Lilja Rafney vill leiða lista í NV-kjördæmi áfram

Tilkynning um þátttöku í forvali Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs

Ég býð mig fram í forvali VG og gef kost á mér til að leiða áfram lista VG í Norðvesturkjördæmi. Þau sjö ár sem ég hef setið á Alþingi hafa verið miklir og lærdómsríkir umbrotatímar í lífi þjóðarinnar. Sú reynsla sem ég hef hlotið á þessum tíma hefur nýst mér vel og mun ég nota hana áfram eins og hingað til á uppbyggilegan hátt í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi fyrir alla.

Ég er landsbyggðar- og alþýðukona, sprottin úr jarðvegi verkalýðsbaráttu og baráttu fyrir hagsmunamálum landsbyggðarinnar. Ég gjörþekki lífsbaráttu fólksins til sjávar og sveita. Landsbyggðin er minn staður og ég hef búið áfram í mínu byggðarlagi –Suðureyri við Súgandafjörð – eftir að ég varð þingmaður þótt vinnan fari að mestu fram í Reykjavík. Bakgrunnur minn úr verkalýðsmálum og sveitarstjórnarmálum hefur nýst mér vel í störfum mínum sem þingmaður.

Ég hef alltaf tekið og mun alltaf taka slaginn fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Barátta mín á Alþingi hefur einkum snúist um að koma fram breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, stuðla að innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, öflugum landbúnaði, jafnrétti til náms, náttúruvernd og endurreisn heilbrigðis- og velferðarkerfisins þar sem hagsmunir aldraðra, öryrkja og unga fólksins eru tryggðir. Það er vissulega mikilvægt að hafa góðar hugsjónir en það er ekki síður mikilvægt að fylgja þeim eftir og tala fyrir þeim við hvert tækifæri. Aukinn jöfnuður er lykilatriði í þeim breytingum sem ég vil gera á samfélagi okkar. Við eigum öll að hafa sömu tækifæri til lífs og þroska, við berum öll ábyrgð og skyldur gagnvart samfélagi okkar og okkur ber að hafna sérhagsmunagæslu og spillingu afdráttarlaust.

Ég þekki hinn pólitíska slag og er reiðubúin til að berjast áfram með Vinstri grænum hinni góðu baráttu fyrir jöfnuði og velmegun um land allt. Ég leita því stuðnings kjósenda til að leiða áfram framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

Með góðri kveðju.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
alþingismaður.

Forval í Norðvesturkjördæmi 31. ágúst – 5. september

Framboðsfrestur til 10 ágúst

Á aðalfundi kjördæmisráðs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi í júní síðastliðnum var samþykkt að fram færi forval vegna komandi alþingiskosninga í haust.

Forvalið hefst 31. ágúst, með póstkosningu. Síðasti dagur til að póstleggja greidd atkvæði verður 5. september.

Frestur til að skila inn framboðum er til 10. ágúst nk. til kjörstjórnar á netfangið: forvalvg2016@gmail.com  Kjörseðlar verða sendir út 24. ágúst.

Kosningarétt hafa skráðir félagsmenn í félögum í kjördæminu og eru skráðir  21. ágúst, eða 10 dögum fyrir upphaf forvals. Kosið verður um  efstu sex sætin og er kosning bindandi í efstu fjögur sætin, að teknu tilliti til kynjakvóta, skv. reglum framboðsins þar um.

Utanríkismálanefnd Alþingis ræði neyðarástand í Tyrklandi

 

 

 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, hefur óskað eftir fundi í nefndinni hið fyrsta um neyðarástand og þróun mála í Tyrklandi.

 

“Það er því miður rík ástæða til að kalla saman utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða það grafalvarlega ástand sem nú ríkir Tyrklandi og möguleg viðbrögð við því” segir Steinunn Þóra.

 

Þingflokkur VG sendi nýverið frá sér yfirlýsingu þar sem staða mála í Tyrklandi var fordæmd harðlega; fjöldahandtökur þar í landi, uppsagnir þúsunda óbreyttra borgara og skerðingu á ferðafrelsi á grundvelli pólitískra skoðana. Þingflokkur VG leggur einnig áherslu á að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, nýti hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að koma skýrt á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda og íslensks almennings af mannréttindabrotum í Tyrklandi.

