Forsætisráðherra lofar árangur vinstristjórnar

Steingrímur Sigfússon þingmaður Vinstri grænna þakkaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra fyrir þau lofsamlegu orð sem hann viðhafði um efnahagsbatann á Íslandi undanfarin misseri á Alþingi í gær. Steingrímur sagði orð forsætisráðherra og nýjar tölur frá Hagstofunni og fjármálaráðuneytinu staðfesta góðan árangur vinstristjórnarinnar við stjórn efnahagsmála undanfarin ár.

„Þar var allt rétt sagt hjá hæstvirtum forsætisráðherra, en kom kannski úr óvæntri átt miðað við málflutning ráðherrans bæði fyrir og eftir kosningar,“ sagði Steingrímur. Hann sagði nýjar tölur Hagstofunnar sýna 3,3% hagvöxt á síðasta ári og 2,5% hagvöxt að meðaltali undanfarin þrjú ár. Þá sagði hann nýjar tölur frá fjármálaráðuneytinu benda til mun betri afkomu ríkissjóðs árið 2013 en gert var ráð fyrir. „Afkoma á rekstrargrunni liggur auðvitað ekki fyrir en þó virðist stefna í að minnsta kosti fjögurra milljarða minni halla en fjáraukalög gerðu ráð fyrir hér fyrir tveimur mánuðum síðan,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Allt eru þetta ánægjulegar fréttir og staðfesta að efnahagsbatinn á Íslandi var á góðu róli og í raun mun betra en menn vildu viðurkenna bæði fyrir og eftir kosningar síðastliðið vor.“

Ráðherra tregur til svara

Katrínu Jakobsdóttur þingkonu Vinstri grænna gekk illa að fá svör frá Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra um málefni framhaldsskóla landsins á Alþingi í dag. Katrín spurði hann um kjaramál framhaldsskólakennara, boðaða stefnumótun ráðherrans og aðkomu kennara að henni.

Þrjár spurningar um menntapólitík

Katrín lýsti yfir áhyggjum af því að næstkomandi mánudag gæti skollið á verkfall framhaldsskólakennara sem hefur áhrif á hátt í tuttuguþúsund framhaldsskólanemendur. Hún sagði hún væri meðvituð um að menntamálaráðherra hefði ekki kjaraviðræðurnar á sínu forræði því vildi hún þess í stað spyrja hann þriggja spurninga er vörðuðu menntapólitík og tengdust kjaraviðræðunum.

„Menntamálaráðherra hefur sagt að í raun sé ekkert í boði umfram almennar launhækkanir á vinnumarkaði, nema framhaldsskólinn verði styttur með kerfisbreytingu,“ sagði Katrín og benti á að efir honum hafi verið haft „að hægt væri að nýta styttinguna til að búa til launahækkunarmöguleika“. Í framhaldi spurði Katrín Illuga, í fyrsta lagi, hvort „launahækkunarmöguleikinn“ fælist í því að fækka kennurum og hækka laun þeirra sem eftir sitja? Í öðru lagi spurði hún hvort hann telji framhaldsskólakennara hafa setið eftir í launaþróun miðað við aðra hópa með sambærilega menntun. Í þriðja lagi spurði Katrín hvort margboðuð stefnumótun ráðherrans í málefnum framhaldsskólans, svonefnd hvítbók, væri tilbúin og hvort fulltrúar Kennarasambandsins hefðu fengið að taka þátt í henni?

Engin eða óljós svör frá ráðherra

Illugi sagðist ekki gæta rætt kjarasamninga í þingsal en tók undir áhyggjur Katrínar af verkfalli. Spurningum hennar svaraði hann hins vegar ekki eða með óskýrum hætti. Katrín ítrekaði þá að hún hefði beðið Illuga um að ræða inntak kjarasamninga og sagði hann hafa komið sér algjörlega hjá því að svara spurningum sínum. „Þó að kjarasamningar séu ekki viðfangsefni hér á Alþingi þá er menntapólitík viðfangsefni. Lagabreytingar á framhaldsskólanum eru viðfangsefni. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að við fáum hér skýr svör frá hæstvirtum ráðherra,“ sagði hún.
Síðari svör Illuga voru litlu skýrari. Hann sagði hvítbókina vera skrifaða að starfsmönnum ráðuneytisins og að samráð færi fram eftir að hún hefur verið kynnt, en af því má ráða að ekkert samráð hafi farið fram við kennara.

Styrkveitingar verði rannsakaðar

Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna hefur farið fram á það við forsætisnefnd Alþingis að hún óski eftir rannsókn og skýrslu frá Ríkisendurskoðun um tæplega 200 milljóna króna styrkveitingum forsætisráðuneytisins til ýmissa verkefna. Óskin er borin fram fyrir hönd þingflokka Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Í nýlegum svörum forsætisráðuneytisins við tveim fyrirspurnum kemur fram að undir lok síðasta árs úthlutaði forsætisráðuneytið tæpum 200 milljónum króna til húsfriðunarverkefna, menningartengdra byggðarverkefna, fornleifaverkefna og atvinnuuppbyggingar. Svarið leiðir í ljós óljósa stjórnsýslu og ógagnsæi við úthlutun opinbers fjár og því telja þingflokkarnir tilefni til að óska eftir aðkomu Ríkisendurskoðunar að málinu.

Evrópumálin í sáttafarveg

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að Evrópumálin verði sett í sáttarfarveg.

Með tillögunni er:

  • Í fyrsta lagi lagt til að gert verði formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og ríkisstjórninni falið að gera Evrópusambandinu grein fyrir þeirri afstöðu.
  • Í öðru lagi er lagt til að aðildarviðræðum verði ekki haldið áfram eða þær teknar upp á nýjan leik, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að efnt verði til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins.

Tillagan er hugsuð sem framlag til að finna málinu ábyrgan og ásættanlegan farveg fyrir sem allra flesta, án tillits til efnislegrar afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Hún tryggir meðal annars að aðildarviðræður verða ekki viðfangsefni núverandi ríkisstjórnar en jafnframt að forystumenn hennar geti efnt loforð sín um aðkomu þjóðarinnar að ákvörðun um framhald málsins. Með því að stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu alþingiskosningar getur þjóðin veitt leiðsögn sína og stjórnmálahreyfingarnar tekið mið af henni við myndun næstu ríkisstjórnar. Þá er tillagan einnig til þess fallin að skapa festu og traust í samband Íslands við Evrópusambandið sem er einn mikilvægasti samstarfsaðili Íslands á alþjóðavettvangi.