Skráning á flokksráðsfund

Boðað er til flokksráðsfundar 19. ágúst næstkomandi. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn í Logalandi í Reykholtsdal í Borgarfirði, og áætlað er að hann hefjist klukkan 10.00 á laugardegi og ljúki fyrir klukkan 17.00. Eftir fundinn verður farið rakleiðis í sumarferð. Rútuferð verður úr Reykjavík um morguninn og rútan kemur aftur í bæinn að lokinni sumarferð. Svo upplagt er að skilja bílinn eftir og njóta félagsskapar alla leið.

Meginmál fundarins verður staða Vinstri grænna í aðdraganda sveitarstjórnar- kosninga, sem eru á næsta ári, landsfundur og verkefnin framundan á vettvangi hreyfingarinnar.

Fundargögn verða almennt ekki prentuð fyrirfram en hægt verður að nálgast öll gögn á heimasíðu flokksins, vg.is.

 Nauðsynlegt er að skrá þátttöku  fyrir 1. ágúst /og fyrir hótelgistingu í sumarferð í 7. júlí.  Skráningarform eru á heimasíðu hreyfingarinnar, vg.is.

Hádegismatur verður í boði í Laugalandi og kostar 2.500 krónur á mann, sé greitt fyrirfram í heimabanka, en 2.700 ef greitt er með korti á staðnum.

Ýmis VG-varningur, merki, bækur, bollar, bolir verða til sölu á fundinum og hægt að borga með greiðslukorti eða reiðufé.

Ef flokksráðsfulltrúi kemst ekki á fundinn er nauðsynlegt að boða varamann skv. 29. gr. laga VG þar sem segir „í forföllum taka varamenn í viðkomandi trúnaðarstörfum sæti.“

  Bestu kveðjur, Björn Valur Gíslason.

Dagskrá

09.30      Morgunkaffi og spjall.

10.00      Fundur settur.

10.20      Katrín Jakobsdóttir, formaður VG flytur ræðu

11.00      Ályktanir frá síðasta landsfundi og afdrif þeirra (Elín Oddný     Sigurðardóttir, ritari stjórnar).

11:15      Gestur fundarins, Óli Halldórsson, oddviti VG í Norðurþingi, ræðir aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

12.00 – 13.00  Hádegismatur

13.00 – 15.00    Hópstjórar málefnahópa kynna stöðuna á stefnumótunarvinnu fyrir landsfund.  Umræður og fyrirspurnir til hópstjóra um hópastarfið.

15:00      Almennar stjórnmálaumræður

16.00      Fundi slitið.

17.00   SUMARFERÐ UM BORGARFJÖRÐ gist á tjaldsvæðinu í Logalandi og Hótel Reykholti.

Drög að dagskrá sumarferðar VG 2017

Laugardagurinn 19. ágúst

Sumarferð VG verður farin í tengslum við flokksráðsfund, í félagsheimilinu Logalandi í Borgarfirði laugardaginn 19. ágúst.  Rúta leggur af stað úr Reykjavík um morguninn.  (staðsetning og tími verður auglýstur í ágúst.)  Að loknum fundi, um 16:00, hefst dagskrá sumarferðar. Gengið verður frá Logalandi yfir í Sólbyrgi (um 1,5 km) þar sem starfsemi garðyrkjustöðvarinnar verður kynnt og boðið upp á glaðning í lok heimsóknar. Þá liggur leiðin í garðinn við Læknisbústaðinn á Kleppjárnsreykjum, þar sem verður tekið á móti okkur með borgfirskum krásum og farið í hópefli við allra hæfi. Kvöldverður og skemmtun verður í Logalandi.  Hin valinkunna Dóra Svavarsdóttur/Culina sér um kvöldmatinn (matseðill verður birtur síðar). Drykki, áfenga og óáfenga verður hægt að kaupa á staðnum. Logaland varð frægt fyrir dansiböll og mikla gleði, í lagi á síðustu öld. Sumir muna það vel og er stefnt að gleðiríkri kvöldvöku. Hljómsveitin Félagshyggjupopp, sem sló í gegn í kosningabaráttunni í fyrra, mun halda stutta tónleika enda þeirra vinsælustu slagarar ekki fleiri en tveir eða þrír.

Gist verður á tjaldsvæðinu við Logaland og á Hótel Reykholti, sjá verðskrá neðar. Boðið upp á rútuferð í Reykholt um kvöldið.

Sunnudagur 20. ágúst

Sumarferð heldur áfram undir leiðsögn Ingibjargar Daníelsdóttur á Fróðastöðum um kl. 10:00. Meðal annars verður farið í göngu frá Gilsbakka, yfir Hallmundarhraun og endað við Hraunfossa og Geitfjársetur á Háafelli í Hvítársíðu heimsótt. Rútan kemur til Reykjavíkur síðdegis.

Dagskráin er birt með fyrirvara um breytingar. Fylgist með vg.is þegar nær dregur.

Gisting og kostnaður

Skráning fer fram á heimasíðunni vg.is. Ferðin kostar 5.000 kr. á mann, innifalið í verði: rútuferð, rútusnarl og kvöldverður.  Ókeypis fyrir börn 15 ára og yngri.

Gisting á tjaldsvæði: 1.500 kr. á mann

Tveggja manna herbergi á Hótel Reykholti: 32.000 kr.

Eins manns herbergi á Hótel Reykholti: 26.900 kr.

Morgunmatur og internetaðgangur eru innifalin á Hótel Reykholti.

Þau sem ætla sér að gista á Hótel Reykholti eru beðin um að tilkynna þátttöku á vg.is fyrir 7. júlí.