Ræða Ara Trausta Guðmundssonar

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

 

Virðulegi forseti og kæru landsmenn.

Á mínum stutta þingmannsferli hef ég heyrt úr ræðustól staðhæfingar eins og þær að ekki sé hægt að eyða sömu krónunni tvisvar, að menn geti ekki fengið allar sínar kröfur uppfylltar og nú síðast að framtíðin sé okkur hulin. Hvað annað? Við sem erum eldri en tvævetur – þingmenn og kjósendur – hljótum að óska eftir bitastæðari orðum en þeim sem hæfa tilteknu skólastigi en varla Alþingi – við viljum sjá og heyra umræður um raunveruleg vandamál, öruggar framfarir, ólíka hugmyndafræði og síðast en ekki síst stefnuræðu sem stendur undir heiti og dregur upp skýrar línur nýs þingmeirihluta. Hún á að fjalla um markmið og leiðir í stað útlistunar á almennum hugtökum eins og stöðugleika, jafnvægi og framsýni, með eða án ljóðatilvitnana.

 

Ekki lasta ég það sem stefnt er að á vegum nýrrar ríkisstjórnar svo sem aukna nýsköpun eða fé til heilsugæslu, eða annað sem gæti horft til aukinnar samneyslu, jöfnuðar og bættrar afkomu tugþúsunda. Við erum mörg sem sjáum fá ljós í því sem háttvirtur forsætsráðherra nefnir stefnu sína og stjórnarinnar – af því að ræða hans fjallar fyrst og fremst um markmið en ekki leiðir – um gildi en ekki lausnir. Þar með erum við litlu nær um hvað bíður landsmanna næstu fjögur árin – og þó: Innviðauppbygging sem greiða á fyrir með aukinni verðmætasköpun og hagvexti. Hvort tveggja er óútfylltur víxill. Hvort tveggja byggir á kökukenningunni: Vinnandi fólk fær ekki stærri hlut í kökunni nema hún stækki fyrir þess atbeina. Þetta svarar ekki ákalli tugþúsundanna um betri heilbrigðisþjónustu, samgöngur, menntakerfi og almannatryggingar. Þarna fer úthugsuð hagfræði auðhyggjunnar. Með henni má vernda hag 10% þjóðarinnar sem eiga 60% eigna, eða þess eina prósents sem tekur við 44% allra fjármagnstekna. Það er til mikið fjármagn, handan allra hagsveiflna, sem taka má af til samneyslunnar – án þess að samfélagið brotni. Í því er fólgin úthugsuð félagshyggja – sem sagt við getum valið á milli hægri og vinstri – og má vera að óánægja með nýja ríkisstjórn í skoðanakönnun endurspegli þrotna þolinmæði gagnvart tregðu við að lagfæra skemmda innviði þegar næg efni eru til þess.

 

Hæstvirtur forsætisráðherra ber fyrir sig gagnrýni fjölda hagfræðinga á aukin útgjöld ríkisins þegar hagvöxtur er mikill. Sem jarðvísindamaður get ég fullyrt að álíka margir hagfræðingar, hvað þá jarðfræðingar, eru á öndverðri skoðun. Aftur má velja á milli hægri og vinstri en stakur óþarfi að leyna því að hagvísindi eru pólitísk og umdeilanleg – fjarri því að líkjast náttúrulögmálum. Vernd hinna efnamiklu er aðeins einn flokkur hagfræði – sem hæstvirtur ráðherra velur sér og sínum.

 

Frú forseti, til þess að marka stefnumið og leiðir þarf raunhæfa greiningu á samfélagsstöðunni. Skammt dugar að telja að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hafi kallað fram neikvæð hughrif hjá almenningi, eins og heyrðist hér í upphafi. Almenningur finnur glöggt á huga og líkama hvað er að: Í heilbrigðiskerfinu er raunveruleikinn dökkur – og í andstöðu við nýja stjórn er greining almennings réttust: Kerfið í heild er við þolmörk og þjónustustig víðast hvar ekki sæmandi. Ef greiningar tíu ráðherra eru með sama sniði og hjá forsætisráðherra er vonlítið að úrlausnir verði teknar í sátt.

Tvennt undir lokin, frú forseti. Við höfum aðeins 13 ár til að standa við Parísarsamkomulagið. Eftir er að útskýra hvað gera skal annað en búa til græna hvata, rækta skóg, auka landgræðslu og hafa orkuskipti í samgöngum – eins og fram kom áðan. Verkefnin eru margfalt fleiri, kosta milljarða og þarfnast mikillar samvinnu – en einnig vandaðra markmiða í öllum geirum umhverfismála. Þarna fer mikilvægasta mál jarðarbúa til langs tíma litið og um það hefði hæstvirtur Bjarni Benediktsson átt að fjölyrða. Í öðru lagi sneiðir ráðherrann og stjórn hans framhjá flest öllu sem horft getur til stjórnunar á viðbrögðum við fjölgun ferðamanna og frumskógarlögmálum sem ríkja enn um of í greininni, þrátt fyrir framfarir. Þolmörk staða, svæða og landsins alls – ef sjálfbærni, náttúruleg, félagsleg og hagræn, á að ríkja – kalla á umræðu og ákvarðanir sem virðast rýrar í meira lagi í stjórnarsáttmálanum. Auðlindastjórnun nær auðvitað til stærsta atvinnuvegarins.

