Eldhúsdagsræða Svandísar Svavarsdóttur

Forseti – góðir áhorfendur.

Það er ennþá stjórnarkreppa á Íslandi. Hjálparflokkar Sjálfstæðisflokksins eru í kreppu. Kjósendum þeirra og jafnvel þeim sjálfum er ljóst að þeir koma engu í gegn af stefnumálum sínum – engu. Þeir kusu að fara með Sjálfstæðisflokknum í stjórn frekar en að standa að myndun félagshyggjustjórnar sem hefði snúist um jöfnuð og réttlæti. Þeir lofuðu betra heilbrigðiskerfi, betra skólakerfi, að allt yrði betra. Ekkert fúsk, sagði  Björt framtíð.  En stjórnarhættirnir endurspegla allt annað, lítið fer fyrir forystu og samráði, vinnubrögðin eru fálmkennd og ákvarðanir illa rökstuddar. Átakanlegast var það þegar fjármálaráðherrann formaður Viðreisnar mælti fyrir tillögu að fjármálastefnu til nokkurra ára. Þá hlupust þingmenn Sjálfstæðisflokksins einn af öðrum undan merkjum og loks sjálfur forsætisráðherrann formaður Sjálfstæðisflokksins. Fjármálaráðherra sem ekki nýtur stuðnings forsætisráðherra er enginn fjármálaráðherra – hann er eitthvað allt annað og minnir helst á strandaglóp.

Það er því ennþá stjórnarkreppa. Það höfum við fengið staðfest aftur og aftur allt þetta þing sem svo litlu skilar. Hjálparflokkarnir fengu ekkert nema ráðherrastólana. Sjálfstæðisflokkurinn ræður því sem hann vill í þessu gæfulausa föruneyti, hann þurfti engu að fórna í samningum.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur í vetur eins og á síðasta kjörtímabili lagt áherslu á samstöðu og samvinnu allra stjórnarandstöðuflokkanna. Um leið höfum við haldið til haga stefnu flokksins í öllum málaflokkum. Við höfum gert kröfur um brýnar úrbætur í heilbrigðismálum og sýnt fram á hvernig unnt er að fjármagna þær. Við höfum lagt til lengingu fæðingarorlofs og hvernig hægt væri að fjármagna það. Við höfum flett ofan af skipulagðri aðför Sjálfstæðisflokksins að skólum og menningarstarfsemi og bent á leiðir til að hlúa að hvoru tveggja. Háskólana þarf að efla til að atvinnulíf fái blómstrað og við höfum lagt fram tillögur um úrbætur í samgöngumálum til að bregðast við stríðum og ört vaxandi straumi ferðamanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í ríkisstjórn landsins í fimm ár án þess að ná nokkrum tökum á þeim vanda. Sjálfstæðismenn ráða nefnilega ekki við að stýra samfélagi, innviðum og áskorunum í atvinnumálum svo að vel fari. Náttúrupassinn var þeirra uppgjafarfáni og verður viðvarandi áminning um getuleysi þeirra á breytingatímum. Sanngjarnir skattar – lykillinn að siðuðu samfélagi – eru verkefni sem þeir ráða ekki við og geta ekki leyst. Ójöfnuður eykst og brýnustu úrlausnarefni bíða. Við getum talið upp hvern málaflokkinn á fætur öðrum; við getum nefnt þá alla, hvarvetna blasir við kjarkleysið og aðgerðarleysið. Jafnvel í  utanríkismálum eru framlög til þróunaraðstoðar til háborinnar skammar og ríkisstjórninni til háðungar.

Tillögur okkar Vinstri grænna eru skýrar, málefnalegar, ábyrgar og fjármagnaðar. Það er vegna þess að það eru til peningar í þjóðfélaginu – hjá þeim efnuðustu í samfélaginu og við höfum sýnt fram á leiðir til að sækja þá. Vinstri græn eru í sókn vegna þess að okkar sýn er skýr og trúverðug. Við leggjum líka mikla áherslu á öflugt og málefnalegt aðhald í þinginu. Við viljum berjast gegn sveltistefnu, hættulegum einkavæðingartilburðum og auknum ójöfnuði. Við viljum halda því til haga að ríkisstjórnin byggir á minnihluta atkvæða, er veik og hefur ekkert umboð til að standa fyrir grundvallarbreytingum á samfélaginu þvert á vilja almennings í landinu.

Björt framtíð og Viðreisn kusu að afhenda Sjálfstæðisflokknum miklu meira vald en hann á innistæðu fyrir. Eins og nú standa sakir er ljóst að Viðreisn fær engu sinna stefnumála framgengt, hún fær ekkert, ekki breytingar í landbúnaði, ekki sjávarútvegi, ekki í gjaldmiðilsmálum, ekkert. Allt stefnir í söguleg kosningasvik. Björt framtíð flaut svo inn á þing á síðustu stundu á fyrirheitum um annan búvörusamning. En hvað er orðið af því máli? Mér er spurn. Björt framtíð vill líka vel í umhverfismálum og notar eins og unnt er þau stjórntæki í umhverfismálum og náttúruvernd sem urðu til í vinstri stjórninni 2009–2013. Það er gott. En umhverfismálin snúast um meira en orð og stefnu. Áhersla á málaflokkinn ætti að endurspeglast í fjármálaáætlun en gerir það ekki, hvorki að því er varðar umhverfismálin almennt né mál málanna, loftslagsmálin.

Það er stjórnarkreppa. Best væri að kjósa aftur. Og það eru reyndar kosningar eftir eitt ár. Þá er tækifæri til að safna liði um meginmál stjórnmálanna. Undirbúningur kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 er hafinn og þar þurfum við öll sem viljum sjá félagshyggju í verki að leggjast á eitt.  Við þurfum að koma sterk út úr kosningunum að ári um land allt til að tryggja sveitarfélögunum örugga forystu og til losa  þjóðina út úr stjórnarkreppunni sem stendur enn. Stjórnarflokkarnir verða að fá rækilega áminningu í sveitarstjórnarkosningunum, allir með tölu, ef einhver í þeirra röðum sér ekki að sér fyrr. Það þarf ekki nema einn til að velta þessari stjórn.

Góðar stundir!