Eldhúsdagsræða Katrínar Jakobsdóttur

Virðulegi forseti, góðir landsmenn

Það skal viðurkennt að þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð í janúar síðastliðnum var það eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta var eins og kvöld á barnum þar sem menn hafa kannski vakað heldur lengi í von um enn meiri skemmtun seinna. En svo fóru ríkisstjórnarflokkarnir saman heim í eftirpartý sem hefur verið í ætt við önnur slík.. Þegar partýið loksins hefst hefur þreytan náð yfirhöndinni, enginn man lengur væntingarnar frá fyrr í kvöld, fólk syngur kannski þreytulega en ekki í takti, sumir eru svolítið fúlir með að hafa lent í þessu partýi en ekki einhverju öðru. Og húsráðandinn er ekki einu sinni heima.

Er þetta nú sanngjarnt, hugsa nú einhverjir, að minnsta kosti ráðherrarnir. En við verðum að meta þetta fyrsta misseri ríkisstjórnarinnar af verkum hennar og líka orðum forsvarsmanna hennar. Það voru ýmis stór mál á dagskrá fyrir kosningar. Viðreisn kom fram sem nýtt afl sem talaði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og róttækum breytingum á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Einhvern veginn tókst húsráðanda að tala Viðreisnarfólk inn á að geyma sitt stærsta mál þar til seinna – líklega þangað til að tími verður kominn til að hringja á leigubíl og fara heim.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar af alkunnugum töffaraskap sem við kunnum mörg að meta en hefur enn ekki náð neinu fram öðru en því að færa skrifstofuna vítt og breitt um landið sem er mikið tekið hjá nýrri stjórnmálaflokkum – hér áður fyrr hétu þetta heimsóknir.

Og umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar talar djarfmannlega um loftslagsmál en enn höfum við ekkert í höndum – annað en blaðamannafund þar sem hálf ríkisstjórnin tilkynnti að hún myndi vinna saman að aðgerðum í loftslagsmálum – og við sem héldum að þau hefðu sagt það í stjórnarsáttmála. Nema að núna er það ekki öll ríkisstjórnin sem vinnur saman að loftslagsmálum heldur aðeins hálf. Loftslagmálin þola enga bið og þar þarf skýra pólitíska sýn um kolefnishlutlaust Ísland.

Gjaldmiðlamálin sem voru aðalmál Viðreisnar og formanns hennar voru skyndilega komin í hendur húsráðandans sem færði Seðlabankann og endurskoðun peningastefnunnar yfir til sín og skrifaði í erindisbréfið til nefndarinnar sem á að endurskoða þá stefnu að öll yrði sú endurskoðun innan ramma krónunnar. Svolítið eins og maðurinn sem alltaf setur leiðinlegt lag á fóninn til að ganga frá eftirpartýinu. Og hvað gerir maður þá annað en að draga fram djörfustu flíkina sem maður finnur í fataskápnum og bjóða sig fram í næsta lausa embætti, í þessu tilviki embætti formanns Hollvinasamtaka MR. Verst að fjármálaráðherrann sem leggur fram meiri niðurskurðaráætlun en við höfum áður séð gagnvart framhaldsskólunum, skyldi ekki átta sig á því hversu óviðeigandi það var fyrr en framboðsfrestur var útrunninn.

Væntingarnar voru líklega ekki miklar en af meira en hundrað málum á málalista ríkisstjórnarinnar eru heimturnar ekki miklar heldur. Innleiðingar á EES-málum hafa verið áberandi í þingstörfum vetrarins og fá stórpólitísk mál sem hafa komið til þingsins sjálfs fyrir utan fjármálaáætlunina sjálfa. Félags- og jafnréttismálaráðherrann byrjaði á því að kynna jafnlaunavottun í Ameríku, átti sínar 15 mínútur af heimsfrægð og lét taka víkingaklappið fyrir sig. Talsvert seinna lagði ráðherrann málið fram hér í þinginu og hefur svo þrýst mjög á um að málið verði klárað – enda væri annað vandræðalegt – og það mun verða tekið til annarrar umræðu hér á morgun ásamt mjög nauðsynlegum lágmarkslagfæringum því þetta grundvallarmál Viðreisnar var undarlega illa undirbúið þegar hingað kom í þingið.