100 ára fullveldi örþjóðar í stóru en gjöfulu landi, er merkileg tilraun og afrek að mörgu leyti. Á sömu öld jókst jöfnuður, fyrst og fremst vegna baráttu launamanna, lengi framan af. En í þrjá til fjóra áratugi hefur ójöfnuður aukist og velferðin trosnað um of – slík sýn er gjörólík sýn háttvirts forsætisráðherra og þeirra flokka sem mynda ríkisstjórnina. Það er kjarni máls. Um hann og leiðir til annars konar samfélags en þeirra óskir ná til – mun samtal okkar hér á þingi snúast, átök jafnt sem samvinna – og það á líka við um þjóðfélagið allt.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur

Ræða Katrínar Jakobsdóttur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 24. janúar 2017.

 

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.

 

Ég vil byrja á því að taka undir með hæstvirtum forsætisráðherra um þann samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt að undanförnu eftir að ung kona var svipt framtíð sinni með óhugnanlegum hætti. Við skulum öll standa saman gegn ofbeldi og tryggja að unga fólkið okkar fái að eiga framtíð sína í friði.

 

Víða eru blikur á lofti í heiminum, víða er ófriðlegt og víða hafa kosningaúrslit komið mörgum í opna skjöldu. Þau endurspegla vaxandi gjá milli ólíkra hópa í samfélögum vestan hafs og austan og sýna að hægt er að bregðast við með ólíkum hætti.

 

Stjórnmálamenn geta nefnilega gert hvorttveggja. Þeir geta byggt múra eða þeir geta byggt brýr. Ég segi að við eigum að byggja brýr. En til þess þarf að takast á við hin raunverulegu stóru verkefni:
Þau eru að tryggja jöfnuð og þar með félagslegan stöðugleika. Þau eru að tryggja raunverulegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar.

Þau eru að undirbúa vinnumarkaðinn á Íslandi til að takast á við tækniþróun sem getur gerbreytt honum hér eins og annars staðar.

Öll kalla þessi verkefni á raunverulegar kerfisbreytingar.

 

Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við er ekki ríkisstjórn utan um slíkar breytingar. Það segir sína sögu að hæstvirtur forsætisráðherra ákvað að vitna í Tómas Guðmundsson og kvæði hans frá fjórða áratug síðustu aldar. Stjórnarsáttmálinn er í besta 1920-stíl og undirritaður af þremur karlmönnum þrátt fyrir batnandi kynjahlutföll á þingi.

 

Valdamisrétti kynjanna birtist nefnilega ekki aðeins í hausatalningu á þingmönnum heldur líka því hvar konur eru í forystu.

Kynning fjármálaráðherra á ríkisfjármálastefnu nýrrar stjórnar er sömuleiðis íhaldssöm. Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við boðar nefnilega íhaldssama stefnu – sem má kalla jafnvægi en líka kyrrstöðu

 

Ætlunin er að fresta nauðsynlegri eflingu velferðar- og menntakerfis. Það á ekki að byggja meira upp en rúmast innan hagsveiflunnar. Það má alls ekki afla tekna til að byggja upp aðþrengt velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Hæstvirtur forsætisráðherra kvittar undir þetta í ræðu sinni hér: Fjármagnið er af of skornum skammti. Hins vegar, segir ráðherrann, þarf að gera eitthvað í þeim hughrifum að samfélagssáttmálinn um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið.
Hughrifin, ágætu landsmenn, birtast líklega í undirskriftum 86 þúsund Íslendinga sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála. Hughrifin birtast í því að greiðsluþátttaka sjúklinga er umtalsvert meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum á sama tíma og fjármuni skortir til að tryggja mönnun og viðunandi aðstæður. Og ætli það skapi ekki líka ákveðin hughrif að í tíð núverandi hæstvirts forsætisráðherra í fjármálaráðuneytinu lækkaði skattbyrðin á tekjuhæstu hópana en þyngdist á aðra hópa. Þetta myndu sumir reyndar kalla staðreyndir fremur en hughrif.

 

Virðulegi forseti.

 

Íslendingar vita að betur hefur árað í efnahagslífinu að undanförnu og margir hafa það betra nú en fyrir nokkrum árum. Slík staða skapar í senn sóknarfæri en felur líka í sér margar áskoranir, eins og forsætisráðherra sagði réttilega. En stjórnun efnahagsmála snýst ekki aðeins um þá áskorun að viðhalda góðu ástandi.

 

Hún snýst líka um að móta stefnu til framtíðar þannig að við hlúum að okkar atvinnugreinum og tryggjum að þar sé skýr sýn en ekki togað í ólíkar áttir. Það er áskorun að vinna með stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustunni, tryggja tekjustofna til uppbyggingar innviða og stefna að umhverfisvænni ferðaþjónustu sem uppfyllir metnaðarfull loftslagsmarkmið og byggir á vernd einstakrar náttúru.

 

En það er líka hægt að bíða bara og sjá, leyfa landeigendum að innheimta alls kyns gjöld þvert á náttúruverndarlög og bíða eftir að tröllin komi þrammandi niður úr fjöllunum, öll sem eitt, og sæki framlág um störf í ferðamannaiðnaðinum, svo að vitnað sé í skáld frá 21. öldinni.

