Flokksráðsfundi lokið

Flokksráðsfundi Vinstri grænna lauk síðdegis í dag, en hann var haldinn á Iðnó í Reykjavík. Á fundinn mættu um hundrað flokksráðsfulltrúar, þar á meðal þingmenn, sveitarstjórnarfulltrúar, formenn svæðisfélaga og fulltrúar kjörnir á landsfundi. Tilgangurinn með fundinum var ekki síst að vinna að endurnýjun á stefnu Vinstri grænna sem lögð verður fram á landsfundi næsta haust.

Sex ályktanir voru samþykktar á fundinum. Í ályktuninni Styðjum baráttu launafólks segir m.a.: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs styður framkomnar launakröfur verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst réttlátar kröfur um hækkun lægstu taxta, og leggur áherslu á að í góðu samfélagi verður fólk að geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Nýjar kannanir ASÍ hafa sýnt að lægstu laun á Íslandi eru um 30% lægri en laun í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Lágmarkslaun dagvinnu á Íslandi duga einfaldlega ekki fyrir brýnustu þörfum.“

Einnig var samþykkt ályktun um einkavæðingu opinberra háskóla: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varar við stefnu menntamálaráðherra um að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) og Háskólans á Hólum og sameina þessa skóla Háskólanum á Bifröst undir hatti einnar sjálfseignarstofnunar. Ekki hafa verið færð nein fagleg rök fyrir þessari sameiningu og í raun virðist hún fyrst og fremst eiga að fækka opinberum stofnunum og einkavæða tvo opinbera háskóla. Landbúnaðarháskóli Íslands er ein af grunnstoðum landbúnaðar í landinu auk þess að hafa á undanförnum áratugum skapað sér sérstöðu með kennslu í umhverfis- og náttúrufræði. Mikilvægt er að stjórn hans og umsýsla sé í höndum ríkisins en ekki einkaaðila. Sömu rök eiga við um Hólaskóla, eina elstu menntastofnun landsins.”

Allar ályktanir má lesa og sækja hér.