Ýmis góð mál komu seint og illa inn sem útskýrir af hverju þurfti að fresta frekari vinnu við þau til haustsins og má þar nefna ný lög um málefni fatlaðra og innleiðingu tilskipunar um keðjuábyrgð sem gengur reyndar mun skemmra en við Vinstri-græn teljum rétt og eðlilegt. Nýr forseti þingsins hefur hins vegar með verkum sínum sýnt að ekki dugir að vera of seinn. Hún hefur ákveðið að starfsáætlun þingsins verði fylgt og setur þar með mikilvægt fordæmi til næstu ára.

Stærsta mál ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar verið fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Og svo að ég skilji ekki alveg við myndlíkinguna frá upphafi hefur umræðan um hana einmitt verið eins og partý þar sem reykingamennirnir norpa heldur súrir úti á svölum, einhverjir eru að dansa við sænskt teknó í stofunni og enn aðrir eru á trúnó inni í eldhúsi. Eða í þessu tilviki segir einn að áætlunin sé nú bara lærdómsferli fremur en niðurstaða þar sem muni breytast. Annar segir að áætluninni verði ekki breytt nema því eina sem hann eða hún er ósammála. Og sá þriðji segir að áætluninni verði alls ekki breytt.

Og það má henda gaman að því að enginn er sammála í ríkisstjórninni. Og verum sanngjörn; það er ekki eins og þeir sjö flokkar sem nú skipa Alþingi Íslendinga séu endilega sammála um allt. En kannski er það einmitt vegna stóru átakalínanna sem eru að verða æ skýrari í íslenskum stjórnmálum og birtast svo ljóslega í fjármálaáætluninni. Því þó að deilt sé um fjármálaáætlunina í partýinu þá virðast gestirnir sammála um eitt: þá miklu hægristefnu sem hún boðar.

Því hverjar eru stóru línurnar í fjármálaáætluninni? Hún er römmuð inn í strangar fjármálareglur sem eiga rætur að rekja til nýfrjálshyggju þar sem öll áhersla er á lækkandi hlutfall samneyslunnar sem þýðir á mannamáli að draga úr þjónustu við almenning án sýnlegra markmiða eða ávinnings fyrir okkur sem myndum samfélagið hér á Íslandi.

Þingmenn og ráðherrar meirihlutans tala um að fleiri krónur renni til ýmissa málaflokka en þegar hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu er skoðað gerir áætlunin ráð fyrir að hún dragist saman – hún er fjarri því að mæta þeim væntingum sem gefnar voru fyrir síðustu kosningar. Og það kemur ekki á óvart þar sem áætlunin boðar enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins. Þetta er allt í anda sömu frjálshyggjukredduhugsunarinnar sem ber mikla ábyrgð á vaxandi ójöfnuði.

En hvað þurfum við að gera? Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig – ríkisstjórnin kannski? – en ef við viljum það ekki þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur og skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum. Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Og að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar.

Við þurfum að endurreisa velferðarkerfið. Það er okkar sameiginlega verkefni; að reka öflugt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar þurfa ekki að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á veikindi vegna of hárrar greiðsluþátttöku. Við þurfum ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi. Fólkið í landinu vill ekki slíkt kerfi, ítrekað hefur það komið fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill félagslega rekið heilbrigðiskerfi sem er vel fjármagnað. Og þetta fengu stjórnmálaflokkarnir allir skýr skilaboð um fyrir kosningar, til dæmis með undirskriftum 86.500 Íslendinga.

