Óskar eftir fundi um lækkun afurðaverðs

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis, hefur óskað eftir því að nefndin ræði lækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda en afurðastöðvar hafa boðað lækkun til bænda sem nemur um 10 af hundraði.
Enn fremur munu framtíðarhorfur á kjötmarkaði innanlands og starfsskilyrði og búsetuöryggi bænda verða til umfjöllunar á fundinum.
Lilja Rafney hefur óskað eftir því að fundurinn verði haldinn hið fyrsta.

Opinn framboðsfundur í Norðvesturkjördæmi

Kjördæmisráð Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi boðar til opins fundar vegna forvalsins sem fer fram nú í haust. Fundurinn hefst í Alþýðuhúsinu í Borgarnesi, Sæunnargötu 2a, laugardaginn 27. ágúst kl. 14:00. Á fundinum munu frambjóðendur kynna sig og stefnumál sín, allir eru velkomnir. Kjördæmisráð mun einnig gefa út kynningarbækling á rafrænu formi í aðdraganda forvalsins.

Forvalið sjálft fer fram í póstkosningu 31. ágúst – 5. september.

 

ATHUGIÐ! Áður hafði verið gefin út önnur dagsetning á fundinn, þ.e. 24. ágúst, en ákveðið var að seinka fundinum um nokkra daga, og því er ný tímasetning laugardaginn 27. ágúst kl. 14:00.

Uppstilling í Suðvesturkjördæmi

Óskað eftir ábendingum um frambjóðendur

 

Á fundi kjördæmisráðs VG í Suðvesturkjördæmi þann 10. ágúst var ákveðið að hafa uppstillingu á lista fyrir alþingiskosningar 29. Október 2016.

Skipuð var sjö manna uppstillingarnefnd til þess að raða upp listanum.

Þeir sem hafa áhuga á því að taka sæti á listanum er bent á að senda tölvupóst til uppstillingarnefndar á listivgsv@gmail.com fyrir 22. Ágúst 2016.

Einnig óskar uppstillingarnefnd eftir ábendingum um einstaklinga sem gætu átt erindi á listann. Ábendingar má einnig senda á listivgsv@gmail.com fyrir 22. Ágúst 2016.

 

Uppstillingarnefnd VG suðvesturkjördæmi.

 

Með kveðju.

Arnþór Sig.

Ellefu í forvali VG í Norðvesturkjördæmi

Ellefu gefa kost á sér í forvali um sex efstu sætin á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar, fimm konur og sex karlar.  Framboðsfrestur rann út á miðvikudag og kjörskrá verður lokað 21. ágúst.  Forvalið fer fram í póstkosningu frá 31 ágúst – 5. September, sem er síðasti dagur til að póstleggja atkvæði.  Opinn kynningarfundur verður haldinn með frambjóðendum, en nánar verður greint frá því síðar.

Berghildur Pálmadóttir, Grundarfirði, 6.-8. sæti.

Bjarki Hjörleifsson, Stykkishólmi, 4-5. sæti

Bjarni Jónsson, Sauðárkróki, 1. sæti

Dagný Rósa Úlfarsdóttir, Blönduósi, 3.-5. sæti

Hjördís Pálsdóttir, Stykkishólmi, 5.-7. sæti

Ingi Hans Jónsson; Grundarfirði, 3.-6. sæti

Lárus Ástmar Hannesson, Stykkishólmi, 1.-2. sæti

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Suðureyri, 1. sæti

Reynir Eyvindsson, Akranesi, 2.-6 sæti.

Rúnar Gíslason, Borgarnesi, 1.-3. sæti

Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, Kleppjárnsreykjum, 4.-6. sæti

Yfirlýsing um framboð frá Bjarna Jónssyni

Hér með tilkynnist að ég  gef kost á mér í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar og býðst til þess að leiða listann í 1. sæti.

Ég hef ávallt haft brennandi áhuga á félagsmálum, hef tekið virkan þátt í starfi hreyfingarinnar allt frá stofnun hennar árið 1999 og er núverandi formaður Svæðisfélags VG í Skagafirði. Ég hef einnig setið í Sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir VG frá árinu 2002, verið forseti sveitarstjórnar, formaður landshlutasamtaka NV og sit í ráðgjafanefnd Jöfnunarssjóðs sveitarfélaga, ásamt því að hafa gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarstjórnarmála.

