Ályktun frá kjördæmisþingi NV-kjördæmis

Kjördæmisfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Stykkishólmi 1.10.2018 lýsir áhyggjum af samdrætti á þjónustu í landsbyggðum. Samþjöppun er að eiga sér stað í opinberri þjónustu og hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum sem starfa á landsvísu. Áhrif þessa eru m.a. þær að ákvarðanir eru færðar frá fólkinu og óásættanleg fjarlægð skapast milli þjónustufyrirtækja og þjónustuþega. Í þessu sambandi má benda á ólíðandi getuleysi heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga til að sinna lögbundinni þjónustu. Fundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands að láta fara fram mat á framkvæmd lögboðinnar þjónustu og móta tillögur um úrbætur. Brýnt er að brugðist verði við áður en skapast enn meiri röskun á búsetu í landinu.

Greinargerð
Vegna samdráttar í þjónustu hefur víða skapast alvarlegt ástand í byggðum landsins. Hækkun lífaldurs og misgengi húsnæðisverðs veldur því m.a. að meðalaldur í sveitum og þorpum fer hækkandi, skólar veikjast og þjónusta við barnafólk minnkar. Bankinn fer, tryggingafélagið fer, verslunin fer. Langa leið þarf að fara til að sækja heilsugæslu. Heimahjúkrun er ekki veitt, sjúkrabíllinn farinn og staða læknis er ótrygg. Sveitarfélögin eru skuldum vafin og ófær um að halda úti lögboðinni félagsþjónustu. Allt ákvörðunarvald er fært í burtu og mikil ábyrgð lögð á ættingja. Einstæðingar eru fluttir hreppaflutningum eftir hentugleikum heilbrigðisstofnana. Fólkið hefur ekki málsvara og vart möguleika á ná fram þeim réttindum sem lög eiga að tryggja þeim. Fyrirtæki svo sem bankar, tryggingafélög og verslunarkeðjur ráða þjónustustiginu og öll hagræðing er færð frá þjónustuþeganum til eigenda. Víða er leitað úrbóta en oftast of seint. Það er fullt af tækifærum og möguleikum til í stöðunni ef vel er að staðið og mótuð stefna til að varðveita byggð í landinu. Opinber afskipti og skriffinnska er oft til trafala og skerðir um of frumkvæði og sköpunarkraft. Ný fjölbreytt byggðastefna er því nauðsyn.

 

Ályktun vegna áætlaðrar hernaðaræfingar NATO á Íslandi

 

 

Ung vinstri græn mótmæla harðlega fyrirhuguðum hernaðaræfingum NATO á Íslandi í október næstkomandi auk skipulagsráðstefnu sem fylgir í kjölfar hennar um frekari æfingar af enn stærri skala.

 

Von er á tíu herskipum og fjögur hundruð landgönguliðum til Íslands í þeim blekkingarleik að ætla að verja öryggi Íslands. Ekki er hægt að líta framhjá því að í þessari aðgerð fara fram æfingar í að ná völdum yfir- og myrða annað fólk. Sömu hermennirnir og koma hingað munu vera sendir til Miðausturlanda þar sem þeir myrða og pynta almenna borgara með tækninni sem þeir æfðu á Íslandi.

 

Við fögnum því að þingmenn Vinstri grænna, þau Steinunn Þóra Árnadóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé, stígi fram og láti í ljós óánægju sína með æfinguna sem ekki er hægt að kalla annað en morðæfingu.

 

Aðild Íslands að NATO getur aldrei samræmst raunverulegri friðarstefnu heldur skuldbindur hún ríkið til þess að leyfa morðæfingar á sínu yfirráðasvæði, greiða fé úr ríkissjóði fyrir hernaðaraðgerðir í fjarlægum heimshlutum og taka afstöðu með heimsvaldastefnu Vesturvelda.

 

Við skorum á Alþingi að koma í veg fyrir þessa fyrirhuguðu ,,æfingu” og ráðstefnu hér á landi og segja Ísland tafarlaust úr hernaðarbandalaginu NATO.

