leggja mikinn metnað í þetta stærsta viðfangsefni mannkyns. Í sáttmálanum er kveðið á um fjöldamörg verkefni og úrbætur tengdar umhverfis- og loftslagsmálum og strax verður ráðist í að skipa loftslagsráð samkvæmt samþykkt Alþingis sem mun gegna lykilhlutverki við að smíða vegvísi fyrir samfélagið inn í kolefnishlutlausa framtíð.

Loftslagsmálin krefjast samstarfs allra; stjórnvalda, atvinnulífs og almennings. Grundvallaratriðið þar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum geirum samfélagsins en líka að nýta endurheimt vistkerfa, þar með talið votlendis og skóga, til kolefnisbindingar og nýta tæknina til að styðja við þessi markmið.

Mótun langtímaorkustefnu er annar lykilþáttur í loftslagsmálum en tengist líka náttúruvernd þar sem miklu skiptir við orkunýtingu framtíðar að stjórnvöld hafi sýn á það hvernig eigi að nýta þá orku sem við virkjum. Ný ríkisstjórn leggur áherslu á miðhálendisþjóðgarð og friðlýsingar þeirra svæða sem þegar hefur verið skipað í verndarflokk rammaáætlunar. Við erum á leið inn í nýja tíma í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Ótrúlegar breytingar hafa orðið til góðs á viðhorfum manna á undanförnum áratug og þær breytingar mátti skýrt skynja á fundi þjóðarleiðtoga í París fyrr í þessari viku þar sem gjörla mátti sjá að þjóðir heimsins eru farnar að forgangsraða loftslagsmálunum efst á sína dagskrá.

Kæru landsmenn. Gerður Kristný orti svo um kinnhestinn sem Gunnar rak Hallgerði:

Þögnin svo römm

að hún umlukti

allar sem á eftir komu.

 

Þær sem reyndu að

rjúfa hana

fundu vangann

loga af skömm.

Bylting kvenna á samfélagsmiðlum undanfarin misseri rýfur aldalanga þögn. Þar erum við hvergi nærri komin á endastöð. Langtímaverkefnið snýst um að breyta viðteknum skoðunum sem hafa viðhaldið lakari stöðu kvenna um aldir. Eitt kjörtímabil verður bara örstutt spor á þeirri vegferð.

Og það er við hæfi að minnast þess að í dag er fæðingardagur Ingibjargar H. Bjarnason, fyrstu konunnar sem var kjörin á þing, árið 1922, og styttan af henni hérna fyrir utan minnir okkur á hve mikilvæg þessi barátta hefur verið og hve langan tíma hún hefur tekið, að ná jöfnum rétti kynjanna.

Bráðaverkefnið í þessum málum verður aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota þar sem styrktir verða innviðir réttarvörslukerfisins og jafnframt verður lagaumhverfi kynferðisbrota rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda. Lögð verður áhersla á fræðslu og forvarnir og bættar aðstæður til að styðja brotaþola um land allt innan heilbrigðiskerfisins.

En jafnrétti snýst auðvitað um margt fleira. Sáttmáli ríkisstjórnarinnar leggur ríka áherslu á jöfn tækifæri — Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla og það kallar á margvíslegar aðgerðir sem lúta að því að berjast gegn launamun kynjanna, gera betur í málefnum hinsegin fólks, tryggja samfélagslega þátttöku allra og að efnahagur, búseta, aldur eða fötlun hindri fólk ekki í að nýta þau tækifæri sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða.

Síðast en ekki síst snýst jafnrétti um jöfn tækifæri ólíkra stétta. Þar verður ekki hjá því komist að endurskoða samfélagskerfið. Margir hafa bent á að langt sé á milli þeirra flokka sem skipa ríkisstjórnina í þeim efnum, ekki síst þegar kemur að jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Þær skattbreytingar sem eru lagðar til í upphafi kjörtímabils miða að því að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Áhersla þessarar ríkisstjórnar á að byggja upp samfélagslega innviði þjónar því markmiði að jafna kjör og aðstæður þeirra sem hér búa. Þá ætlar ríkisstjórnin einnig að taka málefni tekjulægstu hópanna föstum tökum, gera úttekt á stöðu þeirra og vinna að því að bæta hana, ekki síst þeirra barna sem búa við fátækt. Fátækt á einfaldlega ekki að vera til staðar í jafn ríku samfélagi og við eigum hér saman.

