Engar auknar áherslur á EES-samninginn

Enn vottar ekki fyrir þeirri auknu áherslu sem ríkisstjórnin sagðist ætla að leggja á EES-samninginn þegar hún samþykkti Evrópustefnu sína fyrir einu og hálfu ári. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna.

Andrés Ingi spurði ráðherra um þrjú skýr og mælanleg markmið í Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Svarið sýnir að:

– Skýrsla um hagsmuni Íslands af EES-samningnum verður í fyrsta lagi birt ári of seint, en hana átti að birta haustið 2014,

– Innleiðingarhalli er tvöfalt meiri en stefnt var að, eða um 2% þegar hann átti að vera kominn undir 1%, og

– Fimm mál eru til meðferðar við EFTA-dómstólinn, en áttu engin að vera.

Þótt ríkisstjórnin hafi boðað aukna áherslu á EES-samninginn þegar hún hætti aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þá er ekki svo að sjá á svari utanríkisráðherra. Efndirnar láta verulega á sér standa og ríkisstjórnin er langt á eftir eigin áætlun með þau fáu mælanlegu markmið sem hún setti sér.

Sjá svar utanríkisráðherra á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/144/s/1644.html