Eignarhald ríkisins skapar tækifæri

Nýútkomin hvítbók um fjármálakerfið er góður grundvöllur fyrir umræðuna um framtíð fjármálakerfisins. Eftir henni hefur verið beðið, enda segir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að hún verði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verði teknar um fjármálakerfið.

Eignarhald ríkisins á bönkum og fjármálastofnunum er stöðugt til umræðu, enda mikilvægt mál og ljóst að það skapar ýmis tækifæri sem óvíst er að við fáum aftur. Stjórnvöld verða því að vanda vel til verka þegar kemur að framtíðarskipulagningu fjármálakerfisins. Þannig var um þetta fjallað í stjórnarsáttmálanum:

„Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“

Í þessari umræðu er gríðarlega mikilvægt að við höfum öll í huga að mikill meiri hluti þjóðarinnar er jákvæður í garð eignarhalds ríkisins á fjármálastofnunum og hefur sýnt sig vilja fyrst og fremst gagnsæi þegar kemur að fjármálakerfinu og líka þegar kemur að eignarhaldi. Það þýðir ekki endilega að ríkið eigi að eiga aðra hverja fjármálastofnun en við skulum hafa þetta í huga þegar við tökum ákvarðanir og þegar við ræðum hvernig eignarhaldi ríkisins á fjármálastofnunum eigi að vera fyrir komið.

Margt gott kemur fram í hvítbókinni. Hvað eigendastefnu ríkisins varðar, er hins vegar ljóst að þar er vísað til stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem sat í fyrra. Augljóslega þarf ný ríkisstjórn að setja sér nýja eigendastefnu.

Þá er eitt sem ég hefði viljað fá betri og ítarlegri umfjöllun um, en það er hugmyndin um samfélagsbanka. Þar er um að ræða nýtt og spennandi fyrirkomulag, þó á gömlum grunni reist, sem hefur hlotið ágætis hljómgrunn á meðal þjóðarinnar. Ég hefði kosið opnari og jákvæðari umfjöllun í hvítbókinni um samfélagsbanka, enda tel ég að við þurfum að vera óhrædd við að hugsa málin eftir nýjum leiðum, en ekki binda okkur á klafa viðtekinna venja um rekstur fjármálastofnana. Það hefur reynst okkur dýrt í fortíðinni.

Hvítbókin verður rædd á Alþingi og þar gefst okkur þingmönnum færi á að koma hugmyndum okkar á framfæri. Eignarhald ríkisins skapar ýmis tækifæri, m.a. til að ná fram stærðarhagkvæmni, að fá arð í ríkissjóð og setja fjármálareglunni siðlegar reglur. Í þeirri umræðu eigum við að vera óhrædd við að ræða allar hugmyndir.

 

kvót: Ég hefði kosið opnari og jákvæðari umfjöllun í hvítbókinni um samfélagsbanka, enda tel ég að við þurfum að vera óhrædd við að hugsa málin eftir nýjum leiðum, en ekki binda okkur á klafa viðtekinna venja um rekstur fjármálastofnana. Það hefur reynst okkur dýrt í fortíðinni.

 

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Alþingismaður Vinstri grænna