 

Það er áskorun að tryggja að efnahagsbatinn skili sér til allra hópa en ekki aðeins ríkustu hópanna í samfélaginu — þó að stuðningur við ríkisstjórnina sé mestur í þeim hópum. Það er áskorun að tryggja lýðræði í stað auðræðis. Og það er full ástæða til að leiðrétta stöðu tekjulægstu hópanna, ekki síst eftir að síðasta ríkisstjórn ákvað að gefa tekjuhæstu hópunum milljarðatugi úr ríkissjóði – á sama tíma og kannanir sýna okkur að sex þúsund börn teljast búa við efnislegan skort í okkar ríka samfélagi.

 

Til að tryggja jöfnuð og félagslegan stöðugleika, þarf vissulega að ráðast í kerfisbreytingar; skattleggja fjármagnið og létta skattbyrðinni af tekjulægstu hópunum. Þar væri hægt að byrja á sjúklingasköttunum sem eru hærri hér en annars staðar. Um leið væri hægt að afla aukinna tekna af þeim sem mest hafa á milli handanna.

 

Ef aðhald er sett á útgjöld í velferðarmálum í stað þess að hækka skatta á auðmenn er í raun verið að hækka álögur á venjulegt fólk fremur en þá ríkustu. Því það er í velferðina sem venjulegt fólk sækir sín verðmæti. Og ímyndum okkur ekki að hér sé ekki misskipting eins og annars staðar í hinum vestræna heimi.

 

Hér eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs samkvæmt tölum frá 2012 — og ekki er ólíklegt að skattalækkanir og leiðréttingar síðustu þriggja ára hafi aukið enn á þá misskiptingu. Ekki lítur út fyrir breytingar á því sviði. Hér er boðað að staðinn verði vörður um þennan ójöfnuð.

 

Félagslegur stöðugleiki mun líka skipta miklu ef við ætlum að takast á við þær tæknibreytingar sem munu á næstu árum og áratugum gerbreyta vinnumarkaðnum eins og við þekkjum hann. Og þar þarf að hafa í huga réttindi launafólks, aukna menntun og bætt kjör.

 

Það kallar á aukna fjárfestingu í menntun – þannig að við náum að standa undir okkar eigin samþykktu stefnu um að fjárframlög til háskólanna nái OECD-meðaltalinu og í framhaldinu meðaltali Norðurlandanna, þannig að framhaldsskólarnir okkar geti opnað dyr sínar fyrir öllum aldurshópum og tryggt fjölbreytt nám sem mætir þörfum nemenda en er ekki rígbundið niður í einingafjölda eins og ákveðið var á síðasta kjörtímabili. Þarna eru ekki heldur boðaðar miklar breytingar nema þá helst rætt um fjölbreytt rekstrarform sem þýðir á mannamáli aukinn einkarekstur og útvistun sem enginn áhugi er á meðal almennings en þeim mun meira meðal forkólfa Samtaka atvinnulífsins og þessarar ríkisstjórnar Samtaka atvinnulífsins.

 

Ég leyfi mér þó að lýsa stuðningi við nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur sagt að ekki verði sett lög á verkfall sjómanna enda muni slík ráðstöfun ekki vera líklega til að skapa sátt um greinina – ég er hjartanlega sammála hæstvirtum ráðherra um það.
Og vonir eru bundnar við nýjan umhverfisráðherra sem hefur boðað aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Við treystum því að mjög fljótlega komi fram tímasett aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miði við hið minnsta 40% samdrátt í losun fyrir 2030 – væntanlega eiga markmið Íslands að vera metnaðarfyllri en sameiginlegt markmið ESB – og að ráðherra taki höndum saman við þingmenn Vinstri-grænna um að nýjum miðhálendisþjóðgarði verði komið á fót. Við þingmenn Vinstri-grænna munum styðja ráðherrann til allra góðra verka í þeim málaflokki.

 

En eins og við vitum öll þá mun þurfa kerfisbreytingar til að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum. Spurningin er hvort ríkisstjórnin sem virðist svo furðulega íhaldssöm mun komast í gegnum það því að í loftslagsmálunum þurfa öll ráðuneyti og allar stofnanir að vinna saman og þar mun mikið reyna á forystu ríkisstjórnarinnar.

 

Góðir landsmenn.
Kerfisbreytingar voru orð síðustu kosningabaráttu. Heilir flokkar voru stofnaðir um slíkar breytingar í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum sem og Evrópusambandsaðild. Þessir sömu flokkar eru mættir í ríkisstjórn sem fyrst og fremst mótast af stefnu Sjálfstæðisflokksins — allt á réttri leið sagði hann í síðustu kosningabaráttu og nánast endurprentar stefnuskrá sína í stjórnarsáttmálanum. Kerfisbreytingar bíða betri tíma.

 

Ekki er hægt að gera allt í einu, segir nýr fjármálaráðherra, enda er framtíðin löng. Manni kemur í hug frasinn Róm var ekki byggð á einum degi, sem ráðherrann í sjónvarpsþættinum Já ráðherra var vanur að grípa til eftir að hafa hlýtt á góð ráð embættismanna. Áður en hann varð ráðherra hafði hann einmitt verið ritstjóri blaðsins Reform (sem við getum þýtt sem ‘Kerfisbreytingar’).