Þingflokkur fordæmir mannréttindabrot tyrkneskra stjórnvalda

Mikilvægi lýðræðis og varðstaða um mannréttindi í Tyrklandi

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir samstöðu með tyrkneskum almenningi , harmar mannfall í landinu og tekur undir með þeim sem hafa þungar áhyggjur af stöðu og þróun mála í Tyrklandi og nú síðast neyðarástandinu sem lýst hefur verið í landinu.

Þingflokkurinn fordæmir harðlega fjöldahandtökur, uppsagnir þúsunda óbreyttra borgara og skerðingu á ferðafrelsi á grundvelli pólitískra skoðana. Slíkt er algjörlega ótækt og kallar á alvarlegar athugasemdir á alþjóðlegum vettvangi.

Þingflokkurinn fordæmir brot á mannréttindum harðlega og telur mikilvægt að mannréttindi allra tyrkneskra borgara séu tryggð, lýðræði virt í hvívetna og að tyrkneskir borgarar njóti fullrar verndar óháð stöðu eða stétt.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar stuðning við lýðræðislegar stofnanir og lýðræðislega stjórnskipun sem eru grunnstoðir siðmenntaðra samfélaga og fordæmir alla tilburði til pólitískra hreinsana.

Loks leggur þingflokkurinn áherslu á að utanríkisráðherra nýti hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að koma skýrt á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda og íslensks almennings af mannréttindabrotum í Tyrklandi.

Evrópskt samstarf um lýðræði og velferð 

Norrænir formenn vinstri grænna flokka vilja umræður um framtíð evrópskrar samvinnu

Formenn sjö vinstri grænna flokka á Norðurlöndum lýsa yfir vilja til að stefna að áframhaldandi og nánu samstarfi við Bretland eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Norrænu formennirnir vilja ekki reisa nýjar hindranir í veg þeirra sem vilja sækja menntun,  búa, starfa eða stunda viðskipti  yfir landamæri í álfunni.  Evrópusambandið má ekki refsa Bretlandi, heldur ber að tryggja nána samvinnu áfram.
Við viljum að Evrópusambandið nýti þennan möguleika til að bæta sambandið og rétta af  lýðræðishalla og lagfæra ýmsa bresti í samstarfinu.  Þar viljum við sérstaklega benda á réttindi launþega. Við viljum að Evrópusambandið og EES svæðið sameinist um félagslegan sáttmála sem staðfestir að ekki verði hægt samkvæmt Evrópurétti, að taka úr sambandi lög og samningsbundinn rétt launþega á vinnumarkaði. Evrópusambandið á ekki að líða félagsleg undirboð í löndum sambandsins með því að skýla sér bak við samninga við lönd utan Evrópu.
Við verðum að hefja umræður um framtíð evrópskrar samvinnu og aðlögun. Ekki síst þarf að ræða afleiðingar efnahagsstefnu Evrópusambandsins fyrir velferð og vinnumarkað. Lönd sem vilja yfirgefa evrusvæðið verða að geta tekið þátt í þeirri umræðu.
Við viljum stuðla að meira jafnrétti og lýðræðislegri leiðum í samstarfi milli Evrópusambandins og þeirra Evrópulanda sem standa utan sambandsins. Leiðir sem geta komið í staðinn fyrir núgildandi EES-saming.  Og við viljum evrópskt samstarf sem er opið gagnvart umheiminum en lokar ekki aðrar þjóðir úti.
Vinstri Grænir flokkar á Norðurlöndum styðja allar gerðir sterkrar evrópskrar samvinnu þar sem lýðræðið er haft að leiðarljósi og stuðlað að bættri velferð og jafnrétti fólks meðal þjóða heims.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Högni Höydal, formaður Tjódveldis.
Sara Olsvig, formaður Inuit Ataqatigiit..
Audun Lysbakken, formaður Sosialistisk Venstreparti.
Li Anderson, formaður Vänsterforbundet.
Jonas Sjöstedt, formaður Vänsterpartiet.
Pernille Skipper, talsmaður Enhedslisten.

