Yfirlýsing: Björn Valur Gíslason, varaformaður VG

Forystuskipti urðu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ársbyrjun 2013 er Katrín Jakobsdóttir var kjörin formaður. Á sama tíma var ég kjörinn varaformaður Vinstri grænna og hef gegnt því embætti síðan. Frá þeim tíma hefur hreyfingin styrkt stöðu sína verulega og eru Vinstri græn í dag helsta hreyfiaflið í íslenskum stjórnmálum. Er það ekki síst að þakka traustri forystu formannsins Katrínar Jakobsdóttur, öflugri sveit þing- og sveitarstjórnarmanna og sterkri málefnalegri stöðu Vinstri grænna.

Um helgina fer fram flokksráðsfundur Vinstri grænna og landsfundur hreyfingarinnar verður haldinn helgina 6. til 8. október næstkomandi. Á þessum tímapunkti tel ég rétt að lýsa því yfir að ég mun ekki gefa kost á mér til varaformennsku á komandi landsfundi.

Stjórn VG á Suðurnesjum gegn mengandi stóriðju

Yfirlýsing: FRÁ VG Á SUÐURNESJUM

Umhverfistofnun hefur brugðist hlutverki sínu við náttúru og almenning og ekki starfað samkvæmt lögum.

 

Með því að beita sér ekki til að tryggja heilnæmt umhverfi er Umhverfisstofnun að bregðast hlutverki sínu gagnvart almenningi á Suðurnesjum.

UST bregst hlutverkinu sem henni er ætlað að starfa eftir, samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, með því að stöðva ekki iðnað sem veldur tjóni og hefur neikvæð áhrif á heilsufar almennings og röskun lífríkis og umhverfi.

Hlutverk Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi.

Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 90/2002 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem hljóða svo:  Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. (1998nr. 7 12. Mars)

UST hefur sýnt einstakt ábyrgðarleysi gagnvart íbúum Reykjanesbæjar með því að veita starfsleyfi til tveggja kísilverksmiðja kilometra frá íbúarbyggð.

Mengandi iðjuver á Suðurnesjum bera einhliða ábyrgð á umhverfisvöktun á eigin mengun samkvæmt starfsleyfum sem UST gefur út og ber ábyrgð á.

 

Umhverfisstofnun vinnur því gegn lagalegri skyldu sinni þar sem allt vöktunarferlið er á forræði iðjuveranna sem stöðugt senda eiturefni út í andrúmsloftið án eftirlits eða ábyrgðar.

Vinstri hreyfingin Grænt framboð á Suðurnesjum mun berjast gegn mengandi stóriðju á Suðurnesjum til framtíðar.

Stjórn VG á Suðurnesjum

Yfirlýsing stjórnarandstöðu vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar

Sameiginleg yfirlýsing þingflokka Vinstri-grænna, Pírata, Framsóknar og Samfylkingar við upphaf umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er aukin velsæld, jöfnuður og brýn uppbygging innviða samfélagsins ekki í forgangi. Það er ámælisvert, sérstaklega í ljósi þess að eftir mörg mögur ár frá bankahruni hefur myndast svigrúm til þess að gera betur. Þessi ríkisstjórn hyggst ekki nýta sér það svigrúm til hagsbóta fyrir alla.

Áætlunin endurspeglar fjármálastefnuna þar sem sett er svokallað útgjaldaþak og boðuð sveltistefna í velferð og menntun, sem og öðrum mikilvægum málaflokkum. Ríkisstjórnin horfist ekki í augu við nauðsyn þess að styrkja tekjustofna ríkisins með réttlátum hætti þannig að skattkerfið og arður af auðlindum tryggi í senn öflugt samfélag og auki jöfnuð. Skattlagning er sett upp sem andstaða frelsis sem lýsir þeim anda nýfrjálshyggju sem fjármálaáætlunin endurspeglar.

  • Heilbrigðismál; aukning til heilbrigðismála er fyrst og fremst í byggingu nýs Landspítala, sem þegar hafði verið ákveðið að ráðast í, þar er því ekki verið að leysa viðvarandi og aðsteðjandi vanda heilbrigðisþjónustunnar
  • Samgöngumál; framlög hækka um fimm milljarða á föstu verðlagi og verður það að teljast hláleg upphæð í ljósi þess að við afgreiðslu síðustu fjárlaga kom í ljós að 12-15 milljarða vantaði til að fjármagna þegar samþykkta samgönguáætlun
  • Menntamál; aukningu til menntamála má fyrst og síðast skýra með byggingu Húss íslenskra fræða; háskólastigið er undirfjármagnað og framlög til framhaldsskóla dragast saman
  • Húsnæðismál; þau eru ekki nefnd í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og kemur því ekki á óvart að gert er ráð fyrir að húsnæðisstuðningur dragist saman á tímabilinu með því að halda viðmiðunarfjárhæðum vaxtabótakerfisins óbreyttum á tímabilinu og þær verða því í raun skertar
  • Kjör aldraðra og öryrkja; erfitt er að sjá að tíu milljarða aukning á tímabilinu dugi til þess að örorkulífeyrir dugi til framfærslu en bæði þarf að hækka grunnframfærsluna og auka möguleika öryrkja á að afla sér tekna; sömu áskoranir blasa við þegar kemur að kjörum aldraðra.
,