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB sem sett var á dagskrá fyrir kosningar verður allt í einu að bíða eftir því að rykið setjist eftir Brexit. Skyndilega er Róm ekki byggð á einum degi og menn vitna í Tómas Guðmundsson í leit að innblæstri. Tómas Guðmundsson orti raunar fleira, til dæmis þetta: „Og satt er það að stundum hef ég þurft / á öllu mínu ístöðuleysi að halda“. Einhvern veginn komu mér þessi orð í hug þegar nýr stjórnarsáttmáli birtist eftir margra mánaða tal sumra stjórnarflokkanna um kerfisbreytingar. Nokkurn veginn kerfisbreytingalaus.

 

Góðir landsmenn.

 

Við, sem sitjum á Alþingi, erum öll fulltrúar almennings. Þess vegna er meginverkefni okkar að tryggja að allir í samfélaginu séu á sama báti og hafi tækifæri til að njóta alls þess sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Þannig stuðlum við að félagslegum stöðugleika, samkennd og bættum lífsgæðum.

 

Við þurfum hins vegar ríkisstjórn sem horfist í augu við framtíðina, þótt hún sé löng, og er reiðubúin til þess að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta lífskjör allra til framtíðar. Kerfum sem standa vörð um forréttindi þarf nefnilega að breyta, góðir landsmenn, og til þess þarf öðruvísi ríkisstjórn en þá sem nú hefur tekið við.

 

Eitt er þó það verkefni sem við ættum öll að geta sameinast um sem hér sitjum þó ekki séum við sammála um þetta. Og það er að byggja brýr.

 

Á hverjum degi hittum við brúarsmiði. Strætóstjórinn sem heilsar öllum og minnir mann á að öll njótum við virðingar í bílnum hans. Leikskólakennarinn sem leysir úr vanda ólíkra barna með ólíkan bakgrunn. Fólk sem hingað kemur frá öðrum löndum, jafnvel á flótta, en kennir okkur hér svo ótal margt og gerir líf okkar fjölbreyttara og betra. Þjóðarleiðtogar sem auka skilning milli ólíkra þjóða. Þingflokksformenn sem leysa hnúta en herða þá ekki. En við hittum líka þá sem smíða múra. Sem alltaf vilja loka sig inni og breyta engu. Og nú er það eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að leggja brúarsmiðunum lið óháð því hvar við stöndum í flokki. Ég vona að það geti í það minnsta orðið okkar sameiginlega verkefni.

 

Þingstörfin og fjárlagafrumvarpið

Þing kom saman á síðastliðinn þriðjudag var og tók þá sæti á Alþingi 10 manna þingflokkur VG með 4 nýjum þingmönnum. Steingrímur J. Sigfússon stýrði fyrsta þingfundi sem starfsaldursforseti þingsins, og var svo í kjölfarið kosinn forseti Alþingis með 60 atkvæðum.

Fjármálaráðherra starfsstjórnarinnar mælti fyrir fjárlagafrumvarpi og bandormi í vikunni, og hafa allir okkar þingmenn tekið til máls í umræðunum, hvorttveggja með ræðum og í andsvörum. Tveir þingmanna áttu jómfrúrræður (aðrir höfðu komið inn sem varamenn áður). Hér er hægt að lesa ræðu Ara Trausta (http://vg.is/fyrsta-raeda-ara-trausta-gudmundssonar-althin…/) og hér má sjá ræðu Kolbeins Óttarssonar Proppé (http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/…). Við óskum þeim báðum til hamingju!

Þingflokkur heldur þeim sjónarmiðum á lofti að ekki sé nóg að gert í tillögum fjárlagafrumvarpsins, og að mikilvægir málaflokkar séu gróflega vanfjármagnaðir. Nægir að nefna samgönguáætlun, heilbrigðis-, mennta- og velferðarmál hér þótt lengi væri hægt að telja upp þau innviðaverkefni sem bíða uppbyggingar.

Nefndarstörf í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd hófust á föstudag, þar sem fulltrúar VG eru annars vegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varamaður Rósa Björk Brynjólfsdóttir og hinsvegar Katrín Jakobsdóttir, varamaður Steingrímur J. Sigfússon. Nefndirnar fengu til sín gesti á föstudag og ert er ráð fyrir mikilli vinnu í þessum nefndun næstu dagana.

Í kjölfar umfjöllunar Kastljóss á dögunum sendi þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrirspurn um málefni Brúneggja ehf. og upplýsingagjöf til almennings um brot á reglum um dýravelferð. Fyrirspurnin birtist í gær og 3 tímum síðar bárust fréttir um að stjórnvöld hygðust láta gera úttekt á starfsumhverfi Matvælastofnunar. Hér má sjá frétt um málið (https://kjarninn.is/…/2016-12-08-stjornvold-lata-gera-utte…/) og hér er hægt að lesa fyrirspurn Andrésar Inga (http://www.althingi.is/altext/146/s/0005.html).

Gerum samfélagið betra

Katrín Jakobsdóttir segir ábyrgan rekstur ríkissjóðs þurfa að fara saman við ábyrgan rekstur samfélagsins. Þetta sagði hún í umræðum á Alþingi í dag um útgjaldaliði fjárlagafrumvarpsins. Hún sagði mikla uppsafnaða þörf fyrir opinberar fjárfestingar og aukin útgjöld ríkissjóðs í ýmsum mikilvægum málaflokkum, og að tillögur fjárlagafrumvarps starfsstjórnarinnar mættu ekki þeirri þörf.

“Þegar rætt er um ábyrgan rekstur á ríkissjóði verður það að fara saman við ábyrgan rekstur á samfélagi. Við erum ekki hér út af ríkissjóði. Hann er hér út af okkur. Hann á að vera okkar tæki til að gera þetta samfélag betra,” sagði Katrín ennfremur.

