Aðalfundur VG í Reykjavík

Tilkynning frá Vinstri grænum í Reykjavík:

 

Aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 27. september nk. í kosningamiðstöðinni, Laugavegi 170  í Reykjavík.

Fundurinn hefst kl. 20.00 og ráðgert að honum ljúki kl. 22.

Dagskrá:

 

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Fundargerð síðasta aðalfundar.
  3. Tillaga stjórnar um að fresta stjórnarkjöri og afgreiðslu á skýrslu stjórnar þar til að afloknum kosningum og að haldinn verði framhaldsaðalfundur eigi síðar en mánuði eftir kjördag. Á þeim fundi verða tvö mál á dagskrá: Skýrsla stjórnar og kjör formanns og stjórnar.
  4. Skýrsla stjórnar.
  5. Ársreikningar fyrir almanaksárið 2015 kynntir og bornir upp til samþykktar.
  6. Ársreikningar fyrir fyrri hluta þessa árs kynntir.
  7. Félagsgjöld ákveðin.
  8. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga.
  9. Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn a.m.k. viku fyrir aðalfund.

Að loknum aðalfundarstörfum:

  1. Önnur mál. – Farið yfir áherslur í kosningabaráttu, kosningastjóri kynntur.

 

Við bjóðum upp á kaffi og kleinur og kosningasjóðurinn verður á sínum stað. Við hlökkum til að sjá ykkur á fundinum.

 

Tilkynningu VGR auk laga félagsins má finna í heild sinni hér.

 

Stjórn fiskveiða og jöfnuður í Færeyjum – Færeyskir ráðherrar heimsækja VG 

Sjávarútvegsráðherra, fjármálaráðherra og innanríkis- og velferðarráðherra Færeyja úr Þjóðveldisflokknum heimsækja VG á Íslandi alla næstu helgina. Rætt verður um stefnu og markmið færeysku ríkisstjórnarinar sem er að tryggja að arðurinn af auðlindunum komi öllu samfélaginu að gagni.

Færeysku ráðherrarnir, Högni Höydal, sjávarútvegsráðherra, Kristína Háfoss, fjármálaráðherra og Sirið Stenberg, innanríkis- og velferðarráðherra, fara yfir þessi meginmarkmið færeysku ríkisstjórnarinnar á ráðstefnu í Norræna húsinu á laugardaginn, 10. september, frá klukkan eitt til fimm. Henni lýkur með pallborði þar sem ráðherrarnir þrír og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG sitja fyrir svörum. Jóhann Hauksson, fréttamaður stýrir umræðunum.

Högni Höydal, sjávarútvegsráðherra og formaður Þjóðveldisflokksins, systurflokks VG, heldur svo til Akureyrar á sunnudeginum 11. september og kynnir fiskveiðistjórnun á umræðufundi málstofu auðlindadeildar og lögfræðitorgs Háskólans á Akureyri. Fundurinn þar ber heitið „Stjórn fiskveiða í Færeyjum og uppboðsleiðin „uppboðsroyndirnar““.


Háskólinn á Akureyri

Stjórn fiskveiða í Færeyjum og útboðsleiðin
Sameiginlegur umræðufundur málstofu auðlindadeildar og lögfræðitorgs

Hvenær: Sunnudaginn 11. september kl. 14.00
Hvar: í stofu M102 (við aðalinngang HA) Sólborg v/Norðurslóð
Fyrirlesari: Högni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja

Sjávarútvegur er burðarstoð í færeysku efnahagslífi og hafa Færeyingar því líkt og við Íslendingar reynt ýmsar leiðir til að hámarka afrakstur sjávarauðlinda sinna. Nú síðast var gerð tilraun með að bjóða út hluta af aflaheimildunum og hefur það vakið talsverða athygli hér á landi. Á þessum fyrirlestri mun Högni fara yfir hvernig útboðs aflaheimilda var útfærð. Högni Höydal er formaður Þjóðveldisflokksins í Færeyjum og sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Landsfundur Ungra vinstri grænna 2016

Landsfundur Ungra vinstri grænna verður haldinn helgina 2.-4. september í húsnæði Lionsklúbbsins Hængs á Akureyri. Allir félagar UVG hafa atkvæðisrétt á fundinum en önnur áhugasöm eru að sjálfsögðu hjartanlega velkomin.