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Yfirlýsing þingflokks VG vegna hræðilegra stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs

 

Þingflokkur VG harmar hið mikla mannfall sem orðið hefur í hræðilegum stríðsátökum í Sýrlandi, Írak og Jemen undanfarin misseri, nú siðast í loftárásum á borgina Idlib. Ljóst er að alþjóðalög um vernd almennra borgara á átakatímum eru þverbrotin af stríðsaðilum í þessum löndum, ekki síst með loftárásum sem fara ekki í manngreinarálit. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld að nýta hvert tækifæri til að koma á framfæri mótmælum sínum vegna mannfalls almennra borgara, þar á meðal barna, í þessum löndum og annars staðar. Sérstaklega fordæmir þingflokkurinn notkun efnavopna sem er skýlaust brot á alþjóðlegum sáttmálum en sterkar vísbendingar eru um að þeim hafi nú verið beitt í Sýrlandi.  Þingflokkur VG áréttar jafnframt þá skyldu Íslands að axla ábyrgð í því að veita þolendum stríðsátaka skjól og vernd. Í Miðausturlöndum verður ekki komið á friði með vopnavaldi, drápum og stigmögnun ofbeldis. Samningar eru alltaf rétta leiðin til að ná markmiðinu um frið og jafnvægi.

 

Hægt er að ná í fulltrúa VG í utanríkismálanefnd til viðtals um yfirlýsinguna. Þær eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, s. 824-6743 og Steinunn Þóra Árnadóttir s. 690-2592.

 

Yfirlýsing frá þingflokki VG

 

Nýliðnar stjórnarmyndunarviðræður hafa verið gagnlegar þrátt fyrir að ekki hafi náðst samstaða um að halda þeim áfram að sinni.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur í viðræðum um stjórnarmyndun frá kosningum og nú í tengslum við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 talið brýnt að gerðar verði breytingar í þágu nauðsynlegra umbóta í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum og uppbyggingu innviða. Það er mat þingflokksins að til að mæta lágmarksþörfum og koma til móts við ákall úr samfélaginu í þessum efnum þurfi, varlega áætlað, á þriðja tug milljarða króna.

Ennfremur verður að takast á við raunverulega uppbyggingu á þessum sviðum í ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Mikil samstaða var um mikilvægi þessara áherslna í aðdraganda kosninga enda um afar brýn verkefni að ræða. Umbæturnar þarf að fjármagna með ábyrgum hætti í tekjuöflunarfrumvarpinu sem liggur fyrir þinginu og í framhaldinu liggi fyrir áætlanir um tekjuöflun til næstu fimm ára.

Utanríkismálanefnd Alþingis ræði neyðarástand í Tyrklandi

 

 

 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, hefur óskað eftir fundi í nefndinni hið fyrsta um neyðarástand og þróun mála í Tyrklandi.

 

“Það er því miður rík ástæða til að kalla saman utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða það grafalvarlega ástand sem nú ríkir Tyrklandi og möguleg viðbrögð við því” segir Steinunn Þóra.

 

Þingflokkur VG sendi nýverið frá sér yfirlýsingu þar sem staða mála í Tyrklandi var fordæmd harðlega; fjöldahandtökur þar í landi, uppsagnir þúsunda óbreyttra borgara og skerðingu á ferðafrelsi á grundvelli pólitískra skoðana. Þingflokkur VG leggur einnig áherslu á að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, nýti hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að koma skýrt á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda og íslensks almennings af mannréttindabrotum í Tyrklandi.

Þingflokkur fordæmir mannréttindabrot tyrkneskra stjórnvalda

Mikilvægi lýðræðis og varðstaða um mannréttindi í Tyrklandi

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir samstöðu með tyrkneskum almenningi , harmar mannfall í landinu og tekur undir með þeim sem hafa þungar áhyggjur af stöðu og þróun mála í Tyrklandi og nú síðast neyðarástandinu sem lýst hefur verið í landinu.

Þingflokkurinn fordæmir harðlega fjöldahandtökur, uppsagnir þúsunda óbreyttra borgara og skerðingu á ferðafrelsi á grundvelli pólitískra skoðana. Slíkt er algjörlega ótækt og kallar á alvarlegar athugasemdir á alþjóðlegum vettvangi.