Kjarninn í sterku samfélagi er hinir samfélagslegu innviðir: heilbrigðisþjónusta, velferðarþjónusta, löggæsla og húsnæðismál sem veita öryggi og skjól, menntun, vísindi, menning, skapandi greinar og íþróttir sem auðga andann og byggja okkur upp sem samfélag og samgöngur, fjarskipti og byggðamál sem styrkja stoðir blómlegra byggða um land allt.

Á öllum þessum sviðum mun ríkisstjórnin kappkosta að skila betra búi en hún tók við.

Heilbrigðismálin eru þjóðinni eðlilega hugleikin. Það er eðlileg krafa að íslenska heilbrigðiskerfið standist samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu og mun ríkisstjórnin leggja áhersla á að draga úr kostnaði sjúklinga, bæta geðheilbrigðisþjónustu sérstaklega og forvarnir og byggja upp hjúkrunarrými. Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í dag er lögð sérstök áhersla á heilbrigðismál en nánari uppbygging hennar mun svo koma fram í þeirri fjármálaáætlun sem verður lögð fyrir þingið í lok mars á næsta ári.

Í menntamálum verður ráðist í stórsókn. Fjárframlög til háskóla munu ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og stefnt verður að því að þau nái meðaltali Norðurlandanna fyrir árið 2025. Iðn-, verk- og starfsnám verður eflt og rekstur framhaldsskólanna styrktur í takt við það sem þeim var lofað í fjármálaáætlun þarsíðustu ríkisstjórnar. Aðgerðaáætlun um máltækni verður fjármögnuð sem er alveg gríðarlega mikilvægt mál til að íslenskan geti orðið gjaldgeng í stafrænum heimi. Þar erum við beinlínis í kapphlaupi við tímann enda hafa tækniframfarir verið hraðar.

Efnahagslegur styrkur hlýtur ávallt að fara saman við félagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Ábyrg stjórn efnahagsmála er þannig lykilþáttur í að tryggja sjálfbært samfélag þar sem efnahagslíf, samfélagsþróun og umhverfismál eru í jafnvægi og ef við lítum til sögunnar hefur það jafnvægi oft verið vandfundið hér á landi. Þó að fólkið í landinu hafi á undanförnum misserum notið aukins kaupmáttar, sterkara gengis og lágrar verðbólgu finna um leið útflutningsfyrirtækin fyrir lakari samkeppnisstöðu vegna launakostnaðar og gengisþróunar. Því er mikilvægt til lengri tíma að treysta undirstöður í ríkisfjármálum, m.a. með stofnun Þjóðarsjóðs um arðinn af orkuauðlindum. Til framtíðar kunna fleiri auðlindir að bætast í þann sjóð.

Þróttmikið efnahagslíf byggist á fjölbreyttu atvinnulífi þar sem áhersla er lögð á aukna þekkingu og verðmætasköpun og sjálfbæra þróun. Undirstöðurnar þurfa að vera traustar; sjálfbær sjávarútvegur og ferðaþjónusta, umhverfisvænn landbúnaður, traust og heilbrigt fjármálakerfi og öflugt rannsókna- og nýsköpunarstarf. Þróttmikið efnahagslíf er nauðsynlegt til að samfélagið geti búið sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum en í framtíðinni mun velmegun á Íslandi grundvallast á hugviti, sköpun og þekkingu.

Ég hef nú á fyrstu dögum mínum sem forsætisráðherra hitt forystumenn heildarsamtaka á vinnumarkaði en farsælt samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er forsenda þess að hægt sé að byggja hér upp félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Komandi kjarasamningar munu ráða miklu um efnahagslega þróun komandi missera og ára og þar leggja stjórnvöld áherslu á að tryggja efnahagslegan stöðugleika en ásamt því sé mikilvægt að treysta hinar félagslegu stoðir og vinna með sem flestum að ábyrgum vinnumarkaði þar sem úrbóta er þörf til að tryggja og verja og efla réttindi launafólks í landinu, réttindi vinnandi fólks í þessu landi. Það er mikilvægt að endurskoða húsnæðisstuðning hins opinbera og leggja línur að framtíðarsýn í þeim efnum þannig að hann nýtist sem best, ekki síst ungu fólki og tekjulágu. Stefnt er að því að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur og sömuleiðis er til skoðunar að lækka lægra skattþrep tekjuskattskerfisins við komandi kjarasamningagerð til að bæta kjörin í landinu.