Tillögur og ályktanir sem liggja fyrir fundinum eru aðgengilegar hér:

Tillögur að ályktunum.

Stefnubreytingartillögur

Tillögur að lagabreytingum
Farið verður með hópferðabílum til Akureyrar frá Reykjavík og gist í félagsheimilinu. Sendið póst á stjorn@vinstri.is eða hringið í Bjarka (s. 616-7417) ef ykkur vantar far!

ATHUGIÐ: Nauðsynlegt er að taka með sér dýnur og svefnpoka/sængur.

Skráning fer fram hér:
https://docs.google.com/forms/d/e/1FAIpQLSePWT4iRy1EubdIBPiYHuTCL0JCENO5_IvmPFG2ND5sQ14Osg/viewform

Dagskrá fundarins:

Dagskrá landsfundar UVG á Akureyri 2-4.september 2016

Föstudagurinn 2.september
12:00 Fyrstu bílar fara frá Reykjavík.
16:00 Áætluð koma fyrstu bíla. Viðtaka lykla, undirbúningur kvöldmatar.
21:00 Landsfundur formlega settur.
21:05 Ávarp aldursforseta framkvæmdarstjórnar.
21:10 Ársskýrsla framkvæmdarstjórnar. Kynnt og lögð fram til samþykktar.
21:20 Ársreikningar. Kynntir og lagðir fram til samþykktar.
21:30 Stjórnmálaumræður.
22:30 Setningarhátíð, fundi frestað til morguns.

Laugardagurinn 3.september
10:00 Landsfundur hefst að nýju.
10:05 Kynning á lagabreytingatillögum og umræður.
10:30 Kynning á ályktanatillögum og umræður.
11:15 Kynning á stefnuskrábreytingatillögum og umræður.
11:45 Málefnahópar um stefnuyfirlýsingarbreytingatillögur taka til starfa.
12:45 Hádegishlé.
Frestur til að skila inn breytingartillögum við stefnuyfirlýsingarbreytingartillögur rennur út.
Frestur til að skila inn framboðum til stjórnar rennur út.
13:30 Afgreiðsla lagabreytingatillagna.
14:05 Kynning á niðurstöðum málefnahópa um stefnuyfirlýsingarbreytingar.
14:30 Myndband og kynning á ferð UVG á Warsaw Pride.
14:50 Kaffihlé.
15:00 Afgreiðsla á stefnuyfirlýsingarbreytingatillögum.
15:20 Kosningar.
17:00 Hinsegin Norðurland flytja erindi.
17:30 Fundi frestað til morguns.
18:00 Landsfundargleði
Út að borða 18:30-20:00
Gleði að félagsmiðstöðinni (Vædol, pub quiz og að sjálfsögðu Suðræn þægindi) 21:00

Sunnudagurinn 4.september
10:00 Landsfundur hefst að nýju.
10:05 Málefnahópar um ályktanatillögur taka til starfa.
12:10 Kynning á niðurstöðum málefnahópa um ályktanatillögur.
12:30 Kaffihlé.
Frestur til að skila inn breytingatillögum við ályktanir rennur út.
13:00 Afgreiðsla ályktanna.
13:45 Landsfundi slitið.

 

 

Óskar eftir fundi um lækkun afurðaverðs

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis, hefur óskað eftir því að nefndin ræði lækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda en afurðastöðvar hafa boðað lækkun til bænda sem nemur um 10 af hundraði.
Enn fremur munu framtíðarhorfur á kjötmarkaði innanlands og starfsskilyrði og búsetuöryggi bænda verða til umfjöllunar á fundinum.
Lilja Rafney hefur óskað eftir því að fundurinn verði haldinn hið fyrsta.