Þingflokkurinn fordæmir brot á mannréttindum harðlega og telur mikilvægt að mannréttindi allra tyrkneskra borgara séu tryggð, lýðræði virt í hvívetna og að tyrkneskir borgarar njóti fullrar verndar óháð stöðu eða stétt.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs áréttar stuðning við lýðræðislegar stofnanir og lýðræðislega stjórnskipun sem eru grunnstoðir siðmenntaðra samfélaga og fordæmir alla tilburði til pólitískra hreinsana.

Loks leggur þingflokkurinn áherslu á að utanríkisráðherra nýti hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að koma skýrt á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda og íslensks almennings af mannréttindabrotum í Tyrklandi.

Evrópskt samstarf um lýðræði og velferð 

Norrænir formenn vinstri grænna flokka vilja umræður um framtíð evrópskrar samvinnu

Formenn sjö vinstri grænna flokka á Norðurlöndum lýsa yfir vilja til að stefna að áframhaldandi og nánu samstarfi við Bretland eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Norrænu formennirnir vilja ekki reisa nýjar hindranir í veg þeirra sem vilja sækja menntun,  búa, starfa eða stunda viðskipti  yfir landamæri í álfunni.  Evrópusambandið má ekki refsa Bretlandi, heldur ber að tryggja nána samvinnu áfram.
Við viljum að Evrópusambandið nýti þennan möguleika til að bæta sambandið og rétta af  lýðræðishalla og lagfæra ýmsa bresti í samstarfinu.  Þar viljum við sérstaklega benda á réttindi launþega. Við viljum að Evrópusambandið og EES svæðið sameinist um félagslegan sáttmála sem staðfestir að ekki verði hægt samkvæmt Evrópurétti, að taka úr sambandi lög og samningsbundinn rétt launþega á vinnumarkaði. Evrópusambandið á ekki að líða félagsleg undirboð í löndum sambandsins með því að skýla sér bak við samninga við lönd utan Evrópu.
Við verðum að hefja umræður um framtíð evrópskrar samvinnu og aðlögun. Ekki síst þarf að ræða afleiðingar efnahagsstefnu Evrópusambandsins fyrir velferð og vinnumarkað. Lönd sem vilja yfirgefa evrusvæðið verða að geta tekið þátt í þeirri umræðu.
Við viljum stuðla að meira jafnrétti og lýðræðislegri leiðum í samstarfi milli Evrópusambandins og þeirra Evrópulanda sem standa utan sambandsins. Leiðir sem geta komið í staðinn fyrir núgildandi EES-saming.  Og við viljum evrópskt samstarf sem er opið gagnvart umheiminum en lokar ekki aðrar þjóðir úti.
Vinstri Grænir flokkar á Norðurlöndum styðja allar gerðir sterkrar evrópskrar samvinnu þar sem lýðræðið er haft að leiðarljósi og stuðlað að bættri velferð og jafnrétti fólks meðal þjóða heims.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Högni Höydal, formaður Tjódveldis.
Sara Olsvig, formaður Inuit Ataqatigiit..
Audun Lysbakken, formaður Sosialistisk Venstreparti.
Li Anderson, formaður Vänsterforbundet.
Jonas Sjöstedt, formaður Vänsterpartiet.
Pernille Skipper, talsmaður Enhedslisten.

Ósannindum um hagsmunatengsl svarað

Yfirlýsing:

Vegna orða Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í morgunútvarpi RÚV um að undirrituð hefði ekki gert grein fyrir hagsmunum sínum um kvótasölu sína og fjölskyldunnar þegar hún barðist fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu á síðasta kjörtímabili vil ég að eftirfarandi komi fram:
Lilja Rafney og eiginmaður henna hafa aldrei átt eða selt fiskveiðikvóta. Fósturfaðir hennar var hættur smábátaútgerð sökum aldurs þegar hún tók sæti á Alþingi 2009 og faðir hennar, sem var sjómaður og átti smábát, lést árið 1997. Engir beinir eða óbeinir einkahagsmunir lágu því undir þegar Lilja Rafney barðist fyrir breytingum á kvótakerfinu, aðeins hagsmunir almennings. Með orðum sínum um annað leitast utanríkisráðherra við að afvegaleiða umræðuna um hagsmuni forsætisráðherra og eiginkonu hans og heldur fram helberum ósannindum um undirritaðan þingmann í því skyni að gjaldfella málflutning hans á þingi og í þjóðfélagsumræðunni og drepa á dreif gagnrýni á forsætisráðherra.


Virðingarfyllst Lilja Rafney Magnúsdóttir, 17/3 2016.