Fjölbreytt útgerðarform er framtíðin

Fjölbreytt útgerðarform er framtíðin.

Á undanförnum áratugum hafa miklar breytingar orðið í sjávarútvegi bæði til góðs og einnig til hins verra.

Sú mikla hagræðing sem greinin hefur gengið í gegnum hefur ekki verið sársaukalaus fyrir sjávarbyggðirnar.  Tæknilegar framfarir , nýsköpun í greininn og öflug markaðssetning á afurðum erlendis hefur drifið greinina áfram og gert íslenskar sjávarafurðir eftirsóttar í helstu viðskiptalöndum okkar og enn eru að opnast nýir markaðir. Ekki má gleyma öllu því starfsfólki sem vinnur við sjávarútveg til lands og sjós því án þeirra væri framlegðin ekki eins góð og hún er í dag en því miður eru laun í landvinnslu alltof lág og ekki í takt við afkomuna.

Ríkisstjórninni tókst ekki að leggja fram á liðnu þingi frumvarp til laga um stjórn fiskveiða eins og til stóð en gerði enn eina breytinguna á lögum um veiðigjöld sem lækka enn frekar veiðigjöldin frá því sem áformað var með setningu laga um veiðigjöld árið 2012.

Rökin fyrir lækkun veiðigjalda hafa aðallega verið sú að koma til móts við minni og meðalstórar útgerðir í landinu, engu að síður er lækkunin flöt og ekki hefur verið komið til móts við tillögur minnihlutans um að koma sérstaklega til móts við minni útgerðir heldur var dregið úr stuðningi við þær með lækkuðu frítekjumarki nú í vor.

Þessar ákvarðanir allar byggja á afar veikum efnisforsendum og eru ekki studdar trúverðugum talnalegum gögnum.

Jákvætt er að brjóta álagningu veiðigjalda betur niður á einstakar fisktegundir enda var alltaf að því stefnt frá því að ný lög um veiðigjöld voru sett að kerfið yrði þróað áfram.

Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins nemur lækkun ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum  nú samtals 20 milljörðum árin 2013/2014/2015 að meðtaldri  þeirri lækkun sem samþykkt var til  viðbótar nú í þinglok.

Þó afkoman sé eitthvað slakari nú í sjávarútvegi en þegar metafkoma var í greininni árið 2012 þá réttlætir það ekki þessa gífurlegu lækkun veiðigjalda flatt yfir án neinnar greiningar á afkomu mismunandi útgerðarflokka né endanlegrar greiningar á framlegð eftir fisktegundum.

Þær góðu fréttir berast frá sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Brussel á dögunum að afurðarverð á þorski fari hækkandi vegna aukinnar eftirspurnar ekki er því tilefni til að lækka veiðigjöld handahófskennt þó afurðarverð sveiflist eitthvað til innan ársins.

Stjórnarandstaðan náði fram þeim breytingum að um bráðabrigða ráðstöfun er um að ræða fyrir næsta fiskveiðiár.

Mikil vinna er því framundan á Alþingi í glímunni við eina ferðina enn að reyna að ná sátt um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi og að uppfæra lögin um veiðigjöld sem ráðast af hugmyndafræðinni um auðlindarentu til þjóðarinnar sem taki mið af afkomu greinarinnar , mismunandi útgerðarflokkum og framlegð eftir fisktegundum.

Það ætti að vera orðið öllum ljóst að breytingar þarf að gera á stjórn fiskveiða ef sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið eiga ekki að hrynja eins og spilaborgir þegar viðskiptalegar ákvarðanir eru teknar af handhöfum aflaheimilda eins og Útgerðarfélagið Vísir er nærtækasta dæmið um.

Það veit enginn eins og kerfið er byggt upp í dag hver verður næsta fórnarlamb óhefts framsals og hagræðingar og það er ekki mönnum bjóðandi á 21 öldinni að íbúar sjávarbyggðanna búi við stöðuga óvissu um atvinnuöryggi sitt og séu síðan reknir eins og rollur í réttum á milli verstöðva atvinnurekenda sinna. Allt samfélagið verður í uppnámi og veikist , þetta er ekki eitthvað náttúrulögmál heldur mannana verk sem hægt er að hafa áhrif á með réttlátari lögum um stjórn fiskveiða.