Opinn framboðsfundur í Norðvesturkjördæmi

Kjördæmisráð Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi boðar til opins fundar vegna forvalsins sem fer fram nú í haust. Fundurinn hefst í Alþýðuhúsinu í Borgarnesi, Sæunnargötu 2a, laugardaginn 27. ágúst kl. 14:00. Á fundinum munu frambjóðendur kynna sig og stefnumál sín, allir eru velkomnir. Kjördæmisráð mun einnig gefa út kynningarbækling á rafrænu formi í aðdraganda forvalsins.

Forvalið sjálft fer fram í póstkosningu 31. ágúst – 5. september.

 

ATHUGIÐ! Áður hafði verið gefin út önnur dagsetning á fundinn, þ.e. 24. ágúst, en ákveðið var að seinka fundinum um nokkra daga, og því er ný tímasetning laugardaginn 27. ágúst kl. 14:00.

Uppstilling í Suðvesturkjördæmi

Óskað eftir ábendingum um frambjóðendur

 

Á fundi kjördæmisráðs VG í Suðvesturkjördæmi þann 10. ágúst var ákveðið að hafa uppstillingu á lista fyrir alþingiskosningar 29. Október 2016.

Skipuð var sjö manna uppstillingarnefnd til þess að raða upp listanum.

Þeir sem hafa áhuga á því að taka sæti á listanum er bent á að senda tölvupóst til uppstillingarnefndar á listivgsv@gmail.com fyrir 22. Ágúst 2016.

Einnig óskar uppstillingarnefnd eftir ábendingum um einstaklinga sem gætu átt erindi á listann. Ábendingar má einnig senda á listivgsv@gmail.com fyrir 22. Ágúst 2016.

 

Uppstillingarnefnd VG suðvesturkjördæmi.

 

Með kveðju.

Arnþór Sig.

Ellefu í forvali VG í Norðvesturkjördæmi

Ellefu gefa kost á sér í forvali um sex efstu sætin á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar, fimm konur og sex karlar.  Framboðsfrestur rann út á miðvikudag og kjörskrá verður lokað 21. ágúst.  Forvalið fer fram í póstkosningu frá 31 ágúst – 5. September, sem er síðasti dagur til að póstleggja atkvæði.  Opinn kynningarfundur verður haldinn með frambjóðendum, en nánar verður greint frá því síðar.

Berghildur Pálmadóttir, Grundarfirði, 6.-8. sæti.

Bjarki Hjörleifsson, Stykkishólmi, 4-5. sæti

Bjarni Jónsson, Sauðárkróki, 1. sæti

Dagný Rósa Úlfarsdóttir, Blönduósi, 3.-5. sæti

Hjördís Pálsdóttir, Stykkishólmi, 5.-7. sæti

Ingi Hans Jónsson; Grundarfirði, 3.-6. sæti

Lárus Ástmar Hannesson, Stykkishólmi, 1.-2. sæti

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Suðureyri, 1. sæti

Reynir Eyvindsson, Akranesi, 2.-6 sæti.

Rúnar Gíslason, Borgarnesi, 1.-3. sæti

Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, Kleppjárnsreykjum, 4.-6. sæti

Yfirlýsing um framboð frá Bjarna Jónssyni

Hér með tilkynnist að ég  gef kost á mér í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar og býðst til þess að leiða listann í 1. sæti.

Ég hef ávallt haft brennandi áhuga á félagsmálum, hef tekið virkan þátt í starfi hreyfingarinnar allt frá stofnun hennar árið 1999 og er núverandi formaður Svæðisfélags VG í Skagafirði. Ég hef einnig setið í Sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir VG frá árinu 2002, verið forseti sveitarstjórnar, formaður landshlutasamtaka NV og sit í ráðgjafanefnd Jöfnunarssjóðs sveitarfélaga, ásamt því að hafa gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarstjórnarmála.

Einnig hef ég beitt mér sérstaklega fyrir og unnið að hagsmunum landsbyggðinnar og hinna dreifðu byggða með margvíslegum hætti og ýmsum öðrum vettvangi. Áhugi minn hefur beinst að nýsköpun, menntun og æskulýðsstarfi, s.s. með því að sinna formennsku við  skólanefnd Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra,  þátttöku í sérfræðinefnd menntamálaráðherra um framtíðarskipulag rannsókna og háskólastarfs 2009, auk þess að vera formaður Landsmótsnefndar UMFÍ vegna Landsmóts á Sauðárkróki 2004. Þá sat ég um nokkurra ára skeið í stjórn Byggðastofnunar, var framkvæmdastjóri sameiningarnefndar í Skagafirði árið 1997 og svo mætti áfram telja.