Við verðum að efla menntakerfið okkar, tryggja að það geti tekist á við þær miklu breytingar sem framundan eru og gera öllum kleift að sækja sér menntun óháð aldri. Við eigum að fjölga nemendum en ekki að fækka þeim eins og stefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir en hún er því miður algjörlega metnaðarlaus, nánast eins og menntamálin hafi gleymst á leiðinni í eftirpartýið. Það eina sem virðist skipta máli er að stytta tímann sem tekur að veita menntunina en ekki menntunin sjálf. Og auðvitað spyrjum við hvað hafi breyst frá síðustu fjármálaáætlun – þar sem menntamálaráðherrann var líka sjálfstæðismaður – þar sem gert var ráð fyrir að þeir fjármunir sem spöruðust við styttingu námsins skiluðu sér inn í kerfið. En frá síðustu samþykktu áætlun eru fjármunir til framhaldsskólanna skertir svo um munar, eða um 1.400 milljónir miðað við árið 2021. Hvað hefur breyst síðan í ágúst í fyrra? Er það tilkoma nýrra meðreiðarsveina Sjálfstæðisflokksins? Eða gafst ráðherra menntamála bara upp?Við eigum að tryggja viðunandi framfærslu – hvort sem við tölum um laun öryrkja og aldraðra, lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur. Það er algjörlega óviðunandi að á þeim tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu. Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar munu öryrkjar fá 288 þúsund króna mánaðarlaun árið 2022. Þetta er sýn ríkisstjórnarinnar á hvernig kjör þessa hóps eigi að vera. Og ekki ætlar hún að bæta kjör þessara hópa með auknum húsnæðisstuðningi sem skerðist ár frá ári í fjármálaáætluninni.

Eftirpartýin eru þreytt þegar þau hefjast. Þetta sem nú stendur yfir hófst mæðulega og mun ekki batna. Aðallega vegna þess að sameiningarþátturinn – límið sem heldur ríkisstjórninni saman – er sú hugmynd að árangurinn verði einungis mældur í því ef samneyslan minnkar og minnkar og minnkar.

Mér finnst aðkallandi raunveruleg hugarfarsbreyting um hvernig við rekum samfélag. Samfélag er ekki aðeins bókhald sem þarf að stemma af. Samfélag er undirstaða þeirrar velferðar sem við viljum búa fólkinu okkar. Það er sáttmáli grundvallaður á réttlæti og sanngirni þannig að þeir sem mest hafa leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem hafa minna á milli handanna. Samfélag snýst um að tryggja öllum mannsæmandi kjör, tryggja öllum jöfn tækifæri. Munum að baráttunni fyrir réttlátu samfélagi lýkur aldrei – við getum gert svo miklu betur!

 

 

 

 

Óli Halldórsson á þingi í fyrsta sinn

Óli Halldórsson tók sæti í fyrsta sinn á Alþingi í dag, í fjarveru Steingríms J. Sigfússonar. Óli er 42 ára, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga og oddviti VG í sveitarstjórn Norðurþings, en hann gegnir  formennsku í byggðaráði sveitarfélagsins. Óli lauk BA-gráðu í heimspeki og meistaragráðu í umhverfisfræðum, hvoru tveggja frá Háskóla Íslands, með viðkomu í Middelsex University í London. Þá hefur hann einnig kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri.

Óli hefur búið og starfað á Húsavík undanfarin ár ásamt konu sinni Herdísi og fjórum börnum. Hann á ættir að rekja víða um norðausturhorn landsins, m.a. til Húsavíkur, Laxárdals og Vopnafjarðar. Óli ver vinnudeginum í að stýra Þekkingarneti Þingeyinga og góðum hluta þess sem eftir er í lesa Einar Áskel og skrúfa saman trampolín. Þegar færi gefst vill hann þó helst standa úti á Halldórsstaðaflóa í Laxá með flugustöngina eða ganga til rjúpna á þingeyskum heiðum. Nú eða þvælast innan eða utan lands með fjölskyldunni.

,

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

 

Þingflokkur VG harmar hið mikla mannfall sem orðið hefur í hræðilegum stríðsátökum í Sýrlandi, Írak og Jemen undanfarin misseri, nú siðast í loftárásum á borgina Idlib. Ljóst er að alþjóðalög um vernd almennra borgara á átakatímum eru þverbrotin af stríðsaðilum í þessum löndum, ekki síst með loftárásum sem fara ekki í manngreinarálit. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld að nýta hvert tækifæri til að koma á framfæri mótmælum sínum vegna mannfalls almennra borgara, þar á meðal barna, í þessum löndum og annars staðar. Sérstaklega fordæmir þingflokkurinn notkun efnavopna sem er skýlaust brot á alþjóðlegum sáttmálum en sterkar vísbendingar eru um að þeim hafi nú verið beitt í Sýrlandi.  Þingflokkur VG áréttar jafnframt þá skyldu Íslands að axla ábyrgð í því að veita þolendum stríðsátaka skjól og vernd. Í Miðausturlöndum verður ekki komið á friði með vopnavaldi, drápum og stigmögnun ofbeldis. Samningar eru alltaf rétta leiðin til að ná markmiðinu um frið og jafnvægi.

