Kjördæmisráð NV boðar til fundar 10. ágúst

Aðalfundur kjördæmaráðs VG í Norðvesturkjördæmi verður haldinn fimmtudaginn 10. ágúst nk. í félagsheimilinu Hvammstanga.

Fundurinn hefst kl. 18:00 og áætluð fundarlok eru kl. 21:00.

Efni fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Fundarmönnum stendur til boða léttur kvöldverður, súpa og brauð á krónur 1500. Tilgreina þarf þátttöku í kvöldverði fyrir 3. ágúst til stjórnar.

Félagar eru hvattir til að fjölmenna.

Minnt er á að hvert svæðisfélag innan kjördæmisráðsins á samkvæmt lögum VG rétt á að tilnefna á aðalfund kjördæmisráðsins einn fulltrúa fyrir hverja fimm félaga.

Stjórn kjördæmaráðs VG í Norðvesturkjördæmi/Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, formaður kjördæmisráðs.

Stjórn VG á Suðurnesjum gegn mengandi stóriðju

Yfirlýsing: FRÁ VG Á SUÐURNESJUM

Umhverfistofnun hefur brugðist hlutverki sínu við náttúru og almenning og ekki starfað samkvæmt lögum.

 

Með því að beita sér ekki til að tryggja heilnæmt umhverfi er Umhverfisstofnun að bregðast hlutverki sínu gagnvart almenningi á Suðurnesjum.

UST bregst hlutverkinu sem henni er ætlað að starfa eftir, samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, með því að stöðva ekki iðnað sem veldur tjóni og hefur neikvæð áhrif á heilsufar almennings og röskun lífríkis og umhverfi.

Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi.

Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 90/2002 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem hljóða svo:  Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. (1998nr. 7 12. Mars)

UST hefur sýnt einstakt ábyrgðarleysi gagnvart íbúum Reykjanesbæjar með því að veita starfsleyfi til tveggja kísilverksmiðja kilometra frá íbúarbyggð.

Mengandi iðjuver á Suðurnesjum bera einhliða ábyrgð á umhverfisvöktun á eigin mengun samkvæmt starfsleyfum sem UST gefur út og ber ábyrgð á.

 

Umhverfisstofnun vinnur því gegn lagalegri skyldu sinni þar sem allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið án eftirlits eða ábyrgðar.

Vinstri hreyfingin Grænt framboð á Suðurnesjum mun berjast gegn mengandi stóriðju á Suðurnesjum til framtíðar.

Stjórn VG á Suðurnesjum

Yfirlýsing stjórnarandstöðu vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar

Sameiginleg yfirlýsing þingflokka Vinstri-grænna, Pírata, Framsóknar og Samfylkingar við upphaf umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er aukin velsæld, jöfnuður og brýn uppbygging innviða samfélagsins ekki í forgangi. Það er ámælisvert, sérstaklega í ljósi þess að eftir mörg mögur ár frá bankahruni hefur myndast svigrúm til þess að gera betur. Þessi ríkisstjórn hyggst ekki nýta sér það svigrúm til hagsbóta fyrir alla.

Áætlunin endurspeglar fjármálastefnuna þar sem sett er svokallað útgjaldaþak og boðuð sveltistefna í velferð og menntun, sem og öðrum mikilvægum málaflokkum. Ríkisstjórnin horfist ekki í augu við nauðsyn þess að styrkja tekjustofna ríkisins með réttlátum hætti þannig að skattkerfið og arður af auðlindum tryggi í senn öflugt samfélag og auki jöfnuð. Skattlagning er sett upp sem andstaða frelsis sem lýsir þeim anda nýfrjálshyggju sem fjármálaáætlunin endurspeglar.

 • Heilbrigðismál; aukning til heilbrigðismála er fyrst og fremst í byggingu nýs Landspítala, sem þegar hafði verið ákveðið að ráðast í, þar er því ekki verið að leysa viðvarandi og aðsteðjandi vanda heilbrigðisþjónustunnar
 • Samgöngumál; framlög hækka um fimm milljarða á föstu verðlagi og verður það að teljast hláleg upphæð í ljósi þess að við afgreiðslu síðustu fjárlaga kom í ljós að 12-15 milljarða vantaði til að fjármagna þegar samþykkta samgönguáætlun
 • Menntamál; aukningu til menntamála má fyrst og síðast skýra með byggingu Húss íslenskra fræða; háskólastigið er undirfjármagnað og framlög til framhaldsskóla dragast saman
 • Húsnæðismál; þau eru ekki nefnd í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og kemur því ekki á óvart að gert er ráð fyrir að húsnæðisstuðningur dragist saman á tímabilinu með því að halda viðmiðunarfjárhæðum vaxtabótakerfisins óbreyttum á tímabilinu og þær verða því í raun skertar
 • Kjör aldraðra og öryrkja; erfitt er að sjá að tíu milljarða aukning á tímabilinu dugi til þess að örorkulífeyrir dugi til framfærslu en bæði þarf að hækka grunnframfærsluna og auka möguleika öryrkja á að afla sér tekna; sömu áskoranir blasa við þegar kemur að kjörum aldraðra.
,

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

 