Katrín sagði tekjustofna ríkisins hafa verið veikta undanfarin ár og samtímis hafi átt sér stað aukin samþjöppun auðs. Hún sagði átökin í stjórnmálum snúast um það hvernig tryggja eigi tekjur til að standa undir velferðarkerfinu, háskólunum og sjúkrahúsunum. Um það snúist pólitík með jöfnuð að leiðarljósi og þá pólitík sé ekki að finna í frumvarpi fjármálaráðherra.

Hægt er að nálgast ræðu og andsvör Katrínar á vef Alþingis.

Fyrsta ræða Ara Trausta Guðmundssonar á Alþingi

Tilefni: Fjárlög 2017 lögð fram. 1. umræða.

Frú forseti.

Ég vil byrja á að þakka hæstvirtum fjármálaráðherra fyrir kynningu hans á fjárlögunum hér í dag og þingheimi fyrir umræðuna.

Ég gæti haft hér yfir fræg orð úr sögunni: – Hér stend ég og get ekki annað – en þau standast ekki vegna þess að ég kaus að leita eftir starfi þingmanns og fékk fulltingi til þess; til þess að stuðla að félagslegum lausnum margra brýnna verkefna og ýta undir græn gildi.

Sem nýr þingmaður frammi fyrir hálftómum þingsalnum og engum ráðherra get ég sagt að mér fallast næstum hendur frammi fyrir yfir 600 síðna fjárlagaplöggum. Þetta líkist því að fá í hendur Gamla og Nýja testamentið og byrja að leita uppi og bera saman ólíkar greinar með númerakerfi. En hvað um það, skoðun á gjaldahlið A-hlutans leiðir í ljós að einmitt hin grænu gildi liggja að mörgu leyti óbætt hjá garði. Tvennt blasir við sem ég vil lýsa yfir að mikilvægt sé að Alþingi allt, jafnt sem háttvirt fjárlaganefnd, verða að hyggja að af mikilli festu.

Fyrra atriðið varða álag á náttúru landsins meðal annars vegna vaxtar og skipulags ferðaþjónustunnar. Til viðbótar við framlög til þriggja gestastofa og til lagfæringa innan Þingvallaþjóðgarðs eru aðeins rúmar 500 milljón krónur lagðar til Framkvæmdasjóðs ferðamála. Svo eru 300 milljónir settar í eflingu flugþjónustu milli staða utan SV-hornsins og erlendra borga en framlög til rannsókna í ferðaþjónustu lækkuð. Hér þarf allt aðra hugsun og mikla innspýtingu í bæði innviði og aðgengi ferðamanna. Þar þarf að skoða nýja og bætta tekjustofna; svo sem eins og gistináttagjald umfram 300 krónur, komugjöld, já, myndarleg komugjöld, og ýmis þjónustugjöld og fleira. Og ég kem vonandi að því við eitthvert annað tækifæri.

Síðara atriðið, það snýr að máli málanna á heimsvísu sem eru loftslagsbreytingar. Og þegar ég blaðaði í gegnum þessar 600 síður þá held ég að ég hafi fundið þetta orð einu sinni. Það getur verið misskilningur en það var ekki víða í þeirri ágætu bók, eða bókum. Vel má vera að mörgum finnist margt mikilvægara en að hugsa um hitamæla þegar velferð í landinu er rétt við eða undir þolmörkum. En ef fer sem horfir þá getur okkur skort mikið fjármagn á endanum til velferðar ef hitafar jarðar fer langt fram úr mörkum Parísarsamkomulagsins. Þetta eru ekki pólitískar útskýringar heldur blákaldur, eigum við að segja rauðhlýr, veruleiki.

Herra forseti

Vegna horfa í framvindu loftslagsmála er afar brýnt að til verði fjármögnuð langtímaáætlun, og ég legg áherslu á orðið fjármögnuð, um minnkandi losun gróðurhúsagasa á Íslandi og aukna bindingu kolefnis. Þessa og nægilega kröftugra byrjunaraðgerða sakna ég í fjárlögunum. Framlög til nýrra orkulausna í samgöngum og meginatvinnuvegunum eru of lág, framlög til skógræktar eru það líka og til endurheimtar landgæða og vistkerfa, svo einhver dæmi séu nefnd. Hvergi örlar á magntöku árangurs miðað við framlög. Við hvað eru þau í raun og veru miðuð? spyr ég. Með öðrum orðum, fjárlög sem eiga að vera með langtímamarkmið klárt, sem er fallega og réttilega sagt eins og hæstvirtur fjármálaráðherra kom inn á, þau eru ekki hluti af marksettri aðgerðaráætlun um fullnustu þeirra skuldbindinga sem við höfum tekið að okkur.

Auðvelt er að segja sem svo að ekki megi fara of geyst í fjárútlát eða að ekki megi ausa fé í gæluverkefni. Það hefur verið nefnt hér áður. Og maður getur spurt sig hvort það séu gæluverkefni að konur geti fætt börn sín í Vestmannaeyjum eða hvort það sé gæluverkefni að slá út 102 milljón króna fjárveitingu til lögreglueftirlits á Suðurlandi, vegna öryggis bæði íbúa og ferðamanna. Ég held að þetta séu ekki gæluverkefni, þetta eru mikilvæg velferðar – og öryggisverkefni. Lagabreytingar að þessu leyti þurfa að koma til.

