Efnt til ófriðar um rammaáætlun

Um fá mál á Alþingi virðist vera djúpstæðari ágreiningur en þau sem snúast um náttúruvernd annars vegar og nýtingu náttúruauðlinda hinsd vegar. Margir töldu að átökin um Kárahnjúkavirkjun hefðu orðið til þess að menn hefðu lært að ekki gengi að valta yfir fólk og firnindi í krafti meirihluta; mikilvægt væri að leiða þessi mál í einhvers konar sáttaferli.Það virtist hafa náðst þegar lög um rammaáætlun voru samþykkt á sínum tíma með atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum árið 2011. Í kjölfarið var ný rammaáætlun samþykkt á þingi.

Hún var hins vegar ekki samþykkt af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gagnrýni þeirra snerist einkum um að þrjár virkjanir í neðri Þjórsá hefðu verið færðar úr nýtingu í bið – og létu þessir þingmenn það sem vind um eyru þjóta að það var gert að loknu lögbundnu umsagnarferli þar sem á þriðja hundrað athugasemda barst vegna þessara virkjana. Þeir sem samþykktu rammaáætlun voru hins vegar hreint ekkert allir að samþykkja einhverja draumaáætlun. En þeir litu svo á að nauðsynlegt væri að breyta umræðunni, leiða djúpstæðan ágreining í sáttaferil og vildu standa við það.

En hvar er þetta mál statt núna? Umhverfisráðherra lagði fram tillögu um að Hvammsvirkjun í Þjórsá yrði færð úr bið í nýtingu. Var það gert að tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Málinu var vísað til atvinnuveganefndar Alþingis en ekki umhverfisnefndar sem vakti strax grunsemdir um að ætlunin væri að rjúfa tengsl verndar og nýtingar sem er hryggjarstykkið í hugmyndafræði rammaáætlunar. Og sá illi grunur reyndist réttur. Meirihluti nefndarinnar hyggst leggja til að fjögur önnur svæði verði færð úr bið í nýtingu (sem vel að merkja er talsvert afdrifaríkari ákvörðun en að færa úr nýtingu í bið) en það eru tvær virkjanir í neðri Þjórsá (Urriðafoss og Holtavirkjun), Hagavatnsvirkjun og Skrokkalda. Af þessum hefur verkefnisstjórn aldrei lokið umfjöllun um Hagavatnsvirkjun og ekki lokið að fjalla að nýju um Skrokköldu, Urriðafoss og Holtavirkjun.

Umfjöllun og vinnubrögð í kringum nýtingarflokk rammaáætlunar er því í uppnámi og stjórnarmeirihlutinn virðist ekki álíta sig bundinn af því ferli sem skilgreint er í lögum um rammaáætlun. Þarna er enn og aftur verið að efna til ófriðar, stríðsöxin grafin upp að óþörfu í blindu ofstæki og trú á gamlar stórkallalausnir í atvinnumálum.

Og hvað er að gerast hinum megin, í verndarflokki rammaáætlunar. Því miður virðist svarið vera: Ekki neitt. Lögum samkvæmt á umhverfisráðherra að friðlýsa þau svæði sem sett eru í verndarflokk rammaáætlunar. Ég lagði fram fyrirspurn til ráðherrans árið 2013 og að nýju árið 2014. Skrifleg svör bárust; hið fyrra 30. október 2013, hið síðara 16. desember 2014. Svörin voru keimlík þó að reynt hafi verið að breyta orðalagi á stöku stað. Í stuttu máli hafði ekkert þokast í friðlýsingum svæða í verndarflokki þó að það sé lögbundin skylda umhverfisráðherra að framkvæma þær. Þegar ég spurði svo ráðherrann hverju sætti var kvartað undan fjárskorti en beinlínis var ákveðið í tíð þessarar ríkisstjórnar að skera niður fé til friðlýsinga. Og svo sagði ráðherrann að kannski væru þetta fullmargar friðlýsingar.

Ef þessi eru viðhorf stjórnarmeirihlutans til laga og samþykkta Alþingis er ekki nema von að almenningur í landinu krefjist róttækra kerfisbreytinga. Það virðist einlægt markmið ríkisstjórnarinnar að kveikja ófriðarbál í kringum verndun og nýtingu náttúruauðlinda líklega vegna þess að ríkisstjórnin hefur enn ekki áttað sig á því að atvinnulíf á Íslandi er breytt; hér er uppgangur í ferðaþjónustu og nýsköpun og það er enginn að biðja um gömlu stórkallalausnirnar. En viðhorf almennings virðast jafn léttvæg fyrir þessum stjórnarmeirihluta og lög og samþykktir Alþingis.

Katrín Jakobsdóttir
Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs