Engar lausnir í læknadeilunni

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, beindi fyrirspurn til fjármálaráðherra um kjaradeilu lækna á Alþingi í dag.

Katrín gerði að umtalsefni orð fjármálaráðherra um að lausn deilunnar mætti ekki valda óstöðugleika annars staðar. „En hvar er óstöðugleikinn í dag? Jú, við erum að horfa upp á gríðarlegan óstöðugleika í heilbrigðisþjónustunni. Við erum að horfa upp á það að 500 aðgerðir á biðlistum hafa verið felldar niður, það er búið að fresta ótal rannsóknir, yfir 2000 dag- og göngudeildarkomum á Landspítalanum hefur verið frestað.“ Katrín spurði svo ráðherra um mat hans á deilunni og hvort ásættanlegt sé að deilan haldi áfram eftir áramót.

Í svari sínu sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að úr mjög vöndu væri að ráða og að bætta kjör stétta geti haft keðjuverkandi áhrif á aðrar stéttir. Katrín svaraði því til að stöðugleiki sé ekki einungis mældur í efnahagslegum stærðum. „Það er gríðarlegur óstöðugleiki í því að heilbrigðiskerfið riði hér hreinlega til falls,“ sagði Katrín.

Bjarni Benediktsson kom ekki með tillögur að lausn á kjaradeilu lækna en gagnrýndi í staðinn fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa komið á þrepaskipt skattkerfi. Virtist ráðherra telja það geta leyst kjaradeiluna að einhverju marki að afnema hæsta skattþrepið í ljósi þess að sumir læknar greiða slíkan skatt af hluta tekna sinna. Þingheimur varð mjög undrandi á þessum málflutningi ráðherrans og þurfti forseti að hringja bjöllu sinni í framhaldinu, enda ljóst að skatttekjur af þrepaskiptu skattkerfi fjármagnar heilbrigðiskerfið, og þar með laun lækna, að miklu leyti.