Einnig hef ég beitt mér sérstaklega fyrir og unnið að hagsmunum landsbyggðinnar og hinna dreifðu byggða með margvíslegum hætti og ýmsum öðrum vettvangi. Áhugi minn hefur beinst að nýsköpun, menntun og æskulýðsstarfi, s.s. með því að sinna formennsku við  skólanefnd Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra,  þátttöku í sérfræðinefnd menntamálaráðherra um framtíðarskipulag rannsókna og háskólastarfs 2009, auk þess að vera formaður Landsmótsnefndar UMFÍ vegna Landsmóts á Sauðárkróki 2004. Þá sat ég um nokkurra ára skeið í stjórn Byggðastofnunar, var framkvæmdastjóri sameiningarnefndar í Skagafirði árið 1997 og svo mætti áfram telja.

Ég  tel mig hafa víðtæka reynslu og þekkingu á málefnum  landsbyggðarinnar og vil gjarna beita kröftum mínum í þágu kjördæmisins. Mín áherslumál í sveitarstjórn sem og á vettvangi landshlutasamtaka hafa verið heilbrigðismál, umhverfi, samgöngubætur og atvinnusköpun á landsbyggðinni. Þau áherslumál þarf einnig að taka upp með beittari hætti á landsvísu. Þá brenn ég einnig fyrir grunngildum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um náttúruvernd,  jöfnuð og byggðajafnrétti, sem eiga svo sannarlega erindi til Íslendinga hvar sem þeir búa.

Æviágrip

Ég er fæddur 6. júní 1966 og ólst upp  í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 14 ára aldurs er fjölskyldan fluttist að Hólum í Hjaltadal. Að Hólum bjó ég  fram til  ársins 2010 að ég fluttist til Sauðárkróks. Eiginkona mín er Izati Zahra, og á ég eina dóttur af fyrra sambandi, Kristínu Kolku (fædd 1994).

Stúdentsprófi lauk ég frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árið 1986 og BA prófi í hagsögu með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 1992. Síðan lauk ég meistaraprófi í fiskifræði og stærðfræðilegri tölfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum árið 1996. Nú stunda ég meistaranám í forystu og stjórnun, með áherslu á sjálfbæra stjórnun, við Háskólann á Bifröst samhliða öðrum störfum.

Ég hef á undanförnum árum átt í víðtæku vísindasamstarfi við ýmsa erlenda háskóla og rannsóknastofnanir og dvalið um tíma við Stanford háskóla og Háskólann í Tokyo. Þá hef ég ritað fjölda fræðigreina í erlend vísindarit um rannsóknir tengdar ferskvatnsfiskum, þróunarvistfræði og erfðafræði. Hérlendis hef ég verið virkur í greinaskrifum um þjóðmál ekki síður en náttúrufræði og auðlindanýtingu.

Ég vann margvísleg störf til sjávar og sveita á yngri árum, en eftir nám ytra starfaði ég lengst af sem Forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar, um tíma hjá Biopol, að verkefnum tengdum félagsmálum, rannsóknum og ráðgjöf, en er nú starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands Vestra.

Með baráttukveðjum

Bjarni Jónsson

Lárus Ástmar í forystusæti

Gef kost á mér í 1. til 2. sæti í forvali Vg í Norðvesturkjördæmi

Ég undirritaður Lárus Ástmar Hannesson, í Stykkishólmi,  býð mig fram í 1. – 2. Sætið á lista í forvali Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi, fyrir komandi Alþingiskosningar.  Ég hef tekið virkan þátt í starfi VG um árabil, verið varaþingmaður frá 2013. Ég hef setið í bæjarstjórn Stykkishólms í tíu ár, verið forseti bæjarstjórnar í 4 ár, um tíma formaður bæjarráðs og bæjarstjóri í lok síðasta kjörtímabils.  Ég er búfræðingur og kennari að mennt.

Ég er formaður Landssambands hestamannafélaga frá 2014 og formaður Landsmóts ehf einnig frá 2014.

Ég er fæddur í Stykkishólmi 1966 og hef búið þar mestan part ævinnar. Ég er giftur Maríu Ölmu Valdimarsdóttur rekstrarfræðingi hjá Sæferðum. María er frá Akranesi og eigum við fjögur börn Hrefnu Rós (1994), Halldóru Kristínu (1997), Önnu Soffíu (1999) og Valdimar Hannes (2003).

Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og þá ekki síst málefnum landsbyggðarinnar og að hún fái tækifæri að nýta þá möguleika til uppbyggingar sem á hverju svæði eru og þjónusta við íbúana sé eins og best verður á kosið.