 

Hægt er að ná í fulltrúa VG í utanríkismálanefnd til viðtals um yfirlýsinguna. Þær eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, s. 824-6743 og Steinunn Þóra Árnadóttir s. 690-2592.

 

Bjarni Jónsson nýr á þingi

Bjarni Jónsson tók í gær sæti á Alþingi í gær, í fjarveru Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Er þetta í fyrsta sinn sem hann tekur sæti á Alþingi. Bjarni er ættaður af Ströndum og úr Húnavatnssýslum en ólst upp í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 15 ára aldurs er hann fluttist með fjölskyldu sinni að Hólum í Hjaltadal. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1986, BA-prófi í hagsögu og viðskiptafræði frá HÍ árið 1992 og meistaraprófi í fiskifræði frá Háskólanum í Oregon í Bandaríkjunum 1996. Bjarni hefur unnið margvísleg störf til sjávar og sveita. Hann starfaði m.a. sem forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar og er nú forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Eiginkona Bjarna er Izati Zahra og búa þau á Sauðárkróki. Bjarni á tvö börn, og er nýbakaður faðir en þau hjónin eignuðust son 2. mars síðastliðinn.

Bjarni flutti jómfrúarræðu sína í gær, í sérstakri umræðu um áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða. Bjarni lagði áherslu á hlutverk sveitarfélaganna og rannsóknarstofnana á landsbyggðinni um eftirlit og rannsóknir þegar kemur að verndun og nýtingu haf- og strandsvæða.

Einnig ber að geta þess að Björn Valur Gíslason tók sæti í gær sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar, en Björn Valur hefur áður setið á þingi.

Yfirlýsing þingflokks vegna viðbragða íslenskra stjórnvalda við aðgerðum Bandaríkjaforseta

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir hvers kyns lokun landamæra og brot á ferðafrelsi gagnvart sérstökum trúarhópum frá tilteknum löndum og gagnvart flóttafólki frá Sýrlandi, líkt og forsetatilskipun Bandaríkjaforseta frá því á föstudag felur í sér. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld til að koma andmælum við ákvörðun Bandaríkjaforseta skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld með formlegum hætti og halda með því á lofti grundvallarvirðingu fyrir frelsi, lýðræði og mannréttindum.

Um ferðamálaráðuneyti og fleira skylt.

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar á Alþingi 26. janúar.

 

Herra forseti. Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu á að fjölga ráðuneytum úr átta í níu. Ég ætla ekki að ræða þá skipan eða endanlegan fjölda heldur nýtt ráðuneyti ferðamála sem hefði átt hér heima í plagginu. Ég hef talað fyrir því lengi og það má fullyrða að aðilar í ferðaþjónusta óska eftir því. Ég hef fylgst með þróun ferðamála í 30, 40 ár og horft upp á þessar undirmönnuðu stofnanir, sérstaklega innan Stjórnarráðsins, sem hafa verið alla tíð. Það hefur verið mjög lítil áhersla í raun og veru lögð á ferðamál, enda má kannski segja að lengst af hafi þau ekki verið mjög stór þáttur af hagkerfi okkar en eru nú orðin það.

Það er til Ferðamálastofa. Það er til Stjórnstöð ferðamála. Það er til Vegvísir í ferðaþjónustu. Það eru til lög um Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja. Þetta eru allt framfarir að vissu marki en það þarf að gera mun betur.

Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur, en henni er ekki ætlað að taka yfir ábyrgð og skyldur stjórnkerfisins eða hagsmunasamtaka eins og segir í kynningu á henni. Henni er stjórnað af fjórum ráðherrum. Ég hef lítið séð til þessarar stjórnstöðvar og hún hefur væntanlega unnið sín störf ágætlega, þar eru í gangi ýmiss konar verkefni en mér finnst þessi skipan of veik. Stjórnstöðin mun starfa til 2020. Þá spyr maður sig: Hvað tekur þá við?