Ég legg áherslu á að unnið verði hratt að því í samstarfi við heildarsamtök örorkulífeyrisþega að endurskoða þann hluta almannatryggingakerfisins sem lýtur að þeim til að tryggja mannsæmandi kjör og hvetja til samfélagsþátttöku öryrkja. Frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra verður hækkað strax á næsta ári en þetta var ein af lykilkröfum aldraðra fyrir kosningar og þá verður dregið úr kostnaði aldraðra og örorkulífeyrisþega við tannlækningar strax á næsta ári sem er mál sem lengi hefur verið beðið eftir og mikið kallað eftir í þessum sal.

Í alþjóðamálum eru blikur á lofti. Það var dapurlegt á dögunum að sjá forseta Bandaríkjanna lýsa því yfir að Bandaríkin teldu Jerúsalem nú höfuðborg Ísraels. Það mun gera það enn erfiðara að koma á friði á þessu svæði. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að tala fyrir friðsamlegum lausnum í deilu Palestínumanna og Ísraela og þar erum við sammála nágrannaþjóðum okkar. Við Íslendingar eigum að gera hvað við getum til að láta gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi sem herlaus þjóð og málflytjendur friðsamlegra lausna. Ríkisstjórnin hyggst gera betur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og móttöku flóttamanna sem hvort tveggja skiptir máli í hinu stóra samhengi til að stuðla að friðsamlegri heimi.

Kæru landsmenn. Ég hef hér í kvöld einbeitt mér að því sem ég tel, sem og ríkisstjórnin, að megi gera betur í samfélagi okkar en um leið er svo ótal margt sem gengur okkur í haginn. Í augum alþjóðasamfélagsins erum við að mörgu leyti fyrirmyndarþjóðfélag og við eigum að gleðjast yfir því þegar vel gengur. Hugur þjóðarinnar verður í Rússlandi næsta sumar þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun etja kappi við önnur bestu lið heims. Aldrei hefur fámennari þjóð átt lið á HM karla í knattspyrnu. Hver veit nema kvennalandsliðinu takist slíkt hið sama á HM í Frakklandi 2019? Og hver hefði átt von á því fyrir tíu árum? Ef það er eitthvað sem ég hef lært persónulega á þeim áratug sem ég hef setið á Alþingi er það það að maður veit sjaldnast hvað gerist næst. Það á bæði við um vinnudagana hér á þingi sem oft fela í sér óvæntar uppákomur en líka samfélagsþróunina almennt. Oft höfum við Íslendingar orðið fyrir óvæntum og þungum búsifjum en við höfum jafnan unnið okkur upp úr þeim. Hitt veit ég að ef framtíðarsýnin er skýr, ef allir leggjast á eitt, eru meiri möguleikar en minni á að ná góðum árangri. Ég el þá von í brjósti að í lok þessa kjörtímabils höfum við öll hér inni með verkum okkar aukið traust á stofnunum samfélagsins, ekki síst Alþingi Íslendinga. Þar mun skipta mestu að við náum betur að vinna saman að farsæld fjöldans.

Við Íslendingar munum fagna 100 ára fullveldi á næsta ári og þeim stórkostlegu framförum sem Íslendingar hafa náð á aðeins einni öld. Það er alveg ótrúlegt að kynna sér sögu fullveldisins þegar hugsað er til þess að hún hefur ekki varað lengur en eina mannsævi. Einn okkar landsmanna sem hefur lifað allan fullveldistímann, Stefán Þorleifsson, 101 árs, er sá sem ók fyrstur í gegnum Norðfjarðargöngin þegar þau voru vígð fyrir skömmu. Við það tækifæri sagði Stefán m.a.:

„Að hugsa um framtíðina, það eiga allir að gera. Það er skylda hvers manns að reyna að skilja þannig við þjóðfélagið að það sé gott fyrir þá sem taka við.“

Höfum þessi orð í huga, nú þegar við hefjum störf okkar á nýju kjörtímabili. — Góðar stundir.