Loftslagsbreytingar eru dauðans alvara, þau eru heldur ekki gæluverkefni. Hvort sem eru breyttir skattar, ýmis konar hækkun gjaldstofna eða breyttar áherslur í úthlutun fjármuna, sem við köllum forgagnsröðun eða önnur úrræði, þau mega ekki vega afsökun fyrir því að spara á þessu sviði, þessu loftslagssviði, heldur þveröfugt; þau eiga að vera hvatning til að gera betur. Það kostar einfaldlega innheimtu fjármuna frá þeim sem eru aflögufærir ef við ætlum að bregðast af ábyrgð við milljónum ferðamanna, sem reyndar setja okkur gestaþolmörk til að bæði ræða og marka; ég ætla að vona að ég hafi tækifæri til að ræða það betur síðar, eða bregðast við hættulegum umhverfisbreytingum sem kosta okkur miklar fjárhæðir, náum við ekki að stemma stigu við þeim.

Ég óska eftir breytingum á fjárlögum 2017 sem horfa til verulegra framfara í þessum efnum sem ég hef hér nefnt en ekki bara dálítilla, sem einhverjir afsaka með fjárskorti í samfélagi þar sem víða eru til fjármunir til aflögu, sé horft af sanngirni, hvað sem líður óréttlátum tekjumun í þessu ágæta samfélagi okkar.

Og talandi um sólskin og þakviðgerðir eins og háttvirtur þingmaður Þorsteinn Víglundsson gerði: Þá vil ég bara nefna það að við verðum að vera raunsæ þegar við metum viðgerðarþörfina, það er eitt. En annað er svo að okkur hættir til við að gleyma eða jafnvel réttlæta að sólin skín býsna ójafnt á landsmenn.
Úr því viljum við Vinstri græn bæta, við fjárlagagerðina 2017, og vissulega í samvinnu við sem flesta háttvirta þingmenn.

Lilja Rafney vill ræða samdrátt á byggðakvóta í þingnefnd

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, hefur óskað eftir því að atvinnuveganefnd Alþingis komi saman til fundar og ræði nýja reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta. Í reglugerðinni kemur fram að almennur byggðakvóti sem úthlutað er til byggðalaga, sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og eru háð veiðum og vinnslu á botnfiski, minnkar um fimmtung milli fiskveiðiára. Byggðakvóti Byggðastofnunar hækkar hins vegar um 500 tonn.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Lilja Rafney það afar mikilvægt að pólitísk umræða fari fram um stefnu stjórnvalda í byggðamálum og skiptingu byggðakvóta. „Það orkar tvímælis ef skerðing á að koma þarna fram á sama tíma og aukning er í kvóta á þorski til að mynda. Þarna er verið að skerða kvóta til byggðarlaga sem síst skyldi. Atvinnuveganefnd ætti að taka þetta til umfjöllunar og ræða stefnu stjórnvalda”

 

Þess má geta að við úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga á þessu fiskveiðiári voru um 6.800 tonn til skiptanna en verða um 5.600 tonn á næsta fiskveiðiári sem hefst í september.

 

 

Lagasetningu á flugumferðastjóra mótmælt

Í gær var Alþingi kallað saman eftir að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannessonar ákvað að setja lög á verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra.

Ólöf Nordal innaníkisráðherra, mælti fyrir frumvarpi þar að lútandi sem síðan var samþykkt af þingmeirihluta.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn lagasetningunni. Minnihluti stjórnarandstöðuflokkanna í umhverfis-og samgöngunefnd skilaði af sér minnihlutaáliti við frumvarpið. Stjórnarandstaðan telur að þrátt fyrir að óumdeilt sé að að aðgerðir flugumferðarstjóra hafi töluverð áhrif á ferðaþjónustu og fleiri hagsmunaaðila, ásamt því að hafa áhrif á ferðir almennings til og frá landinu, séu áhrif verkfallsaðgerðanna ekki ógn við almannahagsmuni eða valdi efnahagslegri vá til að unnt sé að réttlæta lagasetningu.  Verkfallsrétturinn sé grundvallarþáttur í rétti stéttarfélaga til að semja um kjör félagsmanna sinna og nýtur verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

Í minihlutaálitinu segir m.a.; “Síðan lög voru sett á undirmenn á Herjólfi hefur þessi ríkisstjórn gripið til lagasetningar á verkföll flugvirkja, BHM, hjúkrunarfræðinga og flugmanna sem sömdu reyndar áður en lögin voru samþykkt. Þessar tíðu lagasetningar eru því áhyggjuefni og bera vott um virðingarleysi fyrir samningsrétti á vinnumarkaði. Minni hlutinn lýsir þess vegna áhyggjum yfir því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða án stefnu af hálfu ríkisstjórnar sem mun veikja verkfallsréttinn til frambúðar og hafa neikvæð og ófyrirséð áhrif á þróun vinnumarkaðarins”

Ennfremur segir þetta; “Lög á kjaradeilur virðast orðin hluti af almennri kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar og fyrirsjáanlegur þáttur í viðbrögðum stjórnvalda við flóknum aðstæðum á vinnumarkaði.”

Hér má lesa minnihlutaálit stjórnarandstöðuflokkkanna í umhverfis – og samgöngunefndar en Svandís Svavarsdóttir er fulltrúi VG í nefndinni.

