Engu svarað um skuldaniðurfærslu

Í dag birtist viðbrögð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við ítarlegum fyrirspurnum þingmanna Vinstri grænna um niðurfærslu veðtryggðra húsnæðislána (sjá einnig hér og hér). Fjármálaráðherra svaraði fyrirspurnunum ekki efnislega heldur tók einungis fram að von væri á skýrslu ráðherra um málið „á vorþingi“.
 
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gerði þetta að umtalsefni í upphafi þingfundar í dag. Benti Katrín meðal annars á að ýmsir útreikningar á áhrifum skuldaniðurfærslunnar hafi verið sýndir í glærusýningu ríkisstjórnarinnar í nóvember og því ættu þau gögn sem þarf til að svara fyrirspurnunum að liggja fyrir nú þegar að minnsta kosti að hluta. „Þetta, virðulegi forseti, eru ekki boðleg vinnubrögð og þetta gerir okkur háttvirtum þingmönnum ómögulegt að sinna okkar eftirlitshlutverki,“ sagði Katrín.