Fiskeldi, heilbrigði og ný stjórn á Akureyri.

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Vinstri grænna á Akureyri síðasta vetrardag. En á fundinum var fleira gert, því samþykktar voru ályktanir um mikilvæg pólitísk mál, annarsvegar um heilbrigðismál, sjúkrahúsþjónustu fyri rnorðan og hinsvegar um fiskeldi. Ályktanirnar fylgja hér með. Nýju stjórnina má finna undir svæðisfélögum, en formaður er Ólafur Kjartansson.

 

Ályktun um heilbrigðismál

Aðalfundur Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni haldinn 19. apríl 2017 hvetur Heilbrigðisstofnun Norðurlands (að gefnu tilefni) til að standa vörð um og efla allt heilsuverndarstarf við íbúa Norðurlands, einkum foreldravernd, ungbarnavernd, geðvernd, tannvernd og almenna heilsuvernd unglinga og aldraðra.

Fundurinn ályktar einnig að auka þurfi sem fyrst húsakost og sérhæfðan mannafla Sjúkrahússins á Akureyri samhliða uppbyggingu og eflingu Landspítalans í Reykjavík til að gæði sjúkrahúsþjónustu  haldist í hendur norðan lands og sunnan og verði í samræmi við nútíma kröfur til þjónustu sjúkrahúsa á öðrum Norðurlöndum. Aðalfundurinn skorar því á íslensk stjórnvöld að hefja nú þegar undirbúning að nýbyggingu fyrir lyflækningadeild, skurðlækningadeild og geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri samkvæmt frumáætlun Velferðarráðuneytis frá því í september 2015, í stað þess að þessu verki verði frestað til ársins 2020 eins og ráðgert er í nýrri fimm ára fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar.

 

Ályktun um sjókvíaeldi

Aðalfundur Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni haldinn 19. apríl 2017 mótmælir fiskeldi í opnum kvíum á sjó við landið. Fundurinn minnir að hér gildir sk. varúðarregla er kemur að umhverfismálum og þá staðreynd að þekking okkar á vistkerfi hafsins er mjög takmörkuð. Fundurinn hafnar framkomnum hugmyndum um fiskeldi í sjó í Eyjafirði og bendir á að Norðurland, allt frá Horni austur að Vopnafirði, er lokað fyrir fiskeldi í sjó. Það hlýtur að teljast furðulegt í meira lagi að þar sé Eyjafjörður undanskilin.