Þingmannamál VG á síðasta þingdegi

Loftslagsráð, bann við vígvélum, þjóðhagsáætlanir ofl.

 

Lokasprettur þingvetrarins var strembin, líkt og oft áður, en nokkur góð þingmannamál VG þingmanna voru samþykkt á síðasta þingdegi vetrarins. Því ber að fagna vel enda brýn og góð mál; stofnun loftslagsráðs, stuðningur við alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra vígvéla, undirbúningur að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, áhættumat vegna ferðamennsku og uppbygging áningastaða við þjóðvegi.

Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Katrínar um stofnun loftslagsráðs, sem hafi það meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ráðið á að fylgjast  með þróun loftslagsmála og beina tilmælum og ráðleggingum um markmið og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til stjórnvalda og annarra aðila, svo sem opinberra stofnana. Loftslagsráðið verði skipað fulltrúum ýmissa stofnana og samtaka sem láta sig loftslagsmál sérstaklega varða, hafi starfsskyldur á vettvangi loftslagsmála og búi yfir sérþekkingu og kunnáttu á málaflokknum og upplýsingum. Loftslagsráði er einnig ætlað að stuðla að vitundarvakningu um málaflokkinn. Meðflutningsmenn voru Steingrímur, Svandís og Bjarkey. Þess ber að geta að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð hefur tvisvar áður lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun loftslagsráðs svo hér er um afar góðan áfanga að ræða fyrir hreyfinguna og náttúruvernd.

Bann við sjálfstýrðum vígvélum og þjóðhagsáætlanir

Katrín var líka flutningsmaður þingsályktunar um sjálfvirkar vígvélar sem var samþykkt. Hún fjallar um stuðning Íslands við að koma á alþjóðlegu banni við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla og að ríkisstjórn Íslands vinni að framgangi bannsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem það á við. Með Katrínu á tillögunni voru Bjarkey, Steinunn Þóra og Svandís. Hér má lesa tillöguna og greinargerðina með henni en þar segir m.a.;

“…í þessum efnum er einkar mikilvægt að viðbrögð við hinum tæknilegu viðfangsefnum einkennist fremur af gagnrýnni hugsun og markmiðum um mannúðlegri og öruggari heim…”

Samþykkt var þingsályktunartillaga Steingríms um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma en markmið hennar er að stuðla að öflun haldbærra gagna um forsendur þjóðhagsáætlana til langs tíma fyrir íslenskt samfélag, unnið að gerð slíkra áætlana og þeim beitt við stefnumótun í samfélagsmálum. Löngu orðið tímabært að festa þau vinnubrögð í sessi, enda geti vandaðar langtímaáætlanir haft mikilvæga þýðingu fyrir hagstjórn og aðra ákvarðanatöku.

Ferðamennska og uppbygging áningastaða

Þingsályktunartillaga um áhættumat vegna ferðamennsku var samþykkt í dag á þinginu en flutningsmaður tillögunnar er Lilja Rafney. Meðflutningsmenn voru Steingrímur og Bjarkey ásamt fleiri þingmönnum úr stjórnar-og stjórnarandstöðuflokkum.

Tillagan kveður á um að fela innanríkisráðherra að koma því til leiðar að ríkislögreglustjóri geri áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku, eftir atvikum í samstarfi við Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun og aðra aðila á vettvangi ferðamála, öryggis- og björgunarmála og náttúruverndar. Í framhaldi af því verði kannað og metið hvort ástæða þyki til að setja sérstakar reglur um ferðir á þeim svæðum sem falla í efsta áhættuflokkinn. Bráðnauðsynlegt mál á tímum ört fjölgandi ferðamanna.

VG þingmenn náðu einnig í þessari lotu að fá samþykkt annað tímabært mál er tengist ferðaþjónustunni. Það er þingsályktunartillaga um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi. Flutningsmaður tillögunnar er Svandís og með henni Lilja Rafney, Ögmundur og Bjarkey. Tillagan snýst um að skipa starfshóp um áningarstaði við þjóðvegi sem geri tillögu um uppbyggingu, hlutverk og þróun áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi landsins, m.a. með tilliti til salernisaðstöðu.

 

„Hér vantar meiri vinstripólitík“

Á þeim mínútum sem ég hef til ráðstöfunar langar mig fyrst og fremst að segja að það þarf meiri pólitík í þennan sal. Meiri vinstri pólitík.

Ef verkefni stjórnarandstöðu væri einvörðungu að streitast gegn ríkjandi stjórnvöldum þá höfum við náttúrlega óska ríkisstjón. Á fyrsta degi lækkaði hún veiðgjöldin, á öðrum degi slátraði hún auðlegðarskattinum og tók samhliða að daðra við einkavæðingu og síðan kom þetta allt, koll af kolli, á færibandi.

En þetta er að sjálfsögðu engin óskastaða og upp í hugann kemur viðtal við ritstjóra breska ádeilu-tímaritsins Private Eye eftir nýafstaðnar kosningar Bretlandi einhvern tímann í kringum 1970 en þá hafði Íhaldsflokkurinn unnið mikinn sigur. Ritstjórinn kvað niðurstöður kosniganna vera himnasendingu fyrir tímarit sitt, nú yrði úr nógu að moða, en bætti því svo við að sem þjóðfélagsþegn væri hann að sjálfsögðu miður mín.