Flokksráðsfundur og sumarferð

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs verður haldinn á Akureyri 9 – 10 september næstkomandi. Sumarferð er strax að loknum fundinum, um hádegi laugardaginn 10. september. Ætlunin er að fara í skoðunarferð um Tröllaskaga og í berjamó, ef veður leyfir og berin eru enn girnileg. Nánari upplýsingar upp þessa viðburði koma síðar, en nú er hægt að taka helgina frá. Gert er ráð fyrir að gista eina nótt, frá laugardegi til sunnudags og koma heim sunnudaginn 11. september. Það þarf að skrá sig sérstaklega í sumarferðina. Hún er að sjálfsögðu opin öllum félögum hreyfingarinnar þótt þeir séu ekki í flokksráði og hafi ekki sótt flokksráðsfundinn.

Vegna sameiginlegrar yfirlýsingar Bandaríkjanna og Íslands

“Vegna frétta af undirritun sameiginlegrar yfirlýsingar varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og Utanríkisráðuneytis Íslands 29. júní vill fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Utanríkismálanefnd Alþingis koma eftirfarandi á framfæri:
Á liðnum mánuðum hafa ítrekað birst í erlendum fjölmiðlum fegnir af áformum um aukin umsvif Bandaríkjahers á Íslandi. Er þar skemmst að minnast umræðu um breytingar á flugskýlum á Keflavíkurflugvelli. Viðbrögð íslenskra ráðamanna hafa frá upphafi verið á þá leið að gera lítið úr málinu með orðhengilshætti um að ekki séu uppi viðræður um „viðvarandi veru“ herliðs á Íslandi.
Í ljósi þessa aðdraganda er það óviðunandi að utanríkisráðherra beið fram á síðasta starfsdag nefnda fyrir sumarleyfi með að upplýsa utanríkismálanefnd um að til stæði að undirrita þessa yfirlýsingu. Það er ótækt að ráðherrar hindri opna og upplýsta umræðu um mikilvæg mál með því að beita slíkum brögðum. Málefni sem þessi má ekki loka inni í utanríkismálanefnd þar sem fulltrúar eru bundnir trúnaði.
Yfirlýsingin festir enn frekar í sessi herflugæfingar þær sem kallaðar hafa verið „loftrýmisgæsla“ sem og viðveru kafbátarleitarvéla á landinu. Því ber að túlka yfirlýsinguna sem skref íslenskra og bandarískra stjórnvalda í þá átt að starfrækja herstöð á Íslandi líkt og gert var um áratuga skeið.
Markmið yfirlýsingarinnar er greinilega að skerpa á Varnarsamningnum frá 1951. Það teljum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði vera skref til fortíðar og nær væri að segja samningnum upp enda var hann gerður við allt aðrar aðstæður en nú ríkja.
Öryggi Íslands á 21. öldinni verður ekki tryggt með hernaðarbandalögum, orrustuflugvélum eða öðrum vígtólum. Það er skýr stefna VG að Ísland eigi að vera herlaust land og standa utan hernaðarbandalaga en efla þátttöku sína í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.”

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður og fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Utanríkismálanefnd Alþingis.

Af framboðsmálum í Reykjavík

Kæri félagi

Nú hefjum við undirbúning kosninga í kjördæmunum tveimur í Reykjavík en félagsfundur ákvað þriðjudaginn 6. júní að fela fimm manna kjörnefnd* að gera tillögu að uppstillingu á listana og leggja fyrir félagsfund til afgreiðslu fyrir ágústlok. Í samræmi við reglur hreyfingarinnar um uppstillingu** auglýsir kjörnefnd hér með eftir þeim sem áhuga hafa á að taka sæti á lista og kallar jafnframt eftir uppástungum um fólk á framboðslista.

Tekið er á móti pósti frá áhugasömum félögum og uppástungum um fólk á framboðslista í netfangið:

hugmyndir@vgr.is

en einnig er hægt að senda bréf til kjörnefndar

VGR, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.  