Þegar hefði átt að hefja vandaðan undirbúning að stofnun ráðuneytis og reyna að klára þá vinnu fyrir árið 2020, jafnvel á einu til tveimur árum. Ástandið í ferðaþjónustunni heilt yfir er ámælisvert að mati mjög margra aðila, hvort sem er í ferðaþjónustunni eða utan. Um þetta hafa margir fjölyrt og fjölmiðlar flytja daglega fregnir af alls konar óboðlegu ástandi sem hægt er jafnvel að hneykslast á.

Ef maður dregur þetta saman þá getur maður sagt að við höfum ekki haft tök á viðbrögðum við fjölgun ferðamanna. Sjálfbærnin sem við höfum sett sem markmið er meira í orði en á borði og það vill oft gleymast að sjálfbærni snýst ekki bara um náttúruna, hún snýst líka um félagslega þætti og hún snýst um hagræna þætti.

Innviðauppbyggingin er í ólagi, ekki alls staðar, en mjög víða og heldur alls ekki í við þróunina. Öryggi ferðamanna er ekki nægilega tryggt og fjármögnun er of lítil til greinarinnar, bæði í einkageiranum og opinbera geiranum. Það eru líka undantekningar á því.

Það er vissulega svo að ferðaþjónusta er mjög fjölbreytt, en það er rangt hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni að þetta snúist eiginlega helst um samgöngur og landkynningu. Þetta er svo miklu, miklu víðara og einmitt vegna þess hversu ferðaþjónustan er fjölbreytt og fjölþætt er nauðsynlegt að henni sé fundinn staður í Stjórnarráðinu.

Herra forseti. Næstu árin mun ferðamönnum fjölga mjög fljótlega í 2 milljónir, síðan í 4, 6, við höfum jafnvel séð hærri tölur fyrir 2040. Það er alveg augljóst að þessar nytjar sem að baki ferðaþjónustu liggja hafa þolmörk eins og allar aðrar náttúru- og menningarnytjar eða félagslegar nytjar. Við getum líka fullyrt að það er mjög mikið misræmi í álagi á land og fólk.

Stærsti flókni atvinnuvegurinn þarf augljósa stýringu hvað varðar skipulag, náttúrunýtingu og auðlindir hvers konar, enda eru til sérlög um ferðaþjónustu á Íslandi. Það er verið að endurskoða þau.

Annað verkefni til vandaðrar umræðu sem ég hef rætt um er endurskipulagning ríkisstofnana sem koma að náttúruauðlindum. Það hefur jafnvel verið kölluð auðlindastofnun. Ég ætla að leyfa mér hér, herra forseti, að vísa í álit fyrrum landgræðslustjóra, Sveins Runólfssonar, sem hann sendi umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir um tveimur árum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að sett verði á laggirnar auðlindastofnun er fari með verndun og endurheimt auðlinda landsins, gróðurs, jarðvegs, ferskvatns, náttúru, ásamt umsýslu mikilvægra svæða í eigu ríkisins. Hún verði þekkingar-, framkvæmda- og þjónustustofnun á þessu sviði. Undir hana færist öll landgræðslumálefni frá Landgræðslu ríkisins sem má þjappa saman sem vernd og endurreisn á virkni vistkerfa, skógrækt og þjóðskógar frá Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefni í skógrækt, Hekluskógar, málefni Veiðimálastofnunar, náttúruverndarþátturinn sem nú er fóstraður í Umhverfisstofnun og sviði gróðurverndar, landslagsverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og fleira. Undir hana myndi einnig heyra rekstur þjóðgarða, þar með talið Vatnajökulsþjóðgarðar. Síðast ekki síst er brýnt að í hinni nýju stofnun yrðu sem allra flest málefni er varða verndun ferðamannastaða, ferðaleiða og svæða gegn ágangi og álagi af völdum ferðamanna og utanumhald vinnu við að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið. Brýnt er að á einum stað verði til þekking og reynsla varðandi allar framkvæmdir er lúta að verndun náttúru, gróðurs og jarðvegs vegna sívaxandi ferðamennsku.“

Hugmyndin um nýja auðlindastofnun er ekki nýtt fyrirbæri og hentar í sjálfu sér til vandaðrar umræðu. Þetta er sett hér fram þess vegna og í von um að menn átti sig á þörfinni þótt breytingar sem þessar kunni að kosta mikla vinnu og töluvert fé, en það er alveg ljóst, jafnvel þegar menn horfa aðeins á málefni þjóðgarða, að það er auðvelt að nefna sjö, átta, níu stofnanir og nefndir sem véla um þessa mikilvægu þætti í ferðaþjónustu og allri menningu landsmanna.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég ætla að vona að við berum gæfu til þess að fleyta þessu máli lengra í þinginu og að hv. ríkisstjórn taki tillit til þess að það er löngu kominn tími til að það verði til ferðamálaráðuneyti á Íslandi.

