Fákeppnin og skömmin

Hvar erum við stödd nú sjö/átta árum eftir hrun? Rifjum upp stemmninguna 2007 þegar peningar flæddu um samfélagið, peningar sem enginn átti en allir fengu að láni, gullið á borðum sumra, misréttið vaxandi. Arður greiddur ríkum. Bónusar stærri en mánaðarlaun verkafólks, stærri en árslaun sjúkraliða eða bensínafgreiðslumanns.

Aðdragandinn að hruninu var klæðskerasniðinn að hætti nýfrjálshyggjunnar. Hömlur skyldu minnkaðar, dregið úr eftirliti, fjármagnið skyldi frjálst, óháð, flæðandi. Markaðurinn allra meina bót. Samkeppni var lausnarorðið. Nýfrjálshyggjutilraunin í hámæli. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði, leysti einkaframtakið úr læðingi, allir glaðir, bankarnir stækkuðu og bólan þandist út.

Og svo hrundi allt. Fjármálakerfið, stjórnmálakerfið, traustið.

Árið er 2016 – hrunið að baki og sömu stjórnvöld við völd og í aðdragandanum. Sama stefið, sama trú, sama áráttukennda fullvissan um markaðinn og einkaframtakið fikrar sig inn í almannaþjónustuna, samfélagsstofnanir hæddar og innviðir vanræktir.

Staðan einkennist af einokunarkapítalisma. Fáir stórir aðilar sitja að því að bjóða þjónustu sem enginn getur vikið sér undan að kaupa. Samkeppnin er orðin tóm og í rauninni fákeppni – tryggingafélögin hafa óheftan aðgang í raun að almenningi. Sjóvá fékk stuðning frá þessum sama almenningi eftir hrun, úr ríkissjóði til að halda sjó og geta greitt út tryggingar. Hvert fara svo þessir peningar? Þessar fjárhæðir? Til eigenda. Í formi arðs.

Fjármálaráðherra sagði hér í gær að skömmin væri þeirra sem taka arðinn út úr fyrirtækjunum. Þar talaði fjármálaráðherra um málið úr samhengi. Skömmin er nýfrjálshyggjunnar. Skömmin er Sjálfstæðisflokksins. Skömmin er þeirra sem styðja þau sjónarmið til valda. Skömmin er þeirra sem hvetja nú til þess með aðgerðum og aðgerðaleysi að Ísland verði aftur tilraunaverkefni nýfrjálshyggjunnar.

Almenningur lætur ekki bjóða sér það. Það höfum við séð áður og það munum við sjá aftur.