Daníel og Iðunn taka sæti á þingi í fyrsta sinn

Daníel Arnarsson og Iðunn Garðarsdóttir taka sæti á Alþingi í vikunni, bæði í fyrsta sinn. Þau koma inn sem varamenn Ara Trausta Guðmundssonar og Andrésar Inga Jónssonar.

Daníel er 27 ára, fæddur 28. febrúar 1990 í Reykjavík en ólst upp í Þorlákshöfn. Hann er stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og mun útskrifast sem félagsfræðingur frá Háskóla Íslands í nú í júní. Daníel er í kaffihúsarekstri og hefur unnið sem kaffibarþjónn og þjónn síðustu ár. Þá var Daníel starfsmaður Vinstri grænna 2014-2016, og einnig kosningastjóri í Suðvesturkjördæmi 2013 og Suðurkjördæmi 2016. Daníel hefur verið virkur í starfi Ungra vinstri grænna síðan 2007. Daníel var í 3. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum.

Iðunn er 27 ára, fædd 13. október 1989 í Reykjavík og ólst þar upp. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og hefur lokið BA-prófum í íslensku og lögfræði, og mun útskrifast með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands í júní. Iðunn starfar nú á lögmannsstofunni Juris. Hún hefur tekið virkan þátt í hagsmunabaráttu stúdenta, en Iðunn var formaður Röskvu – samtaka félagshyggjufólks innan Háskóla Íslands og sat í Háskólaráði HÍ 2014-2016. Iðunn var í 4. sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi norður.

 

Einnig sitja á þingi Álfheiður Ingadóttir og Ingibjörg Þórðardóttir, en þær hafa áður tekið sæti á þingi.