Núverandi löggjöf tekur ekkert tillit til réttar íbúa sjávarbyggðanna til afnota af fiskimiðunum og er fyrst og fremst markaðsdrifin á „eignarréttarlegum „forsendum handhafa hverju sinni.

Þessu þarf að breyta ef ekki á illa að fara fyrir fjölda byggða með til heyrandi hörmungum.

Það hefur sýnt sig að til lengri tíma litið er ekki farsælt að hafa eggin öll í sömu körfunni og því er það mikilvægt að fjölbreytt útgerðarmynstur þrífist í landinu . Markaðsstarf erlendis hefur sýnt fram á mikla eftirspurn eftir ferskum fiskafurðum sem eru umhverfisvottaðir og rekjanlegir og þeirri eftirspurn á minni bátaflotinn auðveldara með að mæta. Allt er breytingum háð og nú hefur þróunin verið úr frystitogurum í ísfisktogara og línuútgerðir svo greinin þarf vissulega að hafa þennan sveigjanleika í sér eftir því sem eftirspurn á markaði erlendis kallar á hverju sinni.

Það má samt aldrei gleymast að það er fólk á bak við fyrirtækin sem á sinn rétt og taka þarf  tillit til þess þegar breytingar verða í starfsumhverfi og á mörkuðum erlendis.

Íslenskur sjávarútvegur á framtíðina fyrir sér ef sjálfbærni er höfð að leiðarljósi og saman fer skynsemi og áræðni ,samfélagsleg ábyrgð ,réttlát auðlindarenta til þjóðarinnar,möguleikar til nýliðunnar og byggðafesta aflaheimilda.

Ég læt fylga með óð til sjávarbyggðanna sem heygja sína lífsbaráttu þessa dagana. Kvæðið er eftir Eðvarð Sturluson fyrrum oddvita Suðureyrarhrepps.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður  Suðureyri.
Varaformaður atvinnuveganefndar.

Ég hugfanginn lít yfir heimabyggð alla
Mig heillar fjallanna tign.
Hjalandi lækir í fjöruna falla
of fjörðurinn speglast lygn.
Sólin í skærasta skini
skartar falleg og heit.
Vekur gróður og vaxandi hlyni
er vermandi þessari sveit.

Um æðarnar finn ég orkuna streyma
og ákveðinn strengi þess heit.
Að berjast af einlægri hugsjón hér heima
til heilla fæðingarsveit.
Hér eru ótalin verk að vinna
ef vaxa á æskunnar byggð.
Huga og kraft má farvegi finna
til fullnustu átthagatryggð.

En hvort sem ég er með eða móti
er margt sem ég ræð ekki við.
Á sjávarútveg var settur kvóti
og sóknin bönnuð á mið.
Áður fyrr menn nálægðar nutu
og nægur var fiskur við land.
En stjórnvöld,þorpanna bjargræði brutu
svo byggðirnar hrannast í strand.

Hvað er hugsanlegt helst til ráða
að heimta er kannse létt.
Í landinu forðum var byggð fyrir báða
burgeisa og alþýðustétt.
Því uxu þorpin að sjór var sóttur
og sjálfsagt að allir hefðu þann rétt.
Nú er lamandi þrek og þróttur
en þrifleg sægreifa stétt.

Stríðið er hafið og verkin skal vinna
til verndar búsetu hér.
Togarar ættu að fá miklu minna
og meti það hver sem er.
Smábátar sækja björg í búið
og bæta almennan hag.
Ef til vill sýnist það öfugsnúið
en Ísland er svona í dag.

Ranglætið víki og kvótinn hverfi
þann kaleik ég vil ekki sjá.
Og síðari kynslóðir aldrei erfi
eitthvað sem má ekki fá.
Að uppræta meinið er öllum til bóta
og endurvakin skal fyrri dyggð.
Þá munum við fagnandi friðarins njóta
frjálsir í heimabyggð.
E.S.