Ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi

Það er eðli­legt að gjalda var­hug við áformum um nýtt einka­sjúkra­hús sem Mos­fells­bær hefur nú úthlutað lóð. Eign­ar­hald félags­ins sem hyggst leggja í þessa fjár­fest­ingu er að hluta til á huldu og óljóst hver er á bak við þessa stóru fjár­fest­ingu upp á fjöru­tíu millj­arða. Eðli­legt væri að gera kröfur um að allt eign­ar­hald væri uppi á borðum þegar um stóra fjár­fest­ingu er að ræða í við­kvæmum geira, sjálfu heil­brigð­is­kerfi þjóð­ar­inn­ar. 

Annað sem vekur athygli er að þeir sem standa á bak við þetta fyr­ir­tæki segj­ast fyrst ætla að reisa sjúkra­húsið en síðan sækja um leyfi til rekstr­ar­ins. Það er sér­kenni­legt þegar um jafn stóra fjár­fest­ingu er að ræða og vekur upp spurn­ingar hvort ætl­unin sé að þrýsta heil­brigð­is­yf­ir­völdum til að veita slíkt leyfi þar sem of miklir fjár­hags­legir hags­munir verði í húfi.

Hið þriðja sem vekur athygli er að hvorki heil­brigð­is­ráð­herra né land­læknir höfðu heyrt af hug­mynd­inni fyrr en lóð­inni var úthlutað og í fram­hald­inu hafa vaknað stórpóli­tískar spurn­ingar um það hvaða áhrif þetta muni hafa á íslenskt heil­brigð­is­kerfi. Ýmsir hafa stigið fram, settur land­lækn­ir, háskóla­menn og vís­inda­menn og bent á að áhrifin verði ótví­ræð, sam­keppni muni verða um íslenskt heil­brigð­is­starfs­fólk sem þegar er skortur á – full­yrð­ingar um að allt heil­brigð­is­starfs­fólk verði flutt inn geta ekki talist trú­verð­ugar –  og hér verði stigin fyrstu skrefin í átt að tvö­földu heil­brigð­is­kerfi þar sem hinir efna­meiri geta borgað sig fram fyrir aðra – því ljóst er að einka­sjúkra­húsið mun aldrei aðeins verða fyrir erlenda efna­menn heldur alla þá sem kjósa að borga fyrir þjón­ustu þess. Um leið muni hið almenna íslenska heil­brigð­is­kerfi verða í veru­legum vand­ræð­um.

Birtist fyrst í Kjarnanum 26. júlí.