 

Við hvetjum einnig aðrar ungliðahreyfingar og stjórnmálaflokka að taka upp friðarhyggju og afstöðu gegn veru Íslands í NATO.

 

Framkvæmdastjórn UVG

Yfirlýsing forsætisráðherra vegna athugasemda ASÍ

Alþýðusamband Íslands talar um það að ég hafi farið með rangt mál í Kastljósi gærkvöldsins þegar ég benti á að meðaltalslaunaþróun þeirra sem heyra undir kjararáð verði sambærileg við aðra hópa frá árinu 2013 til 2018 svo fremi sem laun þeirra breytist ekki frekar á þessu ári og verði fryst út árið. Er það í samræmi við niðurstöður skýrslu sem unnin var í samráði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og kom út í febrúar á þessu ári en þar segir orðrétt:

„Ef ekki verður um frekari endurskoðanir að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43-48%. Eins og fram kemur í skýrslunni er launaþróun innan hópsins mjög ólík. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá árinu 2006, blasir við önnur mynd en á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast með svipuðum hætti.“

Skýrsluna má finna hér: Starfshópur um málefni kjararáðs

Rétt er að halda til haga að fulltrúi ASÍ skilaði minnihlutaáliti um þessi mál í skýrslunni en í nefndinni sátu þrír fulltrúar ríkisins og þrír fulltrúar launafólks og atvinnurekenda auk Jóhannesar Karls Sveinssonar lögmanns sem var formaður nefndarinnar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið og verða gerðar á fyrirkomulagi launa þeirra hópa sem áður heyrðu undir kjararáð byggja á niðurstöðu meirihluta nefndarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

VG – stjórn þingflokks fordæmir morð í Palestínu

Stjórn þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fordæmir atburðina í Palestínu á liðnum dögum og vikum, þar sem ísraelskir hermenn hafa myrt fjölda mótmælenda með köldu blóði. Þessi grimmilegu viðbrögð Ísraelsstjórnar við fyrirsjáanlegum mótmælum vegna vanhugsaðrar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar um að flytja sendiráð sitt til Jerúsalem eru ólíðandi, en íslensk stjórnvöld vöruðu einmitt við þeirri ákvörðun.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur alla tíð lagt áherslu á nauðsyn þess að leitað verði friðsamlegra lausna í deilum fyrir botni Miðjarðarhafs. Raunverulegur friður getur aldrei komist á með vopnavaldi og kúgun. Minnt er á mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðalög og að ekki sé brotið á mannréttindum íbúa svæðisins.

 

Stjórn þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs minnir jafnframt á samþykkt Alþingis Íslendinga frá 2011 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Kosningabaráttan – Yfirlýsing

 

Framkvæmdastjórar allra flokka sem sæti eiga í nefnd forsætisráðherra um fjármál stjórnmálaflokka, lýsa andúð á óhróðri og undirróðursstarfsemi í kosningabaráttu og ásetja sér að vinna gegn slíku.

 

Kosningabarátta í aðdraganda kosninga er lykilþáttur í lýðræðislegri stjórnskipan og mikilvægt að hún sé málefnaleg og reglum samkvæm svo að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun. Nafnlaus óhróður eða undir fölsku flaggi á ekki að líðast.  Við framkvæmdastjórar eða fulltrúar flokkanna átta sem sæti eiga þingi,  erum sammála um að girða þurfi fyrir að áróður og óhróður, sem enginn veit hver hefur í frammi eða kostar, birtist um alla samfélags- fjölmiðla- og myndbandaveitur, án þess að hægt sé að kalla neinn til ábyrgðar.