Rósa Björk óskar eftir fundi í utanríkismálanefnd

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrir hönd fulltrúa VG í utanríkismálanefnd Alþingis, hefur óskað eftir fundi hið fyrsta í utanríkismálanefnd með utanríkisráðherra til að ræða aðgerðir Bandaríkjaforseta gegn íbúum tiltekinna ríkja sem tilheyra tilteknum trúarbrögðum og gegn flóttafólki frá Sýrlandi. Ósk um fundinn með utanríkisráðherra er til að ræða viðbrögð annarra ríkja og ekki síst hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda verði; bæði út frá samskiptum þjóðanna og mannréttindasjónarmiðum sem og hagsmunum á borð við flugsamgöngur.

 

Þingmenn VG í nefndum Alþingis

 

Allsherjar- og menntamálanefnd

Andrés Ingi Jónsson

Atvinnuveganefnd

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Efnahags- og viðskiptanefnd

Katrín Jakobsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Fjárlaganefnd

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Svandís Svavarsdóttir

Umhverfis- og samgöngunefnd

Ari Trausti Guðmundsson

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Utanríkismálanefnd

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Steinunn Þóra Árnadóttir

Velferðarnefnd

Steingrímur J. Sigfússon

Forsætisnefnd

Steingrímur J. Sigfússon, 1. varaforseti

Ræða Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur

Ræða Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

Virðulegi forseti, kæru landsmenn.

Helstu áskoranir okkar nú felast í tveimur risastórum verkefnum. Verkefni sem eru tilkomin af mannanna völdum og eru því á hendi mannanna sjálfra að leysa úr. Þetta eru hlýnun loftslags og vaxandi ójöfnuður í heiminum.

Það er ískyggilegt hvernig loftlagsbreytingar og ójöfnuður tengjast órjúfanlegum böndum. Mengandi frumiðnaður í reykspúandi verksmiðjum með heilsuspillandi úrgangi hefur oftast haldist þétt í hendur við láglaunastörf sem verkafólk hefur unnið við óviðunandi starfsaðstæður víða um heim. Allt of margir fjármagnseigendur hafa hagnast á mengandi verksmiðjuframleiðslu á kostnað okkar allra og náttúrunnar.

Við verðum öll að sameinast um að sporna við hlýnandi loftslagi og vaxandi ójöfnuði. En búum við ekki við hreinasta vatnið og bestu loftgæði sem um getur? Kannski, en við þurfum að leggja miklu meira á okkur en við höfum gert undanfarin ár til að sporna við loftslagsbreytingum. Við þurfum að taka Parísarsamkomulagið alvarlega og leggja af stað í raunverulegar aðgerðir sem virka. Enginn er eyland þegar kemur að hlýnun loftlags.

Og hvað með ójöfnuðinn, höfum við það ekki öll bara býsna gott hér með sterka stöðu efnahagsmála líkt og hæstvirtur forsætisráðherra benti á í sinni stefnuræðu?

Nei. Ójöfnuður er staðreynd og fer því miður vaxandi um allan heim. Um það vitnar glæný skýrsla  Oxfam-samtakanna sem sýnir að 8 karlmenn eiga meiri peningaleg auðæfi en helmingur alls mannkyns.

Virðulegi forseti,

Það er engin ástæða til að ætla að ójöfnuður fari ekki vaxandi á Íslandi og sterk teikn eru á lofti um að það hafi gerst undanfarin ár. Um það vitna tölur ríkisskattstjóra sem sýna að ríkasta eina prósentið á Íslandi þénar nálægt helmingi fjármagnstekna og tölur Hagstofunnar frá síðasta ári sýna að ríkasti fimmtungur landsmanna á 87 prósent af öllu eigin fé í landinu.