Lárus Ástmar Hannesson Stykkishólmi

Lilja Rafney vill leiða lista í NV-kjördæmi áfram

Tilkynning um þátttöku í forvali Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs

Ég býð mig fram í forvali VG og gef kost á mér til að leiða áfram lista VG í Norðvesturkjördæmi. Þau sjö ár sem ég hef setið á Alþingi hafa verið miklir og lærdómsríkir umbrotatímar í lífi þjóðarinnar. Sú reynsla sem ég hef hlotið á þessum tíma hefur nýst mér vel og mun ég nota hana áfram eins og hingað til á uppbyggilegan hátt í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi fyrir alla.

Ég er landsbyggðar- og alþýðukona, sprottin úr jarðvegi verkalýðsbaráttu og baráttu fyrir hagsmunamálum landsbyggðarinnar. Ég gjörþekki lífsbaráttu fólksins til sjávar og sveita. Landsbyggðin er minn staður og ég hef búið áfram í mínu byggðarlagi –Suðureyri við Súgandafjörð – eftir að ég varð þingmaður þótt vinnan fari að mestu fram í Reykjavík. Bakgrunnur minn úr verkalýðsmálum og sveitarstjórnarmálum hefur nýst mér vel í störfum mínum sem þingmaður.

Ég hef alltaf tekið og mun alltaf taka slaginn fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Barátta mín á Alþingi hefur einkum snúist um að koma fram breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, stuðla að innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, öflugum landbúnaði, jafnrétti til náms, náttúruvernd og endurreisn heilbrigðis- og velferðarkerfisins þar sem hagsmunir aldraðra, öryrkja og unga fólksins eru tryggðir. Það er vissulega mikilvægt að hafa góðar hugsjónir en það er ekki síður mikilvægt að fylgja þeim eftir og tala fyrir þeim við hvert tækifæri. Aukinn jöfnuður er lykilatriði í þeim breytingum sem ég vil gera á samfélagi okkar. Við eigum öll að hafa sömu tækifæri til lífs og þroska, við berum öll ábyrgð og skyldur gagnvart samfélagi okkar og okkur ber að hafna sérhagsmunagæslu og spillingu afdráttarlaust.

Ég þekki hinn pólitíska slag og er reiðubúin til að berjast áfram með Vinstri grænum hinni góðu baráttu fyrir jöfnuði og velmegun um land allt. Ég leita því stuðnings kjósenda til að leiða áfram framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.

Með góðri kveðju.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
alþingismaður.

Forval í Norðvesturkjördæmi 31. ágúst – 5. september

Framboðsfrestur til 10 ágúst

Á aðalfundi kjördæmisráðs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi í júní síðastliðnum var samþykkt að fram færi forval vegna komandi alþingiskosninga í haust.

Forvalið hefst 31. ágúst, með póstkosningu. Síðasti dagur til að póstleggja greidd atkvæði verður 5. september.

Frestur til að skila inn framboðum er til 10. ágúst nk. til kjörstjórnar á netfangið: forvalvg2016@gmail.com  Kjörseðlar verða sendir út 24. ágúst.

Kosningarétt hafa skráðir félagsmenn í félögum í kjördæminu og eru skráðir  21. ágúst, eða 10 dögum fyrir upphaf forvals. Kosið verður um  efstu sex sætin og er kosning bindandi í efstu fjögur sætin, að teknu tilliti til kynjakvóta, skv. reglum framboðsins þar um.

Utanríkismálanefnd Alþingis ræði neyðarástand í Tyrklandi

 

 

 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, hefur óskað eftir fundi í nefndinni hið fyrsta um neyðarástand og þróun mála í Tyrklandi.

 

“Það er því miður rík ástæða til að kalla saman utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða það grafalvarlega ástand sem nú ríkir Tyrklandi og möguleg viðbrögð við því” segir Steinunn Þóra.

 

Þingflokkur VG sendi nýverið frá sér yfirlýsingu þar sem staða mála í Tyrklandi var fordæmd harðlega; fjöldahandtökur þar í landi, uppsagnir þúsunda óbreyttra borgara og skerðingu á ferðafrelsi á grundvelli pólitískra skoðana. Þingflokkur VG leggur einnig áherslu á að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, nýti hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að koma skýrt á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda og íslensks almennings af mannréttindabrotum í Tyrklandi.