 

Kosningabarátta er margslungið samtal þjóðarinnar og þar eiga stjórnmálaflokkarnir alls ekki að vera einráðir.  Lög um hvernig kosningabarátta er rekin og fjármögnuð, þurfa því að ná yfir alla sem heyja slíka baráttu, en ekki aðeins flokkana sjálfa, enda séu lögin í samræmi við tjáningarfrelsisákvæði og góða lýðræðisvenju. Það er markmið okkar að finna leiðir í þeirri vinnu sem við eigum fyrir höndum til að auka gagnsæi og ábyrgð allra sem vilja hafa áhrif á kosningar.

 

Nú er hafin barátta fyrir sveitarstjórnarkosningar á Íslandi.  Það er von framkvæmdastjóra flokkanna að sú barátta verði sönn, gegnsæ og málefnaleg og að öll framboð taki stöðu með flokkunum sem undir þetta rita um það markmið.

 

Björg Eva Erlendsdóttir, form. frkvstj. Vinstri grænna.

Þorgerður Jóhannsdóttir, skrifstofustj.  Samfylkingar.

Birna Þórarinsdóttir, frkvstj. Viðreisnar.

Hólmfríður Þórisdóttir, fulltrúi. Miðflokksins.

Erla Hlynsdóttir, frkvstj. Pírata.

Helgi Haukur Hauksson, frkvstj. Framsókn.

Magnús Þór Hafsteinsson, fulltrúi. Flokks fólksins. .

Þórður Þórarinsson, frkvstj. Sjálfstæðisflokksins.

 

Yfirlýsing: Björn Valur Gíslason, varaformaður VG

Forystuskipti urðu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ársbyrjun 2013 er Katrín Jakobsdóttir var kjörin formaður. Á sama tíma var ég kjörinn varaformaður Vinstri grænna og hef gegnt því embætti síðan. Frá þeim tíma hefur hreyfingin styrkt stöðu sína verulega og eru Vinstri græn í dag helsta hreyfiaflið í íslenskum stjórnmálum. Er það ekki síst að þakka traustri forystu formannsins Katrínar Jakobsdóttur, öflugri sveit þing- og sveitarstjórnarmanna og sterkri málefnalegri stöðu Vinstri grænna.

Um helgina fer fram flokksráðsfundur Vinstri grænna og landsfundur hreyfingarinnar verður haldinn helgina 6. til 8. október næstkomandi. Á þessum tímapunkti tel ég rétt að lýsa því yfir að ég mun ekki gefa kost á mér til varaformennsku á komandi landsfundi.

Stjórn VG á Suðurnesjum gegn mengandi stóriðju

Yfirlýsing: FRÁ VG Á SUÐURNESJUM

Umhverfistofnun hefur brugðist hlutverki sínu við náttúru og almenning og ekki starfað samkvæmt lögum.

 

Með því að beita sér ekki til að tryggja heilnæmt umhverfi er Umhverfisstofnun að bregðast hlutverki sínu gagnvart almenningi á Suðurnesjum.

UST bregst hlutverkinu sem henni er ætlað að starfa eftir, samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, með því að stöðva ekki iðnað sem veldur tjóni og hefur neikvæð áhrif á heilsufar almennings og röskun lífríkis og umhverfi.

Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi.

Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 90/2002 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem hljóða svo:  Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. (1998nr. 7 12. Mars)

UST hefur sýnt einstakt ábyrgðarleysi gagnvart íbúum Reykjanesbæjar með því að veita starfsleyfi til tveggja kísilverksmiðja kilometra frá íbúarbyggð.

Mengandi iðjuver á Suðurnesjum bera einhliða ábyrgð á umhverfisvöktun á eigin mengun samkvæmt starfsleyfum sem UST gefur út og ber ábyrgð á.

 

Umhverfisstofnun vinnur því gegn lagalegri skyldu sinni þar sem allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið án eftirlits eða ábyrgðar.

Vinstri hreyfingin Grænt framboð á Suðurnesjum mun berjast gegn mengandi stóriðju á Suðurnesjum til framtíðar.

