Fjölgun borgarfulltrúa er aðkallandi lýðræðismál

 

Árið 1908 kusu íbúar þess sem þá hét Reykjavíkurbær sér 15 fulltrúa í bæjarstjórn. Reykvíkingar voru þá  11.016. F-listi Kvennalistans vann yfirburðasigur, fékk 345 atkvæði, heil 21,3% og 4 bæjarfulltrúa. Nú 110 árum síðar heitir Reykjavíkurbær Reykjavíkurborg og íbúarnir eru 123.246. En þó við bæjarbúar séum nú meira en tífalt fleiri, höfum við borgararnir enn bara 15 fulltrúa í stjórn bæjarins.

Eins og gefur að skilja hafa stærðargráður verkefnanna og fjöldi þeirra aukist samfara vexti bæjarins. Sveitarfélögin hafa tekið við sífellt fleiri skyldum á síðustu öld, eins og rekstri grunn- og leikskóla og stóraukinni félagsþjónustu sem auðgar og bætir líf borgaranna.

Í takt við gildandi sveitastjórnarlög stendur því nú til að fjölga fulltrúunum um 8. Úr 15 í 23.

Innihaldsrýr gagnrýni á fjölgun

Sjálfstæðismenn hafa staðið gegn þessari fjölgun bæði á Alþingi og nú síðast í borgastjórn. Kjarninn í gagnrýni Sjálfstæðismanna hefur verið að sú að breytingin sé dýr.

Þessari fjölgun fylgir hins vegar sáralítill kostnaðarauki. Fundir í nefndum og ráðum borgarinnar, þar sem teknar eru ákvarðanir um öll þau mál sem varða okkar íbúana eru einfaldlega fleiri en svo að borgarfulltrúarnir 15 geti sótt þá alla. Til að bregðast við þessum aukna fjölda verkefna hefur hægt og bítandi orðið breyting á nefndarmannafyrirkomulaginu þar sem í auknum mæli þarf að leita út fyrir raðir réttkjörinna fulltrúa, ýmist til varaborgarfulltrúa eða jafnvel neðar á framboðlistum flokkanna. Í þessu felst að íbúar kjósa sér vissulega sína 15 fulltrúa í borgarstjórn, en til þess að sinna öllum þeim pólítísku skyldum sem sinna þarf eru borgarfulltrúar oft tilneyddir til þess að tilnefna fulltrúa sem eru ekki til þess kosnir af borgurum í mikilvægar nefndir og ráð borgarinnar. Fyrir þessi störf er nú þegar greitt.

Kostnaðaraukinn er því lítill sem enginn. Með fjölgun borgarfulltrúa verða einfaldlega fleiri af þessum fulltrúum með umboð kjósenda sem kjörnir fulltrúar, frekar en pólítískt skipaðir fulltrúar án réttnefnds lýðræðislegs umboðs.

Atkvæði á öskuhaugunum

En lýðræðisrökin með fjölguninni eru fleiri. Með því að fjölga borgarfulltrúum lækkar lágmarkið sem framboð þarf til að fá kjörinn fulltrúa. Nú þarf framboð um 6,7% atkvæða til að fá fulltrúa í borgarstjórn. Með því að fjölga borgarfulltrúum lækkar þetta hlutfall niður í 4.3%. Með því að hafa þröskuldinn háan ýtum við undir kerfi fárra og stórra flokka, en slíkt er úr takti við það pólítíska landslag sem fyrir löngu hefur myndast hér á landi.

Ef niðurstaðan úr borgarstjórnarkosningunum í vor myndi svipa til Alþingiskosninganna 2016 eða 2017 er auðvelt að sjá út dæmi þar sem svo hár þröskuldur myndi hafa hrapalegar afleiðingar. Fjöldi smárra flokka hafa verið að fá kosningu í grennd við þessar tölur, þar á meðal Samfylkingin, Viðreisn og Björt Framtíð. Auðvelt er að sjá fyrir sér dæmi þar sem 10%, 15% eða jafnvel 20% atkvæða borgarbúa falla dauð niður vegna þess hve þröskuldurinn er hár. Slíkt yrði til þess að borgarstjórn myndi bæði hafa mikið verra umboð frá kjósendum og grafa undan trausti almennings á lýðræðislegum kosningum. En þar að auki þvingar þessi hái þröskuldur fólk til þess að kjósa stærri flokkana af ótta við að atkvæði þeirra falli niður dauð – og þetta þekkja kjósendur vel – því hver vill sjá atkvæðinu sínu kastað á öskuhaugana?

Betra og sterkara lýðræði

Fjölgun borgarfulltrúar er því bæði nauðsynleg til þess að endurspegla þann raunveruleika sem við okkur blasir nú þegar í borgarkerfinu, með því að gefa okkur möguleika á að skipa á heiðarlegan og lýðræðislegan hátt í ráð og nefndir borgarinnar. En hún er ekki síður nauðsynleg til þess að gefa okkur réttari mynd af vilja kjósenda og styðja við betra og sterkara lýðræði, þar sem borgurunum gefst frekari kostur á að kjósa í raun það sem þeir vilja.

Höfundur situr fyrir hönd Vinstri grænna í stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og býður sig fram í 2.-4. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem fer fram þann 24. febrúar.

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson