Ekki til sóma

Samfélög má vega og meta út frá ýmsu en einn mikilvægasti þátturinn er hvernig búið er að börnum, öldruðum og öryrkjum. Tveir síðastnefndu hóparnir hafa verið talsvert til umræðu síðustu vikur eftir að fjölmargir hópar í samfélaginu fengu kjarabætur. Þessir hópar sitja hins vegar eftir. Ríkisstjórnin hefur afsakað sig með því að benda á að lífeyrisþegar fái talsverða hækkun í prósentum talið í fjárlagafrumvarpinu. En prósenturnar segja ekkert um raunveruleg kjör lífeyrisþega.

Öryrkjabandalag Ísland hélt á dögunum fund um framfærslu öryrkja. Árið 2014 voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega, sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót, um 187.507 krónur á mánuði en 172.000 krónur hjá þeim sem bjó með öðrum, 18 ára eða eldri.

Þegar litið er til tekna eldri borgara kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ernu Indriðadóttur, varaþingmanns, að 70% eldri borgara eru með tekjur undir þrjú hundruð þúsund krónum ef miðað er við samanlagðar tekjur að meðtöldum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þetta sjá allir að eru ekki háar tölur í ljósi þess hvað kostar að lifa á Íslandi. Þannig eru neysluviðmið fyrir fimm manna fjölskyldu eins og ég sjálf tilheyri á reiknivél velferðarráðuneytisins 613.752 krónur á mánuði án þess að húsnæðiskostnaður sé talinn með en óhætt ætti að vera að bæta a.m.k. 150 þúsundum við þessa tölu. Þrjú hundruð þúsund króna lágmarkslaun tveggja fullorðinna duga ekki fyrir þessi neysluviðmið og hvað má þá segja um lífeyrisþega sem eru langt undir þrjú hundruð þúsundum.

Reiknivél velferðarráðuneytisins veitir að sjálfsögðu ekki fullkomnar upplýsingar og þess vegna er áhugavert að kynna sér nýkynnta álitsgerð Öryrkjabandalagsins. Þar er reynt að meta raunverulega framfærsluþörf og miðast hún við árið 2014. Samkvæmt henni þarf barnlaus einstaklingur, sem býr einn í eigin húsnæði, 348.537 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði (482.846 krónur fyrir skatt) til að geta mætt eðlilegum útgjöldum. Þessar tölur sýna svart á hvítu að öryrkjar eiga ekki möguleika á að lifa af tekjum sínum.

Öryrkjabandalagið lét sömuleiðis gera könnun þar sem fólk var spurt hvort það teldi sig geta lifað af framfærslu upp á 172.000 krónur á mánuði. Ríflega 90% svarenda sögðust ekki geta lifað af svo lágri framfærslu. Einnig töldu um 95% að lífeyrisþegar ættu að fá jafnháa eða hærri krónutöluhækkun en lægstu launþegar.

Á sama tíma og stjórnvöld tala um bjartari horfur í efnahagsmálum sjá þau ekki sóma sinn í að tryggja lífeyrisþegum, öryrkjum og eldri borgurum, mannsæmandi framfærslu. Stjórnvöld hafa gengið fram fyrir skjöldu til að létta álögum af ríka fólkinu í landinu, auðlegðarskattur hefur verið afnuminn, veiðigjöld lækkuð, orkuskattur aflagður en á sama tíma hafa álögur aukist á launafólk; matarskattur var hækkaður, kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur aukist og þannig mætti lengi telja. Allt er þetta dæmi um forgangsröðun í þágu hinna efnameiri á meðan viðkvæmustu hóparnir sitja eftir.

Enginn velur sér það hlutskipti að verða öryrki. Og þó að við viljum eflaust flest verða gömul þá höfum við um það lítið val. Hlutskipti þessara hópa um þessar mundir er íslensku samfélagi ekki til sóma. Hins vegar vill mikill meirihluti landsmanna  breyta því til batnaðar. Það ætti að verða stjórnvöldum nægjanleg hvatning.
Katrín Jakobsdóttir