Jólagleði EVG í kvöld – Katrín segir frá degi í forsætisráðuneyti

Í kvöld 12.12 er halda Eldri Vinstri græn jólagleði og síðasta reglulega fund sinn fyrir jólafrí.  Hér er minnt á fundinn og að allir eru velkomnir, ekkert aldurstakmark hvorki upp hámarks né lágmarksaldur. Og ekki er spurt um flokkskírteini, heldur eruð þið einfaldlega öll velkomin.

Og tilkynning EVG er hér:

Jólin nálgast og gefa birtu í skammdeginu og birtu má líka fá í sálina með góðri samveru og  fræðslu um forvitnilega hluti að fornu og nýju.

Það gerum  við miðvikudaginn 12. des. kl. 20  í Stangarhyl 4, Reykjavík.  Þar mun forsætisráðherrann okkar  fara stuttlega yfir stöðuna og er af mörgu að taka. Síðan ætlar Bjarki Sveinbjörnsson sem hefur skoðað sögu Elsu Sigfúss segja frá lífi hennar og söngferli en Elsa  var dáð söngkona og túlkun hennar á ýmsum lögum, íslenskum og erlendum ævinlega fagnað.  Svo eru það Íslendingar sem ferðast víða og er Perú forvitnilegt land sem Sigurbjörg Þorsteinsdóttir heimsótti í apríl og mun birta okkur í máli og myndum. Við bjóðum Kolbein Óttarsson Proppé þingmann velkominn til söngs með okkur og allir eiga að taka undir.

 

  1. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra –  dagur í stjórnarráðinu

 

  1. Lad tonerne fortælle – Bjarki Sveinbjörnsson tónlistarfræðimaður segir frá söngferli og lífi Elsu Sigfúss

 

  1. Á slóðum inkanna í Perú – Sigurbjörg Þorsteinsdóttir ónæmisfræðingur segir frá
  2. Og söngur eins og ævinlega – Reynir Jónasson og Björgvin Gíslason leika undir söngvum sem auðvitað allir kunna

3. orkupakkinn – opinn fundur VGR

Fundur um 3. orkupakkann verður haldinn fimmtudaginn 25. október nk. á Hallveigarstöðum (Túngötu). Fundurinn hefst klukkan 19:30.

Á fundinum munu eftirtalin halda erindi:
Birgir Tjörvi Pétursson lögmaður en Birgir vann á sínum tíma greinargerð um Þriðja orkupakkann.
Kristín Haraldsdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík.
Kolbeinn Óttarsson Proppé alþingismaður VG.

Fundurinn er öllum opinn og er það von VGR, sem að honum standa, að þið sem flest sjáið ykkur fært að mæta

Viðburður á facebook

 

Ályktanir flokksráðs 13. október 2018

Ályktun um félagsleg undirboð

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn 12.-13. október 2018, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að gera nú þegar nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga um keðjuábyrgð og lög um starfsmannaleigur, setja ný lög ef þurfa þykir og efla jafnframt eftirlitsstofnanir til að stöðva og koma í veg fyrir félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði. Það er óásættanlegt að atvinnurekendur geti níðst á erlendum starfsmönnum, greitt þeim smánarlaun, langt undir lágmarkslaunum og krefji starfsmenn sína um háar fjárhæðir fyrir uppdiktaða kostnaðarliði, s.s. starfsleyfi, og boðið þeim óforsvaranlegt húsnæði við okurverði. Slíkt er smánarblettur á íslensku samfélagi, ósamboðið þjóð sem vill bera sig saman við norræn velferðarsamfélög.

Nei við hvalveiðum!

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn þann 12.-13. október 2018, ítrekar samþykkt landsfundar frá 2015 sem lagðist eindregið gegn hvalveiðum Íslendinga.

Breytt neyslumynstur í þágu náttúru og mannréttinda

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn þann 12.-13. október 2018, telur að ríkisstjórn Íslands ætti að leggja sitt af mörkum til þess að styðja við fyrirtæki og verslun sem byggja á endurnýtingu, viðgerðum og ábyrgri framleiðslu, og þannig sporna gegn neyslumynstri þar sem hlutum er hent í stað þess að gert sé við þá eða þeir notaðir aftur.

