Ekkert gengur að friðlýsa svæði í verndarflokki

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, spurði í dag Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfisráðherra, um það hverju sætti að á þeim tveimur árum sem liðin eru frá samþykkt Rammaáætlunar hafi ekkert gengið að ljúka friðlýsingu þeirra svæða sem samþykkt voru í verndarflokk Rammaáætlunar 2013.

Ráðherra svaraði því til að friðlýsingar væru „fullmargar“ og ekki væri nægjanlegt fjármagn til að ljúka friðlýsingum og reka friðlýst svæði. Katrín benti þá á að þetta væri ekki mál ráðherra að ákveða, þingið hefði þegar samþykkt að setja umrædd svæði í verndarflokk og ráðherra bæri að fara að samþykktum þingsins. Ennfremur að lítið þýddi að bera við ónógu fjármagni þar sem það væri einmitt núverandi stjórnarmeirihluti sem hefði staðið fyrir umfangsmiklum niðurskurði í þessum málaflokki árið 2014.

Umræðunni lauk með því að ráðherra „þakkaði fyrir brýninguna“.