,

Ávarp forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, við setningu Alþingis, 148. löggjafarþings 14. desember 2017

Háttvirtir alþingismenn. Ég vil þakka ykkur það traust sem þið hafið sýnt mér með því að kjósa mig til embættis forseta Alþingis. Ég mun gera mitt besta til að verða þess trausts verður og leggja mig fram sem forseti gagnvart öllum þingmönnum jafnt. Sá stuðningur sem ég fékk í kosningunni til embættisins er mér frekari hvatning í þeim efnum. Ég á mér þá ósk okkur til handa að hér takist sem best samstarf milli allra hv. alþingismanna og allra þingflokka um þau verkefni sem þjóðin hefur falið okkur í nýafstöðnum kosningum. Ég vænti einnig góðs samstarfs við hið ágæta starfsfólk Alþingis.

Ég býð alla alþingismenn velkomna til starfa á 148. löggjafarþingi. Sérstakar hamingjuóskir færi ég þeim alþingismönnum sem nú setjast á þing í fyrsta sinn og bið þeim velfarnaðar í störfum. Ég óska einnig þeim sem stíga nú sín fyrstu spor í ráðherraembættum allra heilla.

Það skyggir nokkuð á þessa þingsetningu að hlutur kvenna í þingmannahópnum hefur minnkað verulega. Konur skipa nú 38% þingheims en voru 48% eftir kosningarnar 2016 sem vissulega var þá besti árangur fram að því. Á einu ári féllum við úr fjórða sæti á heimsvísu niður í það sautjánda. Ég vona að þetta bakslag verði stjórnmálaflokkunum hvatning til að efla hlut kvenna á framboðslistum og skapa þeim skilyrði til stjórnmálaþátttöku enda enginn hörgull á efnilegum stjórnmálamönnum meðal kvenna um allt land.

Það er harla óvenjulegt að koma saman til þingsetningar í jólamánuðinum í annað skipti með ársmillibili en undanfarin ár hafa heldur ekki verið venjulegir tímar í okkar samfélagi. Það umrót og sá tilfinningahiti sem einkennt hefur stjórnmálin allt frá fjármálahruninu 2008 minnir um sumt á þá ólgu sem var í íslenskum stjórnmálum síðustu ár sjálfstæðisbaráttunnar á fyrstu áratugum 20. aldar. Eftir alþingiskosningarnar árið 1916, tveimur árum áður en Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki, voru þannig átta þingflokkar á Alþingi. Á þeim rúmu 100 árum sem liðin eru síðan hefur það þingflokkamet ekki verið jafnað fyrr en nú. Frá alþingiskosningunum 2009 hefur þingflokkum fjölgað um einn við hverjar kosningar, þeir urðu fimm árið 2009, sex árið 2013, sjö árið 2016 og loks átta á þessu ári.

Slíkum fjölda flokka á Alþingi fylgja bæði kostir og gallar. Alþingi endurspeglar vissulega betur þau pólitísku sjónarmið sem uppi eru í þjóðfélaginu en um leið er hætt við að erfiðlegar geti gengið að mynda starfhæfa ríkisstjórn nema flokkar sýni pólitískan sveigjanleika og beygi sig fyrir þeim þjóðarvilja sem úrslit kosninganna sýna. Hin margræða útkoma alþingiskosninganna hefur því leitt til þeirrar sögulegu niðurstöðu að mynduð hefur verið ríkisstjórn endanna á milli í íslenskum stjórnmálum sem ekki hefur gerst í rúm 70 ár. Héðan úr forsetastóli er nýrri ríkisstjórn óskað velfarnaðar í störfum.

Ég geri ráð fyrir að öllum þingheimi sé líkt farið og mér, að gleðjast fyrir hönd Alþingis yfir þeirri sérstöku áherslu sem lögð er á að efla Alþingi í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Ég veit ekki til þess að slík áhersla hafi áður komið fram, a.m.k. ekki með jafn miklum þunga og nú, og líklega aldrei verið hluti af heiti stjórnarsáttmálans en þar er tekið fram að hann sé sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Fyrir hönd Alþingis fagna ég því að styrkja eigi löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.

Sem starfandi forseti Alþingis fram að þingsetningu kom ég strax á framfæri tillögum um þetta efni til ríkisstjórnarinnar. Fyrstu skref í þessa átt verða stigin strax á næsta ári eins og sést í því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í dag. Aukinn fjárhagslegur stuðningur við Alþingi mun m.a. birtast í eflingu þeirrar þjónustu sem nefndasvið veitir þingnefndum, auk þess sem framlög til sérfræðiþjónustu við þingflokka verða aukin og staða þingflokka bætt með ráðningu aðstoðarmanna. Um nánari útfærslu á þessum fyrstu skrefum til eflingar þinginu sem tekin verða strax á næsta ári þurfum við að sjálfsögðu að eiga náið samstarf á vettvangi formanna þingflokka og í forsætisnefnd þegar hún hefur verið kosin.