Raunverulegur kostnaður neysluvara kemur ekki fram í verði. Neysluvarningur er oft á tíðum framleiddur á vafasaman hátt með tilliti til umhverfisáhrifa sem og velferð þeirra sem komu að framleiðslu varningsins. Oft er verið að misnota vinnuafl og auðlindir, þannig er hluti af kostnaði þessarar neyslu taumlaus mannréttindabrot og óafturkræfur skaði á náttúru. Hið kapítalíska hagkerfi tekur aðeins tillit til sölu og gróða, en ekki varðveislu náttúru og auðlinda fyrir komandi kynslóðir eða mannréttinda.

Til þess að breyta þessu neyslumynstri verður endurnýting og vörur framleiddar í ábyrgri framleiðslu að vera aðgengilegar almenningi og einnig aðlaðandi og hagkvæmur kostur. Þar gæti ríkið komið inn í. Ríkisstjórnin ætti að leggja sitt á vogarskálarnar og styðja við framleiðslu sem stuðlar að sjálfbærri neyslu í stað einnota neyslumynsturs, t.d. framleiðsla sem hefur það markmið að gera við og deila neysluvörum í stað þess að selja nýjar. Einnig er nauðsynlegt að lækka álögur á umhverfisvænar og mannréttindavottaðar vörur.

Flokksráð hvetur þingmenn Vinstri grænna til þess að leggja fram og þrýsta á lagabreytingar þess efnis. Róttækra lagabreytinga er þörf til þess að taka á neyslu sem er komin langt fram úr því sem plánetan þolir.

Sveitarfélög skorist ekki undan lögbundnum skyldum sínum í velferðarþjónustu

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn þann 12.-13. október 2018, krefst þess að öll sveitarfélög sinni lögbundinni skyldu til þess að veita velferðarþjónustu til íbúa sinna. Í því felst m.a. að bjóða upp á félagslegar íbúðir, úrræði fyrir heimilislausa og þjónustu við fatlað fólk. Þeirri þjónustu hefur verið ábótavant m.a. hjá stöndugum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.. Þar er verið að brjóta á rétti fólks til þess að fá þessa lögbundnu þjónustu eins og nýlegt dæmi sannar. Það er ólíðandi að sveitarfélög sem hreykja sér af því að innheimta lágmarks útsvar neiti íbúum sínum á sama tíma um lögbundna velferðarþjónustu.

Flokksráðsfundurinn hvetur Alþingi og ríkisstjórn til að ganga eftir því öll sveitarfélög í landinu axli ábyrgð og gangist við skyldum sínum gagnvart fötluðu fólki og heimilislausu. Jafnframt að styðja við og hvetja til samvinnu sveitarfélaga um lögbundna velferðarþjónustu.

Kjarasamningar í þágu láglauna- og kvennastétta

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn þann 12.-13. október 2018, leggur áherslu á að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til þess að samningar náist og tryggja þar með félagslegan stöðugleika á vinnumarkaði en fjölmargir kjarasamningar renna út á næstu sjö mánuðum. Flokksráðsfundur fagnar því samtali sem átt hefur sér stað milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á undanförnum mánuðum fyrir tilstilli forsætisráðherra.

Ólgu á vinnumarkaði má m.a. rekja til launamunar og misskiptingar auðs sem hefur farið vaxandi á síðustu árum. Hátekjufólk, m.a. á vegum ríkisins, hefur fengið verulegar launahækkanir á síðustu árum á meðan hin lægst launuðu hafa setið eftir. Til þess að koma til móts við óánægju launafólks og liðka fyrir kjarasamningum er nauðsynlegt að stjórnvöld ráðist í aðgerðir sem tryggi jafnari ráðstöfunartekjur. Fundurinn fagnar því að fyrirhugað er að auka barnabætur og hækka persónuafslátt en leggur áherslu á að mikilvægt er að sú endurskoðun sem nú stendur yfir á tekjuskattkerfinu nýtist til tekjujöfnunar og taki skref í átt að auknum jöfnuði. Þá er mikilvægt að stjórnvöld beiti sér í húsnæðismálum til að allir hafi tryggt þak yfir höfuðið.

Flokksráðsfundur telur að við gerð kjarasamninga þurfi kerfisbundið að hækka laun kvennastétta sem þátt í því að leiðrétta kynbundinn launamun. Margar kvennastéttir hafa setið eftir í launum burtséð frá ábyrgð og vinnuálagi, t.a.m. í umönnunarstörfum. Það er ekki hlutverk láglauna- og kvennastétta að sætta sig við núverandi ástand til þess að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði í því góða efnahagslega árferði sem nú ríkir.