Þingflokkur VG harmar hið mikla mannfall sem orðið hefur í hræðilegum stríðsátökum í Sýrlandi, Írak og Jemen undanfarin misseri, nú siðast í loftárásum á borgina Idlib. Ljóst er að alþjóðalög um vernd almennra borgara á átakatímum eru þverbrotin af stríðsaðilum í þessum löndum, ekki síst með loftárásum sem fara ekki í manngreinarálit. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld að nýta hvert tækifæri til að koma á framfæri mótmælum sínum vegna mannfalls almennra borgara, þar á meðal barna, í þessum löndum og annars staðar. Sérstaklega fordæmir þingflokkurinn notkun efnavopna sem er skýlaust brot á alþjóðlegum sáttmálum en sterkar vísbendingar eru um að þeim hafi nú verið beitt í Sýrlandi.  Þingflokkur VG áréttar jafnframt þá skyldu Íslands að axla ábyrgð í því að veita þolendum stríðsátaka skjól og vernd. Í Miðausturlöndum verður ekki komið á friði með vopnavaldi, drápum og stigmögnun ofbeldis. Samningar eru alltaf rétta leiðin til að ná markmiðinu um frið og jafnvægi.

 

Hægt er að ná í fulltrúa VG í utanríkismálanefnd til viðtals um yfirlýsinguna. Þær eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, s. 824-6743 og Steinunn Þóra Árnadóttir s. 690-2592.

 

Tilkynning vegna flokksráðsfundar

Frestur til að skila inn ályktunum fyrir flokksráðsfundinn 4. mars rennur út á miðnætti á miðvikudagskvöldið 1. mars og skulu berast í tölvupósti á vg@vg.is. Í lögum er kveðið á um „vikufrest, verði því við komið“. Ekki var minnst á ályktanaskil í boðsbréfi á flokksráðsfund, enda er þessi fundur er starfsfundur, en ekki ályktanafundur, svo tími til afgreiðslu ályktana er takmarkaður í dagskrá.

Til að bregðast við framkomnum óskum, er frestur auglýstur, sem áður segir, á miðnætti 1. mars  Tillögurnar verða sendar fulltrúum í flokksráði, til kynningar, í tölvupósti á fimmtudag.   Samþykktar ályktanir verða birtar á heimasíðu VG að loknum flokksráðsfundi.

Úr lögum um flokksráð:

VIII. Flokksráð

29. grein

Flokksráð mynda aðalmenn í stjórn, þingflokkur og sveitarstjórnarfulltrúar hreyfingarinnar, formenn kjördæmisráða, formenn svæðisfélaga og fulltrúi ungliðahreyfingar flokksins. Í forföllum taka varamenn í viðkomandi trúnaðarstörfum sæti.

Auk þess eru 40 flokksráðsfulltrúar og 10 til vara kjörnir sérstaklega á landsfundi. Varamenn í flokksráði taka sæti í forföllum aðalmanna í þeirri röð sem þeir eru kjörnir. Varaformaður hreyfingarinnar er jafnframt formaður flokksráðs.

Tillögur sem leggja skal fyrir flokksráð skal skila til stjórnar  hreyfingarinnar viku fyrir fund, verði því við komið. Fundir flokksráðs skulu vera opnir öllum félögum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Almennir félagar skulu hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

30. grein

Flokksráð hefur æðsta vald í öllum málefnum Vinstri grænna á milli landsfunda.

31. grein

Fundir stjórnar hreyfingarinnar og flokksráðs eru lögmætir þegar meirihluti fulltrúa er viðstaddur. Flokksráðsfundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Flokksráð setur sér fundarsköp og skal fundum þess stjórnað samkvæmt þeim.

Óski 25 flokksráðsfulltrúar eftir fundi skal hann boðaður svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan þriggja vikna frá því að skrifleg beiðni þar um er send formanni flokksráðs.

32. grein

Á síðasta fundi flokksráðs fyrir landsfund gerir stjórn hreyfingarinnar grein fyrir afdrifum ályktana síðasta landsfundar.

 

,

Breyting á dagskrá flokksráðsfundar

Jafnréttismál í stað alþjóðastjórnmála

Áður boðaður gestur flokksráðsfundar Guðmundur Hálfdánarson, sem ætlaði að ræða alþjóðastjórnmálin í erindi á fundinum, er  forfallaður af óviðráðanlegum ástæðum.
Jafnréttismál og jafnlaunavottun er eitt af heitu málunum í umræðu dagsins  sem ákveðið hefur verið að taka til umræðu á flokksráðsfundi í staðin. Sérstakir gestir fundarins, verða Maríanna Traustadóttir, fulltrúi ASÍ í aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og Hannes G. Sigurðsson, fulltrúi atvinnurekenda í sama hópi. Þau nálgast málin frá ólíku sjónarhorni og munu svara fyrirspurnum  í lok erinda þeirra.

Flokksráðsfundargestum er bent á að alþjóðamálin verða tekin fyrir á vegum VG á opnum fundi í Norræna húsinu 28. mars.  Jafnframt er bent á að eftir sem áður verður starfshópur um alþjóðastjórnmál, eins og áður var boðað.