Í þessari upptalningu hef ég þó ekki nefnt það atriði sem telja má hvað mikilvægast fyrir Alþingi, en það er áframhaldandi stuðningur við að brátt rísi á Alþingisreit skrifstofubygging sem leysi af hólmi það sumpart óhentuga leiguhúsnæði á tvist og bast hér í Kvosinni sem Alþingi hefur þurft að notast við um langt skeið. Það þarf ekki að segja þingmönnum hversu mikilvægt það er að hafa alla starfsemi Alþingis og vinnuaðstöðu þingmanna hér á reitnum þar sem húsnæði þess verður samtengt. Slík nútímaleg og sérhönnuð vinnuaðstaða er ekki lítill liður í því að styrkja Alþingi. Ég bind vonir við að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdir upp úr miðju næsta ári.

Sú umræða sem konur í fjölmörgum starfsgreinum, og þar á meðal innan stjórnmálanna, hafa fært upp á yfirborðið undir yfirskriftinni #metoo eða #ískuggavaldsins síðustu vikurnar um óviðeigandi hegðun, kynferðislega áreitni og yfir í hreint ofbeldi hefur engan látið ósnortinn. Sá ómenningarheimur sem við höfum fengið að sjá inn í, og þar eru stjórnmálin ekki undanskilin, kallar á viðbrögð. Mér barst í vikunni bréf, undirritað af tæplega 40 karlkyns þingmönnum og ráðherrum, þar sem viðbrögð eru reifuð og hafði ég reyndar áður átt fund með forsvarsmönnum karla innan þings sem strax tóku frumkvæði að viðbrögðum. Vilji er fyrir því að efna til sérstaks fundar meðal þingmanna snemma á næsta ári um þetta mál. Þá hef ég þegar falið lagaskrifstofu Alþingis að hefja undirbúning og skoðun á því hvernig best verður að taka á þessum málum á vettvangi þingsins, ekki síst með því að endurskoða siðareglur þingmanna þannig að þær taki með skýrum hætti til þess sem ekki telst við hæfi í þessum efnum.

Á næsta ári fögnum við Íslendingar því að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Af því tilefni er fyrirhugaður hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí nk., en þann dag fyrir einni öld var samningnum um fullveldi Íslands lokið og hann undirritaður hér í þessu húsi. Fundur á Þingvöllum undir beru lofti er sérstök upplifun og fremur sjaldgæfur atburður sem nær allir núverandi þingmenn munu þarna upplifa í fyrsta sinn og mögulega einhverjir í eina sinn á sínum þingferli. Þá er í höndum ríkisstjórnarinnar að standa fyrir hátíðahöldum 1. desember á næsta ári þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi.

Auk þessara tveggja meginviðburða afmælisársins hefur afmælisnefnd sem Alþingi kaus og framkvæmdastjóri hennar unnið að ýmsum viðburðum og verkefnum sem dreifast yfir afmælisárið og miða að því að þátttaka landsmanna verði sem víðtækust í þessum hátíðahöldum. Í þessu skyni hafa 100 verkefni verið styrkt um land allt en til viðbótar má búast við því að verkefnum og atburðum fjölgi á dagskránni eftir því sem kemur inn á afmælisárið sjálft.

Það eru því spennandi tímar fram undan, spennandi ár og spennandi dagar, háttvirtir alþingismenn. Okkar bíða ærin verkefni sem við höfum rétt um tíu virka daga til að leysa af hendi þannig að ríkinu hafi verið sett fjárlög og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir gerðar áður en nýja árið gengur í garð. Alþingi stóðst prófið við óvenjulegar aðstæður í desembermánuði fyrir ári og ég er sannfærður um að það muni gera það aftur nú. En til þess þarf gríðarmikla vinnu á skömmum tíma og góðan samstarfsvilja.