Flokksráðsfundur minnir á að verkfallsrétturinn er lögbundinn réttur vinnandi fólks sem ber að virða.

Flokksráðsfundur hvetur ráðherra og þingmenn Vinstri-grænna til að tala máli láglauna- og kvennastétta og beita sér í þeirra þágu á komandi mánuðum og misserum.

 Styttum vinnuvikuna

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn þann 12.-13. október 2018, hvetur til þess að vinnuvikan verði stytt niður í 30 tíma.. Flokksráðsfundur hvetur verkalýðshreyfinguna og þingmenn Vinstri grænna til þess að styðja allar aðgerðir sem stefna að því takmarki og minnir á lagafrumvarp sem nú liggur fyrir þinginu um 35 tíma vinnuviku.

Fundurinn fagnar tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuviku. Sýnt hefur verið fram á að stytting vinnuvikunnar leiði til aukinna lífsgæða, betri framleiðni og færri veikindadaga. Styttri vinnuvika gagnast sérstaklega fjölskyldufólki með lágar tekjur, sem þyrfti þá að vinna minna til þess að ná endum saman.

Lífsgæðaaukning í kjölfar styttingar vinnuviku gæti einnig leitt til þess að færri brenni út í starfi, verði óvinnufærir og þurfi á velferðarþjónustu að halda.

Stytting vinnuvikunnar getur einnig stutt við kynjajafnrétti hvað varðar vinnu innan sem utan heimilis, þar sem algengara er að konur séu í hlutastarfi en karlar og sinni heimili meðfram vinnu. Það að stytta vinnuvikuna eykur líkur á að konur og karlar (pör)vinni jafnlanga vinnuviku og að heimilisstörf og umönnun barna verði þá með jafnara móti.

Styttri vinnuvika stuðlar að lífsgæðum, ánægju og eflingu fjölskyldutengsla fram yfir peninga og þann ímyndaða hag sem sumir atvinnurekendur telja sig hafa af því að halda vinnuviku sem lengstri.

Í þágu friðar

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn þann 12.-13. október 2018, skorar á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs Íslands, að beita sér fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands með friðarmál í forgrunni. Jafnframt minnir fundurinn á þá mikilvægu þætti núverandi þjóðaröryggisstefnu sem snúa að raunverulegum öryggismálum Íslendinga, svo sem fæðuöryggi, netöryggi,varnir gegn náttúruvá og réttinn til að lifa án ofbeldis.

Öryggi Íslands á ekki að snúast um að viðhalda heimsmyndinni eins og hún er með drottnun Vesturlanda, hernaðarlegum íhlutunum þeirra um heim allan og vopnakapphlaupi. Flokksráðsfundur vill segja upp varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna sem þjónar eingöngu hagsmunum Bandaríkjanna. Bandaríkjaher á ekki að vera með útibú á Keflavíkurflugvelli fyrir hergögn sín og heræfingar sem eru dulbúin sem hluti af öryggi Íslands.

Flokksráðsfundur áréttar að Ísland á ekki að vera hluti af hernaðarbandalagi sem stuðlar að óstöðugleika heimsins og morðum á almennum borgurum. Vera Íslands í NATO kristallast m.a. í því að Ísland studdi sjálfkrafa árás Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á Sýrland í apríl síðastliðnum og skrifaði ekki undir samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sumarið 2017. Þingmenn Vinstri grænna hafa þó lagt til aðild að þeim samningi. Flokksráðsfundur fagnar því og vonast til þess að það verði að veruleika. Annað fagnaðarefni er að hafin er endurskoðun á reglugerð um flutning hergagna í kjölfar fyrirspurnar þingmanns Vinstri grænna, enda óforsvaranlegt að flutningur hergagna sé leyfður um íslenska land- og lofthelgi.

Þrátt fyrir andstöðu flokksráðsfundar við aðild Íslands að NATÓ má gleðjast yfir því að Katrín Jakobsdóttir hafi nýtt veru sína á ríkisoddvitafundi NATÓ í júlí síðastliðnum til þess að ræða friðsamlegar lausnir, afvopnunarmál, loftslags- og jafnréttismál.

Ísland úr NATÓ. Herinn burt.