Ég  tel mig hafa víðtæka reynslu og þekkingu á málefnum  landsbyggðarinnar og vil gjarna beita kröftum mínum í þágu kjördæmisins. Mín áherslumál í sveitarstjórn sem og á vettvangi landshlutasamtaka hafa verið heilbrigðismál, umhverfi, samgöngubætur og atvinnusköpun á landsbyggðinni. Þau áherslumál þarf einnig að taka upp með beittari hætti á landsvísu. Þá brenn ég einnig fyrir grunngildum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um náttúruvernd,  jöfnuð og byggðajafnrétti, sem eiga svo sannarlega erindi til Íslendinga hvar sem þeir búa.

Æviágrip

Ég er fæddur 6. júní 1966 og ólst upp  í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 14 ára aldurs er fjölskyldan fluttist að Hólum í Hjaltadal. Að Hólum bjó ég  fram til  ársins 2010 að ég fluttist til Sauðárkróks. Eiginkona mín er Izati Zahra, og á ég eina dóttur af fyrra sambandi, Kristínu Kolku (fædd 1994).

Stúdentsprófi lauk ég frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árið 1986 og BA prófi í hagsögu með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 1992. Síðan lauk ég meistaraprófi í fiskifræði og stærðfræðilegri tölfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum árið 1996. Nú stunda ég meistaranám í forystu og stjórnun, með áherslu á sjálfbæra stjórnun, við Háskólann á Bifröst samhliða öðrum störfum.

Ég hef á undanförnum árum átt í víðtæku vísindasamstarfi við ýmsa erlenda háskóla og rannsóknastofnanir og dvalið um tíma við Stanford háskóla og Háskólann í Tokyo. Þá hef ég ritað fjölda fræðigreina í erlend vísindarit um rannsóknir tengdar ferskvatnsfiskum, þróunarvistfræði og erfðafræði. Hérlendis hef ég verið virkur í greinaskrifum um þjóðmál ekki síður en náttúrufræði og auðlindanýtingu.

Ég vann margvísleg störf til sjávar og sveita á yngri árum, en eftir nám ytra starfaði ég lengst af sem Forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar, um tíma hjá Biopol, að verkefnum tengdum félagsmálum, rannsóknum og ráðgjöf, en er nú starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands Vestra.

Með baráttukveðjum

Bjarni Jónsson

Lárus Ástmar í forystusæti

Gef kost á mér í 1. til 2. sæti í forvali Vg í Norðvesturkjördæmi

Ég undirritaður Lárus Ástmar Hannesson, í Stykkishólmi,  býð mig fram í 1. – 2. Sætið á lista í forvali Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi, fyrir komandi Alþingiskosningar.  Ég hef tekið virkan þátt í starfi VG um árabil, verið varaþingmaður frá 2013. Ég hef setið í bæjarstjórn Stykkishólms í tíu ár, verið forseti bæjarstjórnar í 4 ár, um tíma formaður bæjarráðs og bæjarstjóri í lok síðasta kjörtímabils.  Ég er búfræðingur og kennari að mennt.

Ég er formaður Landssambands hestamannafélaga frá 2014 og formaður Landsmóts ehf einnig frá 2014.

Ég er fæddur í Stykkishólmi 1966 og hef búið þar mestan part ævinnar. Ég er giftur Maríu Ölmu Valdimarsdóttur rekstrarfræðingi hjá Sæferðum. María er frá Akranesi og eigum við fjögur börn Hrefnu Rós (1994), Halldóru Kristínu (1997), Önnu Soffíu (1999) og Valdimar Hannes (2003).

Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og þá ekki síst málefnum landsbyggðarinnar og að hún fái tækifæri að nýta þá möguleika til uppbyggingar sem á hverju svæði eru og þjónusta við íbúana sé eins og best verður á kosið.

Lárus Ástmar Hannesson Stykkishólmi