Að þessu sögðu ítreka ég þakkir mínar fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt. Mér þykir vænt um það, rétt eins og mér þykir vænt um þennan minn vinnustað í hartnær hálfan mannsaldur. Ég vænti góðrar samvinnu við þingheim allan um þau mikilvægu verkefni sem okkar bíða á næstunni og þá veit ég að starfsfólk Alþingis mun ekki láta sitt eftir liggja, en á því mun einnig mæða mikið næstu daga.

Þorsteinn nýr á þingi

Þorsteinn V. Einarsson tók sæti á Alþingi í dag, í fjarveru Andrésar Inga Jónssonar. Er þetta í fyrsta sinn sem hann tekur sæti á þingi. Þorsteinn er 32 ára, fæddur 2. apríl 1985 á Selfossi, en alinn upp frá barnsaldri í Reykjavík – nánar tiltekið í Foldahverfinu í Grafarvogi. Þorsteinn er búsettur í Reykjavík, faðir Ólafs Ísaks (6 ára) og er í sambúð með Huldu Jónsdóttur Tölgyes. Þorsteinn útskrifaðist með stúdentspróf frá Borgarholtsskóla árið 2005 og með B.Ed í grunnskólakennarafræðum með kennsluréttindi árið 2010 frá Háskóla Íslands. Síðan í ársbyrjun 2006 hefur Þorsteinn starfað hjá félagsmiðstöðvunum í Reykjavík, ýmist sem frístundaleiðbeinandi, forstöðumaður og nú sem deildarstjóri unglingasviðs hjá Tjörninni frístundamiðstöð. Þorsteinn var í 7. sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu kosningum.
Við bjóðum Þorstein velkominn til starfa á þingi!

Jómfrúarræða Óla

Virðulegi forseti

Það er áhugavert að stíga inn á vettvang Alþingis nú þegar hyllir undir lok þingsins og rýna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar; sem má segja að sé meginafrakstur þessa þingvetrar. Hún virðist í einfaldri mynd ganga út á þrennt: samdrátt í ríkisrekstri, lágmarksfé í uppbyggingu innviða og því að létta skattbyrði af þeim efnaðari.

Þessari stefnu er svo ætlað að keyra áfram nútímalegt og blómlegt samfélag; byggt á nýsköpun og grænum atvinnuháttum.  (Í anda atvinnustefnu Vinstri grænna frá því fyrir um áratug).

En það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Nýsköpun kemur ekki uppúr engu. Sprotar fæðast ekki í fjársveltu menntakerfi.  Ferðaþjónusta þrífst illa á holóttum malarvegum, einfasa rafmagni og ótraustu netsambandi.  Þessir breyttu atvinnuhættir, og sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir, útheimtir einfaldlega verulega öflugri innviði og sterkari samrekstur.

Það er bleikur fíll í þessu líka:  Það er engin alvöru peningastefna til að jarðtengja fjármálaáætlunina. Engin sátt um það hvernig skuli ná stjórn á ofrisi krónunnar.  Það er svo komið að við Íslendingar erum orðin vön því að hugsa og reka okkur sjálf eins og Vogunarsjóðir, sem þrífast best í áhættu og óvissu.

Kjarni vandans birtist svo þegar þessir stóru gallar fjármálaáætlunarinnar leggjast allir saman á eitt;  Það myndast olía á eld ójöfnuðar. Óstöðugleiki og veik samneysla eykur ójöfnuð. Og það er ójöfnuðurinn sem er mesta áhyggjuefni stjórnmálanna um allan heim.   Með breikkandi bilinu fjölgar reiðum á öðrum endanum og firrtum á hinum endanum.

Og verst af öllu er svo að á endanum geta jaðrarnir náð saman; þannig að réttlát reiði þeirra sem of lítið hafa umbreytist í byr í segl þeirra firrtu.  Og þá geta myndast kjöraðstæður til að rækta pólitísk   skrímsli í skápum.  Sem alltof víða í alþjóðlegum stjórnmálum hafa verið að láta á sér kræla. Það vill held ég ekkert okkar fara þangað.

En við verðum þá að taka beygjuna þegar kemur að næstu gatnamótum.

Eldhúsdagsræða Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur

Virðulegi forseti – kæru landsmenn.