Yfirlýsing frá þingflokki VG

 

Nýliðnar stjórnarmyndunarviðræður hafa verið gagnlegar þrátt fyrir að ekki hafi náðst samstaða um að halda þeim áfram að sinni.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur í viðræðum um stjórnarmyndun frá kosningum og nú í tengslum við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 talið brýnt að gerðar verði breytingar í þágu nauðsynlegra umbóta í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum og uppbyggingu innviða. Það er mat þingflokksins að til að mæta lágmarksþörfum og koma til móts við ákall úr samfélaginu í þessum efnum þurfi, varlega áætlað, á þriðja tug milljarða króna.

Ennfremur verður að takast á við raunverulega uppbyggingu á þessum sviðum í ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Mikil samstaða var um mikilvægi þessara áherslna í aðdraganda kosninga enda um afar brýn verkefni að ræða. Umbæturnar þarf að fjármagna með ábyrgum hætti í tekjuöflunarfrumvarpinu sem liggur fyrir þinginu og í framhaldinu liggi fyrir áætlanir um tekjuöflun til næstu fimm ára.

Aðalfundur VG í Reykjavík

Tilkynning frá Vinstri grænum í Reykjavík:

 

Aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 27. september nk. í kosningamiðstöðinni, Laugavegi 170  í Reykjavík.

Fundurinn hefst kl. 20.00 og ráðgert að honum ljúki kl. 22.

Dagskrá:

 

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Fundargerð síðasta aðalfundar.
 3. Tillaga stjórnar um að fresta stjórnarkjöri og afgreiðslu á skýrslu stjórnar þar til að afloknum kosningum og að haldinn verði framhaldsaðalfundur eigi síðar en mánuði eftir kjördag. Á þeim fundi verða tvö mál á dagskrá: Skýrsla stjórnar og kjör formanns og stjórnar.
 4. Skýrsla stjórnar.
 5. Ársreikningar fyrir almanaksárið 2015 kynntir og bornir upp til samþykktar.
 6. Ársreikningar fyrir fyrri hluta þessa árs kynntir.
 7. Félagsgjöld ákveðin.
 8. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga.
 9. Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn a.m.k. viku fyrir aðalfund.

Að loknum aðalfundarstörfum:

 1. Önnur mál. – Farið yfir áherslur í kosningabaráttu, kosningastjóri kynntur.

 

Við bjóðum upp á kaffi og kleinur og kosningasjóðurinn verður á sínum stað. Við hlökkum til að sjá ykkur á fundinum.

 

Tilkynningu VGR auk laga félagsins má finna í heild sinni hér.

 

Stjórn fiskveiða og jöfnuður í Færeyjum – Færeyskir ráðherrar heimsækja VG 

Sjávarútvegsráðherra, fjármálaráðherra og innanríkis- og velferðarráðherra Færeyja úr Þjóðveldisflokknum heimsækja VG á Íslandi alla næstu helgina. Rætt verður um stefnu og markmið færeysku ríkisstjórnarinar sem er að tryggja að arðurinn af auðlindunum komi öllu samfélaginu að gagni.

Færeysku ráðherrarnir, Högni Höydal, sjávarútvegsráðherra, Kristína Háfoss, fjármálaráðherra og Sirið Stenberg, innanríkis- og velferðarráðherra, fara yfir þessi meginmarkmið færeysku ríkisstjórnarinnar á ráðstefnu í Norræna húsinu á laugardaginn, 10. september, frá klukkan eitt til fimm. Henni lýkur með pallborði þar sem ráðherrarnir þrír og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG sitja fyrir svörum. Jóhann Hauksson, fréttamaður stýrir umræðunum.

Högni Höydal, sjávarútvegsráðherra og formaður Þjóðveldisflokksins, systurflokks VG, heldur svo til Akureyrar á sunnudeginum 11. september og kynnir fiskveiðistjórnun á umræðufundi málstofu auðlindadeildar og lögfræðitorgs Háskólans á Akureyri. Fundurinn þar ber heitið „Stjórn fiskveiða í Færeyjum og uppboðsleiðin „uppboðsroyndirnar““.


Háskólinn á Akureyri

Stjórn fiskveiða í Færeyjum og útboðsleiðin
Sameiginlegur umræðufundur málstofu auðlindadeildar og lögfræðitorgs

Hvenær: Sunnudaginn 11. september kl. 14.00
Hvar: í stofu M102 (við aðalinngang HA) Sólborg v/Norðurslóð
Fyrirlesari: Högni Hoydal sjávarútvegsráðherra Færeyja

Sjávarútvegur er burðarstoð í færeysku efnahagslífi og hafa Færeyingar því líkt og við Íslendingar reynt ýmsar leiðir til að hámarka afrakstur sjávarauðlinda sinna. Nú síðast var gerð tilraun með að bjóða út hluta af aflaheimildunum og hefur það vakið talsverða athygli hér á landi. Á þessum fyrirlestri mun Högni fara yfir hvernig útboðs aflaheimilda var útfærð. Högni Höydal er formaður Þjóðveldisflokksins í Færeyjum og sjávarútvegsráðherra Færeyja.