Auðvitað vildum við helst að inn í þennan þingsal væru aðeins borin mál sem við öll teldum vera þjóðþrifamál og sanngirnismál; mál sem við værum sátt við sem þjóðfélagsþegnar. Og vissulega á þetta við um mörg verkefni Alþingis. Ég hef sagt í gamni og kannski líka alvöru að ef úr heilaforriti sérhvers þingmanns væri tekin vitneskjan um hvaða flokki hann eða hún tilheyrði þá yrði margt auðleystara enda létu menn þá eigin dómgreind og kannski líka sanngirni oftar ráða. Flokksböndin geta nefnilega verið hamlandi.

En lífið er ekki alveg svo einfalt hér utandyra og þannig getur það heldur varla átt að vera í þessum sal. Í samfélaginu, ekki bara hér, heldur í heiminum öllum, er tekist á um hagsmuni. Hópar, stéttir og ríki takst á, og sumir vilja orða það svo að neysluhyggja mannsins takist á við hagsmuni móður jarðar.

Þessi hagsmunabarátta er háð undir pólitískum merkimiðum, peningafrjálshyggju, félagshyggju, þ.e. hægri stefnu og vinstri stefnu. Þetta er ekki úrelt skipting einsog sumir þeirra halda fram sem telja að stjórnmál eigi bara að snúast um spjall yfir kaffibolla.
Vissulega eru málefnalegar samræður nauðsynlegar – og þess vegna yfir kaffibolla – en kjósendur verða að fá að vita hver eru raunveruleg áform stjórnmálasamtaka. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig í kosningum iðulega fengið stuðning margra þeirra sem vilja ekki markaðsvæðingu heilbriðgiskerfisns því flokkurinn hefur vísvitandi talað óskýrt um þetta óvinsæla málefni fyrir kosningar.

Vilja stjórnmálamenn selja alla bankana eða vilja þeir samfélagsbanka og er alvara þar á bakvið, hvað með kvótakerfið varla verður gefist upp við að breyta því kerfi, og hvað með heilbrigðiskerfið. Þar takast raunverulegir hagsmunir á.

Það er í alvöru byrjað að dæla út arðgreiðslum í heilbrigðiskerfinu. Við borgum þetta allt að sjálfsögðu, annað hvort sem skattgreiðendur eða sem sjúklingar. Sum okkar munu geta borgað, önnur ekki. Og þannig verður það: Kerfi sem mismunar. Vilja menn markaðshyggju í heilbrigðiskerfinu eða vilja menn félagshyggju, vilja menn hægri eða vilja menn vinstri?

Ágætur maður skrifaði mér eftir að ég birti pistil í helgarblaði Morgunblaðsins nú um helgina um tollasamningana sem opna fyrir stóraukinn innflutning á kjötvöru. Ég vísaði þar á yfirlýsingar verkalýðsfélagsins Framsýnar, sem varar við afleiðingum fyrir íslenskan matvælaiðnað. Bréfritari sagði að ég yrði að gá að því að Framsýn væru hagsmunatengd samtök.

Það er að sjálfsögðu rétt. Störf eru hagsmunir og það eru líka hagsmunir að verja þá auðlind sem sjúkdómafríir bústofnar og heilnæm innlend matvælafrmaleiðsla er. Og einhvers staðar inn í þennan hagsmunaslag koma stóru verslunarkeðjurnar, þær sömu og vilja láta þennan þingsal banna með lögum að aðrir en einkaaðilar fái að selja áfengi í verslunum sínum. Og halda menn að það séu ekki hagsmunir einhverra að draga úr byggingakröfum, aðgengi og sólarljósi, fyrir fátækan leigumarkað?

Auðvitað koma hagsmunir þarna alls staðar við sögu. Pólitík er nefnilega að uppistöðu til hagsmunabarátta – annað eru viðfangsefni fagfólks. Um leið og við vísum pólitískri baráttu úr þessum sal þá eigum við ekki lengur erindi hingað.

Og ég spyr, vill fólk vera í samkrulli með Donald Trump sem gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna eða Hillary Clinton sem er harðlínuhaukur í utanríkismálum? Þetta eru næstu leiðtogar í NATÓ, hernaðarbandalaginu sem Alþingi samþykkti nýlega, illu heilli, að verði áfram hornsteinn íslenskrar öryggisstefnu. Ég fullyrði að NATÓ er hættulegra öryggi Íslands en nokkru sinni en samt hótar núverandi ríkisstjón því að binda okkur enn fastari böndum þessu bandalagi. Þetta eitt nægir mér til að vilja nýja ríkisstjórn að afloknum kosningum.

Auðvitað fagna ég því alltaf þegar samstaða næst í þessum sal um málefni sem við ættum að geta sameinast um. Við þurfum að vera sameinuð í baráttunni fyrir Ísland og viðkvæma og fágæta náttúru þess. Hér þekkjum við öll hvað við er átt og er þar vissulega ágreiningur um sitthvað.
En nú spyr ég í lokin: Eigum við ekki að sameinast um að tryggja sameiginlegt eignarhald okkar á Jökulsárlóni og Grímsstöðm á Fjöllum og verða þaning við áskorðunum fólks úr öllum stjórnamálaflokkum, öllum starfsstéttum og öllum aldurshópum? Þessi áskorun er raunveruleg, hún er til svört á hvítu. Það er okkar að verða við henni.

Gleðilegt sumar!