Fátt er berdreymi verra

Gekk að heiman í bæinn, en eitthvað virðist undarlegt þegar ég nálgast Lækjargötu og hvað er eiginlega um að vera á Lækjartorgi? Kominn stærðar skriðdreki – eða einhver dreki og stendur ekki dómsmálaráðherra Sigríður þar uppá, gríðarlega vel gölluð og sveiflar vopnum, ekkert rosa stórum, sýnist mér, en mjög mörgum – minnir á hringleikahús – enda snýst höfuð drekans hring eftir hring eftir hring.

Fyrir framan drekann standa nokkrir lögreglubílar, sá fremsti  sýnu glæsilegastur og uppá honum stendur sjálfur ríkislögreglustjóri Haraldur, vel borðum búinn og glampar á fíneríið. Í samræmi við upplýsingasíðu lögreglunnar þar sem lesa má: „Ríkislögreglustjórinn er eigandi allra ökutækja lögreglunnar.“

Til hliðar, fyrir framan Stjórnarráðið, stendur forsætisráðherra Bjarni með rosalega tertu fyrir framan sig. Girtur byssubelti sveiflar hann hnífum og æpir: „Stríðsterta dauðans, stríðsterta dauðans – best fyrir börnin“.

Nær mér við Austurstrætið sé ég fjármálaráðherra Benedikt og viðreisnarvini. Þau eru líka með byssubelti og leiðast í einskonar hringdansi – sönglandi: „Göngum við í kringum hryðjuverkaógn, hryðjuverkaógn, göngum við í kringum hryðjuverkaógn snemma á laugardagsmorgni; svona gerum við er við grípum vopna til, grípum vopna til, svona gerum við er við grípum vopna til snemma á laugardagsmorgni“ og um leið rífa þau öll byssur úr beltum og skjóta villt og galið upp í loftið. Þá sé ég að innan hringsins er ekkert – ekki einu sinni einiberjarunni!

Við vopnaskakið kemur órói á mannfjöldann sem hefur safnast saman. Einn tekur sig útúr hópnum, hleypur að bíl lögreglustjóra Haraldar og vippar sér léttilega uppá bílþakið, þaðan beint á drekahöfuðið og kastar sér um háls dómsmálaráðherra Sigríðar. Skyldi hann hafa verið í Vesturporti, hugsa ég, um leið og ráðherrann hristir manninn af sér. Hann snýr sér við, tvístígandi Sé ég þá að þar er kominn heilbrigðisráðherra Óttarr.

Það er að líða yfir mig – og ég dett – en vakna um leið í svitakófi, í rúminu mínu.

Hverslags martröð var þetta eiginlega, upp og út eina leiðin og ég gekk að heiman, í bæinn, hristi hausinn, veit að eitthvert litahlaup eða ganga á að vera þennan morguninn og mér mætir vissulega litadýrð en einnig byssubúnir löggumenn.

Í framhaldinu kváðu dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri nauðsynlegt að láta vopnin verða sýnileg við allar samkundur. Ákvörðunin var greinilega ekki komin 1. maí, þá hefðu auglýsingar hljómað: „Launafólk, mætum öll í vopnum varða kröfugöngu, krafan er: aukum sýnileika lögguvopna – ASÍ og dómsmálaráðherra.“

Mánudaginn 12. júní fundaði svonefnt Þjóðaröryggisráð Íslands, fundarstaður nýuppgert hernaðarbyrgi bandaríska Natóhersins á Íslandi.

Í dag, þriðjudaginn 13. júní, lýsti ríkislögreglustjóri Haraldur því yfir að sérsveitarmenn yrðu á vopnavappi á 17. júní sem og á tónlistarhátíðinni Secret Solistice Festival.

Ég minnist orða ömmu minnar: Fátt er berdreymi verra.

Dómsmálaráðherra Sigríði, ríkislögreglustjóra Haraldi og öðrum ráðamönnum ríkisstjórnar, sem virðist óttast þegna landsins öðrum fremur, bendi ég á að flytja í nýuppgerða vopnabyrgið á Vellinum – vera þar og láta okkur hin í friði.

Pistillinn birtist fyrst í Stundinni. 

Birna Þórðardóttir, ferðaskipuleggjandi