Eldhúsdagsumræður – Lilja Rafney

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það þing sem nú lýkur störfum hefur einkennst af átökum um hvernig samfélag við viljum að sé á Íslandi. Viljum við í kjölfar kreppu að hér rísi samfélag jöfnuðar eða mun þjóðin verða leidd af hægri öflunum aftur inn í misskiptingu og ójöfnuð sem átti stóran þátt í því að hér féll spilaborgin árið 2008?

Á Íslandi búum við í landi allsnægta en samt eru ýmsar brotalamir og ójöfnuður sem okkur ber að uppræta. Við erum ríkt samfélag með gnótt af auðlindum bæði til lands og sjávar og allar forsendur eru til þess að hér ríki jöfnuður í lífskjörum meðal íbúa landsins og til að sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi hafi jöfn tækifæri á að nýta hæfileika sína sem best í þjóðfélaginu.

Veruleikinn er annar fyrir allt of stóran hóp, því miður. Á Íslandi búa allt of mörg börn við fátækt. Aukin fátækt meðal barna er sár og er þjóðfélagslegt mein. Fátæktin er mun líklegri hjá börnum einstæðra foreldra, atvinnulausra, lágtekjufólks og hjá börnum innflytjenda. Slík þróun getur haft langtímaafleiðingar fyrir börnin. Hætt er við að þau börn sem foreldrar geta ekki veitt eðlileg lífsgæði verði ekki þess umkomin að nýta hæfileika sína sem skyldi í framtíðinni. Við sem samfélag verðum að bæta stöðu þeirra sem minnst mega sín. Fátækt má ekki líðast meðal þjóðar sem er svo rík en misskiptingin endurspeglast í því að 70% eigna þjóðarinnar er í eigu 10% landsmanna.

Sú ríkisstjórn sem lækkar skatta á þá efnamestu og fellur frá þrepaskiptu skattkerfi, lækkar veiðigjöld á útgerðina og hækkar svo matarskattinn á almenning í landinu stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem leggur til að bankabónusar verði aftur teknir upp í fjármálakerfinu, að aukin gjaldtaka verði í heilbrigðiskerfinu, að atvinnuleysisbótatímabilið verði stytt og aðgangur að framhaldsskólakerfinu verði takmarkaður stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að halda áfram að afhenda fáum útvöldum náttúruauðlindir landsins á silfurfati eins og makrílinn stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að hunsa allar leikreglur með skammtímagróða að veganesti og nýta dýrmætar náttúruperlur landsins sem skiptimynt fyrir stóriðjuuppbyggingu stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem notar yfir 80 milljarða í skuldaniðurfærslu þar sem þeir tekjuhæstu fengu 1.5 milljarð í niðurfellingu og 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu lækkun sinna lána — sú aðgerð stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem sker niður fjármuni til velferðarkerfisins, samgöngumála, menntamála og til landshlutaverkefna, eins og sóknaráætlunar, stuðlar ekki að jöfnuði í landinu.

Ójöfnuður er líka milli landshluta hvað varðar aðgang að ýmiss konar þjónustu, menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngum, háhraðatengingu, orkuverði og vöruverði, svo eitthvað sé nefnt. Gert er ráð fyrir því í áætlun að íbúum hér á höfuðborgarsvæðinu fjölgi á næstu 25 árum um 70 þús. manns. Það eru tæp 90% af þeirri mannfjölgun sem Hagstofan spáir fyrir um á landinu öllu næstu 25 árin. Þessar spár ættu að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni, ekki bara okkur landsbyggðarfólki heldur einnig öllum þeim sem vilja sjá byggðina í kringum landið hafa möguleika á því að vaxa og dafna.

Það getur ekki verið góð þróun fyrir litla og fámenna þjóð að hér þróist borgríki með tilheyrandi kostnaði fyrir höfuðborgarsvæðið. Stjórnvöld verða að bregðast við með öllum ráðum svo við stöndum ekki frammi fyrir hnignun byggðanna vítt og breitt um landið bæði til sjávar og sveita. Landsbyggðin hefur ýmis tækifæri, bæði varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu og nýsköpun er víða í gangi, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði og ýmiss konar frumkvöðlastarfsemi er víða um land sem styðja á við. En það er ekki hægt að afgreiða fækkun fólks á landsbyggðinni með því að segja að hún sé eitthvert náttúrulögmál. Fullt af ungu og menntuðu fólki vill setjast að utan höfuðborgarsvæðisins og það fólk sem býr utan þess vill vera þar áfram ef þjónustustig er álíka og á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að ríkisvaldið hafi verið sofandi gagnvart íbúaþróun á landsbyggðinni á síðustu áratugum og hafi sífellt komið með einhverjar smáskammtalækningar þegar áföllin hafa dunið yfir. Stór hluti af vanda veikra byggða á landsbyggðinni er tilkominn vegna ákvarðana stjórnvalda, eins og hið alræmda kvótakerfi sem hefur hyglað þeim stóru og sterku.

Ég hóf ræðu mína á að ræða ójöfnuð og hann er víða að finna bæði á meðal fólks og á milli landsvæða. Rannsóknir virtra fræðimanna hafa sýnt fram á að ójöfnuður innan samfélaga leiðir til hnignandi hagvaxtar og hnignandi efnahagslífs. Vinstri græn eru flokkur sem vill auka jöfnuð í samfélaginu, láta náttúruna njóta vafans, efla velferðarkerfið og byggja upp innviði landsins. Við höfum sýnt það með störfum okkar í vetur að við látum ekki ólýðræðisleg vinnubrögð yfir okkur ganga og munum ekki átakalaust láta þessa ríkisstjórn vinna skemmdarverk á velferðarkerfinu eða öðrum þeim stoðum sem jöfnuður mun byggjast á. — Góðar stundir.