Ályktun gegn hernaðaræfingum á Íslandi

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn þann 12.-13. október 2018 mótmælir harðlega fyrirhuguðum hernaðaræfingum NATO á Suðurnesjum og í Þjórsárdal á næstu dögum, auk skipulagsráðstefnu sem fylgir í kjölfar hennar um frekari æfingar af enn stærri skala. Von er á tíu herskipum og fjögur hundruð landgönguliðum til Íslands í þeim blekkingarleik að ætla að verja öryggi Íslands. Ekki er hægt að líta framhjá því að í þessari aðgerð fara fram æfingar í að ná völdum yfir og myrða annað fólk. Sömu hermennirnir og koma hingað munu verða sendir til Miðausturlanda þar sem þeir myrða og pynta almenna borgara með tækninni sem þeir æfðu á Íslandi.

Við fögnum því að þingmenn Vinstri grænna stígi fram og láti í ljós óánægju sína með æfinguna sem ekki er hægt að kalla annað en morðæfingu.

Aðild Íslands að NATO getur aldrei samræmst raunverulegri friðarstefnu heldur skuldbindur hún ríkið til þess að leyfa morðæfingar á Íslandi, greiða fé úr ríkissjóði fyrir hernaðaraðgerðir í fjarlægum heimshlutum og taka afstöðu með heimsvaldastefnu Vesturvelda. Við skorum á Alþingi að koma í veg fyrir þessa fyrirhuguðu æfingu og ráðstefnu hér á landi og segja Ísland tafarlaust úr hernaðarbandalaginu NATO.

Ályktun frá kjördæmisþingi NV-kjördæmis

Kjördæmisfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Stykkishólmi 1.10.2018 lýsir áhyggjum af samdrætti á þjónustu í landsbyggðum. Samþjöppun er að eiga sér stað í opinberri þjónustu og hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum sem starfa á landsvísu. Áhrif þessa eru m.a. þær að ákvarðanir eru færðar frá fólkinu og óásættanleg fjarlægð skapast milli þjónustufyrirtækja og þjónustuþega. Í þessu sambandi má benda á ólíðandi getuleysi heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga til að sinna lögbundinni þjónustu. Fundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að láta fara fram mat á framkvæmd lögboðinnar þjónustu og móta tillögur um úrbætur. Brýnt er að brugðist verði við áður en skapast enn meiri röskun á búsetu í landinu.

Greinargerð
Vegna samdráttar í þjónustu hefur víða skapast alvarlegt ástand í byggðum landsins. Hækkun lífaldurs og misgengi húsnæðisverðs veldur því m.a. að meðalaldur í sveitum og þorpum fer hækkandi, skólar veikjast og þjónusta við barnafólk minnkar. Bankinn fer, tryggingafélagið fer, verslunin fer. Langa leið þarf að fara til að sækja heilsugæslu. Heimahjúkrun er ekki veitt, sjúkrabíllinn farinn og staða læknis er ótrygg. Sveitarfélögin eru skuldum vafin og ófær um að halda úti lögboðinni félagsþjónustu. Allt ákvörðunarvald er fært í burtu og mikil ábyrgð lögð á ættingja. Einstæðingar eru fluttir hreppaflutningum eftir hentugleikum heilbrigðisstofnana. Fólkið hefur ekki málsvara og vart möguleika á ná fram þeim réttindum sem lög eiga að tryggja þeim. Fyrirtæki svo sem bankar, tryggingafélög og verslunarkeðjur ráða þjónustustiginu og öll hagræðing er færð frá þjónustuþeganum til eigenda. Víða er leitað úrbóta en oftast of seint. Það er fullt af tækifærum og möguleikum til í stöðunni ef vel er að staðið og mótuð stefna til að varðveita byggð í landinu. Opinber afskipti og skriffinnska er oft til trafala og skerðir um of frumkvæði og sköpunarkraft. Ný fjölbreytt byggðastefna er því nauðsyn.

 

Ályktun vegna áætlaðrar hernaðaræfingar NATO á Íslandi

 

 

Ung vinstri græn mótmæla harðlega fyrirhuguðum hernaðaræfingum NATO á Íslandi í október næstkomandi auk skipulagsráðstefnu sem fylgir í kjölfar hennar um frekari æfingar af enn stærri skala.

 

Von er á tíu herskipum og fjögur hundruð landgönguliðum til Íslands í þeim blekkingarleik að ætla að verja öryggi Íslands. Ekki er hægt að líta framhjá því að í þessari aðgerð fara fram æfingar í að ná völdum yfir- og myrða annað fólk. Sömu hermennirnir og koma hingað munu vera sendir til Miðausturlanda þar sem þeir myrða og pynta almenna borgara með tækninni sem þeir æfðu á Íslandi.

