Eignarhald á bújörðum í endurskoðun

Starfshópur um endurskoðun eignarhalds á bújörðum, sem skipaður var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í júní 2017, hefur skilað skýrslu þar sem lagðar eru til breytingar á lögum í því skyni að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Í framhaldi af þeirri vinnu hyggst forsætisráðherra skipa starfshóp um endurskoðun laga og reglna er varða eignarhald á landi og fasteignum hér á landi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar Íslands. Verður meginmarkmið endurskoðunarinnar að meta lögmæti mismunandi leiða til að setja almennar takmarkanir á stærð landareigna og/eða fjölda fasteigna sem einn og sami aðili, sem og tengdir aðilar, geta haft afnotarétt yfir. Jafnframt verður það hlutverk starfshópsins að skoða mögulegar leiðir til að sporna gegn því að land í landbúnaðarafnotum sé tekið til annarra nota og tryggja ef ekki telst grundvöllur fyrir áframhaldandi landbúnaðarafnotum að búseta á jörð haldist enda þótt landbúnaðarafnot leggist af í því skyni að sporna gegn íbúafækkun og viðhalda byggð á viðkomandi svæði.

Starfshópurinn mun vera skipaður fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, dómsmálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk fulltrúa forsætisráðherra sem mun stýra vinnu hópsins.

Skýrsla starfshóps um eignarhald á bújörðum