Flokksráð í Borgarfirði

Hátt í hundrað VG félagar sóttu flokksráðsfund í Borgarfirði um nýliðna helgi, þar sem kynnt var vinna þrettán málefnahópa sem vinna að stefnumótun fyrir landsfund VG í haust, sem fer fram á Grand Hótel í Reykjavík 6. – 8. október. Svandís Svavarsdóttir var kosin fundarstjóri flokksráðsfundar í fjarveru Björns Vals Gíslasonar varaformanns og formanns flokksráðs. Auk stefnumótunar voru sveitarstjórnarmál og kosningabaráttan framundan rædd sérstaklega. Málshefjandi þeirrar umræðu var Óli Halldórsson, oddviti VG í Norðurþingi, þar sem VG stendur sterkt með tvo sveitarstjórnarfulltrúa. Fundargerð flokksráðsfundar má finna hér.

Björn Valur Gíslason, varaformaður flokksins tilkynnti rétt fyrir fundinn að hann ætlaði að hætta í pólitík og myndi ekki bjóða sig fram til varaformanns á landsfundinum í október.

Edward H. Huijbens frá Akureyri, stjórnarmaður í VG, varabæjarfulltrúi og fyrrum varaþingmaður, upplýsti í almennum stjórnmálaumræðum að hann hygðist bjóða sig fram í embættið.

Tveggja daga sumarferð í Borgarfirði, tók við að loknum flokksráðsfundi og tóku alls um 40 manns þátt í henni, sumir báða dagana en aðrir völdu sér annanhvorn daginn. Bjarki Þór Grönfelt og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir skipulögðu sumarferðina. Gróðrastöðin Sólbyrgi var heimsótt, en hún er þekkt fyrir jarðarberjaræktun, en félgar fengu líka kynningu á ilmkjarnaolíuframleiðslu Hraundísar Guðmundsdóttur á Rauðsgili í Borgarfirði í garðveislu í nýuppgerðum læknisbústað Þóru Geirlaugar á Kleppjárnsreykjum.  Þá var haldið aftur upp í Logaland í kvöldverð,  og á eftir hélt Bjartmar Hannesson uppi stuðinu með velvöldum baráttusöngvum sósíalista. Seinni daginn var Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum í Hvítársíðu fararstjóri um Borgarfjörð. Farið var til Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur í Geitfjársetrið á Háafelli og í Fljótstungurétt í veðurblíðu og góðu skyggni.  VG þakkar Borgfirðingum gestrisni og góðar móttökur.