Er hægt að verðleggja hamingju og vellíðan? Þessi spurning leitar á hugann eftir langa umræðu um ríkisfjármálaáætlun hægri stjórnarinnar undanfarna daga. Er hægt að meta fjárhagslegt virði þess hvernig börnum okkar líður í skóla, eða foreldrum okkar á öldrunarstofnunum? Eigum við að nota einhverskonar reiknireglu til að segja okkur hvernig barni líður sem býr við þær aðstæður að geta ekki boðið í afmælisveislu eða hvernig eldri borgarar geti notið lífsins á öldrunarstofnunum eftir að hafa skilað samfélaginu ómældri vinnu í gegnum tíðina? Hvað með öryrkjana og láglaunafólkið sem getur vart framfleytt sér, á það rétt til mannsæmandi lífs? Unga fólkið sem getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið. Skiptir það einhverju máli? Auðvitað skiptir þetta allt máli og þess vegna höfum við Vinstri græn lagt fram tillögur til þess að koma til móts við það ákall sem komið hefur fram í samfélaginu og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar um að bæta kjör og byggja upp innviði, loforðum sem stjórnarflokkarnir eru nú á hröðum flótta frá en við viljum standa við. Því velferð og líðan snýst nefnilega ekki um prósentur, hagsveiflu eða niðurstöður exelskjals.

Okkar hlutverk hér á þingi er að standa vörð um jöfn tækifæri fólks, barna jafnt sem fullorðinna. Það eru mannréttindi sem við höfum skuldbundið okkur til að framfylgja ekki síst gagnvart þeim sem standa höllum fæti, hafa verið beittir órétti eða einhverskonar mismunun.

Núverandi ríkisstjórn sýnir ekki í verki að hún leggi áherslu á jöfnuð en það kemur líklega ekki á óvart. Heilbrigðismálin, hvort sem um er að ræða stóru sjúkrahúsin eða lágmarksþjónustu á landsbyggðunum, samgöngumálin bæði á vegum og hið rándýra innanlandsflug, löggæslan, skólamálin allt er þetta vanfjármagnað enda er þetta hægri stjórn og hagar sér sem slík. Hinum efnameiri er áfram hlíft við skattgreiðslum og minna og minna fer í samneysluna.

Ísland er velmegunarsamfélag og það á að vera forgangsverkefni að auka jöfnuð meðal okkar og stuðla að jafnrétti. Að allir geti notið velferðarkerfisins, allir sem vilja geti sótt sér menntun, að allir hafi raunverulegt val til búsetu og þeir sem geta leggi jafnframt sitt af mörkum til þess að viðhalda því.

Við eigum ekki að taka því þegjandi þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, að ekki séu til peningar til að standa við kosningaloforðin og byggja upp innviðina og hlúa að þeim sem hafa það skítt í samfélaginu eða þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu af því fjárhagurinn leyfir það ekki.

 

Góðir landsmenn.

Ágreiningurinn innan ríkisstjórnarinnar er öllum augljós og ríkisfjármálaáætlun er ein af birtingarmyndum þess. Þar skila fulltrúar meirihlutans áliti sem frestar ákvarðanatökum um grundvallarramma fjármálanna fram til haustsins og reynt er að sópa ágreiningnum undir teppið. Þau standa ekki öll að baki forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem setja trúverðugleika sinn að veði með því að ætla ekki að kvika frá ákvörðuninni um hækkun virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna.

En um eitt er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sammála að auka einkavæðingu og minnka samneyslu. Saman leggja þau upp með að svelta hið opinbera kerfi og veikja til þess að rýmka fyrir „fjölbreyttum rekstrarformum“ eins og þeim er tíðrætt um. Ráðherra leynir fyrir þingnefndum fyrirhuguðum einkavæðingaráformum og hundsar samtal við þá sem málið snýst um. Það er í raun ógnvekjandi að ríkisstjórnin fái að starfa óáreitt í sumar því hver veit hvað verður búið að einkavæða í lok sumars.

 

Kæru landsmenn.

Við þurfum nýja ríkisstjórn í þessu landi sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem lafir á lyginni og er með slíka blekkingaleiki. Ríkisstjórn sem hangir saman valdsins vegna.

Ef raunverulegur vilji er til að byggja réttlátt samfélag þá sameinumst við um að setja velferð barna, elstu borgara landsins, öryrkja og þeirra sem standa höllum fæti í lífinu í forgang. Því segi ég það er afar brýnt að koma þessari hægri ríkisstjórn frá og til þess þurfum við, kæru landsmenn, að standa saman.