Stjórn VG á Suðurnesjum

Yfirlýsing stjórnarandstöðu vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar

Sameiginleg yfirlýsing þingflokka Vinstri-grænna, Pírata, Framsóknar og Samfylkingar við upphaf umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er aukin velsæld, jöfnuður og brýn uppbygging innviða samfélagsins ekki í forgangi. Það er ámælisvert, sérstaklega í ljósi þess að eftir mörg mögur ár frá bankahruni hefur myndast svigrúm til þess að gera betur. Þessi ríkisstjórn hyggst ekki nýta sér það svigrúm til hagsbóta fyrir alla.

Áætlunin endurspeglar fjármálastefnuna þar sem sett er svokallað útgjaldaþak og boðuð sveltistefna í velferð og menntun, sem og öðrum mikilvægum málaflokkum. Ríkisstjórnin horfist ekki í augu við nauðsyn þess að styrkja tekjustofna ríkisins með réttlátum hætti þannig að skattkerfið og arður af auðlindum tryggi í senn öflugt samfélag og auki jöfnuð. Skattlagning er sett upp sem andstaða frelsis sem lýsir þeim anda nýfrjálshyggju sem fjármálaáætlunin endurspeglar.

  • Heilbrigðismál; aukning til heilbrigðismála er fyrst og fremst í byggingu nýs Landspítala, sem þegar hafði verið ákveðið að ráðast í, þar er því ekki verið að leysa viðvarandi og aðsteðjandi vanda heilbrigðisþjónustunnar
  • Samgöngumál; framlög hækka um fimm milljarða á föstu verðlagi og verður það að teljast hláleg upphæð í ljósi þess að við afgreiðslu síðustu fjárlaga kom í ljós að 12-15 milljarða vantaði til að fjármagna þegar samþykkta samgönguáætlun
  • Menntamál; aukningu til menntamála má fyrst og síðast skýra með byggingu Húss íslenskra fræða; háskólastigið er undirfjármagnað og framlög til framhaldsskóla dragast saman
  • Húsnæðismál; þau eru ekki nefnd í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og kemur því ekki á óvart að gert er ráð fyrir að húsnæðisstuðningur dragist saman á tímabilinu með því að halda viðmiðunarfjárhæðum vaxtabótakerfisins óbreyttum á tímabilinu og þær verða því í raun skertar
  • Kjör aldraðra og öryrkja; erfitt er að sjá að tíu milljarða aukning á tímabilinu dugi til þess að örorkulífeyrir dugi til framfærslu en bæði þarf að hækka grunnframfærsluna og auka möguleika öryrkja á að afla sér tekna; sömu áskoranir blasa við þegar kemur að kjörum aldraðra.
,

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

 

Þingflokkur VG harmar hið mikla mannfall sem orðið hefur í hræðilegum stríðsátökum í Sýrlandi, Írak og Jemen undanfarin misseri, nú siðast í loftárásum á borgina Idlib. Ljóst er að alþjóðalög um vernd almennra borgara á átakatímum eru þverbrotin af stríðsaðilum í þessum löndum, ekki síst með loftárásum sem fara ekki í manngreinarálit. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld að nýta hvert tækifæri til að koma á framfæri mótmælum sínum vegna mannfalls almennra borgara, þar á meðal barna, í þessum löndum og annars staðar. Sérstaklega fordæmir þingflokkurinn notkun efnavopna sem er skýlaust brot á alþjóðlegum sáttmálum en sterkar vísbendingar eru um að þeim hafi nú verið beitt í Sýrlandi.  Þingflokkur VG áréttar jafnframt þá skyldu Íslands að axla ábyrgð í því að veita þolendum stríðsátaka skjól og vernd. Í Miðausturlöndum verður ekki komið á friði með vopnavaldi, drápum og stigmögnun ofbeldis. Samningar eru alltaf rétta leiðin til að ná markmiðinu um frið og jafnvægi.

 

Hægt er að ná í fulltrúa VG í utanríkismálanefnd til viðtals um yfirlýsinguna. Þær eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, s. 824-6743 og Steinunn Þóra Árnadóttir s. 690-2592.