Hægt er að senda inn nöfn fyrir 1. júlí n.k.

Gera þarf að gera grein fyrir þeim sem stungið er uppá, t.d. með heimilisfangi, starfsheiti eða netfangi. Hver félagi getur stungið upp á eins mörgum nöfnum og vilji er til og sent inn hugmyndir oftar en einu sinni fyrir tilskilinn tíma. Hvert nafn verður aðeins skráð einu sinni á blöð kjörstjórnar þannig að tilgangurinn er ekki að safna saman mörgum uppástungum um sama nafnið.

Stjórn félagsins vill einnig nota tækifærið til að minna félagsmenn á að greiða félagsgjöldin sem fyrst og bregðast vel við þegar hreyfingin kallar eftir sjálfboðaliðum og framlögum í kosningasjóð. Í aðdraganda kosninga er mikilvægt að fjárhagur félagsins sé sterkur og að við stöndum saman að því að vinna stefnumálum Vinstri grænna brautargengi. Margar hendur vinna létt verk og eru öll framlög vel þegin.

Einnig óskar stjórnin eftir upplýsingum um breytt heimilisfang, símanúmer og ekki síst netfang því réttar upplýsingar eru nauðsynlegar til að samskiptin milli stjórnar félagsins og félagsmanna verði eins og best verður á kosið. Það er sérstaklega mikilvægt á kosningaári að stjórn félagsins nái örugglega til sem flestra félagsmanna. Þessar upplýsingar má senda á Steinar Harðarson gjaldkera VG í Reykjavík á steinarh@simnet.is

Baráttukveðjur, X-V í haust!

Benóný Harðarson, formaður VGR og Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður kjörnefndar

Kjörnefndina skipa: Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður, Auður Lilja Erlingsdóttir, Elías Jón Guðjónsson, Ragnar Auðun Árnason og Steinar Harðarson.

** „4. gr. Uppstillingarnefnd skal auglýsa eftir áhugasömum og gefa félögum kost á að stinga upp á öðrum frambjóðendum.“

Framboðslisti í Norðausturkjördæmi samþykktur

Listi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, fyrir komandi alþingiskosningar, var samþykktur á félagsfundi á Sel Hóteli í Mývatnssveit í gær.

Framboðslisti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2016

 1. Steingrímur Jóhann Sigfússon, alþingismaður, Gunnarsstöðum, Þistilfirði
 2. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður, Ólafsfirði
 3. Björn Valur Gíslason, stýrimaður og varaformaður VG, Akureyri
 4. Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari, Neskaupstað
 5. Óli Halldórsson, forstöðumaður og sveitarstjórnarfulltrúi Norðurþings, Húsavík.
 6. Berglind Häsler, bóndi, matvælaframleiðandi og tónlistarmaður, Karlsstöðum, Djúpavogi
 7. Edward H. Huijbens, prófessor, Akureyri
 8. Hjördís Helga Seljan, grunnskólakennari, Reyðarfirði
 9. Sindri Geir Óskarsson, guðfræðingur, Þingeyjarsveit
 10. Þuríður Skarphéðinsdóttir, hjúkrunarfræðinemi, Egilsstöðum
 11. Aðalbjörn Jóhannsson, verkefnastjóri á æskulýðssviði og nemi, Norðurþingi
 12. Harpa Guðbrandsdóttir, gjaldkeri hjá Íslandspósti, Akureyri
 13. Gunnar S. Ólafsson, framhaldsskólakennari, Neskaupsstað
 14. Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi, Akureyri
 15. Kristján Eldjárn Hjartarson, bygginga- og búfræðingur, Tjörn, Dalvík
 16. Sif Jóhannesdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og sveitarstjórnarfulltrúi, Húsavík
 17. Kjartan Benediktsson, smiður, Akureyri
 18. María Hjarðar, nemi, Egilsstöðum
 19. Þorsteinn Gunnarsson, sérfræðingur, Rannís og fyrrv. rektor Háskólans á Akureyri, Akureyri
 20. Kristín Sigfúsdóttir, umhverfisfræðingur og framhaldsskólakennari, Akureyri