Einkavæðing höfuðsafns í undirbúningi

Sóley Tómasdóttir

– Náttúrminjasýning á vegum einkaaðila

Í borgarráði á föstudag voru kynntar hugmyndir um að stofna hlutafélag sem kæmi til með að reka náttúruminjasýningu í Perlunni. Nýtt hlutafélag, Perlan hf, yrði í eigu einkaaðila og rekin með arðsemiskröfu. Þetta yrði í fyrsta skipti sem einkaaðilar kæmu að rekstri höfuðsafns á Íslandi, og jafnframt í fyrsta skipti sem arðsemissjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi við rekstur slíks safns.

Hugmyndin vekur eðlilega upp spurningar um hvort einkaaðilar geti rækt þær skyldur sem ríkisvaldinu ber þegar kemur að fræðslu og  aðgengi almennings á þessu sviði, eða hvort markaðslögmálin muni verða almannahagsmunum yfirsterkari. Hugmyndin ber hugmyndafræði hægrisins skýr merki; um að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið, allt eftir því hvernig verkefnið þróast.

Þá vekur það sérstaka athygli að málið hafi verið kynnt í borgarráði án þess að Alþingi hafi haft það til umfjöllunar, sem hlýtur að bera ábyrgð umfram Reykjavíkurborg. Náttúruminjasafn er jú eitt af þremur höfuðsöfnum og ríkinu ber lagaleg skylda til að gera málinu sómasamleg skil.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna bókaði með eftirfarandi hætti:

„Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar mikilvægi þess að náttúrminjasýning í Perlunni verði að veruleika sem fyrst. Náttúruminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum landsmanna og ríkinu ber lagaleg skylda til að gera því góð skil. Ábyrgðar- og aðgerðarleysi núverandi stjórnvalda hefur nú kveikt hugmyndir um rekstur náttúruminjasýningar með aðkomu einkaaðila sem vekur upp spurningar um það hvernig almannahagsmunir og aðgengi almennings verði tryggð. Í raun sætir furðu að einkaaðilar sjái hag í rekstri slíkrar sýningar sem ríkið telur sig ekki hafa efni á að reka og eðlilegt að spyrja hverjir hagsmunirnir séu. Er eðlilegt að reka höfuðsafn með arðsemiskröfu – og ef svo er, getur þá talist eðlilegt að sá arður renni til einkaaðila en ekki samfélagsins? Borgarráðsfulltrú Vinstri grænna er fullur efasemda um þetta fyrirkomulag sem ber keim af hugmyndafræði hægrisins sem í gegnum tíðina hefur tryggt gróða einkaaðila en ábyrgð almennings þegar illa fer.”