 

Við fögnum því að þingmenn Vinstri grænna, þau Steinunn Þóra Árnadóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé, stígi fram og láti í ljós óánægju sína með æfinguna sem ekki er hægt að kalla annað en morðæfingu.

 

Aðild Íslands að NATO getur aldrei samræmst raunverulegri friðarstefnu heldur skuldbindur hún ríkið til þess að leyfa morðæfingar á sínu yfirráðasvæði, greiða fé úr ríkissjóði fyrir hernaðaraðgerðir í fjarlægum heimshlutum og taka afstöðu með heimsvaldastefnu Vesturvelda.

 

Við skorum á Alþingi að koma í veg fyrir þessa fyrirhuguðu ,,æfingu” og ráðstefnu hér á landi og segja Ísland tafarlaust úr hernaðarbandalaginu NATO.

 

Við hvetjum einnig aðrar ungliðahreyfingar og stjórnmálaflokka að taka upp friðarhyggju og afstöðu gegn veru Íslands í NATO.

 

Framkvæmdastjórn UVG

Skráning á flokksráðsfund 12 & 13 október

Hér með er boðað til flokksráðsfundar 12 – 13. október næstkomandi. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn í Kópavogi, í sal Breiðbliks í Smáranum, og áætlað er að hann hefjist klukkan 17 á föstudegi og ljúki formlega um hádegi á laugardeginum 13.október.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á fundinn í síðasta lagi fyrir 9. október. með því að fylla út skráningarformið:

Eitthvað annað sem við þurfum að vita?

Yfirlýsing forsætisráðherra vegna athugasemda ASÍ

Alþýðusamband Íslands talar um það að ég hafi farið með rangt mál í Kastljósi gærkvöldsins þegar ég benti á að meðaltalslaunaþróun þeirra sem heyra undir kjararáð verði sambærileg við aðra hópa frá árinu 2013 til 2018 svo fremi sem laun þeirra breytist ekki frekar á þessu ári og verði fryst út árið. Er það í samræmi við niðurstöður skýrslu sem unnin var í samráði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og kom út í febrúar á þessu ári en þar segir orðrétt:

„Ef ekki verður um frekari endurskoðanir að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43-48%. Eins og fram kemur í skýrslunni er launaþróun innan hópsins mjög ólík. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá árinu 2006, blasir við önnur mynd en á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast með svipuðum hætti.“

Skýrsluna má finna hér: Starfshópur um málefni kjararáðs

Rétt er að halda til haga að fulltrúi ASÍ skilaði minnihlutaáliti um þessi mál í skýrslunni en í nefndinni sátu þrír fulltrúar ríkisins og þrír fulltrúar launafólks og atvinnurekenda auk Jóhannesar Karls Sveinssonar lögmanns sem var formaður nefndarinnar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið og verða gerðar á fyrirkomulagi launa þeirra hópa sem áður heyrðu undir kjararáð byggja á niðurstöðu meirihluta nefndarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

VG á Akureyri – opið hús í hverri viku.

Bæjarfulltrúi VG á Akureyri og bæjarmálahópur hreyfingarinnar ætlar að hafa opið hús á skrifstofunni alla miðvikudaga í vetur frá klukkan 16 – 18. Þessir samtalsfundir hefjast í dag, miðvikudaginn 22. ágúst 2018 eins og sjá má á eftirfarandi tilkynningu.

Í dag og alla miðvikudaga í vetur, ætlum við í VG að hafa skrifstofuna okkar opna kl. 16-18

Við vonum að íbúar nýti sér þetta til að setjast niður með okkur, spjalla og miðla hugmyndum og málefnum sem við ættum að beita okkur fyrir.

Við erum svo heppin að hafa mjög öflugan hóp sem hefur tekið að sér að sinna nefndarstarfi næstu fjögur árin, sum eru nýgræðingar í pólitík en önnur hafa áður tekið þátt, en fyrir okkur öll er afskaplega mikilvægt að heyra í félögum og öðrum sem brenna fyrir réttlæti og jöfnuð og fá ábendingar um mál sem þarf að skoða, ýta eftir eða ræða inni í stjórnkerfi Akureyrarbæjar.

Bæjarfulltrúinn okkar mun vera til staðar á skrifstofunni á þessum tíma þegar mögulegt er en ef hún þarf að vera annarsstaðar á fundum mun annað nefndarfólk vera til staðar.

Við vonumst til að sjá ykkur sem flest, þó ekki sé nema bara í spjall og kaffi eða te