Og aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins  á borð við Leiðréttinguna juku líka ójöfnuðinn. Nú hefur komið í ljós að þessi risavaxna aðgerð; að gefa 72,2 milljarða úr ríkissjóði til tiltekins hluta þjóðarinnar, kom þeim mest til góða sem áttu mest og þénuðu mest. Þau 20 prósent Íslendinga sem hafa hæstar tekjur fengu samtals 22 milljarða króna úr ríkissjóði. Á sama tíma og fjármagn til heilbrigðismála, menntunar og annarra innviða hefur skort. Það er einfaldlega alröng forgangsröðun.

Virðulegi forseti, kæru landsmenn,

Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi eins og annars staðar. Hér er um grafalvarlegan hlut að ræða. Það er engin samfélagslegur sáttmáli til um það að hinir ríku verði ríkari á meðan hin efnaminni sitji eftir og hafi minna á milli handanna. Það hefur ekkert með lýðræði að gera að fjármunum okkar allra sé skammtað til hinna efnameiri. Það hefur heldur  ekkert með lýðræði að gera að samfélag sem býr við gnægð náttúruauðlinda geti ekki skipt arðinum af þeim jafnt. Það er engin samfélagslegur sáttmáli til um að börn efnaminni foreldra búi við skort og hafi takmarkaðri aðgang að gæðum samfélagsins en börn efnameiri foreldra. Það er nefnilega engin sátt til um ójöfnuð. Ójöfnuður hefur víðtæk samfélagsleg áhrif og er ólíðandi út frá öllum siðfræðilegum viðmiðum um réttlátt samfélag.

 

Virðulegi forseti,

Forsætisráðherra er tíðrætt um jafnvægi í stefnuræðu sinni. Það er kannski ekki að undra að forsætisráðherra sækist eftir jafnvægi, þar sem síðustu ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkur hefur tekið þátt hafa ekki beint stuðlað að samfélagslegu, stjórnmálalegu eða efnahagslegu jafnvægi. Það var ekkert jafnvægi í að ákveða byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða setja Ísland á lista viljugra þjóða vegna innrásarinnar í Írak. Það var ekkert jafnvægi í efnahagshruninu fyrir 8 og hálfu ári eða í Lekamálinu, Orku Energy málinu eða uppljóstrun um Panamaskjölin á síðasta kjörtímabili.

Ein af skilgreiningum orðsins jafnvægi sem forsætisráðherra vill leitast eftir, er að eitthvað sé jafnþungt og kyrrt. Rólegt og stillt.

En íslenskt samfélag á ekki að vera þungt og kyrrt. Íslenskt samfélag er ekki kyrrstöðusamfélag afturhalds og íhalds, heldur á að vera á stöðugri hreyfingu og í framþróun. Það gerum við meðal annars með því að leggja áherslu á menntun og opna faðminn fyrir þeim sem leita til okkar eftir nýjum tækifærum. Ég fagna því að forsætisráðherra ætlar sér að leggja áherslu á þetta tvennt.

Og það er sannarlega ósk okkar flestra að hér ríki ró og friður, en eigum við að vera róleg og stillt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að arði auðlindanna sé ekki jafnt skipt á milli okkar allra? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að 4-6 þúsund íslensk börn búa við skort og fátækt? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að þurfa að bíða í marga mánuði eftir viðunandi heilbrigðisþjónustu? Eigum við að vera róleg og stillt yfir því að íslenskt stóreignafólk og stjórnmálamenn fari með peningana sína út úr íslensku hagkerfi, úr okkar sameiginlegu sjóðum og feli á aflandseyjum? Það er ekki hægt að segja okkur að hér eigi að vera jafnvægi, að við eigum að vera róleg og stillt á meðan ójöfnuður fer vaxandi í íslensku samfélagi. Það er ekkert jafnvægi fólgið í því.

 

Kæru landsmenn, framsýni hefur ekkert með vaxandi ójöfnuð að gera. Framsýni er að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, að minnka ójöfnuð, að draga með öllum ráðum úr loftlagsbreytingum. Að vinna saman að sátt í samfélaginu þar sem allir geti notið sín og haft sömu tækifæri óháð stétt eða stöðu. Sameinumst um það markmið.