Ferðafélag Vinstri grænna stefnir í skemmti- og menningarferð austur fyrir fjall laugardaginn 4. júní. Lagt verður af stað á rútu frá Hallveigarstöðum klukkan 10 árdegis.  Með í för verður Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, sem fræðir um jarðvarma og virkjanir á leiðinni yfir Hellisheiði.

Fyrsti áfangastaður er Skáldagatan í Hveragerði, þar sem rithöfundar og sögumenn staðarins, Svanur Jóhannesson og Guðrún Eva Mínervudóttir, fylgja gestum á vit ævintýra.

Að lokinni heimsókn í Hveragerði verður ekið að Sólheimum í Grímsnesi og dvalið við leik og handverk, fram undir miðdegismat, sem verður klukkan hálfþrjú að Friðheimum í Reykholti.

Lokapunkturinn er heimsókn til Gísla B. Björnssonar og Lenu Rist að Hnausi í Flóa. Þar verða í boði léttar veitingar, söngur og dans, fram undir kvöld, en áætluð heimkoma til Reykjavíkur er klukkan 19.00.

Og öll þessi skemmtun kostar aðeins 5.000 krónur á hvern fullorðinn og börn ferðast á hálfvirði.  Miðdegisverður í Friðheimum er innifalinn.

Hið glænýja félag Vinstri Græn í Árnessýslu,  stefnir að þátttöku í ferðinni um Suðurland, ýmist að hluta eða í heild.  Fararstjóri í þessari fyrstu Ferðafjörsferð verður Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna.

Skráðu þig í ferðina